Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Pétur Pétursson prófessor í guðfræði fer vísvitandi með rangt mál

Á sunnudögum er þátturinn Lóðrétt eða lárétt á dagskrá Rásar 1. Ævar Kjartansson fær til sín ýmsa trúmenn og spjallar við þá um trúmál. Í gær kom kirkjuþingsmaðurinn Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, í þáttinn (hlusta). Tilefnið var nýbirt trúarlífskönnun kirkjunnar sem Pétur vann við1. Pétur fór ítrekað vísvitandi með rangt mál í þættinum.

Pétur er að fjalla um könnun sem hann sjálfur hefur unnið að í langan tíma og fer aftur og aftur með rangt mál. Ég veit ekki hvað annað gæti útskýrt þetta en óheiðarleiki af hálfu Péturs.

Pétur: “....samt sem áður þá eru langflestir [Íslendinga] sem segjast trúa á guð, telja sig kristna..." -hlusta

Samkvæmt könnuninni sem hann er nýbúinn að vinna í voru þeir sem játuðu kristna trú 51% af þeim sem tóku þátt í könnuninni.2. Er 51% “langflestir”? Nei. Þetta eru ósannindi.

Pétur: "Íslendingar taka mjög vel undir það að þeir séu kristnir, það er kannski svona þrír af hverjum fjórum sem segja “Það er sjálfsagt mál, auðvitað er ég það" -hlusta

Þarna segir Pétur að um það bil 75% Íslendinga játi kristna trú. Í nýju könnuninni sem hann vann sjálfur í voru það 51%. Aftur ósannindi.

Pétur: "Ég held að það séu ekki nema 10% sem trúa því að djöfullinn sé til en 85% að guð almáttugur sé til."-hlusta

Hann segir að 85% trúi á guð almáttugan, þrátt fyrir að í könnuninni hafi 26,2% sagt að guð væri hugarfóstur mannanna og 19,7% sögðu að engin vissa væri fyrir tilvist guðs (þessir hópar skarast eitthvað)3. Ég veit ekki hvaðan hann fékk þessi 85%. Ósannindi

Ævar: “...Íslendingar fyrirvaralaust segja að þeir séu krisntir” Pétur: “Já, langflestir”-hlusta

Aftur segir hann að langflestir Íslendingar segist vera kristnir, í þetta skipti fyrirvaralaust. Enn ein ósannindin.

Búast má við að Siðanefnd Háskóla Íslands verði látin vita af málflutningi Péturs enda virðist framganga Péturs vera skýrt brot á siðareglum Háskóla Íslands.

1 Forsætisráðuneytið, "31. Trúarlíf Íslendinga, Pétur Pétursson (verkefnisstjóri Steinunn A. Björnsdóttir), 800 þús. kr."

2 Trúarlíf Íslendinga: Viðhorfsrannsókn Febrúar-Mars 2004, bls. 26 og 28

3 Trúarlíf Íslendinga: Viðhorfsrannsókn Febrúar-Mars 2004, bls. 30

Hjalti Rúnar Ómarsson 07.11.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/11/05 00:36 #

Ég er bara þannig að þegar ég sé einhvern fara augljóslega vísvitandi rangt með staðreyndir get ég ekki kallað það annað en lygi.

Pétur Pétursson þekkir þessi mál manna best, enginn ætti að hafa dýpri skilning á niðurstöðunum en hann. Þegar hann mistúlkar þær ítrekað þannig að hlutur kirkjunnar verður fegurri en gögn gefa tilefni til get ég ekki kallað það annað en lygi.

En við skulum, sökum umræðunnar, halda okkur við það að hann fer augljóslega vísvitandi með rangt mál.

Spurningin er bara, af hverju?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/11/05 01:11 #

Já, mér væri skapi næst að kalla manninn lygalaup. En umræðunnar vegna...


Halldór E. - 08/11/05 18:24 #

Hver af eftirfarandi fullyrðingum kemst næst trúarafstöðu þinni? er ein af spurningunum sem lögð er fram í könnuninni 76,3% svara henni á þá leið að þeir játi kristna trú. Það er góð regla að skoða fyrst og gagnrýna svo.


