Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestalógík: Siðblinda - Siðmennt

Síðustu ár hefur ein vinsælasta vörn ríkiskirkjumanna verið sú að tengja saman trúleysi og efnishyggju í ræðu og riti. Þá erum við ekki að tala um efnishyggju í þeirri merkingu að efni sé undirstaða alls, heldur þá áráttu mannskepnunnar að safna auði. Eftir hrun hefur ríkiskirkjufólk æ oftar notað þessa tvíræðni orðsins til að sverta trúleysingja, tilgangurinn virðist sá einn að ala á fordómum gegn þeim sem ekki aðhyllast kristna trú. Þó er alveg ljóst að þeir sem aðhyllast ekki kristni eru á engan hátt líklegri til að ásækjast veraldlegar eigur. Lítið bara í kringum ykkur, sjáið þið einhvern mun?

Ólafur Þ. Hallgrímsson hefur látið af störfum sem sóknarprestur vegna aldurs en prédikar boðskap sinn enn, nú síðast í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Við skulum kíkja á orð eftirlaunaríkiskirkjuprestsins.

Siðblinda - Siðmennt

Ólafur Þ. Hallgrímsson

Í FRÉTTAAUKANUM í Sjónvarpinu 10. janúar voru viðmælendur Elínar Hirst tvær konur, geðlæknir og sálfræðingur, og umræðuefnið var siðblinda.

Siðblinda getur birst í því, að menn þekkja ekki mun á réttu og röngu, skortir siðferðileg viðmið í mikilvægum álitamálum, sem snerta líf og samfélag. Konurnar töldu að siðblindu mætti heimfæra undir persónuleikaröskun og sjúkleg einkenni. Græðgi og siðblinda færu oftast saman, eins og komið hefur berlega í ljós í efnahagshruninu á Íslandi, þar sem öll meðul, leyfileg og ólögleg, voru notuð til að auðgast og skara eld að eigin köku, án tillits til þess hvaða afleiðingar það hefði fyrir samfélagið í heild.

Við Íslendingar erum kristin þjóð og sækjum okkar siðferðilega grundvöll að stærstum hluta til kristinnar trúar og trúararfleifðar.

Við erum fædd og alin upp í kristnu samfélagi og ósjálfrátt mótuð af því, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Í hinn kristna menningararf sækjum við viðmiðin, fyrir því, hvað sé rétt og röng breytni, að eitt sé rétt en annað rangt. Þar er fasti punkturinn í lífinu, sem ekki breytist né bifast, hvernig svo sem tíðarandinn byltist og veltist.

Það ber vissulega hæst hin 10 boðorð Guðs, Móseboðorðin, umferðarreglur mannlífsins, eins og þau eru nefnd. Boðorðin 10 eru bæði boð og bönn. Þú skalt, þú skalt ekki. - Ég er Drottinn Guð þinn, þú skalt ekki aðra guði hafa.

Aðrir guðir eru svonefndir hjáguðir. Þar eru peningar og auður í efsta sæti. Peningar bjóða græðginni heim, eru undirrót græðginnar, og græðgin verður aldrei södd, sama hve mikið hún fær.

Þú skalt ekki mann deyða, stela, ljúga eða girnast eigur annarra. Og öll eru þessi boðorð dregin saman af Jesú í tvíþætta kærleiksboðorðinu: Elska skaltu Guð og náunga þinn. Hér er skýrt talað og sett fram þau viðmið, sem flest okkar hafa á það, hvað sé rétt og rangt. Rétt er það sem Guð vill og býður, rangt það sem brýtur gegn vilja Guðs. Það nefnir Biblían synd.

Atburðir síðustu missera í landi okkar gætu bent til þess, að menn þekki ekki nógu vel þennan mun á réttu og röngu. Þar hef ég ekki aðeins í huga útrásarvíkingana svonefndu, sem vissulega bera þyngstu ábyrgð á því, hvernig komið er. Stór hluti þjóðarinnar tók þátt í dansinum kringum gullkálfinn, kannski við öll. Spilaborgin hrundi, hjá því gat ekki farið.

