Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það bar ekki til um þessar mundir ...

Mynd af fæðingu Jesú með Playmo-köllum

Laust eftir klukkan sex að kvöldi næsta aðfangadags munu því sem næst allir prestar landsins stíga í ræðustól í kirkjum sínum klæddir sínu fínasta pússi; þvegnir, stroknir og vonandi með nýbustaðar tennur, og þeir mun grípa báðum höndum um brún prédikunastólsins og horfa yfir söfnuð sinn sem er líka í sparifötunm og með hárið greitt, og bros mun leika um varir prestanna þegar þeir teygja sig í nokkur útprentuð blöð með ræðu sinni og þeir munu draga djúpt að sér andann áður en þeir hefja mál sitt á þessari stærstu stund kirkjuársins.
Og svo munu þeir byrja að ljúga.

Næstu tíu til fimmtán mínúturnar meðan ræðan stendur munu þeir ljúga alveg látlaust. Vissulega kann að vera að einhverjir þeirra láti fylgja með svolítinn sannleika, jafnvel svolitla visku og vonandi kærleika, en útgangspunkturinn í predikunum þeirra allra verður ósannur með öllu.
Öðru nafni lygi.

Því gamlar goðsagnir úr Miðausturlöndum um fæðingu Jesú frá Nasaret – þær mun presturinn lesa up úr Lúkasarguðspjalli eins og um heilagan sannleika væri að ræða. Og þeir munu ætlast til að nýþveginn söfnuðurinn trúi og kinki kolli í andakt þegar þeir lesa upp lygina.

Þó vita allir sem hafa kynnt sér málið að í jólaguðspjalli Lúkasar er ekki eit satt orð.
Jú – Jesús fæddist. Það er nokkuð ljóst. Meira er það nú ekki. Allt hitt er ... ja, tilbúningur, ef maður vill vera kurteis. Þjóðsaga, hljómar líka blíðlega. En lygi ef maður talar hreint út.

Þjóðsögur

Það munu ýmsir reiðast þessu orðavali – “lygi”. Lygi er eitthvað blákalt og ljótt, segir fólk. Nei, nei, nei, nei, segi ég. Blákalt kannski en ekkert endilega ljótt. Mér er ekki kappsmál að særa trúað fólk með því að kalla fallegu Betlehemsögurnar lygi í stað þess að nefna þær þjóðsögur, eins og þær eru í raun og veru.

Ég nota þetta orð bara af því prestarnir, þar sem þeir standa í stólnum, munu halda því fram við söfnuð sinn að þessar sögur séu sannleikur. Þótt þeir viti betur.
Þetta eru hámenntaðir menn.
Það er það sem ég kalla lygi.

Það má leggja út af boðskap gamalla sagna, hjálpi mér, já! Það má vel reyna að rýna í hvort sannleikskorn gæti einhvers staðar leynst undir tilbúningnum. Og það má taka dæmi úr slíkum sögum: Eitthvað sem við gætum lært af.

En ekki fara með gamlar þjóðsögur og segja okkur að þær séu sannleikur. Þetta hafi allt gerst sísona. Já, nákvæmlega svona! Ekki öðruvísi!

Það er svolítð eins og að segja okkur hina lærdómsríku og skemmtilegu sögu um Rauðhettu en krefast þess að við trúum bókstaflega á ömmuna og úlfinn. Saka okkur um dónaskap og virðingarleysi, níð og guðlast ef við leyfum okkur að efast um tilveru skógarhöggsmannsins.

Og ef íslenska ríkið héldi úti milljarðaapparati til að brýna fyrir okkur að sagan um Rauðhettu væri dagsönn og hefði gerst eimitt eins og Grimmsbræður skráðu hana niður, þá mundum við eðlilega fyrtast við og segja: Hvaða lygar eru þetta?!”

Sögurnar um fæðingu Jesú í Betlehem eru í sjálfu sér bara sögur. En þegar okkur er skipað að trúa þeim – og þegar menn sem vita betur fullyrða að þær séu sannar – þá er okur alveg óhætt að tala svolítið ergilega um lygar.

Án þess að vera sakaðir um að vilja níða niður saklaust trúað fólk.

Manntalið

Í jólaguðspjallinu stendur alltént ekki steinn yfir steini. Meira að segja flestir þeir fræðimenn sem játa fölskvalausa trú á Jesú og kirkju hans hljóta að viðurkenna það. Og hafa líka flestir gert það, þeir sem eiga ærlega taug í huga sér. Meira að segja flestir þeir prestar sem standa þarna svona stroknir í prédikunarstólnum á aðfangadagskvöld, þeir vita það ósköp vel.

Og flestir í söfnuðinm hafa svo sem líka grun um það, þótt menn geri sér kannski ekki grein fyrir því hversu algerlega og afdráttarlaust fræðimenn hafa hafnað frásögn jólaguðspjallsins. Förum í gegnum það, lauslega.

Það bar til dæmis alls ekki til um þessar mundir ...
Því Ágústus keisari lét aldrei skrásetja alla heimsbyggðina. Því miður, því það væri gríðarlegur fengur fyrir sagnfræðinga ef varðveist hefði slíkt manntal. Og þó svo manntalið sjálft hefði ekki varðveist, þá hefði fyrirtækið verið svo stórkostlegt og umfangsmikið að heimildir um það væru áræðanlega margar til. En hvergi í fornum ritum er á það minnst.
Þetta manntal fór því aldrei fram.
Og enginn Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi um sama leyti og guðspjallamennirnir Lúkas og Matteus telja Jesú hafa fæðst.

Kýreníus

Þeir tengja báðir fæðingu hans við ofanverð stjórnarár Heródesar mikla, konungs í Júdeu, en hann lést í síðasta lagi árið 4 fyrir Krist. Heilum áratug eftir dauða Heródusar var Publius Sulpicius Quirinius hins vegar skipaður landstjóri í Sýrlandi og hafði líka yfir Júdeu að segja. Sá Kýreníus lét vissulega taka manntal á hluta af sínu yfirráðasvæði. Tilgangurinn var að auðvelda skattlagningu á þegnum Rómaveldis, enda mætti manntalið mikilli mótspyrnu. Það kom til uppþota og Júdas nokkur frá Galíleu greip til dæmis til vopna með mönnum sínum. Kýreníus braut uppþotið á bak aftur með mikilli hörku en upp úr þessum atburðum spratt hin róttæka hreyfing Selóta meðal Gyðinga. Heiti Selóta hefur yfirleitt verið þýtt sem “vandlætarar” eða “ofsatrúaðir” á íslensku; þeir vildu ekki hafa það að Gyðingar þyrftu að greiða skatt til Rómaveldis og áttu hlut að margvíslegri mótspyrnu gegn Róm næstu áratugi.
En hin afdrífaríka skrásetning Kýreníusar fór sem sé fram að minnsta kosti áratug eftir að bæði Lúkas og Matteus telja Jesú hafa fæðst.