Halldór E. - 08/11/05 18:27 #

Ég biðst velvirðingar á fyrri athugasemd, 76,3% er talan sem á við um einvörðungu hluta úttaksins. rétt tala er eins og þið sögðuð 51% af heildarúttakinu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 18:37 #

Halldór, þú ert ekki fyrsti maðurinn sem mistúlkar þetta, bæði Morgunblaðið og Blaðið birtu fréttir þar sem þessi misskilningur var settur fram eins og um staðreynd væri að ræða. Enda var kynning Þjóðkirkjunnar afar villandi og ekkert í gögnum sem gaf til kynna að einungis þeir sem sögðust trúaðir hefðu svarað þessari spurningu. Það var ekki fyrr en ítarlegri gögn komu frá kirkjunni sem hið rétta kom í ljós, en þá höfðu fjölmiðlar þegar fjallað um hana útfrá kynningarefni.

En það er varla hægt að segja að Pétur Pétursson hafi misskilið könnunina, hann stóð fyrir henni og ætti að þekkja niðurstöður hennar betur en nokkur annar.

Samt mistúlkar hann niðurstöðurnar ítrekað í fjölmiðlum. Það er náttúrulega alveg makalaust.


Jón Valur Jensson - 08/11/05 19:00 #

Ég skrifaði Pétri Péturssyni í gær til að láta hann vita af þessari umræðu hér. Þetta er bréf mitt:

Rvík, 7. nóv. 2005. –– Sæll og blessaður, minn ágæti doktordoktor.

Ég er bara með hraði að láta þig vita, að Vantrúarmenn telja sig vera að berja á þér á einni af vefsíðum sínum, http://www.vantru.is/2005/11/07/00.05/ – vefsíðu sem þeir kalla Pétur Pétursson prófessor í guðfræði fer vísvitandi með rangt mál . –– Eins má benda þér á vefsíðuna Tölfræðilegur blekkingaleikur, http://www.vantru.is/2005/10/31/00.00/ – en þar hamast þeir á trúarviðhorfskönnuninni sem Gallup og þið voruð að birta. Ég hef reynt að taka upp hanzkann fyrir ykkur, en það væri miklu betra, ef þú gætir leiðrétt rangfærslur þeirra. –– Með kærri kveðju og virðingu, Jón Valur Jensson.


Jón Valur Jensson - 08/11/05 19:06 #

Þetta segir Pétur í svari sínu til mín frá í gær: Sæll Jón. –– Takk fyrir tilskrifið. –– Ég hef hraðlesið pistil vantrúarmanna og það sem er alvarlegt við hann er að hann er skrifaður af skráðum nemanda í H.Í. Ég mun skrifa rektor Kristínu Ingólfsdóttur og setja hana inn í málið og láta hana ákveða hvað gert verður.   Ég var í viðtalinu að vitna í rannsóknir sem gerðar hafa verið s.l. tvo áratugi og hafði ekki tölurnar fyrir framan mig og vitnaði í þær eftir minni sem ég sé að hefur verið nokkuð gott. –– Í bréfi mínu til rektors verða tvö ljósrit úr skýrslum viþurkenndra rannsóknarstofnana henni til glöggvunar. Annað úr skýrslu Friðriks H. Jónssonar og Stefáns Ólafsssonar frá 1991: Lífsskoðun í nútímalegum þjóðfélögum (Félagsvíndastofnun H.Í.) Tafla 4.4, bls. 72, þar kemur fram að 85% Íslendinga árið 1990 trúa að Guð sé til. –– Og bls. 38  í skýrslu Gallúp frá 2004, þar kemur fram að 76,3% merkja við valmöguleikann: "Ég játa kristna trú."   Þú mátt birta þetta bréf eða úr því í pistlum þínum og ég dáist að því hvað þú ert þolinmóður við þessa pilta. Ég mun ekki skrifa á þeirra síður. –– Kær kveðja, Pétur


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 19:17 #

Hjálpi mér! Er Pétur að misskilja eigin könnun?! Það er bara staðreynd að könnunin sýnir að um 51% játa kristna trú.

Og af hverju er hann að vitna í 15 ára gamla könnun þegar hann er nýbúinn að vinna aðra könnun? Það er lítið vit í því.


Sævar Helgi - 08/11/05 19:23 #

Ég hef hraðlesið pistil vantrúarmanna og það sem er alvarlegt við hann er að hann er skrifaður af skráðum nemanda í H.Í. Ég mun skrifa rektor Kristínu Ingólfsdóttur og setja hana inn í málið og láta hana ákveða hvað gert verður.