Því má með nokkrum sanni segja, að vandamál okkar nú um stundir séu ekki síður siðferðilegs eðlis en efnahagsleg. Getur verið, að þau haldist að einhverju leyti í hendur við það, að Guðs orð skipi ekki sama sess í þjóðlífinu og það áður hafði. Að gömlu gildin um heiðarleika, drengskap og nægjusemi séu farin að rykfalla, að þau þyki úrelt og ekki fín lengur. Að við höfum leiðst inn á villuveg græðgi og eftirsóknar eftir hégóma.

Að við séum hætt að spyrja um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin, og fara hana, eins og spámaðurinn Jeremía segir (Jerem. 6:16) Hvað er þá til ráða? Ráðið er hið sama og á dögum Jeremía. Hann hvatti þjóð sína til að snúa frá villu síns vegar og leita Guðs. Viljum við það?

Á síðustu árum hefur risið upp hreyfing í landinu, sem nefnir sig Siðmennt.

Siðmennt leggur áherslu á upplýsingu og frelsi á öllum sviðum, svo mikið frelsi, að ekki má kenna börnum í leik- og grunnskólum bænir og vers eða láta þau syngja um Jesú. Það er skerðing á frelsi og nefnist trúboð að mati Siðmenntar, og trúboð má ekki reka í skólum kostuðum af ríkisfé. Það verður að gera öllum trúarbrögðum jafnt undir höfði. Þar má kristindómurinn ekki njóta neinna forréttinda, jafnvel þótt nærri 90 % þjóðarinnar játi kristna trú. Allt skal vera jafnt, ekkert öðru æðra eða meira. En nokkrum spurningum þurfa Siðmenntarmenn að svara. Telja þeir, að ung börn hafi slæmt af því að þeim sé sagt frá Jesú, barnavininum mesta og besta? Getur eitthvað annað komið í hans stað, sem grundvöllur og viðmið siðgæðis okkar, og hvað er það þá? Er það leiðin til að betrumbæta samfélagið að draga enn frekar úr áhrifum kristindómsins þar, nú þegar við stöndum á rústum græðginnar og villuljósanna, sem leitt hafa ófarnað yfir þjóðina? Kæra Siðmenntarfólk, þetta er ekki siðmennt, heldur einhvers konar siðblinda. Af henni höfum við nóg. Þjóðin þarf í sameiningu að finna veginn út úr ógöngunum, þrönga veginn, veginn til lífsins, veg Jesú Krists, sem sjálfur er »vegurinn, sannleikurinn og lífið«. (Jóh. 14). Sé hann ekki með í för er hætt við að öll viðleitni okkar til að byggja upp nýtt og réttlátara Ísland verði unnin fyrir gýg. Spyrjum um gömlu göturnar og förum þær, því þær eru hamingjuleið einstaklinga og þjóðar.

Orðið er laust. Hvað finnst ykkur um þennan málflutning?

Ritstjórn 20.03.2010
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Kristinn (meðlimur í Vantrú) - 20/03/10 20:15 #

Ég setti saman smá pistil um málið.

Áhugasamir geta smellt hér: Um Siðmennt og pistil Sr. Ólafs Þ. Hallgrímssonar í Morgunblaðinu


Hanna Lára - 20/03/10 20:18 #

Trúlaust fólk, eins við í Vantrú, erum semsagt siðlaus. Líklega vond líka og ef til vill geðbiluð. Það erum auðvitað við, sem erum alltaf í fréttunumí í fýlu út af brauðum sem deilt er samkvæmt biskupsins boði, káfandi á stúlkubörnum og annað þaðan af verra. Við erum sífellt að rífast og skammast hvert út í annað, er það ekki? Heilu sóknarnefndirnar í ströggli út af okkur. En svo fáum við líka á hverjum morgni að fara með 'rugl' í ríkisútvarpið. Fundum okkar er útvarpað á hverjum sunnudegi. Við söfnum gríðarlegum fjármunum hérna megin grafar, því við vitum auðvitað að auðinn förum við ekki með okkur yfir móðuna miklu. Ekki satt? Greinilega er ekki sama Jón og séra Jón. Manni dettur helst í hug að spyrja: Hver er hér í glerhúsi með grjót í krumlum.

"Trúarbrögð eru af hinum einfalda manni talin sannleikur, af hinum vitra manni talin lygi en af ráðamönnum talið nytsamlegt." (Seneka eldri)


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 20/03/10 20:23 #

Þetta er nú eiginlega svo vitlaust á svo mörgum hæðum að það er varla að maður viti hvar á að byrja.

