Þegar fréttir tóku að berast af sprengingu í Osló féll grunur strax á Íslamista og Al Kaída. Ódæðið minnti í fyrstu á sendiráðssprengingarnar í Afríku 1998. En þegar við bættist skotárás á unga jafnaðarmenn í Útey beindust spjótin frekar að hægri-öfgamönnum. Nú bendir allt til að einn maður hafi staðið á bak við þessi hroðalegu voðaverk og honum hefur verið líkt við Timothy McVeigh, sprengjuvarginn í Oklahoma. Svo stal hann líka slatta af "stefnuyfirlýsingu" sprengjuvargsins Ted Kaczynskis.
Hvað vitum við um Anders Behring Breivik? RÚV segir að hann lýsi sér sem kristnum hægrimanni. Á fréttavef mbl.is kemur fram að hann hafi lokið frumþjálfun í norska hernum og verið meðlimur í skotklúbbi – jafnramt að hann “hafi verið virkur á umræðum á vefsíðum sem eru gagnrýnar á íslam og hann var mjög gagnrýninn á fjölmenningarsamfélagið”. Hann hafi “snúist til hægri öfga þegar hann nálgaðist þrítugt”. Hann hafi lýst sér sem “íhaldssömum” og “kristnum” og verið frímúrari í Jóhannesar-stúkunni St. Olaus T.D. Tre Soiler.
Ef þarna hefði verið múslimi á ferð hefði því áreiðanlega verið haldið hátt á lofti og settur punktur aftan við. „Skýringin“ á ódæðinu hefði talist fullnægjandi. Um leið hefðu andstæðingar múslíma og fjölmenningar verið snöggir að lýsa yfir nauðsyn þess að varast slíka menn og trú þeirra, standa nú vörð um „siðinn“ í landinu eða „Þjóðkirkjuna“.
Á mbl.is stendur ennfremur: „Fréttavefur Verdens Gang segir að Anders Behring Breivik hafi kallað sig þjóðernisjafnaðarmann, eða nasista.“ En í Verdens Gang segir reyndar aðeins að hann hafi verið þjóðernissinnaður.
Hér á landi voru hægri menn fljótir að sverja af sér nasistann eða þjóðernis sósíalistann og móðgast yfir því að stimpillinn hægri-öfgamaður væri notaður til að „skýra verknaðinn“. Aðrir stukku á að hann er frímúrari og töldu líklegt að á fundum reglunnar hefði hann komist í samband við astralheiminn og það hafi „opnað huga hans fyrir andsetu.“
Andstæðingar múslima sverja manninn líka af sér og segja hann geðveikan. Anders Behring virðist líka vera Zíonisti, sem rímar illa við meintan nasisma.
Verdens Gang segir:
Í einum af athugasemdum sínum segir hann að stjórnmálin snúist ekki lengur um sósíalisma gegn kapítalisma heldur standi baráttan á milli þjóðernishyggju og alþjóðahyggju. Hann lýsir yfir eindregnum stuðningi við þjóðernishyggju.
Í athugasemdum Anders Behrings sjálfs má lesa að hann hafi haft horn í síðu múslíma, marxista og nasista þrátt fyrir að stór hluti þeirra gæti talist „hógvær“ því alltaf leitaði ákveðið hlutfall þeirra í öfgar. Hann taldi rétt að berjast gegn þessu öllu. Í myndbandi hans eru húmanistar líka óvinurinn. Orðrétt segir hann:
Í mínum huga er það hræsni að koma fram við múslima, nasista og Marxista með ólíkum hætti. Þeir aðhyllast allir hugmyndafræði haturs. Ekki eru allir múslímar, nasistar og Marxistar íhaldssamir, flestir eru hógværir. En skiptir það máli? Hógvær nasisti gæti ákveðið að verða íhaldssamur eftir að hafa upplifað svindl. Hógvær múslimi gæti orðið íhaldssamur eftir að vera meinaður aðgangur að klúbbi o.s.frv. Það er augljóst að hógvær áhangandi haturs-hugmyndafræði gæti síðar valið að gerast íhaldssamur.
Íslam(ismi) hefur leitt til dauða 300 milljóna manna
Kommúnismi hefur leitt til dauða 100 milljóna manna
Nasismi hefur leitt til dauða 6-20 milljóna mannaÖll hugmyndafræði haturs ætti að hljóta sömu meðferð.
