Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sex góðar ástæður til að láta bólusetja sig

Skopmynd frá 1803

Því miður gerir sumt fólk ekki almennilega grein fyrir kostum bólusetningar. Sumir einstaklingar ganga svo langt að segja að mislingar séu ekki hættulegir. Það eru margar góðar ástæður fyrir því af hverju við búum við frekar góða heilsu núna á 21. öldinni. Vegna stórkostlega læknisfræðilegra afreka á 19. og 20. öldinni. Og þeim afrekum er ekkert að linna.

Hér eru sex skæðir sjúkdómar er skildu eftir sig varanlegan og ómetanlegan skaða eða murkuðu lífið úr ótöldum milljónum útúm allan heim, í fleiri hundruð ár, sem bólusetningar hafa því sem næst náð að útrýma að öllu leyti á undanförnum áratugum.

1. Rauðir hundar

Rauðir hundar eru veirusjúkdómur sem valda fósturskemmdum í 25% tilvika ef móðirin veikist snemma á meðgöngu. Fósturskaðinn getur m.a. verið heyrnarleysi, blinda, þroskahömlun og hjartagallar. Með bólusetningu er verið að verja ófædd börn.

Hér má sjá línurit sem sýnir áhrif bólusetningar á fjölda tilfella af rauðum hundum í Bandaríkjunum frá 1966-2004. Frá upphafi bólusetningar þar hefur tilfellum fækkað úr 100.000 á ári niður í rúmlega 10 á ári.

2. Mislingar

Afar smitandi veirusjúkdómur. Um það bil 1 af hverjum 10 sem fá mislinga veikjast alvarlega (fá heilabólgu eða lungnabólgu í kjölfarið). Hlutfall látinna af völdum mislinga getur verið frá 0.1 – 30% smitaðra (misjafnt eftir löndum). Áður en farið var að bólusetja gegn mislingum, komu þeir oft fram sem faraldur með jöfnu millibili.

Hér er línurit sem sýnir hversu mislingatilfellum hefur fækkað í Bandaríkjunum eftir að bóluefni var uppgötvað.

3. Kíghósti

Kíghósti er bakteríusjúkdómur og er sérlega skaðlegur ungum börnum. 1 af hverjum 100 smituðum börnum (yngri en tveggja mánaða) látast af völdum kíghósta. Kíghósti veldur afar langvinnum hósta er varir í 6 vikur að meðaltali.

Hér má heyra hvernig kíghósti hljómar í 3 ára barni:

Í Bretlandi fækkaði kíghóstatilfellum úr u.þ.b. 100.000 skráðum tilfellum árlega niður í færri en þúsund tilfelli frá því að bólusetningar hófust gegn sjúkdómnum. Á þessu línuriti má vel sjá hvernig tilfellum fjölgaði tímabundið á 8. áratugnum þegar bólusetningum fækkaði.

4. Mænusótt (Lömunarveiki)

Veirusjúkdómur sem í 90% tilfella veldur engum einkennum. Ef vírusinn kemst hins vegar í taugakerfið getur hann valdið misalvarlegum lömunum sem geta dregið fólk til dauða. Ekkert lyf er til gegn mænusótt.

Þökk sé bólusetningu hefur mænusótt verið nær algerlega útrýmt. Árið 2002 lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin yfir að Evrópa væri alveg laus við sjúkdóminn. Bólusetningu er þó haldið áfram því enn er hætta á að smit berist frá löndum þar sem mænusótt hefur ekki verið útrýmt.

5. Barnaveiki

Barnaveiki er bakteríusjúkdómur sem getur valdið skaðlegum eituráhrifum í líkamanum, m.a. í hjartanu. Dánartíðni í smituðum börnum yngri en 5 ára er allt að 20% Í Bandaríkjunum fækkaði árlegum barnaveikitilfellum úr u.þ.b. 16.000 niður í 1 eða færri á rúmlega 50 árum þökk sé bólusetningum.

6. Bólusótt

Bólusótt var afar smitandi veirusjúkdómur sem olli dauða allt að 500 milljón manns á 20. öld. Dánartíðni smitaðra var allt að 35%. og þeir sem ekki létust urðu oft afskræmdir eða jafnvel blindir eftir bólurnar sem fylgdu sjúkdómnum. Bólusótt er fyrsti sjúkdómurinn sem farið var að bólusetja gegn og orðið bólusetning er tengt nafni sjúkdómsins.

Bólusótt er ekki til lengur. Bólusótt er annar af tveimur sjúkdómum (hinn kallast rinderpest) sem hefur verið útrýmt þökk sé bólusetningu. Árið 1980 lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin því yfir að heimurinn væri algerlega laus við bólusótt og hefur hún ekki stungið upp kollinum aftur. Bólusetningu gegn bólusótt hefur verið hætt.

