Öllum er ljóst að ríkiskirkjan sem heild brást algjörlega þeim konum sem vöktu athygli á "mikilli kynferðislegri þrá eða löngun sem kom fram í óeðli" þess manns sem kirkjan sá síðar sóma sinn í að gera að biskupi sínum. Kirkjuráð braut lög, prófastarnir reyndu að þagga niður í konunum og Prestafélag Íslands brást líka.
Karl Sigurbjörnsson sat í kirkjuráði og gerði svo þau mistök að þykjast ætla að koma á sáttum milli þolenda og geranda - og sagði svo ósatt til um þær sáttatilraunir (að sögn Sigrúnar Pálínu). Síðar stakk hann svo erindi Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur undir stól í hálft annað ár og eigin höfði í sandinn. Svo reyndi hann að afsaka þá hegðun sína með eftirminnilegum hætti - en illfyrirgefanlegum fyrir alþjóð.
Fólk hefði kannski gott af því að rifja upp orð Karls í sjónvarpinu eftir prestastefnu 2009 þegar bréf Guðrúnar Ebbu lá enn í skúffu hans. Eða ámátlega tilraun hans til að afsaka klúðrið í Kastljósi rúmu ári síðar. Menn geta líka lesið hvernig hann ber af sér allar sakir í bréfi til rannsóknarnefndar kirkjuþings(bls. 312 (.pdf)). Og þegar nefndin telur hann samt sem áður sekan um fjölda afglapa í starfi neitar Karl enn að viðurkenna og skilja og sér enga ástæðu til að segja af sér.
Hvað segir forseti Kirkjuþings, Pétur Kr. Hafstein?
Pétur segist vekja athygli á því að á þessu kirkjuþingi séu engar raddir uppi um það að biskup eigi að víkja. #
Það er ástæða til að þakka Pétri forseta(frambjóðanda) sérstaklega fyrir að vekja athygli á þessu. Hvernig stendur á því að enginn, enginn, á þinginu lagði til að biskup segði af sér? Pétur sagði að "biskup hefði sætt ómaklegri gagnrýni" og "Ég ber fyllsta traust til Karls Sigurbjörnssonar", ekki fullt traust heldur fyllsta trausts. Er þetta ekki nákvæmlega það sama og gerðist í máli Ólafs Skúlasonar? Prófastar og prestar fylktu liði um "hirði" sinn.
Formaður Prestafélags Íslands núna og í fyrra er séra Guðbjörg Jóhannesdóttir. Nú segir hún í sjónvarpsfréttum RÚV:
Mín skoðun er sú að það komi ekkert fram í skýrslunni sem gefi það til kynna að hann eigi að segja af sér. #
En sjónvarpið sýndi líka frá fámennri prédikun þessa siðapostula þegar Ólafsmálið var í hámarki í ágúst 2010. Þá sagði hún:
Allt stjórnkerfið virðist, núna þegar litið er til baka, hafa stutt fráfarandi biskup og ekki síður virðist hann hafa haft allt samfélagið með sér, þar með talið æðstu ráðamenn og konur þessa samfélags. Það hvort að öll blöðin fjölluðu um málið og þá hvernig er líka spurning. Þessar konur voru úthrópaðar af fjöldanum. #
Já, það er af sem áður var. Nú styður allt stjórnkerfi kirkjunnar biskupinn og Guðbjörg fer þar fremst í flokki. 2010 sagðist Guðbjörg þakklát þeim konum sem hefðu stigið fram fyrir það tækifæri sem þær hefðu gefið kirkjunni. Svona á að nota tækifærin, Guðbjörg! Helsta áhyggjuefni hennar þá voru úrsagnir fólks úr Þjóðkirkjunni.
En er ekkert ljós í myrkrinu, engin glæta? Kannski væri ráð að fara í skrúðgöngu eins og á Þingvöllum árið 2000, svokallaða iðrunargöngu. Það er a.m.k. tillaga Neskirkjuprests en hann segir líka að hjarðmennska, fordómar og dómgreindarskortur hafi blindað kirkjunnar menn. Ber nokkuð á hjarðmennsku eða dómgreindarskorti núna?
