Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Móðir Teresa var engin Móðir Teresa

Mynd af Agnesi Gonxha Bojaxhiu

Móðir Teresa þykir nokkuð óumdeild á meðal almennings sem táknmynd kærleiks og auðmýktar. Oft er vísað til hennar í daglegu tali þegar sagt er að einhver „hafi ekki verið nein Móðir Teresa.“ Hún þykir því tákna hæsta viðmið góðmennsku. Hún hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín en þar má helst nefna friðarverðlaun Nóbels árið 1979 fyrir störf sín í þágu fátækra á Indlandi.

Ögn um Agnesi

Agnes Gonxha Bojaxhiu - einnig þekkt sem Heilög Móðir Teresa, eftir að hafa verið tekin í dýrlingatölu Kaþólsku kirkjunnar - fæddist árið 1910 í Albaníu. Hún var 18 ára þegar að hún ákvað að hún skyldi gerast nunna og að tilgangur lífs hennar væri að starfa sem slík á Indlandi.

Árið 1928 fluttist hún til Indlands og sór lokaheit sín sem nunna. Hún stofnaði samtökin „Missionaries of Charity“ árið 1950 og upp úr þeim „Heimili hinna dauðvona (Home for the dying)“ sem voru orðin 517 talsins, í yfir 100 löndum, við andlát hennar.

Stofnunin sagðist annast þá hungruðu, veiku, heimilislausu og þá, sem vegna veikinda, þóttu utangarðs í fátækrahverfum Kalkútta, þar sem hún starfaði allt til dauðadags árið 1997.

Vafasamur heilagleiki

En ef skyggnst er í ævistörf hennar má hinsvegar sjá að Móðir Teresa var ekki öll sem hún var séð. Hjálparsamtök hennar „Kærleiksboðberarnir (Missionaries of Charity)“ byggðust í raun meira og minna á dauðabúðum þeirra veiku og afstaða hennar til siðferðismála var, í besta falli, vafasöm.

Fjármál samtaka hennar var haldið leyndu, en það sem hefur komið upp á yfirborðið bendir til gífurlegrar spillingar. Hún var peð kaþólsku kirkjunnar og notaði ímynd sína til að bæta ímynd spilltra valdhafa og fjárglæframanna og moka um leið fjármagni inn um dyr Vatíkansins.

Ef litið er til aðbúnaðar, stefnu og frásagna fyrrum systra í reglunni þá virðist sem að engin umönnun hafi átt sér stað en þvert á móti virtust alvarleg mannréttindabrot vera framin innan stofnunarinnar.

Dauðabúðirnar í Kalkútta

Fyrrum sjálfboðaliði Móður Teresu í Kalkútta sagði Heimili hinna dauðvona líkjast því sem sjá mátti á ljósmyndum frá útrýmingabúðum nasista. Engir stólar, aðeins sjúkrabeddar, engin heilbrigðisþjónusta, engin verkjalyf og ættingjar máttu ekki heimsækja.

Sjúklingar máttu aðeins liggja eða sitja, en fengu ekki að standa upp. Órjúfanleg trú Móður Teresu á lækningamátt Krists varð til þess að neitað var að færa sjúklinga á sjúkrahús og létust margir vegna auðlæknanlegra veikinda eins og botnlangabólgu.

Þessi vandamál sem fylgdu stofnunninni voru ekki vegna fjársveltis - enda höfðu samtökin nægt fjármagn til að koma á fót bestu og nútímalegustu sjúkrahús Indlands - heldur var þetta meðvituð stefna Móður Teresu. Hún taldi sársauka færa fólk nær Kristi og leyndi í raun aldrei þeirri skoðun sinni.

Móðir Teresa átti sjálf við hjartavandamál að stríða á seinni árum en notaði þá ekki eigin aðstöðu heldur leitaði hjálpar á dýrustu og bestu heilbrigðisstofnunum vestrænna ríkja.

Hún var opinber manneskja sem naut gífurlegrar virðingar í hinum vestræna heimi, en var á sama tíma nánast óþekkt nafn í Kalkútta. Hún laug og ýkti um hjálparstarf sitt , til að mynda minntist hún á barnaskóla sem hún hefði stofnað í Kalkútta þar sem 5000 börn hefðu aðgang að menntun. Enginn slíkur skóli var stofnaður af hennar frumkvæði.

Móðir Teresa beinlínis misnotaði þá ímynd góðmennsku og kærleika sem fólk hafði af henni til að fegra ímynd spilltra ráðamanna sem styrktu starf hennar opinberlega. Hvert fjármagnið fór var aldrei gert opinbert.

Dýrlingur meðal illmenna og skúrka

Sem dæmi má nefna heimsókn hennar árið 1981 til Duvalier fjölskyldunnar í Haíti. Hún blessaði fjölskylduna og sagði fjölmiðlum m.a. að þau elskuðu þá fátæku. Duvalier fjölskyldan samanstendur meðal annars af François Duvalier og Jean-Claude Duvalier en fyrir utan að lifa ríkulegum lífsstíl í einni fátækustu þjóðum heims þá eru þeir þekktir fyrir að vera meðal grimmustu einræðisherra sem uppi hafa verið.

Þeir bera ábyrgð á tugþúsund morða ríkisborgara Haíti, sem og ólöglegum viðskiptum með líkamsparta og fíkniefni. Fjölskyldan styrkti Móður Teresu um milljónir bandaríkjadala sem þau höfðu rænt af borgurum landsins með villimannslegum aðferðum. Báðir aðilar högnuðust á þessum viðskiptum, Duvalier fjölskyldan fegraði ímynd sína útá við og Vatíkanið græddi gífurlegt fjármagn sem meira og minna skiptist niður á leynilega bankareikninga þeirra.

Einnig þáði Móðir Teresa fjárstyrk að andvirði 1,25 milljón bandaríkjadollara frá fjárglæframanninum Charles Keating sem seinna meir sat af sér 10 ára fangelsisdóm fyrir fjársvik, þar sem hann hafði svikið út fjármagn af þúsundum viðskiptavina. Móðir Teresa fékk meðal annars aðgang að einkaþotu Keatings.

Hægt væri að halda því fram að brot Keatings hafi ekki verið opinber á þeim tíma sem Móðir Teresa þáði styrkina og því mætti ekki áfellast hana fyrir að hafa þegið þá í góðri trú. En eftir að Keating hafði fengið á sig ákæru sem samanstóð af 42 ákæruatriðum þá sendi Móðir Teresa dómara málsins bréf þar sem stóð „Gerðu það sem Jesús myndi gera “ („Do what Jesus would do“) og reyndi að fá hann sýknaðan á þeim forsendum að hann hafði styrkt ýmis góðgerðarmálefni í gegnum tíðina.

Hin ógeðslega arfleið Móður Teresu

Um það má deila hvort Móðir Teresa hafi verið vel meinandi peð kaþólsku kirkjunnar eða meðvitaður lygari og þjófur. Hún átti sér þó ástríðu sem er eitt af því fáu áþreifanlega sem hún hefur skilið eftir í starfi sínu, en það er andstaða hennar við fóstureyðingar og getnaðarvarnir. Í áðurnefndri þakkarræðu árið 1979 kom hún inn á málefni fóstureyðinga og sagði:

Fóstureyðing er versta tegundin af illsku, og helsti óvinur friðar...Því ef að móðir getur drepið sitt eigið barn, hvað mun aftra okkur frá því að drepa okkur sjálf og hvort annað? Ekkert.
(Abortion is the worst evil, and the greatest enemy of peace... Because if a mother can kill her own child, what will prevent us from killing ourselves or one another? Nothing.)

Í ræðu sem hún hélt á Írlandi árið 1992 sagði hún eftirfarandi:

„Við skulum lofa Maríu Mey, sem elskar Írland svo mikið, að við munum aldrei leyfa svo mikið sem eina fóstureyðingu í þessu landi. Og engar getnaðarvarnir.
(Let us promise our Lady who loves Ireland so much, that we will never allow this country a single abortion. And no contraceptives. 4 )

Hún blés baráttuanda í brjóst Írskra kaþólikka sem andvígir voru getnaðarvörnum og fóstureyðingum og enn þann dag í dag má sjá skelfilegar afleiðingar þessa hugsunarháttar.

Þann 5. september árið 1997 dó Móðir Teresa, 87 ára að aldri. Samkvæmt dagbókarskrifum Móður Teresu, sem voru gerðar opinberar af kaþólsku kirkjunni nokkrum árum eftir dauða hennar, má sjá að undir lokin hafði hún misst trú sína á almættið og var orðin trúlaus.

Hún lést sem eitt skýrasta dæmi þess hvað fjölmiðlar og valdamiklar stofnanir eru máttug í að búa til ímynd sem samræmist ekki staðreyndum.


Sjá nánar:


(CC) Mynd fengin af Wikimedia commons.

Ritstjórn 04.02.2015
Flokkað undir: ( Kaþólskan , Klassík , Siðferði og trú )

Viðbrögð


ásgeir - 04/02/15 22:02 #

Ha, ég er hissa? ...þessi kona var að vinna við efiðar aðstæður.... Það er engin furða fyrir mig að hún hegðaði sér eins og hún gerði, það hefði ég líka gert. Ég hef verið nokkuð á þessum svæðum...þú hefur líklega líka verið mikið á þessum svæðum?...hvernig brást þú við?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/02/15 14:01 #

Að láta fólk þjást og deyja (þrátt fyrir allan þann fjárstuðning og digra sjóði sem Agnes hafði yfir að ráða) telst bara eðlileg hegðun á svæðum einsog fátækrahverfum Kalkútta. Nei, Ásgeir, eitthvað stemmir ekki.


Jón - 08/02/15 01:03 #

Takk fyrir þessa grein. Ég var einmitt að lesa mig til um þetta fyrir ekki svo löngu. Fallegt að minnast á að hún hafi verið saklaust peð kaþólsku kirkjunar. Sem ég held að sé að einhverju leiti rétt.

Það afsakar samt ekki framkomu hennar í Kalkútta og þennan þráhyggjukennda áhuga hennar á þjáningunni. Hún lagði svo mikla áherslu á að fátæklingarnir kynntust þjáningunni því þá færði þá nær guði. Hún safnaði gríðalega miklum fjármunum sem hennar fólk í Kalkútta fékk aldrei að njóta.

Að berjast öturlega gegn getnaðarvörnum í Kalkútta er ansi sérstakt. Eitt enn, sprautur og sprautunálar var ekki þrifið nógu vel í Húsi hinna deyjandi, svo talið er að það hafi átt þátt í að breið út ADIS og álíka sjúkdóma. Ég vil trúa að hún hafi verið alslæm en ekki allskostar til fyrirmyndar heldur.


Jón - 08/02/15 01:11 #

Ég vildi segja að ég vil trúa að hún hafi ekki verið alslæm en ekki allskostar til fyrirmyndar heldur. Hún var engin dýrlingur greyið en hún var alltaf mjög krúttleg.


Jón Valur Jensson - 09/02/15 15:08 #

Þessi ófyrirleitna, grófa árásargrein veraldarhyggjumanns er með því ósvífnasta sem sézt hefur á vef þessa illa þokkaða félags, Vantrúar.

Að líkja líknarstöðvum Kærleikstrúboða Móður Teresu við útrýmingabúðir nazista afhjúpar einna helzt ykkar eigin spillta, öfugsnúna hugarfar; já, Vantrú sjálf verður að teljast ábyrg fyrir birtingu þessarar hneykslanlegu greinar!

Nú hefði verið gott að hafa hér Torfa Ólafsson heitinn til vitnis, formann Félags kaþólskra leikmanna, sem sjálfur hitti Móður Teresu og dáðist að verkum hennar rétt eins og hinn fyrrum vinstrisinnaði blaðamaður og rithöfundur Malcolm Muggeridge sem kynnti sér vel feril hennar og verk, heimsótti hana og systurnar í Kalkútta og lýsti upplifun sinni af hjálparstarfinu í bók um málið og í viðtölum við brezka fjölmiðla. (Nánar seinna.)

Sjálfur var T.Ól. fyrrverandi róttækur vinstri maður – eins og ég líka. En það er aldrei of seint að sjá ljósið, og þess óska ég ykkur helzt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 16:08 #

JVJ: Að líkja líknarstöðvum Kærleikstrúboða Móður Teresu við útrýmingabúðir nazista afhjúpar einna helzt ykkar eigin spillta, öfugsnúna hugarfar;

Svo það sé alveg á hreinu, þá er hér um að ræða tilvitnun með vísun.

Fyrrum sjálfboðaliði Móður Teresu í Kalkútta sagði Heimili hinna dauðvona líkjast því sem sjá mátti á ljósmyndum frá útrýmingabúðum nasista.

Og aðrar frásagnir styðja þessa lýsingu á Heimili hinna dauðvona.

JVJ: ..já, Vantrú sjálf verður að teljast ábyrg fyrir birtingu þessarar hneykslanlegu greinar!

Vantrú tekur að sjálfsögðu fulla ábyrgð á birtingu greinarinnar. Viltu ekki bara kæra okkur fyrir guðlast?

Torfi Ólafsson og Malcolm Muggeridge skipta engu máli, þú þarft að hrekja það sem hér hefur komið fram og til að hrekja það þarftu að vísa á heimildir sem styðja mál þitt. Annars eru þetta orðin tóm hjá þér.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 16:27 #

Fyrir þá sem ekki tengja þá er þetta Malcolm Muggeridge sem við eigum að taka mark á: Video


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 16:49 #

Sé ekki að það skipti einhverju máli að ákveðnar persónur hafi hitt Móðir Teresu. Enginn hélt því fram að hún hefði ekki verið til.


Jón Valur jensson - 09/02/15 17:18 #

Það er ykkur þremur (öllum í Vantrú) alls ekki til hróss, að þið verjið birtingu þessarar ósanngjörnustu og rætnustu greinar sem ég hef lesið árum saman.

Illkvittnin að baki greininni og hjá þeim, sem þar er vitnað til sem álitsgjafa (fremur en heimildarmanna), er augljós. Með sömu "sanngirni" hefði mátt lýsa sjúkraskýli Florence Nightingale í Krímstríðinu og síðar Henris Dunant, sem stofnaði Rauða krossinn, sem "dauðabúðum".

Vitaskuld eru margir deyjandi þar sem fórnarlömb stríðs koma saman, innan um þá sem fá þar góða lækningu. Vitaskuld eru margir deyjandi meðal þeirra fátækustu í Kalkútta og víðar, sem komnir eru á lokastig sjúkdóma sinna, en fá hinztu líknina hjá systrum Móður Teresu. En þar lifa líka margir af, ekki sízt börn sem sumir hafa borið út eða skilin eru eftir við neyðarathvörf Kærleikssystranna, enda lýsti Móðir Teresa því yfir, að þær tækju við öllum börnum. Er það í fullu samræmi við allt lífsverndarstarf hennar og þar á meðal andstöðu hennar við fósturdeyðingar, en menn geta hlustað á hana tala um það mál HÉR!

Að líkja líknarstöðvum Kærleikstrúboðanna við útrýmingarbúðir nazista er þó jafnvel enn ófyrirleitnara en að tala um þær sem "dauðabúðir". Forheimskunar-ásakanir sem þessi eiga kannski í ykkar huga að duga ykkur í stríðinu gegn kristnum gildum, kristinni trú og kærleika, en einmitt þessi grein mun reynast ykkur bjúgverpill sem hittir ykkur sjálfa harðast fyrir, þegar þetta vitnast út á við.

