Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristið siðferði er ekkert siðferði

Þegar Warren Austin sat þing Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd Bandaríkjanna árið 1948 átti hann athyglisvert framlag til lausnar deilunum sem upp voru komnar í Mið-Austurlöndum. Hann stakk einfaldlega upp á að Gyðingar og Arabar leystu deilur sínar "eins og kristnum mönnum sæmir."

Þetta furðulega framlag Austin lýsir í raun algengustu og þrautseigustu ranghugmynd sem vestrænt fólk er að burðast með í kollinum, nefnilega að kristindómurinn hafi á einhvern hátt einkarétt á siðferðinu og ekki sé hægt að ástunda siðferði á öðrum forsendum en kristilegum.

Þegar þetta fólk talar um kristið siðferði á það venjulega við virðingu fyrir náunganum, lífi hans og eigum og þá hegðunarreglu að láta gjörðir sínar ekki bitna á öðrum. Það er ekkert sérkristið við slíkt siðferði og nægir að benda á að slíkt og þvílíkt hegðunarmynstur er viðhaft meðal allra manna, hvar á jarðkúlunni sem þeir hafast við og hvaða trúarbrögð sem þeir stunda.

"Almennt siðferði" væri réttnefni.

Meinlegust verður þessi ranghugmynd þegar kristið fólk, sem í krafti trúar sinnar á heilagleika ákveðinnar bókar telur sig hafa meiri siðferðisþroska en annað fólk, byrjar að klína því á trúlausa að þar fari siðleysingjar sem hættulegir séu samfélaginu. Þetta fólk gefur sér að án trúar á Krist sé allt í hers höndum og barbarismi óhjákvæmilegur.

En er eitthvað til sem heitir kristið siðferði? Jú, ef við skoðum kenningar Krists kemur ýmislegt í ljós sem ég er ekki viss um að kristið fólk sé til í að skrifa undir. Til dæmis það að gefa helming eigna sinna, yfirgefa fjölskyldu sína, já hreinlega hata hana, leyfa öllum að vaða yfir sig og rétta fram kinnar líkamans til þeirra hluta eftir þörfum, ýkja upp undirlægjuhátt sinn gagnvart fólki (ef einhver heimtar að þú gangir með honum mílu skaltu ganga með honum tvær) svo eitthvað sé nefnt.

Það fer auðvitað ekki nokkur maður eftir þessu, hvorki kristnir né aðrir, enda fádæma heimskuleg og mannskemmandi hegðun sem þarna er ætlast til að menn sýni af sér. Kristið siðferði er greinilega ekkert siðferði.

Gleymum því svo ekki að Jesús mismunaði fólki eftir uppruna þess og Páll postuli boðaði t.d. kvennakúgun og hommahatur. Það hlýtur því að vera partur af hinu sanna kristna siðferði, eða hvað?

Birgir Baldursson 13.09.2003
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )