Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það gerist (ekki) í kvöld!

Margir telja sig sjá inn í framtíðina og tala gjarna um að þeim sé sýnt eitthvað (væntanlega að handan). Hvað svo sem veldur þessum ranghugmyndum fólks er það oftar en ekki óhrætt við að skýra heiminum frá þessum þönkum, aðeins til þess að verða uppvíst að því að hafa haft rangt fyrir sér þegar ekkert gengur eftir.

Það kæmi því óneitanlega betur út ef sjáendur og spámiðlar væru ekki að spá fyrir atburðum aðeins nokkra daga fram í tímann og jafnvel upp á mínútu, því niðurlægingin verður þeim mun sárari þegar stundin rennur upp. Mun betra er að tala um eitthvað óljóst í fjarlægari framtíð og treysta á að allir verði búnir að gleyma spádóminum þegar þar að kemur.

Nú hefur einhver kona, sem væntanlega trúir því einlæglega að hún hafi náðargáfu, gert sig að fífli í fjölmiðlum með svo nákvæmri jarðskjálftaspá að fyrirhafnarlaust verður að afsanna getu hennar. Við þurfum ekki að bíða nema fram á kvöldið.

Ég ætla að sýna ykkur fram á það núna að ég er betri spámaður en þessi sjáandi. Ég held því fram fullum fetum að það verði enginn stór jarðskjálfti á Reykjanesi í kvöld, síst af öllu klukkan 23:15.

Um leið legg ég til að í viðbragðsstöðu verði sett áfallahjálparteymi til að aðstoða konuna þegar upp fyrir henni rennur hvers lags ranghugmyndir hún gengur með. Ég sendi henni hlýjar baráttukveðjur og óskir um að henni gangi vel að takast á við þessu erfiðu tímamót.

Birgir Baldursson 27.07.2009
Flokkað undir: ( Efahyggja , Nýöld )

Viðbrögð


Kristinn - 27/07/09 08:11 #

Þegar þetta svo ekki gengur eftir hjá henni mun hún vitaskuld koma með einhverja afskaplega vandaða skýringu á því. Eitthvað um afstöðu reikistjarna, rafsegulský og skakkar árur.

Hinir kuklararnir geta þá kinka kolli og tekið undir með henni: "já, ég hef eimnmitt verið að lenda í þessu, skýrir spádómar hafa bara ekki gengið eftir."

;)


Svavar Kjarrval - 27/07/09 09:41 #

Samkvæmt greininni er hún að gefa fyrirvara um skekkju svo það mun ekkert afsannast eingöngu ef jarðskjálftinn verður ekki á mínútunni 23:15. En ef það verður enginn stór jarðskjálfti á Íslandi þann daginn eða næsta, þá munu efasemdir rísa um náðargáfu hennar.

Ég veit að hún minntist á ákveðið svæði á Íslandi en hún getur ekki gripið til þess að hafa ruglast á svæðum ef það er enginn stór skjálfti á öllu landinu.


Bjarki - 27/07/09 11:22 #

Æi sumt fólk er svo sturlað að það mun trúa hverju sem er til þess að missa ekki traustið á miðlana. Ef meðalstór jarðskjálfti verður á Súmötru kl. 22:12 á íslenskum tíma þá er ég nokkuð viss um að sjáandinn ógurlegi muni benda á það til sönnunar um að hún hafi vissulega skynjað eithvað.


Gurrí - 27/07/09 12:03 #

Hún er ansi hugrökk að þora að koma fram í fjölmiðlum með þetta og leggur allt undir með þessu. Það fannst mér mun merkilegra en sjálfur spádómurinn. Konan vinnur ekki sem miðill og tekur ekki fé af auðtrúa fólki fyrir "þjónustu" og hefur þannig séð engu að tapa þar. Ef kemur stór skjálfti (það hlýtur að vera miðað við yfir 6 á Richter) þá þurfa ansi margir að éta hatta sína.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 12:21 #

Við gerum meira en éta hattana okkar. Ef þetta gengur eftir eru allar líkur á að heimsmynd okkar skeptíkeranna sé hrunin og að yfirnáttúra með framtíðarsýnum, kraftaverkum, draugum, álfum, guðum og mannkynsfrelsurum sé staðreynd.

Hingað til hafa engar rannsóknir bent til að nokkuð úr þessari átt þrífist í raun. Við sem hengjum hatt okkar á það sem sannara er getum á þeim forsendum með góðu móti afskrifað spádóma sem þessa.

Já, með þessari grein legg ég allt undir, alla heimsmynd mína og sannfæringu, ekki síður en sjáandinn.


Jón Grétar - 27/07/09 13:17 #

Mér finnst nú nokk slæmt að fólk sé að hringja í almannavarnir útaf þessu. Persónulega finnst mér að það ætti að senda slík símtöl til rannsóknar hjá lögreglu lík og gert er með önnur símaöt í almannaheillar-stofnanir.


Einar - 27/07/09 14:10 #

Ja.. mér finnst nú nokk skrítið að sjá svona á þessari síðu. Er ekki hérna gagnrýn þröngsýni meðal annars og kirkjuna sem eru vægast sagt þröngsýnir.

En ber þessi stutti pistill hérna um þessa konu ekki vott um þröngsýni ??

Þessi kona er ekki að reyna að græða neitt á þessu, hún er ekki að blekkja fólk í sína þágu eða fyrir peninga. Hún hjálpar björgunarsveitum að finna týnt fólk og svo framvegis.

Spurning um að líta aðeins út fyrir kassann...

