Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Allir teikna Múhameð dagurinn

Guðir

Í dag 20. maí er Allir teikna Múhameð dagurinn. Í tilefni hans höfum við í Vantrú eytt drjúgum tíma í að draga upp mynd af Múhameð, en til að gæta sanngirni höfum við líka teiknað Jesú, Bahá'u'lláh, Búdda og til gamans, Richard Dawkins.*

Áður en lengra er haldið er líklega ágætt að útskýra hvernig hver spýtukarl endurspeglar eitthvað í fari hvers spámanns.

  • Múhameð - er með logandi sprengju sem höfuð vegna þess að því miður hefur ofbeldi og æsingur sett mark sitt á trúarbrögð friðarins síðustu mörg ár. Það er nokkuð sem múslímar vonandi ná að breyta til hins betra, svo Múhameð verði eftir það jafnan teiknaður með friðardúfu á öxlunum í stað sprengjunnar.

  • Bahá'u'lláh - er á bakvið rimla vegna þess hann sat í fangelsi í 24 ár fyrir að messa hugmyndir sínar. Það er ekkert fyndið eða skemmtilegt við það, en þannig var það nú vegna þess að hann þótti ógna öðrum trúarhugmyndum og því fór sem fór.

  • Jesús - er dauður en samt á lífi. Fórnardauðinn og upprisan er kjarni kristninnar og þarna er Jesús kominn, kampakátur þrátt fyrir að eiga að vera dauður.

  • Búdda - er með ógurlega langa eyrnasnepla. Þannig eru margar styttur af honum, þótt ekki séu eyrun alveg svona stór. Síðir eyrnasneplar eiga að tákna visku og samkennd og þess vegna hafa búddistar eyru hans vel yfir meðallagi stór.

  • R. Dawkins - er með spjald sem á stendur orðið bright. Hugmyndin var að trúleysingjar væru svo sniðugir að þeir ættu að kalla sig brights eða gáfnaljós á íslensku. Dawkins átti ekki hugmyndina en hann gerði hana fræga með því að gerast talsmaður hennar. Nafnið þykir sérlega hrokafullt og flestum trúleysingjum hrýs hugur við yfirlætinu, en það kitlar samt dálítið hégómagirndina.

Einhver gæti bent á að í tilfelli íslam sé hegðun fylgjenda látin endurspeglast í spámanninum, en það eigi ekki við um hina. Þannig eigi Jesús frekar að vera með dollaramerki í augunum til að endurspegla gráðuga sjónvarpsprédikara eða vera með byssu og bandarískan fána til að sýna yfirgang Bandaríkjamanna í nafni kristni. Það getum við alveg tekið undir og hvetjum fólk til að teikna Jesús þannig sem mest og oftast þangað til sjónvarpsprédikun og stríðsrekstur í nafni kristni heyra sögunni til.

Málfrelsið á undir högg að sækja

Eins og tíundað var í greininni Guðlast og málfrelsi er umræðan um rétt fólks til að fjalla um trúarbrögð annarra með ýmsum hætti hreint ekki dauð úr öllum æðum og margir múslímar berjast enn sem harðast fyrir því að enginn vogi sér að teikna Múhameð spámann eða jafnvel skrifa um hann. Nýlegt dæmi er sagan af höfundum South Park þáttanna sem hugðust láta Múhameð ásamt fleiri trúarfígúrum koma fyrir í þætti númer 201. Þegar það fréttist að Múhameð kæmi fyrir í þættinum létu samtökin Revolution Muslim í það skína að það færi þá ekki vel fyrir þeim Trey Parker og Matt Stone. Málið fór þannig að Múhameð var ekki sýndur í þættinum og þykir mörgum málfrelsisunnandanum að ofbeldið og óréttlætið hafi þarna farið með sigur af hólmi.