Svo mætti, ykkur til glöggvunar og hjálpar að koma niður á jörðina, benda ykkur á, að aldrei hefði Nóbelsnefndin veitt Móður Teresu Nóbelsverðlaunin, að sínu vandlega hugsaða ráði, ef nokkur minnsti fótur væri fyrir ykkar skammarlegu árásum.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 17:49 #

Þú veist að hneykslun ein og sér virkar ekki eins og rök.


Jón Valur jensson - 09/02/15 17:52 #

Þessi orð þín eru engin gagnrök gegn ábendingum mínum hér.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 17:53 #

Þú hefur ekki komið með neitt til að hrekja eitt eða neitt, það að ég bendi á það er auðvitað ekki tilraun til rökræðu heldur tilraun til að fá þig til að rökstyðja skoðun þína.


Jón Valur jensson - 09/02/15 17:59 #

Ertu að segja, að það séu ekki rök hjá mér, að Nóbelsnefndin að athugun lokinni sá fulla ástæðu til að veita Móður Teresu virtustu friðarverðlaun heims?

Og eru það einhver rök hjá ykkur, að benda á, að deyjandi fólk finnist í sjúkraskýlum Kærleikssystranna? Er það ekki svo í hverjum einasta spítala heims?

Lítum á Wikipediu, sem margir af ykkar kaliberi fletta oft upp í: http://en.wikipedia.org/wiki/Missionaries_of_Charity

"It consists of over 4,501 religious sisters and is active in 133 countries. ... Today, the order consists of both Contemplative and Active Branches of Brothers and Sisters over several different countries ...

Missionaries care for those who include refugees, ex-prostitutes, the mentally ill, sick children, abandoned children, lepers, people with AIDS, the aged, and convalescent. They have schools run by volunteers to educate street children, they run soup kitchens, as many other services as per the communities' needs. They have 19 homes in Kolkata (Calcutta) alone which include homes for women, for orphaned children, and for the dying; an AIDS hospice, a school for street children, and a leper colony. These services are provided, without charge, to people regardless of their religion or social caste."


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 18:00 #

Þú tjáir þig eins og leikskólabarn Jón Valur.

Að líkja líknarstöðvum Kærleikstrúboðanna við útrýmingarbúðir nazista er þó jafnvel enn ófyrirleitnara en að tala um þær sem "dauðabúðir".

Samt gerði þessi fyrrum sjálfboðaliði einmitt það og við segjum frá því. Væri ekki fróðlegt fyrir þig að kynna þér það sem sjálfboðaliðinn og fleiri sögðu um "dauðabúðir" Agnesar - því hvað voru þær annað en "dauðabúðir"? Ekki fékk fólk læknisaðstoð, svo mikið er víst.

...aldrei hefði Nóbelsnefndin veitt Móður Teresu Nóbelsverðlaunin, að sínu vandlega hugsaða ráði, ef nokkur minnsti fótur væri fyrir ykkar skammarlegu árásum

Yasser Arafat og Obama fengu sömu verðlaun. Viltu kommenta á það?

Ertu að segja, að það séu ekki rök hjá mér, að Nóbelsnefndin að athugun lokinni sá fulla ástæðu til að veita Móður Teresu virtustu friðarverðlaun heims?

Ég segi að það séu ekki rök. Nóbelsnefndin hafði þar að auki ekki þær upplýsingar sem við höfum í dag, forsendur breytast stundum.


Jón Valur Jensson - 09/02/15 18:02 #

Og geri trúlausir níðhöggvar betur!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 18:10 #

Vertu málefnalegur, færðu rök fyrir máli þinu og hrektu það sem fram kemur í greininni - eða vertu úti annars.


Jón Valur Jensson - 09/02/15 18:16 #

Menn, sem vanir eru vestrænu umhverfi sjúkrahúsa og líknandi-dauða-stöðvum, með fullkomnasta tæknibúnaði, geta ekki ætlazt til þess, að sömu tæknilegu gæðunum sé haldið uppi í sjálfboðaliðastarfi í löndum þriðja heimsins, sérstaklega ekki meðal fátækasta fólksins, sem fær ekki rúm á spítölum þar. Að erfitt væri um rými til heimsókna þar fyrir aðstandendur, verður einnig að skoða í sama ljósi aðstæðna.

Þetta eina vitni ykkar, "sem sagði Heimili hinna dauðvona líkjast því sem sjá mátti á ljósmyndum frá útrýmingabúðum nazista": hve lengi dvaldist það í sjúkraskýlum Móður Teresu í Kalkútta? Og hvað HEITIR viðkomndi vitni, og hvar er vitnisburð þess að finna (ekki á uppgefnum tengli ykkar)?


Jón Valur jensson - 09/02/15 18:25 #

Hvar eru líknarverk vantrúaðra fyrir þjáð mannkyn? Þjóðkirkjan (Hjálparstarf kirkjunnar, einnig hjúkrunarfólk á vegum kristniboðsfélaganna íslenzku), Kaþólska kirkjan (m.a. með starfi Caritas og Krleikstrúboðanna, auk gríðarlegs fjölda kaþólskra sjúkrahúsa –– og voru hér á landi meðal hinna helztu) og jafnvel hinn litli söfnuður aðventista á Íslandi hafa haldið uppi líknar- og neyðarhjálp í Afríku og víðar í 3. heiminum.

Hvar eru líknarfélög vantrúaðra? Eru þau til? Er kannski helzta líknin að drepa ófædd börn og gera mæður þeirra ófrjóar? International Planned Parenthood er svo sannarlega félagsskapur vantrúaðra, en verkin ljót. Ætli þið fynduð ykkur ekki helzt eiga samleið í slíku slagtogi?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 18:30 #

Eitt af því sem Agnes hefur verið gagnrýnd fyrir er að mála upp miklu dekkri mynd af Kalkútta en þurfti og þú tekur undir það hér. Agnes hafði nóg af peningum, það var hugmyndafræði hennar að það væri bara jákvætt að fólk myndi þjást dálítið fyrir dauðann, þannig myndi það færast nær gvuði. Hún hafði efni á að sinna fólki almennilega, kaupa lyf og borga heilbrigðismenntuðu fólki, en hún hafði ekki áhuga á því. Hún hafði bara áhuga á að kristna fólk.

Hvað gerðist svo þegar hún sjálft þurfti heilbrigðisþjónustu? Jú, hún fór á fína vestræna spítala.

Hún var semsagt hræsnari.

Reyndu ekki að færa umræðuna eitthvað annað.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 18:33 #

Ég þekki svosem ekki til þessa ákveðna vitnis, umfram það sem fram kemur í tilvitnaða textanum. En fjölmargir aðrir hafa sagt svipaða sögu.

Einn þeirra er Christopher Hitchens, sem gerði vinnubrögðum móður Theresu ágæt skil í bók sinni "The Missionary Position". Hitchens var gallharður kommúnisti á sínum yngri árum en snerist svo til hörðustu frjálshyggju. Hann hlýtur þess vegna að vera mjög ábyggilegt vitni, eftir þínum bókum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 18:47 #

Einkennilegt að Jón Valur geri ekki athugasemdir við þetta:

Samkvæmt dagbókarskrifum Móður Teresu, sem voru gerðar opinberar af kaþólsku kirkjunni nokkrum árum eftir dauða hennar, má sjá að undir lokin hafði hún misst trú sína á almættið og var orðin trúlaus.


Jón Valur Jensson - 09/02/15 19:51 #

Ég kemst ekki yfir allt í einni svipan, enda fleira sem kallar að hjá mér. Veit hitt, að fljótir eru ýmsir að rangtúlka orð trúaðra, og það er líklegt að eigi við um dagbókarskrif Móður Teresu.

Christopher Hitchens er nú ekki merkilegur pappír, þegar kemur að skrifum um trúmál, siðferði og líknarverk trúaðra. Andúð hans á Móður Teresu er rætin og löngu kunn. Þið getið allt eins vitnað í skrif Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar um, að kapítalisminn hafi verið alvondur, en sovét-kommúnisminn æðsta þróunarstig mannsandans – allt ámóta trúverðugt.

Og Nóbelsnefndin hefur ekki séð neina ástæðu til að draga neitt til baka varðandi Móður Teresu.

Jasser Arafat og Obama eru á allt öðrum stað varðandi friðarstörf og kannski hægt að fyrirgefa, að nefndin hafi haldið, að viðkomandi væri að gera eitthvað til að draga úr ófriðarlíkum í Mið-Austurlöndum, þótt sú von hafi svo brugðizt.

En Móðir Teresa var ekki verðlaunuð fyrir það, sem hún ÆTLAÐI að gera (eins og Obama), heldur það, sem hún hafði þegar gert.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 19:57 #

Veit hitt, að fljótir eru ýmsir að rangtúlka orð trúaðra, og það er líklegt að eigi við um dagbókarskrif Móður Teresu.

Þú hefur nákvæmlega ekkert fyrir þér í þessu, þetta eru bara dylgjur sem þú slengir fram.

Christopher Hitchens er nú ekki merkilegur pappír...

Þá er heppilegt fyrir okkur að hann sé ekki eina heimildin um Agnesi.

Móðir Teresa var ekki verðlaunuð ...

Hún var verðlaunuð vegna þess að kaþólska kirkjan þín markaðssetti hana sem ákveðna táknmynd þrátt fyrir það sem hún raunverulega gerði.


Jón Valur Jensson - 09/02/15 22:02 #

Síðasta fullyrðing þín, Matti, var bjálfalegt skot út í bláinn og gerir lítið úr Nóbelsnefndinni og undirbúningi hennar, rétt eins og úr bæði Móður Teresu og Kaþólsku kirkjunni, sem þér er svo meinilla við (eins og sézt hefur hér árum saman), að þú getur varla sagt satt orð um hana, ef það er af jákvæðara taginu. Þú ert því jafnvel enn ómarktækari en Christopher Hitchens.

Ég óskaði hér eftir upplýsingum um þetta eina vitni ykkar, sem hélt því fram, að líkja mætti sjúkrabúðum Kærleikssystranna í Kalútta við útrýmingarbúðir nazista (!!!!), en engin svör koma enn, utan þetta frá Baldvin: "Ég þekki svosem ekki til þessa ákveðna vitnis, umfram það sem fram kemur í tilvitnaða textanum. En fjölmargir aðrir hafa sagt svipaða sögu."

Það er engin úrlausn að segja "fjölmargir aðrir" og tala loðið um "svipaða sögu" þegar einnig þeir eru ekki tilgreindir með nöfnum og engin ummæli þeirra tilfærð. Þið standið á gati.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/02/15 22:45 #

Þú mátt nú alveg hafa fyrir því að lesa það sem við skrifum og fylgja vísunum Jón Valur, annað er bara leti.

Síðasta fullyrðing þín, Matti, var bjálfalegt skot út í bláinn

Nei, hún byggir á heimildum sem vísað er á í greininni.

Þú ert því jafnvel enn ómarktækari en Christopher Hitchens.

Já, ég er reyndar sammála því. Ég er enginn Hitchens!

Það er engin úrlausn að segja "fjölmargir aðrir" og tala loðið um "svipaða sögu"

Segir trúmaðurinn :-)

Frásögnin frá fyrrum sjálfboðaliða í Kalkúkka kemur úr bók Hitchens.

Grein Serge Larivée, Genevieve Chenard og Carole Sénéchal sem ýmsar fréttir vitna til er hér á frönsku: http://sir.sagepub.com/content/42/3/319

Eftir stendur:

  • Agnes taldi þjáningu dauðvona fólks jákvæða
  • Ekki var gerður greinarmunur á dauðvona og veiku fólki í "dauðbúðum" hennar.
  • Fólk var skírt til kristni rétt fyrir andlátið, óháð fyrri trú/lífsskoðun (til þess var leikurinn gerður).
  • Agnes þáði peninga frá harðstjórum og glæpamönnum
  • Lítið sem ekkert af gríðarlegu fé sem hún safnaði skilaði sér til sjúkra og þjáðra

Og svo framvegis...

Varðandi fjölmiðlaherferðina, má lesa um hana hér, unnið úr grein þremenninganna.

Despite these disturbing facts, how did Mother Teresa succeed in building an image of holiness and infinite goodness? According to the three researchers, her meeting in London in 1968 with the BBC's Malcom Muggeridge, an anti-abortion journalist who shared her right-wing Catholic values, was crucial. Muggeridge decided to promote Teresa, who consequently discovered the power of mass media. In 1969, he made a eulogistic film of the missionary, promoting her by attributing to her the “first photographic miracle," when it should have been attributed to the new film stock being marketed by Kodak. Afterwards, Mother Teresa travelled throughout the world and received numerous awards, including the Nobel Peace Prize. In her acceptance speech, on the subject of Bosnian women who were raped by Serbs and now sought abortion, she said: “I feel the greatest destroyer of peace today is abortion, because it is a direct war, a direct killing—direct murder by the mother herself.” #

Skammastu þín ekkert fyrir að verja þetta Jón Valur?

Ég minni að lokum á eldri grein um Agnesi hér á Vantrú, sem vísað er á í færslunni: Goðsögnin um Móður Teresu


Jón Valur Jensson - 10/02/15 00:17 #

Ef "frásögnin frá fyrrum sjálfboðaliða í Kalkúkka kemur úr bók Hitchens," geturðu þá enn ekki nafngreint manninn og svarað spurningu minni, sem hefur staðið hér ósvarað frá kl. 18.16: "hve lengi dvaldist [vitnið] í sjúkraskýlum Móður Teresu í Kalkútta?"

"Vitnið" verður ekkert trúverðugra við að vera í bók eftir hinn króníska árásarmann kirkju og kristni: C. Hitchens!

Svo hefurðu engar sundurliðaðar heimildir um fjárhag og reksturinn á hjálparstarfi Kærleikstrúboðanna sem styðji þína fráleitu fullyrðingu: "Lítið sem ekkert af gríðarlegu fé sem hún safnaði skilaði sér til sjúkra og þjáðra".

Þetta svar þitt í heild, sem ég á eftir að svara betur (var við annað drjúga stund í kvöld), er nú bara í takt við önnur æsingaskrif frá þér, Matti.

En hvernig er með þennan Tómas Daða Halldórsson, sem er sagður hafa skrifað greinina: Er hann ekki fær um að svara fyrir sig og sínar fjallvitlausu staðhæfingar?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 01:22 #

Finnst ég hafa séð svona svar frá þér áður Jón Valur!


Jón Valur Jensson - 10/02/15 02:43 #

Fyrst "svar" Matta er jafn-innantómt og raun ber vitni, er þá nokkuð annað að gera en að sækja málið frekar gegn þessari Vantrúar-áróðursgrein og framhaldsskrifum Matta?

