Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hin stranga og öfgasinnaða Vantrú

Blóm

Bloggarinn Harpa Hreinsdóttir birti nýlega grein um Vantrú. Sá hluti greinarinnar sem ég ætla að fjalla um er rökstuðningur hennar fyrir þeirri skoðun hennar á því “hve mjög Vantrú líktist ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi, þó með öfugum formerkjum væri.”

Ströng og öfgasinnuð trúfélög

Þegar við förum yfir rökin hennar, þá er vert að hafa þrjá hluti í huga. Í fyrsta lagi hvort að fullyrðingar Hörpu um hegðun okkar séu réttar. Í annan stað hvort sú hegðun væri einhvers konar einkenni á “ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi”. Loks er vert að hafa í huga hvort að Harpa sé samkvæm sjálfri sér, og spyrja sig hvort að trúfélag Hörpu, ríkiskirkjan, sé samkvæmt sama mælikvarða “strangt, jafnvel öfgasinnað trúfélag”.

Karlakúgunin

Fyrstu rökin er eru þau að karlar ráði öllu í Vantrú:

Og bæði ritendur og stjórnendur eru aðallega fámennur karlahópur, nánast eins og æðstuprestar eða erkiklerkar í trúfélögum.

Það er rétt að karlar eru meirihluti í stjórn og greinarhöfunda, en ástæðan fyrir þessu er líklega sú að það eru einfaldlega fleiri karlar í Vantrú. Þegar um er að ræða trúfélög sem eru með alvöru kynjamisrétti, þá er ástæðan sú að það eru opinberar reglur eða kennisetningar sem gefa til kynna að karlar eigi að vera leiðtogar eða að konur eigi almennt að vera undirgefnar körlum. Gott dæmi um svona kvennakúgun er auðvitað kaþólska kirkjan (sem er þá líklega öfgasinnað trúfélag!). Annað dæmi er síðan kirkjan hennar Hörpu, hún kennir að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum.

And-trúboðið

Næstu rökin eru þau að við stundum and-trúboð “af mikilli elju”. Þetta and-trúboð er víst það að “elta uppi umfjöllun um Vantru og leggja þar mörg orð í belg” og að “hamast við að skrifa athugasemdir við blogg nokkurra presta”.

Er það öfgamerki að meðlimir félags tjái sig ef þeir sjá umræðu um félagið? Það er afskaplega lítið mál að fylgjast með bloggum, til dæmis með svokölluð blogggáttinni. Væri það öfgamerki hjá meðlimum Kattavinafélag Íslands að tjá sig við skrif um félagið þeirra?

Ég er mjög duglegur við að skrifa athugasemdir við skrif presta, en ég veit ekki hvers vegna það á að vera eitthvað “strangtrúarlegt” eða “öfgasinnað”. Eflaust mættum við hætta því og fara hófsamari leiðir, til dæmis með því að reyna að boða leik- og grunnskólabörnum trúleysi, svona svipað og ríkiskirkjan.

Við gætum síðan haldið því fram að þeir sem mótmæltu ágangi okkar að skólunum væru þannig að stunda trúboð. Harpa væri sammála því. Því það er víst hluti af þessu öfgasinnaða andtrúboði okkar að “vilja banna hvers kyns kirkjulegt starf í leikskólum og grunnskólum”!

Síðasta atriðið sem hún nefnir um hið svokallaða andtrúboð okkar er trúfélagsleiðréttingarherferðin okkar. Það lengsta sem við höfum gengið í því er að standa á Laugarveginum og spyrja vegfarendur: “Má bjóða þér að leiðrétta trúfélagaskráningu þína?”. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekkert andtrúboð í því að aðstoða fólk við að skrá sig úr ríkiskirkjunni og utan trúfélaga eða í fríkirkjur.

Kennisetningar um Vantrú

Harpa virðist síðan halda því fram að við bregðumst óeðlilega við gagnrýni á okkur. Samkvæmt Hörpu þá...

....ríkja ákveðnar kennisetningar um Vantrú, þ.e.a.s. aðeins má fjalla um félagið á ákveðnum nótum. Vei þeim sem brýtur þær dogmur! Þeir eru að minnsta kosti sýndargrýttir í netheimum. Ef brotið er stórvægilegt leggja félagsmenn í krossferð, heilagt stríð.