Eina glætan í ranni kirkjunnar enn sem komið er örlar í Grafarholti. Séra Sigríður Guðmarsdóttir gerðist svo djörf að segja að "biskup Íslands þurfi að kannast við það, að kirkjunni kemur betur að annar taki við lyklavaldi hans". Nú vitum við að biskup kannast nákvæmlega ekkert við það, jafnvel þótt hann þurfi þess. Þá eru góð ráð dýr. Jú, alveg rétt. Baldur Kristjánsson, sem var biskupsritari Ólafs, fórnaði stóli sínum á Kirkjuþingsfundi á þriðjudag en gaf í skyn að frekari viðbragða frá honum væri að vænta.
En hvar eru allir prófastar og prestar Kirkjunnar núna, sprenglærðir guðfræðingar Háskóla Íslands eða bara sóknarnefndarmenn? Lömbin þagna. Það heyrist ekki múkk í neinum þeirra. Ekki orð! Auðvitað ættu þeir að krefjast afsagnar biskups hátt og snjallt, og tafarlaust. Siðblindur siðapostuli er ekki líklegur til að laða marga að kirkjunni. Við lýsum algjöru frati á þetta lið.
Það sem einkennir öll viðbrögð biskups og kirkjunnar manna er hversu sjálfhverf þau eru. Þetta mál er tækifæri fyrir kirkjuna, kirkjan þarf að taka sig á, kirkjan er að gera svo góða hluti núna, kirkjan vonar að konurnar geti fyrirgefið. Í ræðu biskups á Kirkjuþingi fjallaði hann mikið um hvað þetta hefði verið erfitt fyrir sig... og kirkjuna.
En hvað um konurnar, þolendurna, fórnalömbin? Þær eiga bara að fyrirgefa. Forsetanefna Kirkjuþings "segir það einlæga von sína að þær konur sem brotið var á finni frið á grundvelli kærleiksboðskapar frelsarans". Þetta er hreint og beint móðgandi. Hvað ætlar kirkjan eða dusilmenni hennar að gera fyrir konurnar? Halda þau virkilega að konunum sé einhver þægð í því að þau segist ætla að "læra af þessu" eða að þetta hafi verið "frábært tækifæri fyrir kirkjuna"?
Karl Sigurbjörnsson á að sjálfsögðu að segja af sér og hverfa úr embætti með skömm. Það er a.m.k. krafa eða ósk kvennanna og framkvæmdastýru Stígamóta. Er til of mikils ætlast að tekið sé eitthvað mið af þeirra vilja, þeirra tilfinningum?
Þar sem sómatilfinning og siðvit herra Karls býður honum ekki að taka pokann sinn ættu prófastar, prestar, guðfræðingar, sóknarnefndarmenn og allir þeir sem vilja leggja nafn sitt við ríkiskirkjuna að krefjast afsagnar biskups. Verði biskup ekki við þeim kröfum ættu þessir sömu menn að segja sig úr ríkiskirkjunni sjálfir.
Og þar sem biskup og Kirkjuþing þykist þess umkomið að dæma í eigin sök ættu þessir sömu aðilar að veita konunum sjálfdæmi í þeirra málum og greiða þeim ríflegar miska- og skaðabætur í stað þess að þær þurfi að leita til dómstóla í von um eitthvað réttlæti.
Sigríður er eflaust í ónáð hjá biskupi - en aflar sér þeim mun meiri virðingar hjá almenningi. Að mínu mati er hún sú eina sem heldur uppi tætlunum af heiðri ríkiskirkjunnar.
En hvað gerir Guðbjörg nú?
Í gær jókst álagið stórlega á starfsfólk þjóðskrár sem tekur á móti úrsögnum úr þjóðkirkjunni, segir Haukur Ingibergsson forstjóri. #
Költ? Hún er enn meirihlutakirkja, mainstream. Endurspeglar ákveðna landlæga menningu sem við þekkjum allt of vel og leiddi til efnahagshruns.