Misskilningur guðspjallamannsins Lúkasar er út af fyrir sig skiljanlegur. Hann skrifaði verk sitt að minnsta kosti sextíu árum eftir fæðingu Jesú og að minnsta kosti þrjátíu árum eftir dauða hans. Eða rúmlega það. Á þessum tímum þegar engin dagblöð voru til og ekki hægt að fletta upp hvenær tilteknir atburðir gerðust fyrir áratugum, þá gat sagnariturum auðveldlega skjöplast um annað eins og einn eða tvo áratugi.
En villa guðspjallamannsins var þó í þessu tilfelli engin tilviljun og segir mjög mikilvæga sögu um vinnubrögð hans.
Því í framhaldinu keur í ljós hvers vegna villan er gerð.

“Fóru þá allir að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar,” skrifaði Lúkas. “Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ...”

Betlehem

Meining Lúkasar er sem sagt sú að í hinu rómverska manntali hafi verið fyrirlagt að hver maður yrði að láta skrásetja sig á þeim stað þar sem einhver tiltekinn forfaðir hafði fæðst. Davíð var sagður fæddur í Betlehem; oftast er talið að hann hafi verið á dögum um 1000 árum á undan Jesú.

Og það verður að segja: Það er beinlínis vitfirringsleg hugmynd að rómverska heimsveldið hafi krafist þess að menn létu skrásetja sig í heimaborg einhverra forfeðra sinna síðan fyrir þúsund árum. Rómverjum hefði satt að segja ekki getað staðið meir á sama um gyðinglega ættfræði. Og þó svo hefði verið fyrir einhverja geggjun rómverskra yfirvalda, þá hefði Jósef svo sannarlega ekki lagt 140 kílómetra langt ferðalag á heitkonu sína sem komin var að því að verða léttari. Hann hefði bara farið sjálfur sem húsbóndi á sínu heimili. Manntöl í þá daga höfðu þann eina tilgang að telja skattgreiðendur. María greiddi enga skatta frekar en aðrar konur. Skattar voru forréttindi karlmanna í þá daga.
Samt munu prestarnir lesa þetta up í kirkjum sínum á aðfangadagskvöld án þess að blikna eða blána.

En þetta gerðist ekki. Það er alveg klárt. Þetta gerðist ekki. Jósef fór alls ekki til Betlehem og þaðan af síður María. Jesús var alls ekki fæddur í Betlehem. Ekket í guðspjöllunum eða öðrum fornum kristnum ritum bendir til annars en að hann hafi verið Galíleumaður í húð og hár og fæddur í Nasaret. Ekkert – nema þá jólaguðspjöll Lúkasar og Matteusar.

Þeim félögum í fagnaðarerindinu ber þó alls ekki saman um nokkurn einasta hlut. Hjá Matteusi er fjölskylda Jósefs einfaldlega búsett í Betlehem og hann þarf því ekki að búa til eitthvert manntal til að láta Jesúm líta þar fyrst dagsins ljós. En hvorugur vísar á nokkurn hátt til Betlehem eftir að frásögnum þeirra af fæðingu Jesú er lokið – þær eru augljóslega seinni tíma viðbætur af því sumir hinna frumkristnu vildu frekar binda trúss sitt við mann frá Betlehem en Nasaret.

Konungurinn

Ástæðan fyrir því að Matteus og Lúkas vildu endilega láta Jesúm fæðast í Betlehem?
Jú, í Gamla testamentinu mátti finna spádóm um að nýr konungur Gyðinga myndi fæðast í Betlehem; skrásetjarar guðspjallanna smíðuðu þá hvor í sínu lagi jólaguðspjöll sín til að láta líta út fyrir að sá spádómur hefði ræst með Jesú.

Það var spámaðurinn Míka sem hafði spáð þessu, maður heldur lítils virtur í Gamla testamentinu að öðru leyti. Hann ávarpaði Betlehem og sagði að “frá þér [skal] koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum.”

Þessi spádómur snerist reyndar alls ekki um einhvern friðflytjanda eða kærleiksboðanda. Kónginum sem spámaðurinn boðaði var ætlað að vernda Ísraelsmenn fyrir Assýringum sem enn voru og hétu þegar Míka skrifað spádóma sína rúmum 700 árum fyrir daga Jesú. Því var hótað að ef Assýríumenn dirfðust að ráðast inn í Ísrael mundi konungur senda þangað “sjö hirða og átta þjóðhöfðingja” og “þeir munu herja land Assýringa með sverði ... og brugðum brandi”.
Þeta var sem sagt sá konungur sem átti að fæðast í Betlehem.
Ekki hógvært guðs lamb.

Og því til viðbótar má svo taka fram að í Jóhannesarguðspjalli er beinlínis tekið sérstaklega fram að Jesús hafi ekki verið frá Betlehem. Eigi að síður munu íslenskir prestar þylja frásögnina um fæðingu friðarhöfðingjans Jesú í Betlehem yfir söfnuði sínum eins og hún sé eitthvað annað og meira en gömul þjóðsaga. Eitthvað áreiðanlegri en Rauðhetta. og þeir gerast gramir í bragði ef einhver bendir á að þetta sé nú meira en lítið málum blandið. Kalla mann skemmdarskrín með hártoganir og tittlingaskít, þótt kristin trú eigi þrátt fyrir allt að snúast um sannleikann.

Jatan

En sagan um gistihúsið sem var fullt svo María varð að leggja nýfætt barn sitt í jötu? Getur hún verið sönn? Hljómar hún ekki sennilega? Er það virkilega líklegt að maður trúaður á guðdóm Jesú mundi spinna upp svo fátæklega fæðingu frelsara síns?
Ójá. Það var alsiða í goðsögnum Miðausturlanda að mikilmenni ættu sér lítilmótlegan uppruna. Kóngar ólust upp á fjöllum með geitahirðumm, spámenn voru dregnir upp úr ám í körfu.

Og gleymum því heldur ekki að þau Jósef og María voru alls ekki í Betlehem. Það var ekkert manntal. Það var engin þörf á að ferðast til fæðingaborgar forföður síns fyrir 1000 árum.

Frásögnin um að Jesú hafi verið lagður í jötu nýfæddur, hún var einfaldlega líka tilraun Lúkasar til að troða upp á jesúm spádómi úr Gamla testamentinu. Í þetta sinn leitaði hann til innblásnari höfundar en Míka, það er að segja sjálfs Jesaja. Því hann segir á einum stað: “Uxinn þekkir eiganda sinn og asninn jötu húsbónda síns, en Ísrael þekkir ekki, mitt fólk skilur ekki.”

Fyrir Lúkasi vakti að skýra hvers vegna Ísraelsþjóð hefði ekki öll og undireins borið kennsl á hinn nýfædda frelsara. En til að þetta passaði þurfti Lúkas að láta leggja Jesúm í jötu. Og hvernig gat það hafa gerst? Jú – hann velti vöngum – jú. Hótel Betlehem var eflaust fullbókað! Og Jesús var svo “vafinn reifum” til að passa við vers úr Vísdómsorðum Salómons þar sem lýst er fæðingu þess mikla spekings.

Heródes

Ef eitthvað væri nú hæft í því að Jesús hefði í raun og veru verið lagður í jötu strax eftir fæðingu, þá erður að teljast meira en líklegt að það hefði verið á allra vitorði í söfnuði hans. En meira að segja Matteus – sem þó hefur áhuga á uppruna frelsara síns og hefur um það langa frásögn – hann hefur ekki heyrt getið um neitt slíkt. Fæðingin sjálf þykir honum ekki frásagnarverð og þegar hann lætur vitringana koma til að votta Jesú virðingu þá er María bara með Jesúm sinn nýfæddan í ósköp venjulegu húsi.