Hann minnist hér á "grein Serge Larivée, Genevieve Chenard og Carole Sénéchal sem ýmsar fréttir vitna til," en hefur sjálfur gott af að lesa þessar upplýsingar um það þríeyki akademíkera sem gáfu út árið 2013 þá hörðu árásargrein á Móður Teresu og starf Kærleiksboðberanna. Í fréttatilkynningu þeirra á ensku, 1. marz: "Móðir Teresa: allt annað en dýrlingur" (“Mother Teresa: Anything but a Saint”) segir m.a.:

In their article, Serge Larivee and his colleagues . . . cite a number of problems not taken into account by the Vatican in Mother Teresa’s beatification process [þar sem rannsökuð var hugsanleg helgi hennar, m.t.t. hvort unnt væri að lýsa hana blessaða], such as her “rather dubious way of caring for the sick, her questionable political contacts, her suspicious management of the enormous sums of money she received, and her overly dogmatic views regarding, in particular, abortion, contraception and divorce.

Ekki létu þau þessar ásakanir nægja. "The researchers [þríeykið] accused Mother Teresa of running facilities with inadequate medical care while receiving quality medical care herself, said she was more in love with poverty than helping the poor, and implied she was psychologically unstable because she suffered through bouts of doubt." (W. Doino, sjá neðar.)

Því fer fjarri, að þessum ásökunum hafi verið látið ósvarað. Raunar kemur í ljós, að þær eru hér á sleipu svelli eigin vanþekkingar, eins og í ljós kemur við lestur merkrar greinar eftir William Doino Jr.: "Mother Teresa and Her Critics". Hann ritar þar m.a.:

"After studying their report, twenty-seven pages in French, I sought out people who had known Mother Teresa, or been involved with her cause to inquire about its charges. Every single one of them told me that the Mother Teresa presented by the Canadian researchers was unrecognizable from the one they encountered, and to prove it, provided point by point rebuttals to their accusations."

Síðar í greininni ritar hann: "The most powerful witness I spoke to was Susan Conroy , who worked with Mother Teresa in Calcutta”traveling there as a twenty-one-year-old volunteer in 1986. She knew Mother for the last decade of her life, and wrote Mother Teresa’s Lessons of Love and Secrets of Sanctity. She speaks about Blessed Teresa often. She read the report by the Canadian academics in its original French, and reacted with sadness, offering this first-hand testimonial in response:

When I read the criticisms of how the patients were cared for in the Home for the Dying, I kept thinking back to my personal experiences there . . . . I know how tenderly and carefully we tended to each of the destitute patients there, how we bathed them, and washed their beds, and fed them and gave them medicine. I know how the entire shelter was thoroughly and regularly cleaned from top to bottom, and each patient was bathed as often as necessary, even if it was multiple times a day . . . . They were considered "untouchables" of society, and yet there we were touching and caring for them as if they were royalty. We truly felt honored to serve them as best we could. Mother Teresa had taught us to care for each one with all the humility, respect, tenderness and love with which we would touch and serve Jesus Christ Himself, reminding us that "whatsoever we do to the least of our brothers," we do unto Him.

Þessir einstaklingsvitnisburður sannfærir ekki Vantrúarmenn, en lesið nú, hvernig Wm. Doino fylgdi eftir sinni rannsókn, þar koma merkilegir hlutir í ljós. Hann ritar (feitletrun mín):

After hearing from these supporters, I requested interviews with the researchers, and finally obtained one with Dr. Chenard. Her answers to my series of questions were both astonishing and revealing: She confirmed for me that her academic team did not speak to a single patient, medical analyst, associate, or worker of Mother Teresa’s before writing their paper against her; nor did they examine how all her finances were spent; nor did they speak with anyone at the Vatican involved with her sainthood cause, or consult the Vatican’s medical board which certified the miracle attributed to Blessed Teresa. The researchers had not even traveled to Calcutta, whereas even Hitchens, misguided as he was, at least did that. As it turned out, this "research paper" was nothing but a "review of literature," a repacking of what others had already written, with the academics putting their own negative spin on it. In other words, an indictment based upon no original research, and the author most frequently cited? Christopher Hitchens. Yet these “findings” made international headlines, and were repeated by many without objection." [NB! – eins og af ykkur, trúgjarna liðinu í Vantrú!]

Ég vil að endingu taka undir þessi lokaorð Doinos í greininni:

"Sanctity cannot be fabricated, and true holiness often invites worldly ridicule, as Our Lord foretold. But Blessed Mother Teresa’s radiant witness will survive as long as truth and tenderness survive in the human heart, which, God willing, will be until the end of time."


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 06:45 #

Fyrst þegar ég heyrði af efasemdum um störf Móðir Teresu þá varð mér nokkuð brugðið. Hún er jú eitt þekktasta nafn í góðgerðar- og mannúðarmálum síðari tíma.

En þegar ég kynnti mér málin betur þá virðist sem að gagnrýnendur hennar hafi mikið til síns máls. Ef þetta væri eintómur spuni og vitleysa þá hefði verið leikur einn að kveða niður þennan orðróm. Hins vegar hefur það ekki verið gert.

Ágætt dæmi er þessi meinti skóli fyrir stúlkur í Kalkútta sem MT hreykti sér af. Einfalt mál væri að sýna þennan skóla en það hefur aldrei verið gert svo ég viti til.

Líka þessi vafasami félagsskapur sem hún var í, sjálfur Papa Doc og Baby Doc! Segðu mér hverjir eru vinir þínir og ég skal segja þér hver þú ert, sagði einhver og það á hér vel við.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 09:15 #

Fyrst "svar" Matta er jafn-innantómt og raun ber vitni,

:-)

Kæri Jón Valur,

þú ert frægur að endemum fyrir að hafa ekki tíma til að svara hlutum. Það er nú allt sem ég var að vísa í.

Af hverju í ósköpunum ætti ég að taka mark á William Doino Jr?


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 11:09 #

Sæll Jón Valur.

Ég skrifaði þessa grein ekki af illkvitni. Fram eftir aldri þá leit ég upp til Móður Teresu, móðir mín kenndi mér að Móðir Teresa hafi alltaf gefið öðrum sinn síðasta brauðmola og því var hún lengi vel táknmynd örlætis fyrir mér. Ég hefði endilega viljað að sú ímynd af henni væri sönn. Það krefst ekki langrar rannsóknarvinnu að sjá hvers konar starfsemi fór fram í dauðabúðum hennar. Ég vil þó minna þig á það að með tilraunum þínum til að reyna að hrekja þær heimildir og staðreyndir er varða starfsemi dauðabúðanna, þá ertu í raun að reyna að hrekja yfirlýsta stefnu Móður Teresu. Þráhyggja hennar fyrir dauðanum og sársauka er opinber, stefna hennar um að sjálfboðaliðar dauðabúðanna lifðu eins og fátæklingar er opinber. Sömuleiðis hreinlæti og raunveruleg heilbrigðisþjónusta eftir því. En hvers vegna gerirðu ekki tilraun til að afneita tengslum hennar og smeðjuhátt við illmenni? Það eitt og sér ætti að duga til að enginn efaðist um að hér var ekki um dýrling að ræða.

Síðan vona ég að þú teljir ekki friðarverðlaun nóbels vera siðferðisviðmið, Móðir Teresa er nú ekki eina illmennið sem hefur hlotið þá viðurkenningu.


Jón Valur Jensson - 10/02/15 15:08 #

Kl. 1:22 svaraði Matti rökum mínum þar á undan með 11 orðum, sem í voru ENGIN rök. Við rök mín hef ég síðan bætt fjölmörgum og sterkum. Svo mætir hann hér daginn eftir og segir MIG ekki hafa tíma til að svara hlutum!!! Hvað með hann sjálfan?!

Matti, þessi William Doino, Jr., blaðamaður og rithöfundur, ræddi m.a. við eina í þessum þríeykis-hópi og bar fyrir hana spurningar, en þá kom í ljós, að þau þrjú í hópnum höfðu ekki einu sinni gert sér ferð til Kalkútta og töluðu heldur aldrei við neina skjólstæðinga Kærleikstrúboðanna, ekkert fólk sem notið hafði hjálpar þeirra, og heldur ekki við neina heilbrigðisstarfsmenn sjúkrastöðvanna þar! Samt var þetta þríeyki kallað (eða kallaði sig sjálft) "research team" og leyfði sér að gefa út hinar stóryrtustu yfirlýsingar, sem náðu þó inn í heimspressuna og sannfærðu trúgjarna Vantrúarmenn!!!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 15:09 #

Kl. 1:22 svaraði Matti rökum mínum þar á undan með 11 orðum, sem í voru ENGIN rök.

Nei, enda voru engin "rök" í "rökum" þínum Jón Valur. Yfirlæti er ekki röksemdarfærsla þó þú haldir það stundum.

Það skiptir engu máli þó fólkið hafi aldrei farið til Kalkútta, þetta var fræðigrein sem byggði á því að taka saman fyrirliggjandi heimildir. Slíkt er algengt og ekkert athugavert við þau vinnubrögð.


Jón Valur Jensson - 10/02/15 15:20 #

Tómas, það er nú bara sorglegt að lesa þetta innlegg þitt, rétt eins og sjálfa grein þína. Efastu, eftir ábendingar mínar, í alvöru ekkert um málflutning þinn og stóryrði, nú síðast um Móður Teresu sem "illmenni"? Þekkirðu einhverja Íslendinga eða trúleysingja yfirhöfuð í heiminum, sem hafa unnið í þágu fleiri yfirgefinna manna, sjúkra, vannærðra og útburðarbarna? Hvar eru líknarverkin ykkar Vantrúarmanna?

Það er ekki úr vegi, að orð Móður Teresu sjáfrar fái að heyrast hér á þessum þræði. Hún sagði í ræðu:

< blockquote>Menn hungrar ekki aðeins eftir brauði; þá hungrar eftir kærleika, þá hungrar eftir því að vera einhverjum einhvers virði. Nekt er ekki bara klæðleysi; nekt getur líka verið það að skorta sjálfsvirðingu og hreinleika. Og heimilisleysi er ekki aðeins vöntun á húsnæði gerðu af timbri eða steini; heimilisleysi er líka það að vera útskúfaður, óvelkominn, að vera ekki elskaður eða einfaldlega að vera öðrum gleymdur. ––––

Ég gleymi því aldrei þegar ég eitt sinn mætti manni á götu, sem leit út fyrir að vera mjög aumur og einmana. Ég gekk þess vegna beint til hans og tók í hönd honum. Hendur mínar eru alltaf mjög heitar; og hann leit upp og brosti fallega móti mér og sagði: "Ó, það er svo langt, langt síðan ég fann hlýja mannshönd!" Hve dásamlegt og fallegt, að einfaldar gerðir okkar geti sýnt kærleika á þennan hátt! Gleymum ekki að bera slíkan kærleika inn í fjölskyldulíf okkar. Við getum gert það með bæn; því að þar sem bænin er, þar er kærleikur. Og þar sem kærleikur er, þar er sú algera eining, sem Jesús talaði um, þegar hann sagði: "Verið eitt, eins og Faðirinn og ég erum eitt. Og elskið hvert annað, eins og ég elska ykkur. Eins og Faðirinn hefur elskað mig, eins hef ég elskað ykkur.< blockquote>

Fullyrðingum þínum öðrum svara ég seinna.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 10/02/15 21:47 #

Ég tek eftir að Móðir Teresa er hér iðulega nefnd Agnes. Hún tók sér nafnið Teresa þegar hún vann sín fyrstu regluheit og kaus að nota það upp frá því.

Það eru talin mannréttindi að fá að nota þau nöfn sem fólk kýs. Hluti af baráttu transfólks varðaði t.d. þetta atriði, þ.e. að fá að breyta nafni sínu í þjóðskrá og nota það opinberlega.

Hverju sætir það að greinarhöfundur og sumir aðrir sem hér hafa lagt inn athugasemdir taka þessi mannréttindi af Móður Teresu og nefna hana því nafni sem hún lagði niður árið 1931?


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 22:18 #

Hún er ekki iðulega nefnd Agnes í greininni. Ég nota það eingöngu fram að því er hún tekur upp nafnið Teresa.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 22:25 #

Ég kalla hana hiklaust Agnesi og mun halda því áfram.

Við erum að tala um konu sem stærði sig af því að hafa skírt tugþúsundi til kristni á dánarbeði.

Eigum við eitthvað að ræða virðingu fyrir látnu fólki?


Jón Valur jensson - 11/02/15 00:04 #

Hvar (í hvaða heimild) segist hún hafa skírt tugþúsundir á dánarbeði? Með hvaða orðum segir hún það? Öll nákvæmni skiptir hér máli. Þar fyir utan er það sízt af öllu glæpur að skíra fólk með eðlilegum hætti.

Kristin kona (þó ekki kaþólsk) sendi mér þessi skilaboð í dag, og fekk ég leyfi hennar til að leggja þau inn hér:

"Þú stendur þig vel í tilsvörum, það er með ólíkindum að sjá ávirðingarnar á Móður Teresu, þetta er klár illkvittni í þessu fólki.

Fjölmargir kaþólikkar hafa unnið kraftaverk í mannúðarmálum og ég myndi benda þeim á þá staðreynd að ekki sé það trúleysingjum að þakka að Landakotsspítali ásamt st. Jósefsspítala, sjúkrahúsinu í Stykkishólmi og elsta sjúkrahús sem vitað er að hér hafi starfað, Skriðuklaustur, hafi verið reist, en það voru kaþólikkar sem stóðu að baki þessu þrekvirki. Íslendingar eiga í vandræðum með að byggja sjúkrahús í dag."


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/02/15 00:45 #

Hvar (í hvaða heimild) segist hún hafa skírt tugþúsundir á dánarbeði?

Æi, þú ert svo latur Jón Valur.

In a speech at the Scripps Clinic in California in January 1992, she said: "Something very beautiful... not one has died without receiving the special ticket for St. Peter, as we call it. We call baptism ticket for St. Peter. We ask the person, do you want a blessing by which your sins will be forgiven and you receive God? They have never refused. So 29,000 have died in that one house [in Kalighat] from the time we began in 1952." #

...

Þar fyir utan er það sízt af öllu glæpur að skíra fólk með eðlilegum hætti.

Hver sagði að það væri glæpur? Fyrir utan að það er ekkert eðlilegt við það að skíra fólk á dánarbeði.

það er með ólíkindum að sjá ávirðingarnar á Móður Teresu, þetta er klár illkvittni í þessu fólki.

Hvað ef það sem við segjum er einfaldlega satt?


Jón Valur Jensson - 11/02/15 02:08 #

Er ekki eðlilegt að fá heimildina uppgefna? Hana fekk ég (sjá #-merkið á eftir ræðutexta Móður Teresu í svari Matta).

Á eftir þeirri tilvitnun stendur svo í heimildinni: "Critics have argued that patients were not provided sufficient information to make an informed decision about whether they wanted to be baptized and the theological significance of a Christian baptism." – Aftur á móti er engin heimild gefin fyrir þessum orðum né neitt sem veitt gæti tiltrú á, að þessi krítík byggist í raun á athugun á aðstæðunum. Eðlilegt er að kynna skírnarþegum hvað verið er að bjóða þeim, en ég get ekki sagt að ég hafi fundið þarna neinar óyggjandi upplýsingar um, hvernig þarna var ástatt í málum, enda er enginn heimildarmaður gefinn upp, og það er ekki nóg að vera "critics" til að gera þá hina sömu að sjónar- og heyrnarvottum.

