Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stimplar

Ég er mikill aðdáandi skopteiknarans Halldórs Baldurssonar, þess sem birtir pólitískar skopmyndir daglega í 24 stundum. Í þágu þessa greinarstúfs ætla ég að rifja upp eina skrýtluna hans, þótt varla geti heitið að ég muni hvernig hún var.

Það sem ég man er þó að hún fjallaði um einhvern svona gaur sem ekki tilheyrir neinum þrýsti- eða minnihlutahópi og er þar af leiðandi hálfmunaðarlaus í lífinu. Hann stendur þarna og telur upp þá hópa sem hann tilheyrir ekki og segir eitthvað á þessa leið inni í miðri þeirri orðræðu:

...ég trúi ekki á neina guði eða kennisetningar trúarbragða, en mér leiðast trúleysingjarnir...

Sumt er fyndið af því að það er satt. Og þessi gaur er algerlega sannur. Hann er allt í kringum okkur og við hér á Vantrú erum alltaf að rekast á hann, stundum m.a.s. hér á vefritinu!

Og við getum sjálfum okkur um kennt. Hinn venjulegi sinnulitli en trúdofni samborgari okkar þolir ekki þessa uppivöðslusömu trúleysingja sem herja eins og plága á hvert það Moggablogg þar sem orðin Jesús og guð eru sögð. Við erum einfaldlega hundleiðinlegt pakk.

Þetta er ekkert flóknara en það.

Jú, reyndar er þetta aðeins flóknara, því margir afgreiða okkur á þennan þægilega hátt til að þurfa ekki að takast á við málflutning okkar og rök. Og margir eru þar að auki svo andlega latir að þeir láta stemninguna hrífa sig og byrja sjálfir að hafa yfir möntruna um hvað þessir trúleysingjar séu nú óþolandi, alveg án þess að reyna hið minnsta að nálgast málflutning okkar hleypidómalaust. Erum við ekki annars fólkið sem borðar börn?

Um langan aldur hefur hugtakið atheist haft á sér einhvern þann neikvæðasta stimpil sem hægt er að hugsa sér, að minnsta kosti í henni lýðfrjálsu Ameríku. Trúleysingjum er þar allt fram á okkar daga síður treyst en öðrum dúbíus minnihlutahópum til að sitja í valdastöðum. Meira að segja hefur alveg suddalega grunsamlegt lið á borð við svertingja, homma og konur meira traust hins almenna Kana en þessir fjárans guðsvoluðu og siðlausu trúleysingjar.

Og það er nú eitt. Af hverju er alltaf gert í því að nugga þessum siðleysisstimpil á fólk sem valið hefur sér að móta siðferði sitt út frá skynseminni og reynslu genginna kynslóða? Og af hverju gengur enn svona illa að koma öðru fólki í skilning um að ekkert sé athugavert við siðferði þeirra sem hafna guðaverum? Og svo eru það ofstækis- og öfgastimplarnir sem fólk tekur upp í algeru hugsunarleysi, það étur þetta hver upp eftir öðrum.

En líklega er þetta þó loksins að breytast. Maður er nefndur Bill Maher, grínisti og þáttastjórnandi í bandarísku sjónvarpi. Það er eiginlega hálfótrúlegt að horfa á búta úr spjallþáttum hans þar sem hann afgreiðir trúarbrögð með býsna harkalegum hætti og uppsker fagnaðarlæti áhorfenda í hvert sinn. Er þetta virkilega að gerast í hinum ofurtrúuðu Bandaríkjum?

Og þann 3. október fer bíómyndin hans, Religulous, í almennar sýningar vestra. Og okkur er lofað að hún muni hrista verulega upp í stoðum trúarsannfæringar hins almenna Kana, rétt eins og The God Delusion hefur gert ásamt bókum þeirra Christopher Hitchens og Sam Harris.

Harris á hreint alveg merkilega innkomu á ráðstefu AAI í fyrra, þegar hann hreinlega stingur upp á því að menn hætti að kenna sig við atheisma og nálgist fremur umræðuna á forsendum skynseminnar og gegn vondum hugmyndum, af hvaða toga sem þær eru. Með því er sá illvígi björn unninn að þurfa sífellt að vera að berjast við þessa leiðinlegu stimpla sem hér að ofan eru nefndir. Fólk mun síður loka eyrunum ef við hættum að kenna okkur við atheisma og einhverja flokka undir þeim merkjum. Eða þurftu menn nokkuð að kenna sig við van-rasisma til að ráða niðurlögum kynflokkahugarfarsins sem tröllreið öllu vestanhafs fyrir hálfri öld eða svo, spyr Harris.