Þegar að fólk tjáir sig um Vantrú, og fólk má fjalla um þá á þeim nótum sem því sýnist, þá má fólk einfaldlega búast við því að við svörum þeim skrifum. Svona eins og ég er hér að svara Hörpu, og ég tel þetta ekki vera “sýndargrýtingu”.

Trúfélagið hennar Hörpu hefur hins vegar í gegnum tíðina stutt það að einstaka menn, oftast grínistar, hafi verið dæmdir fyrir að “draga dár að eða smána” trúfélagið hennar.

Harpa virðist síðan á einhvern undarlegan hátt álykta að þar sem að við höfum gagnrýnt málflutning annarra trúleysingja, að þá hljótum við á einhvern hátt að telja að við höfum “hina einu sönnu van-trú, aðrir trúlausir eru trúlausir á rangan máta”. Það er rangt.

Hátíðardagar

Einhver allra versta synd Vantrúar virðist vera páskabingóið okkar. Áður hefur okkur verið líkt við talibana vegna þessara skemmtilegu borgaralegu óhlýðni. En nú telur Harpa þetta vera dæmi um að við séum “strangt, jafnvel öfgasinnað, trúfélag”! Árlegu grínverðlaunin okkar víst líka merki um það. Án gríns, þetta eru í alvöru rökin hennar!

Jafnvel þó svo að það mætti á einhvern undarlegan hátt flokka páskabingóið sem einhvers konar "hátíðardag", þá eru hátíðardagar ekki merki um “strangt, jafnvel, öfgasinnað trúfélag” og svo heldur ríkiskirkjan upp á alls konar hátíðisdaga, og bannar meira að segja öðrum að skemmta sér á þeim dögum!

Hinn eini sanni heiðursfélagi

Okkur í Vantrú er í sífellu gerð upp foringjadýrkun. Fyrst var það töframaðurinn James Randi. Þegar Richard Dawkins komst í kastljósið, þá fylgdum við honum víst í blindni. Ekki má svo gleyma öllum formönnum Vantrúar, þeir eru víst allir óskeikulir leiðtogar okkar í Vantrú.

Samkvæmt Hörpu þá skipar Helgi Hóseasson “svipað sæti hjá Vantrú og Jesús meðal postulanna. Vantrúamenn fylgdu honum í lifanda lífi, þeir sjá svo um að tákn til minningar um hann sé sett (gangstéttarhella í stað kross) og minnast dánarafmælis hans.”

Nú man ég ekki eftir því að hafa yfirgefið fjölskylduna mína til þess að fylgja Helga Hóseassyni. Hann var, eins og Randi, Dawkins og formennirnir, skeikull maður. Harpa ætti ef til vill að líta sér nær ef hún er að leita að leiðtogadýrkun. Trúfélagið hennar lætur börn játa að stofnandi trúarbragðanna hennar sé “leiðtogi lífs” þeirra. Samkvæmt sama trúfélagi þá var "leiðtoginn" fullkominn, og meira að segja guð holdi klæddur! Það er ekki hægt að ganga lengra í foringjadýrkun.

Píslarvættið

Síðustu rökin eru þau að við séum haldnir einhvers konar píslavættislöngun:

Að sögn getur ákveðið píslarvætti fylgt því að vera félagi í Vantrú. Því verða félagsmenn stundum að dyljast eins og kristnir í katakombunum forðum - í nútímanum nota menn ekki katakombur heldur iðka sína (and)trú undir nafnleynd á netinu.”

Einstaka meðlimir geta vissulega haft góðar ástæður fyrir því að skrifa undir nafnleynd á netinu (til dæmis ef hann starfar sem prestur). Ég held að við áttum okkur alveg á því að það hefur almennt ekki einhverjar hræðilegar afleiðingar að tjá sig opinberlega á Vantrú, þrátt fyrir áróður kirkjunnar hennar Hörpu um að trúleysingjar séu siðlausir og illir.