Hvað má segja um Anders Behring og hugmyndafræði hans, kristni og þjóðernishyggju? Byggist hún á hatri? Var hann hógvær en varð öfgamaður (íhaldssamur, eins og hann virðist orða það)? Biskup Íslands slær a.m.k. á svipaða strengi og Anders Behring og segir vegna þessara atburða:
Hatrið og hefndin má ekki ná undirtökunum, óttinn og varnaleysið má ekki lama hið opna samfélag. #
Er “hatrið” þá meinið eða það að sjá bara hatur í næsta manni? Við munum að biskup sagði Siðmennt “hatrömm samtök” og síðar sek um “hatramman málflutning”, þegar þau mótmæltu trúboði í skólum. Prédikun biskups 24. júlí snerist líka meira og minna um reiði, hatur og vonda menn.
Íslenskur andstæðingur múslíma segir:
Kristinn, hægriöfgasinni, andstæðingur fjölmenningar, kratahatari, bóndi, múslímahatari, og svo framvegis.
Allt þetta munum við heyra um norska fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik, og mun það örugglega verða misnotað á ógeðfelldan hátt. Ég sé fyrir mér hvernig hatursfullir trúleysingjar segja á sinn faríseíska máta: Sjáið, hann er kristinn. Aðrir munu væla: Sjáið, hann er múslímahatari! #
Vert er að minna á að í guðfræði í Háskóla Íslands eru nemendur varaðir sérstaklega við Vantrú og þeim sagt:
Megin vandinn við herskáan málflutning Dawkins og fylgismanna hans gegn þeim trúarbrögðum sem þeir fyrirlíta er að hann er vatn á myllu haturshreyfinga sem grafa undan allsherjarreglu samfélagsins og almennu siðferði með því að...fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga. #
Þurfa landsmenn virkilega að óttast Siðmennt eða Vantrú? Eða þurfa Siðmenntarmenn og Vantrúarmenn að óttast afleiður af málflutningi þeirra sem spyrða félögin sífellt við hatur?
Anders Behring framdi voðaverk sín áreiðanlega ekki vegna þess að hann er kristinn, ekki vegna þess að hann er hægrimaður, ekki vegna þess að hann er þjóðernissinni, nasisti eða Zíonisti, ekki vegna þess að hann er andstæðingur fjölmenningar, ekki vegna þess að hann var í hernum, ekki vegna þess að hann er frímúrari og ekki einu sinni vegna þess að “hann hafði áhuga á veiðum og tölvuleikjum á borð við World of Warcraft og Modern Warfare 2“. Og ég er hreint ekki viss um að kenna megi nokkru hatri um heldur.
Anders Behring framdi voðaverk sín vegna þess að hann var algjörlega sannfærður um ágæti eigin skoðana og að réttlætanlegt væri að drepa aðrar manneskjur til að vinna þeim brautargengi. Hann taldi sig hafa höndlað „Sannleikann“ og sá fyrir sér „hatramma og illa óvini“. Slíkir menn eru hættulegir óháð því hvaða stefnu eða trú þeir aðhyllast.
E.S. Biskup prédikaði ennfremur 24. júlí:
Það hefur reyndar verið áhyggjuefni á Vesturlöndum, hvers kyns daður við fordóma og hatur og dýrkun á ofbeldi. Það er grafalvarlegt. Við berum þar öll ábyrgð. Svo margt í okkar menningu og samskiptum hefur borið vitni um agaleysi, ábyrgðarleysi og virðingarleysi í orðum og athöfn. Virðingarleysið getur af sér kaldhæðni og kaldhæðnin nærir reiði, fyrirlitningu og hatur. Við berum skyldu til að vinna gegn því hugarfari og afstöðu. Við eigum að láta það heyrast hátt og skýrt að kynþáttahatur, tortryggni gagnvart útlendingum, já og fordómar gegn trúarbrögðum verði ekki liðið.
