Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Djásnin og mykjuhaugurinn

Seinni tíma útspil kristinna guðfræðinga, þegar búið er að sauma að þeim með því að sýna fram á hve hættulegt og órökvíst rit Biblían er, er að halda því fram að inntak hennar verði að skilja einhverjum "innri skilningi".

Ekki verður betur séð en þessi sýn á kristindóminn sé í dag almennt viðurkennd meðal fræðimanna. Í ræðu sem Páll Skúlason háskólarektor flutti í Dómkirkjunni á 1. desemberhátíð segir:

Þessi frelsunarsaga er sannkallað ævintýri, fantasía sem er engu lík og óþrjótandi uppspretta líknar og lausnar. En hún er ekki heimsskoðun, miklu fremur trú á fjarstæðukennda hluti og furðulega veru og verur og stendur í sjálfu sér miklu nær draumórum en skynsamlegum skoðunum á lífinu og tilverunni. Hún er ekki ómerkari fyrir það, öðru nær. Ef kristin trú væri heimsskoðun og þegar hún er skoðuð sem slík, þá verður hún eins og hver önnur hjátrú og hindurvitni, tóm vitleysa hvernig sem á hana er litið. Og þessi vitleysa getur meira að segja orðið stórhættuleg, ef menn taka hana bókstaflega og ætla að leggja hana gagnrýnislaust til grundvallar skoðunum sínum á lífinu og tilverunni.

Páll er hér að vísa í þennan innri skilning, þá leit að hinu sanna inntaki í boðun Krists, sem upphefur kristindóminn sé rétt að málum staðið. Og eftir því sem séð verður dugar ekki að leggja veraldlegan skilning í boðskapinn sem trúarritið boðar. Kristindómurinn er nefnilega, sé eitthvað að marka Pál, stórhættuleg vitleysa sé lagður rangur skilningur í hann.

Þetta vekur hjá mér þær spurningar hvers vegna svona lítið hefur farið fyrir því hjá kirkjunnar mönnum að kynna þennan ólíka skilning og hættuna sem stafað getur af því að leggja rangan skilning í hugmyndakerfið. Og þegar maður hugsar til þess að prestar vaði inn á leikskólana, skrifi námsbækur fyrir kristinfræðikennslu grunnskólanna og safni unglingum til fermingarfræðslu án þess að þetta komi nokkursstaðar fram, þá blöskrar manni hreinlega.

Kannski á þjóðkirkjan hreinlega sök á því hvernig komið er fyrir trúarlífi landans, nú þegar allt veður í hættulegum og forheimskandi bókstafstrúarsöfnuðum. Því sé inntak nútímaguðfræði rétt skilið snýst hún um leit að djásnum í þeim daunilla mykjuhaug sem Biblían er.

En á meðan heldur kirkjan áfram að boða að mykjuhaugurinn sjálfur sé gersemin. Er ekki ábyrgðarhluti að boða slíkt, þegar hættan sem fylgir því er svona augljós og viðurkennd?

Birgir Baldursson 29.09.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


eva - 30/09/03 10:56 #

Mér finnst nú fulllangt gengið að kalla jafn sundurleitt safn goðsagna, ævintýra, spádóma, ljóða og sagnfræðilegra heimilda og Biblían er "mykjuhaug". Þótt ótrúlega margir séu nógu flippaðir í hugsun til að líta á Íslendingasögurnar eða þjóðsögur Gyðinga sem óbriðgula sagnfræðiheimild, þá er ekki við bækurnar eða höfunda þeirra að sakast. Við verðum, fjandinn hafi það, að gera ráð fyrir að hver og einn beri ábyrgð á því að beita heilatuðrunni í sér til þess að komast að því hvort og að hve miklu leyti hann vill haga lífi sínu í samræmi við siðfræðikenningar upprunnar úr mörg þúsund ára menningarsamfélagi, gerólíku okkar. Þótt til kunni að vera fólk sem er nógu klikkað til að trúa á jafn lélega og fáránlega veru og Edda skæralúku, eiga myndirnar um hann sama rétt á sér og aðrar kvikmyndir.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/09/03 11:15 #

"Mér finnst nú fulllangt gengið að kalla [Biblíuna] "mykjuhaug".

Aha, Eva. Mér þykir það við hæfi, enda er þetta með ljótari bókum sem maður les, uppfull af mannfyrirlitningu, ofstopa, yfirgangi og heimsku. Það er djúpt á fegurðinni sem guðfræðingarnir eru á höttunum eftir.

Til röksemda máli mínu, þá líttu á þessar greinar hér:

Kristilegt ofbeldi gegn börnum
Hver eru siðferðileg markmið Jesú?
Kristið siðferði er ekkert siðferði
Ó, Jesú bróðir versti
Geðbilun á bókarformi
Vísindaritið Biblía

Einnig:

Biblían í vantrúarljósi
Nokkur mistök Móse

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.