Sagan um vitringana, já – það er nú einn tilbúningurinn. Þá fantasíu samdi Matteus orð fyrir orð upp úr ýmsum spádómum Gamla testamentisins og bætti við þjóðsögu um grimmlyndi Heródusar konungs mikla. Hann hefði látið drepa öll nýfædd sveinbörn í Betlehem og nágrenni. En það gerði Heródes ekki. Hann var grimmur og purkunarlaus en þetta gerði hann ekki. Heimildir um slik grimmdarverk myndu lifa, svo vel skrásett sem ævi Heródesar er.

Svo Jesús var, sem sagt, ekki lagður í jötu. Eigi að síður munu prestarnir lesa þetta samviskulega og í prédikun sinni á eftir munu nokkrir þeirra næstum fá tár í augun þegar þeir beita allri sinni skáldgáfu til að útmála fegurðina við hinn hógværlega uppruna frelsarans.

En jólaguðspjallinu er ekki lokið – englarnir eru eftir. Og prestarnir munu lesa um engil drottins sem stóð hjá hjarðmönnum úti í haga og boðaði þeim mikinn fögnuð. Frelsari fæddur. Og prestarnir munu ekki einu sinni blikka vinalega til safnaðarins þegar þeir bæta við að síðan hafi verið með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu guð og sögðu ...

Nei, þeir munu lesa þetta eins og sannleika þótt þeir viti að þetta er bara tilbúningur. Tilraun Lúkasar til að kreista að lokum svolítinn hátiðleika út úr fæðingu frelsarans.

Englar

Og hvað þýðir þetta þegar grannt er skoðað, það sem englarnir segja? “Boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum?” En af hverju var þá ekki þessi mikli fögnuður boðaður öllum lýðnum? Af hverju laumaðist guð í heiminn eins og þjófur á nóttu og lét sér nægja að birtast fáeinum hjarðmönnum? Af hverju glumdi ekki þessi fögnuður af himnum um allan heim?
Og þá er nú eftir eitt smáatriði en mikilvægt þó.

Að englar eru alls ekki til. Af hverju þá að lesa það upp eins og sannleika í kirkjum landsins á aðfangadagskvöld að þarna hafi þeir birst, heilir herskarar af englum?
Ekki til? Englar?

Tja – það væri fróðlegt að spyrja sjálfa prestastéttina. Rétti upp hönd allir þeir sem trúa á engla! Jú, þarna fer slæðingur af höndum á loft. En rétti nú upp hönd allir þeir sem hafa séð engil – annars staðar en í draumi eða hugarsýn eða bara einhverju óráði.
Ha ... engin hönd á lofti? Og þór eru þeir prestar og ættu að vera í góðu sambandi við þá sendiboða guðs sem englarnir eru sagðir vera. Snýst þetta um samgöngur – og englarnir orðinr úreltir á himnum? Hví heldur guð tilveru þeirra svo leyndri?
Sko – segja frjálslyndu guðfræðingarnir – englar eru ekkert endilega hvítklæddar verur með vængi. Þetta var svona hugmynd fólks á fyrri tíð um það sem við myndum kannski frekar kalla nú á dögum rödd guðs eða eitthvað álíka.

Er þá hugmyndin að guð hafi hrópað til hjarðmanna í haganum að hann væri búinn að eignast strák? Hrópað margradda svo þeim virðist heill herskari á ferðinni? En hafi svo þagnað og skyndilega ákveðið að hann vildi ekki segja þetta neinum fleirum?
Nei – þið fyrirgefið innilega, mínir góðu trúuðu vinir, ég get ekki séð að það sé einu sinni brotin brú í neinu af þessu.

Leyndardómur

“Þetta er leyndardómur,” munu frjálslyndu guðfræðingarnir segja. “Guð er leyndardómur.”

En jólaguðspjallið er enginn leyndardómur. Það er ósköp einfaldlega skáldskapur. Ekki innblásið af guði, heldur er það bara pár í grískumælandi Gyðingi sem er að reyna að mikla og göfga trú sína – og skjóta undir hana rótum með því að fabúlera um það sem hann veit í rauninni ekkert um. Svo hann blandar saman við það því litla sem hann veit um uppruna frelsara síns, bæði gömlum spádómum og fornum þjóðsögum, orðrómi og kviksögum og hreinum tilbúningi.

En þetta munu prestarnir lesa svo hátíðlegri röddu sem þeir finna í brjósti sér. Enginn þeirra mun einu sinni láta sér til hugar koma að nefna þá óþægilegu staðreynd að fornleifafræðingar sem grafið hafa í Betlehem eru nú þeirrar skoðunar að í bænum hafi alls engin byggð verið um þær mundir sem Jesús fæddist. Já – þið lásuð rétt, Betlehem var í eyði á þeim árum. Ekkert gistihús, engir hjarðmenn í haga. Ég hef séð sjónvarpsþátt þar sem íslenskur biskup leiddi áhorfendur um “söguslóðir Jesú” og benti hátíðlegur á þann stað í Betlehem þar sem “Jesús fæddist”.

Staðreyndir þvælast nefnilega ekki að ráði fyrir kirjunnar mönnum. Mikil er trú þeirra ... á trúgirni okkar hinna. Þessum augljósa tilbúningi ætlast þeir til að við trúum og þessu munu þeir leggja út af í prédikun sinni á aðfangadagskvöld – manntalinu, ferðalaginu til Betlehem, uppbókaða gistihúsinu, jötunni, hjarðmönnunum í haganum...


Mynd fengin hjá Adam McLane

Birtist upphaflega í DV.

Illugi Jökulsson 22.12.2013
Flokkað undir: ( Jólin , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Jón Valur Jensson - 25/12/13 03:25 #

Illugi Jökulsson stundar hér selektívar rannsóknir, velur það, sem hentar honum, á sama tíma og hann sneiðir fram hjá öðru, sem hentar ekki fyrir hans málflutning, eða þekkir þar ekki nógu vel til.

Það er all-bíræfin fullyrðing hjá fornleifafræðingum eða hverjum sem er að þykjast vissir í sinni sök um að engin byggð hafi verið í Betlehem á fæðingartíma Krists.

Illugi sneiðir fram hjá því, að berlega hefur María, móðir Krists, sjálf verið beinn eða óbeinn heimildarmaður Lúkasar guðspjallamanns. Greinilega setur það ekki Illuga Jökulsson á 21. öld í hærra dómarasæti til að dæma um atburði fyrir 2000 árum.

Þá ber ennfremur að geta þess, að hin kristna trú á áreiðanleik Guðs orðs í Ritningunum felur ekki sjálfkrafa í sér, að þar sé t.d. öll stafsetning eða staðfræði eða tímatal óskeikult, m.ö.o. allt sem hinir mannlegu ritarar færa fram af eigin misjöfnu þekkingu, heldur er það fyrst og fremst hin guðlega fræðsla og boðun, sem er óskeikul samkvæmt kristinni trú.