það eru margir í þessum heimi sem sjá lengra en nef þeirra nær ... og skrítið að dæma þessa konu sem "rugludall" og nánast "svikahrapp" ...

Hún hefur áður sagt til um jarðskjálfta .. m.a 17 júní skjálftan.. en þá munaði víst 2 dögum á spá hennar... einnig gerði hún sama árið 2000 ef ég man rétt ... og sannanir um þetta eru t.d á morgunbladid.is ef ég man rétt.

Það er engin ástæða finnst mér að dæma þessa konu svona hart ... og flestir án þess að vita nokkuð um hana eða hvað hún hefur sagt og gert... mér finnst það bera vott um þröngsýni og fordóma.

Ég er trúleysingi og efasemdamaður .. en það er allt í góðu að horfa ekki á heiminn í gegnum "rör" ... ef svoleiðis hugsunarháttur hefði verið algengari .. að þá kannski væri jörðin ennþá flöt???? eða hvað?

með kveðju Einar


Jón Grétar - 27/07/09 14:17 #

Þú ert varla mikill efasemdamaður ef þú trúir á galdra.


Jón Frímann - 27/07/09 14:20 #

Konan var að spá fyrir um jarðskjálfta á svæði, þar sem jarðskorpan er bæði ung, þunn og nær ekki að halda mikilli spennu. Þessi spá gengur útá það að þarna verði jarðskjálfti uppá 6,7 - 7 að stærð. Eitthvað sem er algerlega ómögurlegt fyrir Reykjanesið í heild sinni. Jarðskorpan á þessu svæði ber einfaldlega ekki slíka spennu.

Það er eingöngu ysti hluti suðurlandsbrotabeltsins sem getur, og hefur komið með jarðskjálfta uppá 7 að ricther (veit ekki hvaða kvarði var nákvæmlega notaður, það munar í tölulegri stærð eftir kvarða). Þannig jarðskjálftar hafa komið í kringum Heklugos, eða í upphafi þeirra (nokkur á fyrri öldum).

Sú jarðskjálftavirkni sem núna er í gangi bendir ekki til neinna sérstakra hrina. Hrinur geta þó hafist án mikilla fyrivara, eins og þekkt er orðið.


SIB - 27/07/09 14:22 #

Birgir. Ég hvet þig samt til þess að fara að mínu dæmi og tjalda í nótt, svona "just in case" :)


Einar - 27/07/09 14:26 #

Jón Frímann .. hvar sástu þessa tölu 7 á richter ?? endilega bentu mér á það.

hún spáir stórum skjálfta á krísuvíkursvæðinu .. á svipuðum stað og skjálftinn 19 júní síðastliðin var.

Endilega Jón Frímann kynntu þér þetta mál aðeins betur áður en þú ferð að tjá þig.


Einar - 27/07/09 14:29 #

Eru það galdrar að sjá fyrir sér í draumi eða hvernig sem hún sá þetta .. að jörð skelfur á einhverju svæði?

ekki mikið hókus pókus þar sýnist mér.. :)

ástæðan fyrir því að ég flokka þetta ekki undir svikastarfsemi er að hún starfar ekki við þetta.. hún hefur engar tekjur af þessu... hún bara sér eitthvað og segir frá því .. varar við því jafnvel.

soldið erfitt fyrir mig að flokka þetta undir svik og pretti þegar ávinningur hennar af þessu er enginn.

með bestu kveðju Einar


Jón Frímann - 27/07/09 14:38 #

Einar, ég man ekki hvar ég sá þessa tölu. Reyndi að leita, en er búinn að týna þessu.

Jarðskjálftahrinan sem hófst á Krísuvíkursvæðinu þann 29. Maí 2009 er að öllum líkindum ekki búin ennþá. Þó svo að lítið sé að gerast þarna núna. Það voru sig og brotaskjálftar. Það er einnig tiltölulega stutt síðan það varð stór jarðskjálfti á Reykjanesinu, en í suðurlandsskjálftunum árið 2000 þá urðu stórir jarðskjálftar á Reykjanesinu í kjölfarið.

Ég er áhugamaður um jarðfræði og jarðskjálfta, þekki þetta málefni mjög vel.

http://hraun.vedur.is/ja/skyrslur/contgps/node26.html


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 14:42 #

Við höfum akkurat ekki kallað þessa konu svikahrapp, heldur tökum fram að hún "væntanlega trúir því einlæglega að hún hafi náðargáfu".


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 15:12 #

"Eru það galdrar að sjá fyrir sér í draumi eða hvernig sem hún sá þetta .. að jörð skelfur á einhverju svæði?"

Ef þú trúir því að draumurinn sé fyrirboði um það sem koma skal, þá ... JÁ!

Ég held að fæstir trúi því að hún sé svikahrappur, frekar að hún sé haldin mikilli sjálfsblekkingu um eigin hæfileika. Ég held að þetta eigi við um flesta miðla líka. En það skiptir engu máli hversu einlægir, heiðarlegir og sjálfsblekktir svona einstaklingar kunni að vera, þetta er bull og vitleysa allt saman.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 15:17 #

Einar: Ég er ekki að kalla þessa konu svikahrapp og hvergi hef ég haldið fram að hún hafi af þessu einhverjar tekjur. Aftur á móti gæti hún verið í þörf fyrir að vera talin spes og merkileg, haldin göfgiþrá.