Þjóðkirkjan stefnir í að verða 40 - 50% kirkja, eins og þýsku þjóðkirkjurnar eða Church of England. Spurning bara fyrir hvaða 40 - 50% hún kemur til með að standa. Mín ágískun er að hún verði kirkja sjálftökuliðsins, embættismanna, stjórnvalda og þeirra sem vilja bæta heiminn með því að setja plástur á sárin.
Ég hugsa að það sé nærri lagi, Carlos. Hlutfallið gæti hæglega orðið lægra. Ég hef það á tilfinningunni að fólk sem er kristið í alvörunni leiti í vaxandi mæli í sjálfstæðu trúfélögin.
Er guðfræðingur - þó ekki sprenglærð og alls ekki þegjandi.
Sjá m.a.:
Af virðingu við Sigrúnu Pálinu
Mér hefði þótt það rétt að afsagnar biskups hefði verið krafist, að það að mistakast aftur og aftur og aftur hefði afleiðingar, en svo virðist ekki vera og glopraði þar þjóðkirkjan dýrmætu tækifæri til að vera stofnun sem sýndi góða fyrirmynd.
En það verður að vera þeirra vandamál.
Frábært, Jóhanna. Gott hjá þér og mikið er ég feginn að sjá guðfræðing skrifa svona!
Þetta er samt allt óttarleg hystería í kringum þessi nauðganamál. Það er eins og það eina sem kemur fram sé samsulla af tilfinningavelgju og skringilegum kröfum út í bláinn. Aldrei er tæpt með skýrum hætti á málavexti. Svoldið eins og að sannleiksást og óhlutdrægni sé bann bann hjá þeim sem hafa sig hæst. Maður eigi bara að halda og kóa með þeim sem segjast fórnarlömb og tala máli þeirra líkt og lögfræðingur gerir fyrir skjólstæðing óháð sekt eða sakleysi eða raunverulegum málavöxtum. Það er náttúrulega fjarstæðukennt að allir eigi að taka sér hlutverk forstýru Stígamóta. Það getur örugglega verið skemmtilegt að suða yfir kirkjunni í kór með öðrum ef maður er trúleysingi, en það er skítug og ódýr pólitík. Andstaðan við ríkiskirkjunna mætti frekar að vera hreint og beint á hugmyndafræðilegum grundvelli.
Vissulega stefnir Kalli kapteinn hraðbyri á sker og hann hefur lofað að hlaupa ekki frá hálfkláruðu verki. Þannig má halda fram að það þjónaði málstað Vantrúar best að segja: Áfram Karl biskup!. En þetta mál snýst hvorki um ríkiskirkjuna, Vantrú né einhverja litla karla. Þetta snýst um réttlæti og siðgæði í þjóðfélaginu. Konurnar eiga skilið réttlæti og allir sem einn eiga að krefjast þess.
Svo er ástæða til að benda á skarpa greiningu á afstöðu biskups í leiðara DV.
"Maður eigi bara að halda og kóa með þeim sem segjast fórnarlömb" ..
Kári -
Það þykir orðið ljóst að í þessu máli eru konur sem ERU fórnarlömb, en "segjast ekki" bara vera það.
Við VERÐUM að taka okkur taki í samfélaginu, hvar sem við stöndum trúarbragðalega séð, í viðhorfi til fórnarlamba kynferðisofbeldis.
Það eru þessir duldu fordómar sem eru svo hættulegir, og verða oft til þess að sá eða sú sem á er brotið upplifir skömmina sem er að sjálfsögðu og réttilega gerandans.
Jæja Jóhanna, 'þykir' það? Ég hef það sem sterka meginreglu að hrífast ekki með almannarómi og gróusögum. Ef þér finnst það samfélagsvandamál, fordómar og árás á tilfinningar meintra fórnarlamba kynferðislegrar misnotkunar þá brúkar þú rangt við, því það er einmitt rétt, óhlutdræg, sanngjörn og sannleikselskandi afstaða.
