Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fórnarlambið ríkiskirkjan

Mynd af skólastofu

Undanfarin ár hefur ríkiskirkjan verið í mikilli vörn. Hún er ógurlegt fórnarlamb illra og frekra afla, veraldlega sinnaðra. Röddum um að menntakerfið farið að íslenskum lögum og erlendum sáttmálum um að skólar stundi fræðslu en ekki boðun er mætt með útúrsnúningum og kveini. Aldrei er þetta meira áberandi en í kringum jólin. Endurómar þar ríkiskirkjan að einhverju leyti hina fáránlegu hugmynd trúsystkina sinna um „war on christmas“, en það stríð ku nú fara fram í Bandaríkjunum og að einhverju leyti Bretlandi. Rétt eins og hér á landi er það aukið umburðarlyndi fyrir öðrum trúarskoðunum en kristni sem ógnar kristniíhaldinu.

Vantrú fékk leyfi frá Illuga Jökulssyni til þess að birta hér á vefritinu gamla grein eftir hann fyrir jólin. Í greininni bendir Illugi á að fæðingarsaga Jesú í Biblíunni sé augljóslega ekki sönn. Og að þetta hljóti prestar almennt að vita, en kjósi samt að predika hana sem sannleika. Þetta kallar Illugi lygar, og því reiddust bæði prestar og leikmenn. Við vorum skömmuð fyrir að birta slíkan ófögnuð fyrir jólin og ásamt Illuga kölluð bókstafstrúarfólk af sjálfum séra Erni Bárði.

Sá sem heldur einhverju fram sem hann veit að er ekki satt er að ljúga. Þetta er eiginlega skilgreiningin á lygi. En sá sem vill að þeir sem halda einhverju fram gegn betri vitund hætti að halda því fram er ekki bókstafstrúarmaður. Það er einfaldlega della.

Örn Bárður var annars í miklum ham yfir hátíðirnar. Eftirfarandi orð má finna í predikun hans síðastliðinn Gamlársdag:

Hvað er kennt í leikskólum? Hvað er kennt í grunnskólum? Löggjafinn setur ramma þar um en það er ekki nóg. Á sama tíma og amast er við kristnum áhrifum í skólum eru þar kennd önnur trúarbrögð. Börn eru t.d. þjálfuð í yoga í sumum leikskólum og hugmyndafræði framandi trúarbragða án þess að fólk geri sér grein fyrir því hvað þar er á ferðinni. Nú vil ég ekki amast við yoga eða austrænum trúarbrögðum en þegar slíkt er kennt í skólum þar sem lang flest börn eru kristin, þ.e. skírð og tilheyra kristnum foreldrum, þá er spurning hvort foreldrar þurfi ekki að fylgjast betur með. Og ef ekki má syngja jólasálma í skólum eða annað trúarlegt má þá syngja um hvað sem er annað en kristið? Sú afstaða er allt of algeng að halda að trúin ein boði trú en allt annað sé hlutlaust.

Ég skrifaði hér fyrir ofan um útúrsnúninga og kvein. Þarna sjáum við dæmi um bæði. Byrjum á því að ramminn sem löggjafinn setur utan um skólastarf í leik- og grunnskólum er ekki það eina sem skólar þurfa að fara eftir. Í lögum um bæði skólastigin er kveðið á um að menntamálaráðherra láti útbúa aðalnámskrá sem skólum er skylt að fara eftir þegar þeir setja sér sínar eigin námskrár, sem einnig er kveðið á um í lögunum. Þetta er svosem ekki stórt atriði.

Hins vegar er furðulegt að sjá prestinn tengja saman mótmæli við boðun kristni í skólum á sama tíma og önnur trúarbrögð séu kennd. Lykilorðið þarna er „kennd“. Það mótmælir því engin að kristni sé kennd í skólum, mótmælin snúast um boðun trúar. Ef Örn Bárður læsi nú greinasvið aðalnámskrár grunnskóla ræki hann sig á það að fræðsla um kristna trú er langveigamesti þátturinn í trúarbragðakennslu. Og aðalnámskrá stendur, alveg óháð öllum reglum sem sveitarfélög setja um samskipti kirkju og skóla.

Örn Bárður talar um að börn séu þjálfuð í yoga og hugmyndafræði austrænna trúarbragða. Þessar æfingar eru fyrst og fremst teygjur og aðrar álíka æfingar, auk slökunnar, sem fyrst og fremst eru framkvæmdar í gegnum leik eftir því sem ég best veit. Kannski hefur Örn betri upplýsingar en ég. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann notar yogarökin í þessari umræðu. Árið 2010 skrifaði hann eftirfarandi:

En ég hef heyrt um leikskóla þar sem tíðkast að hafa kyrrðarstundir með íhugun þar sem kenndar eru t.d. yogastellingar. Í mínum huga er það trúboð, austrænt að uppruna. #

Presturinn er hér semsagt ekki að fara með staðreyndir heldur eigin skoðanir á því hvað felst í slökun og teygjuæfingum kenndum við yoga.

Og svo er það þetta með jólasálmanna. Mér finnst magnað hvað sá ósannleikur hefur náð að lifa lengi varðandi reglur Reykjavíkurborgar um samskipti trú- og lífsskoðunarfélaga við menntastofnanir borgarinnar. Í öllum útgáfum, allt frá fyrstu drögum sem lögð voru fram, hefur komið skýrt fram í reglunum að ekki standi til að banna börnum að syngja jólasálma. Ekki heldur að búa til jólaskraut eða annað álíka. Þetta hefur ítrekið komið fram og ætti að vera ljóst öllum sem á annað borð hafa lagt sig fram um að kynna sér þessar reglur.

En varnarbarátta ríkiskirkjunnar virðist ekki snúast um staðreyndir. Það skiptir hana ekki máli að greinarmunur er gerður á fræðslu og boðun í skólakerfinu. Það skiptir kirkjuna ekki máli hvað reglur Reykjavíkurborgar fjalla í raun um. Það sem skiptir máli er að mála kirkjuna, þetta fyrirbæri sem rekið er fyrir milljarðafjárframlög úr ríkissjóði á hverju ári, sem fórnarlamb. Kannski er það sniðugt útfrá einhverjum almannatengslasjónarmiðum, þó að ég efist reyndar um það. En þetta er ekkert voðalega trúverðugur barlómur, komandi frá trúfélagi sem er kyrfilega verndað og stutt af íslenska ríkinu.


Mynd fengin hjá kemorgan65

Egill Óskarsson 06.01.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Ríkiskirkjan , Skólinn )