Allir geta skrifað undir að "daður við fordóma og hatur og dýrkun á ofbeldi" er grafalvarlegt. En rifjum upp önnur orð biskups:
Hver er framtíð kristni? Hvað um niðja okkar, börn okkar og afkomendur? Hver verður þeirra trú? Mun Islam leggja álfuna undir sig? Kristni hopar í Evrópu. Fyrir Islam og fyrir guðleysi og tómhyggju. Hvað þarf til að snúa þeirri þróun við? Eða er okkur alveg sama? Ég vona ekki. #
Og þegar Guði er úthýst úr lífi manns og mannhyggjan er sett á stall, þá verða það ekki frelsið og friðurinn og lífið sem við tekur, heldur helsið og hatrið og dauðinn. Það staðfestir öll reynsla.#
Það er sótt að kristninni í vestrænum samfélögum í dag, mjög eindregið. Það er sótt að henni frá herskárri guðsafneitun og andtrú og það er sótt að henni frá Íslam. (Í Kompási í feb. 2007)
Það er ekki svo langt á milli þessara orða biskups og yfirlýsinga Anders Behring Breivik. Okkur ber engin skylda til að bera virðingu fyrir þessari trú þeirra eða skoðun. Það er ekki hættulegt eða rangt að hæðast að þeim og eðlilegt að reiðast þeim. Og í því felst ekkert ábyrgðarleysi, þvert á móti. Harmleikurinn í Noregi ætti einmitt að kenna okkur að gagnrýni á trúarbrögð og stefnur er nauðsyn og það er ómerkilegt og jafnvel hættulegt að úthrópa hana sjálfkrafa sem hatur eða fordóma vondra manna.
Semsagt. Ef lífsskoðun þín tengist trúarbrögðum sem hafa yfir sér stofnanakenndan blæ eða eiga sér sögulegt, sýnilegt samhengi, þá er um hættulegan hlut að ræða. En ef lífsskoðun þín tengist trúarbrögðum sem vilja ekki tengjast nokkurs konar viðurkenndri trú heldur svonefndu trúleysi, hafa ekki stofnanakenndan blæ og sögulegt samhengi þeirra er ekki sýnilegt, þá er ekki um hættulegan hlut að ræða. Skil ég þig rétt?
Hvernig kemstu að þessari niðurstöðu Pétur? Ég næ ekki að skilja pistilinn með þessum hætti.
Pétur, þú skilur mig engan veginn.
Trúleysingi, sem á sér ekkert sögulegt samhengi og tengist engri stofnun, getur verið hættulegur telji hann sig hafa höndlað Sannleikann og að réttlætanlegt sé að myrða mann og annan til að halda aftur af hatursfullum og illum óvinum.
Ég lít ekki á kristna, múslíma eða gyðinga sem illa óvini, uppfulla af hatri og mannvonsku sem beri ekkert annað með sér en helsi, hatur og dauða. Ég gagnrýni samt trúarbrögð þeirra en tel ekkert hatur felast í því eða fordóma.
Biðst forláts á að hafa misskilið þig Reynir. Þykir mjög vænt um að lesa svar þitt og er feginn að hafa spurt.
Ég er þér hjartanlega sammála um að gagnrýnin þarf að vera til staðar og að við megum ekki undanskilja neinn - hvorki einstakling né hóp - frá þeirri gagnrýni sem hafa þarf á hvers kyns orð, orðfæri, hátterni eða annað sem blekkir, brýtur niður eða bælir mannlegt samfélag í heild eða einstaklinga innan þess. Þá er mikilvægt að mínu viti að gagnrýninni sé beint að orðum, athöfnum, hugsunum, framsetningu ... en ekki manneskjunni sem slíkri.
Ekkert að fyrirgefa, Pétur. Fínt að geta eytt misskilningi. Sammála þér.
Mig langar að benda á athyglisverðar greinar um þetta mál. Í fyrsta lagi grein Mark Juergensmeyer og hins vegar tvær greinar sem vitnað er í á Eyjunni. Um höfundana segir:
Báðir komast þeir að þeirri niðurstöðu að [fjöldamorðin] kalli eftir harðri opinberri andstöðu við hatursfullu tali og hatursfullum hugmyndum í opinberri umræðu.
Ég er fylgjandi skoðanafrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi - en andvígur lögum um guðlast og þeirri hugsanavillu að trú manna megi ekki gagnrýna og hæða. Við megum ekki detta í þann forarpytt biskups að stimpla gagnrýni sem hatur eða "fordóma sem verði ekki liðið".
Mér finnst Óli Gneisti orða þessa hluti hreint ágætlega á bloggi sínu.
Samfélagið þarf að komast út úr þessari hættulegu og þreyttu uppstillingu sem stillir andstæðingunum upp sem fulltrúum "hins illa". Ekki viljum við láta það á okkur sannast að vera alveg heilaþvegin af Biblíu og Hollywood, er það nokkuð?