Áhugavert, sérstaklega ef (lesist "þegar") í ljós kemur að Pétur fer með rangt mál en ekki þessi nemandi við H.Í.

Í mínum huga er ekki spurning um hvort er alvarlegra, að prófessor fari með rangt mál (læt vera hvort það er vísvitandi eða ekki, vonandi, fyrir hann, bara misskilningur) eða nemandi.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 19:43 #

Vegna ábendingar frá Jóni Val höfum við ákveðið að leiðrétta greinina. Við töldum afar ólíklegt að Pétur gæti misskilið sína eigin könnun, eða þá að hann myndi vitna í 15 ára könnun í staðinn fyrir að tala um könnunina sem var tilefni viðtalsins.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 19:46 #

En könnunin sem hann hefur verið að kynna sýnir einmitt á það að fullyrðingin "85% trúa að guð almáttugur sé til" er ekki sönn.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 20:51 #

Þetta bréf frá Pétri er makalaust.

Í fyrsta lagi hótar hann Hjalta í stað þess að ræða efnið málefnalega. Það er ótrúlega lágkúrulegt. En sjáið til, ef þetta fer fyrir siðnefnd Háskóla Íslands er bara einn aðili sem á á hættu að vera ávíttur, Pétur Pétursson sjálfur.

Í útvarpsþættinum sem vitnar er til talar Pétur Pétursson í nútíð. Hann segir ekki 75% íslendinga voru trúaðir, hann segir að þeir séu það. Vitnum í hann:

"Íslendingar taka mjög vel undir það að þeir séu kristnir, það er kannski svona þrír af hverjum fjórum sem segja “

Pétur segir í bréfinu til Jón Vals:

Ég var í viðtalinu að vitna í rannsóknir sem gerðar hafa verið s.l. tvo áratugi og hafði ekki tölurnar fyrir framan mig og vitnaði í þær eftir minni sem ég sé að hefur verið nokkuð gott.

Pétur var að ræða nýjustu könnunina í þessum þætti, hann minnist á eldri kannanir en það er gert til samanburðar við nýju könnunina. Ef Pétur getur ekki munað helstu tölur úr könnun sem hann var að kynna í síðustu viku er ljóst að karlinn er farinn að kalka. Fjandakornið, hann mætti í þáttinn til að ræða þessa könnun.

En það sem verra er, Pétur kynnti könnunina á óheiðarlegan máta með því að gefa út villandi upplýsingar. þessar upplýsingar rötuðu í fjölmiðla sem birtu rangar niðurstöður. Pétur ekki enn séð ástæðu til að koma leiðréttingu á framfæri og því hefur almenningur fengið rangar upplýsingar beinlínis vegna gjörða Péturs og samstarfsfólks hans.

Það toppar svo allt að Pétur skuli misskilja eigin könnun og um leið sanna mál okkar. Hann hefur semsagt ekki viljandi farið rangt með, Pétur Pétursson hefur ekki skilning á könnun sem hann framkvæmdi sjálfur. Hvernig áttum við að vita að prófessorinn hefði ekki grundvallar skilning á tölfræði?

Það er til háborinnar skammar fyrir hann sjálfan, guðfræðideild Háskóla Íslands, félagsfræðideild og Háskólasamfélagið.

Jón Valur, þú mátt skrifa til Péturs og benda honum á að hann sé að mistúlka eigin könnum. Kannski er von til þess að hann fari í fjölmiðla og leiðrétti þetta þegar hann gerir sér grein fyrir að hann hefur verið að fabúlera um málið alla síðustu viku.

Ég vorkenni honum dálítið, hann fer þá ekki viljandi rangt með eftir allt saman heldur er bara svona vitlaus !


G2 (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 20:52 #

Ég er ekki að skilja - hvað á mannkertið við með þessu:

"Ég hef hraðlesið pistil vantrúarmanna og það sem er alvarlegt við hann er að hann er skrifaður af skráðum nemanda í H.Í."

Mega nemendur í HÍ ekki tjá sig opinberlega???


