Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Friður meðal hinna útvöldu

Það var vitað fyrir löngu síðan að í nýju biblíuþýðingunni, hinni svokölluðu Grænsápubiblíu, myndi ýmislegt óþægilegt vera „lagað“. Fyrir nokkrum árum var því spáð að vers sem lesið er í kirkjum landsins á aðfangadag myndi verða eitt þeirra. Sú spá rættist.

Á aðfangadag er venjan að lesa frásögnina af fæðingu Jesú í Lúkasarguðspjalli. Í þeirri helgisögn birtist „fjöldi himneskra hersveita“(Lk 2.13) sem lofa guð. Í gömlu þýðingunni frá 1981 sögðu þær:

Dýrð sé Guði í upphæðum,
og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ (Lk 2.14)

Í Grænsápubiblíunni segja þær hins vegar:

Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu
og velþóknun Guðs yfir mönnum. (Lk 2.14)

Munurinn á þessum þýðingum er sá að í Grænsápubiblíunni er friður sagður verða almennt á jörðinni og velþóknun Guðs almennt yfir mönnum. Í gömlu er friði hins vegar einungis óskað handa þeim mönnum sem guð hefur velþóknun á. Nýja þýðingin hentar Þjóðkirkjunni augljóslega betur, enda er ekki fallegt að friði sé eingöngu óskað þeim sem guði líkar við. En hvor þýðingin er betri?

Í rauninni munar ekki nema einu s-i á þessum þýðingum.

Í sumum handritum er „velþóknun“ í nefnifalli (endar ekki á s-i), sá texti var notaður í nýju þýðingunni. Í öðrum handritum er „velþóknun“ í eignarfalli“ (endar á s-i), sá texti var notaður í eldri þýðingunni.

Í elstu og áreiðanlegustu handritunum er „velþóknun“ í eignarfalli. Einnig er eignarfallið erfiðari lesháttur (lectio difficilior) og þar af leiðandi líklegra að skrifarar myndu eyða s-inu heldur en að þeir myndu bæta því við. S-ið var líka mjög litið í endanum á línu (leit svona út: c) og því hefði þreyttum skrifara auðveldlega getað yfirsést það.

Allar þær fræðibækur sem ég fann eru sammála því að síðari rithátturinn, sem var notaður í eldri þýðingunni, sé sá upprunalegi. Einn meðlimur þýðingarnefndar Grænsápubiblíunnar, Einar Sigurbjörnsson, hefur sagt að þetta sé réttur ritháttur:

Gríski frumtextinn er samkvæmt áreiðanlegustu handritum: kai epi ges eirene en anþrópois eudokías., sem orðrétt þýðir „og friður á jörðu með mönnum velþóknunar.“ Að mati sérfræðinga merkir orðið eudokía í þessu samhengi velþóknun Guðs gagnvart mönnum. Orðið er í eignarfalli (eudokías) og vísar til Guðs sem geranda. Það er Guð sem sýnir mönnum velþóknun.“ - Svar á Vísindavefnum

Í ljósi alls þessa hlýtur maður að velta því fyrir sér hvers vegna verri textinn var notaður í nýju þýðingunni. Að mínu mati er annað hvort um vanhæfni þeirra sem stóðu að þýðingunni að ræða eða þá að lélegri rithátturinn var viljandi valinn vegna þess að hann hentar betur þeim sem stóðu að útgáfu Grænsápubiblíunnar.

Ari fróði sagði að maður ætti að hafa það er sannara reynist, Hið íslenska biblíufélag með Karl Sigurbjörnsson í forsæti virðist hafa það er hentugra reynist.


Heimildir:

Raymond Edward Brown, The birth of the Messiah : a commentary on the infancy narratives in Matthew and Luke, New York : Doubleday, 1979, bls 403-405
Bruce Manning Metzger, A textual commentary on the Greek New Testament : a companion volume to the United Bible Societies' Greek New Testament, London - New York , United Bible Societies, 1971 bls 133
I. Howard Marshall, New International Greek Testament Commentary: Commentary on Luke, Grand Rapids, Michigan, William B. Eerdmans Publishing company 1983, bls 111-112
Joseph A. Fitzmyer, The Anchor Bible; The Gospel according to Luke : introduction, translation, and notes, Garden City, NY : Doubleday, 1981-1985, bls 410-412
Luke Timothy Johnson, Sacra Pagina:The Gospel of Luke, Collegeville, Minn. : Liturgical Press, 1991, bls 51.
J. Reiling og J. L. Swellengrebel, A translator’s handbook on the Gospel of Luke, Leiden : E. J. Brill, 1971, bls 116-118
Gerhard Kittel, Theological dictionary of the New Testament, Grand Rapids, Eerdmans, 1973-1976, eudokias
John Nolland, Word Biblical Commentary Vol. 35a, Luke 1:1-9:20, Dallas, Word Books, 1989,

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.12.2007
Flokkað undir: ( Jólin , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birta - 27/12/07 09:29 #

Frábær og fróðleg grein!