Ég bíð eftir þeirri gagnrýni að það sé sérlega ósmekklegt að "nýta sér" hörmungarnar í Noregi til að koma höggi á biskupinn - eða hneykslun á því hversu ósmekklegir menn séu á hatursvefnum Vantrú að líkja háheilögum biskupnum við fjöldamorðingja. Háls minn er á stokknum.
Kannski hefðu slíkar ákúrur flogið hraðar ef ódæðismaðurinn norski hefði verið trúleysingi - og greinin mætti skiljast sem tilraun til að beina sjónum manna frá trúleysi hans. En mig langar að benda á hliðstæðu og rétta mönnum öxina.
Ég hef aldrei verið lesandi amx.is en skilst að það sé málpípa einarðra hægrimanna (sem ég á litla samleið með). Þar "varð þeim á" að deila á Össur Skarphéðinsson sem "sat nýverið fundi með leiðtogum Hamas og Fatah, hryðjuverkasamtaka sem herja á Ísraelsríki, og lýsti yfir fullum stuðningi við þá fyrir hönd Íslensku þjóðarinnar" eins og segir á amx. En þeir gengu lengra og sögðu:
Smáfuglarnir telja að hér sé á ferð einhver mesta hræsni seinni tíma í íslenskum utanríkismálum. Sendi Össur ekki mynd af sér með Hamas liðum í sama bréfi og samúðarskeytið til Noregs?
Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum, svo um munar, enda mikil geðshræring í gangi. Einn þeirra sagði:
Illvirkjar hafa gjarnan myrt í nafni hugmyndafræði, það er ekkert nýtt, en það breytir nákvæmlega engu fyrir þá sem féllu og fyrir þá sem upplifðu.
Það sem er þó óhuggnanlegast í umræðunni hér eru skrifin á hatursvefnum AMX.
Það eru hægri öfgamenn eins og Hannes Hólmsteinn sem þar nota lyklaborðið til að koma viðurstyggilegu innræti sínu til skila til fólks á bak við byrgða glugga í skjóli nafnleysis. #
Annar komst svo að orði:
Það hefur komið í ljós að hatursumræða getur af sér villimenn. Á netinu hafa haturs vefir sýnt sig í að vera forsmekkur alls ills. Hér á landi er ekki mikið um haturssamtök eða hatursfulla umfjöllun.
Þó er þar á sorgleg undantekning þar sem dularfullur hópur geðstirðra mann heldur úti vefnum amx.is þar sem hatrið flæðir óheft undir nafnleysi. Enda haf hugleysingjar ætíð reynt að fela sig og vega úr launsátri. #
Sá þriðji segir:
Ég held að það sé hægt að finna passlega hugmyndafræði fyrir svona illsku til hægri, til vinstri og út um allt hið pólitíska viðhorf, svo ekki sé minnst á umræðu um trúarbrögð.
Ég sé hana í rasískri umræðu og ég sé hana í trúarlegri umræðu á meðal Íslendinga. Ég sé hana í hatursfullri umræðu á amx og ég sé hana hjá óþverra sem heitir Skúli eitthvað-son og hatast út í alla múslima hvar sem hann kemur því við. #
Mér finnst gagnrýnin sem beinist að amx.is hálfu verri en skrifin sem hneyksluninni valda(viðurkenni þó vanþekkingu mína á almennum skrifum þar). Mér finnst allt í lagi að gagnrýna utanríkisráðherrann og benda á nýlega ferð hans til Palestínu og mér finnst tilefnið líka í lagi. Margir Ísraelsmenn og stuðningsmenn þeirra líta á Hamas og Fatah sem viðurstyggileg hryðjuverkasamtök - áreiðanlega rekin áfram af skefjalausu hatri á lýðræðisríkinu Ísrael. Sjálfur hef ég megnustu andstyggð á stefnu og ódæðisverkum Ísraelsmanna (en hata þá ekki) gegn Palestínumönnum en ég skil reiði þeirra og gremju (sem er ekki hatur) sem þekkja til óhæfuverka Palestínumanna.
En er þetta ekki meinið í hnotskurn? Þessi við-þið hugsunarháttur? Góðu karlarnir gegn þeim illu? Á að gefa svona svart/hvítum hugsunarhætti undir fótinn? Ef við viljum standa vörð um skoðana-, trú- og tjáningarfrelsi þarf það að ná til skoðana og trúarbragða sem við höfum andstyggð á. Gagnrýnum þau hástöfum en forðumst að eigna mönnum illar hvatir og hatur öllum stundum.