Illugi gefur sér, að allt, sem ekki eru heimildir um utan Biblíunnar, verði að telja ekki aðeins óstaðfest, heldur ótrúverðugt og beinlínis rangt. Þetta er ekki skynsamleg afstaða og engin röksönnun í þessu fólgin, ekki frekar en svo harðir dómar verði með rétti kveðnir upp yfir þeim miðaldaheimildum okkar Íslendinga, sem einar eru til frásagnar um vissa atburði.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 25/12/13 11:39 #

...berlega hefur María, móðir Krists, sjálf verið beinn eða óbeinn heimildarmaður Lúkasar guðspjallamanns.

Þetta er bráðfyndin og "all-bíræfin fullyrðing".


Einar Björnsson - 25/12/13 13:58 #

Góður pistill hjá Illuga. Má líka hafa í huga áhrif Mithra trúar á þessa sögu alla saman.


Sigurður Haraldsson - 25/12/13 14:00 #

Jón Valur er fyrirtaks komikker.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/12/13 14:50 #

Illugi sneiðir fram hjá því, að berlega hefur María, móðir Krists, sjálf verið beinn eða óbeinn heimildarmaður Lúkasar guðspjallamanns.

Já, og vitringarnir voru berlega heimildarmenn Matteusar!


Steindór J. Erlingsson - 25/12/13 14:59 #

Góð grein Illugi.


Ásthildur Cesil Þórðardóttir - 25/12/13 17:21 #

Illugi, stundum finnst mér þú svo frábær að ég næstum því gleymi illmælgi(lygi) þinni um Guðjón Arnar og Frjálslyndaflokkinn. Takk fyrir þennan frábæra pistil, sem allir hljóta að sjá að er sannur.


Jón Valur Jensson - 25/12/13 21:23 #

Nei, Hjalti minn, það leiðir ekki af orðum mínum, af vitringarnir hafi "berlega [verið] heimildarmenn Matteusar," þótt þeir hafi trúlega verið heimildarmenn Jósefs og Maríu um það sem þeir sáu og heyrðu, eða finnst þér það kannski ólíklegt?

En það eru svo miklar og nánar frásagnir af Maríu strax í 1. (og einnig 2.) kafla Lúkasarguðspjalls, m.a. hennar mikli lofsöngur (Magnificat, 1.46-55), að mjög líklegt er talið, að heimildin um þessa atburði komi frá henni, ef ekki beint, þá óbeint.


Margrét Hafsteinsdóttir - 25/12/13 22:23 #

Frábær pistill!

Hvað maður en nú orðinn leiður á þessu trúarkjaftæði öllu saman og hvað mig langar nú að augu fólks fari að opnast! Það væri dásamlegt.

Ég og synir mínir horfðum á bíómynd í gærkveldi sem heitir Anti Viral og er framtíðarmynd um líftækni iðnað og öfgapóll tekinn á þá þróun. Myndir var vægast sagt stórfurðuleg og mjög óraunveruleg, enda skáldskapur.

Þegar myndinni lauk, skiptum við yfir á RUV og þá var biskupinn með jólamessu. Við fórum að velta því fyrir okkur hvort væri furðulegra og ruglaðra, myndin sem við vorum að horfa á eða messan og allt í kringum hana. Þetta var hálf súrealískt :)


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/12/13 22:46 #

Umræðan um valdaránið í Chile er komin á spjallborðið. Tengist ekki beint efni greinarinnar.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/12/13 22:48 #

Jón Valur, þetta er svo "miklar og nánar frásagnir" einfaldlega vegna þess að þetta er skáldað.


Þorsteinn Kolbeinsson - 25/12/13 23:14 #

Góð grein Illugi. Væri ekki viðeigandi hjá Illuga að birta heimildir hérna fyrir helstu/stærstu staðreyndarstaðhæfingunum sínum? Það væri sterkt fyrir þessa grein.


Jón Valur Jensson - 26/12/13 00:11 #

Vitaskuld var það rétt hjá þér, Hjalti, að það var fráleitt af þessum Sigmundi að reyna að sverta mig með rúmlega 40 ára grein í blaði .... með sjónarmið sem ég hafði augljóslega endurskoðað og fordæmt Pinochet-stjórnina mjög einarðlega ekki löngu seinna ... og að þetta skot Sigmundar á mig hafði ekkert með umræðuna hér að gera, var einfaldlega ómálefnalegt og misheppnað "argumentum ad hominem" eins og mörg slík.


Wikipedia Aðdáandi - 26/12/13 01:19 #

Góð grein.

Hér er sagt frá Heródes á wikipedia. Passar við það sem Illugi minnist á. Flestir fræðimenn sem rannsakað hafa Heródes efast stórlega um að ungbarnamorðin í Betlehem hafi átt sér stað. Þar kemur líka fram að Heródes lést 4 árum áður en Jesú fæddist.

Hér er grein um Kíreníus á wikipedia. Þar kemur líka fram að flestir sagnfræðingar telja Lúkasarguðspjall vera úti á þekju þegar kemur að manntalinu.

Og í umfjöllun um Betlehem á wikipedia kemur fram að flestir fræðimenn telja Jesú ekki hafa fæðst í Betlehem:

Modern scholars question whether Jesus was born in Bethlehem, seeing the biblical stories not as historical accounts but as symbolic narratives invented to present the birth of Jesus as fulfillment of prophecy and imply a connection to the lineage of King David.

En líklega er tilgangslaust að benda á þetta. Þeir sem halda fram einhverju sem heitir "fagnaðarboðskapur" hafa ekki áhuga á sannleikanum. Eins og svo oft þá á sannleikurinn það til að þvælast fyrir góðri sögu.

Hafið það samt gott um jólin, þau eru besti tími ársins, það á ekki að láta trúarbrögð eyðileggja þau.


Magnus S Magnusson - 26/12/13 01:49 #

Þessi jól verða mér sérlega minnisstæð vegna þess að ég upplifði prest halda jóla skáldskapnum að fullri kirkju af 5-9 ára börnum úr næsta barnaskóla og tveimur barnaheimilum þegar nokkur þeirra áttu að leika (flest engla) í örlitlu ÁRLEGU jólaleikriti í SAMSTARFI við skóla þeirra um fæðingu Jesú (af prestium stöðugt kallaður frelsarinn og ljós heimsins). Þarna voru því líka foreldrar og afar og ömmur. Í landi þar sem yfir 40% trúa alls ekki á tilveru neinna guða lét presturinn sig þó m.a. ekki muna um að enda sit tal á því að segja börnunum: þegar prestar tala þá tala þeir fyrir hönd Guðs. Þessi orð pretsins minntu mig á það þegar presturinn í ríkisútvarpinu í mínu ungdæmi sagði yfir allan lands lýð og m.a. öll landsins börn að þeir sem ekki tryðu öllu sem hann sagði um Guð og Jesú væru með hrokafullt hjarta. Já, níu ára börn vænd um hrokafullt hjarta þegar það er hjarta prestsins sem er svo yfir fullt af hroka að minnir helst á fullkomið stórmennskubrjálæði. -- Haldi einhver að ekki fari fram magnað trúboð ríkiskirkju á Íslandi þá hefur sá verið illa blekktur, en blekkingar þeim sjálfum til framdráttar og upphefðar eru jú ær og kýr presta og annara trúboða.


