Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er trúleysi hættulegt?

Trúarleiðtogar hafa í gegnum tíðina úthrópað trúleysingja sem siðblinda upplausnarmenn. Hugsunin sem liggur þarna að baki virðist sú að þeir sem ekki sækja siðferði sitt til guðs, og virðist þá ekki skipta máli hvaða guð það er, geti ekki þekkt muninn á réttu og röngu. Merkari spekingar en ég hafa ítrekað sýnt fram á fáranleika þessa viðhorfs, en áfram halda trúarleiðtogarnir eins og ég fjallaði nýlega um í greininni "Er óeigingirni guðleg?".

Á yfirborðinu virðast náin tengsl milli þessa viðhorfs til trúleysingja og allra annarra fordóma sem hrjá mannkyn: 1. Fyrst er óvinurinn skilgreindur (trúleysingar, svertingjar, gyðingar, samkynhneigðir, eða konur), 2. síðan er einhverjum miður geðslegum eiginleikum klínt á hann (s.s. siðblindu, skertri greind, græðgi, öfuguggahætti eða ófullkomleika) 3. og svo er stagast á fordómunum þó sýnt hafi verið fram á þeir séu lygar, enda vita allir talsmenn fordóma að ef lygin er endurtekin nógu oft fer fólk að trúa henni.

Ekki er mér kunnugt um hvort fordómar íslenskra trúarleiðtoga gagnvart trúleysingjum hafi skilað sér inn í "þjóðarsálina", enda hafa engar kannanir verið gerðar á því. Þetta er hins vegar raunin í Bandaríkjunum, en endurteknar skoðanakannanir sýna að trúleysingjar eru lægst metni þjóðfélagshópurinn þar í landi. Nýlega framkvæmdi Gallup skoðanakönnun fyrir USA Today þar sem spurt var: "Ef flokkurinn þinn útnefndi forsetaframbjóðanda sem er almennt vel hæfur en er [sjá fyrir neðan], myndir þú kjósa þennan einstakling?" Mótmælendaþjóðin Bandaríkin treystir kaþólikum best til þess að gegna forsetaembættinu fyrir sig. Þar á eftir koma koma svertingjar og gyðingar. Konur er í fjórða sæti, sem virðist benda til þess að frú Clinton tapi fyrir Obama! Þar á eftir koma innflytjendur frá Suður-Ameríku, Mormónar og þrí-giftir einstaklingar. Lestina reka síðan einstaklingar á áttræðisaldri, sem hafa stuðning 57% bandarísku þjóðarinnar, samkynhneigðir með 55% fylgi og TRÚLEYSINGJAR með einungis 45% stuðning.

Í ljósi þess að forseti Bandaríkjanna og aðrir valdamiklir íhalds- og bókstafstrúarmenn hafa barist af mikilli hörku gegn réttindum samkynhneigðra kemur ekki á óvart að þeir endi í næst neðsta sæti í þessari könnun. En af hverju eru trúleysingjar í neðsta sæti? Jú, þeir hafa gerst sekir um að viðurkenna ekki tilvist Guðs og þar með hafnað því að Biblían og siðaboðskapur hennar sé af guðlegum rótum sprottinn. Fyrir þetta eru þeir úthrópaðir sem siðblindingjar eða sem "hluttakendur heimskunnar", því "[h]eimskinginn segir: enginn Guð“. Í þessu sambandi er rétt að skoða ummæli biskups Íslands um trúleysi, og þar með trúleysingja, í nýársprédikun hans frá fyrsta janúar 2003:

trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum ... Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna.

Fordómarnir sem biskup virðist opinbera hér gagnvart trúleysi eru sömu ættar og aðrir fordómar mannanna, eins og greinilega má sjá ef "trúleysi" er skipt út fyrir "svertingi", "gyðingur" eða "samkynhneigður".

svertingjar ógna mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum ... Valið stendur milli hvítra og svartra á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja hvíta.

gyðingar ógna mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum ... Valið stendur milli aría og gyðinga á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja aría.

samkynhneigðir ógna mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum ... Valið stendur milli gangkynhneigðra og samkynhneigðra á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja gagnkynhneigða.