Nú hafa "nafnleysingjarnir á amx" beðist afsökunar á orðum sínum. Á ég að gera það líka?
Þegar óhæfuverk, dráp og sprengjur hitta menn heima fyrir er eðlilegt (og ég tel rétt) að minna á að sumstaðar eru þau nær daglegt brauð. Þegar ég heyrði af sprengingunni í Osló minnti ég strax á það þegar Norðmenn (ekki allir) stærðu sig af elju sinni við að varpa sprengjum á Líbíu.
Norðmenn eru nefnilega ekki yfir gagnrýni hafnir, frekar en aðrir. Dauði manns í Libíu er jafngrátlegur og dauði manns í Noregi. Ósmekklegt? Hvenær komumst "við" nær því að upplifa hörmungar ofbeldis og voðaverka á styrjaldarskala en einmitt núna? Er þetta ekki rétti tíminn til að benda á hvurslags ógeð dráp og sprengingar eru (sama hver á í hlut og hvar)? Og er þetta ekki einmitt rétti tíminn til að vara sterklega við svart/hvítri heimsmynd þar sem góðu karlarnir eiga í höggi við illmenni?
Afsakið - þetta á ekki að vera raus um stjórnmál. Ég er ekki skoðanabróðir "Skúla eitthvað-sonar" sem hefur allt á hornum sér þegar kemur að múslimum. Eflaust finnst mörgum Vantrú vera hliðstæða hans þegar kemur að kristni - ég vona þó að svo sé ekki. En ég vil að Skúli (sem kennir sig við hryðjuverk) fái að tjá sig, rétt eins og ég vil að Geert Wilders fái að tjá sig (réttarhöldum yfir honum lauk 23. júní sl. um það álitaefni). Skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi er nú þegar takmarkað víða einmitt til að halda aftur af meintum "hatursáróðri" sem er oftar en ekki aðeins óvinsælar skoðanir.
Gagnrýni á Ísrael er ekki gyðingahatur. Gagnrýni á Össur er ekki vitnisburður um viðurstyggilegt innræti. Gagnrýni á Íslam er ekki múslimahatur. Gagnrýni á fjölmenningu er ekki útlendingahatur. Gagnrýni á trúarbrögð er ekki hatur.
En Reynir, við verðum að átta okkur á því að okkur hættir til að setja gagnrýni þannig fram að hún hljómi sem hatur. Ef við veltum gagnrýni á fjölmenningu fyrir okkur þá hlýtur hún að snúast um það hvernig við byggjum upp fjölmenningarlegt samfélag, þ.e. t.d. hvort líklegra sé til árangurs að hvetja til að þau sem flytja til landsins að læra tungumálið, hvort gera eigi það að forsendu fyrir því að fá að búa lengi í landinu eða hvort tungumálið skipti engu máli. Semsagt gagnrýnin snýst þá um aðferðir, leiðir til þess að þróa og byggja samfélagið? Ekki rétt? Hún beinist þá ekki að persónum í anda: ,,Ég vil ekki að svona fólk búi í mínu landi" Þyki rétt að hnykkt sé á því.
Ég held að þeir sem eru á móti fjölmenningu velti ekki fyrir sér hvort eigi að kenna nýbúum tungumálið heldur hvernig má koma í veg fyrir að "svona fólk" flæði inn í "landið okkar".
Það má smækka myndina og sjá fyrir sér fjölskyldufólk sem býr í friðsælli og barnvænni blokk en vill ekki fá "eiturlyfjaneytendur á féló" í íbúðina beint á móti. Afstaða þeirra mótast væntanlega af umhyggju fyrir fjölskyldunni og samfélaginu í blokkinni. Kannski eru hugmyndir þeirra um "pakkið" alrangar en kannski hárréttar. En afstaða þeirra og rök gegn komu "pakksins" ætti ekki að skilgreina sem "pakk-hatur", eða ómennsku og hatur í garð þeirra sem minna mega sín.
Reynir, nei þarna er ég algerlega ósammála þér. Hér er munur á gagnrýni á fjölmenningarstefnu (eða þá stefnu húsfélags svo horft sé að litlu myndina þína) eða hvort um viðhorf í garð einstaklinga er að ræða.