Reynir, ég hef lesið þessar greinar og þær segja mér ekki mikið. S.s Karl, hefur lítið sóst eftir því að koma til móts við óraunhæfar væntingar konu, sem almennt þykir hafa verið fyrir barðinu á kynferðislegu misferði af fyrrum biskupi kirkjunnar. Ég hreinlega skil ekki hvernig fólk getur þótt þetta svona svakalega tilfinningaþrungið og merkilegt. Og hvað þá að ég eigi að bregðast eins við af einhverjum 4. handar sögum.
Kári, mér finnst þitt sjónarmið þarft í þessa umræðu. Við megum passa okkur á dómstóli götunnar. Hins vegar held ég að sekt Ólafs sé hafin yfir allan vafa og ég veit ekki betur en skýrsla rannsóknarnefndar Kirkjuþings sé vönduð og treysta megi niðurstöðum hennar - sem eru einmitt þær að kirkjan, prófastar, prestar og ekki síst Karl brást hrapalega. Meinið er að enginn axlar ábyrgð á því hversu illa var haldið á málum.
Það er svo sérstaklega ámælisvert að brotin eru framin af hálfu opinberrar stofnunar, stofnunar sem þykist, klárlega ranglega, vera einhver leiðarstjarna í siðferðismálum. Fólk gerir, með réttu, meiri kröfur til stofnunar sem nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá og með lögum en flestra annarra.
Þú brettir þá líklega líka upp á nefið þegar kaþólska kirkjan er gagnrýnd fyrir yfirhylmingar og kynferðisbrot - eða sértrúarsöfnuðir fyrir sína glæpi - sem tengjast ekki beint "hugmyndafræðilegum grundvelli" þeirra.
Meinið er að vald spillir, ríkisstyrkt vald líka og vald í trúmálum er sérlega hættulegt.
Í þessu máli er gott að hafa það á hreinu, að skv. lögum og laganna bókstaf er lítið, sem hægt er að gera fyrir brotaþola. Stofnun sem stendur fyrir æðra siðgæði býr hinsvegar ekki við þann munað, að geta sagt "siðleysi er ekki lögbrot".
Kirkjunni hefði verið í lófa lagið að stofna til sáttaferlis sem horfir á sársauka, þrýsting, hylmanir, órétt í stað þess að hugsa eingöngu um lagalegar hliðar málanna. En henni skorti ímyndunarafl og þor til þess. Því er nú verr.
Kári, skýrslan leiðir í ljós að Karl biskup og ýmsir aðrir forsprakkar ríkiskirkjunnar, menn sem eru ennþá starfandi, brugðust í starfi og brutu siðferðislega af sér. Það kemur sekt eða sakleysi Ólafs Skúla ekkert við per se.
Þetta eru opinberir starfsmenn, þeir starfa hjá stofnun sem í orði kveðnu á að vera hornsteinn siðferðis í þjóðfélaginu.
Finnst þér, svona í alvörunni, skrýtið að fólki finnist þetta mikið mál?
Í sjónvarpsfréttum á RÚV í gær sagði Sigrún Pálína um biskup:
Mér finnst hann frekar gera lítið úr sínum hlut og í rauninni ekki viðurkenna á neinn hátt að hann hafi gert feil.
Séra Sigrún Óskarsdóttir þakkar konunum fyrir að hafa haldið máli sínu til streitu:
Ég er búin að tala við marga í dag og það er leið sem ég vil að verði farin, að á þeirra forsendum, að sjálfsögðu, algjörlega, verði boðið upp á samtal og þær spurðar: Hvað getum við gert?
Í skýrslunni kemur fram að Sigrún Pálína hafi átt fund með Sigurbirni Einarssyni biskupi árið 1988, áður en Ólafur varð biskup. Um það segir sonur hans biskupinn:
Hún leitaði til ýmissa presta. Hún leitaði ekki til lögreglu. Ég veit ekki hvers vegna hún leitaði til presta. Við prestar, bæði þeir sem voru í starfi þá og þeir sem höfðu hætt störfum, höfðu í rauninni afar litla möguleika til að gera eitt eða neitt.