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 21:52 #

Það er leiðinlegt að JV þurfi að miðla upplýsingum frá Pétri hérna á vefinn. Þetta er alltaf að verða meiri skandall með hverju spori sem blessaður maðurinn tekur. Hann kom til kynna þessa könnun í útvarpsþættinum sem hann gerði sjálfur í nafni deildarinnar. Núna vill hann ekkert kannast við hana heldur telur sig hafa verið allan tíman að vitna 10 til 20 ára gamlar kannanir sem nútímasannleik. Það er alveg rosalegt ef hann telur sig fræðimann, lengra verður ekki sokkið í ónákvæmni. Síðan hef ég aldrei á ævinni lesið aðra eins lágkúru eins og þá að reyna að terrora nemendur HÍ í gegnum þriðja aðila. Ég verð að heyra Pétur segja þetta sjálfan áður en ég samþykki þetta sem sannleik.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 22:07 #

Ætlar Pétur virkilega að bera fyrir sig klaufaskap þegar hann ætlar að svara fyrir túlkun sína á eigin könnun? Pétur er sá maður sem á að þekkja þessa könnun best. Ætlar hann að kenna Gallup um að hann misskildi þetta svona klaufalega? Hann sjálfur mataði upplýsingar í fjölmiðla og kom í viðtöl með 10 til 20 ára gamlar kannanir í kollinum og kynnti þær sem sína nýjustu. Þetta er allt svo sorglegt og mikið áfall fyrir HÍ sem mest má vera.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 22:53 #

Jón Valur skrifar í bréfi til Péturs:

Ég hef reynt að taka upp hanzkann [sic] fyrir ykkur, en það væri miklu betra, ef þú gætir leiðrétt rangfærslur þeirra.

Jón Valur, vertu maður og bentu sjálfur á þessar meintu rangfærslur.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 08/11/05 22:56 #

Hvernig getur Pétur ruglast á bls 28 og 38 í könnunni. JV, það hefði verið betra að leiðrétta þessa villu áður en þetta fór í loftið. Það hefði komið betur út fyrir Pétur hans stál minni. Því í svari Pétur er skrifað "vitnaði í þær eftir minni sem ég sé að hefur verið nokkuð gott"


Egill Darri - 08/11/05 23:16 #

Ég bara trúi ekki mínum eigin augum. Ekki einasta virðist greyið maðurinn misskilja sína eigin könnun heldur hótar hann nemanda við HÍ fyrir að viðra skoðanir sínar!!!

Eru þetta vinnubrögðin sem viðhöfð eru í HÍ? Þvílíkt og annað eins. Maður fær óbragð í munninn.

Ég er nú ekki vanur að tjá mig hérna inni en nú ofbauð mér.

Hvað í ósköpunum skildi maðurinn meina með þessari hótun? Hvaða ákvörðun á Kristín rektor að taka? Reka Hjalta úr HÍ? Veita honum áminningu? Það þætti mér fróðlegt að vita.


Jón Valur Jensson - 09/11/05 01:09 #

Þið eruð í essinu ykkar, piltar, ég var að líta hérna inn rétt fyrir háttinn eftir lestur á Vísisvef Egils Helgasonar um alvarlegri mál. Gef mér aðeins tíma til þess í bili að hvetja menn til að ófrægja ekki sína eigin dómgreind með því að halda því að lesendum, að Pétur sé "bara svona vitlaus". Þeir eru ekki margir hérlendis, sem hafa tvö doktorspróf upp á vasann, en Pétur er einn þeirra fáu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 01:15 #

Maðurinn mætti vera með tíu doktorsgráður mín vegna. Ef hann mistúlkar grundvallaratriði í könnun sem hann stendur fyrir sjálfur, eins og hann gerði í útvarpsþættinum og aftur í bréfinu til þín, þá er eitthvað að.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 09:13 #

Það sem er líka sorglegt að í þessu útvarpsviðtali kallar Pétur vísindin mýtu. Hann dæmir þannig Háskólasamfélagið mjög hart og þá kennslu sem þar er boðuð. Málið er í raun allt miklu alvarlegra gagnvart Pétri en orð eru á gerandi. Ef hann hafnar vísindlegri aðferðafræði jafn mikið og hann gerir í útvarpsviðtalinu þá er kannski skiljanlegt að hann fari með rangt mál með könnunina.


