Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jólabókstafstrú blómstrar innan Þjóðkirkjunnar

Fæðing Jesú er svona ævintýraleg

Á aðfangadag sagði Agnes M. Sigurðardóttir eftirfarandi í ræðu sem var send út í ríkissjónvarpinu:

Margar sögur Biblíunnar eru myndrænar á meðan aðrar frásögur eru það ekki. Frásögur guðspjallamannanna tveggja af fæðingu Jesú eru ólíkar. Lúkas segir frá atburðinum sjálfum, fæðingu barnsins hennar Maríu, Jóhannes segir frá því hvað sá atburður merkir og hvað Guð meinar með honum.

Ég held það sé eðlileg túlkun á þessum orðum að Agnes telji frásögn Lúkasar ekki myndræna heldur segi hann frá “atburðinum sjálfum". Er ekki eðlileg túlkun að Agnes sé að segja að Lúkas segi frá raunverulegum atburðum?

Hún væri ekki fyrsti biskupinn til þess að aðhyllast “bókstafstrú" þegar það kemur að ævintýralegu frásögunum af fæðingu Jesú. Karl Sigurbjörnsson reyndi að verja sagnfræðilegan áreiðanleika þessara helgisagna, en sá málflutningur hans var hrakinn hér á Vantrú.

Biskupar eru ekki þeir einu innan kirkjunnar sem eru haldnir svona “jólabókstafstrú". Til dæmis birtist viðtal í Morgunblaðinu við prestinn Gunnar Jóhannesson sama dag og Agnes flutti sína ræðu. Þar var hann spurður hvort hann væri “sannfærður um að fæðing barnsins hafi borið til með þeim hætti sem sagan lýsir”:

Já, það er stóra spurningin. Hvað gerðist í raun og veru? Frásagnir guðspjallanna af fæðingu Jesú og öllu í kringum hana eru heillandi á svo margvíslegan hátt. Sem kristinn maður efast ég ekki um að fæðingu Jesú bar að með þeim hætti sem guðspjöllin greina frá. Sjónarhornið breytist frá einu guðspjalli til annars og áhersluatriðin líka. En kjarninn í hinni sögulegu frásögn er í öllum höfuðdráttum býsna skýr, allt frá hinum yfirnáttúrulega getnaði, til ferðalagsins til Betlehem og fæðingarinnar sjálfrar í fjárhúsinu. En ég vanmet það samt ekki að frásögn guðspjallanna er ekki eingöngu sagnfræði. Hún er ekki minna en það, en hún er líka stærri og meira en svo. En allt sem kemur fyrir í jólaguðspjallinu bendir í sömu átt og áréttar það sama. [Feitletrun bætt við]

Afleiðing jólabókstafstrúar

Þegar bent er á að fæðingarfrásagnirnar séu helgisögur, og að þetta hafi alls ekki gerst í raun og veru, þá svara sumir prestar oft þeirri gagnrýni á þá leið að einungis bókstafstrúarfólk haldi það og að trúleysinginn sem bendi á þetta hljóti að vera bókstafstrúarmaður líka.

Það væri gaman að heyra hvort þessir prestar séu tilbúnir að fallast á að báðir biskuparnir, Agnes og Karl, ásamt einhverjum prestum, aðhyllist bókstafstrú.

Eina réttlætingin fyrir kirkjuheimsóknum leik- og grunnskólabarna um jól er að þetta séu fræðsluheimsóknir, þarna fái börnin til dæmis að læra frásagnirnar af fæðingu Jesú. En er fólk sem trúir frásögunum af fæðingu Jesú bókstaflega ekki það sem allra síst ætti að kenna þær? Þjóðkirkjunni er ekki treystandi til að sjá um faglega kennslu um helgisagnir kristinna sérstaklega ekki þegar bókstafstrú blómstrar innan hennar.

Hjalti Rúnar Ómarsson 08.01.2019
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.