Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugur og hönd

Ein fyrsta frétt ársins var af brotnum rúðum í Grensáskirkju á nýársnótt. Menn blogguðu um "siðræna úrkynjun" og "subbulegar árásir á þjóðkirkjuna" og prestur einn fór mikinn og sagði um níðingsverk að ræða sem beindist að "öllu hjálpar- og félagsstarfi" ríkiskirkjunnar. Biskup tók dýpra í árinni í nýársprédikun og sagði að með þessum skemmdarverkum væri „vegið að grunnstoðum samfélagsins“. En rúða er bara rúða og ekki minnist ég þess að nokkur hafi talið ótal rúðubrot í skólum til þessa merki um níðingsverk gegn menntun í landinu og þaðan af síður að þar hafi verið vegið að grunnstoðum samfélagsins.

En í sömu frétt af nýársnótt var líka greint frá því að lögreglan hafi þurft að hafa afskipti af heimilisofbeldi, slagsmálum og eignaspjöllum um borg og bý. Ætli heimilisofbeldi þyki ekki orðið svo hversdagslegt að kirkjunnar menn kippa sér ekki upp við það? Hvort skiptir meira máli, rúða eða ræna?

Húðflúruð trúarinnræting

Fimmta janúar birtist síðan frétt um foreldra í Bandaríkjunum sem sæta nú ákæru fyrir að hafa húðflúrað krossa á handarbök barna sinna. En... handarbak er bara handarbak. Hvað þekkjum við mörg dæmi um hroðalega trúarinnrætingu barna? Fáir treysta sér til að mæla slíkum heilaþvotti mót. Reyndar eru það talin mannréttindi foreldra að mega ráða trúarlegu uppeldi barna sinna. Margur landinn hneykslaðist á að börn Halim Al og Soffíu Hansen voru látin læra Kóraninn í skólanum sínum og svo heyrum við sögur um Palestínumenn sem láta börn sín venjast sprengjubeltum í nafni trúarinnar.

En á þetta bara við um múslima? Stutt er síðan Ríkissjónvarpið sýndi þátt um kristnar sumarbúðir í Bandaríkjunum (Jesus-camp) þar sem börn voru svo sannarlega heilaþvegin til að gerast Kristsmenn, krossmenn og stríðsmenn í komandi trúarstyrjöld. Kristni styðst við sömu Biblíu og islam, þar sem guðinn murkar lífið úr andstæðingum sinnar útvöldu þjóðar og leggur blessun sína yfir að fangar óvinarins séu hnepptir í ánauð og dætur þeirra góss hinna útvöldu.

Þetta eru bara þessi skrýtnu útlönd!

En á þetta bara við um útlönd? Nei, við þekkjum dæmi um ofsatrúarfólk á Íslandi enn í dag sem telur Biblíuna óskeikult orð Guðs. Þótt kristnin sé vonandi öllu mildari en þegar börn grétu sig í svefn hér í gamla daga af ótta við kölska og helvíti, er textinn enn sá sami. Og þótt konum hafi tekist að sannfæra megnið af lúterskum kirkjum um að þær eigi að njóta sömu réttinda og karlar á það sama ekki við í kaþólskum söfnuðum. Og hér á landi mega samkynhneigðir enn una við að vera annars flokks borgarar þegar kemur að hjúskaparlögum, vegna tregðu ríkiskirkjunnar.

En skólarnir okkar eru þó hlutlausir, er það ekki? Því fer fjarri. Þótt trúarbragðafræði ætti að vera hluti af öllu grunnnámi nær engri átt að fyrstu árin í grunnskóla fái börnin aðeins að heyra um kristni, og það fullkomlega og algjörlega gagnrýnislaust. Á fyrstu vikum fyrsta bekkjar læra þau að guð hafi skapað himinn og jörð á sex dögum og svo framvegis án nokkurs fyrirvara eða mótvægis.

Verra er þó að svo margir skólastjórnendur og kennarar eru svo gjörsamlega samdauna því samkrulli ríkis og kirkju sem hér er við lýði að þeir halda að ekkert sé athugavert við að hampa kristnum bænum, ljóðum, söngvum og hátíðum sem sjálfsögðum hlut. „Við erum kristin þjóð.“ „Við höldum páska vegna þess að...“ „Á jólunum fæddist Jesús, frelsari mannkyns, sonur drottins.“ Þeim er fyrirmunað að sjá nokkuð athugavert við þessa framsetningu. Sumir eru svo blindir að láta nemendur undirbúa messur í skólanum og senda svo allan hópinn til að sitja undir boðun prestsins þar. Skólasetning eða slit eru meira að segja stundum í kirkjum eða með blessun prests.

