Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Rotnir ávextir ríkiskirkjunnar

Skýrsla Rannsóknarnefndar Kirkjuþings(.pdf).

Nú hefur rannsóknarnefnd Kirkjuþings skilað af sér skýrslu um ömurleg viðbrögð ríkiskirkjumanna þegar bent var á kynferðisbrot herra Ólafs Skúlasonar biskups, barnaníðings og fyrsta æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan er sú að þessi stofnun sem þykist vera leiðarljós þjóðarinnar í siðferðismálum er með allt niðrum sig þegar kemur að siðferði, réttlæti, manngæsku og mannasiðum.

Það er í fyrsta lagi niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að þeir kirkjuráðsmenn sem stóðu að yfirlýsingu ráðsins 1. mars 1996 hafi gert alvarleg mistök [...]

Í öðru lagi er það niðurstaða nefndarinnar að þeir prófastar sem stóðu að yfirlýsingu á vettvangi Prófastafélags Íslands 7. mars 1996 hafi gert alvarleg mistök [...]

[...] er það niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að stjórn Prestafélagsins hafi vanrækt í merkingu 1. gr. starfsreglna um nefndina að sinna því hlutverki sem stjórninni var falið samkvæmt siðareglum og lögum félagsins...

Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, segir einhvers staðar. Svona er uppskeran:

Biskup Þjóðkirkjunnar var siðblindur barnaníðingur og kynferðisbrotamaður.
Kirkjuráðsmenn Þjóðkirkjunnar bættu gráu ofan á svart.
Prófastar Þjóðkirkjunnar tóku sér stöðu með níðingnum og gegn fórnarlömbum hans og þeim sem um málið fjölluðu.
Prestafélagið var engu skárra.

Þetta bætist nú í ávaxtakörfu þessarar ríkisstofnunar ofan á að hafa staðið í vegi fyrir réttindum samkynhneigðra og réttindum kvenna áratugum saman. Sama stofnun vill valta yfir rétt foreldra og barna í skólum með því að troða sinni heimsmynd inn í ómótaða hugi.

Og þótt þrír af hverjum fjórum landsmönnum vilji aðskilnað ríkis og kirkju velta menn nú vöngum yfir því í stjórnlagaráði hvort forsvaranlegt sé að afnema stjórnarskrárbundin forréttindi þessa félagsskapar.

Ávextir ríkiskirkjunnar eru meira en skemmd epli sem komin eru nokkrar aldir fram yfir síðasta neysludag, þeir eru kasúldið hrat.

Greinar okkar frá 2010 um efnið:
Karl Sigurbjörnsson og Ólafsmálið
Úr æviþáttum Ólafs Skúlasonar
Reiði, kirkja og Vantrú
Þórðargleði Vantrúar
Svo bregðast krosstré

Ritstjórn 10.06.2011
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/06/11 14:57 #

Geir Waage virðir ekki þagnarskyldu :)

Þá hefði biskup orðið „snöggvondur, mjög reiður“. Sagðist Geir í raun og veru hafa haldið að biskup ætlaði hreinlega að leggja á hann hendur því að hann hefði verið svo ofboðslega reiður og öskrað á hann að hann væri til skammar þeirri kirkju sem hann reyndi að þjóna og biskup þjónaði og þetta yrði stórskaðlegt kirkjunni ef upp kæmist. Það mætti bara ekki undir neinum kringumstæðum falla þessi blettur á heiður biskupsins. #

Enn virðist ríkjandi sá hugsunarháttur að það megi ekki "falla blettur" á heiður biskups - til að kirkjan "skaðist" ekki. Á næstu dögum munum við sjá mörg dæmi þess.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/06/11 15:15 #

Ekki er Sigrún Pálína ánægð:

Þetta er heldur svona máttlaust og fátt nýtt í þessu, jú, séra Vigfús Þór Árnason fær á baukinn, en verst finnst mér að kirkjunnar menn vilji enn ekki að fullu gangast við ábyrgð. Þetta er orðin 32 ára sorgarsaga hjá mér. #

Um núverandi biskup segir hún:

Eftir því sem ég hef haft tíma til að kynna mér skýrsluna sýnist mér orka tvímælis í ljósi framgöngu hans árið 1996 og aftur 2009 að hann sitji á biskupsstóli.

Sigrún Pálína bindur nú vonir sínar við viðbrögð Kirkjuþings en að vænta réttlætis af kirkjunni er að leita ullar í geitarhúsi.

DV hefur eftir Sigrúnu Pálinu:Ég sit hér lömuð.

En mbl.is segir að hún sé mjög ánægð með þessa niðurstöðu.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/06/11 16:36 #

Séra Örn Friðriksson er einn prófastanna sem studdi Ólaf og hann heldur enn áfram að níða þær konur sem urðu fyrir barðinu á honum.

Séra Erni finnst með óíkindum hvað stór og glæsilegur maður á borð við Ólaf Skúlason á að hafa verið klaufskur í kvennamálum.

"Árangurslausar tilraunir við ótal konur - og meira að segja ekki alltaf svo sérstaklega eftirsóknarverðar, að því er manni sýnist." #

Umfjöllun DV.

