Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hin umburðarlynda þjóðkirkja

Þjóðkirkja okkar Íslendinga er ákaflega umburðarlynd stofnun. Hjá henni eru allir velkomnir. Engu skiptir þótt fólk brjóti boðorðin – leggi t.d. nafn drottins við hégóma með því að segja “guð-minn-almáttugur” þegar bolli dettur í gólfið. Eða “djííísús” – samkvæmt nútíma málfari. Enginn er heldur rekinn úr kirkjunni þótt hann girnist konu náunga síns, vinni á hvíldardeginum eða steli undan skatti. Það skiptir heldur engu þótt þú aðhyllist spíritisma, nýaldarhugmyndir, endurholdgun eða andalækningar. Kannski ertu þeirrar skoðunar að guð sé “það góða í manninum”. Ekkert mál – þjóðkirkjan heldur þér inni.

Allt ofangreint stangast á við það sem kirkjan játar og kemur fram í samnefndri bók sem tekin er saman af Einari Sigurbjörnssyni og kom út í Reykjavík 1991. Undirtitill bókarinnar er: Saga og mótun kristinna trúarjátninga og yfirlit yfir helstu kirkjudeildir kristinnar. Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar með skýringum. Þetta er bók sem allir sem tilheyra þjóðkirkjunni ættu að lesa. Ekki síst til þess að vita í hverju trú þeirra Á að vera fólgin. Því er nefninlega ekki haldið á lofti af þjónum þjóðkirkjunnar. Fæst okkar hafa lært meira biblíusögur í skólanum fyrir utan nokkrar bænir heima - hugsanlega. Síðan kom jú fermingarfræðslan með faðirvorinu og trúarjátningunni og nokkrum sálmum. En hið raunverulega innihald hinnar evangelisku lúthersku trúar er lítið verið haldið á lofti.

Bókin rekur hvernig kirkjuþingin fara að því að sundrast eða sættast utan um hin einstöku deiluefni, eins og t.d. hvort María móðir Jesú hafi verið með karlmanni þegar hún varð barnshafandi. Mikið var einnig deilt um það hvort Jesú gæti bæði verið guð og maður. Hvort guð gæti haft mennskan líkama.

Hér á eftir fara nokkrar glefsur úr játningum kirkjunnar og menn geta prófað hvort trú þeirra samrýmis því sem þar stendur:

Úr Aþanasíusarjátningunni (sem var rituð gegn annarri játningu)

Sérhver sá sem hólpinn vill verða verður umfram allt að halda almenna trú og sá sem ekki varðveitir hana hreina og ómengaða mun án efa glatast að eilífu.

En þetta er almennt trú, að vér heiðrum einn Guð í þrenningu og þrenninguna í einingu og að vér hvorki ruglum saman persónunum né greinum sundur veruna.
...
Þannig er faðirinn Guð, sonurinn Guð, heilagur andi Guð og samt ekki þrír guðir, heldur einn Guð. Þannig er faðirinn Drottinn, sonurinn Drottinn, heilagur andi Drottinn og samt eru ekki þrír drottnar heldur einn Drottinn.
...
Því eins og kristinn sannleikur knýr oss til að játa hverja persónu fyrir sig bæði Guð og Drottinn svo bannar almenn trú oss að segja guði eða drottna þrjá.
...
Faðirinn er af engum gerður og ekki heldur skapaður eða fæddur. Sonurinn er ekki gerður og ekki skapaður, heldur fæddur af föðurnum einum. Heilagur andi er ekki gerður og ekki skapaður, og ekki heldur fæddur, heldur útgengur hann af föður og syni.
...
Sá sem vill hópinn verða, verður að halda þetta um þrenninguna. En það er og nauðsynlegt til eilífs hjálpræðis að trúa í einlægni holdgun Drottins vors Jesú Krists.
...
Þetta er almenn trú. Sérhver sá sem ekki trúir henni í einlægni og staðfastlega mun ekki geta frelsast.

Ég ítreka áskorun mína til meðlima þjóðkirkjunnar að kynna sér efni játninga kirkjunnar en vitna að lokum í greinina um upprunasyndina:

“...Eftir fall Adams fæðast allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda.”

Þar höfum við það. Sem sagt næst þegar þú, lesandi góður, horfir á ungabarn sérðu rakinn syndara sem fer beint til Helvítis verði það ekki skírt.

Ég byrjaði þessa grein á því að benda á hve umburðarlynd þjóðkirkja okkar Íslendinga er. Þótt það litla sem ég hef vitnað í úr játningum kirkjunnar sé í hrópandi andstöðu við það hvernig flestir upplifa og útskýra sína trú (sbr. nýja könnun Gallups um trúarlíf Íslendinga) er öllum haldið innan þjóðkirkjunnar. Af hverju? Hvert haldið þið, lesendur góðir, að svarið sé?

Ég sagði hér í allra fyrstu setningunum að “allir” væru velkomnir hjá þjóðkirkju Íslendinga. Eins og allir gera sér grein fyrir er það ekki alveg rétt – samkynhneigðir eru ekki velkomnir. Ekki ef þeir vilja gifta sig að minnsta kosti.


Heimild: Einar Sigurbjörnsson, “Kirkjan játar”, Reykjavík 1991

Jórunn Sörensen 26.01.2006
Flokkað undir: ( Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


jogus (meðlimur í Vantrú) - 26/01/06 13:31 #

Áhugavert með upprunasyndina, "sem getnir eru á eðlilegan hátt". Þýðir það að glasabörn eru syndlaus?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/06 13:36 #

– samkynhneigðir eru ekki velkomnir. Ekki ef þeir vilja gifta sig að minnsta kosti.

Ekki heldur ef þeir vilja tæknifrjóvgun eða fá að ættleiða.


Árni Árnason - 26/01/06 14:49 #

Þetta gríðarlega umburðarlyndi á sér bara eina skýringu Jórunn. Þetta er nákvæmlega sama "umburðarlyndið" og hjá bareiganda sem umber það af gæsku sinni að gestir hans hafa ekki náð lögaldri til vera inni á vínveitingastað. Hann umber líka að þurfa að taka við peningunum þeirra fyrir drykki á uppsprengdu verði.

Umburðarlyndi "my ass". Engin prinsipp, engin trúfesta, engin sannfæring, enginn velvilji,engin trú. EKKERT ---- nema græðgin. Og þar hefur þú það Jórunn, "straight from the horses mouth"

Kveðja Árni


Gunnar - 29/01/06 18:47 #

Eins og einn þekktasti heimspekingur sagði forðum." Kristin trú var ekki einungi í fyrstu háð kraftaverkum heldur ennþá þann dag í dag getur ekki nokkur maður með viti játast henni í dag nema fyrir kraftaverk.,, ég heldum stundum að David Hume sé snillingur


hjalti hilmarsson - 23/06/07 23:49 #

æi ekki vera svona fúll. helmingur biblíunar var skrifaður í þeim tilgangi að hræða fólk til kristni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.