Ég var einu sinni svoleiðis og reyndi mikið sem unglingur að kalla fram yfirnáttúrlega getu, fara úr líkamanaum, skynja framliðna, hafa áhrif á hluti með hugarorkunni og slíkt. Mér fannst svoleiðis fólk svo merkilegt og langaði að njóta svipaðrar virðingar og það fékk frá mér og öðrum.

Svo óx þetta af mér, enda var ég nógu heiðarlegur til að viðurkenna fyrir sjálfum mér að ég hefði enga yfirnáttúrlega hæfileika. Datt ekki til hugar að fara að ljúga slíku upp til að öðlast virðingu.

Mér virðist þú ekki vera mikill efasemdarmaður, Einar, ef þú leggur trúnað á einhverjar sögur um þessa konu án þess að grennslast nokkuð fyrir um uppruna þeirra og sannleiksgildi. Hefur hún raunverulega hjálpað björgunarsveitum, eða er það saga sem hún hefur komið af stað til að göfga sig?

Sá hún raunverulega skjálftana árið 2000 fyrir? Er sönnunin á Moggavefnum raunveruleg? Kannaðu málið og sýndu okkur.


valdi - 27/07/09 15:35 #

Ættla að vona að greinarhöfundur komi sér vel fyrir undir þungri hillu í kvöld :)


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 15:36 #

Það geri ég með stakri ánægju. :)


Jón Frímann - 27/07/09 15:54 #

Óháð jarðskjálftum, þá er aldrei sniðugt að koma sér fyrir undir þungum hlutum.

Það er alltaf jarðskjálftahætta á Reykjanesinu, enda er þetta virkt svæði eins og allir vita. Þannig að jarðskjálftar geta komið án mikils fyrirvara. Það er ekkert sem bendir til jarðskjálfta á Reykjanesinu, eða hjá Krýsuvík í kvöld. Svæðið er rólegt sem stendur og ekkert merkilegt að gerast.

Ég hef meiri áhyggjur af hættu á eldgosi í Eyjafjallajökli en jarðskjálfta á Reykjanesinu. Ég hef vísindaleg gögn til þess að byggja mínar áhyggjur á varðandi Eyjafjallajökul.


Einar - 27/07/09 16:04 #

Mér skilst að hún hafi hjálpað að finna, rjúpnaskyttuna sem var týnt mánuðum saman, fann lík hans fyrir einhverju síðan ásamt björgunarsveit.

Hvað varðar fyrri skjálfta sem hún sá fyrir .. að þær upplýsingar er hægt að finna á mbl .. ég hef því miður ekki aðgang að morgunbladid.is ... en þar eru allar uppl um þetta.

Og hvað varðar að ég sé ekki efasemdarmaður að þá kannski ætti ég að útskýra betur.. ég er ekki að segja að ég kaupi allt.. og að ég sé á klukkunni í kvöld og bíðandi eftir skjálftanum ... hinsvegar finnst mér þetta bara áhugavert .. það voru skjálftar 19 jún, og 2000 sem hún sagði til um .. þær upplýsingar liggja fyrir ... það var á einhverri bloggsíðunni um málið eða facebook síðunni sem ég sá um það .. þá hafði einhver (mikill efasemdamaður reyndar) sem ætlaði nú að leysa málið og koma upp um þetta rugl) og eftir að hafa skoðað þetta var hann að eigin sögn alveg orðlaus .. og át víst ofan í sig eitthvað sem hann var búinn að láta flakka um málið.. þannig að .. þótt hæpið sé að hún sé göldrótt .. að þá er þetta áhugavert ... því er ekki hægt að neita ;)

kveðja


Einar - 27/07/09 16:06 #

Kannski bæta við; að þótt ég sé kannski "áhugasamari" um þetta tiltekna mál en margir hér .. að þá er ég í 99.9% sammála því sem er skrifað á þessa síðu hvað varðar trúmál ofl.

bara svo það sé á hreinu ;)

kv.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 16:15 #

Mér skilst að hún hafi hjálpað að finna, rjúpnaskyttuna sem var týnt mánuðum saman, fann lík hans fyrir einhverju síðan ásamt björgunarsveit.

Ef þú ert að tala um nýlegt dæmi þá fannst sá þegar bændur voru að huga að girðingum (frétt Vísis).

Miðlar og sjáendur flækjast bara fyrir í slíkum málum. Það er engin dæmi til um annað.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 16:19 #

Svona verða þjóðsögurnar til. Á Moggavefnum er gamalt viðtal við Láru út af burstabæjarmódelum og þar kemur fram hennar eigin fullyrðing um að hún hafi séð fyrir skjálftana. Og þetta birtist eftir skjálftana. Ætli þetta sé ekki lélegasta sönnunargagn um framtíðarspá sem hugsast getur.

Taktu eftir því hvernig saga sem hún sjálf startar eftir á verður í hugum fólks að fullvissu um að hún hafi komið þessum upplýsingum í fjölmiðla áður en atburðirnir gerðust.

Og nú vil ég fá yfirlýsingu frá björgunarsveitunum um að þessi kona hafi raunverulega verið þeim hjálp við að finna rjúpnaskyttuna. Í hvaða fjölmiðli kom þetta fram? Hefur þetta verið staðfest?

Í mínum huga er það reyndar grunsamlegt ef einhver getur óhikað vísað staðsetningu líks sem týnt er. Það bendir frekar til þess að viðkomandi hafi mannslíf á samviskunni, en að hann búi að yfirnáttúrlegum hæfileikum.

Hver einasta svona saga, um að miðlar hjálpi löggu og björgunarsveitum hefur sýnt sig að vera kjaftæði þegar eftir hefur verið grennslast. Ég ætla að veita mér þann lúxus að álíta að þessar hér að ofan séu engin undantekning frá þeirri reglu.