Um það segir Sigrún Pálína:
Hann er bara að fara undan í flæmingi. Auðvitað leitaði ég til þeirra sem ég hélt að gætu tekið ábyrgðina á mér. Og á þessum tíma var ekki möguleiki að fara til lögreglunnar vegna þess að allir sögðu við mig að lögreglan mundi ekki trúa mér vegna þess að ég hafði ekkert vitni. Og það er nú nógu erfitt að sanna eitthvað í dag, hvað þá fyrir svona mörgum árum síðan.
Nafna hennar, presturinn segir:
Það er auðvitað erfitt að sjá að svona var þetta. Sannleikurinn, hann er sár í þessari skýrslu, mjög sár. Öll þessi saga, allt of löng, allt of erfið, allt of sár.
Biskup veit ekki af hverju Sigrún leitaði til pabba hans vegna þess að hann og prestar gátu ekki gert eitt eða neitt. Þrátt fyrir getuleysi sitt tókst þeim þó að gera Ólaf Skúlason að biskupi! Og þeim tókst að fylkja sér í kringum hann og verja þegar sannleikurinn var sagður. Þeim tókst líka að þagga niður í konunum og sverta mannorð þeirra. Þetta er vissulega meira en "ekki eitt eða neitt".
Getur Karl biskup gert eitthvað annað núna en að skipa nefnd ofan á nefnd? Já, hann getur sagt af sér. Geta prestar gert eitthvað annað en gráta aftur á fundi með konunum? Já, þeir geta hrakið Karl og aðra þá sem brugðust konunum úr starfi - eða sagt skilið við siðleysið sjálfir.
Undur og stórmerki. Séra Örn Bárður Jónsson segir "Forysta kirkjunnar víki" og "Biskup og öll yfirstjórn kirkjunnar verður að víka". Eða hvað? Nei, þetta sagði hann ekki þrátt fyrir fyrirsagnir fjölmiðla. Greinin hans heitir í raun "Nú er hagkvæm tíð".
Það eina sem Örn Bárður sagði var: "Þarf [forysta kirkjunnar] ekki þess vegna að íhuga það alvarlega að axla sín skinn og það án tafar?" Yrði hann ánægður ef forystan "íhugaði" þetta bara? Séra Örn Bárður studdi Ólaf dyggilega á sínum tíma. Þarf Örn Bárður að íhuga að segja af sér eða þarf hann að segja af sér? Hann segir að "þjóðin þoli illa hálfkák" en býður sjálfur upp á hálfvelgju.
Séra Sigríður Guðmarsdóttir sagði ekki að biskup ætti að segja af sér heldur að hann "þurfi að kannast við það, að kirkjunni kemur betur að annar taki við lyklavaldi hans".
Farsæll endir þessa harmleiks gæti því orðið þessi:
Forysta kirkjunnar íhugar að taka sitt skinn og biskup kannast við að kirkjunni kæmi betur að annar taki við lyklum hans... en ekkert breytist.
Örn Bárður segir:
Biskupinn flutti svo sína ræðu á þinginu og varði sjálfan sig eins og skiljanlegt er. Hann hefur auðvitað sinn rétt til að útskýra aðkomu sína að þessu erfiða máli. Hann var og er í erfiðri stöðu. En hefði hann ekki átt að víkja af fundi að lokinni ræðu sinni og leyfa þingheimi að ræða málið að sér fjarstöddum? Kom engum til hugar sem sitja þingið að spyrja þeirrar spurningar úr ræðustól? Ég spyr enn fremur: Orðaði enginn þann möguleika hreint og beint í þingsal að biskup Íslands þyrfti hugsanlega að segja af sér? Þorði enginn að taka neina áhættu í umræðunni nema þá grafalvarlegu og miklu áhættu sem fram kemur í máttlausri niðurstöðu kirkjuþings?