Jón Valur Jensson - 26/12/13 02:21 #

Orð þín, Hjalti, um að frásagnirnar af Maríu hafi einfaldlega verið "skáldað(ar)", eru í stuttu máli sagt það sem þessi orð þín eru: ÞÍN orð einber, heimildarlaus, án stoðar af neinum upplýsingum eða rökum. Öðruvísi bar Lúkas sig að í skráningu á sínu guðspjalli, byggðu á sem traustustum heimildum.*

En rétt eins og Jóhannes skírari sýnir María Guðsmóðir sig að vera spámaður Guðs í Magnificat sínu.

Og þið gruflararnir og blaðrararnir fullyrðingasömu dirfizt í flumbrugangi og oftrausti á ykkar skeikulu skynsemi að varpa rýrð á það sem heilagt er.

  • "Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörzt hafa meðal vor, samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins. Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus, svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðzt um." (Lk.1.1-4).

Katrín Óskarsdóttir - 26/12/13 05:06 #

Algjörlega frábær grein og sönn


Stefán - 26/12/13 13:20 #

Góð grein Illugi enda skysamur maður þar á ferð.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/12/13 13:52 #

Og þið gruflararnir og blaðrararnir fullyrðingasömu dirfizt í flumbrugangi og oftrausti á ykkar skeikulu skynsemi að varpa rýrð á það sem heilagt er.

Þú ert bara sjálfur blaðrari Jón Valur. Þetta er ekkert heilagt, þetta eru bara gamlar sögur.


Jón Valur Jensson - 26/12/13 22:47 #

Matti og Hjalti halda, að það sé nóg að fullyrða, að Lúkas hafi farið með skáldskap, þá hafi það verið svo. En ekki er það í takt við bærilega gott vitsmunaástand Lúkasar (lærðs læknis) og yfirlýstan tilgang hans með rituninni og vinnuaðferðina sem hann notaði við skráninguna; alveg var hún virðingarverð eins og yfirlýst aðferð Ara fróða.

M & Hj. geta talað fyrir sína eigin parta, en menn taka hér ekki orð þeirra fyrir sannleikann, svo trúgjarnir eru menn varla á Vantrúarvefnum!

Þeir geta ennfremur reitt sig á það, sem Illugi hafði fram að færa. En þessi meintu rök Illuga um tímatalið eru vel þekkt og hafa verið það í meira en öld, en ekki verið látið ósvarað. Jafnvel í ágætu riti sem kom fyrst út fyrir 104 árum, Dictionary of the Bible (ed. James Hastings, D.D. er öllum lykilrökunum hjá Illuga varðandi tímatal fæðingar Jesú (þessu um Heródes mikla og Quininius o.fl.) ágætlega svarað og trúverðuglega (s.v. Luke, Gospel acc. or.', í 7. þætti þar: 'Accuracy of Luke', bls. 559b-560a, og stendur þá ekki steinn yfir steini í gagnrýninni, en til eru líka fleiri upplýsingar þessu viðkomandi í rýrri ritum, og skal ég koma þessu á framfæri hér.

Á meðan geta Vantrúarmenn setið á sér í dómsýkinni og hinir óákveðnu beðið með að álykta í málinu.


Jón Valur Jensson - 26/12/13 22:50 #

Quirinius, vildi ég sagt hafa. Og svigi lokist á eftir D.D. [Doctor of Divinity]


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/12/13 01:14 #

Jón Valur, í staðinn fyrir að vísa bara í einhverja 100 ára gamla bók, þá gætirðu kannski útskýrt hvernig það er mögulegt að Jesús hafi fæðst bæði þegar Heródes miklu var á lífi og líka um það bil áratug eftir dauða Heródesar, þegar Kýreneus varð landsstjóri í Sýrlandi.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 27/12/13 03:33 #

Væri líka fróðlegt að heyra rökin fyrir því afhverju Jósef þurfti að dröslast með Maríu langar leiðir út af einhverju rómversku manntali sem studdist við gyðinglega ættfræði þar sem ættir manna voru raktar þúsund ár aftur í tímann.


Jón Valur Jensson - 27/12/13 08:19 #

Aldur bókarinnar skiptir ekki máli, Hjalti, heldur rökin og heimildirnar að baki.

Illugi fellur í þá gryfju margra að sjá aðeins prima facie-rök í málinu (prima facie þýðist á ensku: at first sight), þ.e. þau, sem virðast sláandi við fyrstu sýn, á sama tíma og blessaður maðurinn er ´'happy ignorance' um önnur rök og aðrar heimildir.

Þeir, sem sannfærzt hafa um kristna trú, af því að þeir hafa mætt Kristi í tiltali hans í guðspjöllunum og séð ástæðu til að trúa, að taka kalli hans til trúar, þeir eiga flestir auðvelt með að fara að fordæmi Tómasar frá Aquino um að hafna ekki trúartextunum vegna meintra gagnraka, því að þeir bíða þolinmóðir hrakningar gagnrakanna með öðrum og gildari rökum (og þá er ég eða öllu heldur hann, Tómas, ekki að tala um trúarrök, heldur önnur rök, söguleg, heimspekileg, textaskýringaleg o.fl.).

Textinn í Dictionary of the Bible (ed. Hastings, en höf. viðkomandi greinar A.J. Maclean, MA, DD, biskup í Moray og Ross og Cathness (Kataness, Skotlandi)) er allmikill í raun, með þéttu letri og smáu og meira mál að þýða hann en ég hef tíma til nú, en ég mun slá honum hér inn ásamt nauðsynlegum orðaskýringum, þegar tími gefst til.

Á meðan ætla ég að gefa ykkur þetta afrit úr bréfi til mín frá ágætum vini, með áliti hans og ábendingum:

"Aumi rugludallurinn þessi Illugi, nú eins og svo oft endranær, og seint held ég Vantrúarmenn muni viðurkenna fyrir neinum, sízt sjálfum sér, að þú gætir haft rétt fyrir þér, Jón Valur. Varðandi apologetiska umfjöllun á jólaguðspjallinu má benda á Ignatius Catholic Study Bible New Testament, Second Catholic Edition RSV. Þar er meðal annars kafli, sem heitir The Census of Quirinius, mjög forvitnilegur. Til dæmis finnst mér skemmtileg sú ábending, að kannski hafi ekki átt að skattskrifa fólkið, heldur að láta það staðfesta hyllingareið, því að Ágústus hefði árið 2 f. Kr. samþykkt að taka við titlinum faðir heimsveldisins. Hann hafi þar með orðið yfir kónga á borð við Heródes vin sinn settur (ef og þegar á það kynni að reyna), án þess þó að þurfa að setja þá af. Fornleifar eru sagðar renna stoðum undir það, að slíkir eiðar hafi gengið víðar í heimsveldinu á þessum misserum (enda var til lítils að samþykkja titilinn í Róm, ef allir aðrir hefðu haft hann að engu). Hafi Heródes nú staðið fyrir þessari skriffinnsku í ríki sínu, eins og helzt væri að ætla, gat hann auðvitað hagað henni eftir siðum gyðinga, sem var tamt að líta til ættar sinnar. Einnig er í þessum kafla fjallað um, hvaða embættum Kýreníus kunni að hafa gegnt. Þessu og flestu öðru er að vísu erfitt að miðla fólki, sem er slegið forstokkunarblindu guðleysis," sagði þessi vinur minn í sinni sendingu.