Biskup gæti e.t.v. hafnað þessum samanburði á þeim forsendum að hann hafi óstyggð á fyrirbærinu trúleysi en ekki trúleysingjum sem slíkum, líkt og trúsystkin hans hafa notað í andófinu gegn réttindabaráttu samkynhneigðra, þ.e. óbeit á fyrirbærinu samkynhneigð en ekki einstaklingunum sem hafa hneigðina. Ég tel slíka aðgreiningu vera marklausa, enda elur fordómafull umræða um hugtökin "trúleysi" og "samkynhneigð" á fordómum á trúlausum og samkynhneigðum einstaklingum.

Ef málflutningur biskups og annarra trúarleiðtoga um trúleysi og trúleysingja er byggður á fordómafullum ósannindum, þá vaknar spurningin hvers eðlis þessir einstaklingar, sem í dag telja 500-750 milljónir (Cambridge Companion to Atheism, 2007, bls. 61), eru. Í nýrri grein sálfræðiprófessorsins Benjamin Beit-Hallahmi, "Atheists: A Psychological Profile", kemst hann að eftirfarandi niðurstöðu um trúleysingja á Vesturlöndum:

Það sem við getum sagt um algengasta trúleysingjann á Vesturlöndum í dag er að miklu meiri líkur eru á að sá einstaklingur sé karlmaður, kvæntur og með háskólamenntun. Getum við talað um algengasta trúleysingja-persónuleikann? Hægt er að gefa bráðabirgða sálfræðigreiningu. Við getum sagt að trúleysingjar birtist okkur sem minna ráðríkir og áhrifagjarnir, minna kreddufastir, minna fordómafullir, meira umburðalyndir gagnvart öðrum, löghlýðnir, samúðarfullir, og vel menntaðir. Þeir hafa miklar gáfur, og margir helga sig fræðilegri umræðu og menntakerfinu. Í stuttu máli sagt, það er gott að hafa þá sem nágranna.(Cambridge Companion to Atheism, 2007, bls. 313).

Steindór J. Erlingsson 11.04.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 11:04 #

Svo ég verði nú fyrri til:

Á yfirborðinu virðast náin tengsl milli þessa viðhorfs til trúleysingja og allra annarra fordóma sem hrjá mannkyn: 1. Fyrst er óvinurinn skilgreindur (trúleysingar, svertingjar, gyðingar, samkynhneigðir, eða konur), 2. síðan er einhverjum miður geðslegum eiginleikum klínt á hann (s.s. siðblindu, skertri greind, græðgi, öfuguggahætti eða ófullkomleika) 3. og svo er stagast á fordómunum þó sýnt hafi verið fram á þeir séu lygar, enda vita allir talsmenn fordóma að ef lygin er endurtekin nógu oft fer fólk að trúa henni.

Þessu gæti málefnaglaður trúmaður auðveldlega snúið upp á okkur vantrúarsinna:

  1. Fyrst er óvinurinn skilgreindur (boðendur trúar)

  2. Síðan er einhverjum miður geðslegum eiginleikum klínt á hann (s.s. siðblindu, skertri greind, græðgi, öfuguggahætti eða ófullkomleika.

  3. Og svo er stagast á fordómunum þótt sýnt hafi verið fram á þeir séu lygar.

Það er þetta síðasta atriði sem málið snýst um. Hefur Vantrú tekist að sýna fram á sannleiksgildi þeirra ásakana sem bornar eru á boðendur trúar, eða hefur trúfólkinu tekist að sýna fram á að þær séu lygi?

Um þetta skulum við hugsa litla stund.


Guðjón - 11/04/07 17:03 #

Það er rétt hjá þér að margir trúarleiðtogar vara við trúleysi og trúleysingjum. Það er líka rétt hjá þér að margir trúleysingjar eru ágætis fólk. Trúleysingjar eru misjafnir eins og aðrir. Þeir trúleysingjar sem eru mest áberandi um þessar mundir eru af öðru tagi. Það eru menn eins og Richard Dawkins og Sam Harris sem er öfgamenn og hatrammi aðstæðingar trúarbragða. Ætli biskup sé ekki fyrst og fremst að tala um trúleysinga af þessu tagi. Lausnin á þessu máli er umburðalyndi sem byggist á því að virða rétt fólks til mynda sér hvaða skoðun sem er. Við lifum á tímum þar sem ekki ríkir neitt samkomulag um mælikvarða á réttu og röngu. Eina leiði til þess að lifa í friði á slíkum tímum er að við séu tilbúin til þess að lifa í sátt og samlyndi við fólk sem við eru ósammála í grundvallar atriðum.