Ef ég ætti að finna svipað dæmi frá trúfélaginu hennar Hörpu, þá gæti ég til dæmis bent á nýleg skrif þar sem ríkiskirkjuprestur heldur því fram að ríkiskirkjan sé lögð í einelti og að það sé jafnvel “hreinar ofsóknir” # að ræða.

Alvöru öfgatrúfélag?

Sum rökin þarna eru það fáranleg, til dæmis páskabingóið, að mér finnst ljóst að Harpa er að reyna að þvinga þessum strangtrúar- og öfgastimpli á okkur. En ef það er rétt að flokka Vantrú sem strangtrúar- og öfgatrúarflokk þá er búið að gengisfella þessi orð það mikið að þau eru orðin hálf-merkingarlaus. Samkvæmt sama mælikvarða, þá er auðveldara að flokka trúfélagið hennar, ríkiskirkjuna, sem öfgatrúfélag, og ég efast um að hún fallist á það.

Það er afskaplega auðvelt að ímynda sér baráttumál “öfgafullra trúleysingja”, en raunin er sú að helstu baráttumál Vantrúar eru afskaplega hógvær, til dæmis aðskilnaður ríkis og kirkju, og trúboðslausir skólar. Baráttuaðferðirnar eru líka hógværar, skrif á netinu og blöðum og einstaka ólöglegt bingó. Að láta sem við séum strangtrúarflokkur eða öfgatrúfélag er einfaldlega kjánalegt.

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.01.2012
Flokkað undir: ( Helgi Hóseasson , Vantrú )

Viðbrögð


Sigurgeir Örn - 17/01/12 11:18 #

Ætli það megi ekki kalla svona skriftir, eins og hjá hörpu, óvinauppgerð? Og þá heppnast náttúrulega slíkt betur ef óvinurinn er sýndur sem öfgafullur/ir einstaklingar. Það virðist allavegana oft vera sumum bloggskrifurum ákaflega mikilvægt að Vantrú sé öfgafullt félag.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 11:36 #

Það merkilegasta, í þessari gríðarlega ómerkilegri umfjöllun hennar Hörpu, finnst mér vera að hún hafði þó fyrir því að hafa samband við Vantrú - ólíkt einum ákveðnum "fræðimanni" - en viðfangsefnið var samt frekar undarlegt (í raun ansi asnalegt) og kemur hvergi fram í þessari úttekt hennar. En hún hafði þó samband. Gott hjá henni.


Harpa Hreinsdóttir - 17/01/12 12:18 #

Kærar þakkir fyrir ritdóminn. Blogg eru sjaldan ritdæmd svo ég þakka heiðurinn sem þið sýnið mér.

Fyrirspurnir til Þórðar um ákv. smáatriði tengdust ekki samningu bloggfærslunnar minnar. En ég þakka honum enn og aftur fyrir skjót og kurteisleg svör.

Hvað varðar klausuna um píslarvættið, í færslunni minni, þá tók ég út sterkustu rökin að beiðni viðkomandi Vantrúarfélaga sem óskaði fyrst eftir að ég leiðrétti ákveðið atriði. Hann taldi svo að gæti komið afar illa fyrir sig einmitt núna að vakin yrði athygli á málinu. Svo ég tók þá málsgrein og krækju út. Sömuleiðis hef ég tekið út ummæli við færsluna um Siðanefnd HÍ, sem er á undan Vantrúarfærslunni, að ósk Vantrúarfélaga og mun ekki nota málflutning sem kom fram í þeim ummælum.

Ef þið eruð ósáttir við túlkun mína á félaginu Vantrú, sem er byggð á opinberum vef félagsins því ég hef engar forsendur til að meta innra starf Vantrúar enda er það ósýnilegt og að hluta leynilegt, þá væri kannski ráð að breyta ásýnd félagsins (á vefnum).


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 12:41 #

Velkomin Harpa.

Ég sakna þess að sjá ekki svör við sumu í greininni minni.

Finnst þér það til dæmis í alvöru ekki algerlega út í hött að halda því fram að Vantrú líkist "ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi" af því að við höfum haldið páskabingó og af því að við höfum árleg grínverðlaun?

