Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lítið kver um kristna trú lesið: Hvað er kristin trú?

Á vef hinnar rangnefndu þjóðkirkju má lesa Lítið kver um kristna trú þar sem að Karl Sigurbjörnsson, æðsti biskup þjóðkirkjunnar varpar “ljósi á meginatriði kristinnar trúar og siðar og beinir sjónum þangað sem svörin er að finna.”. Prestar og aðrir menn innar kirkjunnar virðast vera vanir því að fá ekki gagnrýni og þess vegna hafa þeir vanist því að flytja innihaldslausar eða beinlínis heimskulegar ræður úr fílabeinsturninum þeirra. Hér verður breytt út frá þeim vana og um leið verður reynt að kíkja inn í hugarheim mannsins sem að telur trúleysi ógna mannlegu samfélagi, Karls biskups:

2.Hvað er kristin trú?

Kristin trú er að treysta Jesú Kristi. Kristin trú er að reiða sig á að það sem Jesús kennir um Guð og mann, líf og heim sé satt og rétt. Og að treysta því að hann segi satt um það hver hann sjálfur er. Að vera kristinn er ekki að kunna skil á leyndardómum tilverunnar, heldur treysta því að öllu sé borgið, vegna þess að Guð er eins og Kristur birtir hann og boðar.

Kristin trú er er engin djúp vitneskja. Það virðist nægja að trúa í blindni á orð einhverrar persónu í bókum skrifuðum áratugum eftir meinta jarðveru persónunnar. Réttara sagt þarf maður að trúa því að höfundar guðspjallanna fóru rétt með staðreyndirnar og að treysta því að þeir sem að sögðu höfundunum frá fóru rétt með staðreyndirnar. Auðvitað er nauðsynlegt að trúa því að Jesús hafi verið með öllu mjalla og að hann hafi yfir höfuð verið til. Þetta nægir að vísu ekki því að nauðsynlegt er að túlka þessi orð rétt. Allir kirkjunnar menn taka undir það enda er það eitt af grundvallaratriðum guðfræðinámsins, að túlka ritninguna í ljósi Krists. Helvíti, eldsofn og eilífan eld bera til dæmis að túlka sem “andlegt ástand”.

Síðan efast ég um að nokkur heilbrigð manneskja, þar með talinn Karl, treysti öllu því sem höfundar guðspjallanna lögðu sögupersónunni Jesú í munn. Aldrei hef ég vitað til þess að Karl hafi hvatt fólk til þess að hata fjölskylduna sína (Lúk. 14:26) og að gera aðra heimskulega hluti. Það að vera kristinn er ekki eins einfalt og virtist í fyrstu. Áfram heldur Karl:

Kristin trú er tómar hendur sem teygja sig fram til gjafara allra góðra hluta. Trú er að vita sig hluta samhengis sem er ólýsanlega stórt og víðtækt, umlykur allt, í lífi og dauða. Trú er jafnframt tryggð, að halda tryggð við Guð, eins og trúnaðarvin. Trú er vinátta við Guð, að vita sig eiga vin þrátt fyrir allt illt, ógnvekjandi og fjandsamlegt í tilverunni, vita sig eiga Guð að vini og samleið með honum.

Trúin er semsagt það að vita það að maður er hluti af stærra samhengi. Það passar nú ágætlega við alla, öll erum við hluti af náttúrunni og raunveruleikanum Karl kemur síðan að grunnþætti í kristinni trú, það að eiga ósýnilegan trúnaðarvin, vinur sem að af einhverjum ástæðum kemur ekki í veg fyrir “ógnvekjandi og fjandsamlega” hluti. Ekki góður vinur það, fær mann til þess að halda að hann sé bara alls ekki til.

Trú er að leitast við að rækta vináttuna við Guð, þrátt fyrir mistök og synd, þrátt fyrir allt illt og mislukkað í eigin lífi. Í þeirri trú geta gerst kraftaverk innra með manni. Breyting frá vantrú og efa, ótta og angist til sálarfriðar, frá angistarfullri sjálflægni til kærleika og vináttu og umhyggju fyrir öðrum.