Guðmundur D. Haraldsson - 27/07/09 16:30 #

Svona verða þjóðsögurnar til. Á Moggavefnum er gamalt viðtal við Láru út af burstabæjarmódelum og þar kemur fram hennar eigin fullyrðing um að hún hafi séð fyrir skjálftana. Og þetta birtist eftir skjálftana. Ætli þetta sé ekki lélegasta sönnunargagn um framtíðarspá sem hugsast getur.

Viðtalið birtist 28. apríl 2000, skjálftarnir urðu í júní 2000, svo þetta viðtal birtist áður.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 16:38 #

Úbbs, mín mistök. En hvað segir þetta okkur? Hvað t.d. með öll þau skipti sem Völva vikunnar hefur spáð einhverju svipuðu og það ekki gengið eftir? Það er fyrirhafnarlítið að segja svona hluti, skjóta út í loftið, vitandi það að ef hlutirnir ganga eftir verður þeim flaggað sem sönnunum, en ef ekkert gerist gleymast þeir bara.

Ef við tækjum saman alla spádóma um jarðskjálfa, hér á þessu skjálftaríka landi, er ég nokkuð viss um að fjöldi rangra spádóma yfirskyggir þá sem grísa rétt.

En skítt með það allt saman, þessi kona er búin að gefa okkur nákvæma dagsetningu og nú er bara að sjá hvað er í hana spunnið. Mig grunar reyndar að ástæða þess að hún stígur fram nú er að hún hefur ofmetnast af því að hafa slumpast á að spá rétt þarna um árið. Hún trúir því eins og nýju neti að hún hafi náðargáfu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 16:47 #

En svona til að gæta allrar sanngirni, þá ætla ég að gefa konunni vikmörk upp á tvo sólarhringa og allmarga ferkílómetra. Verði stór skjálfti einhvers staðar á Reykjanesi í dag, kvöld, morgun eða hinn mun ég alvarlega endurskoða hug minn til þessara hluta, um leið og ég mun hvetja kellu til að undirgangast milljón dollara próf James Randi.

Það væri stórkostlegt ef tækist að sýna fram á yfirnáttúru af einhverju tagi, sér í lagi ef hægt er i raun og veru að sjá inn í framtíðina. Ég mun dansa á torgum af fögnuði ef þessi kona reynist rauverulega skyggn. Skítt með þótt ég hafi haft rangt fyrir mér, ég hef hvort eð er oft rangt fyrir mér, þótt í smærri stíl sé.

Ég er semsagt alveg til í það að heimurinn sé með þessa stórmerkilegu möguleika innbyggða í sig. En ég kýs nú samt að byggja heimsmynd mína á staðreyndum og ákveða ekki að það sem ég vilji að sé satt sé satt.

Vonandi verður stórskjálfti í kvöld. Vonandi deyr þó enginn, en smávægilegt eignatjón er ekkert verð fyrir óræka sönnun um hið yfirnáttúrlega.

Á morgun verður heimurinn nýr og ekkert eins og það var. Húrra!


Jón Grétar - 27/07/09 17:06 #

Auðvitað eru margir sem telja sig hafa vitað vitneskju fyrirfram. Venjuleg manneskja dreymir 10-20 drauma á nóttu. Það gera allt að 6 milljón drauma hverri nóttu bara á íslandi. Líkurnar á að einn af þeim sé um flugslys sömu viku og það verður flugslys eða jarðskjálfta sömu viku og einn slíkur eru yfirgnæfandi.

Sama má segja um þessa þúsundir spádóma sem eru gerðir ár hvert hér á landi. Auðvitað finnast einhverjar leiðir til að tengja loðinn og lítið skilreindann spádóm við einhvern atburð eftirá. Og fólk gerir allt og afsakar allt til að geta beygt sannleikann til að spádómurinn verði réttur. Fólk sem vill að spádómar séu til eru hreint og beint til í að gera allt til að halda að þeir rætist stundum.

Þess vegna er sorglegt að hlusta eða horfa á fólk sem fer til miðils. Það er sorglegt dæmi um sjálfblekkingu fólks. Miðillinn þarf kanski að prufa 5 nöfn áður en það finnur nafn einhvers sem fólkið þekkir og samt er fólk svakalega hissa og finnst það kraftaverk þegar miðillinn loks fyrir rest nær að giska á eitthvað óljóst. Og svo segir fólkið jafnvel miðlinum beint út upplýsingarnar. En í minningu þeirra þá finnst því að það hafi verið miðillinn sem sagði hlutina þegar það var það sjálft.

Púnkturinn er þessi. Fólk sem vill trúa á eitthvað finnur hvernig sem það getur einhverja leið eða afsökun til að trúa því.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 17:18 #

Fróðleg lesning úr fórum okkar.


Einar - 27/07/09 17:49 #

ég tek undir með Jóni hér fyrir ofan... að til dæmis ef það er fullur salur af fólki á miðilsfundi .. og "miðillinn" segir .. kannast einhver hér við Önnu .. eða Sigurð .. ha ha ha .. og síðan er spilað áfram á trúgirni fólksins.. sem kannski var að missa fjölskyldumeðlim og þarna er verið að notfæra sér sorg fólks... Bara hrein svikastarfsemi!

og þótt að það sé skoðun mín á miðlum .. að eins og ég segi.. að þá fannst mér soldið sérstakt að hún spáði um skjálftan sbr. "viðtalið birtist 28. apríl 2000, skjálftarnir urðu í júní 2000" ... fannst þetta soldið spes.. get ekki sagt annað :) .. þótt að auðvitað tilviljanir geta spilað inn í svona ...

kveðja Einar


Gummi - 27/07/09 18:51 #

Hér er greinin sem Jón Frímann talaði um að jarðskjálfar á Íslandi færu vart yfir 7 stig: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=542355.