Rúða og ræna

En ekki nóg með það. Einhverra hluta vegna er prestum mikið í mun að komast í leikskóla og margir þeirra hafa þá yfirlýstu stefnu að vilja koma að presti eða djákna í hvern grunnskóla, sem starfsmanni skólans, sálnahirði.

Þeir sem þolað hafa heimilisofbeldi sjá gjörla hve meinlaus rúðubrot eru í samanburði. Þeir sem hafa mátt þola gegndarlausa trúarlega innrætingu barna sinna í skólum gegn vilja sínum sjá hve húðflúr á handarbak er meinlaust í samanburði. En meginþorri Íslendinga telur það þó sérvisku eina og stæla ef einhverjir furðufuglar voga sér að frábiðja börnum sínum beinan og óbeinan heilaþvott, jafnvel þótt það séu skýr mannréttindi þeirra að ráða trúarlegu uppeldi barna sinna og ríkisvaldinu beinlínis bannað að skipta sér af því.

Biskup og prestar taka þó steininn úr og úthrópa þá sem frábiðja sér trúarlegan áróður í skólum sem landráðamenn sem vilji grafa undan siðferði í landinu og menningu þjóðarinnar. Þessi staða er lygileg en sönn, því miður.

Reynir Harðarson 12.03.2010
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Birgir Hrafn Sigurðsson - 12/03/10 15:52 #

Flott grein, ótrúleg en sönn. Því miður.


Innkaup - 12/03/10 20:03 #

[Athugasemd færð á spjallið]


Vigfús Pálsson - 14/03/10 18:31 #

Aftur er kvartað yfir því hér á vef Vantrúar að hjálparsamtök starfi samkvæmt skipulagsskrá sinni. Nú er tekið fyrir ABC Barnahjálp.

Grein 2 í skipulagsskrá samtakanna hljóðar svo.

ABC BARNAHJÁLP er byggð á kristnum gildum með kærleiksboðorðin í huga að okkur beri að elska náungann eins og okkur sjálf og bera hvers annars byrðar þannig að við sýnum í verki að Guð er faðir föðurlausra og að hann réttir þeim hjálparhönd sem eru þurfandi og þjáðir.

Sklipulagsskráin er aðgengileg á síðu ABC. Sjá...

http://abc.is/ABChjalparstarf/UmABCbarnahjalp/Skipulagsskra/

Fyrst Reyni finnst rangt af ABC Barnahjálp að starfa samkvæmt skipulagsskrá sinni, þá ætti hann að láta til sín taka í starfi ABC og síðan beita áhrifum sínum til breytingar á skiplugsskrá ABC.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 14/03/10 19:09 #

Fyrst Reyni finnst rangt af ABC Barnahjálp að starfa samkvæmt skipulagsskrá sinni, þá ætti hann að láta til sín taka í starfi ABC og síðan beita áhrifum sínum til breytingar á skiplugsskrá ABC.

Velkominn í hóp þeirra sem geta ekki skilið skrifað orð.

Hvar segir Reynir að honum finnist rangt af ABC að starfa ekki samkvæmt skipulagsskrá sinni?

Tip: Áður en þú póstar aftur, lestu færslur Reynis. Og bara svona yfir höfuð lærðu að lesa áður en þú tjáir þig. Annars verða færslur þínar bara kómískar... eins og þessi.


Vigfús Pálsson - 14/03/10 20:06 #

Því miður þá urðu mér á þau mistök að setja athugasemd mína með röngum pistli Reynis. Það hlýtur að vera ástæðan fyrir því að Trausti flokkar mig með þeim sem geta ekki skilið ritað orð. En ef svo ólíklega vill til að svo sé ekki, þá leyfi ég mér að vina í skrif Reynis.

"Ég efast ekki um að ABC-barnahjálp vinnur margt gott starfið en ég verð að viðurkenna að ég kann engan veginn að meta trúboðsvinkilinn í starfinu og þrátt fyrir afneitun er augljóst af „vitnisburði“ að utan að hann er ekki lítill."


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/03/10 22:31 #

Hvort á maður að hlæja eða gráta?


Bragi - 15/03/10 09:23 #

Flott grein.