Geta má þess, að Quirinius mun hafa gegnt embætti á svæðinu áður en hann var þar landstjóri í Sýrlandi (og Júdeu) um 6-7 e.Kr., og er þetta ein ástæðan af mörgum til þess, að fyrir þá, sem trúaðir eru á Lúkasarguðspjall, gengur þetta í raun upp tímatalslega. (Nánar síðar.)


Jón Valur Jensson - 27/12/13 08:27 #

"... fleiri upplýsingar þessu viðkomandi í NÝRRI ritum ..." átti að standa í innleggi mínu hér á undan kl. 22:47.


Jón Valur Jensson - 27/12/13 08:58 #

"blessaður maðurinn er Í 'happy ignorance'" vildi ég sagt hafa. –  Ennfremur átti að standa þarna Caithness.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/12/13 09:36 #

Vertu ekki alltaf svona ofboðslega hrokafullur Jón Valur. Það er ekkert sem bendir til annars en að Illugi sé vel lesinn um þetta málefni.


Jón Valur Jensson - 27/12/13 12:03 #

Ég taldi blessaðan manninn í 'happy ignorance' um önnur rök og heimildir, a.m.k. sést hvergi í máli hans, að hann viti neitt af þeim, en viti hann af þeim, þá virðist hann hafa kosið að leyna þeim!


Engill - 27/12/13 13:50 #

Englar eru til. Það er forn siður að setja lík á trönur og láta fugla himinsins gæða sér á þeim. Í þá daga voru menn bókstaflega fluttir til himna á vængjum engla. Engill er því hræfugl.


Jón Valur Jensson - 27/12/13 18:07 #

Ekki er þetta fyndið, hwldur napur, ógeðfelldur gágahúmor.

Jafnvel heimspekingar hafa leitt rök að tilvist engla.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/12/13 18:10 #

Jafnvel heimspekingar hafa leitt rök að tilvist engla.

Hérna. Uh. Ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta án þess að það virðist dónalegt.

Er þér alvara Jón Valur?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/12/13 18:44 #

Ég væri til í að sjá þessi rök heimspekinga. Það eru auðvitað rökin sjálf sem máli skipta, ekki það hverjir lögðu þau fram.


Jón Frímann - 27/12/13 18:53 #

[Athugasemd færð á spjallið]


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/12/13 19:31 #

Jón Valur, það er óþarfi að henda inn öllum textanum, komdu bara með rökin sem þú fannst í honum.

Svo máttu benda þessum vini þínum, sem er líklega "aumur rugludallur", á að það er ekki eins og að það sé einhver einkaskoðun "öfga-trúleysingja" að telja þetta vera augljósa mótsögn. Svo er ekki, ég veit um bók með "imprimatur"-stimpil eftir mjög frægan NT-fræðing sem, ef mig minnir rétt, kemst að sömu niðurstöðu.

Til dæmis finnst mér skemmtileg sú ábending, að kannski hafi ekki átt að skattskrifa fólkið, heldur að láta það staðfesta hyllingareið, því að Ágústus hefði árið 2 f. Kr. samþykkt að taka við titlinum faðir heimsveldisins.

Og þá hafði Heródes ekki verði dauður nema í tvö ár!

Geta má þess, að Quirinius mun hafa gegnt embætti á svæðinu áður en hann var þar landstjóri í Sýrlandi (og Júdeu) um 6-7 e.Kr.,...

Nei, allar fullyrðingar manna um að hann hafi áður gegnt stöðu í Sýrlandi (og textinn talar um hann sem landsstjóra Sýrlands) byggjast á ótrúlega hæpnum ályktunum út frá áletrun með engu nafni.

Í ljósi þess að við vitum að Kýreneus varð landsstjóri í Sýrlandi árið 6 eot, og að við vitum að þá fór fram manntal, þá er lang-eðlilegast að telja að tal Lúkasarguðspjalls um "fyrsta manntalið sem fór fram þegar Kýreneus var landsstjóri í Sýrlandi" eigi við það manntal.

Eina ástæðan fyrir því að menn reyna að túlka þetta öðruvísi er sú að þeir vilja ekki viðurkenna að það sé villa í helgiritinu þeirra.


Satan - 28/12/13 18:22 #

Þetta eru bara gamlar þjóðsögur og enginn hefur sannalega orðið var við þessa ósýnilegu kalla í himnimum EVER. Það er svo sem allt í lagi mín vegna að fólk trúi þessum ævintýrum ef það vill. En það er alls ekki í lagi að vera með milljarða nígeríusvindl í gangi með það.


Satan - 28/12/13 20:54 #

Ef ég mætti bæta við þá er trúgirni á vitleysu sjálfsagt skaðleg almennt séð. Ef fólk er móttækilegt fyrir þessum ævintýrum um ósýnilega galdrakalla í himninum þá er líklegt að það sé viðkvæmt fyrir lygum sem eru bornar á borð fyrir það á jarðneskum sviðum. Þess vegna er stórhættulegt fyrir pólitikusa að gefa í skyn að þeir trúi þessum ævintýrum. Þar með gefa þeir merki til glæpamanna um að sé hægt að selja þeim hvað sem er. Klassíst dæmi um þetta er vitleysingur sem þessi mafía dubbaði upp í forsætisráðherraleik og þegar draslið hrundi loksins þegar ekki var lengur hægt að ljæuga það áfram lengur, hvað sagði hann þá. Jú, Guð blessi Ísland. Aumkvunarvert.


Jón Valur Jensson - 29/12/13 02:57 #

Hér kemur það, sem þið Vantrúarmenn voruð að bíða eftir:

Dictionary of the Bible (ed. James Hastings, D.D.), 4th impression, Edinburgh 1919, bls. 559b, s.v. 'Luke, Gospel acc. to', í 7. þætti þar: 'Accuracy of Luke' (eftir A.J. Maclean, MA, DD, biskup í Moray og Ross og Caithness (Katanesi, Skotlandi)):