Karl virðist af einhverjum ástæðum vilja tengja efa og vantrú við ótta, angist og angistarfullrar sjálflægni. Andstæðan við efa og vantrú er að sjálfsögðu trúin sem að hefur síðan í för með sér sálarfrið, “kærleika og vináttu og umhyggju fyrir öðrum.” Ég vona innilega að hann sé þroskaðri en það að telja efa og vantrú í andstæðu við gott siðferði. Mýtan um siðlausa trúleysingjan virðist lifa góðu lífi í höfðinu hans.

Það er gaman að setja önnur orð í staðinn fyrir “vantrú og efa” eins og samkynhneigð, islam eða kristni og sjá hvernig útkoman verður:

Breyting frá samkynhneigð, ótta og angistar til sálarfriðar, frá angistarfullri sjálflægni til kærleika og vináttu og umhyggju fyrir öðrum.”

Ég held að margir yrðu ekki ánægðir með þetta. Áfram heldur Karl:

Það hefur ekki í för með sér lausn frá erfiðleikum og raunum lífsins, heldur það að eiga mitt í öllu þessu athvarf í ríki náðarinnar og góðvildarinnar og kærleikans sem mun sigra og ríkja. Trú, að vera kærleikans megin. Að vilja vinna heiminum og meðbræðrum sínum til góðs, stuðla að því að lífið verði í samræmi við kærleika Guðs.

Áfram flæðir spekin úr pennanum. Fyrst að trú er að vera kærleikans megin, er þá ekki vantrú að vera ekki kærleikans megin? Það er sorglegt ef satt er að Karl telur yfirnáttúrutrú vera nauðsynlega góðu siðferði. Hvað með trúað fólk sem að er ekki kærleikans megin? Er það ekk trúað?

Trú er að vera trúr, athugull frammi fyrir Guði og hlusta á rödd hans. Trúarlíf kristins manns miðar að því að iðka það og rækta. Að hvílast í Guði og iðka þá hvíld, að þjálfa sig í því að fela sig Guði á hendur og treysta honum, að hlusta og að hlýða.

Síðast en ekki síst er trú síðan það heyra raddir, en það er ekki talið heilbrigt utan trúarbragðanna. Kristnum manni ber “iðka trúnna”, enda væru engir prestar til ef að fólk gerði það ekki. Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að hlýða Guði. Þessi þrælslund kristninnar eru enginn nýmæli hjá Kalla, enda virtist uppáhaldslíking Jesú vera sú að líkja manni og guði við þræl og meistari. (td. Matt 18:23, 22:2-3, 24:45, 25:14, Lúk 12:47-48)

Karl hefur líklega setið með sveitt ennið við að semja þessa bók, en ruglið er augljós afleiðing þess að hafa engan til að gagnrýna málflutning sinn. Bannið sem var sett á gagnrýni á trúarskoðanir kirkjunnar, sem var líklega vegna þess að skoðanirnar stóðust ekki gagnrýni, hefur valdið því að kirkjunnar menn geta bullað nánast algjörlega óáreittir. Vantrú mun breyta þeirri venju og við munum sjá að bullið í bókinni hans Karls á bara eftir að versna.

Hjalti Rúnar Ómarsson 06.12.2005
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Ormurinn - 06/12/05 10:56 #

"Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að hlýða Guði. Þessi þrælslund kristninnar eru enginn nýmæli hjá Kalla, enda virtist uppáhaldslíking Jesú vera sú að líkja manni og guði við þræl og meistari"

Það er einmitt þetta sem stingur sérstaklega í stúf þegar verið er að tala um vináttu við guð.

Vinátta byggist á jafnréttisgrundvelli en það fer lítið fyrir því ef menn eiga von á refsingu ef þeir óhlýðnast besta vini sínum. Vinátta við guð minnir meira á vináttu manns við hund (nema hvað ég refsa aldrei hundinum mínum)


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/05 13:23 #

Já, mikið til í þessu. Ég hef einnig heyrt þessu sambandi líkt við samband á milli eiginmanns sem misþyrmir konunnni sinni.


xxx - 09/12/05 13:27 #

Takið það góða með því slæma.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.