Stóru mótsagnirnar eru auðvitað að "við erum kristið samfélag, það er fasti punkturinn, 90% eru kristin". 90% held ég að sé nú reyndar víðsfjarri en samkvæmt hans skilgreiningu þá var það nú einmitt þessi kristna þjóð sem að hans mati hagaði sér verulega illa að hans mati. Þannig að rökrétt niðurstaða hans ætti auðvitað að vera að eitthvað mikið væri að þessu kristna siðferði.

En, auðvitað, rökhugsun er auðvitað ekki alltaf styrkur heitustu talsmanna kristninnar.

Hitt er, að hann gerir siðblindu að umtalsefni. Siðblinda er í stuttu máli, að einhverju einfölduðu leyti, td. afleiðsing af því að geta ekki sett sig í spor annarra.

Ég velti fyrir mér hvort hann geti sett sig í spor annarra þegar kemur að trúboði í skólum? Ætli hann væri sáttur við að meðlimum hans fjölskyldu væri gert að láta troða bænum, skilgreiningum og trú annarra ofan í sig ef hann væri í öðru menningarsamfélagi?


Óli Jón - 20/03/10 20:24 #

Mér þykir höfundur vera duglegur að velja úr bestu berin fyrir sig, sbr. eftirfarandi:

"Við erum fædd og alin upp í kristnu samfélagi og ósjálfrátt mótuð af því, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki. Í hinn kristna menningararf sækjum við viðmiðin, fyrir því, hvað sé rétt og röng breytni, að eitt sé rétt en annað rangt. Þar er fasti punkturinn í lífinu, sem ekki breytist né bifast, hvernig svo sem tíðarandinn byltist og veltist."

Gefum okkur að þetta sé satt og rétt, hvers vegna er þá ekki hægt að skrifa meint hnignun í siðferði á þessa kristnu trú? Af hverju afvegaleiðast kristnir menn sökum vélabragða hjáguða en ekki vegna bresta í trúarkerfi þeirra?

En að efni greinarinnar. Enn og aftur hryggir það mig hversu lítil trú trúaðra er þegar þeir telja að trú þeirra muni gufa upp ef ekki er hægt að boða hana í leik- og grunnskólum? Þeir virðast ekki treysta sér til þess að sjá um þetta verkefni sjálfir, en í hugum alvöru trúaðs fólks ætti trúarlega uppfræðsla barna þeirra að vera það verkefni sem þeir vilja hvað helst sinna sjálfir, einir og sér. Nei, þeir vilja helst útvista þetta til skólanna, en þar hefur þrengst um, máské að hluta til fyrir tilstuðlan Siðmenntar.

En það er sorglegt að erindreki Ríkiskirkjunnar skuli hnýta í hin góðu samtök, Siðmennt. Hann ætti frekar að beina augum út í samfélagið almennt, því fylgi við Ríkiskirkjuna hefur hríðfallið á undanförnum árum og það er helst orsök þess að verið er að meina henni sjálftöku í leikskólum landsins.

Þar ber hún mesta sök, ekki Siðmennt!


baldur freyr - 20/03/10 20:33 #

þetta var nú bara ein af tveimur trúarlegum kjaftæðisgreinum sem prýddu helgarmoggann að þessu sinni, hin var sínu verri og skrifuð af manni sem titlar sig rithöfund og "áhugamann um lífið". Maður beið eftir því, við lestur greinarinnar, að þegar bundnu máli sleppti þá kæmi i ljós einhver tilgangur með skrifunum, alas þá var það bjartsýni því hún reyndist svo gersamlega laus við alla þjóðfélagsrýni eða gagnrýna hugsun yfir höfuð að leitun er eftir öðru eins. Þarna kemur i ljós verðmiðinn við að búa við prentfrelsi.


Valtýr Kári Finnsson - 20/03/10 20:42 #

"En nokkrum spurningum þurfa Siðmenntarmenn að svara."

Nú er ég ekki meðlinur í Siðmennt (eða Vantrú) en endilega skjóttu!

"Telja þeir, að ung börn hafi slæmt af því að þeim sé sagt frá Jesú, barnavininum mesta og besta?"

