Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Spádómur eða kristileg þýðing?

Málverk af krossfestingu Jesú

Þrátt fyrir að því sé stundum haldið fram að íslenskar biblíuþýðingar séu fræðilegar, er raunin að stundum er merking frumtextans bjöguð til að textinn gagnist kristni og kirkju. Fyrir rúmri öld var til dæmis “Heiðna biblían" afturkölluð af því að þýðandinn hafði á nokkrum stöðum þýtt rétt, en þvert á kristna hefð.

Þýðingin frá 2007 gerði suma texta meðfærilegri fyrir kristna menn. Söngur englanna við fæðingu Jesú. Eitt vers sem hefur alla tíð verið þýtt mjög kristilega er 17. vers 22. Davíðssálms.

Spádómur um krossfestinguna?

Söngtextinn í 22. sálminum er um mann sem er umkringdur óvinum sem vonar að guðinn Jahve muni bjarga honum.

Í frumkristni var sálmurinn talinn spádómur um krossfestingu Jesú[1]. Höfundar guðspjallanna sóttu líklega ýmislegt í frásögum sínum af krossfestingunni í þennan sálm. Til dæmis eru orð Jesú á krossinum “Guð minn, guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?” upphafsorð sálmsins. Ýmis smáatriði eins og að óvinirnir hrista höfuðin sín (Sálm 22.8, Matt 27.39) og kasta hlut um fötin hans (Sálm 22.19, Matt 27.35) eru bæði í sálminum og í frásögnunum af krossfestingu Jesú.

Enn í dag vitnar kristið fólk í þennan sálm, og þá sérstaklega 17. versið sem spádóm um krossfestingu Jesú. Allar íslenskar þýðingar hafa þýtt þetta vers einhvern veginn svona:

Hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur. (Sálm. 22.17, Biblían 2007)

Vandamálið er að þetta er afskaplega vafasöm þýðing.

Texta- og þýðingarvandamál

Í 15. aldar Lissabonbiblíunni stendur til dæmis klárlega כארי "eins og ljón"

Til að byrja með er frumtextinn í rugli. Í hebreska textanum sem er vanalega notaður er orðið sem er þýtt “þeir hafa gegnumstungið" hérna כארי, sem þýðir bókstaflega “eins og ljón". Setningin er því bókstaflega “Eins og ljón hendur mínar og fætur mínir". Sem virðist vera rugl.

Fræðimenn vita af þessu og eru með ýmsar ágiskanir um hvað stóð þarna upphaflega. í Journal of Biblical Literature, einu helsta tímariti innan biblíufræða, eru til dæms þó nokkrar nýlegar greinar með ágiskunum um hvað hafi staðið upphaflega eða þá hvort “eins og ljón" gæti kannski verið rétt [2]. Inn í þetta spila þýðingar frá upprunalegu hebreskunni yfir í önnur mál, eins og latínu og grísku.

Ein ágiskunin er til dæmis að textinn hafi verið אסרו: "Þeir hafa bundið hendur mínar og fætur" (og þá er bent á að í sumum grískum þýðingum sé þetta þýtt sem “þeir hafa bundið).

Til þess að þýða textann sem “þeir hafa gegnumstungið" þá verður að breyta orðinu כארי á tvennan hátt:

Í Dauðahafshandritinu 5/6 Hev ps virðist standa ו en ekki י, en það er frekar óljóst.

  1. taka burt einn staf: א
  2. breyta einum staf: י þarf að vera ו.

Síðari breytingin á hugsanlega stuðning í einu Dauðahafshandriti, en það er erfitt að greina þarna á milli, enda eru stafirnir י og ו líkir (og því skiljanlegt að skrifari hafi ruglað þeim saman).

En eftir þessar tvær breytingar, þá fáum við orðið: כרו

Næsta vandamálið er að כרו þýðir “þeir hafa grafið" [3]. Til þess að komast að hinni kristnu þýðingu þarf því að ímynda sér að þessi sögn þýði ekki “að grafa" heldur “að stinga í gegnum".

Það er því afskaplega vafasamt að þýða textann í sálmi 22:17 sem “Þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur".

Þýðingavandamál

Biblíuþýðingar gyðinga halda sig oft við frumtextann sjálfan og hafa “Hendur mínar og fætur, eins og ljón".

Lausnin sem er stungið upp á í "The Old Guess"[2], אסרו: "þeir hafa bundið". Ýtið á myndina til að sjá stærri upplausn.

Hvers vegna hafa íslenskar biblíuþýðingar aldrei gert það? Hvers vegna sjáum við ekki hinar ágiskanirnar í íslenskum biblíuþýðingum (eins og t.d. “Þeir hafa bundið hendur mínar og fætur")?

Hvers vegna er ekki einu sinni neðanmálsgrein sem útskýrir að hér sé hvikað frá frumtextanum? Eitthvað eins og “orðrétt: eins og ljón" og svo kannski líka “réttari þýðing: þeir hafa grafið"?

Ástæðan er frekar augljós. Það er kristin hefð að þýða þetta svona og íslenskar biblíuþýðingar eru ekki fræðilegar, þær eru kirkjuþýðingar.

Það væri óskandi að hafa almennilega biblíuþýðingu á íslensku.


[1] Einn elsti kristni kirkjufaðirinn, Jústínús píslarvottur vitnaði sérstaklega í þetta vers sem spádóm í einu trúvarnarritinu Samræðan við Trýfon, kafla XCVII. Kaflinn er meira að segja titlaður “Predictions of Christ in Ps. XXII" í ensku þýðingunni: “Psalm thus refers to the suffering and to the cross in a parable of mystery: ‘They pierced my hands and my feet; they counted all my bones. They considered and gazed on me; they parted my garments among themselves, and cast lots upon my vesture.’ For when they crucified Him, driving in the nails, they pierced His hands and feet; and those who crucified Him parted His garments among themselves, each casting lots for what he chose to have, and receiving according to the decision of the lot.”

[2] Greinarnar í JBL: Psalm 22:17B: "The Old Guess", Psalm 22:17b: A New Guess, Psalm 22:17b: Second Guessing "The Old Guess", Psalm 22:17b: More Guessing , Psalm 22:17: Circling around the Problem Again

[3]Í sumum orðabækum er þó stundum merkingin “gegnumstinga" gefin, og þá bara vísað í Sálm 22.17, en þá er bætt við að þetta sé vafasamt (t.d. “dubious" og “perhaps"), enda væri þetta þá eini staðurinn þar sem þetta orð hefur þessa merkingu.

Hjalti Rúnar Ómarsson 23.05.2018
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?