Af hverju spyr Örn Bárður? Veit hann ekki svarið? Öll gögn þessa gungufundar eru aðgengileg á vef kirkjunnar. Horfði hann ekki á fréttir þar sem forseti Kirkjuþings "vakti athygli á því" að það var engin tillaga um að biskup viki? Auðvitað veit hann svarið.
Ef það voru "mistök" að Baldur Kristjánsson sat fundi kirkjuráðs á sínum tíma voru það "afglöp" að biskup sat þennan Kirkjuþingsfund. Þessir menn hafa ekkert lært - nákvæmlega ekkert.
í greininni segir "Forysta kirkjunnar getur nú sýnt auðmýkt með djarfmannlegu verki sem felst í því að STÍGA TIL HLIÐAR og viðurkenna að henni hafi mistekist að stýra skipinu heilu út úr brotsjónum" (leturbreytingar mínar) Stíga til hliðar/víkja. Sé ekki að það sé neinn munur á þessu tvennu og sýnist því nokkuð ljóst að Örn Bárður telji að forystan eigi einmitt að víkja.
Það má satt heita, vilji Arnar Bárðar er skýr og ég tek undir hann. En þarf Örn Bárður ekki að íhuga alvarlega að axla sín skinn og það án tafar? Hann getur nú sýnt auðmýkt með djarfmannlegu verki sem felst í því að stíga til hliðar og viðurkenna að honum hafi mistekist þegar á gaf.
Örn Bárður grét sáran þegar mál Ólafs komust aftur í hámæli og kallaði umfjöllun fjölmiðla "einelti". Það hentaði honum illa að sjónir manna beindust að Ólafi og skósveinum hans. En nú getur hann djarfur gagnrýnt forystu kirkjunnar, við misjafnar undirtektir.
Líkt og 1996 spyrja menn sig enn hvort réttlætiskennd og siðferði ráði viðbrögðum kirkjunnar manna eða kirkjupólitík? Er Örn Bárður að hugsa um hag kvennanna, kirkjunnar eða eigið skinn? Örn Bárður er peð sem dreymir hugsanlega um að komast upp allt borðið og verða biskup, en það er aukaatriði. Aðalatriðið er að núverandi gagnrýni hans á kirkjuna er réttmæt, hverjar sem hvatir hans eru.
Sæll Reynir, Ég held að þú hafir ekki lesið yfirlýsingu mína nógu vel frá því á þriðjudaginn. Þú segir: "Séra Sigríður Guðmarsdóttir sagði ekki að biskup ætti að segja af sér heldur að hann "þurfi að kannast við það, að kirkjunni kemur betur að annar taki við lyklavaldi hans"."
Niðurlagsorð yfirlýsingar minnar eru svona:"Biskup Íslands þarf að segja af sér og undirstrika þannig umhyggju fyrir kirkju þeirri sem hann hann þjónar, kirkju sem er biðjandi, boðandi og þjónandi."
Yfirlýsingu mína má lesa m.a. á visir.is.
Vanda sig!
Kveðja, Sigríður
Þakka fyrir þessa ábendingu, Sigríður. Gott að þú tókst sterkar til orða en ég benti á.
Svo er spurning hvort biskup "þjónar" kirkjunni eða öfugt. Þessari sem er biðjandi um peninga, boðandi í leik- og grunnskólum, þjónandi eigin hagsmunum. :o)
Húrra! Sprenglærður guðfræðingur (í praktískri guðfræði!) í HÍ tjáir sig, Pétur Pétursson:
Hvítasunnan lofaði góðu því að rannsóknarhópurinn hafði unnið sitt verk og yfirstjórn þjóðkirkjunnar virtist alvarleiki málsins ljós þar sem aukaþing var kallað saman strax á þriðjudaginn. En þingið stóð ekki undir þeim væntingum sem við höfðum mörg til þess. Málinu var vísað í eina nefndina enn eins og stefnan væri að málið yrði smám saman kæft, svo kemur næsta nefnd og svo næsta … Öll þjóðin veit nú um píslargöngu kvennanna, sem Ólafur Skúlason biskup er sakaður um að hafa brotið gegn, um ranghala hinnar stofnanavæddu kirkju.