Í stuttu máli sagt þá er jesú ekki vandamálið, ekki frekar en jólasveinninn, páskahérinn (eða hænan, þetta eru jú egg?) eða einhyrningar. Vandamálið er að fólkið sem er að segja þessar sögur er ekki treystandi til að vinna með börnum.

"Getur eitthvað annað komið í hans stað, sem grundvöllur og viðmið siðgæðis okkar, og hvað er það þá?"

Jesú, eða hvaða önnur goðsagnapersóna sem er, er ekki grundvöllur og viðmið siðgæðis okkar. Hver sá sem hefur tekið áfánga í félags- eða sálfræði í framhaldsskóla eða er bara með bókasafnskort ætti að vita það. Eða jafnvel bara með aðgang að internetinu. Endilega flettu þessu upp.

"Er það leiðin til að betrumbæta samfélagið að draga enn frekar úr áhrifum kristindómsins þar, nú þegar við stöndum á rústum græðginnar og villuljósanna, sem leitt hafa ófarnað yfir þjóðina?"

Endilega já. Að draga úr áhrifum hjátrúar og vitleysu er ávalt gott, sama hvað annað er í gangi í samfélaginu á sama tíma.


Valtýr Kári Finnsson - 20/03/10 20:44 #

Hvernig virkar þessi helvítis Markdown ritháttur, er ekki hægt að hafa einfaldar leiðbeiningar hér fyrir svona trega einstaklinga einsog mig?

Þó ekki nema bara einfalda hluti einsog tilvitnun og feitletrun.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 20/03/10 20:58 #

:D

Svona hornklofa > á undan málsgrein

og tvær af þessu * til að feitletra, bæði fyrir framan og eftir það sem þú vilt feitletra.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/03/10 22:12 #

Spyrjum um gömlu göturnar og förum þær, því þær eru hamingjuleið einstaklinga og þjóðar.

Og aldrei var hamingjan meiri en þegar kirka og kristni réði lögum og lofum... á myrkum miðöldum.


Valtýr Kári Finnsson - 21/03/10 04:10 #

Takk Trausti, ég verða að reyna að læra þetta.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 21/03/10 11:31 #

Þessi predikun er sem bergmál aftan úr bronsöld og uppfull af miðaldahótunum. Bæði sorgleg og sjúkleg. Ég vil votta guðfræðideild Háskóla Íslands, biskupi og prestum, einnig öllum í kirkjunni samúð mína. Ef ekki kemur harðorð svargrein frá kirkjunni, biskup eða hans aðstoðar mönnum strax í næstu viku þá er það óendanlegt hneyksli. Þögn er sama og samþykki í þessu máli.


Magnús Pétursson - 21/03/10 13:47 #

Er ekki rétt að skilja greinina sem svo að Ólafur leggi að jöfnu trúleysi og siðleysi, og ásaki þannig stóran hóp manna um siðleysi? Er hann ekki kominn skemmtilega nálægt ærumeiðingum skv. lögum?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/03/10 16:30 #

Magnús, það er hefð að drulla yfir trúleysingja og sú íþrótt er kennd í Háskóla Íslands.

Hins vegar telst það lögbröt að skopast að ranghugmyndum þessara manna.


Einar Karl - 21/03/10 17:50 #

Smekklegt hjá presti, eða hitt þó heldur, að tengja umræðu um siðblindu beint við samtök siðrænna húmanista.

Með svipuðum hætti mætti tengja saman umræðu t.d. um Breiðavíkurmálið við kirkjuna, svona í ljósi frétta af því hvernig kynferðisleg misnotkun á börnum grasseraði í kaþólsku kirkjunni mjög víða. Nú svo ekki sé minnst á Byrgið...

Er kirkjan hvati að kynferðislegu ofbeldi?

Svona mætti spyrja, ef við viljum fara niður á plan greinarhöfundarins, eftirlaunaprestsins.