Matti telur ekki rétt að skíra fólk á dánarbeði, en vitaskuld á að virða ósk fólks um að verða skírt, hvenær ævinnar sem er. Konstantín keisari mikli var skírður á dánarbeði, viljugur auðvitað.

Matti læzt trúa því, að ásakanirnar á hendur Móður Teresu séu sannar. Hann kippir sér ekkert upp við það að vita ekki, HVER þessi EINI heimildarmaður Hitchens sé, sem borið hafði lélegan vitnisburð um hreinlæti, aðbúnað sjúklinga o.fl. í sjúkrastöð Kærleikstrúboðanna. Það dregur þó ekkert úr Matta að trúa viðkomandi! Þegar ég aftur á móti hafði birt hér gagnstæðan vitnisburð frá nafngreindri konu, sem starfaði þarna ––– Susan Conroy , who worked with Mother Teresa in Calcutta, traveling there as a twenty-one-year-old volunteer in 1986. She knew Mother for the last decade of her life, ––– þá tekur Matti EKKERT mark á því, heldur segir (kl. 15.09 á liðnum degi): "enda voru engin "rök" í "rökum" þínum Jón Valur. Yfirlæti er ekki röksemdarfærsla þó þú haldir það stundum," segir Matti þar í sínu stærilæti. Hann tekur sem sé ekki mark á vitnisburðum nema þeim sem henta honum, og þá varðar hann engu, hvort hann viti hver hafi borið vitni eða hve lengi viðkomandi hafi kynnt sér málin á staðnum sjálfum.

Í takt við þetta er líka svar hans í sama innleggi: "Það skiptir engu máli þó fólkið hafi aldrei farið til Kalkútta, þetta var fræðigrein sem byggði á því að taka saman fyrirliggjandi heimildir. Slíkt er algengt og ekkert athugavert við þau vinnubrögð." –––En sér ekki jafnvel þessi Matti, að það dugar ekki að látast vera með margar heimildir um hlutina, eins og vitnisburði úr ýmsum áttum, en svo kemur í ljós, að þessi frá þríeykinu, þremur akademíkerum frá Kanada, er ekki sjálfstæð heimild byggð á þeirra eigin rannsókn á staðnum, í þessu að því er virðist alvarlega máli, heldur einfaldlega endurtekning frá fullyrðingum frægs andtrúarmanns, Christophers Hitchens?

Heimildirnar, sem virtust sverta mjög orðstír Móður Teresu vegna meintra upplýsinga ýmissa um hreinlætis- og aðbúnaðarmál sjúklinganna, reynast sem sé EKKI vera nokkrar, heldur koma allar úr einni átt: frá skoðnabróður Vantrúarmanna!!!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/02/15 09:16 #

vitaskuld á að virða ósk fólks um að verða skírt, hvenær ævinnar sem er

Fólk óskaði ekki eftir því Jón Valur.

Og að sem meira er, þetta var eftir allt markmið Agnesar - að skíra fólk.

Það er rannsóknarefni í sjálfu sér hvernig Jón Valur kýs að einblína á viss atriði en ekki önnur - t.d. orð Agnesar sjálfrar.


oddur - 11/02/15 09:18 #

Fólk ætti endilega að skoða heimildina hans.

Christopher Hitchens - Mother Teresa: Hell's Angel https://www.youtube.com/watch?v=65JxnUW7Wk4

og til gamans Penn And Teller BS Christopher Hitchens on Mother Teresa https://www.youtube.com/watch?v=V4nCaxHN-cY


Jón Valur Jensson - 11/02/15 12:00 #

Matti fullyrðir: "Fólk óskaði ekki eftir því" að skírast. ––Var Matti á staðnum? Hann hefur enga heimild fyrir fullyrðingu sinni. Að vilji hafi verið fyrir hendi hjá Kærleikstrúboðunum að skíra sannar ekki fullyrðingu Matta. Í hverri eðlilegri hlýtur viljinn að vera fyrir hendi hjá bæði skírnarþjóninum (presti eða leikmanni) og skírnarþega.


Jón Valur Jensson - 11/02/15 12:01 #

Í hverri eðlilegri skírn ... átti að standa hér.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/02/15 13:43 #

Matti fullyrðir: "Fólk óskaði ekki eftir því" að skírast. ––Var Matti á staðnum? Hann hefur enga heimild fyrir fullyrðingu sinni.

Ég er læs, ég les það sem ég vísa á auk annars efnis um þetta mál. Þar kemur fram að "sjálfboðaliðar" Agnesar buðu fólki að skírast á dánarbeði.

Þú veist, svona svipað og prestar á Íslandi "buðu" fólki að ánafna kirkjunni allar sínur eigur á dánarbeði.

Í hverri eðlilegri skírn...

Hvað er eðlilegt við þessar aðstæður? Hve margir eru skírðir á dánarbeði á Íslandi? Hefur það gerst?


Jón Valur Jensson - 11/02/15 16:58 #

Matti: ""sjálfboðaliðar" [af hverju gæsalappir?!] Agnesar buðu fólki að skírast á dánarbeði." ––Já, var það ekki allt í lagi, ef þau höfðu heyrt hjá þeim um Jesúm Krist?

Hann bætir við í sínum Vantrúar-anda: "Þú veist, svona svipað og prestar á Íslandi "buðu" fólki að ánafna kirkjunni allar sínur eigur á dánarbeði." –––Jæja, hefurðu nokkra heimild fyrir slíku? Hefurðu eina einusu vottaða eða skjalfesta heimild fyrir slíku?

"Hve margir eru skírðir á dánarbeði á Íslandi? Hefur það gerst?" spyr hann enn. ––Ég man ekki, hvort ég hef heyrt af slíku, en almennt eru börn skírð mjög snemma, þótt það þekkist, að sum hafa verið skírð stuttu fyrir ferminguna. Og menn eru ekki skírðir hér tvisvar, nema þeir gerist þátttakendur í endurskírenda-söfnuði. En það er í sjálfu sér ekkert að því að taka skírn á banabeði; synda sinna vegna (og vegna hreinsandi eðlis skírnarinnar) drógu jafnvel sumir heiðingjar það fram á þá stund; heyrzt hefur, að það hafi jafnvel getað átt við um Konstantín mikla –– þannig að einnig þú átt þessa leið færa, Matthías!


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 11/02/15 18:10 #

Afhverju hélt Móðir Teresa því fram í ræðum að hún hefði stofnað skóla í Kalkútta, þar sem 5000 nemendur stunduðu nám, ef slíkur skóli var aldrei til?


Jón Valur Jensson - 11/02/15 19:05 #

Var hann aldrei til? Hverjar eru ykkar frumheimildir um þetta, bæði um orð (fullt orðalag) Móður Teresu og um það, hvort skólinn sé til? Getur hún verið að vísa til skóla, sem hún hafi haft hönd í bagga með, átt þátt í að stofna, gefið stóra stofnfjárhæð í eða lagt fram rekstrarfé um nokkurra eða margra ára skeið? Gaf hún upp nafn á skólanum?

Upplýsið nú um það sem þið í alvöru teljið ykkur vita.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/02/15 20:50 #

Þetta er orðið dálítið kunnulegt stef Jón Valur. Þú rengir allt sem við skrifum, við setjum (aftur) fram rök og heimildir fyrir máli okkar og þá færir þú þig bara í næsta hluta umræðunnar. Þetta með tugþúsundir skírna á banabeði er gott dæmi.

Er ekki kominn tími til að þú lesir þér örlítið betur til um málið og komir svo aftur hingað þegar ert búinn að kynna þér það almennilega.

Þú getur t.d. fundið þennan merkilega barnaskóla fyrir okkur. Er það ekki ágæt æfing?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 11/02/15 22:17 #

Mannsnafn felur í sér dýrmæt mannréttindi. Það eru grundvallarmannréttindi að hver manneskja megi ráða hvaða nafn hún ber, svo framarlega sem það er ekki ögrandi eða algert ónefni.

Telur Matti og þeir sem vilja halda áfram nefna Teresu Agnesi að:

1) Mannréttindi, t.d. réttindin til að bera nafn gildi ekki eftir andlát?

2) Að þeir sem sýna af sér hegðun sem er óæskileg eða stórkostlega ámælisverð eigi ekki að njóta sömu mannréttinda og aðrir?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/02/15 22:30 #

Ég tel að Agnes hafi fengið svo mikið óverðskuldað lof meðan hún lifði að mál sé að linni.

Þú lætur eins og ég sé að kalla hana einhverju ögrandi eða dónalegu nafni, sé beinlínis að níða hana. Ég er bara að kalla hana því nafni sem henni var gefið.

Gleymdu ekki að þegar hún dó var hún líklega (samkvæmt dagbókum hennar) búin að missa trú sína og Agnes því nafnið sem hún réttilega bar við andlát.

Auðvitað snýst þetta bara um að þú ert að gera þér upp sárindi og mér dónaskap. Það er kunnuglegur leikur.


Jón Valur Jensson - 11/02/15 23:35 #

Matti svarar mér kl. 20:50, en svarar ekki spurningum mínum kl. 19:05. Það er HANN og félagar, sem hlupu af stað með þetta barnaskólamál, ekki ég, og nú stendur hann á gati einu sinni enn.

Vantrúarmenn eiga ENN eftir að svara spurningum mínum um það, hvað það heiti þetta EINA vitni þeirra um ófullnægjandi hreinlæti, vinnuaðferðir og aðstöðu hjá sjúklingum í sjúkraskýlunum – og hversu lengi viðkomandi hafi starfað þar. Já, merkileg er þögnin, ekki sízt þegar svo mikið virðist komið undir þessu EINA vitni (nafnlausu?), sem á sér þó andstætt, nafngreint vitni um hið gagnstæða, eins og ég hef áður rakið.

Reyndar þagði Matti ekki alfarið, heldur sagði í svari sínu til mín: "Þú getur t.d. fundið þennan merkilega barnaskóla fyrir okkur." –– Ekki bendir þetta svar hans til, að hann viti mikið um málið!


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/15 14:45 #

We have a home for the dying in Calcutta, where we have picked up more than 36,000 people only from the streets of Calcutta, and out of that big number more than 18,000 have died a beautiful death.

Þetta er úr Nóbelsræðu Móður Teresu, ekki eðlilegar tölur fyrir heilbrigðisstofnun sem bjó yfir fjármagni sem nam tugum milljóna dala. Aðdáun hennar á dauðanum telst heldur ekki vera eðlileg.

Sömuleiðis virðist hún ekki hafa skilning á orsökum fátæktar en andstaða hennar við fóstureyðingar og getnaðarvarnir sýnir það glöggt.

I feel the greatest destroyer of peace today is abortion, because it is a direct war, a direct killing - direct murder by the mother herself.

Hún var enginn dýrlingur og það ætti að vera einstaklingum sem hafa heilbrigða siðferðisvitund augljóst.

Þú hefur reynt að afvegaleiða umræðuna Jón Valur en ég hvet þig til þess að reyna að afsaka tengsl hennar við illmenni og hvers vegna hún notaði ekki það fjármagn sem hún bjó yfir til að koma á fót almennilegri heilbrigðisstofnun.

Hvers vegna leitaði hún sjálf til hátæknisjúkrahúsa með sín heilsufarsvandamál?

Hvers vegna reyndi hún að fá Charles Keating sýknaðan?

Hvernig útskýrirðu samband hennar við Duvalier fjölskylduna?

Viltu ekki síðan lesa þær heimildir sem þessi grein er byggð á. Hún er byggð á broti af gífurlegu safni óháðra upplýsinga, þú byggir þinn málflutning á fanatíkerum og lobbýistum eins og Malcolm Muggeridge.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 12/02/15 15:32 #

Í bókinni "Mother Teresa, the early years" eftir David Porter sem kom út árið 1986 segir þessi þekkta nunna eftirfarandi:

Today there is a modern school in that place with over 5000 children in it.

"That place" er eitt af fátækrahverfum Kalkútta, Motijheel. Rétt er að barnaskólar reglu Móðir Teresu hafa í besta falli um 200 nemendur. Talan fimm þúsund virðist hafa verið slengt fram vegna þess að hún kemur fyrir í Biblíunni.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 13/02/15 23:25 #

Rétturinn til nafns er friðhelgur. Í íslenskum rétti hefur verið talið að réttur manns til nafns falli undir ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs enda séu þar um mikilvæg persónuleg réttindi hvers einstaklings að ræða.

Öðru máli gegnir um glæpamenn sem skýla sér með dulnefnum, þá er sjálfsagt og almenn venja að nota ekki dulnefnin heldur vísa í upprunalegt nafn glæpamannsins.

Umfjöllunin um móður Teresu hér í athugasemdunum virðist frekar falla að síðari venjuni, þ.e. það er frekar talað um hana eins og glæpamann sem skipt hefur um nafn fremur en manneskju sem hefur nýtt sér rétt til að skipta um nafn. Í þessu sambandi er ekki fráleitt að rifja upp 12. greinar mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna þar sem segir:

Eigi má að geðþótta raska einkalífi, fjölskyldulífi, heimili eða bréfaskriftum nokkurs einstaklings, né heldur ráðast á æru hans eða mannorð. Ber öllum lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

Þær athugasemdir sem hér hafa komið fram um persónu Móður Teresu og greinin hefur að líkindum gefið tilefni til og þá helst með kaflanum um "Dauðabúðirnar í Kalkútta" og fráleitum samanburði við útrýmingarbúðir nazista, og það á grundvelli eins nafnlauss vitnis ef ég hef skilið Jón Val rétt, eru því ekki í anda mannréttinda hvorki með tilliti til stjórnarskrár Íslands né Mannréttindayfirlýsingar SÞ.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 13/02/15 23:41 #

Vináttu Móður Teresu við Duvalier fjölskylduna er auðvelt að útskýra. Hún liggur í ákveðinni áherslu kristinnar trúar um að ekki beri að útiloka þá sem forsmáðir eru í samfélaginu.

Sjá, t.d. þennan texta í Matt. 9:10-13:

Nú bar svo við er Jesús sat að borði [Matteusar tollheimtumanns] að margir tollheimtumenn og bersyndugir komu og settust þar með honum og lærisveinum hans. Þegar farísear sáu það sögðu þeir við lærisveinana: „Hvers vegna etur meistari ykkar með tollheimtumönnum og bersyndugum?“ Jesús heyrði þetta og sagði: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið hvað þetta merkir: Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“

Jesús Kristur þurfti þvi að þola þessar sömu ákúrur og Móðir Teresa fær hér og hann er höfundur þeirrar hugmyndar að halda skuli sambandi við útskúfað fólk. Vart þarf að útskýra að Duvalier fjölskyldan var fordæmd og útskúfuð úr samfélagi þjóðanna og Móðir Teresa var að taka áhættu með því að hitta hana.

Sú venja nútíma stjórmála að útiloka, útskúfa og beita þvingunum er því ekki í anda Krists og er jafnframt vafasöm til árangurs. Bent hefur verið á að mikilvægt er að halda uppi dialog, rökræðum við t.d. fólk og hreyfingar sem eru í hættu að færast út á jaðar samfélagsins í einhverju tilliti, hvort sem það er í hættu að fara út í glæpi eða öfgar af einhverju tagi.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/15 16:37 #

Það er semsagt réttlætanlegt að taka við blóðpeningum ef það er á trúarlegum forsendum? Duvalier fjölskyldan voru ekki útskúfaðir vesalingar eins og þú lætur hér uppi. Ég er a.m.k. kosti þeirrar skoðunar að ef að einstaklingar stunda þjóðarhreinsanir að þá megi útskúfa þeim og beita þá þvingunum, a.m.k. kosti ekki að fegra ímynd þeirra.

