Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sautján billjónir settar í samhengi

Stærðfræðiformúlur

Séra Valdimar Hreiðarsson svaraði seinasta laugardag grein sem ég skrifaði nokkrum dögum fyrr þar sem ég krafði hann um útskýringar á fullyrðingum hans og séra Halldórs Gunnarssonar um að jarðirnar sem þjóðkirkjan afhenti ríkinu til eignar árið 1907 væru í dag verðmetnar á sautján þúsund milljarða. Valdimar segist hafa séð vandaða útreikninga sem sýna fram á þessa niðurstöðu en upplýsir hvorki hvar né hver hafi reiknað utan þess að það séu aðilar sem hann treystir. Ég vona að Valdimar erfi það ekki við mig að mér finnst þetta ekki alveg nóg og taki því undir vonir hans um að talnagleggra fólk en við félagarnir erum blandi sér í umræðuna.

Ástæðan fyrir því að ég vil endilega fá að vita forsendurnar fyrir þessum útreikningum er sú að sautján þúsund milljarðar er alveg ótrúlega há tala, svo stór að mig grunar að ég þurfi að setja hana í eitthvað samhengi til þess að þeir félagar Valdimar og Halldór átti sig á henni.

Við getum byrjað á því að bera verðmæti jarðanna saman við skuldir íslensku þjóðarinnar. Nýjustu upplýsingar sem finnast við fljóta leit eru frá seinasta sumri en þá sagði í frétt RÚV að þær næmu 3-4000 milljörðum. Fyrir þá upphæð væri hægt að reka heilbrigðiskerfið í rúma hálfa öld. Fyrir andvirði kirkjujarðanna gömlu væri sá tími eitthvað á þriðja hundruð árin. Ekki er heldur úr vegi að bera virði jarðanna við jarðarverð á landinu almennt. Það er ekki auðvelt að finna upplýsingar um hversu margar jarðir var að ræða á sínum tíma, á netinu er algeng tala um 700 jarðir. Við skulum bara einfalda þetta og ímynda okkur að þær séu 1000. Þá er meðalverðið á jörð 1,7 milljarðar. Í dag þykir það fréttaefni í héruðum landsins ef landeigandi fær einn tíunda af því fyrir stórjörð.

Ég vona að þessi dæmi mín, þó einfölduð séu, sýni af hverju mér finnst að nú standi það upp á Valdimar Hreiðarsson, Halldór Gunnarsson og þá sem reiknuðu fyrir prestana að standa fyrir máli sínu og sýna einfaldlega hvaða forsendur liggja fyrir þeirri fullyrðingu að verðmæti gömlu kirkjujarðanna sé sautján billjónir króna.

Sjá einnig:

16 þúsund milljarðar?
Prestar. Vinsamlegsat sýnið útreikninga


Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 21. október

Egill Óskarsson 21.10.2010
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón - 21/10/10 21:36 #

Þetta minnir á málaferli tónlistarútgefenda í USA, þar sem þeir segjast vera að 'tapa' trilljónum.


Hermann Þórðarson - 21/10/10 23:39 #

Þar sem þetta hefur komið oftar en einu sinni til umræðu hér á síðunni, væri kannski rétt að slá á þessa tölu. Jarðirnar sem voru afhentar af kirkjunni árið 1907 munu hafa verið um 16% alls jarðnæðis í landinu. Í dag eru jarðir á íslandi um 4-5000 og hver jörð er um 1100 ha að meðaltali. Eignarnámsverð á ha hefur verið nálægt 250 þús.kr. Þá er þetta nálægt 180 milljörðum og ekki tekið tillit til húsakosts. Skv. þessu fær kirkjan um 1% afrakstur af hugsanlegri eign sem fólst í þessum jörðum. Ef ég fer mjög rangt með þessar tölur, þætti mér vænt um að fá þær leiðréttar og betrumbættar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/10 11:44 #

Þetta eru amk vitrænar pælingar Hermann ;)

En ef ég man rétt voru eitthvað af þessum jörðum seldar frá 1907-~1930 og fór andvirðið í sjóð til að standa undir kirkjunni. Sjóðurinn fór á hausinn, sem segir okkur kannski eitthvað.

En varla teljast þær jarðir með, þar sem að peningurinn sem fékkst af þeim fór beint til kirkjunnar.


Ingi Rúnar 'Arnason - 22/10/10 14:13 #

Ekki beint skýrt og greina gott svar frá honum...svo tala prestar um opna umræðu,merkilegt

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.