Finnst þér það ekki rugl að segja að skoðun okkar á Helga Hóseassyni sé á einhvern hátt sambærileg við t.d. aðdáun trúfélagsins þíns á Jesú?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 12:46 #

Ef þið eruð ósáttir við túlkun mína á félaginu Vantrú, sem er byggð á opinberum vef félagsins því ég hef engar forsendur til að meta innra starf Vantrúar enda er það ósýnilegt og að hluta leynilegt, þá væri kannski ráð að breyta ásýnd félagsins (á vefnum).

Ég held að það væri nú gáfulegra að athuga fyrst hvort að þessi túlkun þín sé yfirhöfuð rétt. Mér sýnist ansi margt við hana að athuga þar sem þú virðist gefa þér ansi furðulega hluti út frá þeim atriðum sem þú tekur til.


Carlos - 17/01/12 12:48 #

Gott að sjá skipulegt svar við bloggi Hörpu hér. Ég ætla (í anda annarar umræðu) að gera eftirfarandi athugasemdir.

1) «  Gott dæmi um svona kvennakúgun er auðvitað kaþólska kirkjan (sem er þá líklega öfgasinnað trúfélag!). Annað dæmi er síðan kirkjan hennar Hörpu, hún kennir að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum. », segir Hjalti Rúnar.

Þetta er ekki satt, heldur rógur. Hjalti Rúnar skautar nett framhjá viðleitni þjóðkirkjunnar að auka hlut kvenna í kirkju og samfélagi. Læt mér nægja að benda á jafnréttisáætlun kirkjunnar, sbr. http://www2.kirkjan.is/node/10681 og texta sem koma upp við leit þegar jafnrétti er haft að leitarorði (http://www2.kirkjan.is/search/node/jafnrétti). Ég viðurkenni vitaskuld að kirkjan á nokkuð í land með að ná öllum þeim markmiðum sem hún stefnir að í jafnréttismálum.

2) «  Einhver allra versta synd Vantrúar virðist vera páskabingóið okkar. Áður hefur okkur verið líkt við talibana vegna þessara skemmtilegu borgaralegu óhlýðni. » segir Hjalti Rúnar

Aftur skrumskælir hann illilega, gerir málflutning Hörpu tortryggilegri en þörf er á.

Hvergi, hvorki í frásögn af starfsemi Vantrúar né í persónulegu mati Hörpu setur hún hátíðir félagsins í samhengi syndar. Hún kallar þær andhátíðir við kristnar hátíðir og horfir með því til forms þeirra.

Slæmt er það þegar menn geta ekki svarað gagnrýni án þess að skrumskæla þann sem gagnrýnir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 12:53 #

Hvergi ... setur hún hátíðir félagsins í samhengi syndar

Vá, þetta hlýtur að vera met í bókstafslestri :-)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 13:05 #

Þetta er ekki satt, heldur rógur.

Nei, þetta er einfaldlega satt. Samkvæmt játningum ríkiskirkjunnar (sem er vitnað í í greininni sem ég vísaði á) þá eiga eiginkonur að vera undirgefnar eiginmönnum sínum. Ekkert í þessari jafnréttisáætlun sem þú vísar á er í mótsögn við það, og svo held ég að játningarnar séu "rétthærri" en einhverjar áætlanir.

Hvergi, hvorki í frásögn af starfsemi Vantrúar né í persónulegu mati Hörpu setur hún hátíðir félagsins í samhengi syndar.

Og hvergi sagði ég að hún hefði gert það!

Slæmt er það þegar menn geta ekki svarað gagnrýni án þess að skrumskæla þann sem gagnrýnir.

Já, það er slæmt.


Erna Magnúsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 13:16 #

Harpa, þú segir:

ég hef engar forsendur til að meta innra starf Vantrúar enda er það ósýnilegt og að hluta leynilegt, þá væri kannski ráð að breyta ásýnd félagsins (á vefnum).

Ef það er í alvörunni satt að þú hafir engar forsendur til að meta innra starf Vantrúar, hvers vegna dylgjar þú þá svona um þátt kvenna í starfinu?