Hér má svo sjá línurit er sýnir meðaltal af þessum sjúkdómstilfellum hér á Íslandi frá 1900-1996:

Línurit

Aðeins um bólusetningar

Bólusetningar eru ekki fullkomnar og það er vel þekkt og viðurkennt að þær geta valdið aukaverkunum. Hins vegar er tíðni alvarlegra aukaverkanna vegna bólusetninga mun lægri heldur en dánartíðni sjúkdómanna sem bólusetningar hindra. Sífellt er verið að rannsaka bóluefni og áhrif þeirra

Það virðist sem að fólk gleymi oft hvers vegna þarf að bólusetja. Þessu er að hluta til sjálfum bólusetningunum að kenna þar sem þær hafa svo gott sem útrýmt sjúkdómum sem ollu miklu mannfalli um allan heim fyrir nokkrum áratugum. Þrátt fyrir það má þó ekki slá slöku við enda sýna nýleg dæmi að sjúkdómar eins og mislingar og kíghósti birtast fljótt aftur á svæðum þar sem bólusetningum er ávant.

Það ætti öllum heilbriðgum nútímamanneskjum að vera morgunljóst af hverju fólk á að bólusetja sig: Af því að bólusetningar hindra útbreiðslu alvarlega sjúkdóma.

Frekari upplýsinga er hægt að finna hjá Landlæknisembættinu og doktor.is.

Rebekka Búadóttir 01.05.2011
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Klassík , Bólusetningar , Listi )

Viðbrögð


Vigdís - 01/05/11 14:17 #

Sæl og takk fyrir þessar upplýsingar. Það er hárrétt að fólk gleymir gjarnan áhrifum bólusetninga og ein ástæða þess að fólk lætur ekki bólusetja börn er: "það fær enginn þessa sjúkdóma lengur" en gleymist að geta þess að ástæðan fyrir því að fólk fær ekki þessa sjúkdóma er sú að það er bólusett!


Svavar Kjarrval - 01/05/11 14:26 #

Frábær grein hjá þér.


Helgi Laxdal - 01/05/11 14:35 #

Vel gert ! Deili þessu út um víðan völl ! ;)


Ketill (meðlimur í Vantrú) - 01/05/11 16:08 #

Flott grein!


Rebekka Búadóttir (meðlimur í Vantrú) - 01/05/11 20:21 #

Ég vildi bara útskýra aðeins með línuritið. Ég vann það eftir skrá sem landlæknir sendi mér. Í henni voru skráðir fjölmargir mismunandi sjúkdómar á Íslandi frá árinu 1888 - 1996. Þegar ég fékk skrána var mér sagt að þeim hefði verið safnað úr gömlum heilbrigðisskrám og ekki hægt að ábyrgjast 100% að þær væru allar réttar (sérstaklega ekki þessar frá fyrstu áratugunum).

Allir þessir sjúkdómar virtust eiga það sameiginlegt að þeir koma í faröldrum. Hefði ég sýnt tölur fyrir hvert ár fyrir sig í stað meðaltals yfir áratugi, hefði línuritið verið virkilega óskýrt, með línurnar hoppandi upp og niður allan tímann. Það sem tölurnar sýna hins vegar, er að eftir bólusetningarnar verða faraldrarnir vægari og tilfellum fækkar stöðugt og smám saman. Það var það sem ég vildi að kæmi fram í línuritinu.

Línuritið ætti aðeins að skoða í þessu samhengi sem ég hef nefnt. Það sýnir ekki raunverulegar tölur, aðeins "trendið" og áhrifin sem bólusetningarnar höfðu á sjúkdómana.

Ég skal með ánægju senda landlæknisskjalið hverjum sem það vill. Svo er líka einfalt að senda landlækni fyrirspurn á vefsíðu hans.


Ólafur Gunnar Sæmundsson - 01/05/11 22:02 #

Flott grein Rebekka.


Berglind Freyja Búadóttir - 01/05/11 22:53 #

Þú ert náttúrulega bara frábær Rebekka mín! :) Ég væri alveg til í að fá skjalið frá landlækni... þarf líklegast ekki að segja þér e-mailið mitt ;)


Björn fáviti - 01/05/11 23:38 #

Rauði þráðurinn í þessu vantrúarkjaftæði virðist vera sjúkleg ást á alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum. Sérstaklega ofsagróða þeirra á árlegum bólusetningum gegn inflúensu. Auðvitað megið þið verja siðlausa lyfjarisa með peningaglampa í augunum en í guðanabænum ekki vefja boðskapnum inn í línurit og vísindahugtök. Þetta er pólitík og hagsmunapot framar öllu öðru.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/05/11 23:47 #

Hefurðu ekkert málefnalegt að segja Björn? Hefurðu engar athugasemdir við efni greinarinnar?

Það hljótum við að túlka sem fullkomna uppgjöf af hálfu ykkar samsærisnöttara.

Sérstaklega ofsagróða þeirra á árlegum bólusetningum gegn inflúensu.

Er fjallað um bólusetningu gegn inflúensu í þessari grein?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 02/05/11 00:32 #

Er þetta ekki svipað frasinn að það þýði ekki að rökræða við trúaða, vegna þess að ef það væri hægt þá væri ekkert trúað fólk.