Á hinn bóginn er ekki neitt viðtal við hana Láru Ólafsdóttur í Morgunblaðinu árið 2000. Veit ekki betur en að þessi dagsetning, 28. apríl, sé gripin úr lausu lofti nema annað sannist.

Þeir sem vilja reyna að leita er frjálst að gera það á http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/. Endilega látið vita ef þið finnið þetta viðtal.


Frosti Logason - 27/07/09 19:02 #

Einar, þú ert trúleysingi og efasemdamaður en segir:

"það eru margir í þessum heimi sem sjá lengra en nef þeirra nær ... og skrítið að dæma þessa konu sem "rugludall" og nánast "svikahrapp" ..."

...hvað áttu eiginlega við með því?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 19:19 #

Á hinn bóginn er ekki neitt viðtal við hana Láru Ólafsdóttur í Morgunblaðinu árið 2000. Veit ekki betur en að þessi dagsetning, 28. apríl, sé gripin úr lausu lofti nema annað sannist.

Það var kominn linkur í þessa grein í einni athugasemd minni hér að ofan.


Einar - 27/07/09 19:27 #

Ég er svo sannarlega trúleysingi .. en efasemdir mínar beinast að svikahröppum, kannski er ég ekki meiri efasemdamaður en þetta .. en eins og ég segi, ég hef mikla fordóma gagnvart þeim ("miðlum") sem misnota fólk sem er ekki í jafnvægi .. t.d vegna fráfalls ástvinar eða trúgjarnt á svona hluti.

en það er erfitt að útiloka algjörlega allt sem tengist svona hlutum.

Maður hefur heyrt um næmt fólk sem aðstoðar lögreglu m.a í U.S.A... einhvernvegin á maður erfitt með að setja bandaríska lögreglu í flokk með einfeldningum og kjánum ...

En nóg um það.

kveðja.


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 19:52 #

Birgir: Náttúrulega í þessari grein segir hún "á þessu ári". Náttúrulega á þessum tíma voru allir sjáendur búnir að segja "á þessu ári" í örugglega 10 ár. :)

Einar: Það að það sé erfitt að "útiloka algjörlega allt" er ekki einu sinni smá rök fyrir tilvist neins. Það er rosalega margt sem að ekki er hægt að útiloka. En þegar talað er um extraordinary hluti á borð við galdra og fyrirsjá þá verða sannanirnar að vera góðar. Og ef þetta væri í alvöru til þá væri þetta það auðveldasta í heimi að sanna. Mér finnst það segja ALLT að þeim takist ekkert að sanna neitt um þetta vegna þess að það væri bara svo auðvelt.


Einar - 27/07/09 19:59 #

Jón: það er nokkuð til í því.

ég er alls ekki að halda því fram að galdrar og annað slíkt sé til ... veit ekki til þess að Hogwarts skóli sé á Englandi ;)

en maður hefur heyrt svona hitt og þetta .. má vera að það sé allt tóm steypa... en að lögreglan í Bandaríkjunum leiti til svona einstaklinga ... set nú samt spurningamerki við það ... einhvernvegin býst maður ekki við því að auðvelt sé að blekkja þá.. og þó .. maður veit ekki.


Kristján - 27/07/09 20:09 #

Medium þættirnir sem þið hafið ef til vill horft á, á stöð 2 eru gerðir eftir alvöru miðli sem starfar með rannsóknarlögreglu í bandaríkjunum og hefur leyst hundruði mála. Hún kom meðal annars fram í sjónvarpsþætti Opruh Winfrey og heitir Allison alveg eins og konan í sjálfum sjónvarpsþættinum.

Gaman að lesa hér commentin á síðunni og sjá hvað margir eru á mismunandi vitundarstigi. Allir vakna einhverntímann og hætta að vera gremjulegir efnishyggjumenn sem gera ekkert annað en að vera á móti öllu. Dýrið verður að manni . :) Góðar stundir .


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 20:11 #

Mér þætti mjög trúlegt að lögreglan í Bandaríkjunum leiti til miðla. Enda eru 800.000 lögreglumenn í Bandaríkjunum og margir af þeim eflaust til í að prufa allan fjandann til að leysa sín sakamál. :)

Ég byrjaði alls ekkert skeptískur á þetta. Mér þótti þetta allt svakalega spennandi þegar ég var yngri. En svo fór maður bara að sjá þetta betur hægt og rólega. Maður sá video af miðilsfundi og fékk sjokk yfir hvað þetta var óhugnarlega lélegt og hvað fólk sá bara um að blekkja sjálft sig án þess að miðillinn þyrfti að hjálpa því. Svo sá maður að spádómsmenn voru ekki betri en svo að tölvugerðar ágiskunum gekk betur að spá fyrir hluti en þeim.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 20:24 #

Mér sýnist reyndar að þessi Allison stundi það bara að angra lögreglumenn með gagnslausum símtölum.


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 20:31 #

Medium þættirnir sem þið hafið ef til vill horft á, á stöð 2 eru gerðir eftir alvöru miðli sem starfar með rannsóknarlögreglu í bandaríkjunum og hefur leyst hundruði mála. Hún kom meðal annars fram í sjónvarpsþætti Opruh Winfrey og heitir Allison alveg eins og konan í sjálfum sjónvarpsþættinum.