Og Maher virðist hafa tekið upp þessa taktík í glænýju viðtali hjá Larry King. Hann hafnar því að vera atheisti og er þar með laus við stimplana ógurlegu. Maher segist þess í stað vera réttur og sléttur rasjónalisti.

Og það ættum vð kannski öll að gera, hætta þessu vantrúarrausi og hvetja þess í stað bara til almennrar skynsemi og að vondum hugmyndum sé miskunnarlaust hafnað. Í það minnsta heldur Bill Maher vinsældum sínum sem þessi stimplalausi skynsemdarmaður, þrátt fyrir að grínið og gagnrýnin á trúarbrögðin sé harkaleg í meira lagi. Bill er í raun að fullkomna verkið sem Dawkins, Hitchens og Harris byrjuðu á, að skynsemisvæða hina guðsútvöldu þjóð í vestrinu. Eða hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að trúleysingi sem eys háði og hárbeittri gagnrýni á báða bóga fengi langt og itarlegt einkaviðtal hjá Larry King á CNN og það án allrar ritskoðunar? Ekki fékk ég að segja hvað sem var í útvarpsþáttunum Spegilinn og Lóðrétt eða lárétt hér uppi á Íslandi fyrir örfáum misserum. Gagnrýni á trúarbrögðin var þá algert tabú. Það er ekki lengra síðan.

Þetta er loks að gerast, trúleysingjarnir eru að koma úr felum í landi guðs! Og ætli þeir verði ekki, þegar upp er staðið, allmiklu fleiri en nokkurn óraði fyrir. Orðræða þeirra þykir a.m.k. nokkuð sjálfsögð og eðlileg nú eftir að búið er að ryðja brautina. Kannski Obama ætti að hætta þessari þykjustu trúarhræsni sinni og höfða til stærsta minnihlutahóps þessarar þjóðar, hinna skynsömu þegna. Hann gæti hreinlega unnið kosningarnar á því.

Það hefði engan getað órað fyrir að gæti gerst fyrr en nú.

Birgir Baldursson 22.08.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 22/08/08 08:33 #

Sjálfum finnst mér óþarfi að henda trúleysingja-, guðleysingja- eða atheistastinmplunum. En ég hef áður sagt að efnishyggja lýsir heimsmynd minni ágætlega þó margir vitleysingjar rugli því saman við peninga- eða neysluhyggju.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/08/08 09:49 #

Vantrú er frekar neikvætt heiti, minnir á orð eins og vanefni, vangefinn o.s.frv. Og illt er að kenna sig við trú, þótt það sé vantrú, eða ótrú. Enginn vill vera kallaður ótrúr.

Rationalisti, aha, skynsemishyggjumaður... of langt. Vestra vilja sumir kalla sig "bright", í merkingunni upplýstur, en það er óþægilega nærri sjálfsupphafningu, að vera klár.

Það hljómar vissulega betur að segjast aðhyllast skynsemi eða rökhugsun, en ekki trú. Og hvað kallast þeir sem hafna yfirnáttúru? Þeir eru náttúrulega skynsamir.

Ég held að það sé ekki vænlegt að hræðast orðin. Þannig urðu afglapar vanvitar, svo vangefnir, þá misþroska eða "intellectually challenged". Hommar og lesbíur vildu vera hýr, frekar en samkynhneigð. Fatlaðir urðu hreyfihamlaðir. En fordómar ráðast ekki af orðinu heldur viðhorfum manna til þess sem orðið þýðir. þess vegna felst baráttan í að breyta viðhorfum, ekki heitum.

Það er engu meiri skömm af því að vera hommi, vangefinn, geðveikur, fatlaður, kona, örvhentur, grænmetisæta eða trúleysingi en að vera ljóshærður, lágvaxinn, sjálfstæðismaður, kristinn eða múslimi.

Fólk ræður ekki líkamlegu eða andlegu ásigkomulagi sínu, kynhneigð og kyni ekki heldur og afstaða manna í trúmálum og stjórnmálum er bara afstaða, ekki stimpill. Menn geta deilt um ágæti skoðana og afstöðu til mála en ágætið ræðst af málstaðnum, ekki heitinu.

Ég lít svo á að það sé sæmdarheiti að vera kallaður trúlaus því það þýðir að maður er náttúrulega bara skynsamur.