Geir Þórarinsson - 27/12/07 15:58 #

Sælir vantrúarmenn!

Án þess að ég ætli að fara að verja einhverja þýðingu (enda ekki þess umkominn) vildi ég benda á tvo túlkunarmöguleika í viðbót, sem ganga báðir út frá því að eignarfallið sé rétt. Notkun eignarfalls í grísku er nefnilega töluvert ríkari og fjölbreytilegri en í íslensku.

Þegar Einar Sigurbjörnsson segir að velþóknunin vísi til guðs sem geranda les hann væntanlega eignarfallið sem andlagseignarfall. Samkvæmt þeirri túlkun eru "menn velþóknunar" menn sem einhver hefur velþóknun á. Ef gengið er út frá því að eignarfallið sé þannig andlagseignarfall, þá liggur beint við í þessu samhengi að gera ráð fyrir að guð sé sá sem hefur velþóknunina á mönnunum (þótt það komi auðvitað ekki fram í textanum).

Það eru tveir aðrir möguleikar. Annars vegar gæti eignarfallið verið frumlagseignarfall. Þá væru "menn velþóknunar" menn sem hafa velþóknun. Á hverju hafa þeir velþóknun? Tja, það kemur ekki fram í textanum, kannski á guði, kannski hver á öðrum, kannski á friði og kærleika eða einhverju allt öðru. Setningafræðilega séð er þetta ekki ósennilegri eða erfiðari túlkun en andlagseignarfallstúlkunin.

Í grísku er einnig til orsakareignarfall. Ef eignarfallið er túlkað þannig, þá segir textinn "og friður á jörðu meðal manna vegna velþóknunar". En hvaða velþóknunar og á hverju? Kemur ekki fram í textanum, en kannski er það velþóknun guðs á þeim, eða þeirra á guði etc. Þessi túlkun er kannski aðeins erfiðari af því að það er ekki tilfinningasögn á undan en samt ekki útilokuð (höfundar nýja testamentisins voru stundum illa að sér í grískri setningafræði).

Ég er alls enginn nýjatestamentisfræðingur og veit ekki nema guðfræðingarnir útiloki fyrirfram sumar túlkanir vegna einhverrar kreddu. En gísku setninguna er a.m.k. mögulegt að lesa á þrenna vegu ef eignarfallið er rétt.


Árni Árnason - 27/12/07 16:39 #

Setningafræðilega séð er þetta spurning um hvort guð hefur velþóknun á andlagseignarfalli, eða hvort frumlagseignarfall andlagsins gefur tilefni til túlkunar frumlags út frá andlagseignarfallstúlkun orsakareignarfallsins. Á hinn bóginn gæti virst að of margir fræðimenn hafi eytt of miklum tíma og púðri í að liggja yfir gamalli skáldsögu sem búið er að margþýða fram og til baka, hefur þolað umritun viðbætur og niðurskurð misviturra manna í gegnum tvær aldir og sem var hvort eð er bara bull til að byrja með. Hver borgar þessum mönnum kaup eiginlega ?


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 27/12/07 16:45 #

Þetta eru góðar athugasemdir hjá þér, Geir. En það er annað sem bendir til þess að Hjalti hafi rétt fyrir sér með sína túlkun og það er það að „ανθρωποι ευδοκιας“ er hebreskt málfæri og merkir „menn sem Guð hefur velþóknun á“. (A.m.k. samkvæmt mínum heimildum, ég er náttúrulega enginn Nýjatestamentisfræðingur heldur. Kannski veizt þú betur en ég.)


Teitur Atlason - 27/12/07 16:47 #

Árni! Hvernig dirfistu að halda svona málflutningi fram? Þetta eru hvorki meira né minna en boðskapur sjálfs Guðs! Guði finnst þetta og það skal sannarlega ekki vera í neinni óvissu hvað Guð sjálfur átti við! Eitt "e-ss" til eða frá getur alveg skipt sköpum.