Facebook-átakið Everybody Draw Mohammed Day er svar við þessum málalyktum hjá South Park og í fleiri viðlíka málum. Hugmyndin er sú að ef þúsundir manna teikna Múhameð geti harðlínu múslímar ekkert sagt, því þeir geti ekki hótað svo mörgum lífláti og staðið við það. Sú hugmynd að hópur fólks eigi að komast upp með að hóta teiknurum, rithöfundum og blaðamönnum lífláti fyrir að sýna ekki hugmyndum sinum þá virðingu að fjalla ekki um þær nema með hjartað í buxunum, er með öllu óásættanleg. Það getur ekki borgað sig að láta undan slíkri frekju, því eins og allir vita launar kálfur sjaldan ofeldið.

Áhrif trúarinnar

Það sem raunverulega gengur hér á og ætti að vera öllum áhyggjuefni er að múslímar tafsa sjálfir við að mótmæla þessari hegðun innan eigin raða, að því marki sem þarf til að hún gufi upp. Það kemur m.a. til af því að í þeim blundar sú hugmynd að afleiðingar ofbeldisins séu vilji Allah. Múhameð hafi verið fullkominn maður og það segir í hadíðunum að ekki eigi að teikna hann. Það geti því ekki verið annað en rétt - og ekki vantar nú yfirlýsingarnar í Kóraninn sem skilja má þannig að hóta eigi fólki ofbeldi og myrða sem fer gegn vilja Allah.

Margt trúað fólk af öðrum meiði getur síðan innst inni heldur ekki alveg hafnað réttmæti þessara hugmynda, því það trúir sjálft á almáttugan og óskeikulan guð sem fyrirskipar ákveðna hegðun. Það verður því sjálft að viðurkenna að skilyrðislaus hlýðni við trúarlegan boðskap er að einhverju leyti skiljanlegt og eðlilegt val og það litar afstöðu þess fólks til málsins.

Afleiðingar þöggunar

Verði það niðurstaðan að heimurinn láti undan ofbeldi öfgafullu múslímanna verður múslímum öllum ljóst að þeirra trúarbrögð njóti þeirrar sérstöðu að enginn þorir að gagnrýna þau, sem aftur mun ýta undir hégómalegar og keðjuverkandi hugmyndir um að trúarbrögðin séu sönn og Allah sé að redda málunum - þetta ástand sé því vilji guðs og allt eins og það eigi að vera.

Múslímsku ríkin 57 í OIC samtökunum hafa unnið að því hörðum höndum síðustu ár að fá Sameinuðu þjóðirnar til að fallast á að skilgreina hverskonar guðlast um allan heim sem brot gegn alþjóðalögum, sem vitaskuld er liður í að hefta mál- og tjáningarfrelsi heimsins þegar að umfjöllun um trúarbrögð kemur. Það er því ljóst að viljinn fyrir þöggun og banni við gagnrýni á trúarlega hegðun er mikill.

Múslímar heimsins telja orðið á annan milljarð manna og stór hluti þeirra álíta trúarbrögð sín samofin lífsmynstri sínu og telja þau hafa áhrif á sérhverja ákvörðun sína. Það má því vera ljóst að um þennan fimmta hluti mannkynsins og trúarbrögð hans þarf að vera hægt að fjalla í máli og myndum, hvort sem um fræðslu eða gagnrýni af einhverju tagi er að ræða. Það er því algjörlega óverjandi hugmynd að þessi eini þjóðfélagshópur sé á einhvern hátt yfir umfjöllun og gagnrýni hafinn, hvort sem þess er krafist í skjóli meintrar trúarviðkvæmni eða annarrar sérvisku. Ekki síst þegar kröfunni um að sú sérviska sé virt er fylgt eftir með morðhótunum.