Það þurfti nú ekki annað en að skoða Wikipediafærsluna um þessa ágætu konu til sjá hvort eitthvað sannleikskorn væri í þessari fullyrðingu. Í þessari blaðagrein ákvað blaðamaðurinn að kanna hversu mikið væri til í þessu og hafði samband við lögregluna: Phoenix New Times:There's no good proof the real Medium, Allison DuBois, has ever cracked a case, but her fans don't care

Afrek hennar meðal lögreglunnar hljóma því ekkert voða sannfærandi.


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 20:32 #

@Kristján:

Ég held að það sé nú betra þegar þú gerir grín að "vitundastigum" að vera ekki í sama commenti trúa öllu sem þú sérð í sjónvarpsseríu frá NBC. ;)

Annars ert þú að tala um hina frægu Allison DuBois. Vandamálið við hana er að það vill ekki nokkur lögreglustofnun kannast við að hafa actually spurt hana ráða. Nokkrir kannast samt við að hafa fengið sendar ábendingar frá henni sem víst hálpuðu nákvæmlega ekkert og í raun eyddu bara dýrmætum tíma þeirra þar af leiðandi. Mikil hjálpin var nú í henni greinilega.

Alltaf finnst mér fyndið þegar trúaða fólkið sakar efnishyggjumenn um að vera "close minded" eða "á móti öllu". Hlutirnir eru nefnilega akkúrat hinsvegin. Efnishyggjumaður trúir því á sannanir. Skoðanir hans tengjast málinu ekkert. Þannig eru okkar hugar opnir fyrir öllum möguleikum og ef sönnun kemur fyrir einhverju þá eru hugar okkar opnir fyrir því að taka því sem sannleik.

Ykkar hugar eru hinsvegar gjörsamlega lokaðir. Það á ekki að skoða neina möguleika aðra en það sem ykkur fyrst datt í hug. Sannanir skipta ykkur engu og enginn kraftur í heiminum gæti fengið ykkur til að skipta um skoðun. Möguleikinn er bara einn og eina lausnin er "galdrar".

Hafðu það bara í huga næst þegar þú kemur með svona comment. Reyndu að muna hver það er sem er líklegri til að breyta um skoðun og áttaðu þig á þvi að það sért í raun þú sem ert close minded. Vonandi kemur bráðum einhver annar sjónvarpsþáttur sem fær þig til að breyta um skoðun. ;)


Kristján - 27/07/09 20:45 #

Þegar þú nærð ákveðnu þroskastigi fer ýmislegt að breytast og þú hættir að trúa og byrjar að vita. Þú ferð að upplifa sjálfur. Um það get ég ekki talað því það myndi aðeins hljóma sem bull,ævintýri og vitleysa fyrir þér. Öll trúarbrögð og heimspeki er afstæð og því bind ég mig ekki við svoleiðis hugmyndakerfi. Það sem kallað hefur verið ANDINN í gegnum aldirnar er raunveruleiki sem er eilífur. Lífið á sér orsakalausa orsök, sem þýðir að þú hefur alltaf og munt alltaf vera til. Fyrsta orsök er ekki til, hvaðan kom fyrsta orsök ? frá engu ? Notaðu vitsmunina og sjáðu sannleikann sjálfur innra með þér án þess að binda þig við eitt eða neitt. Það er sannkallað frelsi. Ég get haldið hér langa ræðu en þú verður að vakna sjálfur.


Kristján - 27/07/09 20:55 #

Þessi grein um Allison er skrifuð af vantrúarmanni og því ekki skrýtið að hún sé eins og hún er .

Sjálfur tek ég einungis mark á mínum eigin upplifunum og lifi eftir minni vitund.

Ég er ekki hér til að upphefja Allison né lasta henni.

Hér er smá viðtal við Allison ( Ekki að ég sé miðlafan )

http://www.youtube.com/watch?v=5okOKdNqxw4


Kristján - 27/07/09 20:58 #

Hér er viðtal við Allison fyrir trúaða og vantrúaða.

http://www.youtube.com/watch?v=w6MlqZ6rt1I&feature=fvw

Góðar stundir .


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 21:07 #

Kristján: Hvað veist þú um það hver skrifaði þessa grein?

En gaman finnst mér að hæðni þinni sem sjálfskipuðum vitringi og þroskamanni. :) Miðað við lýsingarnar sem þú gefur á sjálfum þér þá fer maður að halda að þú sért fljótandi orka upphafinn þörf á líkama og efnis. :)

Ekki verður það gaman þegar þú fellur til jarðar af stallinum þínum.


Kristján - 27/07/09 21:11 #

Bullaðu eins og þú vilt Jón. Það kemur þér ekkert vinur. Góðar stundir.


Kristján - 27/07/09 21:20 #

Megan Irwin skrifaði þessa grein vinur og það er auðvelt að sjá á greininni hver skoðun blaðamanns er. Þú þarft ekki að vera gáfaður til þess.

Ef þú mundir skilja það sem ég skrifaði hér að ofan um orsakalausa orsök, myndir þú byrja að hegða þér á allt annan hátt og ekki skrifa svona barnalegt og ómerkilegt comment.

Góðar stundir.


Kristján - 27/07/09 21:21 #

Kannski betra að segja blaðakonu heldur en blaðamanns, það skiptir kannski ekki máli.


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 21:21 #

Er það bull sem kemur frá mér? :) Vegna þess að ég neita að trúa án þess að hafa ástæðu.