Guðjón - 22/08/08 11:53 #

Hvernig er það Reynir telur þú að heimskur trúaður maður verði skynsamanur ef hann kastar trúni og gangi í vantrú.

Ef við vitum það eitt um mann að hann er trúlaus getum við þá verið viss um að hann sé skynsamur og sömuleiðis ef við vitum það eitt um mann að hann er trúaður liggur það þá fyrir að viðkomandi sé heimskur?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/08 12:52 #

Af hverju seturðu fram hugtökin heimskur og skynsamur sem andheiti? Ertu nokkuð að rugla þessum hugtökum saman við hugtökin gáfur og greind?

Heimskur er andheitið við fróður/víðsýnn en fjallar ekki um greind á nokkurn hátt. Sama gildir um hugtakið skynsamur, það hefur ekkert með greind að gera. Fólk með lága greind getur bæði verið víðsýnt og skynsamt á meðan jafnvel annáluðustu gáfnahausar geta verið bæði heimskir og rúnir skynsemi.

Skynsemi og heimska eru val, en greind síður.

Ef við vitum það eitt um mann að hann er trúlaus getum við þá verið viss um að hann sé skynsamur og sömuleiðis ef við vitum það eitt um mann að hann er trúaður liggur það þá fyrir að viðkomandi sé heimskur?

Á vissan hátt já. Sá sem kastar trúnni gerir það iðulega á forsendum skynseminnar, alveg burtséð frá greind. Aftur á móti má segja um þann sem trúir að hann sé undir ákveðna tegund af heimsku/fávísi settur, jafnvel viljandi og meðvitað. En oftar en ekki er það þó afleiðing uppeldis og annarra umhverfisárifa í uppvexti, þátta sem einstakingurinn hefur enga stjórn á.

Góðu fréttirnar eru þó þær að þessa fávísi má með góðum vilja hrista af sér um leið og menn temja sér skynsemi.


Guðjón - 22/08/08 16:32 #

Sumir menn eru skynsamir og aðrir eru óskynsamir.

Hér er ekki um nein hugtakarugling að ræða. Það að halda því fram að skynsemi eða óskynsemi fari eftir trúarskoðunum eru að mínu mat ekkert annað en fordómar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/08/08 16:47 #

Það að halda því fram að skynsemi eða óskynsemi fari eftir trúarskoðunum eru að mínu mat ekkert annað en fordómar.

Hvað með að halda því fram að skynsemi eða óskynsemi fari eftir skoðunum?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/08/08 17:21 #

Guðstrú og skynsemi fara ekki saman - guðstrú er í eðli sínu óskynsamleg. En með því er ég ekki að segja að trúmenn geti ekki verið skynsamir að öðru leyti. Það er bara á þessu sviði sem skynsemina brestur. Þetta viðurkenna trúmenn sjálfir og segja að þar sem skynseminni ljúki taki trúin við.

Trúleysið innifelur í sér skynsemi, enda reist á skynsamlegri niðurstöðu til að byrja með. Trúleysið er höfnun þess að gera fantasíur, tilgátur og órökstuddar hugmyndir að grundvelli lífsskoðana.


Arngrímur (meðlimur í Vantrú) - 23/08/08 01:27 #

Ég tel að sérhvern málstað beri að nálgast útfrá því að öll erum við manneskjur, mun heldur en útfrá aðgreinandi stimplum. Það má ræða ólíkar trúarskoðanir án þess að merkja sig þeim megin borðsins sem andmælandinn kemur líklega aldrei til með að sitja.


Guðjón - 23/08/08 15:47 #

Ég er sammála Arngrími ef ég skil hann rétt. Það er mjög mikilvægt að menn sýni öðru fólki umburðalyndi í trúmálum.


Guðjón - 23/08/08 16:04 #

Vandin við gagnrýnendur trúarbragða s.s. Christopher Hitchens og Sam Harris er að þeir hafna umburðalyndi. Bill Maher er skömmin skárri en þeir félagar en hann virðist hafa mjög yfirborðskenndan skilning á eðli trúarbragða og vera haldin þeirri villu að tilvist trúarbragða byggist á fáfræði og heimsku. Hugmyndir af því tagi geta haft tímabundin áhrif til ills - þar sem líkur er á að þær leiði til illinda milli trúaðara og trúleysinga.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/08/08 16:19 #

Hugmyndir af því tagi geta haft tímabundin áhrif til ills - þar sem líkur er á að þær leiði til illinda milli trúaðara og trúleysinga.

LOLZ

Ó, s.s. líkindi að illindi milli trúaðra og trúleysingja á næstu dögum verði trúleysingjum að kenna? Einsog þetta sé eitthvað nýtt?