Guðmundur I. Markússon - 11/04/07 17:08 #

Þetta er áhugverður punktur hjá þér BB. Smá komment.

Eitt er að finna sláandi, einstök dæmi. Slíkt má auðveldlega finna um alla þjóðfélagshópa -- gyðinga, svarta, hvíta, araba, trúmenn, trúleysingja ... um alla.

Annað er að slá fram dómum um hópa.

Þegar dregnar eru ályktanir af einstökum dæmum og þær heimfærðar upp á heilu hópana er um fordóma að ræða.

Ef trúmenn segja slíkt um trúlausa eru það fordómar. Þetta hefur átt sér stað, t.d. hjá biskupi.

Ef vantrúarmenn gera hið sama um trúmenn er um fordóma að ræða. Hvort þið gerið þetta mikið á Vantrú legg ég ekki dóm á. En það kemur vafaluast fyrir.

Hefur Vantrú tekist að sýna fram á sannleiksgildi þeirra ásakana sem bornar eru á boðendur trúar, eða hefur trúfólkinu tekist að sýna fram á að þær séu lygi?

Spurningin hvort sönnun í þessu tilfelli sé ekki ólík eftir því hvort maður hugsar um hópinn eða einstök tilfelli. Einnig spurning hvar sönnunarbyrðin liggur.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 17:12 #

Mjög góð grein, Steindór, og líka athugasemd Birgis. Sannarlega íhugunarefni. Mér finnst biskup mála skrattann á vegginn þegar hann fjallar um trúleysi og auðvitað með röngu, en það sama má segja um okkur þegar við tölum um trú. Hvor afstaðan um sig hefur eflaust nokkuð til síns ágætis, og sína galla. Menn geta deilt um þetta eins og um stjórnmálastefnur en ólíkt þeim er til endanlegt og RÉTT svar við spurningunni um tilvist guðs. Annar hópurinn hefur því nauðsynlega rétt fyrir sér en hinn rangt, öfugt við það sem má e.t.v. segja um stjórnmálastefnur.


Guðmundur I. Markússon - 11/04/07 17:22 #

Þegar dregnar eru ályktanir af einstökum dæmum og þær heimfærðar upp á heilu hópana er um fordóma að ræða.

Hérna mætti bæta við: Þegar dregnar eru ályktanir af hugmyndafræðilegum forsendum og þær heimfærðar á heilu hópanna ...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 19:18 #

Ef trúmenn segja slíkt um trúlausa eru það fordómar. Þetta hefur átt sér stað, t.d. hjá biskupi.

Ef vantrúarmenn gera hið sama um trúmenn er um fordóma að ræða. Hvort þið gerið þetta mikið á Vantrú legg ég ekki dóm á. En það kemur vafaluast fyrir.

Nú fer mikið fyrir t.d. hommahatri hjá boðendum bókstafstrúar. Það liggur einfaldlega í kenningum þeim sem þeir aðhyllast. Ef ég kalla þá hommahata vegna þess, er ég þá fordómafullur?

Snýst þetta ekki einfaldlega um rökin sem hægt er að færa?


Guðjón - 11/04/07 22:49 #

Frelsi til þess að hugsa sjálfstætt er dýrmætast af öllu frelsi. Ef menn hafa slikt frelsi er ekki hægt að setja þeim neinar reglur um forsendur. Til þess að slikt frelsi sé mögulegt verður hver og einn að hafa sjálfdæmi um skoðanir sínar. Það eru því ekki til nein algild rök - forsendurnar eru ávallt umdeilalegar. Ég held þvi fram að það séu fordómar að fordæma hóp menna fyrir það eitt að ganga út frá ööðrum forsendum en maður gerir sjálfur t.d. að biblían sé bókstaflega sönn. Slíkt fólk á auðvita að njóta sannmælis eins og aðrir. Það er til prýðis fólk í þeirra hópi þó sumir geti verið ofstækisfullir og þröngsýnir.