Þú meira að segja ert í svakalegri mótsögn við sjálfan þig. Þú segir að maður eigi að trúa því sem maður sér. En dæmir mig akkrúrat fyrir það. Allt sem ég hef á ævinni séð segir mér að það séu engir galdrar og að fólk sem þykist vera galdrafólk hef ég yfirleitt náð að sjá að er fólk að stunda blekkingar. Kallast það ekki hræsni sem þú ert að sýna?

Sannleikurinn er minn. Þú getur átt þína hræsni og þinn dónaskap á þínu skýi.

Bíddu til 23:15. Og þegar ekkert gerist þá skal ég bíða hér eftir þinni afsökunarbeiðni.


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 21:26 #

Þú dæmir allar hér með minni vitsmuni og skilning en þú. Og af hverju geriru það?

Já vegna þess að við neitum að trúa því að það sé að koma jarðskjálfti bara vegna þess að einhver kona segir það.

Gef mér eina ástæðu til að trúa þessu.


Kristján - 27/07/09 21:26 #

Ég er alls ekki í mótsögn við sjálfan mig. Ég er einungis að svara barnalegu rifrildi frá þinni hendi. Þú byrjaðir á því að drulla yfir mig og það sem ég er að segja. Ég einungis svaraði því mjög svo frá jörðu en ekki neinu frekjuskýi eins og mér virðist þú vera á . Bíddu til 23:15 og afsökunarbeiðnin sýnir einungis hve mjög þú sækist í rifrildi og að sýnast yfir alla aðra hafin.

Verði þér að góðu.


Jón Grétar Borgþórsson - 27/07/09 21:32 #

Lestu betur yfir hér. :)

Þú byrjaðir á að drulla yfir okkur. Svo ég vitni í þitt fyrsta komment: "Gaman að lesa hér commentin á síðunni og sjá hvað margir eru á mismunandi vitundarstigi. Allir vakna einhverntímann og hætta að vera gremjulegir efnishyggjumenn sem gera ekkert annað en að vera á móti öllu. Dýrið verður að manni ."

Ég sóttist ekki í rifrildi. Ég svaraði bara dónaskap með dónaskap. :) Ég þykist bara veru yfir þá hafinn sem telja sig yfir aðra hafna. Þú meira að segja telur þig á æðra "vitundarstigi". :D Hversu narcissistic er það eginlega?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 21:46 #

Þú meira að segja telur þig á æðra "vitundarstigi". :D Hversu narcissistic er það eginlega?

Sennilega hefur kauði látið eitthvert nýaldarlið, og borgað offjár fyrir, segja sér allt um einhver mismunandi "vitundarstig". Og auðvitað fékk hann að heyra það sem hann vildi heyra, að hann væri "gömul sál" og á háu slíku plani.

En ummæli hans eru ekkert til að kippa sér upp yfir. Við heyrum þetta "get-a-life" mjög oft.


Bjarki - 27/07/09 21:56 #

Látið ekki svona strákar. Maður á að bera virðingu fyrir verum á æðra vitundarstigi og þakka fer hvert skipti sem þær stíga niður af vitundarskýinu sínu til þess að leggja vanþroska sálum lífsreglurnar!

Það er í það minnsta góð skemmtun.


Bjarki - 27/07/09 22:11 #

http://www.dv.is/frettir/2009/7/27/lara-sjaandi-aetla-ad-vera-heima-i-kvold/

Sjáandinn veit víst líka hvar Madeleine McCann er niðurkominn. Þar með skipar hún sér á bekk með hundruðum viðbjóðslegra hræætna sem hafa það að sérgrein að leggjast á fólk sem hefur misst ástvini, í von um athygli og peninga.


Árni Þór - 27/07/09 23:16 #

Ég ligg undir glerskápnum heima. Any sec now!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 23:17 #

Skrítið. Ég varð ekki var við skjálftann.


E - 27/07/09 23:18 #

Ekki veit ég nú að hún hafi látið bankanúmerið fylgja þegar hún sendi upplýsingarnar til Scotland Yard, held nú að hún hafi bara viljað hjálpa til.

Síðasti skjálfti sem hún "sá" skeikaði um 2 daga .. við skulum gefa henni nokkra daga áður en við flokkum hana sem bullara.

Hversu ósennilegt sem þetta hljómar að þá hefur hún haft rétt fyrir sér áður ... hvort sem það var tilviljun, það getur vel verið.

En bíðum og sjáum ;) spenntir! eheh


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/07/09 23:18 #

Skrítið. Ég varð ekki var við skjálftann.

Það er vegna þess að þú ert svo þröngsýnn.


Arnar - 27/07/09 23:32 #

Leiðinlegt að ekkert skyldi gerast. En ég hélt þó að maður myndi fá einhverja skjálfta í dag, en að það kom engin á þessu svæði. Ég held að ég þurfi alvarlega að fara athuga traust mitt á spámönnum/konum(Mjög svo mikil kaldhæðni ef það kom ekki fram).


Einar - 27/07/09 23:48 #

ég fann vel fyrir honum ... enda ekki þröngsýnn að eðlisfari ... nötraði allt hérna heim sko ;)

kv.