Kræst.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 17:10 #

Guðjón, svaraðu vinsamlegast spurningu minni

Hvað með að halda því fram að skynsemi eða óskynsemi fari eftir skoðunum?

Getum við miðað við skoðanir einstaklinga þegar við metum hvort þeir eru skynsamir eða ekki?


danskurinn - 24/08/08 18:10 #

Matti spyr: ”Getum við miðað við skoðanir einstaklinga þegar við metum hvort þeir eru skynsamir eða ekki?”

Spurningin er gagnslaus. Svarið veltur á þeim sem gera matið. Hvaða skoðanir hafa þeir?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 18:14 #

danskurinn, telur þú að hugtakið skynsemi hafi einhverja (gagnlega) merkingu?


danskurinn - 24/08/08 18:29 #

Skynsemi hefur þá merkingu sem við leggjum í orðið. Gegnsemi þeirrar merkingar veltur á skoðunum skoðandans.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 18:44 #

Æi, látum þetta eiga sig. Ég nenni ekki þessu tilgangslausa þvaðri við þig danskurinn.

Guðjón, telur þú að hugtakið skynsemi hafi einhverja (gagnlega) merkingu. Ef svo, telur þú að við ættum að meta skynsemi einstaklinga út frá skoðunum sem þeir aðhyllast.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 20:34 #

Ég sá umræðuþátt í sænska sjónvarpinu áðan þar sem e-r fræðimaður ræddi um uppruna orðisins Atheisti.

Það mun koma hafa verið notað (aðallega um þá kristnu) sem ekki vildu lúta ríkisguðunum rómversku.

Orðið var því upphaflega ekki eins afgerandi eins og nú er.


Guðjón - 25/08/08 11:40 #

Matti - Skynsemi hefur gagnlega merkingu. Og auðvita er þér heimilt skilgreina skynsemi útfrá trúarafstöðu. Þeir einir eru skynsamir sem eru trúlausir getur þú sagt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/08/08 11:44 #

Guðjón, þú svaraðir ekki seinni hluta spurningar minnar. Ég minntist ekki á trúarskoðanir heldur skoðanir.

...telur þú að við ættum að meta skynsemi einstaklinga út frá skoðunum sem þeir aðhyllast.

Ef skynsemi er hugtak sem hefur merkingu, út frá hverju metum við þá skynsemi einstaklinga ef ekki skoðunum þeirra?


Guðjón - 25/08/08 12:38 #

Það er mitt mat að margir trúmenn séu áægtlega skynsamir og sama gildi um trúleysingja - hins vegar eru til of margir óskynsamir trúleysingjar og trúmenn. Skoðun manna er eitt af því sem menn líta til, en ekki það eina- það er vel hugsanlegt að menn sem eru að flestu leyti skynsamir aðhyllist einhverjar óskynsamlegr skoðanir eða hegði sé á einhvern hátt óskynsamlega t.d. reyki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/08/08 13:47 #

Skoðun manna er eitt af því sem menn líta til, en ekki það eina

Einmitt. Trúarskoðanir er einmitt annað. Sumar trúarskoðanir eru afskaplega óskynsamlegar. Varla neitar þú því?


Guðjón - 25/08/08 21:50 #

Sumar trúarskoðanir eru óskynsamlegar að mínu mati. En þeir sem aðhyllist slíkar skoðanir þurfa ekki endilega að vera óskynsamir menn að öðru leyti.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/08/08 23:21 #

Nákvæmlega það sem ég segir hér:

En með því er ég ekki að segja að trúmenn geti ekki verið skynsamir að öðru leyti. Það er bara á þessu sviði sem skynsemina brestur. Þetta viðurkenna trúmenn sjálfir og segja að þar sem skynseminni ljúki taki trúin við.


danskurinn - 26/08/08 09:03 #

Birgir skrifar. “ En með því er ég ekki að segja að trúmenn geti ekki verið skynsamir að öðru leyti. Það er bara á þessu sviði sem skynsemina brestur.”

En þú virðist gefa þér hina ósönnuðu forsendu Birgir, að þú sjálfur sért skynsamur og getir því verið dómari í eigin sök og annarra. Hvernig kemstu að þeirri niðurstöðu?


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 26/08/08 11:06 #

Að rífast við póstmódernista er eins og að fara í leðjuslag við grís. Það er tilgangslaust, maður verður drulluskítugur af því og grísinn er sá eini sem hefur gaman af því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.