Og annað, af hverju skrifarðu svona niður til kvenna í þessari færslu? Það er ekki nóg með að þú sért meðvirk með ríkjandi skipulagi varðandi trúmál heldur virðist þú meðvirk með feðraveldinu öllu.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 13:17 #

Þú segist byggja túlkun þína á opinberum vef félagsins, en ég fæ ekki betur séð en að þú byggir hana aðallega á eigin fordómum.

Til að mynda eru aðdróttanir þínar um kvennakúgun innan félagsins gersamlega út í hött.

Kynjaskipting innan félagsins hefur lengi verið uþb 80-20, með karla í meirihluta. Ástæður þessarar slagsíðu er ekki gott að fullyrða um, en einhverra hluta vegna hafa fleiri karlar en konur áhuga á að ganga í félagið og taka þátt í starfi þess. Kynjahlutföll meðal stjórnarmanna eru í samræmi við þessa slagsíðu í félaginu almennt. 16,67% þeirra sem setið hafa í stjórn eru konur og það má geta þess að kona hefur aldrei tapað kosningu til stjórnarsetu í félaginu. Það að þú tortryggir það að pör eigi sér sameiginlegt áhugamál og taki virkan þátt í starfi sama félags er vægast sagt undarlegt.

Hvað varðar greinaskrif þá er það rétt tiltölulega lítill kjarni hefur staðið undir megninu af þeim greinum sem skrifaðar eru undir nöfnum einstaklinga. Það er einfaldlega vegna þess að þessir aðilar hafa tekið frumkvæði skrifað mikið. Það er engin þöggun í gangi hvað varðar greinaskrif, þvert á móti eru félagsmenn allir, og sérstaklega konurnar, reglulega hvattir til að skrifa greinar.

Af hverju tekurðu nú ekki fyrir kvennakúgunina innan annarra félagasamtaka, t.d. Skotvís? Þar eru karlmenn í öllum embættum og allir talsmenn félagsins eru karlmenn. Þarna hlýtur að vera kerfisbundin kúgun á konum í félaginu, er það ekki?

Það sem hægt er að segja um meint "einelti" félagsins gegn einstaklingum og stofnunum hefur þegar verið sagt, og þarf því ekki að fjölyrða um það hér.

Þvaður þitt um dýrkun félagsmanna á Helga Hóseasyni er úr lausu lofti gripið og ekki svaravert.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 13:18 #

Ég skil ekki af hverju sumt fólk - einsog Harpa - getur ekki sætt sig við það að Vantrú er félag trúleysingja sem stofnað var í kringum vefritið og að helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu.

Ég er til dæmis ekkert að lesa meira í ríkiskirkjuna en það að það er kristið trúfélag, nánar tiltekið: evangelísk lúthersk kirkja, er byggir á kennisetningum Marteins Lúthers og Nýja-testamentsins og að höfuðjátning lútherska manna (og kvenna) er Ágsborgarjátninginn frá 1530.

Þetta er ekkert flókið.

Að færa til markstengurnar í sífellu varðandi hvað er költ, sértrúarsöfnuður, öfgafullt og herskátt er alveg afspyrnu kjánalegt. Að það sé öfgafullt og herskátt að skrifa greinar? Plís. Og að sama hætti gerir það þetta félag að einhverjum sértrúarsöfnuði sem tilbiður Helga Hóseasson? Give me a fucking break.

Fólk, einsog Harpa (og Carlos) verða einhvern vegin að gera sér grein fyrir því hvað þetta er afspyrnu fáránlegt.


Carlos - 17/01/12 13:38 #

Þegar menn skauta framhjá þeirri staðreynd, að kirkja, sem vissulega byggir á gömlum merg, breytist í aldanna rás, m.a. af innri hvötum (jafnréttisáætlun) og svarar kalli tímans (t.d. vígsla kvenna, vigsla samkynhneigðra para), þá er það fölsun. Kallast víst strámaður, skv. ykkar eigin staðla um rökræðu.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 13:43 #

Hverju ert þú að svara, Carlos?

Hver var að segja að kirkjan hefði ekkert breyst?

Talandi um strámenn ...


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 13:44 #

Carlos, þetta er ekki strámaður. Í játningum Þjóðkirkjunnar er kennt að eiginkonur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum. Ég veit vel að meirihluti presta samþykkja þetta ekki. En það breytir því ekki að þetta er opinber játning ríkiskirkjunnar og því er þetta kenning hennar.


