Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leiðrétt trúfélagaskráning

Vantrú sýndi sannarlega og sannanlega fram á að fullyrðingar kirkjunnar manna um niðurstöður nýlegrar trúarlífskönnunar voru bæði rangar og villandi. Dæmi um rangfærslurnar er þegar dr. Pétur Pétursson, maðurinn sem sjálfur stóð fyrir könnuninni, hélt því fram í útvarpsþætti að könnunin leiddi í ljós að 75% þjóðarinnar játuðu kristna trú, þrátt fyrir að aðeins 51% hafi gert það samkvæmt henni.

Pétur hefur sjálfur leiðrétt mistök sín í Morgunblaðsgrein og er það vel. En er það nægileg leiðrétting? Það mætti nefnilega spyrja sig að því hvort þetta trúfélag hafi ekki áhuga á því að leiðrétta trúfélagaskráningu landsmanna. Það er orðið nokkuð klárt að fjölmargir sem ekki játa kristna trú eru samt sem áður skráðir í Þjóðkirkjuna, en hún telur um 85% þjóðarinnar. Þarna munar heilum 34 prósentum, þriðji hver Íslendingur er ranglega skráður í trúfélag. Er Þjóðkirkjunni alveg sama þótt allt þetta fólk sé þarna á vitlausum forsendum?

En nú er það ekki öruggt að allir þeir sem telja sig kristna séu það í raun. Í ítarlegustu könnun á trúarlífi Íslendinga sem birt hefur verið kemur það nefnilega í ljós að aðeins um 30% alþýðunnar gengur út frá því að Jesús sé guðssonur og frelsari manna. Samt er þetta ein af grundvallarkenningu kirkjunnar. Og ef við eigum að vera alveg nákvæm, þá ættu ekki að vera meira en 8,1% þarna, því það er sá fjöldi sem trúir því að maðurinn muni rísa upp til samfélags við guð kristinna manna eftir dauðann. Margir innan Þjóðkirkjunnar halda því fram að til að teljast kristinn maður þurfi að trúa þessu. Er boðendum fagnaðarerindisins alveg sama þótt svo fáir innan kirkjunnar leggi trúnað á þetta? Á fólk sem segir guð bara vera hið góða í manninum, eða trúir á endurholdgun og karma, eitthvað heima innan þessarar stofnunar? Þetta er undarlegt umburðarlyndi.

Eða er kirkjan aðeins á höttunum eftir sóknargjöldum þegar upp er staðið? Ef ekki, þá væri gaman að sjá hreinsað aðeins til í þessum málum, því ekki gengur að menn hreyki sér endalaust af háum prósentutölum ef engin innistæða er fyrir þeim. Slík hegðun væri í hæsta máta óheiðarleg.

Birgir Baldursson 27.01.2006
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 16:21 #

Þarna munar heilum 34 prósentum, þriðji hver Íslendingur er ranglega skráður í trúfélag.

þetta er rangfærsla hjá mér sem rétt er að leiðrétta strax. það dugir ekki að reikna bara saman þá sem eru í Þjóðkirkjunni og þá sem játa kristna trú, því þeir eru líka í öðrum trúfélögum. Það verður því að sigta þá út úr dæminu áður en það er reiknað (og gera um leið ráð fyrir því að allir þeir sem þar eru játi kristna trú). Eins og Óli Gneisti bendir á í grein sinni hér, þá er ástandið verra en ég tiltek í rangfærslu minni, annar hver maður í Þjóðkirkjunni er ranglega skráður!


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 18:33 #

sannarlega og sannanlega- linkurinn virkar ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 19:15 #

Hann virkar hjá mér, en n.b., þetta er vísun á Powerpoint skjal.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 27/01/06 19:45 #

Ef ég klikka beint á þetta kemur kílómetra löng stafarugls runa. Hins vegar ef ég reyni að hala niður frá linknum þá kemur að þetta sé power point skjal en hættir síðan að hala niður og segir að þetta sé ógilt format á powerpoint skjali og geti ekki haldið áfram að hala niður. Vegir tölvu vesensins eru órannsakanlegir (næstum)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.