Það kom mér einmitt verulega á óvart þegar dóttir mín byrjaði í grunnskóla hvernig þessi "trúarbragðafræðsla" er kennd, þetta er bara kristinfræði í nýjum umbúðum. Einnig hélt ég að kennarar í dag myndu kenna þetta með einhverjum fyrirvara um sannleiksgildi en svo er ekki, allavega ekki kennarar dóttur minnar.

Og þetta messustand í skólum er bara pirrandi.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 11:14 #

Hvort á maður að hlæja eða gráta?

Veit ekki. Ég hef verið að velta fyrir mér hvort ég eigi að nenna að útskýra þetta fyrir manninum en held ég sleppi því. Það er svolítið eins reglan um brandara. Ef þú þarft að útskýra þá er alveg eins gott að sleppa því.

Það er spurning hvort Vigfús finni einhvern til að hjálpa sér að lesa ef hann vill skilja greinina.


Björn I - 15/03/10 23:36 #

Það er öllum málstað til minnkunar er menn tala niður til viðmælenda sinna. Vonandi geta Reynir og Trausti, meðlimir Vantrúar, gert betur héðan í frá.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/03/10 23:47 #

Björn, spurning mín var einlæg. Veist þú svarið?


Björn I - 16/03/10 00:10 #

Reynir. Spurning þín fól í sér fyrirlitningu gagnvart þeim er tjáði sig. Ég tel augljóst að það hafi ekki verið óafvitandi.

Ég er bara að benda á að það er engum málstað til framdráttar að beita fyrir sig einelti eða álíka bulli. Það væri ágætt ef vantrúarmeðlimir gætu svarað með rökum í stað þess að rakka andstæðing sinn niður persónulega og koma síðan með "fræðilega gerði ég þó þetta en ekki hitt" rök fyrir einelti sínu.

Ég hef meiri trú á ykkur en þetta, þið hafið góðan málstað að verja og þufið því ekki að nóta svona aðferðir.


Björn I - 16/03/10 00:12 #

Mikið vildi ég að hægt væri að leiðrétta innsláttarvillur á þessum vettvangi :)


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 08:45 #

Ef að menn geta ekki drullast til að lesa þær greinar sem þeir ætla að fara að gagnrýna þá sé ég enga ástæðu til að tyggja þær ofan í þá.

Grein Reynis um ABC barnahjálp er auðskilin en Vigfúsi tekst engu að síður að misskilja innihald hennar. Það sýnir aðeins að hann hefur ekki lesið hana mjög vandlega.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem gagnrýnendur koma hingað á Vantrú með fyrirfram gefnar niðurstöður sem breytast ekkert við lestur greinanna. Þannig að ég viðurkenni það vel að verða pirraður þegar það gerist.

Það er einfaldlega ekki í okkar verkahring að laga lestrarkunnáttu almennings.

Ef fólk kemur með réttmæta gagnrýni svörum við henni. Höfum við verið þektir fyrir annað? Þvert á móti þá hefur fólk kvartað undan fjölda Vantrúarmanna sem svara gagnrýni þegar hún á rétt á sér.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 11:46 #

Reynir. Spurning þín fól í sér fyrirlitningu gagnvart þeim er tjáði sig. Ég tel augljóst að það hafi ekki verið óafvitandi.

Björn, mér þykir þú fullyrðingaglaðari en ég. Ég get ekki útilokað þann möguleika að athugasemd Vigfúsar eigi frekar að sýna skopskyn hans en skilningsleysi.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/03/10 16:39 #

Ég verð að viðurkenna að mér þykir athyglisvert að lesa megi úr velviljaðri (að því er virðist) athugasemd Björns að ég fyrirlíti Vigfús og komi þeirri skoðun viljandi til skila. Um leið er ég farinn að beita einelti (eða álíka bulli) og rakka andstæðinginn niður og það persónulega í stað þess að svara með rökum.

Mér þykir þetta hraustlega lesið í orðin:

Hvort á maður að hlæja eða gráta?

Ef Vigfús væri óánægður með að skólinn safnaði fé til að breiða út boðskap nýnasista finnst mér ólíklegt að hann liti á það sem fyrsta leik í stöðunni að ganga til liðs við nýnasista til að breyta áherslum þeirra. Því finnst mér líklegra að Vigfús sé að spauga. Sú staðreynd að hann setur athugasemdina við ranga grein er kannski bara tvist í húmorinn (sem er greinilega ekki allra).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.