Af öllum þeim ótrúlega fjölda bóka sem hafa verið skrifaðar á jörðinni eru nokkrar sem skera sig frá á eftirminnilegan hátt. þær eru á annað hundruð og eru skrifaðar af yfirnátturulegum verum sem margar hverjar gera tilkall til þess að hafa skapað allt sem er til. Biblían er ein þessara bóka og það skal sko ekki vera neitt sleifarlag á þýðingu þessa rits sem hvorki meira né minna er skrifað af Herra vorum Guði sjálfum almáttugum.


Árni Árnason - 27/12/07 17:18 #

Þetta hefur aldrei snúist um hvað Guð sagði. Þetta hefur alla tíð snúist um það sem Guð vildi sagt hafa, að mati þeirra sem næst honum standa og best til þekkja, að eigin mati. Það hefur sem sé komið á daginn að Guð er ævinlega að mismæla sig, og þá verða góðir menn að hlaupa undir bagga og leiðrétta hann sem best þeir geta, svo að Hann hljómi ekki hjárænulega. Er ekki sagt að allir eigi leiðréttingu orða sinna ?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/12/07 20:00 #

Kaþólska kirkjan túlkaði þetta einmitt sem "menn sem hafa velþóknun". Menn grunuðu að þetta byggðist á hebreskri fyrirmynd og síðan fundust Dauðahafshandritunum nokkur svona dæmi þar sem merkingin var klárlega "menn sem guð hefur velþóknun á". Nú hef ég ekki lært íslensku nöfnin á hebreskri málfræði, en þar er sambærilega orðið við "eudokia" með "eignarviðskeyti", t.d. "velþóknun-hans" (eða "-þíns", þegar guð er ávarpaður).

Það eru víst líka fleiri rök fyrir því að túlka þetta svona, t.d. að í Lk 10:21 vísar eudokia klárlega til velþóknunar guðs og síðan bendir notkun eudokia í LXX til þess að þetta sé rétt þýðing.


Geir Þórarinsson - 27/12/07 21:39 #

Árni Árnason:

Ég vona að þú haldir ekki að ég sé einn "þeirra sem næst honum standa og best til þekkja, að eigin mati". Það má svo sem koma fram að ég er sjálfur trúlaus og hef enga löngun til að koma guði til bjargar með því að leiðrétta einhvern veginn orð hans. En setningin eins og hún stendur á grísku getur einfaldlega þýtt þrennt; það þarf að velja milli þriggja túlkana þegar hún er þýdd og það val hefur ekkert með neinar "leiðréttingar" á "mismælum" í textanum að gera.

Það er svo ágætur punktur að orðalagið getur hugsanlega endurspeglað hebreskt orðalag. Um hebresku veit ég ekkert. Að því er ég best veit var guðspjallið samið á grísku af manni sem átti sér hana sennilega ekki að móðurmáli en hvort hann var hebreskur veit ég ekki (flestir halda að hann hafi verið sýrlenskur eða jafnvel grískur).


Anna Benkovic M. - 27/12/07 22:45 #

Takk fyrir...fyrir mér blasir við að þessi "heilaga" bók (hvað sem það þýðir) er mikið pólitískt vopn og það á við nútímann ekki síður en fortíðina.


Vigfús Pálsson - 29/12/07 01:32 #

Ósköp eru vantrúarmenn viðkvæmir, lesandi gömlu og nýju þýðingu biblíunnar líkt og örgustu bókstafstrúarmenn. Ekki má hrófla við texta án óvæginnar gagnrýni. Seint ætla vantrúarmenn að skilja að það er innihald boðskapsins sem við lifum eftir, meðal annars umburðarlyndi og fyrirgefning sem eru meðal hornsteina kristinnar trúar.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 29/12/07 02:38 #

Ágæti Vigfús. Grein Hjalta fjallar einmitt um kjarna málsins eða innihald boðskaparins eins og þú kýst að kalla það.

Tilefni greinarinnar er að Óli Gneisti skrifar fyrir 3 árum grein þar sem hann spáir því að tiltekið ritningavers verði "sótthreinsað". Það hefur komið á daginn og í nýju Grænsápubiblíunni.