Friðsamleg mótmæli

Það verður að vera skýlaus afstaða okkar sem höfnum því að siðaboðskapur og hegðunarreglur komi frá misgáfulegum guðum manna, að virðing fyrir slíkum hugmyndum verði ekki fengin með ofbeldi og að þær verði auk þess aldrei undanþegnar gagnrýni. Eitt af því sem við og allir sem átta sig á mikilvægi tjáningarfrelsis getum gert til að mótmæla kúguninni er að teikna Múhameð út um allar trissur einu sinni á ári. Gerum það þó ekki svo ósmekklega að teikningarnar verði olía á eld öfgamanna og hjálpi þeim að æsa upp trúbræður sína.

Höldum því upp á 20. maí með því að teikna Múhameð ásamt öðrum trúarleiðtogum, þjóðarleiðtogum og minni spámönnum af öllu tagi. Það eru friðsamleg og eðlileg mótmæli við tjáningar- og skoðanakúgun. Látum fyrir alla muni ekki fréttast að við látum ofbeldisfulla fauta kúga okkur til hlýðni við guðina sína. Það hljótum við að þurfa að sýna þeim að kemur ekki til greina.

Gleðilegan Allir teikna Múhameð dag!

*Dawkins er að sjálfsögðu enginn spámaður trúlausra. Hann er bara hafður með til gamans.
Ritstjórn 19.05.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú , Tilkynning , Íslam )

Viðbrögð


Sveinn Þórhallsson - 19/05/10 10:17 #

Ég kaupi kríta í dag...


Þröstur Hrafnkelsson - 19/05/10 12:33 #

Gæti stefnt í það að yfirvöld í pakistan banni facebook að hluta eða öllu leyti út af þessu öllu saman.

http://maboot.com/facebook-to-be-banned-in-pakistan-over-everybody-draw-muhammamd-day-fan-page/533/


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 19/05/10 13:10 #

Gæti stefnt í það að yfirvöld í pakistan banni facebook að hluta eða öllu leyti út af þessu öllu saman.

Mögnuð þróun mála. Og sjáið líka athugasemdirnar á síðunni sem Þröstur bendir á. Menn kalla þetta skilyrðislaust "mógðun við trúarbrögð sín", hvort sem um broskarla eða annað er ræða.


Svanur Sigurbjörnsson - 20/05/10 13:01 #

Flott grein og þörf!


Múhameð teiknari nr 1 - 20/05/10 14:53 #

Jæja, eigum við að ríða á vaðið? Svona sá Picasso kallinn fyrir sér:

Hann nefndi myndina Seated Prophet without Wrist Watch.

Næsti!


Svanur Sigurbjörnsson - 20/05/10 15:05 #

Hæ Ég skellti upp einni teiknimynd af höfðingjanum. http://blog.eyjan.is/svanurmd/2010/05/20/teiknum-mumhamed-dagurinn-i-dag-min-mynd/


Rebekka - 20/05/10 15:25 #

Ég lét mitt ekki eftir liggja

Mín mynd af spámanninum Múhameð.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/05/10 15:40 #

Ég þori alls ekki að teikna Múhameð og gerðist því múslimi í einn dag. Þetta er alls ekki mynd af Múhameð. Alls ekki.


Svektur - 20/05/10 17:29 #

Myndin sem þið gerðuð af Múhammeð er mjög dónaleg mynd. Það er það sem er vandamálið. Bíðið bara þar til að Tamimi fær að sjá þetta rusl. Þið ættuð allavega að borga 500.000 kr í skaðabætur og sjá sóma ykkar í að taka þetta í burtu.

Vandamálið er ekki að þið séuð að teikna Múhammeð, heldur að þið eruð að ráðast á hann með dónalegri mynd! Þið eruð að reina að gera fólk reitt!

Ég ætla að segja vísir.is frá því hvaða dónalegu hluti þið eruð búin að gera hérna! Það er leiðinlegt hvað þið þurfið að vera barnaleg hér. Ég skammast mín fyrir ykkur.


Svektur - 20/05/10 17:30 #

Og eitt enn. Mér finnst þessi umræða farin að líkjast rasisma.