"Accuracy of Luke. –– Very different estimates have been made as to the trustworthiness of Luke as a historian. He is the only Evangelist who connects his narrative with contemporary events in the world at large (2.1f, 3.1, Acts 11.28, 18.2, 24.27 etc.), and who thus gives us some opportunities of testing his accuracy. His accuracy has been assailed by a large number of scholars, and as strongly defended by others. The former fix specially on two points: (a) Gamaliel's speech about Theudas (Acts 5.36f) is said to be absolutely unhistorical, and to be an invention of the writer, who had read and misread Josphus (see #5 and art. Theudas). (b) The reference to the enrolment (AV taxing [AV = Authorized Version, þ.e. King James Version af Biblíunni]) in Lk 2.1ff is said to be also unhistorical. It is objected that Augustus did not order a general enrolment, that if he did, the order did not apply to Herod's kingdom, and that, even if it did so apply, there was no reason why Joseph and Mary should go to Bethlehem; that no census had ben made in Judæa till A.D. 6–7, when Quirinius was governor of Syria ('the census' Acts 5.37, Josephus); and that Quirinius was never governor of Syria in Herod's lifetime (he dies B.C. 4). As against these objections it used to be urged that Luke was accurate in most particulars, but that he made a mistake about Quirinius only. Now Luke does not say that a Roman census wa being made in Palestine when Jesus was born; the enrolment is said by him to have been tribal and according to lineage, not according to the place where persons happened to be at the time, as was the Roman custom. He says that this was the first of a series of enrolments, and that Augustus instituted the rule of enrolments for the [Roman] world–––this is the force of the Greek phrase used. A remarkable confirmation of Lk. has recently come to light, by the discovery in Egypt of some papyri which show that periodic enrolments by households in a cycle of 14 years did as a matter of fact take place in that country. Many actual census papers, beginning A.D. 20, have been found. This fact is confirmed by Clement of Alexandria. Sir Wm. Ramsay, in his fascinating work (Was Christ born at Bethlehem? 1st ed. 1898), argues with much probability that the first enrolment in Syria was in B.C. 8, and that the 14 years' cycle was used. The second enrolment would be that of Acts 5.37, which led to great riots in Palestine, because the Roman system, so offensive to Jewish patriotism, was then first introduced. No such riots are said by Luke to have occurred at the census when Jesus was born. Ramsay gives reasons for thinking that this was because Herod, ruling a semi-independent kingdom, though he could not from fear of losing Augustus' favour forego the census (this agrees with Josephus' account of his relations with Rome), yet conducted it in Jewish fashion, and postponed it for a year or two. This would give B.C. 6 (summer) for our Lord's birth. All this fits in with Luke. The difficulty with Quirinius alone remains. An inscription found near Tibur makes it probable that he was for the second time governor of Syria A.D. 6–9. He was consul B.C. 12 ; and his former governorship must therefore have fallen between those dates. In a technical argument Ramsay urges that Quirinius, during a time of war, held in B.C. 6 a special office in Syria as the Emperor's deputy, with command of the forces, while another was civil governor ; and that Luke's phrase (lit. 'while Quirinius was ruling Syria') suits this state of affairs. This would completely vindicate Luke's accuracy. Cf. QUIRINIUS [þ.e. grein um hann í sama riti, bls. 778b–779a]."


Jón Valur Jensson - 29/12/13 03:48 #

Ég var að athuga hvort þetta innleggt mitt kæmi fram með því að gúgla eftir því; svo reyndist ekki vera (kannski of snemmt), en hins vegar var öll greinin um Lúkasarguðspjall í sama riti komin á netið, sé ég (og hafði þó áður leitað að henni þar forgefins, en hefði í raun ekki þurft að vera að slá þessu öllu inn!). Hér er hún öll: http://www.studylight.org/dic/hdb/view.cgi?n=3478

Og hér er greinin þar um Quirinius, eftir Alexander Souter (M.A., Litt.D., prófessor í NT-útleggingu (exegesis) við Mansfield College og Oxford-háskóla, en varð svo eftirmaður Williams Ramsay sem Regius Professor of Humanity við Aberdeen-háskóla 1911-1937): http://www.studylight.org/dic/hdb/view.cgi?n=4534


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 29/12/13 18:20 #

Sem sagt: Í Egyptalandi á að hafa verið manntal á 14 ára fresti. Og byggt á því ímyndarðu þér að það sama hafi verið framkvæmt í Júdeu, jafnvel á meðan það var ekki undir stjórn Rómverja, heldur leppríki og því hafi manntal verið framkæmt árið 8 fot.... nema að það þarf að hafa tafist um 2 ár til að passa við undarlega túlkun á nafnlausri áletrun sem segir að einhver hafi orðið landsstjóri í Sýrlandi, og það á að sanna að Kýreneus hafi tvisvar verið landsstjóri, en árið 8 fot (og líka 6 fot) var annar landsstjóri í Sýrlandi.

Berum þessar ágiskanir og ímyndanir saman við það sem við vitum: Rómverjar tóku yfir stjórn Júdeu árið 6 og við yfirtökuna framkvæmdu þeir manntal og á einmitt því ári varð Kýreneus landsstjóri í Sýrlandi.

Þegar Lúkas talar um "fyrsta manntalið, sem var framkvæmt þegar Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi", þá er augljóslega verið að ræða um manntalið sem var framkvæmt árið 6 eot.


Jón Valur Jensson - 29/12/13 20:26 #

Nei, Hjalti, það er ekkert augljóst við það, því að hafi hann verið þar einhvers konar landstjóri áður, þá getur það vel gengið upp, en hér lítur þú fram hjá orðunum tilvitnuðu og þar með tilvísaðri heimild þar: "An inscription found near Tibur makes it probable that he was for the second time governor of Syria A.D. 6–9. He was consul B.C. 12 ; and his former governorship must therefore have fallen between those dates.

Ennfremur virðist ljóst, að engin uppþot áttu sér stað á fæðingarári Jesú, en hins vegar er getið um þau í Post. 5.37, og það hefur verið um 6–7 e.Kr., eins og fram kom hér ofar. Það er sem sé ekki þá, sem Lúkas segir Jesúm hafa fæðzt.


Jón Valur Jensson - 29/12/13 20:44 #

Svo er hér viðbótasending til mín (og ykkar) frá vini mínum:

Á Vantrúarsíðunni bendir Hjalti Rúnar á, að Heródes hafi ekki verið dauður nema tvö ár, ef fæðingarár Krists væri fært til ársins 2 f. Kr. Og það hefði ég kannski átt að ræða við þig áður, en í þessari ágætu og nýju bók minni um Nýja testamentið [Ignatius Catholic Study Bible New Testament, Second Catholic Edition RSV, í kaflanum The Census of Quirinius] er einmitt farið mjög nákvæmlega yfir, hvort Heródes hafi dáið árið 4 f. Kr. Það er að nokkru leyti miðað við tunglmyrkva, en tölvutækni og vísindarannsóknir hafa á síðustu árum sýnt fram á ærið marga tunglmyrkva á þessum slóðum, svo að Heródes gat þess vegna lifað lengur en flestir hafa talið. Þá er aðeins eftir ein heimild til að reikna árið, óbein heimild reyndar, miðað við fjölda stjórnarára annars manns. Niðurstaðan er ekki svo óyggjandi, að Hjalta Rúnari eða öðrum sé ráðlegt að hengja sig upp á hana, og þannig getur allt smollið saman. En það er eins og oft er með vandasama hluti, að tíminn vinnur með þeim, sem hefur þolinmæði og æviár til að bíða. Síðustu orðin hafa naumast verið sögð enn. Ártalið hans Hjalta Rúnars og fjölmargra annarra gæti átt eftir að haggast. Þér var velkomið að nota textann úr bréfi mínu, en að þessu leyti hefði hann mátt vera rækilegri.


gös - 29/12/13 21:07 #

en tölvutækni og vísindarannsóknir hafa á síðustu árum sýnt fram á ærið marga tunglmyrkva á þessum slóðum

Ha? Hefur ekki verið hægt að reikna út alla tunglmyrkva, í fortíð og framtíð, í ansi langan tíma?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 29/12/13 21:46 #

...en hér lítur þú fram hjá orðunum tilvitnuðu og þar með tilvísaðri heimild þar: "An inscription found near Tibur makes it probable that he was for the second time governor of Syria A.D. 6–9. He was consul B.C. 12 ; and his former governorship must therefore have fallen between those dates.

