Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúfélagaskráning - áminning

Það er tímabært að huga að trúfélagaskráningu. Vantrú hefur undanfarin ár aðstoða hundruði íslendinga við að leiðrétta trúfélagaskráningu en það er bara dropi í hafið. Við vitum að fjöldi fólks er skráð í trúfélag sem það á ekki samleið með.

Flestir myndu hugsa um tvisvar ef stjórnmálaflokkur sem það styður ekki væri á hverju ári styrktur um háar fjárhæðir í þeirra nafni.

Af hverju?

Ekki vera skráður í félag sem þú átt ekki samleið með. Þeir sem eru skráðir í ríkiskirkjuna styrkja hana um rúmar tólf þúsund krónur krónur á ári og leggja um leið blessun þína yfir starfsemi kirkjunnar – þar með talið trúboð í leik- og grunnskólum.

Þetta snýst ekki einungis um peninga, fjöldi meðlima hefur gríðarlegt áróðursvægi fyrir ríkiskirkjuna. Alltaf þegar deilt er um kirkjuna vitna prestar og leikmenn til þess að nær allir séu meðlimir í ríkiskirkjunni og þess vegna megi hún gera hvað sem er. Þeir sem utan hennar standa séu svo fáir að þeir skipta ekki máli. Kirkjan má fara í leikskólana vegna þess að börnin eru hvort sem er öll í kirkjunni, kirkjan má fara í grunnskólana vegna þess að það stendur næstum enginn utan hennar. Það er sorglegt að hlusta á slíkan málflutning þegar við vitum að stór hluti íslendinga eiga ekki nokkra samleið með ríkiskirkjunni, sér í lagi þeir fjölmörgu sem eru trúlausir en einnig margir trúmenn sem eiga í raun heima í öðru trúfélagi.

Sóknargjöld eru ekki greidd fyrir hönd þeirra sem eru yngri en sextán ára 1. des árið á undan en samt skipta börnin máli því kirkjan telur þau að sjálfsögðu með þegar réttlæta þarf yfirganginn. Hugið því að trúfélagaskráningu barna ykkar, það er engin ástæða til að bíða. Ef þau hafa þroska til að fermast ættu þau að hafa þroska til að taka þessa ákvörðun.

Það er algengur misskilningur að trúfélagsskráning tengist skírn. Íslendingar eru skráðir í trúfélag við fæðingu og miðast sú skráning við trúfélag móður. Í úrskráningarstarfi Vantrúar höfum við hitt foreldra sem stóðu í þeirri trú að börnin þeirra væru ekki skráð í ríkiskirkjuna þar sem þau höfðu aldrei verið skírð en svo kom í ljós að móðir hafði verið skráð í ríkiskirkjuna við fæðingu barnsins. Þessi misskilningur virðist furðulega útbreiddur og ég hvet ykkur til að fræða fólk í kringum ykkur. Mikilvægt er að hafa í huga að báðir forráðamenn þurfa að skrifa undir eyðublaðið til að breyta trúfélagaskráningu barns.

Hvernig?

Það er í raun óþarflega mikið mál að leiðrétta trúfélagsskráningu hér á landi. Nauðsynlegt er að fylla út eyðublað (pdf) og koma því til Þjóðskrár, annað hvort með því að senda sem símbréf í s. 5692949, senda í pósti á Þjóðskrá | Borgartúni 24 | 150 Reykjavík eða afhenda á skrifstofunni í Borgartúni.

Ef þið þurfið aðstoð, eigið t.d. ekki auðvelt með prenta eyðublaðið út eða getið ekki komið því til skila, getið þið haft samband við Vantrú [ vantru@vantru.is ] og við reddum málinu.

Í Finnlandi eru hægt að breyta trúfélagaskráningu á netinu og það væri óskandi að slíkt væri hægt hér t.d. í gegnum heimabankana. Auk þess mætti skoða þann möguleika að hafa trúfélagaskráningu á skattframtali þar sem þessi skráning er notuð til að að útdeila skattfé. Stundum grunar mig að hér sé kerfið haft ónotendavænt til þess að letja fólk í að breyta skráningu sinni - en við skulum vona að það sé ekki raunin.

Hvenær?

Það er lykilatriði að breyta trúfélagsskráningu fyrir 1. des því sóknargjöld næsta árs miða við trúfélagaskráningu þann dag. Framkvæði þetta strax í dag, ekki fresta ákvörðuninni um einn dag því hann gæti orðið að mörgum mánuðum eða árum. Takið vinina með, kíkið í heimsókn til Þjóðskrár í Borgartúni og farið svo saman út að borða.

Látið þetta ganga

Ég vil hvetja ykkur til að huga að skráningu ykkar en látið ekki þar við sitja. Ræðið við ættingja, vini og vinnufélaga og imprið á þessu. Ekki pressa á fólk en nefnið þennan möguleika. Við vitum að fullt af fólki hangir í kirkjunni af gömlum vana, sinnuleysi eða hugsunarleysi. Bendið fólki á að með því að vera skráður í ríkiskirkjuna er það að styðja í verki allt það sem ríkiskirkjan stendur fyrir, það er að veita biskupnum blessun sína og samþykkja fordóma hans gagnvart trúleysingum og öðrum sem ekki aðhyllast kristni. Fólk getur valið að styðja önnur trúfélög eða skráð sig utan trúfélaga og styrkt með því Háskóla Íslands. Allt er skárra en ríkiskirkjan!

Að sjálfsögðu er það réttlætismál að trúleysingjar þurfi ekki að greiða nein gjöld, hvorki til Háskóla Íslands eða annarra stofnana. En þar til það fæst leiðrétt skulum við gera allt sem við getum til að minnka vægi ríkiskirkjunnar. Leiðréttum trúfélagaskráningu fyrir 1. des.

Matthías Ásgeirsson 07.11.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


metjik - 07/11/08 14:16 #

Sæll, Ég heyrði það einhversstaðar að sá peningur sem fer til HÍ sé "eyrnamerktur" guðfræðideildinni... sel það samt ekki dýrara en ég keypti það.

kv.metjik


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/08 14:19 #

Þessi saga er lífseig en sem betur fer röng. Sóknargjöld þeirra sem standa utan trúfélaga fara í almennan rekstur HÍ. Fóru áður í Háskólasjóð sem styrkti ýmislegt innan HÍ, guðfræðideild fékk ekkert úr þeim sjóði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.