Björn Ómarsson - 20/05/10 19:42 #

Og eitt enn. Mér finnst þessi umræða farin að líkjast rasisma.

TRRRROOOOOLLLLLL!

En nóg af kjánaskap, hér er mitt framlag til málfrelsisins.


Björn Ómarsson - 20/05/10 19:48 #

Meira í tilefni dagsins (af reddit)


Jón Pétur - 20/05/10 20:00 #

Hérna er Múhamed ekki alveg búinn að mastera sprengjutæknina, en er samt með brúðina með sér.


Svektur - 20/05/10 23:21 #

Þið eruð bara að reina að gera fólk reitt. Til hvers þarf Múhammeð að hafa sprengju? Það er ekki hann sem er að sprengja sig.

Þetta eru í rauninni eins og ég segi áðan, bara fordómar.


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 20/05/10 23:30 #

@Svektur Þu ert að grínast er það ekki? Ef ekki, þá samhryggist ég. :(


Bryndís B - 21/05/10 00:24 #

Vitið þið akkúrat ekkert um Íslam? Það að gæta sanngirni felst ekki í því að teikna alla: Það er bannið gegn teikningu á Múhammeð sem þið eruð að ráðast gagngert að. Það er ekki bannað, á okkar dögum, að teikna hina trúarleiðtogana - þótt þeir eigi að vera eitthvað fyndnir.

Múslimar vilja ekki líkamsgera spámanninn, vilja ekki að "mynd" af honum komi í stað "hans". Það er alveg týpískt að vesturlandabúar geti ekki skilið þetta enda svo póst-módernískir og kapítalískir að ekkert er til - nema það sjáist á mynd og googlist.

Til hamingju með Ofurraunveruleikann ykkar! Endilega reynið að pranga honum inn í Íslam!


Sveinn Þórhallsson - 21/05/10 00:27 #

Ég kann ekki að gera hlekki hér, svo þið verðið bara að c/p ef ykkur langar að skoða mitt innlegg:

http://sth81.blogspot.com/2010/05/blog-post.html

@Bryndís - þú getur bókað það að félagsmenn Vantrúar séu flestir allt annað en "póst-módernískir".


Frosti Logason - 21/05/10 00:29 #

hér er mitt framlag:
http://blogg.visir.is/frostiloga/2010/05/20/allir-teikna-muhameð-dagurinn/


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/05/10 02:47 #

Bryndís, eiga trúarsetningar einhverra trúarbragða að ná út fyrir þau og yfir allt, líka til þeirra sem ekki aðhyllast þau? Í íslam er t.d. líka bannað að drekka áfengi. Ætlarðu að hlýða því því líka?


Jón Pétur - 21/05/10 07:28 #

Svektur, það er ÉG sem er svekktur yfir því að hægt sé að plata unga menn og konur til að sprengja sig í loft upp út af einhverri bull sögu. Ég er svekktur yfir yfirgengilegu ofbeldi og kúgun á kvenfólki út af bull sögunni, ég er svekktur yfir innrætingu ungs fólks á bullinu og um leið vísindaafneitun og bjögun á raunveruleikanum til að bullið standist. Ég læt allavega ekki kúga mig.

Guðlast er glæpur án fórnarlambs.


skaikill - 21/05/10 10:41 #

Eins og ég sé þetta þá finnst mér að fólk eigi að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars og ekki æsa sig upp vegna þess að einhver er ekki á sömu skoðun og þú.

Ég reyni að vera kurteis við annað fólk alveg sama hversu dónalegt það er við mig og ég get ekki séð hvað er að því ef einhver er ósammála skoðunum mínum, það verður bara að vera þannig.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/05/10 11:04 #

Nei. Fólk á ekki að bera virðingu fyrir skoðunum hvers annars, því sumar skoðanir geta verið svo frámunalega vitlausar og yfirgengilega fordómafullar að þær geta beinlínis verið hættulegar, jafnvel skaðlegar samfélaginu og eiga ekki skilið neina virðingu, og í þeim tilvikum ætti það að vera borgaraleg skylda hvers manns að gagnrýna og setja útá þesskonar skoðanir.