Agnes gekk skrefi lengra í sínum kristilega kærleik þegar að hún reyndi að fá fjárglæframenn sýknaða og ímynd fjöldamorðingja fegraða. Tók hún semsagt við þessum fjárhæðum í nafni Jesú Krists? Það var nú heppilegt.

Besta vörn ykkar Jóns Vals fyrir hönd Agnesar væri að segja hana hafa verið einfeldning sem vissi ekki betur. Annað verður ekki hrakið. Kynntu þér heimildirnar Ragnar.


Jón Valur Jensson - 14/02/15 19:05 #

Þú tekur mikið upp í þig, Tómas Daði Halldórsson. Hvað hefurðu fyrir þér um að Móðir Teresa hafi reynt "að fá fjárglæframenn sýknaða"? Hverjir voru þeir?

Og reyndi hún að fá "ímynd fjöldamorðingja fegraða"? Var hún einhvers staðar að reyna það?

Og telurðu enn að þú þurfir ekki að biðjast afsökunar á því að hafa haldið því fram, að Heimili hinna dauðvona í Kalkútta hafi líkzt "því sem sjá mátti á ljósmyndum frá útrýmingabúðum nasista"?

Og hver kenndi þér, að fóstureyðingar væru af hinu góða?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 14/02/15 20:20 #

Það er semsagt réttlætanlegt að taka við blóðpeningum ef það er á trúarlegum forsendum

Nei, það tek ég ekki undir.

Kynntu þér heimildirnar Ragnar

Hvaða heimildir Tómas? Það er engin heimildaskrá við pistilinn.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 14/02/15 23:08 #

Hvaða heimildir Tómas? Það er engin heimildaskrá við pistilinn.

Það hefur gleymst að setja hana við greinina! Lagfærði það.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 15/02/15 19:05 #

Nei, misskilningur hjá mér. Heimildirnar voru bara settar inn í meginmál textans. Á internetinu er hægt að vísa á heimildir bara í textanum sjálfum, oft með svokölluðum "linkum" ;)


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 15/02/15 19:22 #

Ég notaði heimasíðuna þína m.a. sem heimild Ragnar :)

Þar er hún einmitt kölluð Agnes.


Jón Valur Jensson - 16/02/15 00:32 #

Eftir að hafa skoðað málin enn betur og farið í saumana á því litla bitastæða, hvað heimildir varðar, sem er á bak við þessa vefsíðu um Móður Teresu og Haítí, þá er ég kominn að þeirri niðurstöðu, að hér sé sennilega um beinar falsanir að ræða í mikilvægum atriðum í sambandi við tengsl hennar við Haítí.

Hér segir í grein Tómasar Daða:

"Dýrlingur meðal illmenna og skúrka

Sem dæmi má nefna heimsókn hennar árið 1981 til Duvalier fjölskyldunnar í Haíti. Hún blessaði fjölskylduna og sagði fjölmiðlum m.a. að þau elskuðu þá fátæku. Duvalier fjölskyldan samanstendur meðal annars af François Duvalier og Jean-Claude Duvalier en fyrir utan að lifa ríkulegum lífsstíl í einni fátækustu þjóðum heims þá eru þeir þekktir fyrir að vera meðal grimmustu einræðisherra sem uppi hafa verið.

Þeir bera ábyrgð á tugþúsund morða ríkisborgara Haíti, sem og ólöglegum viðskiptum með líkamsparta og fíkniefni. Þeir styrktu Móður Teresu um milljónir bandaríkjadala sem þeir höfðu rænt af borgurum landsins með villimannslegum aðferðum. Báðir aðilar högnuðust á þessum viðskiptum, Duvalier fjölskyldan fegraði ímynd sína útá við og Vatíkanið græddi gífurlegt fjármagn sem meira og minna skiptist niður á leynilega bankareikninga þeirra." Tilvitnun lýkur.

Hér verður ekki annað séð en því sé haldið fram, að Móðir Teresa hafi verið vinur beggja Duvalier-feðganna, François og Jean-Claude. En hvergi finn ég heimild fyrir því, að hún hafi stigið þangað fæti fyrr en 1981, né að hún hafi verið í sambandi við François Duvalier. Hann var forseti þarna 1957-1971 og lézt 21. apríl 1971 (http://en.wikipedia.org/wiki/François_Duvalier). Hún kom ekki til Haítí fyrr en áratug eftir andlát einræðisherrans, þess eldra, en það er þessi François Duvalier sem var ábyrgur fyrir þeim (allt að) 30.000 manndrápum, sem talað er um í ýmsum heimildum ("thousands" segir í öðrum), og var hikstalaust hinn mesti harðstjóri sem lét pynta fanga, svelta þá til bana o.s.frv.

Í hemildinni http://countrystudies.us/haiti/17.htm segir svo:

"Resistant to both domestic and foreign challenges, Duvalier [ELDRI] entrenched his rule through terror (an estimated 30,000 Haitians were killed for political reasons during his tenure), emigration (which removed the more activist elements of the population along with thousands of purely economic migrants), and limited patronage."

En við þennan François Duvalier var Móðir Teresa ekki í neinu vinfengi né hitti hann! Það var sonurinn Jean-Claude, sem hún hitti, og kona hans Michèle Bennett (sem var komin af Henry I, konungi Haítí, í 6. lið).

François Duvalier var forseti Haítí í 14 ár, 1957-71, en Jean-Claude í 15 ár. Sá síðarnefndi, sem var af föður sínu útvalinn efirmaður hans og komst til valda aðeins 19 ára, var fyrst og fremst gjálífisseggur og afar vanhæfur stjórnandi, dottaði jafnvel áhugalaus á ríkisráðsfundum, en kona hans ráðrík, en bæði þó spillt af munaðarlífi.

(Framhald.)


Jón Valur Jensson - 16/02/15 00:35 #

Jean-Claude Duvalier (og lögregla hans) er talinn ábyrgur fyrir um 1000 manndrápum/mannslátum í fangelsum og víðar í stjórnartíð sinni. Það mun naumast hafa verið fyrst og fremst vegna mannréttindabrota, sem Jean-Claude hraktist frá völdum 1986, heldur vegna svínaflenzunnar sem hafði herjað á Dóminíkanska lýðveldið frá 1978 og olli því, að Bandaríkjastjórn þrýsti á Haítímenn að slátra öllum svínastofni landsins. Þótt nýr stofn hafi verið útvegaður, var hann mun lakari fyrir aðstæður þar og bændum mjög uppsigað við stjórn landsins þess vegna (sjá http://countrystudies.us/haiti/18.htm), auk hneykslunar víða vegna ríkidæmis forsetahjónanna í fátæku landinu, þar sem margir voru vannærðir. Hafði þeim þó verið tekið furðuvel eftir feiknadýra brúðkaupsveizluna, en þau gerðu sér það að vana að birtast fyrirvaralaust víða um landið meðal alþýðu, og það mun hafa legið að baki því, að "On a visit to Haiti, Mother Teresa remarked that she had "never seen the poor people being so familiar with their head of state as they were with [Michèle]."" (http://en.wikipedia.org/wiki/Michèle_Bennett).

Hér – http://countrystudies.us/haiti/18.htm – segir svo um veldistíma Jean-Claude Duvalier:

"The public displayed more affection toward Jean-Claude than they had displayed for his more formidable father. Foreign officials and observers also seemed more tolerant toward "Baby Doc," in areas such as human-rights monitoring, and foreign countries were more generous to him with economic assistance. The United States restored its aid program for Haiti in 1971."

Augljóst virðist, að vart hefur hann komizt í hálfkvisti við föður sinn í grimmd og illræðisverkum, enda vogaði hann sér að koma til heimalandsins árið 2011 úr sinni aldarfjórðungs löngu útlegð í Frakklandi. Hann var þá reyndar lögsóttur fyrir spillingu og mannréttindabrot, en málssóknin þó stöðvuð síðar, og dvaldist hann þar án þess að fá á sig dóm hátt í hálfan áratug eftir heimkomuna úr útlegðinni (16. jan. 2011–dd. 4. okt. 2014).

Lesum nú þetta sem segir hér í skýrslu Amnesty International snemma árs 2014, http://www.amnesty.org/en/news/haiti-duvalier-case-back-course-towards-justice-victims-2014-02-21 :

"[Jean-Claude] Duvalier appeared before the Court of Appeal in Port-au-Prince on 28 February 2013, for the first time giving public testimony related to alleged crimes during his rule. ––– Between March and May 2013, eight victims gave testimony in court. Testimony concluded in May, and the Court of Appeal’s decision had been pending ever since. ––– Duvalier, also known as “Baby Doc,” inherited power from his father, François Duvalier, and ruled Haiti from 1971 to 1986. During his rule, Haitian life was marked by systematic human rights violations.  Hundreds of political prisoners died from mistreatment or were victims of extrajudicial killings. Duvalier’s government repeatedly closed independent newspapers and radio stations. Journalists were beaten, in some cases tortured, jailed, and forced to leave the country. ––– He is also alleged to have embezzled hundreds of millions of dollars during his presidency."

Já, ljót er lýsingin, þótt margir hafi verið mun verri og séu enn.

En svo er hér eitt, sem þið þegið alveg um (kannski óþægilegt fyrir Vantrúarmenn að nefna það?), þ.e.a.s. áhrif Jóhannesar Páls II páfa í þá átt að ýta af stað hreyfingu til að losa landið undan harðstjórn Jeans-Claude Duvalier (http://en.wikipedia.org/wiki/Jean-Claude_Duvalier og í fleiri heimildum):

"Widespread discontent began in March 1983, when Pope John Paul II visited Haiti. The pontiff declared that "Something must change here." He went on to call for a more equitable distribution of income, a more egalitarian social structure, more concern among the elite for the well-being of the masses, and increased popular participation in public life. This message revitalized both laymen and clergy, and it contributed to increased popular mobilization and to expanded political and social activism."

Átti stjórn Ronalds Reagan líka sinn þátt í því að koma þessum einræðisherra frá völdum 1986. Honum var að vísu meinað um hæli í Bandaríkjunum, en það ríki skaut þó flugvél undir Duvalier-hjónin og 19 manna fylgdarlið þeirra til að þau gætu lagt frá sér valdataumana og komið sér úr landi til Frakklands, eina ríkinu sem vildi taka við þeim, eftir að Jean-Claude hafði um tíma farið að ráðum konu sinnar um að berja niður mótstöðuöflin.

Ég hygg þó að þessi lýsing Tómasar Daða, að því er tekur til Duvaliers hins yngri, verði að teljast mjög orðum aukin: "eru þeir þekktir fyrir að vera meðal grimmustu einræðisherra sem uppi hafa verið." ––– Einræðisherra, sem lætur drepa með ýmsum hætti um 1000 manns á 15 veldisárum sínum, er fjarri því að teljast meðal afkastamestu grimmdarseggja mannkynssögunnar á 20. öld. En trúlega hefur þetta átt að krydda söguna hjá höfundi þessa vefpistils, sem nú fær að finna fyrir því, að það kemur sér alltaf illa fyrir menn að vinna ekki heimildavinnu sína með nógu nákvæmum hætti til að mark verði takandi á skrifum þeirra. En árangur Tómasar –– að hafa þessi Haítí-tengsl til að ófrægja Móður Teresu þeim mun meira sem hann klínir að ósekju á hana tengslum við morðvarg þrjátíu þúsunda Haítímanna –– entist honum ekki marga daga, þar til upp komst um strákinn Tuma.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 09:39 #

Takk fyrir þetta svar Jón Valur. Heimildin talar aðeins um Jean Claude Duvalier er varðar heimsókn Móður Teresu og því gerist ég sekur um óskýrt orðalag þegar að ég segi þeir en ekki þau. Ég breytti þessu og tala nú um Duvalier fjölskylduna svo ekki sé hægt að ruglast á því hvorn þeirra feðga ég tala um þegar kemur að heimsókn Móður Teresu. Eftir stendur öll greinin og því tekurðu stórt upp í þig er þú ásakar mig um beina fölsun.

Auðvitað kenni ég hana samt við François Duvalier þar sem hann arfleiddi son sinn völdum sínum og blóðpeningum, ég sýni fram á af hvers konar einstaklingum fjölskyldan samanstendur.

Ég skal bæta þér þetta upp með öðrum tengslum Agnesar:

She supported Licio Gelli's nomination for the Nobel Prize in Literature. Gelli is known for being the head of the Propaganda Due masonic lodge, which was implicated in various murders and high-profile corruption cases in Italy, as well as having close connections with the neo-fascist Italian Social Movement and the Argentine Military Junta.

http://en.wikipedia.org/wiki/Criticism_of_Mother_Teresa

http://archiviostorico.corriere.it/2006/febbraio/17/Licio_Gelli_merita_vittoria_parola_co_9_060217129.shtml


Jón Valur Jensson - 16/02/15 11:54 #

Þú breytir því ekki eftir á, Tómas Daði, að þú hefur klínt henni saman við harðstjórnartíð François Duvalier og lézt lesendur halda þetta í alvöru, að henni væri sama um að vera gestur slíks manns án þess að hafa nokkurn tímann verið það! Hitt er rétt hjá þér að breyta rangsögn þinni um þessi mál, þótt upphaflegi textinn og það, sem þú í raun ritaðir, standi hér í innleggi mín sem minnisvarði um óvönduð vinnubrögð þín. Vilji menn ófrægja einhvern, er lágmark að það sé gert á grunni staðreynda.

En reyndar ertu alls ekki búinn að breyta þessu ennþá í sæmilegt horf!!! –– Í texta þínum stendur nú:

"Sem dæmi má nefna heimsókn hennar árið 1981 til Duvalier fjölskyldunnar í Haíti. Hún blessaði fjölskylduna og sagði fjölmiðlum m.a. að þau elskuðu þá fátæku. Duvalier fjölskyldan samanstendur meðal annars af François Duvalier og Jean-Claude Duvalier en fyrir utan að lifa ríkulegum lífsstíl í einni fátækustu þjóðum heims þá eru þeir þekktir fyrir að vera meðal grimmustu einræðisherra sem uppi hafa verið.

Þarna talarðu í nútíð og nefnir hvergi, að hinn langhræðilegasti einstaklingur í þessari "Duvalier-fjölskyldu", François Duvalier, LÉZT árið 1971, tíu árum fyrir komu Móður Teresu þangað! Halda mætti af orðum þínum, að hún hafi jafnvel blessað François Duvalier með hinum, en það gerði hún aldrei. Þú ert því óvandaður skríbent, og af sama tagi er það, að þú ert enn í feitletraði millifyrirsögn að tala um "ógeðslega arfleið Móður Teresu", manneskju sem flestir dá fyrir líknarverk og stofnanda dýrmætrar hreyfingar sem starfar í þágu hinna fátækustu allra og starfar einnig hér á landi að líknarmálum. Þetta er einfaldlega dæmigert fyrir hið argasta vanþakklæti og beinlínis hatur, sem gætt hefur meðal Vantrúarmanna á kristindómi og kristnu fólki.