Sennilegast erum við nú samt að tala aftur um sama hlutinn og aftur sammála en veljum ólíka leið til að koma þessu frá okkur. Ég semsagt tel að gagnrýni sem sett er fram, t.d. hvað fjölmenningarstefnu varðar geti komið frá bæði þeim sem eru með stefnunni almennt sem og þeim sem eru almennt á móti stefnunni. Gagnrýnin er sett fram til þess að móta stefnuna frekar (gera landið opnara, lokaðra ...) Hér er verið að tala um málefnið óháð einstaklingnum sem slíkum, þ.e. hvernig viljum við að samfélagið taki á móti útlendingum (hvernig viljum við að húsfélagið taki á móti íbúum), hvaða skyldur, réttindi ... fylgja búsetunni... Gagnrýni er semsagt rýni til gagns, hún er uppbyggileg og mótuð af þeim vilja að byggja upp samfélag, ekki brjóta það niður.
Annar vandi í þessari umræðu okkar hér er nokkurs konar ,,lost in translation" vandi hvað orðið hatur varðar. Gjarnan er islamophobia þýdd sem muslimahatur, hér hef ég sjálfur kosið að tala um íslamfælni, eins er með íslensku þýðinguna á xenophobia sem oft er orðuð sem útlendingahatur. Hér væri nær að tala um framandifælni.
Það að ég þjáist af (ef við höldum okkur við þína mynd) fælni í garð þeirra sem fá aðstoð frá féló, þá er það væntanlega vegna þess að ég alhæfi um þá einstaklinga. Sú alhæfing getur aldrei verið rétt eða röng, hún er einföldun á flókinni mynd og væntanlega oftar en ekki, einstaklingunum sem um er að ræða í óhag. Við þurfum ekki að flétta mörgum vefsíðum hjá mannréttindasamtökum, SÞ, Evrópuráðinu ... þurfum ekki að skoða marga alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að, til þess að komast að þeirri niðurstöðu að jú, afstaðan er einmitt skilgreind andstætt því sem þú segir í síðustu setningunni í athugasemd frá kl. 19:55. Hún er skilgreind sem fælni í garð viðkomandi hóps.
Bara forvitinn, Reynir. Afhverju bíðirðu eftir því að einhver taki þig á orðinu varðandi biskupinn? Hyggstu nota manninn sem agn til að efna til orðræðu sem hægt er snúa upp í ofsóknir og almenna mannvonsku gegn Vantrú? Persónulega ber ég enga virðingu fyrir trú hans og enn síður fyrir vantrú þinni. Og norski fjöldamorðinginn er náttúrlega ekki frekar kristinn en þú ert múslimi, a.m.k. ekki í þeim almenna sanngirnisskilningi sem ríkir meðal siðaðs fólks.
Caramba, ég sé hvað menn eru snöggir upp á nef sér í ríkjandi geðshræringu og því býst ég allt eins við einhverjum skotum - en ég er ekki að biðja um þau eða egna einhverja gildru fyrir menn, þvert á móti. Ég yrði glaður ef enginn gerði atlögu að höfði mínu vegna þessara ummæla.
Á hinn bóginn get ég ekki hvatt til gagnrýni á skoðanir og trú manna og vonast um leið til að enginn andi á raus mitt.
-En ég ber djúpa og einlæga virðingu fyrir virðingarleysi þínu í garð vantrúar minnar. :o)
Það var frábært viðtal á X-inu í dag í þættinum Harmageddón þar sem rætt var við Pétur Tyrfingsson sálfræðing og mæli ég með því til allra með rökrétta hugsun í góðu lagi.
Í viðtalinu var hann að tala um Noregs-málið og afleiðingar öfgaskoðana og afleiðingar umburðarlyndis til skoðana fólks, sérstaklega trúarskoðana fólks og var hann í mjög vel fram settu, yfirveguðu og rökréttu tali að hvetja til einmitt óhamlaðar gagnrýni á skoðanir annarra sem maður er ósammála og þá sérstaklega trúarskoðanna!
Hann hljómaði alveg rammtrúlaus fyrir mér, sem dæmi talaði hann um að koma trúarbrögðum á jafn mikið feimnisstig og rasisma í þjóðfélaginu, og fannst mér það velkomin sjón (eða heyrn í þessu tilviki) að trúleysið fái ''platform'' til þess að tjá sig opinberlega.