Eftir þingið er eins og þær konur sem stigið hafa fram með sína ólýsanlegu sáru reynslu og upplifað niðurlægjandi málsmeðferð af hálfu yfirstjórnar kirkjunnar eigi sjálfar að finna frið í hjarta sínu og sættast við Guð og kirkjuna. #
Hvað leggur Pétur til, svona praktískt? Geti einhver lesið það út úr tilvitnun hans hina og þessa fræðimenn og stefnur guðfræðinnar væri við hæfi að benda á það.
Á Mbl.is er vitnað í gagnrýni hjónanna séra Jónu Hrannar Bolladóttur og séra Bjarna Karlssonar. Kaflarnir þar eru nokkuð góðir t.d. um framgöngu Péturs Kr. Hafsteins forseta Kirkjuþings:
Þannig dró hann upp mynd af kirkjunni sem biskupskirkju um leið og hann flokkaði kirkjulega þjóna í tvo hópa, annan vinveittan en hinn ekki. Hvort tveggja var óboðlegt. Kirkjan er ekki biskupskirkja heldur hreyfing trúaðra og þar heyrast og eiga að heyrast margar raddir. Með aðferð sinni leitaðist Pétur við að móta andrúmsloft hjarðhegðunar þar sem gagnrýninni hugsun er úthýst og hún túlkuð sem fjandskapur. Rannsóknarskýrslan ber því vitni að aðferðin er gamalreynd og að hún virkar.
Herra Karl Sigurbjörnsson ávarpaði einnig samkomuna, settist að því búnu í öndvegi og vék ekki úr sal eða í áheyrnarsæti þótt persóna hans og embættisverk væru til umræðu. Einnig það var óboðlegt. #
Margt er hins vegar hægt að gagnrýna við upphaflega grein þeirra á tru.is. Í fyrsta lagi afgreiða þau ámátlega þögn kirkjunnar manna sem merki um alvarleika málsins en ekki aumingjaskap.
Í öðru lagi er óhugnalegt að sjá þetta par lofa gagnrýna hugsun í ljósi framgöngu Bjarna og um mig fór hrollur að sjá sjá þau tala um heilindi, svona í ljósi framgöngu Jónu Hrannar.
En hvað leggja þessi skötuhjú til að verði gert nú þegar krafist er afsagnar biskups fyrir afglöpin:
Við stöndum nú frammi fyrir því prófi hvort við veljum í raun að tileinka okkur baráttuaðferð Jesú Krists sem gerði hvorki að flýja eða höggva heldur stóð í sannleikanum. Sannleikurinn rekur sig sjálfur og það er ekki verkefni okkar að frelsa hann heldur leyfa honum að frelsa og styrkja. #
Ef þetta er ekki froðusnakk ætlað til að friða lýðinn eða afla sér hugsanlega vinsælda veit ég ekki hvað. Hikaði Jesús við að höggva? Ó, nei, hann vandaði faríseunum ekki kveðjurnar, og það má heimfæra þær allar á hræsnara ríkiskirkjunnar.
Illugi Jökulsson furðaði sig á framkomu biskups og formanns Prestafélagsins í skeleggri grein á Eyjunni. Guðbjörg formaður svarar honum á tru.is.
Guðbjörg segist þar hafa skipt um skoðun og að nú telji hún að biskup eigi ekki að "hugleiða stöðu sína", merkilegt nokk. Þegar menn tala í hálfkveðnum vísum verður útkoman svona bull. Formaður prestafélagsins telur að biskup eigi ekki að hugleiða stöðu sína!