Sigurlaug Hauksdóttir - 17/01/12 13:47 #

Veit ekki um eitt einasta dæmi þess að kirkjan hafi breytt nokkru vegna að eigin frumkvæði vegna"innri hvata". Það hefur hins vegar sannarlega margt breyst, en ætíð eftir langvarandi ytri þrýsting og þróun samfélagsins sem kirkjan er jú sannarlega aðili að.


Carlos - 17/01/12 14:07 #

Vígsla kvenna í embætti kirkna og víglsa samkynhneigðra para ganga í berhögg við hefð og hluta játninga kirkjunnar, eins og Hjalti bendir á. Það breytir því þó ekki, að kirkjur breytast, laga sig að þó það fari á stundum útfyrir gamlar túlkanir á játningum hennar.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 14:13 #

Verst hvað það tekur alveg ógurlega langan tíma fyrir sumar kirkjur að breytast. Hvaða forystan er oft langt, langt, langt á eftir sinni samtíð, með forneskjuleg siðferðisviðmið sem auðveldlega er hægt að túlka sem skítlegt eðli og halda oft aftur eðlilegum samfélagslegum breytingum, einsog t.d. jafnrétti kynjana, giftingu samkynhneigða (sem ríkiskirkjan dirfist að reyna eigna sér heiðurinn af) og að trúlaust fólk er líka fólk, sem er hvorki betra né verra en annað fólk, þó það sé trúað.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 14:13 #

Carlos, vígsla kvenna gengur ekki í berhögg við það að eiginkonur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum (og það er ekki bara "gömul túlkun" á játningunni, hún segir það beinlínis). Allt í lagi, ríkiskirkjan breytist, en á meðan hún hefur játningu sem segir konum að vera undirgefnar eiginmönnum sínum, þá er það ekki "rógur" heldur einfaldlega satt að hún kenni það.


Carlos - 17/01/12 14:22 #

[Athugasemd um hvort að Þjóðkirkjan kenni að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum færð á spjallið, færum umræðuna um það þangað - Hjalti]


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 19:19 #

Harpa dregur ályktanir útfrá takmörkuðum upplýsingum. Það er örugglega bara tilviljun að þessar ályktanir eru allar neikvæðar í garð Vantrúar og að hún gefur nánast hvergi færi á því að aðrar útskýringar geti verið á bakvið hlutina.

Það hefur ekkert með það að gera að Harpa var fyrir löngu búinn að mynda sér skoðun á félaginu og að hún hafi einfaldlega leitast við að gefa af því ákveðna mynd.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 20:10 #

Það vekur athygli mína þegar ég les umræðurnar við grein Hörpu að nokkrir aðilar taka jákvætt í skrif hennar, sumir þeirra hrósa henni fyrir skrifin.

Eitt eiga þessir aðilar sameiginlegt (fyrir utan að tengjast flestir kristni sterkum böndum). Þessir aðilar eru allir karlmenn.

Hvaða agalegu ályktanir er hægt að draga af því? Hvernig myndi Harpa skrifa um málið út frá því sem hægt er að sjá af vefritinu hennar? Er Harpa Hreinsdóttir leiðtogi í karlakölti? :-)

Nei, auðvitað segir þetta okkur ekki neitt ef við erum sanngjörn og nálgumst málið fordómalaust.


Freyja (meðlimur í Vantrú) - 17/01/12 22:07 #

Góð grein Hjalti og nauðsynleg. Það sem fór helst í mig var það hve lítið Harpa gerði úr konum sem setið hafa í stjórn Vantrúar og öllum kvenkynsmeðlimum Vantrúar. Ótrúleg kvenfyrirlitning í skrifum Hörpu, bara skammarlegt. En það sýnir aftur á móti líka hversu ótrúlega litla þekkingu Harpa hefur í raun á félaginu sjálfu. Skrif hennar dæma sig sjálf.


Steindór - 18/01/12 21:12 #

[ummæli um flutning athugasemda á spjall, færð á spjallið! - Hjalti]

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?