Sævar Helgi - 09/11/05 10:05 #

Og með því að kalla vísindin mýtu eða hafna vísindalegri aðferð er hann að gengisfella sína eigin könnun sem væntanlega er unnin út frá vísindalegum forsendum. Svo ekki sé minnst á að guðfræðingar eru duglegir að kalla guðfræðina (ranglega) vísindagrein.

Þessi maður er í mótsögn við sjálfan sig. Ég þykist þó vita um hvað vísindi hann er að ræða og það eru vitaskuld alvöru vísindi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 11:04 #

Ég ítreka hvatningu mína til Jóns Vals sem skrifaði til Péturs.

Ég hef reynt að taka upp hanzkann [sic] fyrir ykkur, en það væri miklu betra, ef þú gætir leiðrétt rangfærslur þeirra.

Jón Valur, ekki vera með órökstuddar dylgjur og bentu á þessar meintu rangfærslur.


Jón Valur Jensson - 09/11/05 15:28 #

  1. Þið megið ekki vænta þess af mér að standa hér í vörn fyrir könnun (eða túlkun hennar) sem aðrir sáu um og ég þekki ekki fullkomlega í grunninn, enda hef ég nógu öðru að sinna. Þið ættuð bara að ræða það mál við Gallup.

  2. Ég gef mér heldur engan tíma til að anza hér þeirri hugsanavillu Sævars Helga, að guðfræðin sé “ekki vísindi,” en ég er til í að fræða ykkur betur um það mál seinna.

  3. Nokkuð sterkt tók ég til orða um rangfærslur af ykkar hálfu. Er þó alls ekki að segja, að allt ykkar mál eða meintu leiðréttingar hafi verið rangfærslur – ég ætlaði Pétri bara að koma auga á það sjálfur, þar sem við ætti. En ég er beðinn að rökstyðja það, að þið hafið verið með einhverjar rangfærslur. Gott og vel:

A) Ég kalla það ekki trúverðugt, hvernig þið tókuð á innleggi mínu á vefsíðunni Tölfræðílegur blekkingarleikur, 1/11 kl. 22:29, sem benti á, að 51% aðspurðra voru andvígir því, að fellt yrðu burtu úr stjórnarskrá það ákvæði, að ríkið skuli styðja Þjóðkirkjuna, en 42% voru hins vegar hlynntir því að fella það ákvæði niður, og 7% sögðu hvorki né. Af þeim, sem afstöðu tóku (sbr. ef um þetta færu fram kosningar), voru þá 54,8% fylgjandi því að halda þessu ákvæði inni í stjórnarskránni. – Þetta vilduð þið helzt ekkert kannast við og vefengduð það vegna annarra kannana, sem spyrja þó ekki beint þessarar sérstöku spurningar.

B) Þið áttuð mjög erfitt með að gútera könnunina frá febr.-marz 2004, þar sem einungis 54% voru fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég afneita hins vegar ekki hinum könnununum.

C) Þegar ég benti á, að Þjóðkirkjan væri ekki á ríkisjötunni, var strikað yfir orð mín um það, og þegar ég benti á sjálfsósamkvæmni Matta í þeirri rithreinsunarviðleitni hans, setti hann það innlegg mitt (6/11 kl. 14:05) á skammarkrók spjalllistans.


Sævar Helgi - 09/11/05 15:30 #

Svo ekki sé minnst á að guðfræðingar eru duglegir að kalla guðfræðina (ranglega) vísindagrein.

Úbbs, þarna átti að standa, "... að kalla guðfræðina (ranglega) drottningu vísindanna."

Sem sagt mér er alveg sama þótt einhverjir kalli guðfræði vísindi (mín skoðun skiptir þar ekki máli), en engin drottning er hún.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 15:31 #

Af hverju léstu fyrsta hluta svarsins ekki bara duga?


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 15:33 #

Jón Valur, þú bendir ekki á neinar rangfærslur.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 15:34 #

Jón Valur, Þetta er ekkert svar hjá þér. Hvað finnst þér, fer Pétur með rétt mál þegar hann segir að 75% íslendinga séu kristnir samkvæmt þessari könnun? Reyndu að svara minn kæri


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 15:43 #

C) Þegar ég benti á, að Þjóðkirkjan væri ekki á ríkisjötunni, var strikað yfir orð mín um það, og þegar ég benti á sjálfsósamkvæmni Matta í þeirri rithreinsunarviðleitni hans, setti hann það innlegg mitt (6/11 kl. 14:05) á skammarkrók spjalllistans.