Þröstur Hrafnkelsson - 28/07/09 01:44 #

Vona að þessir miðlar á Íslandi fari ekki að "sjá" hluti sem eru öllu alvarlegri en þessi jarðskjálftaspá. Það gæti haft jafn slæmar afleiðingar og gerðist með þennan miðill í USA þegar hún sagði foreldrum hvar týnda barn þeirra væri grafið. Kom seinna í ljós að það var á lífi.

http://www.youtube.com/watch?v=mUCECDBOOjw


Jón - 28/07/09 03:26 #

Fólk sem segist vera trúleysingjar og efasemdarfólk en trúir annars á drauga, spádóma og 9-11/illuminati/bilderberger/New World Order/ZOG samsæriskenningakjaftæði eru stórskemmtilegar týpur!


Jón Frímann - 28/07/09 05:14 #

Það kom ekkert fram á mínum mælum nema rok.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 28/07/09 08:20 #

Kannski varð þessi skjálfti bara á "æðri vitundarstigum"?

Eða kannski var þetta "sálrænn" skjálfti í umfryminu sem aðeins þeir sem eru á "æðri vitundarstigum" verða varir við?

Spyr sá sem ekki veit.

Ætli Lára og Bíbí éti hattana sína? Eða amk eins og eina lopahúfu hvor?


Grétar Fannar - 28/07/09 12:47 #

Hún sagði að það gæti skeikað tveimur dögum í viðtalinu í Vikunni. Þannig að verið bara rólegir. Jörð gæti hrists og hús hrunið næstu 48 klukkustundirnar.


Þorsteinn Bragason - 28/07/09 14:00 #

Ef sjáendur væru raunverulaga til, Þá þurftir þetta að hafa gerst í framtíðinni og hún á einhvern óskyranlegan hátt ferðast inní framtíðina séð skjálftan þar komið svo aftur úr framtíðini inni nútíman og varað okkur við. Hverjar eru líkurnar ??????

JÁ SÆLL


Viktor - 28/07/09 15:29 #

[ athugasemd færð á spjall - ritstjórn ]


Þundur Freyr - 28/07/09 21:52 #

  1. að spá fyrir um skjálfta á íslandi er fuking lame eins og að spá fyrir um tornado í mið-vestur ríkjunum. við fáum skjálfta á hverjum degi.

  2. Einar: þú ert álíka efasemda maður og ég er ofstækis íslamisti. sem sagt ekki. það má vel vera að þú sért trúleysingi í dag en ég spái því (og ég er ekki skygn btw) að þú verðir frelsaður kristlingur eftir 2 ár.

  3. ef eihhver hefur náðargáfur sem munu bylta heimsmynd okkar þá sárbæni ég ykkur um að fara til http://www.randi.org/site/index.php/1m-challenge/challenge-application.html

takið þessa millíon dollara og gefið þá til líknarmála og gerbyltið heimsmynd okkar til hins betra.

ég er að biðja ykkur um þetta frá mínum dýpstu sálarrótum. Ég vil sjá þetta. Ég vil að það sé til eitthvað annað.

Plís. Ef ekki, haldið þið þá kjafti!


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 29/07/09 01:19 #

Ég var mjög hissa þegar ég sá þessari jarðskjálftaspá slegið upp á forsíðu Vikunnar, annars þess ágæta tímarits. Það er fullt af fólki sem varð hrætt og mér finnst alveg ástæðulaust að vera að hræða fólk svona. Síðan segja þeir sem vit hafa á jarðskálftum á Krísuvíkursvæðinu að það fari ekki styrkleiki þeirra yfir 6, þar sem bergið sé mjúkt.

Fólk ætti að muna það, spákonur og útgefendur blaða og tímarita og það er ekki langt síðan að það voru miklir jarðskjálftar hér og fólk er ennþá að jafna sig á þeim og mörg börn á svæðinu fyrir austan fjall eru ennþá með merki áfallaröskunar svo og margir fullorðnir.

Þessi spákona ætti að taka sig saman í andlitinu og aðeins slá á grobbið í sér, þegar hún kemur fram með eitthvað sem hefur birst henni í sýnum sem algjöran sannleika. Hún greinilega þekkir lítið til dulrænna málefna og kann ekki að skilgreina ímyndanir frá hugsanlegum upplifunum af einhverju.

Sjálf hef ég oft fengið svokallaðar "sýnir" en mig hefur aldrei dottið til hugar að fara með þær í blöðin vitandi það hversu hverfular þær eru og óáreiðanlegar. Síðan kæri ég mig bara ekkert um svona sýnir og hef gert ýmislegt til að losna við þær sem hefur tekist ágætlega.

Það er fjöldinn allur af íslendingum sem telur sig berdreymna sem dæmi og að þeir dreymi fyrir óorðnum hlutum. Þetta fólk er ekkert að rjúka með það í blöðin ef þeim finnst daumarnir boða náttúruhamfarir sem hafa loðað við okkur hér síðan sögur hófust.

Það er alltaf von á jarðskjálftum á Íslandi og það skelfur eitthvað hér allt árið. Svo koma stundum stórir á milli, þannig er nú bara það :-)


Kási - 29/07/09 13:17 #

Óvenju rólegt á landinu, skjálfti innan við 1 á Richter nálægt Grindavík sýnist mér... dugir það? :)

http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/07/09 19:39 #

Konan vinnur ekki sem miðill og tekur ekki fé af auðtrúa fólki fyrir "þjónustu" og hefur þannig séð engu að tapa þar.

Eins og kemur fram í útvarpsþættinum Harmageddon, sem nú hefur birtst upptaka af hér á Vantrú, þá er þessi kona auglýst í símaskránni sem Lára Ólafsdóttir sjáandi. Hvað ætli hún sé búin að hafa marga tugi þúsunda króna upp úr þessari aukabúgrein sinni?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.