Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Staðfestingartilhneigingin

“Það er eilífur og furðulegur annmarki á mannlegum skilningi hvað við heillumst miklu meira af staðfestingum en höfnunum.” –-Francis Bacon

Staðfestingartilhneigingin vísar til einnar tegundar valkvæmrar hugsunar þegar fólk tekur eftir og leitar að því sem staðfestir skoðanir þess en hunsar, leitar ekki eftir, eða gerir lítið úr mikilvægi þess sem hrekur sömu skoðanir. Til dæmis, ef þú trúir því að á fullu tungli aukist álag á neyðarmóttökunni þar sem þú starfar, muntu taka eftir innlagningum á fullu tungli, en ert líklega áhugalaus um stöðu tunglsins þegar fjöldi innlagnina er mikill aðrar nætur mánaðarins. Tilhneiging til að gera þetta yfir lengri tíma styrkir óréttlætanlega trú þína á tengslin milli fulls tungls og aukinni tíðni slysa og annarra þessháttar atburða.

Þessi tilhneiging, til að gefa gögnum sem styðja skoðanir okkar meiri gaum og vægi heldur en gögnum sem hrekja þær, er sérstaklega hættuleg þegar skoðun okkar er ekkert annað en fordómar. Ef skoðun okkur byggir á traustum gögnum og gildum tilraunum ætti tilhneigingin til að gefa gögnum sem passa við kenninguna ekki alltaf að leiða okkur af réttri braut. Ef við hunsum gögn sem sannarlega hrekja kenninguna höfum við farið frá skynsemi til þröngsýni.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að fólk gefur staðfestandi gögnum almennt óhóflega mikið vægi. “Líklegasta ástæðan fyrir óhóflegum áhrifum staðfestandi gagna er að það er auðveldara að höndla þau skilvitlega” (Gilovich 1993). Það er mun auðveldara að sjá hvernig gögn styðja kenningu en að sjá út hvernig þau gætu hrakið hana. Tökum dæmigerða rannsókn á hugsanaflutningi [ESP] sem dæmi eða draumsýnum [clairvoyant dream]: Árangur er oft ótvíræður eða hægt er að hliðra gögnum svo þau teljist sem styðja kenninguna, meðan neikvæð tilvik krefjast vitsmunalegrar fyrirhafnar bara svo hægt sé að sjá að þau eru neikvæð eða mikilvæg. Sýnt hefur verið fram á að tilhneigingin til að gefa meira vægi og athygli til jákvæðra og staðfestandi atriða hefur áhrif á minnið. Þegar við gröfum upp minningar er líklegra að við rifjum upp atriði sem styðja kenninguna (ibid.)

Fræðimenn gerast stundum sekir um staðfestingartilhneigingu með því að setja tilraunir upp eða velja gögn á þann hátt sem mun staðfesta kenningu þeirra. Í ofanálag auka þeir vandann með því að vinna þannig að þeir þurfi ekki að fást við gögn sem gætu stangast á við kenningu þeirra. Dularsálfræðingar eru t.d. alkunnir fyrir að nota valkvæma byrjun og endi í ESP rannsóknum sínum. Fræðimenn gætu forðast eða minnkað staðfestingartilhneigingu með því að vinna saman á tilraunastiginu með kollegum sem halda fram andstæðum kenningum. Einstaklingar þurfa sífellt að minna sig á þessa tilhneigingu og leita eftir gögnum sem eru í andstöðu við trú þeirra. Þar sem þetta er ónáttúrulegt, virðist venjulegt fólk vera dæmt til þessarar staðfestingartilhneigingar.

Skepdic - confirmation bias

Matthías Ásgeirsson 14.05.2004
Flokkað undir: ( Efahyggjuorðabókin )

Viðbrögð


Sigurður Ólafsson - 17/05/04 11:28 #

Kannast vel við þetta. Á námsárum mínum starfaði ég sem sumarafleysingamaður í lögreglunni. Höfðu menn þar á orði að erfiðustu vaktirnar væru þegar tungl væri fullt. "Fólk hreinlega brjálast þegar tunglið er fullt", sögðu gamlir jaxlar við okkur nýju mennina. Og viti menn, á næsta fullu tungli var ég á vakt og allt varð hreinlega vitlaust í bænum! Ég fór að trúa þessu og styrktist í þeirri trú í hvert skipti þegar þetta gerðist (og leiddi algerlega hjá mér þau skipti þegar ekkert gerðist og allt var með rólegasta móti!). Þessi trú á krafta hins mikla mána virðist enn vera nokkuð lífseig innan lögreglunnar, man ekki betur en að Geir Jón Þórissson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík hafi minnst á þetta í viðtali nýlega. Grunsemdir um að "trú" mín væri ekki á rökum reist fóru að vakna með mér með tíð og tíma og fékk leyfi varðstjóra til að gera könnun á þessu. Fór yfir dagbækur lögreglunnar á ákv. tímabili og bar saman fjölda útkalla við gang tunglsins. Viðurkenni að ekki var um vísindalega rannsókn að ræað en ég gat ekki fundið neitt samhengi á milli fjölda útkalla og þess að tungl væri fullt. Já, valkvæm hugsun getur leitt bestu menn í ógöngur!


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 17/05/04 11:43 #

Frábært framtak hjá þér að skoða þetta mál betur á sínum tíma, jafnvel þó ekki hafi verið um vísindalega rannsókn að ræða. Oft er nóg að gera óformlega athugun til að afsanna þær mýtur sem flestir trúa, því yfirleitt er ekkert sem rökstyður þær annað en almannarómur.

Málið með valkvæma hugsun er að maður þarf sífellt að vera vakandi fyrir því að falla ekki í þessar gildrur. Veit að ég hef sjálfur oft gerst sekur um það, dregið kolrangar ályktanir, en vona að ég fatti það oftast sjálfur að lokum.


Helgi Briem - 18/05/04 11:20 #

Þetta með fulla tunglið hefur margoft verið athugað erlendis og alltaf afsannað.


nóri - 15/07/04 21:55 #

Dagurinn sem þú reynir að finna Guð í gögnum og tölfræðiniðurstöðum einum saman er dagurinn sem þú týnir Guði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.