Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Starfshópur til smölunar í ríkiskirkjuna

Mynd af Einari Karli og kerlingu

Þegar ríkiskirkjan reynir að réttlæta forréttindi sín er yfirleitt vísað í það hversu hátt hlutfall þjóðarinnar er skráð í hana. Það truflar ríkiskirkjusinna lítið að réttindi fólks eru almennt ekki ákveðin með tilliti til meiri- og minnihluta en það sem hefur truflað upp á síðkastið er umtalsverð og áberandi fækkun meðlima í kirkjunni. Fyrir um 15 árum voru í kringum 90% þjóðarinnar skráð í kirkjuna en við seinustu talningu var hlutfallið komið niður í 75%.

Þetta veldur ríkiskirkjunni auðvitað miklum áhyggjum. Ef fram fer sem horfir verða hin handónýtu meirihlutarök jafnvel ekki nóg til þess að réttlæta óréttlætið sem viðgengst. Ákveðið var á kirkjuþingi árið 2014 að bregðast við. Stofna átti starfshóp sem skila á tillögum um hvernig hægt er að fjölga meðlimum í kirkjunni á næsta kirkjuþingi. Skipað var í starfshópinn nú á dögunum og þau Jónína Sif Einarsdóttir, Margrét Gísladóttir og Einar Karl Haraldsson munu nú leggjast yfir leiðir til þess að lokka fólk í ríkiskirkjuna.

Það kemur sjálfsagt engum á óvart að almannatengillinn Einar Karl skuli hafa orðið fyrir valinu. Hann hefur lengi verið eins og grár köttur í kringum Biskupsstofu. Það sem er samt merkileg við valið á Einari Karli að viðhorf hans hafa í gegnum tíðina verið ansi samhljóma þeim sem líklega eiga stóran þátt í fækkun meðlima í kirkjunni. Þar má t.d. nefna viðhorf hans til réttinda samkynhneigðra:

Hjónabandið snertir kviku mannlífsins. Hlutur karls og konu í hjónabandi er stór þáttur í sjálfsmynd hvors um sig, kynferðið hefur oftast mikla þýðingu, orðin móðir og faðir sömuleiðis og það sem þau standa fyrir. Sú tilraun sem gerð er í frumvarpinu til þess að afhlaða þessi orð í þeim tilgangi að rétta hlut minnihlutahóps verður um leið tilraun til þess að tæma þau að merkingu. Móðir er ekkert sérstakt, faðir ekki heldur og hjónaband aðeins samkomulag einstaklinga sem rugla saman reytunum óháð kyni. [#]

Samkvæmt Einari Karli og konu hans var hjónaband þeirra á einhvern hátt gildisrýrt við það að fólk sem verður ástfangið af einstaklingi af sama kyni getur nú gengið í hjónaband. Og nú á Einar Karl að reyna að fjölga meðlimum í ríkiskirkjunni. Það er ekkert skrýtið að fólki finnist ríkiskirkjan vera tímaskekkja í nútímanum.

Egill Óskarsson 31.03.2015
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Ríkiskirkjan )