Nei Jón. Eins og ég sagði þá er þessi áletrun nafnlaus og það er bara talað um að einhver hafi verið gerður landsstjóri í Sýrlandi. Ekkert sem bendir til þess að þetta sé um Kýreneus og hvað þá að þetta sé einhver fyrri landsstjóratíð hans (sérstaklega þegar einhver annar var landsstjóri)


Jón Valur Jensson - 29/12/13 23:50 #

Það var meira þar í tilvitnuninni, Hjalti: "In a technical argument Ramsay urges that Quirinius, during a time of war, held in B.C. 6 a special office in Syria as the Emperor's deputy, with command of the forces, while another was civil governor ; and that Luke's phrase (lit. 'while Quirinius was ruling Syria') suits this state of affairs. This would completely vindicate Luke's accuracy."

Ramsey grípur þetta ekki úr lausu lofti, hversu lengi sem þú afneitar.

Og í atriðis-greininni tilvísuðu um Quirinius sjálfan í Dict. of the Bible, bls. 778a-779b, segir m.a.: "In Luke 2:1-3 we are first met by a grammatical difficulty. Luke 2:2 may be translated either: ‘this was the first enrolment that took place (and it took place) while Quirinius was governing Syria’: or: ‘this was the first of two (or more) enrolments that took place while Quirinius was governing Syria.’ The first statement is probably true, but it is likely that the second is what the author meant, because it is certain that a census took place during the governorship of Syria by Quirinius (A.D. 6-9), when Judæa was incorporated in the province Syria. This latter census was a basis of taxation, and was made according to the Roman method: it thus aroused the rebellion of Judas (Acts 5:37)."

Og síðar segir þar: "The real difficulty lies in the statement that Quirinius was governing Syria at the time the first census of all was made. It is quite certain that he could not be governing Syria, in the strict sense of the term governing, both at the time of the birth of Christ and in A.D. 6-9. This is contrary to all ancient procedure, and the rules as to such appointments were rigid. Further, we have ancient authority that the governor of Syria from B.C. 9 to 7 was Sentius Saturninus, and from B.C. 6 to 4 was Quinctllius Varus. After B.C. 4 we know nothing till the succession of P. Sulpicius Quirinius in A.D. 6, but it is possible that an inscribed stone may yet turn up to enable us to fill the gap. Yet an inscription exists, which all authorities agree refers to P. Sulpicius Quirinius, stating that he governed Syria twice. Mommsen considered that the most probable period for his earlier governorship was B.C. 3-1, but admitted serious doubts. Ramsay has discussed the whole problem afresh, following out the clues offered by the ancient historians, and has adopted as most probable the conclusion that Quirinius was given command of the foreign relations of Syria during the critical period of the war with the Cilician hill tribe the Homonadenses. Roman history provides analogies for such a dual control of a province at a time of crisis. The date at which this position was held by Quirinius was about B.C. 6. The Greek word used (governing) is a general term applied to the Emperor, a proconsul, a procurator, etc., and is quite consistent with this view. The mention of Quirinius by Luke is merely intended to give a date. The enrolment itself, as it took place in Herod’s kingdom, would be superintended by him, at the orders of Augustus, who had suzerainty over the kingdom of Herod, which constituted part of the Imperium Romanum in the full sense of the term. The census, however, was not carried out by the Roman method, but by tribes, a method less alien to Jewish feeling than the Roman method by households. Cf. also p. 559 b. --A. Souter."

Ertu ekki orðinn býsna áræðinn, jafnvel digurbarkalegur, Hjalti, að telja þig hafa getu til að skáka viðurkenndum fræðimönnum eins og Mommsen, Ramsay og Alexander Souter?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 31/12/13 06:32 #

Yet an inscription exists, which all authorities agree refers to P. Sulpicius Quirinius, stating that he governed Syria twice.

Þetta er rangt.

  1. Áletrunin ef nafnlaus, og það er alls ekki svo að "all authorities" séu á því að um Kýreneus sé við átt. Það er ágiskun út í loftið.

  2. Það er ekki sagt að viðkomandi ónafngreindi aðili hafi stjórnað Sýrlandi tvisvar, heldur að hann hafi tvisvar verið landstjóri og í síðara skiptið fékk hann Sýrland.

Annað þarna eru einhverjar getgátur um að í stríði við einhvern ættbálk hafi Kýreneus fengið einhvers konar stjórn yfir utanríkismálum Sýrlands og að það sé það sem Lúkas vísar til.

Nei Jón, þetta eru eintómir loftkastalar sem eru byggðir til þess að reyna að komast frá hinu augljósa: það er villa í biblíunni :o

Ertu ekki orðinn býsna áræðinn, jafnvel digurbarkalegur, Hjalti, að telja þig hafa getu til að skáka viðurkenndum fræðimönnum eins og Mommsen, Ramsay og Alexander Souter?

Jón, farðu á Landsbókasafnið. Finndu þar tvær bækur með "nihil obstat" og "imprimatur". Annars vegar Birth of the Messiah eftir Raymond E. Brown (hann er með viðauka um þetta aftast í bókinni) og hins vegar Anchor Bible ritskýringarritið við Lúkasarguðspjall eftir Joseph Fitzmyer (athugasemdir hans við upphaf Lk 1). Þeir fara báðir yfir þessa hluti (þar með talið áletrunina sem þú vísar á) og viðurkenna báðir að þarna sé klárlega um villu að ræða.

Gætirðu nokkuð spurt vininn þinn hvort þessir tveir kaþólsku prestar séu líka haldnir "forstokkunarblindu guðleysis"?


Jón Valur Jensson - 31/12/13 13:55 #

Nei, það eru þeir örugglega ekki, og ég eins og fleiri guðfræðingar þekki Raymond E. Brown að miklu góðu, ekki sízt í ritskýringarbókum hans við Jóhannesarguðspjall, en hann er samt of tortrygginn á sumar heimildir eins og hér. Svara þér aðeins snöggt um þetta, en kem svo aftur til umræðunnar.


Jón Valur Jensson - 01/01/14 13:18 #

Þegar þú skrifar hér, Hjalti: "Það er alls ekki svo að "all authorities" séu á því að um Kýreneus sé við átt," þ.e. í áletrun á steininum um þann sem stýrði Sýrlandi tvisvar, og þú bætir jafnvel við: "Það er ágiskun út í loftið," þá skaltu nú nefna þau átorítet sem telji, að þarna sé ekki átt við Quirinius.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 02/01/14 09:31 #

Jón Valur, Brown og Fitzmyer halda til dæmis að það sé ekki nein sérstök ástæða til að um Kýreneus sé að ræða. Ég skráði ekki hjá mér vísanirnar þeirra, en einn þeirra vísaði á Ronald Syme (held að það hún hafi verið heitið: "The Titulus Tiburtinus").


Jón Valur Jensson - 02/01/14 11:56 #

Þetta mál er miklu flóknara en þú ímyndar þér, Hjalti, og öll tormerki á því, að hægt sé að taka fullyrðingar þínar og Illuga sem nein skotheld rök. Jafnvel Josephus með sitt tímatal á Quiriniusi liggur nú undir höggi í skrifum fræðimanna. Nánar um það í næsta innleggi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.