Þá talaði hann sérstaklega um vanhæfni Íslendinga til þess að eiga yfirvegaða og rökrétta umræðu um þjóðmál, sérstaklega um trúmál og pólítík, þar sem við ættum til í að túlka allt sem sagt er um skoðanir annars fólks sem dómsuppkvaðningu um manneskjuna sjálfa. T.d. ef þú gagnrýnir skoðanir annarra og kallar þær heimskulegar eða vitlausar á opinberum vettvangi þá er því alltaf tekið sem að þú sért að segja að manneskjan sé heimsk og vitlaus almennt séð, semsagt alhæfingar.
Hann segir að með þessum alhæfingum þá verði öll umræða hér á landi um slík mál að endalausu skítkasti þar sem hægri-menn geta aldrei verið sammála vinstri-mönnum um eitt né neitt og öfugt, einungis vegna þess að þeir eru í sitthvoru ''liðinu'' alveg sama hvert gæði hugmyndanna er.
Ég var innilega sammála honum með flest ef ekki allt sem hann hafði orð á og hvet ég ykkur til þess að reyna að hlusta á hann á netinu en viðtalið er því miður ekki enn komið upp á vefinn.
Það rímar reyndar ekkert illa saman að kristinn þjóðernis-hægrimaður sé zíonisti. Zíonismi er jú herská þjóðernisstefna. Hentar það ekki evrópskum þjóðernissinnum vel að hafa alla gyðinga saman safnaða í einu landi langt í burtu? Þeir eiga auk þess sameiginlegt áhugamál, sem er að þjarma að aröbum.
Algjörlega óssamála því að "Það er ekki hættulegt eða rangt að hæðast að þeim". Afhverju fór Salman Rushide þá hulduhöfði í áratugi eftir að hafa verið dæmdur af klerkum fjarri landi hans fyrir "guðlast gegn Islam"? Afhverju neituðu öll helstu flugfélög Vesturlanda að flúga með hann af öryggisástæðum? Afhverju er maðurinn sem teiknaði skopmyndina af Muhammad enn í felum? Afhverju var þessi drengur drepinn? http://www.huffingtonpost.co.uk/2013/06/10/syrian-boy-executed-atheistn3413661.html Það ER hættulegt að hæðast að öfgamönnum í dag, ekki síður hættulegt en á tímum rannsóknarréttarins, þvert á móti, því nú er heimurinn orðinn alþjóðlegri og "minni" og allir geta fundið þig hvert sem þú ferð. Það gengur því ekki að flýja land eins og hér áður fyrr. Salman Rushide var í felum á Englandi afþví klerkur í fjarlægu landi sagði eitthvað slæmt um hann. ÞÚ gætir lent í því sama. Hvort það "rangt"? Nei, kannski ekki. Nema þegar þú pælir í því þeir myrða líka stundum ættingja og börn fólks. Öfgamenn eru alltaf hættulegir. Ekkert Islamskir frekar en aðrir, þeir eru bara mest áberandi í dag, á öðrum tímum voru það aðrir, og á morgunn tekur einhver nýr hópur við. HVAÐA hugmyndafræði sem er getur orðið lífshættuleg þeim sem aðhyllast hana ekki svo lengi sem umburðarlyndi er ekki eiginlegur hluti af kjarna hennar. Umburðarlyndi er sú dyggð að láta aðra í friði með sitt, séu þeir ekki að ógna manni eða áreita mann, og hún er höfuðdyggð vestrænnar menningar og fjölmenningarlegs samfélags. Lágmarksvirðingar er ekki þörf, svo lengi sem afskiptaleysi (nema í neyð) er til staðar, og vanvirðingin því ekki sífellt borin á torg til sundrungar þjóðfélaginu. Umburðarlyndið er eina aflið sem getur sameinað nútíma þjóðfélag. Það er líka góð regla að láta aðra vera sem mest, því þá getur maður eytt orkunni sem færi í að skipta sér óhóflega af þeim í að byggja upp sín eigin gildi og tilgang með lífinu. Lífið er mjög stutt, bráðum verðum við öll mold. Það er viturlegra að lifa FYRIR eitthvað en vera bara Á MÓTI hlutum.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Daníel Páll Jónasson - 25/07/11 11:48 #
Vil bara benda á þetta hérna: http://www.loonwatch.com/2010/01/terrorism-in-europe/