Pétur (meðlimur í Vantrú) - 21/05/10 11:53 #

Ýmsir virðast misskilja þetta og halda að þessu sé beint gegn íslömsku banni við myndum af Múhammeð. Sannleikurinn er sá að okkur er alveg sama um þess háttar kreðsur. Ef múslímar vilja ekki teikna myndir af Múhammeð þá er þeim það frjálst, og það kemur okkur ekkert við. Þessum teikna Múhammeð degi er beint að öfgakenndum viðbrögðum herskárra múslíma við teikningum af spámanninum. Okkur finnst ótækt að ofbeldishótanir hafi áhrif á það hvað megi segja, gera eða sýna í vestrænu samfélagi. Það er það sem við erum ósátt við.


Jón Frímann - 21/05/10 12:42 #

Ég kann ekki að teikna, svo að ég fann bara mynd af Mohammed sem var teiknuð á 15 öld.

http://www.jonfr.com/?p=4013


Andrés - 21/05/10 13:52 #

Ég gerðist svo grófur að taka þátt í þessum degi.

http://www.facebook.com/?ref=logo#!/photo.php?pid=4338905&id=696469005

Annars er einmitt málið að reglan sem múslimar eru að missa sig yfir snýst einmitt um það að það megi ekki gera líkneski til að tilbiðja, af spámanninum, guði eða hverju. Það má ekki reyna að gefa þeim líkamlega nærveru til að beina tilbeiðslu að.

Þess vegna er fáránlegt að það sé bannað að teikna bara venjulega mynd, eða jafnvel skopmynd, sem engum er ætlað að tilbiðja. Það er kannski viss óvirðing, ef maður horfir á það í því ljósi, en það er ekki brot á grundvallarreglunni sem þeir eru að missa sig yfir sem er að það sé bannað að búa til líkneski.

Ég get svo annars tekið undir það að það sé óþarfi að teikna Múhammeð sem sprengjumann, hann var ekki terroristi sem slíkt, meira bara svona herjarl með sverð. Ekki endilega betra, mér finnst bara að rétt skuli vera rétt, sérstaklega ef maður vill halda sig við hærri veginn. (ok, reyndar fjandi erfitt að glata honum þegar andstæðingurinn vílar ekki fyrir sér að hóta morði og öllu illu, en samt)


Arnar Magnússon - 21/05/10 16:06 #

Bryndís hvernig væri að rannsaka hlutina í staðinn fyrir að bulla. http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=2841

Annar hvort súnnítum eða sjíta-múslimar leyfa teikningu á Múhameð. Þess vegna ertu seldar teikningar af honum í Íran.


Svektur - 21/05/10 16:46 #

Þessi dónalega síða ætti frekar að heita rasismi.is eða dónatrú.is.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/05/10 16:47 #

Hættu þessu nú. Gefðu upp rétt nafn eða löglegt póstfang ef þú ætlar að senda fleiri athugasemdir hingað.


Arnar Magnússon - 21/05/10 17:19 #

Matti best að hunsa svona kjána sem vita ekki muninn á rasisma og trúarbjörgð.


gimbi - 22/05/10 02:42 #

..eru verðlaun fyrir bestu teikninguna?

Ísaumuð barmmerki?