Mér finnst það reyndar ekkert skrýtið að gerðar séu athugasendir við orðalag í þessu trúarriti. Það var jú guð sem skrifaði téða bók. Sleifarlag við þýðingu, eða vísvitandi misfærslur eins og dæmi eru um, gera nú trauðla talist til vandaðrar þýðingavinnu. Ég myndi a.m.k verða all-fúll ef riti eftir mig væri breytt þvers og kruss. -Spurning hvað höfundurinn taki til bragðs? Hann gæti bara blásið þýðendunum í bróst nokkur vel valin orð og málið væri leyst?

Það hefur verið svolítið fyndð að fylgjast með orðaskaki Vantrúarfólks og Carlosar Ferrer í tengslum við þessa þýðingu. Ekki hefur verið unnt að toga það upp úr honum hvort það sé synd þegar fráskylt fólk giftir. En þessu heldur Jesús fram í Nt eins og flestir vita.

Kostulegar orðalengingar og fámunalegir fimleikar sem reyna á þanþol orðanna eru settir í gang og vart má á milli sjá hvort versið beri að túlka allegórískt ellegar fýskískt. Tæknin hefur reyndar verið sú að þyrla upp nógu fjandi miklu ryki í þeirri von um að tilefni þrætanna týnist.

Auðvitað skiptir það máli hvort það sé synd þegar fráskyld kona giftir sig aftur. Þetta er hvorki meira né minna er spurning um kennivald biblíunnar. Er það nokkuð yfir höfuð? -og ef svo er, hvaða tæki á að beita til þess að skera úr um hvaða vers séu ónothæf og hver eru brúkleg. Er þetta kannski bara mannleg skynsemi sem prestarnir beita til þegar kennivald er kannað?

Ef það er mannleg skynsemi, þá ættu þeir bara að viðurkennna það að kennivald biblíunnar er ekkert og skynsemi alltaf notuð sem túlkunarlykill. Þetta hafa þeir af einhverjum ástæðum aldrei gert enda kannski pínu sárt að viðurkenna að sagan um Nóaflóðið átti sér aldrei stað í veruleikanum og er bara goðsaga.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 29/12/07 04:02 #

Ósköp eru vantrúarmenn viðkvæmir, lesandi gömlu og nýju þýðingu biblíunnar líkt og örgustu bókstafstrúarmenn.

Vigfús, þú mátt endilega útskýra fyrir mér hvers vegna það flokkast sem bókstafstrú að vilja hafa bestu textana sem grundvöllinn fyrir þýðingum á biblíunni. Það er afar þreytandi þegar fólk notar "bókstafstrúarmenn" sem innihaldslaust uppnefni.

Ekki má hrófla við texta án óvæginnar gagnrýni.

Málið að hérna er verið að velja texta, sem hentar kirkjunni betur, en er augljóslega verri. Það má alveg hrófla við textanum, en svona óheiðarleg vinnubrögð eiga skilið "óvæga gagnrýni"

Seint ætla vantrúarmenn að skilja að það er innihald boðskapsins sem við lifum eftir, meðal annars umburðarlyndi og fyrirgefning sem eru meðal hornsteina kristinnar trúar.

Nú veit ég ekki hvernig þetta tengist greininni, en umburðarlyndi verður seint talið meðal hornsteina kristinnar trúar.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/12/07 09:48 #

Ósköp eru vantrúarmenn viðkvæmir, lesandi gömlu og nýju þýðingu biblíunnar líkt og örgustu bókstafstrúarmenn.

Ósköp eru þessir Þjóðkirkjumenn viðkvæmir, þýðandi og gefandi út Biblíuna aftur og aftur eins og örgustu bókstafstrúarmenn.

Hvaða tilgangi þjóna svona komment, Vigfús?


ArnarÞ - 27/12/09 17:37 #

"Seint ætla vantrúarmenn að skilja að það er innihald boðskapsins sem við lifum eftir, meðal annars umburðarlyndi og fyrirgefning sem eru meðal hornsteina kristinnar trúar."

umburðarlyndi (fuck no)

Jesús segjir að ekki eigi að gleyma gamla testimentinu(annars væri biblían líklega bara nýja testamentið) þannig að öll illskan úr því stendur enn, gríta homma, drepa framhjáhaldara, drepa/refsa óhlíðnum börnum og svo mætti lengi telja áfram.

http://www.evilbible.com/

Hef lestið biblíuna og sé ekki mikið umburðarlyndi í henni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.