Og iðrunarlaus ertu líka ennþá varðandi þá staðreynd, að þú, undir fyrirsögninni Dauðabúðirnar í Kalkútta líktir (og gerir það enn!) Heimili hinna dauðvona í Kalkútta við "ljósmynd[ir] frá útrýmingabúðum nazista" og byggðir þetta á EINU vitni (þvert gegn öðrum), á manni sem þú hefur ekki hugmynd um, hve lengi dvaldist þarna, og veizt ekki einu sinni hvað hét eða heitir!

Hvernig Jean-Claude komst til valda (pabbadrengur, án alls lýðræðislegs umboðs) breytir því ekki, að hann var í reynd æðsti maður þessa ríkis í 15 ár. Sem slíka heimsækja menn jafnvel menn sem þennan, ef brýn nauðsyn er; og því verður ekki neitað, að Jóhannes Páll II átti þangað þarfa heimsókn og stuðlaði þar eins og í Póllandi –– og víðar raunar! –– að hruni harðstjórnarríkis. Merkilegt annars, að þú forðast að minnast á Jóhannes Pál II !

Erfitt ástand í Haítí var alveg nóg ástæða fyrir Móður Teresu til að heimsækja landið, en að hún hafi látið hrósyrði falla um samband forsetahjónanna við alþýðuna verður, þótt satt sé að hluta, að reiknast á varúðarleysi hennar gagnvart veraldlegum valdhöfum. Að hún hafi þegið framlög frá þessu ríki eða Jean-Claude sjálfum, þarftu að rökstyðja betur, og sannarlega ferðu með meira fleipur í kaflanum "Vafasamur heilagleiki" þar sem þú skrifar: "Hún var peð kaþólsku kirkjunnar og notaði ímynd sína til að bæta ímynd spilltra valdhafa og fjárglæframanna og moka um leið fjármagni inn um dyr Vatíkansins" og bætir seinna við: "Vatíkanið græddi gífurlegt fjármagn sem meira og minna skiptist niður á leynilega bankareikninga þeirra." Ég þykist alveg viss um, að þú hafir EKKERT fyrir þér í þeirri ásökun. Páfaríkið leggur ekki undir sig framlög til kaþólskra hjáparstofnana. Sjálfur segirðu í næstu setningu á undan: "Fjármál [sic, þar á að standa: Fjármálum] samtaka hennar var haldið leyndu, en það sem hefur komið upp á yfirborðið bendir til gífurlegrar spillingar." ––Hvaðan þykistu þá –– þegar þú sjálfur ber því vitni, að þú hafir ekki aðgang að fjármálum Kærleikstrúboðanna –– hafa vitneskju um, að hún hafi gefið Vatíkaninu "gífurlegt fjármagn"? Frá páfanum sjálfum?! Frá fjármálaráðherra Vatíkansins? Úr yfirlýsingum Móður Teresu sjálfrar?

Stattu nú fyrir máli þínu! –– og það er jafnvel enn meira af því tagi í grein þinni, sem ég verð að skilgreina sem falsanir.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 14:39 #

Þarna talarðu í nútíð og nefnir hvergi, að hinn langhræðilegasti einstaklingur í þessari "Duvalier-fjölskyldu", François Duvalier, LÉZT árið 1971, tíu árum fyrir komu Móður Teresu þangað! Halda mætti af orðum þínum, að hún hafi jafnvel blessað François Duvalier með hinum, en það gerði hún aldrei.

Það er bara þinn skilningur á þessu. Ég efast ekki um að Móðir Teresa hafi vitað hver faðir Jean Claude hafi verið. Ég læt ekki líta út fyrir eitt eða neitt. Persónulega finnst mér Michéle hafa verið andstyggilegust þeirra, en þeim Móður Teresu kom vel saman.

Og iðrunarlaus ertu líka ennþá varðandi þá staðreynd, að þú, undir fyrirsögninni Dauðabúðirnar í Kalkútta líktir (og gerir það enn!) Heimili hinna dauðvona í Kalkútta við "ljósmynd[ir] frá útrýmingabúðum nazista" og byggðir þetta á EINU vitni (þvert gegn öðrum), á manni sem þú hefur ekki hugmynd um, hve lengi dvaldist þarna, og veizt ekki einu sinni hvað hét eða heitir!

Mary London fyrrum sjálfboðaliði í Kalkútta skrifaði eftirfarandi:

My initial impression was of all the photographs and footage I've ever seen of Belsen [Nazi death camp] and places like that, because all the patients had shaved heads. No chairs anywhere, there were just these stretcher beds. They're like First World War stretcher beds. There's no garden, no yard even. No nothing. And I thought what is this? This is two rooms with fifty to sixty men in one, fifty to sixty women in another. They're dying. They're not being given a great deal of medical care. They're not being given painkillers really beyond aspirin...for the sort of pain that goes with terminal cancer....(Christopher Hitchens, The Missionary Position: Mother Teresa in Theory and Practice; Verso, London, NewYork, 1995, pp 39-40)

    -

The New York-based Human Rights Watch estimated that up to 30,000 Haitians were killed, many by execution, under the regime of the two Duvaliers, which lasted nearly three decades.

Þeim feðgum er báðum eignaður þessi mannfjöldi.

Jóhannes Páll páfi kallaði vissulega á breytingar eftir heimsókn sína í Haíti árið 1983. Ég var hins vegar að skrifa grein um Móður Teresu.

Jóhannes Páll páfi sparaði þó fordæmingarnar ef hagsmunir Kaþólsku kirkjunnar voru í húfi.

Her order had limited success in South America because she did not approve of "liberation theology" and priests who involved themselves in community work in opposition to dictatorial governments. Neither she nor the pope openly condemned the 1980 killing by a CIA-sponsored death squad of Archbishop Romero of El Salvador while he was conducting mass.

Vatíkanið græddi gífurlegt fjármagn sem meira og minna skiptist niður á leynilega bankareikninga þeirra." Ég þykist alveg viss um, að þú hafir EKKERT fyrir þér í þeirri ásökun. Páfaríkið leggur ekki undir sig framlög til kaþólskra hjáparstofnana.

Rétt hjá þér. Missionaries of Charity eru einu hjálparsamtök Indlands sem höfðu bókhald sitt lokað. Ég dreg skynsamlega ályktun frá þeim ríku sem styrktu hana opinberlega, Bill Donahue sem þú kannst líklega við talaði sjálfur um að hún hafi einfaldlega verið sniðug að taka fjármagn frá þeim ríku og átti þar við Duvalier fjölskylduna. Verst að fjármagnið skilaði sér ekki til hinna fátæku. Eftir að Charles Keating hafði verið ákærður þá neitaði Móðir Teresa að skila fjármagninu. Því sem ekki er haldið leyndu er að fjármagn hennar var geymt á reikningum Vatíkan bankans

https://www.youtube.com/watch?v=UdYKsiredbM

Langaði að benda þér á þessar rökræður Jón Valur, þú gæti haft gaman af þessu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 15:51 #

Jæja, Jón Valur - nú hefur þú fengið nafn sjálfboðaliðans sem líkti dauðaheimilum Agnesar við myndir af útrýmingarbúðum nasista.

Viltu þá ekki biðjast afsökunar á framferði þínu hér?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 17:08 #

Enn er þessi skóli með 5000 nemendum ófundinn.


Jón Valur Jensson - 16/02/15 18:05 #

Nei, Tómas Daði, þótt Human Rights Watch segi þetta einhvers staðar, þá er það eldri Duvalier-inn sem er ábyrgur fyrir allt að 30.000 mannslífum, en hinn yngri, sonurinn Jean-Claude, um 1.000 eða jafnvel (með orðum Amnesty International í skýrslunni 2014, sem ég gaf hér innsýn í í fyrrinótt kl. 0.35) nokkrum hundruðum:

"Duvalier, also known as “Baby Doc,” ... ruled Haiti from 1971 to 1986. During his rule, Haitian life was marked by systematic human rights violations. Hundreds of political prisoners died from mistreatment or were victims of extrajudicial killings. Duvalier’s government repeatedly closed independent newspapers and radio stations. Journalists were beaten, in some cases tortured, jailed, and forced to leave the country."

Og ekki fæ ég skilið þessi skrýtnu orð þín: "Persónulega finnst mér Michéle hafa verið andstyggilegust þeirra," nema þá helzt út frá orðunum sem þú bætir við: "en þeim Móður Teresu kom vel saman," því að svo illa er þér við Móður Teresu, að þú virðist líta á hana sem versta þeirra þriggja!

Skrif þín öll um hana bera vitni um hatursfordóma, sýnist mér.

Loksins kom frá þér eða ykkur uppl. um þessa Mary London fyrrum sjálfboðaliða í Kalkútta, sem bar sjúkrastöð hinna deyjandi þar fremur ófagran vitnisburð, en ennþá vantar þó uppl. um það, hve lengi eða skamma hríð hún var þarna. Það er þó gagnlegt að hafa fengið þessa tilvitnun í bók Hitchens hins andkristna, því að í ljós kemur, að í grein þinni er í raun gefið meira og ljótara í skyn en í orðum hennar fólst. Eina líkingin við eitthvað tengt nazistum var það, hvernig sjúkingarnir voru snoðrakaðir (eflaust í hreinlætisskyni): "My initial impression was of all the photographs and footage I've ever seen of Belsen and places like that, because all the patients had shaved heads." –– Þetta gefur sannarlega ekki í skyn, að þeim hafi verið haldið vannærðum og að þeir hafi ekki fengið neina mannlega umhyggju. Hitt gerir fr. London líka í beinu framhaldi: að bera aðbúnaðinn saman við annað –– ekki úr dauðabúðum nazista, heldur úr sjúkraskýlum fyrri heimsstyrjaldar: "No chairs anywhere, there were just these stretcher beds. They're like First World War stretcher beds."

Síðan fer hún í beinu framhaldi að kvarta yfir því, að það hafi ekki verið neinn sjúkrahúsgarður þarna: "There's no garden, no yard even. No nothing." ––En þarna var verið að gera sem mest fyrir takmarkað fé. Fróðlegt hefði verið að vita, hvenær þessi Mary London var þarna og hvort það var kannski á frumbýlingsárum Kærleikssystranna.

Kenny kvartar reyndar um þetta líka: "They're not being given a great deal of medical care. They're not being given painkillers really beyond aspirin...for the sort of pain that goes with terminal cancer..." (og svo sleppir þú eða Hitchen úr framhaldinu). ––Já, eflaust hefur hún haft takmarkað magn af morfíni fyrir þá kannski fáu sem voru með krabbamein, en það er samt ekki ástæða til að vanmeta þá hjálp við deyjandi fólk, sem þarna var veitt og það ókeypis, í stað þess að fólk yrði að deyja úti á götum Kalkútta.

Svo tók ég líka eftir upphafsorðunum: "My initial impression was ..." –– en hvernig leit Mary London á þessa sjúkrastöð eftir heldur lengri reynslu af henni? Um það getur þú EKKI.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 19:15 #

Hér má sjá vitnisburð Susan Shields sem starfaði í hartnær áratug fyrir Móður Teresu:

As a Missionary of Charity, I was assigned to record donations and write the thank-you letters. The money arrived at a frantic rate. The mail carrier often delivered the letters in sacks. We wrote receipts for checks of $50,000 and more on a regular basis. Sometimes a donor would call up and ask if we had received his check, expecting us to remember it readily because it was so large. How could we say that we could not recall it because we had received so many that were even larger?

When Mother spoke publicly, she never asked for money, but she did encourage people to make sacrifices for the poor, to "give until it hurts." Many people did - and they gave it to her. We received touching letters from people, sometimes apparently poor themselves, who were making sacrifices to send us a little money for the starving people in Africa, the flood victims in Bangladesh, or the poor children in India. Most of the money sat in our bank accounts.

The flood of donations was considered to be a sign of God's approval of Mother Teresa's congregation. We were told by our superiors that we received more gifts than other religious congregations because God was pleased with Mother, and because the Missionaries of Charity were the sisters who were faithful to the true spirit of religious life.

Most of the sisters had no idea how much money the congregation was amassing. After all, we were taught not to collect anything. One summer the sisters living on the outskirts of Rome were given more crates of tomatoes than they could distribute. None of their neighbors wanted them because the crop had been so prolific that year. The sisters decided to can the tomatoes rather than let them spoil, but when Mother found out what they had done she was very displeased. Storing things showed lack of trust in Divine Providence.

http://www.secularhumanism.org/library/fi/shields_18_1.html

Páfaríkið og fjárlögin.

A report in German magazine Stern, revealed that in 1991 only seven percent of the donation received at Missionaries of Charity was used for charity. Former volunteers and people close to the Mother House revealed that the Vatican, home to the Pope, has control over the “monetary matters” ever since Missionaries of Charity came under its fold in 1965. The control got stronger after Mother Teresa died in 1997.

When asked about how much money the Charity gets annually, the then superior general Sister Nirmala in a rare media interview a few years ago remarked “Countless.” When asked how much it was, she answered, “God knows. He is our banker.” Forbes India’s request for details was turned down at the Mother House. Sister Mary Prema, the present superior general, did not agree to a meeting.

http://www.forbes.com/2010/08/10/forbes-india-mother-teresa-charity-critical-public-review.html


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 19:16 #

Eina líkingin við eitthvað tengt nazistum var það, hvernig sjúkingarnir voru snoðrakaðir (eflaust í hreinlætisskyni): "My initial impression was of all the photographs and footage I've ever seen of Belsen and places like that, because all the patients had shaved heads.

Þetta er líking við útrýmingabúðir nasista. Ég sagði að vitni hafi líkt Home for the dying við útrýmingabúðir nasista. Einkennilegt að sjálfboðaliðum búðanna hafi verið svo annt um hreinlæti að þeir hafi snoðrakað vistfólk, svona miðað við það að notaðar sprautunálar voru þrifnar í köldu vatni.

En þarna var verið að gera sem mest fyrir takmarkað fé

Fé þeirra var aldrei takmarkað.

Já, eflaust hefur hún haft takmarkað magn af morfíni fyrir þá kannski fáu sem voru með krabbamein, en það er samt ekki ástæða til að vanmeta þá hjálp við deyjandi fólk, sem þarna var veitt og það ókeypis, í stað þess að fólk yrði að deyja úti á götum Kalkútta.

Í stað þess að fólk yrði að deyja úti á götum Kalkútta hefði verið betra að stofna til sómasamlegrar sjúkrastofnunar fyrir það fjármagn sem Móðir Teresa bjó yfir.


Jón Valur Jensson - 16/02/15 19:28 #

Svo kemurðu þarna, Tómas Daði, með fráleit orð og fáránleg í framhaldinu, segir um páfann: "Jóhannes Páll páfi sparaði þó fordæmingarnar ef hagsmunir Kaþólsku kirkjunnar voru í húfi," en þú styður það ENGUM gildum rökum. Í tilvitnunarramma þar á eftir segirðu hins vegar:

"Her order had limited success in South America because she did not approve of "liberation theology" and priests who involved themselves in community work in opposition to dictatorial governments."