Það þýðir ekkert að rökræða við "nöttara" um greinar, því ef þeir væru læsir á greinar þá væru þeir ekki "nöttarar".

Auðvitað gera þeir ekki greinarmun á inflúensu bólusetningum og þeim sem greinin fjallar um. Og þeir sjá heldur ekki að jafnvel þó allar þeirra sögur um stórgróða lyfjafyrirtækjanna væru kórréttar, þá breytir það engu um hvort bólusetningar eru gagnlegar eða ekki.

En mjög flott grein - með upplýsingum og staðreyndum. Og gaman að bera efnistökin saman við þær greinar sem reyna að blekkja fólk um bólusetningar með innantómum fullyrðingum.


Sigurlaug Hauksdóttir - 02/05/11 09:38 #

Ég er það gömul að ég fékk mislingana sem 6 ára gömul, ásamt yngri systur minni. Við urðum fárveikar. Ég man vel eftir því þegar við vorum að ná okkur eftir veikindin, en það var erfitt fyrir 6 ára krakka að fá ekki að fara út að leika með hinum krökkunum um mitt sumar. Það sem ég man eftir þegar við vorum sem veikastar er myrkrið, en við vorum mjög viðkvæmar fyrir birtu og því alltaf dregið fyrir alla glugga. Og útbrotin, sem ég man þó ekki eftir að hafa séð, heldur man ég eftir tilfinningunni.. get eiginlega ekki útskýrt það betur.

Ég fékk líka hettusótt, man alltaf eftir því að fólk talaði um það að skólabróðir minn einn fékk líka hettusótt á svipuðum tíma, og hún "hljóp niður" hjá honum. En, sem betur fer fór betur en á horfðist, þessi maður á örugglega börn í dag.

Frænka mín fæddist heyrnarskert eftir að móðir hennar fékk rauða hunda á meðgöngunni.

Margt fólk gerir sér enga grein fyrir þeirri áhættu sem felst í því að bólusetja ekki gegn þessum sjúkdómum.


Katla Björg Kristjánsdóttir - 03/05/11 03:41 #

Frábær og fræðandi grein.


E Guðjónsson - 04/05/11 17:16 #

Góð grein og vel skrifuð.

Björn: Mikið hræðilega eru þessar samsæriskenningar orðnar þreyttar. Þið hafið sennilega dottið í lukkupottinn nú þegar Usama Bin Laden var gripinn. Eflaust einhver tengsl þar við lyfjafyrirtækin...?


Mr. Agnostic - 08/10/12 16:23 #

Ég er sammála því sem kemur fram í þessari grein og tel það klárt mál að bólusetningar hafi bjargað mannslífum og geri enn. Hins vegar eru lækjavísindin og lyfjafyrirtækin ekki hafin yfir gagnrýni. Það kemur ósjaldan fyrir að lyf og "lækningar" komi t.d. á markað og endi svo með því að vera afturkölluð vegna alvarlegra aukaverkana. Sama á við um matvæli sem koma á markað. Vísindin eru ekki fullkomin og þau eru síbreytileg og því finnst mér sjálfsagt að þau sæti reglulega gagnrýni. Það er margt rotið inn að beinum í heimi viðskiptanna og þar eru lyfjafyrirtækinn (sem "nöttarinn" minntist á hér ofar) alls ekki undanskilin. Fólk ætti kannski ekki að hópast svona í "með-" eða "á móti-fylkingar," heldur hafa gagnrýna hugsun að sjónarmiði og skoða málin frá fleiri en einni hlið.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/10/12 16:37 #

Hér er grein um vísindi og vísindaleg vinnubrögð:

Rökfræðilegar og empirískar aðferðir í vísindum

Það er ekki til nein ein ákveðin vísindaleg aðferð. Sumar aðferðir vísindanna eru rökfræðilegar, þær snúast um að draga ályktanir eða gera útleiðslur frá tilgátum, eða því að finna skýringar á orsakasamböndum þegar nauðsynlegum eða nægjanlegum skilyrðum er fullnægt. Aðrar aðferðir eru empirískar, svo sem að gera athuganir, framkvæma tilraunir við stýrðar aðstæður eða hanna tækjabúnað sem nýtist við gagnaöflum.

Vísindalegar aðferðir eru ekki bundnar af persónum manna. Þess vegna ætti allt það vísindastarf sem einhver innir af hendi að vera endurtakanlegt af hvaða vísindamanni sem er. Þegar einhver heldur því fram að hann hafi mælt eða fundið eitthvað með einhvers konar hlutlægri aðferð, sem ekki er hægt að endurtaka, þá er sá maður ekki að stunda vísindi. Þegar að ekki er hægt að endurtaka verk einhvers vísindamanns er það klárlega merki um að sá vísindamaður hafi gert skyssu til dæmis í uppsetningu tilraunar, aðferðafræði, athugunum, útreikningum eða kvörðun mælitækja.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.