Daníel Páll Jónasson - 11/04/07 22:50 #

Mjög góð grein hjá þér Steindór. Alltaf áhugavert að sjá hvaða álit Bandaríkjamenn hafa á frjálshyggju og trúleysi.

Var mjög hrifinn af svarinu þínu Birgir. Þetta var virkilega, virkilega góð spurning sem þú varpaðir upp hérna, spurning sem fékk mig til að hugsa mikið út í þessi mál.

Ætlaði upphaflega að skrifa álit mitt við þessu öllu hérna, fyrir neðan greinina, en þar sem þetta álit endaði í hálfgerðri grein hjá mér, ákvað ég að setja það inn á Spjallborðið.

Þið getið séð þetta álit / þessa grein: -Hérna- .


Guðmundur I. Markússon - 12/04/07 19:11 #

Nú fer mikið fyrir t.d. hommahatri hjá boðendum bókstafstrúar. Það liggur einfaldlega í kenningum þeim sem þeir aðhyllast. Ef ég kalla þá hommahata vegna þess, er ég þá fordómafullur?

Ekki ef skoðanir og hegðun hópsins einkennast af því (eins og á klárlega við amk. kreðsur meðal bókstafstrúaðra í BNA). Ef svo er, tel ég það ekki fordóma að kalla þá hommahatara (ekkert frekar en það að kalla nasista kynþáttahatara sé fordómar). Ég myndi kannski nota annað orð, en það er smekksatriði.

Hins vegar tel ég að þegar talað er um að trú SÉ skaðleg eða hættuleg (og vísa í einstök, sláandi dæmi) sé það engu betra en að segja að trúleysi SÉ hættulegt.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/07 01:42 #

Hins vegar tel ég að þegar talað er um að trú SÉ skaðleg eða hættuleg (og vísa í einstök, sláandi dæmi) sé það engu betra en að segja að trúleysi SÉ hættulegt.

En ef tínd eru til ótal dæmi um skaðsemi trúarhugmynda, grafalvarleg og gegnumgangandi í allri sögunni?


Guðjón - 13/04/07 15:06 #

En ef tínd eru til ótal dæmi um skaðsemi trúarhugmynda, grafalvarleg og gegnumgangandi í allri sögunni?

Það væri hægt að leika sama leik með stjórmálamenn. Hitler, Stalín og Pol-pot voru allir stjórnmálamenn. Bera þá ekki allir nútíma stjórnmálamenn ábyrð á vorðaverkum þeirra. Það finst mér ekki. Hér finnst mér verið að dæma alla trúmenn fyrir verk sem þeir sem frömdu þau bera ábyrð á og fyrir trúarhugmyndir sem þeir sem aðhyllast þær bera ábyrð á. Það að fordæma alla trúmenn fyrir verk eða hugmyndir sem einugis hluti trúmanna ber ábyrð á eru ekkert annað en fordómar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/07 15:09 #

Það að fordæma alla trúmenn fyrir verk eða hugmyndir sem einugis hluti trúmanna ber ábyrð á eru ekkert annað en fordómar.

Það er enginn að fordæma alla trúmenn þó því sé haldið fram að trú á hindurvitni sé skaðleg.

Af hverju í ósköpunum þarf fólk alltaf að rugla þessu saman?

Reykingar eru skaðlegar. Er ég hér með að fordæma alla reykingarmenn?


Guðmundu I. Markússon - 13/04/07 17:59 #

En ef tínd eru til ótal dæmi um skaðsemi trúarhugmynda, grafalvarleg og gegnumgangandi í allri sögunni?

Til þess að hægt væri að réttlæta fullyrðinguna "trú ER skaðleg" þyrfti að dókúmentera það mjög nákvæmlega, með fjölda dæma, góðum heimildum og taka tillit til fjölda þátta. Sýna þyrfti fram á að skaðlega áhrif væru margfalt meiri en jákvæð þannig að það væri tölfræðilega marktækt.

Þetta hafið hvorki þið, né Dawkins, Harris eða aðrir talsmenn nýja trúleysisins sýnt fram á -- augljóslega.