Fyrirsögn mbl.is um afstöðu sérans er: Rannsóknarréttur og nornaveiðar en þar er hlekkur á bréfið sjálft.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/06/11 18:16 #

Stefanía Þorgrímsdóttir, ein kvennanna sem kom upp um Ólaf, segir þetta um Karl Sigurbjörnsson:

Hvað varðar stöðu núverandi biskups fæ ég ekki betur séð en að seta hans á biskupsstóli orki mjög tvímælis, bæði hvað varðar viðbrögð hans 1996 og aftur núna 2009" #

Látum okkur sjá. Karl klikkaði 1996. Karl klikkaði 2009. Hvað ætli Karl geri 2011?


Jon Steinar - 10/06/11 18:53 #

Séra Baldur fær einnig á baukinn. Maður sem skrifar langlokur um mannréttindi seinni misseri til að vega gegn sektinni væntanlega.

Séra Pálmi hinn hippi og kúli fær einnig ádrepu. Ekkert alvarlegra en léttur löðrungur á handabakið í stað þess að svipta þessa menn embættum og hreinsa til.

Kirkjan mun standa enn meiri ómerkingur eftir, sem er hið besta mál að mínu viti. Þeir grafa sína eigin gröf í rólegheitunum. Óþarfi að kenna trúleysi og trúlausum um, eins og hefðin er nú.

Það er annars nokkuð klént og gegnsætt að kippa einhverjum sérstökum út sem blórabögglum, því prestastéttin varði þetta með fúkyrðum og heift á sínum tíma og notaði hvert tækifæri til að tortryggja fórnarlömbin. Hér er treyst á dapurt minni þjóðarinnar og alveg kostulegt að sjá hvítþvottinn og skinhelgina sem er í gangi.

Þið eruð allir sekir sérar mínir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 10/06/11 19:10 #

Vissulega eru þeir sekir, sem og stjórnvöld og þjóðin öll, sem lét og lætur það viðgangast að mulið sé undir þessa farísea nútímans með lögum og í stjórnarskrá, dælt í þá milljörðum árlega.

Nú er haft eftir Sigrúnu Pálínu að:

sem leikmanni finnist henni biskupinn vera óhæfur. Henni finnst að álykta eigi um framtíð hans. #

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að rannsóknarnefndin telur Kirkjuráð (þá með Karli innanborðs)hafa brotið lög! Í sjónvarpsfréttum RÚV kom fram að Sigrún Pálína er að undirbúa tugmilljónkróna skaðabótakröfu á hendur kirkjunni, Karli biskupi og séra Hjálmari. Henni sárnar ekki hvað síst ósannsögli Karls og Hjálmars um fundinn í Hallgrímskirkju - sem nefndin skautaði fram hjá þar sem orð stæði gegn orði. Eins og það hafi ekki líka verið staðan gagnvart heilögum Ólafi á sínum tíma. Skömm er að þessu.


Jon Steinar - 10/06/11 22:22 #

VAð bara að koma þessum tengli að, þótt hann komi greininni ekkert við. Páfagarður og Íran...sama dæmið.

Hart deilt um smokka hjá SÞ


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/06/11 19:08 #

Kirkjunnar menn þykjast vera svo miklir "fagmenn". Svona lýsir skjalavörður biskupsstofu því sem gerðist eftir að Guðrún Ebba hafði sent biskupi bréf og farið fram á fund með honum og kirkjuráði:

„En svona nokkrum dögum, kannski vikum, síðar, kannski tíu dögum, kannski tveimur vikum síðar þá kalla ég eftir þessu niður. Hún, skrifstofustjórinn, kom niður til mín og við fórum inn í bókasafnið, sem er svona afdrep, og ég segi: „Ég á að skrá þetta bréf.“ Og: „Hver eru mín fyrirmæli? Mér ber að skrá þetta sem skjalaverði, minn heiður er í húfi.“ Þá segir hún að sá sem valdi hafi það sé biskup, „hann ræður þessu“. Þá segi ég: „Þá firri ég mig allri ábyrgð, málið er í ykkar höndum og ég bíð bara eftir fyrirmælum.“ Síðan er það ekki fyrr en, ég veit ekki hvenær, einu og hálfu ár síðar að ég fer upp á loft og segi: „Ég vil fá þessi bréf.“ Og þá var þetta náttúrulega orðið að stórmáli. #


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/06/11 12:22 #

Baldur Kristjánsson viðurkennir mistök, fyrstur kirkjunnar manna!

Þegar ég lít til baka yfir þetta tímabil sé ég eftir að hafa verið þarna og iðrast þess að hafa ekki einfaldlega sagt mig úr stjórn Prestafélagsins. Þar var ég, í febrúar og mars 1996, einfaldlega of nálægur málinu og of háður biskupi og lögfræðingum hans.

Ég hef sagt mig frá Kirkjuþinginu á morgun, þriðjudag. Ég tel að viðbrögð þess verði trúverðugri því færri sem þar eru sem komu við sögu. Frekari viðbrögð af minni hálfu birtast síðar en óneitanlega hef ég hugleitt ýmislegt. Ég fékk ofanígjöf frá nefndinni. Undan því verður ekki vikist. #

Baldur biður konurnar líka fyrirgefningar. Gott hjá Baldri. Við bíðum eftir "frekari viðbrögðum".

Nánar á: Pressunni og Visir.is og DV.is

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.