Þetta eru fráleit orð, en eftir hverjum hefurðu þau? Trúlega þínum fordómafulla C. Hitchen –– og ekki látið svo lítið að styðja þau rökum eða staðreyndum. Því fer fjarri, að frelsunarguðfræðin (marxísk að hluta) hafi verið útbreidd víða meðal suðuramerískra presta; hún var þá ennþá nær því að vera jaðarhreyfing, og síðan hefur raunar ekki orðið mikið úr henni. Fjarri fer því, að sú róttæka, pólitíceraða guðfræði hafi staðið Kærleikssystrunum fyrir þrifum með að starfa í Suður-Ameríku. En síðan skrifar þú eða (trúlega) þetta fordómafulla átrúnaðargoð ykkar Hitchen:

"Neither she nor the pope openly condemned the 1980 killing by a CIA-sponsored death squad of Archbishop Romero of El Salvador while he was conducting mass."

Vígið hryllilega á þessum elskaða erkibiskupi, sem hafði ekkert með marxíska stefnu að gera, frammi fyrir sjálfu altarinu í sjúkrahúskapellu 24. marz 1980, vakti hrylling meðal kaþólskra og annarra kristinna manna um allan heim –– mín þar á meðal. Fráleitt er af ykkur eða Hitchen að gefa í skyn, að þetta ódæðisverk dauðasveita gegn manni, sem naut gríðarlegrar virðingar og vinsælda, hafi páfinn og Móðir Teresa ekki séð sem það sem það var, eða haldið þið, að þetta hefði ella verið staðreynd máls, sem Wikipedia segir hér í grein um erkibiskupinn:

In 1997, Pope John Paul II bestowed upon Romero the title of Servant of God, and a cause for beatification and canonization was opened for him. As the canonization process continues, some consider Romero an unofficial patron saint of the Americas and/or El Salvador; Catholics in El Salvador often refer to him as "San Romero". Even outside of Catholicism, Romero is honored by other Christian denominations ...

Þar segir einnig í kafla um viðbrögðin við drápi hans í hinu kaþólska Írlandi: "All sections of Irish political and religious life condemned his assassination, with the Irish Minister for Foreign Affairs Brian Lenihan 'expressing shock and revulsion at the murder of Dr Romero' ... The previous October parliamentarians had given their support to the nomination that Archbishop Romero receive the Nobel Prize for Peace."

Ég var við nám í Englandi, þegar þessir atburðir áttu sér stað, og fylgdist vel með skrifum brezku blaðanna, útvarps, sjónvarps og kaþólskra blaða um þessi mál og ritaði allmikla grein í Morgunblaðið 26. okt. 1980, á opnunni bls. 38–39: ‘Höfuðbiskup á faraldsfæti. Úttekt á athafnasemi páfa’ [Jóhannesar Páls 2.] og þýddi og endursagði aðra úr The Sunday Times, sem birtist sama dag í Morgunblaðinu: ‘Brasilíuferð páfa: Harðnandi afstaða gegn þjóðfélagslegu misrétti’ og þær getið þið báðar lesið hér, ef þið viljið: timarit.is/viewpageinit.jsp?issId=117994&pageId=1532961&lang=is&q=p%E1fa

Síðarnefndu greininni lýkur með þessum orðum:

En það er í latnesku Ameríku, sem spurningin um afstöðu kirkjunnar til stjórnmála brennur mönnum mest á vörum, því að hvað eftir annað hefur rómversk-kaþólska kirkjan gert ýmislegt í andstöðu við ríkisvaldið, sem varla á sér hliðstæðu annars staðar í alræðisríkjum heimsins. Slíkir árekstrar hafa átt sér stað um alla álfuna og jafnvel leitt til blóðbaðs. Í Guatemala voru hátt í tuttugu prestar drepnir á síðastliðnu ári. Í El Salvador var Oscar Romero erkibiskup ráðinn af dögum, og því hefur verið fylgt eftir með fleiri morðum, m.a. á ítölskum presti, og ásökunum herforingjastjórnarinnar um að kirkjan aðstoði skæruliða. Í Chile hefur Pinochet-stjórnin ákært Silva Henriquez kardínála um samsæri til að steypa herforingjastjórninni af stóli. Með yfirlýsingum sínum í nýlokinni Brasilíuferð hefur páfinn gefið kirkjunni í S-Ameríku endurnýjaða leiðsögn í allri þessari baráttu.

Ef þið ætlið ykkur að leita einhvers, sem gert hefur meira til að berjast fyrir frelsi þjóða og fátæka alþýðu en Jóhannes Pál II, hinn pólska Karol Józef Wojtyła, þá er ég hræddur um að þið megið leita lengi.


Jón Valur Jensson - 16/02/15 19:44 #

Verð að láta þennan viðauka-aths. nægja í bili:

Þú sagðir, Tómas Daði, með þínum eigin orðum, "að vitni hafi líkt Home for the dying við útrýmingabúðir nasista," en það gerði vitnið EKKI, líkti ekki heimilinu við útrýmingabúðir nazista, heldur líkti það snoðrakstrinum við snoðrakstur í Belsen-Belsen-dauðabúðum nazista –– og þetta er tvennt ólíkt.

Þegar fólk kemur inn af götunni, hafandi verið án mannsæmandi húsnæðis og hreinlætis, er ósköp eðlilegt, að það sé byrjað á því að snoðraka það og þvo allan þess líkama vandlega. Það hefur ekkert með nazisma og þann hrylling eða Gyðingaofsóknir að gera, heldur sótthreinsun og eðlilega sjúkraaðhlynningu miðað við frumstæðar aðstæður.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 19:49 #

Þú virðist svo viss um að hér sé Hitchens á ferðinni að ég ætla að leyfa þér að halda það. Hitchens er langt frá því að vera átrúnaðargoð mitt svo að þú skalt ekki gera mér upp skoðanir. Kaþólska kirkjan hefur samt sem áður ekki þrætt fyrir innihald bókar hans, The missionary position, nema þá með tilraun til að réttlæta gjörðir Móður Teresu.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 19:50 #

heldur sótthreinsun og eðlilega sjúkraaðhlynningu miðað við frumstæðar aðstæður.

Frumstæðar aðstæður vegna þess að Móðir Teresa kaus að hafa þær frumstæðar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 20:03 #

Hugsanlega var það bara snoðklippingin sem minnti þessa manneskju á myndir frá útrýmingabúðum nasista, kannski var það líka eitthvað fleira.

This is two rooms with fifty to sixty men in one, fifty to sixty women in another. They're dying. They're not being given a great deal of medical care.

En það hentar Jón Val að lesa þetta með afar valkvæmum hætti í stað þess að biðjast afsökunar á furðulega ruddalegu framferði sínu hér.


Jón Valur Jensson - 16/02/15 20:19 #

"Frumstæðar aðstæður vegna þess að Móðir Teresa kaus að hafa þær frumstæðar," segir þú í þínum þvergirðingshætti, Tómas Daði, en virðist lítt hugsa út í þá staðreynd, hve mikið það kostar að reka öll þau Homes for the dying, sem voru orðin 517 talsinsvið andlát hennar 1997 (miklu víðar en í Kalkútta), í yfir 100 löndum.

Kærleikstrúboðarnir eru nú orðnir 4.501 talsins og starfa í 133 löndum heims, og þú getur rétt ímyndað þér, hvort allt það hjálparstarf og allur sá rekstur kostar ekki mikið, þótt þær lifi einföldu lífi að fyrirmynd frelsarans. –––> http://en.wikipedia.org/wiki/MissionariesofCharity

Þið í Vantrúarféaginu eruð kannski bara öfundsjúkir út af þessu, enda sárlega meðvitaðir um, að slík fórnarverk –– að gefa jafnvel ævi sína í að vinna fyrir fátæka og smáða –– eru víðs fjarri ykkar hugmyndaflugi.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 20:28 #

Enda erum við örgustu trúleysingjar. Eins og reyndar Móðir Teresa.

I call, I cling, I want — and there is no One to answer — no One on Whom I can cling — no, No One. — Alone … Where is my Faith — even deep down right in there is nothing, but emptiness & darkness — My God — how painful is this unknown pain — I have no Faith — I dare not utter the words & thoughts that crowd in my heart — & make me suffer untold agony. So many unanswered questions live within me afraid to uncover them — because of the blasphemy — If there be God — please forgive me — When I try to raise my thoughts to Heaven — there is such convicting emptiness that those very thoughts return like sharp knives & hurt my very soul. — I am told God loves me — and yet the reality of darkness & coldness & emptiness is so great that nothing touches my soul.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 16/02/15 23:07 #

Móðir Teresa var sannarlega ekki trúleysingi þrátt fyrir að hún hafi eins og margir trúmenn glímt við efasemdir sem hún trúir dagbók sinni fyrir. Ævina á enda lifði hún lífi sínu samkvæmt trúnni og varði því í þágu hugsjóna sinna sem var að líkna og hjálpa.

Ég er búinn að skima yfir heimildirnar, en sé hvergi sönnun þess að Móðir Teresa hafi þegið milljónir dollara frá Duvalier fjölskyldunni eins og tekið er skýrt fram í pistlinum.

Það er líklega alltaf þannig að þegar bókhald er lokað að flökkusögur fara á kreik. Setjum hlutina aðeins í samhengi. Susan Shields fannst 50.000 dollarar vera há upphæð (uþb. 6,6 millj. ísl. króna á núvirði), en það er dýrt að veita nútíma læknisþjónustu, sérstaklega fyrir milljónir manna. Rekstur sjúkrastofnana á Íslandi kostaði 45 milljarða á síðasta ári og hér búa liðlega 330 þús. manns. Það gera um 136 þús. kr. á hvert mannsbarn í landinu.

Skv. þessari heimild: http://books.mongabay.com/population_estimates/full/Calcutta-India.html

voru íbúar Kolkata tæpl. 12 milljónir árið 1995. Ef við notum kostnaðinn við íslensku sjúkrastofnanirnar sem viðmið þá hefði það þurft að kosta á að giska 1.625.863.636.364 kr.að reka sjúkrastofnanir sem jöfnuðust á við íslenska heilbrigðiskerfið að gæðum í Kolkata árið 1995.

Til að skilja þetta betur þá eru þetta um 1,6 milljónir milljarða. Hvernig átti ein nunna eða yfirhöfuð kaþólska kirkjan í heild sinni að geta komið til móts við þessa þörf sem óneitanlega hlýtur að hafa verið til staðar? Heilbrigðiskerfið er þar er að líkindum einkarekið að mestu og þá aðeins í boði fyrir þá sem geta greitt sjúkrahúsreikningana að fullu. Þetta þýðir að fjöldi fólks verður bæði að lifa og deyja án læknisþjónustu. Það er þetta fólk sem Móðir Teresa starfaði fyrir og hlýtur hér litlar þakkir fyrir eins og sjá má.


Jón Valur Jensson - 16/02/15 23:32 #

Mjög gott innlegg, Ragnar, heilar þakkir fyrir það!

Ef þetta er rétt vitnað til orða Móður Teresu í síðasta innleggi Tómasar Daða, þá er ekki að undra, að hann skilji þetta ekki nema sínum vantrúar-skilningi. En þarna upplifir Móðir Teresa sína "svörtu nótt" sem mystíkerarnir þekktu svo vel, já, þetta er þekkt fyrirbæri úr trúarsögunni, þessi yfirgefning (abandonment) Guðs úr vitund okkar um hann –– það sama upplifði Jesús á krossinum, eins og til að fullkomna kvalir hans: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?"

En þetta er ekki síðasta orðið, hvorki hjá honum, Móður Teresu né nöfnu hennar frá Lisieux né Jóhannesi af Krossi.

Tómas, þetta er meðal þess sem þú átt eftir að kynna þér, og gangi þér vel með það, þótt taka kunni það mörg árin.

En þú átt eftir að biðjast afsökunar á nazistísku ásökuninni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/02/15 23:34 #

En þú átt eftir að biðjast afsökunar á nazistísku ásökuninni.

Nei, þú átt eftir að biðjast afsökunar Jón Valur.


Jón Valur Jensson - 17/02/15 01:51 #

Matti lætur sem þessi lýsing Mary London: "This is two rooms with fifty to sixty men in one, fifty to sixty women in another. They're dying. They're not being given a great deal of medical care," feli í sér einhverja líkingu við útrýmingarbúðir nazista, en texti hennar bar annað með sér, það var bara snoðklippingin sem minnti hana á Belsen-Belsen-fanga. 50-60 manns komast vel fyrir í herbergi/sal, sé það nógu stórt, við vitum raunar ekki mikið um þetta dæmi, af því að fermetramálið fylgdi ekki, en hitt fylgdi þó, að sjúklingarnir voru í rúmum.

Ennfremur má alveg sjá af textanum, að sjúklingarnir fengu einhverja læknis- eða lyfjahjálp (ólíkt Gyðingum í Auschwitz!!), þótt Mary þessi tæki fram, að það væri takmarkað gagnvart svæsnustu sjúkdómum: "They're not being given painkillers really beyond aspirin...for the sort of pain that goes with terminal cancer..." ––Svo eigum við reyndar eftir að fá að vita, hvenær Mary London var þarna.

Frökk lokaorð Matta í tveimur síðustu innleggjum hitta hann sjálfan fyrir.


Þorgeir Tryggvason - 17/02/15 11:08 #

Gaman að sjá þetta kröftuga líf sem er hlaupið í vefinn eftir frekar dauflega tíma undanfarið. Og til hamingju með vel lukkaða útlitsbreytingu.

Ég hef tilhneygingu til að trúa þeim aðfinnslum sem gagnrýnendur hafa beint að Móður Theresu. Mín tilfinning er samt sú að hún hafi sér til afbötunar að hafa verið hálfgerður einfeldningu og ákaflega lítið veraldarvön.

Mér þykir hins vegar gagnrýni á hvað fólst - og fólst ekki - í starfi hennar í Kalkútta missa aðeins marks. Verkefni hennar á djúpar rætur í, og stjórnast algerlega af TRÚ hennar, – sannfæringu um stöðu hins jarðneska lífs í samhengi hins eilífa. Hún var einfaldlega ekki að fást við það sem okkur (mis- trúlausum en velviljuðum Vesturlandabúum) finnst að hjálparstarf eigi að snúast um.

Þegar við hugsum um hjálparstarf þá sjáum við fyrir okkur tilraunir til að bjarga og styðja fólk til betra lífs – þessa lífs. Það var ekki verkefni Móður Theresu, og þó okkur þyki það sem hún gerði vera fáfengilegt (sem það virðist óneitanlega frá sjónarhóli hins trúlausa) þá glímum við þar við gerólíkan skilning á verðmætum og hvað skiptir á endanum máli.

Ummælin um dauðabúðir Nasista eins og þau eru höfð eftir, eru kannski ekki sérlega smekkleg, en birtast mér sem ágætlega skýr tjáning á persónulegri upplifun, og óþarfi að láta eins og með þeim sé verið að bendla Móður Theresu við nasisma. Allavega alger óþarfi að gera þetta að aðalmáli í svona rimmu. Finnst mér.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/02/15 11:16 #

Þorgeir, ég held að þetta sé eflaust rétt hjá þér. Og svo ég komi með aðra líkingu sem Jón Valur á eftir að heimta afsökunarbeiðni fyrir, þá er þetta kannski eins og fólkið sem brenndi nornir. Það var gert í svipaðri góðri trú um sáluhjálp fólks.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/15 11:35 #

Susan Shields fannst 50.000 dollarar vera há upphæð (uþb. 6,6 millj. ísl. króna á núvirði)

Enda var hún óbreyttur sjálfboðaliði.

en það er dýrt að veita nútíma læknisþjónustu, sérstaklega fyrir milljónir manna

Eins gott þá að Móðir Teresa bauð ekki upp á læknisþjónustu.