Það sem þið og aðrir hafið gert er að benda á sláandi dæmi og (stundum) fært fyrir því ágæt rök að þar sé trú skaðleg (t.d í "Trúa, trúa, trúa"). Þetta er allt annar hlutur -- trú getur verið skaðleg HÉR, í ÞESSU tilfelli.

Þú getur svarað því til að þið stundið ekki vísindastörf. Mikið rétt. Í almennri umræðu eru ekki gerðar jafn miklar kröfur. EN þið talið fyrir virðingu fyrir vísindum og gegn hindurvitnum -- það felur sjálfkrafa í sér að þið ættuð einnig að taka tillit vísindahugsunar þegar þið haldið einhverju fram um trúarbrögð -- lausnin hérna er sú að halda sér við að fjalla um sértæk dæmi og draga ekki of almennar ályktanir af þeim.

Það er enginn að fordæma alla trúmenn þó því sé haldið fram að trú á hindurvitni sé skaðleg. Af hverju í ósköpunum þarf fólk alltaf að rugla þessu saman? Reykingar eru skaðlegar. Er ég hér með að fordæma alla reykingarmenn?

Ekki sambærilegt. MIKLU betri gögn eru til um það að reykingar séu AÐ ÖLLU JÖFNU skaðlegar en að trú sé það. Af þessum ástæðum er alveg hægt að segja "reykingar ERU skaðlegar" án nokkurra málalenginga.

Einnig tel ég mun á því að segja (1)"R eru skaðlegar" eða (2)"trú er skaðleg" eða (3)"trúleysi er skaðlegt". Í tilfelli (2) og (3) er gefið til kynna að SKOÐANIR ákveðinna hóða fólks séu hættulegar. Þetta gerir t.d. málflutning biskups um trúleysi svo alvarlegan. Hann er að stimpla ákveðin hóp sem skaðlegan samfélaginu.

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta eigi við um öll skrif á Vantrú, en ég tel að þetta sé eitthvað sem þið ættuð að íhuga.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/07 21:26 #

Þetta hafið hvorki þið, né Dawkins, Harris eða aðrir talsmenn nýja trúleysisins sýnt fram á -- augljóslega.

Er það virkilega ekki? Hvað um allar þessar greinar?

Skaðsemi kristindómsins
Skaðsemi trúarhugmynda þegar kemur að líknardrápi
Dæmi um skaðsemi trúarhugmynda kaþólskra
Nokkrar skaðlegar trúarskoðanir
Mannfórnir
Staðið í vegi fyrir rétti samkynhneigðra á forsendum trúarhugmynda
Kraftaverkahyskið

Svo má nefna til dæmis Gyðingahatur, hatur múslima á kristnum og öðrum "heiðingjum" og svo skefjalaus kvennakúgun. Oft hefur verið bent á allt þetta hér á vefsetrinu. Ef þú slærð inn orðið skaðsemi í leitargluggann á forsíðunni færðu líka upp helling af kommentum þar sem rök eru færð fyrir ýmissi skaðsemi trúarhugmynda.

Á næstu dögum birtist útlistun á samtali númer tvö milli okkar Gunnars í Krossinum og þar verður rætt um skaðsemi blindrar trúar, t.d. þegar menn ætla að hjálpa guðinum sínum að láta spádóma Biblíunnar rætast, t.d. með því að framkalla harmageddon.

Skaðsemin liggur víða og er augljós. Hverjir eru kostirnir? Huggun við einhverju sem menn þarfnast engrar huggunar við, lausn frá einhverju sem tilheyrir ekki raunveruleikanum á nokkurn hátt. Boðendur trúar smíða mein (t.d. synd) svo hægt sé véla til sín fólk til lækningar á því.

Ég finn bara því miður ekkert jákvætt við boðun trúar. Nefndu mér dæmi.


FellowRanger - 14/04/07 04:13 #

Gemsinn glymur fyrr og nú.

Las einhver þessa þvælu okkar heitthataða biskups, hann er laginn með steypuhrærivélina.