Því miður er nauðsynlegt að fara út í slíkar aðgerðir til að halda fólki við efnið. Þarna varst þú á leiðinni út í allt aðra sálma og því tók ég þessa ákvörðun.

Um þetta verður þó ekki rætt frekar hér. Settur hefur verið upp sérstakur þráður á spjallinu til að ræða ritstjórnarstefnu Vantrúar.

Bið fólk að fara ekki út í þrætur við Jón Val hér, það er hans að benda á rangfærslur. Ekki láta hann draga umræðu út í þras um afstöðu þjóðarinnar til aðskilnaðar ríkis og kirkju, það hefur þegar verið rætt - Jón Valur hefur rangt fyrir sér.


Jón Valur Jensson - 09/11/05 18:45 #

[athugasemd færð á spjallið, Jón Valur, vinsamlegast haltu þig við umræðuefnið]


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 18:57 #

Jón Valur, ég hélt að þú ætlaðir að benda á rangfærslur. Ef þú getur ekki fundið neinar rangfærlsur þá væri heiðarlegast að viðurkenna það.


ORK - 09/11/05 19:43 #

Til þess að reka niður hvað er vísindi og hvað er ekki, er gott að kíkja á http://www.hi.is/page/grunnnam þar er sagt af Háskóla íslands að bæði grunnnám (90 ein.) og djáknanám (90 ein.) gefa B.A. gráðu ekki B.Sc. þ.e. Bachelor of ART ekki Bachelor of SCIENCE.


Ásgeir - 09/11/05 19:54 #

ORK: Það er vegna þess að orðin vísíndi og 'science' þýða ekki það nákvæmlega sama. Stundum á hið síðarnefnda einungis við raunvísindi. Sagnfræði og félagsfræði eru t.d. vísindagreinar þó að þar séu veittar B.A. gráður.


Ari - 09/11/05 19:56 #

Ertu að segja að nám til BA gráðu séu ekki vísindi?


Jón Valur Jensson - 09/11/05 20:01 #

[hluti af þessari athugasemd var færður á spjallið, það sem tengist umræðunni fær að standa]

En þakka ykkur að öðru leyti umræðuna – vona að sumir a.m.k. kunni að meta það við mig að hafa (að vísu með fullu leyfi Péturs) birt hér bréfaskipti okkar PP óstytt, og athugið það, að ummæli mín um 'rangfærslur' voru sett fram í flýti í einkabréfi til hans, ekki ykkur til ófrægingar á opinberum netmiðli, heldur honum ætluð, og hann hefði auðvitað síðan lagt sitt mat á það sjálfur, hvort hann liti eins á. (Naumast hefðuð þið viljað, að ég felldi þetta burt úr bréfi mínu, sem þið fenguð hér afrit af.) Þetta var að vísu nokkuð sterkt til orða tekið hjá mér, ég hef þegar viðurkennt það, en mér finnst túlkun ykkar á vefsíðunni Tölfræðil. blekkingarleikur vera nokkuð svo 'rigged', og ekki gæti ég skrifað undir ýmislegt í ykkar áherzlum og túlkun þar, eins og sést líka hér í næstsíðasta pósti mínum. En ég læt þetta gott heita og kveð að sinni, hef fengið nóg af þessari umræðu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/11/05 20:25 #

Jón Valur, við stöndum í þakkarskuld við þig fyrir að hafa haft samband við Pétur og komið svari hans áleiðis til okkar. Einnig tökum við það að sjálfsögðu til greina að þú hafir tekið full sterkt til orða.

Ég er sannfærður um að það eru engar rangfærslur í skrifum okkar um þessar könnun og kynningu Péturs á henni. Ef einhver finnur rangfærslur og bendir okkur á þær munum við að sjálfsögðu taka fullt mark á því og koma leiðréttingu á framfæri til lesenda.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 10/11/05 00:18 #

Þetta er nú óvenju góð umræða upp á þetta að gera - menn hafa ýmist rétt fyrir sér eða rangt. Það er voða lítið rúm fyrir túlkanir. Þess vegna ætti að vera óvenju auðvelt að benda okkur á það ef rangt er farið með eitthvað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.