Guðbjörg hefur ekkert lært af skýrslunni, fremur en flestir félagar hennar, því hún sér ekkert athugavert við að biskup hafi "setið í öndvegi" á þinginu þegar fjallað var um brot hans. Raunar játar hún, eflaust óafvitandi, skilningsleysi sitt berum orðum:
Að ætla eftir á að tala um þöggun og skoðanakúgun á þinginu er mér algerlega óskiljanlegt. #
Þá eru popúlistarnir Bjarni og Jóna Hrönn skárri, það glittir þó í skilning hjá þeim.
Húrra! Ef marka má frétt Pressunnar fá konurnar bætur greiddar frá kirkjunni!
Konurnar sem sökuðu Ólaf Skúlason, þáverandi biskup um kynferðisbrot, hafa náð fullum sáttum við kirkjuna, sem greiðir konunum sanngirnisbætur. Konurnar munu með einum eða öðrum hætti koma að starfi kirkjunnar hvað varðar kynferðisbrot. Kirkjuþing skipaði sérstaka rannsóknarnefnd sem fór yfir ásakanir nokkurra kvenna á hendur Ólafi Skúlasyni, þáverandi biskupi, og komst nefndin að þeirri niðustöðu að á konunum hefði verið brotið.
Kirkjan harmaði það sem hafði átt sér stað og meðferðina sem konurnar sættu og bað þær afsökunar. Í framhaldi hófust viðræður milli kvennanna og kirkjunnar sem fólu í sér að konurnar fengju sanngirnisbætur.
Samkvæmt heimildum Pressunnar var miðað við hæstu bætur sem hin svokölluðu Breiðavíkurbörn fengu.
Sátt hefur nú náðst milli kvennanna og kirkjunnar og verður tilkynnt um það síðar í vikunni.
Í því felst ekki aðeins að þær fái sanngirnisbætur, heldur og að þær komi með einum eða öðrum hætti að starfi innan kirkjunnar hvað varðar kynferðisbrot og ásakanir um slíkt.
Þær Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, Stefanía Þorgrímsdóttir og Dagbjört Guðmundsdóttir hljóta fjögurra milljóna króna sanngirnisbætur vegna málsins.
RUV segir að bæturnar feli líka í sér lögmannskostnað og annan kostnað:
Í hverju tilviki nemur fjárhæðin nærri 4 milljónum króna
Eru ekki dráttarvextir á þessu frá ´96? (Fyrirgefið orðalagið).
Þar sem kirkjan er á fjárlögum hlýt ég að spyrja. Hvaða réttindi hefur ríkiskirkjan til að ráðstafa þessum peningum? Endar þetta ekki allt á því að koma úr vasa skattgreiðenda?
Kirkjan fær sína peninga auðvitað frá skattgreiðendum, svo þetta kemur þaðan. Hins vegar er kirkjan svo rosalega sjálfstæð, eins og við vitum, að hún hlýtur að greiða þetta með "sínum" peningum. Það verður þá minna sem fer í annað. Annars munar væntanlega lítið um þetta þegar þúsundir milljóna eru í spilinu.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Carlos - 15/06/11 12:15 #
Með því að stíga jafnákveðið fram og hún gerir, er dr. Sigríður komin út á brúnina. Þökk sé útskiptanleika presta, hver fimm ár, mun vera næsta auðvelt að hafa þau áhrif á nærsamfélag hennar til að hafna þjónustu hennar næst þegar kemur að endurnýjun skipunar hennar. Nóg er nefnilega að ákveðinn hluti safnaðarins mæti á fund og biðji um að embættið verði auglýst, átta mánuðum fyrir lok skipunartíma hennar.
Ljóst er að hún hefur enga vini unnið með framgöngu sinni. Ég staðhæfi hér, að enginn þeirra sem til máls tók á kirkjuþingi í gær, hafi þorað í biskupinn og nomenclatura kirkjunnar vegna þessarar snautlegu staðreyndar.
Kirkjan hafði möguleika til að bregðast við ærnum vanda í gær og auka á trúverðugleika sinn. Hún hafði möguleika á að segja skilið við ískenska embættismenningu og setja ný og djörf fordæmi. Hún kaus að gera það ekki og slá skjaldborg um spillta, gamla starfshætti.