Væri gaman að sjá grein um IPU, invisible pink unicorn, það er eitthvað sem ég myndi trúa á, og þó?

http://www.invisiblepinkunicorn.com/


Guðmundur I. Markússon - 14/04/07 13:16 #

Er það virkilega ekki? Hvað um allar þessar greinar?

Telur þú virkilega að þetta sé nægjanlegt til þess að réttlæta fullyrðinguna sem við ræddum um?!

Fyrst þetta er svona klárt og kvitt verðið þið að reyna að ná eyrum vísindasamfélagsins því þetta eru stórfréttir! Líka augljóst að kröfur vísindanna eru óþarflega strangar og hamla greinilega því að menn komist að augljósum niðurstöðum!

Ég skrifa alveg undir að trú er oft skaðleg. En, svo ég endurtaki mig, þessi umfjöllun sem þú vísar í nægjir ENGAN VEGINN til þess að staðfesta að trú SÉ skaðlega í eðli sínu.

En að ræða þetta er tímaeyðsla. Við munum aldrei ná saman. Ég geri strangari kröfur til þess að komast að niðurstöðum og ég er tortryggin gagnvart öllum einfaldunum sem dregnar eru of skörpum dráttum því veruleikinn er AUGLJÓSLEGA miklu flóknari en svo.

Módel vísindanna eru líka einfaldanir, ákveðinn fókus sem dregur ákveðna hluti fram á kostnað annarra -- annars myndum við aldrei öðlast skilning á orsakaferlum. Galdurinn er að finna fókus sem dregur fram það sem máli skiptir og bjagar ekki. Ef þú telur að þið hafið gert þetta með fyrirbærið trú og trúarbrögð á það erindi í heimspressuna, ef ekki nóbelinn.

Hversvegna sækir Vantrú ekki um viðurkenningu sem háskóli?

Við munum ekki ná saman um þetta og ég sé ekki ástæðu til að eyða þínum tíma eða mínum frekar. Þetta er mín skoðun og þannig er það.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/07 14:18 #

Þú svarar ekki spurningu minni um hvað er jákvætt við trúarlega boðun. En við erum sammála um að margt í trúarlegri boðun sé skaðlegt. Hefurðu velt því fyrir þér, sem háskólamaður og trúarbragðafræðingur, að fjalla um skaðsemi trúarlegrar boðunar á fræðilegum vettvangi. Ef þú gerir það gæti það orðið þú sem sækir Nóbelinn til Stokkhólms.

Ég held að ástæða þess að ekki sé mikið fjallað um skaðsemi trúarbragða innan fræðasamfélagsins sé helgislepjan sem þessir hlutir hafa hjúpað sig gegnum aldirnar. Það er afskaplega stutt síðan ekki mátti gagnrýna presta fyrir boðun hindurvitna, en á allra síðustu árum hefur þetta verið að breytast. Og í kjölfarið má búast við að fræðilegar ritgerðir fari í auknum mæli að fjalla um einmitt þetta.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/07 14:44 #

Hversvegna sækir Vantrú ekki um viðurkenningu sem háskóli?

Jafnvel þótt Vantrú starfi ekki á fræðilegum grunni nema að hluta til þá byggir öll okkar umfjöllun um trú og trúarbrögð á gagnrýninni hugsun og tengslum við raunveruleikann eins og hann birtist okkur gegnum athugun. Það eitt og sér gerir okkur í raun hæfari til að vera háskóladeild en nokkurn tíma guðfræðideildin. Í raun ætti að úthýsa þeirri deild úr háskólasamfélaginu nema hún taki upp vinnubrögð sem falla undir vísindastarf og gefi sér ekki niðurstöðurnar fyrirfram.

Guðfræðideildin er ekkert annað en költstarfsemi innan háskólaveggjana og í krafti þess hvernig hún starfar ættu kenningar annarra költískra fyrirbæra, s.s. vísindaspeki, að eiga tilkall til deilda og skora innan háskólasamfélagsins, ekki satt?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/04/07 14:48 #

Hér er svo enn eitt gamalkunnugt dæmi um hvernig boðaðar trúarhugmyndir skaða samfélagið. Þegar svona hugmyndir fá að grassera í samfélaginu og birtast í störfum valdhafanna er það grafalvarlegt mál sem taka þarf á.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.