Skækill - 21/03/10 20:21 #

Nú sé ég að því er haldið fram hér af nokkrum aðilum að prestar hafi aðgang af grunnskólum og leikskólum landsins. Er þetta rétt eru ekki kennaramenntaði einstaklingar að kenna um trúarbrögðin og þá er kennt um trúarbrögðin á hlutlausan hátt.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/03/10 20:26 #

Skækill, við erum ekki að tala um kristinfræði/trúarbragðafræði (þó svo að það þurfi vissulega að bæta hana), heldur eru prestar t.d. að heimsækja leikskóla reglubundið og stunda trúboð þar, kenna börnunum meðal annars hvernig eigi að "tala við guð".


skækill - 21/03/10 23:34 #

Sæll Hjalti og takk fyrir svarið, en mig langar að spyrja þig veistu til þess að prestar fái að koma inní grunnskólana til þess að predika. Er ekki trúboði haldið frá skólunum og er ekki aðeins kennarinn sem sér um trúarbragðarkennsluna.

Ég veit að þessi trúarbragðarkennsla er mjög mismunandi eftir skólum og fer mjög eftir því hvaða kennari er að kenna þetta fag. En ég veit ekki til þess að prestar séu endilega að predika eitthvað trúboð í grunnskólanum og ef prestur er að kenna trúarbragðarkennsluna þá ber honum að kenna þetta fag á hlutlausan hátt.


Jón Steinar - 22/03/10 04:49 #

Fyrir þá sem sáu Jesus Camp, þá er nákvæmlega sama málið í gangi hér, bæði hjá þjóðkirkjunni og í söfnuðum landsins. Að vísu ekki alltaf jafn hysterískt, en í grundvallaratriðum það sama. Sé lítinn mun á því að seilast með þeim hætti inn í ómótuð hugskot, en að seilast ofan í brók. Í alvöru talað. Fabúlan og fagurgalinn um Jesú er bara lykillinn þar inn með subbulegri markmið. Svona eins og brjóstsykurinn er hjálplegur perranum í sinni nálgun.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/03/10 07:59 #

skækill, það fer eftir því hvað þú átt við með að "predika". Ef við tölum sérstaklega um grunnskóla, þá held ég að Vinaleið sé besta dæmið, þar sem kirkjan er að vinna í því að koma á fót sérstökum skólaprestum og skóladjáknum. Ef þú hefur tíma þá bendi ég þér á gott dæmi úr leikskóla, leikskólapresturinn.

En auðvitað á ekkert trúboð að eiga sér stað innan skólanna, kirkjan segist stundum vera sammála því, en það er oft lítið að marka orð Þjóðkirkjunnar.


skækill - 22/03/10 10:28 #

Já ég er farin að skilja aðeins betur afstöðu þína þá sérstaklega í leikskólum. Ég er farinn að hugsa um það hversu eðlilegt er að kenna kristinfræði í yngri bekkjum og hvers vegna er ekki kennt um hin trúarbrögðin í yngri bekjunum ef á yfir höfuð að kenna um trúarbrögðin.

Einnig hugsa ég um hvort sé best að byrja að kenna um trúarbrögðin í unglingadeild en ég er fylgjandi því að nemendum er kennt um trúarbrögðin þannig að þau hafi þekkingu á þessum helstu eða stærstu trúarbrögðum.

Ég var trúaður en því meira sem ég læri um trúarbrögðin því meira missti ég trúna á þessu.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 22/03/10 10:32 #

Já ég er farin að skilja aðeins betur afstöðu þína þá sérstaklega í leikskólum. Ég er farinn að hugsa um það hversu eðlilegt er að kenna kristinfræði í yngri bekkjum og hvers vegna er ekki kennt um hin trúarbrögðin í yngri bekjunum ef á yfir höfuð að kenna um trúarbrögðin.

Frábært. Ég er sammála því að þessi kristinfræði í yngstu bekkjunum er afskaplega vafasöm. Opinberlega þá er ástæðan sú að það er svo mikilvægt að kunna þessar sögur til að skilja menningu og sögu Íslands. En ég skil ekki af hverju börnin geti ekki lært þetta um leið og þau læra t.d. Íslendingasögurnar og sögurnar af norrænu guðunum. Svo er líka merkilegt að það er ekki kennt neitt (amk afskaplega lítið) ljótt um Jesú, t.d. að hann hafi rætt um helvíti og heimsendi.


Oddur - 23/03/10 14:20 #

það er ekki hægt annað en að hlægja smá að karlinum. 90% landsmanna eiga vera Kristnir og vandamál þjóðarinnar er siðblinda.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.