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/05/10 22:12 #

Aðeins of seint, kannski, en hér er linkur á veggskreytingu frá Íran sem sýnir spámanninn sjálfan:

http://www.binntho.net/filer/mohamed.jpg


Bjarki - 22/05/10 23:22 #

Þessi Múhameðsteikningamál eru furðuleg. Það er eins og öllum, bæði múslimum og öðrum, hafi verið skítsama um myndir af spámanninum allt fram til 2005. South Park þátturinn 'Super Best Friends' frá 2001 birti t.d. Múhameð í hlutverki ofurhetju án þess að það vekti sérstaka athygli eða deilur. Þegar dönsku teikningarnar birtust svo, þá liðu nokkrir mánuðir áður en lætin byrjuðu í Miðausturlöndum. Það þurfti vel skipulagða lygaherferð danskra ímama og skipun að ofan til að segja: "Öööö já já við skulum vera ógeðslega brjálaðir útaf þessu" áður en nokkur læti urðu. Fram að því, vissi enginn almennur múslimi í arabalöndum að hann ætti að taka nærri sér að spámaðurinn væri teiknaður af heiðingja í útlöndum. Allt þetta dæmi var svo mikill tilbúningur og della að maður fær svakalegan kjánahroll af því að hugsa um það. Það versta var að einfaldir kurteisisfíklar á vesturlöndum skuli hafa gengið í gildruna og verið sjálfir miklu mógðaðri útaf þessu öllu en múslimaheimurinn var nokkurntíman.

Þessi munur á milli súnníta og sjíta hvað varðar myndbirtingar af spámanninum kórónar svo hálfvitaganginn. Ef súnnítar geta þolað það í margar aldir að sjítar gefi skít í þetta boðorð um að það megi ekki "líkamsgera spámanninn" eins og Bryndís orðaði það, þá skil ég ekki af hverju það á allt að verða vitlaust þegar einhverjir heiðnir skandinavar á hjara veraldar brjóta þessa gervireglu.


Innkaup - 23/05/10 12:24 #

Mesta kjaftæði sem ég hef lesið. Ég hef alltaf haft þá skoðun að þessi síða sé sorpsíða. þetta er ekki í fyrsta skipti sem þið komið með svona ábyrgðarlausar og heimskulegar forsíðu. Það er eiginlega á hverjum einasta degi sem röklausar forsíður koma í ljós á þessari síðu reglulega

Ég er að spá að gera undirskriftalista fyrir þá sem vilja að sjoppur eins og þessi síða hætti bulla og fokka í fólki


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/05/10 13:35 #

Innkaup: Flottur.... safnaðu í lista!!


Oskar - 23/05/10 14:02 #

@ inkaup :

Bruce


Einar (meðlimur í Vantrú) - 25/05/10 17:57 #

Flottar myndir :O)

En mikið eru þetta fyndnar athugasemdir hér fyrir ofan. Einn er svekktur en kann þó ekki að stafa það, öðrum finnst þessi síða sorp og ætlar að safna undirskriftum. Gangi honum vel með það.

Alveg merkilegt hvað einhverjar teiknaðar myndir geta valdið miklu áfalli og reiði jafnvel hjá fólki.

Það sem mér finnst gott við þennan teikna múhameð dag, er að þetta eru m.a mótmæli á það að þeir sem hafa teiknað myndir af spámanninum, hafi fengið morðhótanir í tuga ef ekki hundruðatali. Sem er algjörlega óásættanleg hegðun. Þannig að ef allir teikna múhameð, að þá er það ágætis svar við þessum öfgum, því varla er hægt að drepa alla. Þótt sumir þeirra reyndar hafi það á stefnuskránni, en það er annað mál.


skækill - 25/05/10 21:34 #

Mér finnst nokkuðu merkilegt og er svolítið forvitin, hvers vegna Móses sem varð nú 900 hundrum og eitthvað ár er ekki með á myndinni.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 25/05/10 22:28 #

Móses er væntanlega ekki með vegna þess að enginn veit fyrir víst hvernig hann leit út (allra síst þegar hann komst yfir 900 árin), nema hvað hann var auðvitað með horn.


Skækill - 25/05/10 22:45 #

Hefði það ekki verið fín teikning kall með horn eins og Michelangelo gerði á sínum tíma. Kanski á næsta Múhameðs degi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.