1.625.863.636.364 kr.að reka sjúkrastofnanir sem jöfnuðust á við íslenska heilbrigðiskerfið að gæðum í Kolkata árið 1995

Hver er upphæðin þegar að þú dregur frá lyfjakostnað, launakostnað, tækjakostnað og kostnað við sómasamlegan aðbúnað?

Jón Valur segir:

Ef þetta er rétt vitnað til orða Móður Teresu í síðasta innleggi Tómasar Daða, þá er ekki að undra, að hann skilji þetta ekki nema sínum vantrúar-skilningi.

Það er rétt hjá þér, hljómar eins og tóm steypa fyrir mér.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/15 11:41 #

Mér þykir hins vegar gagnrýni á hvað fólst - og fólst ekki - í starfi hennar í Kalkútta missa aðeins marks. Verkefni hennar á djúpar rætur í, og stjórnast algerlega af TRÚ hennar, – sannfæringu um stöðu hins jarðneska lífs í samhengi hins eilífa. Hún var einfaldlega ekki að fást við það sem okkur (mis- trúlausum en velviljuðum Vesturlandabúum) finnst að hjálparstarf eigi að snúast um. Þegar við hugsum um hjálparstarf þá sjáum við fyrir okkur tilraunir til að bjarga og styðja fólk til betra lífs – þessa lífs. Það var ekki verkefni Móður Theresu, og þó okkur þyki það sem hún gerði vera fáfengilegt (sem það virðist óneitanlega frá sjónarhóli hins trúlausa) þá glímum við þar við gerólíkan skilning á verðmætum og hvað skiptir á endanum máli.

Algjörlega sammála. Móðir Teresa var fanatíker. Og þá ætti ekki að halda því fram að um læknisþjónustu hafi verið að ræða(ég er ekki að halda því fram að þú gerir það)


Jón Valur Jensson - 17/02/15 20:12 #

Tómas Daði Halldórsson sér ástæðu til að "bæta um betur," nú skal nýjasta fordæmingin heita: "Móðir Teresa var fanatíker"!

Áður var hann búinn að gefa sér, að "engin umönnun hafi átt sér stað" í líknarstofnunum Móður Teresu (örugglega frétt fyrir þær á 5. þúsund Kærleikssystra, sem nú starfa að þessu!), og tengja hana að ósekju "ábyrgð á tugþúsund morða ríkisborgara Haíti" með meintri samsekt, sem þó engin var.

Ennfremur kallaði Tómas Daði arfleifð Móður Teresu "ógeðslega" í greininni (feitletrað) –– þannig er hann þenkjandi, þvert gegn áliti flestra hér í heimi. Og þegar einhver hefur mælt gegn ofangreindum "skilningi" (!) Tómasar Daða, þá er bara spreðað út fordómafullum fordæmingum gegn viðkomandi, eins og t.d. gegn Malcolm Muggeridge, sem Tómas í innleggi sínu 12. þ.m. kl.14:45 fer létt með að setja í skammakrókinn með "fanatíkerum og lobbýistum". Var þó Malcolm Muggeridge afar virtur maður í Bretlandi á árum mínum þar (1979–83), rithöfundur og einn hinn fremsti í blaðamannastétt og hafði verið um margra áratuga skeið og fekk alls staðar birt eftir sig greinar og var oft í ljósvakafjölmiðlum. En skiljanlegt er auðvitað, að Tómas Daði Halldórsson, ungur maður, að ég hygg, á sínu 24. ári, sem nýtur hér stuðnings fáeinna annarra félaga sinna, telji sig færan að tala niður til hans úr sínum háa söðli æðri vitundar.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 17/02/15 20:58 #

Haltu áfram að grafa.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 17/02/15 22:02 #

Tómas Daði skrifar í pistlinum:

Þessi vandamál sem fylgdu stofnunninni voru ekki vegna fjársveltis - enda höfðu samtökin nægt fjármagn til að koma á fót bestu og nútímalegustu sjúkrahús Indlands - heldur var þetta meðvituð stefna Móður Teresu.

Hvað skyldi hafa kostað að koma á fót besta og nútímalegasta sjúkrahúsi á Indlandi árið 1995? Trúlega marga tugi milljarða. Reynum að áætla. Í febrúar 2013 var áætlað að bygging nýs Landsspítala myndi kosta 85 milljarða króna. Hafði Móðir Teresa í alvöru yfir svo miklu fjármagni að ráða á 10. áratugnum? Eða yfirleitt nokkurn tíma?

Ef við treystum heimildinni og gerum ráð fyrir 50 þús. dollara (uþb. 6,6 milljónir) gjöf í hverri viku til reglu Móður Teresu sem ætti að vera nægur hraði til þess að vitnið gleymdi gefendunum. Það gera nálægt 343 milljónum kr. á ári sem þýðir að regla Móður Teresu hefði þurft að safna fyrir spítalanum í 247 ár - lauslega áætlað.

Slíkur spítali hefði heldur ekki getað þjónað hinum fjölmörgu sem ekki áttu fyrir sjúkrahúskostnaði en gátu þegið hvaða hjálp sem var, það hefði þurft að vera spítali fyrir forréttindahópana, þá sem gátu greitt spítalareikningana.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/02/15 22:07 #

Þetta eru undarlegir útúrsnúningar. Það voru spítalar á staðnum. Það hefði bara þurft að senda fólk á þá en eins og fram hefur komið var fólk að deyja hjá Agnesi sem hefði bara þurft að komast á nærliggjandi sjúkrahús.

Eitt af því sem Agnes hefur verið gagnrýnd fyrir er að gefa miklu dekkri mynd af ástandinu í Kalkútta en ástæða var til. Eins og fram kom í eldri grein á Vantrú:

Í Kalkútta hefur fólk lengi verið hissa á því orðspori sem fer af Móður Teresu því það er engan veginn í samræmi við þann veruleika sem innfæddir þekkja. #

Og eins og segir í bókinni sem vísað er í þeirri grein (en nú þarf að fara gegnum archive.org til að lesa):

In the midst of all this I remembered the 'Calcutta' of the West - Calcutta the metaphor, not the city. In my three years in the West I had come to realise that the city had become synonymous with the worst of human suffering and degradation in the eyes of the world. I read and heard again and again that Calcutta contained an endless number of 'sewers and gutters' where an endless number of dead and dying people lay - but not for long - as 'roving angels' in the shape of the followers of a certain nun would come along looking for them. Then they would whisk them away in their smart ambulances. As in my twenty-seven years in Calcutta I had never seen such a scene, (and neither have I met a Calcuttan who has), it hurt me deeply that such a wrong stereotype had become permanently ingrained in world psyche. I felt suddenly overwhelmingly sad that a city, indeed an entire culture should be continuously insulted in this way.

I am Calcuttan born and bred, and our family has lived in the city for as long as can be traced. I know Calcutta well, and many people who matter there, and many more who do not. I do not have Calcutta 'in my blood', but the place has definitely made me what I am, warts and all. My mother tongue is Bengali, the language of Calcutta, but I speak Hindi passably, which is spoken by a large number of the destitutes of Calcutta.

I had no interest whatsoever in Mother Teresa before I came to England. Difficult it may seem to a Westerner to comprehend, but she was not a significant entity in Calcutta in her lifetime; paradoxically posthumously her image has risen significantly there - primarily because of the Indian need to emulate the West in many unimportant matters. #


Jón Valur Jensson - 18/02/15 01:47 #

Það er ekkert undarlegt, að "fólk [var] að deyja hjá Agnesi" (Móður Teresu), því að hún leitaði beinlínis uppi bæði deyjandi fólk og yfirgefið á vegum úti og eins börn sem fólk losaði sig við.

Til að átta okkur betur á hugarfari þessarar óvenjulegu konu skulum við lesa hér hluta af því sem hún sagði í ræðu sem hún lét taka upp á segulband, þegar hún lá á sjúkrabeði í Róm (já, vitaskuld mátti hún það, absolút mikilvægur yfirstarfsmaður og aðalfulltrúi reglunnar) og var svo útvarpað yfir um 50.000 manna útifund lífsverndarsinna í Hyde Park í London árið 1983, þar sem voru fleiri þekktir ræðumenn, m.a. Malcolm Muggeridge, hin fatlaða Alison Davis og kirkjumennirnir (ekki þó kaþólikkar) John Stott og Francis Schaeffer. ––Þetta eru segjandi orð:

Menn hungrar ekki aðeins eftir brauði; þá hungrar eftir kærleika, þá hungrar eftir því að vera einhverjum einhvers virði. Nekt er ekki bara klæðleysi; nekt getur líka verið það að skorta sjálfsvirðingu og hreinleika. Og heimilisleysi er ekki aðeins vöntun á húsnæði gerðu af timbri eða steini; heimilisleysi er líka það að vera útskúfaður, óvelkominn, að vera ekki elskaður eða einfaldlega að vera öðrum gleymdur. ––– Ég gleymi því aldrei þegar ég eitt sinn mætti manni á götu, sem leit út fyrir að vera mjög aumur og einmana. Ég gekk þess vegna beint til hans og tók í hönd honum. Hendur mínar eru alltaf mjög heitar; og hann leit upp og brosti fallega móti mér og sagði: "Ó, það er svo langt, langt síðan ég fann hlýja mannshönd!" Hve dásamlegt og fallegt, að einfaldar gerðir okkar geti sýnt kærleika á þennan hátt! Gleymum ekki að bera slíkan kærleika inn í fjölskyldulíf okkar. Við getum gert það með bæn; því að þar sem bænin er, þar er kærleikur. Og þar sem kærleikur er, þar er sú algera eining, sem Jesús talaði um, þegar hann sagði: "Verið eitt, eins og Faðirinn og ég erum eitt. Og elskið hvert annað, eins og ég elska ykkur. Eins og Faðirinn hefur elskað mig, eins hef ég elskað ykkur." (Tilvitnun lýkur.)

Öll ræðan, ásamt frekari upplýsingum og smá-umræðu, er HÉR!.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/15 09:44 #

Það er ekkert undarlegt, að "fólk [var] að deyja hjá Agnesi"

Fylgstu nú með og hættu þessum stælum og útúrsnúningum Jón Valur. Fram hefur komið að í sumum tilvikum var fólk var að deyja þrátt fyrir að vera auðlæknanlega kvilla, það hefði bara þurft að komast til læknis.


Jón Valur Jensson - 18/02/15 16:21 #

Það er mikið matsatriði, hvort mikið veikur einstaklingur er með einn eða einhvern allt annan sjúkdóm og hvað gera beri í málinu. Af þessu hef ég sjálfur reynslu á sjúkrahúsi árið 1980, þar sem aðstæður allar voru nánast fullkomnar í samanburði við hjúkrunarstöð Móður Teresu. Þurfti ég að sitja sárþjáður á biðstofu spítala með nærri sprunginn botnlanga, bíðandi 6 tíma eftir því að enskir læknar í Addenbrook Hospital, Cambridge, kæmust að niðurstöðu um, hvað amaði að mér, og að ákvörðun um uppskurð. Og ekki gat Móðir Teresa sent alla slíka sjúklinga á tiltölulega dýr sjúkrahús, hver átti að borga?

Heimili hinna deyjandi virðist fremur en sem lækningastöð hafa verið e.k. "hospice", líknarstöð þar sem reynt var að annast sjúklingana af kærleika og búa þeim betri aðstæður en úti í grófum heiminum, þvo þá og annast og gefa þeim lyf af þeim litlu efnum, sem þær höfðu. Og gleymið því aldrei, að þær lögðu meiri áherzlu á mikla fjölgun líknarstöðva af þessari gæðagráðu heldur en á háþróaðri sjúkrahús.

Já, ég sagði það "mikið matsatriði, hvort mikið veikur einstaklingur er með einn eða einhvern allt annan sjúkdóm," og tel þig, Matti, ólæknisfræðilærðan, ekki geta verið með miklar yfirlýsingar um þau efni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/15 17:28 #

Það er mikið matsatriði, hvort mikið veikur einstaklingur er með einn eða einhvern allt annan sjúkdóm og hvað gera beri í málinu.

Þú gengur svo hlægilega langt til að afsaka Agnesi þína.

el þig, Matti, ólæknisfræðilærðan, ekki geta verið með miklar yfirlýsingar um þau efni.

Geturðu vinsamlegast sett hér inn afrit af læknisskírteini þínu? Þangað til ætla ég að leyfa mér að vitna í læknismenntað fólk sem hefur haldið þessu fram (og vísað hefur verið á í þessum umræðum).


Ragnar Geir Brynjólfsson - 18/02/15 21:58 #

Matthías skrifar:

Þetta eru undarlegir útúrsnúningar. Það voru spítalar á staðnum. Það hefði bara þurft að senda fólk á þá en eins og fram hefur komið var fólk að deyja hjá Agnesi sem hefði bara þurft að komast á nærliggjandi sjúkrahús.

Í pistli Tómasar stendur skýrum stöfum í kaflanum "Dauðabúðirnar í Kalkútta", 3 málsgrein 1.-3. línu:

- enda höfðu samtökin nægt fjármagn til að koma á fót bestu og nútímalegustu sjúkrahús[um] Indlands -

Ef við nú skoðum hvað heimildirnar í pistlinum og athugasemdum um tekjur Móður Teresu hafa að segja og m.a. teljum þessa 1,6 milljón bandaríkjadala sem hún fékk frá Keating þá gera það um 200 millj. íslenskra króna. Sú upphæð hefði stytt söfnunartíma Móður Teresu fyrir einu sjúkrahúsi úr 247 árum í u,þ.b. 246 ár og þrjá mánuði miðað við að hún hafi móttekið í aðrar gjafir að andvirði um 6,6 milljónir króna á viku.

Jafnvel þó hún hefði aðeins þurft að leggja út fyrir fjórðungnum af kostnaði sjúkrahússins, 85 milljörðum, þ.e. um 21 milljarð og fengið afganginn, 64 milljarða að láni þá hefði það samt tekið hana miðað við þessar forsendur um 61 ár að safna fyrir einu sjúkrahúsi.

Skoðum samt aðeins rök Matthíasar, þ.e. í staðinn fyrir að byggja sjúkrahús hefði Móðir Teresa/Kærleiksboðberarnir átt að senda sjúklingana á nærliggjandi sjúkrahús. Þá hefði strax vaknað spurning um greiðslur. Í sumum tilfellum var um að ræða sjúklinga sem voru deyjandi en fengu ekki inni á sjúkrahúsunum. Líklega vegna þess að enginn vildi greiða fyrir þá. [1].

Ef við reynum í þessu sambandi að leggja mat á kostnað á legudag á sjúkrastofnunum þá má skoða þessa heimild hér [2] frá 2006. Þar kemur t.d. fram að meðal- legukostnaður fyrir sjúkling í bið á lyflækningarsviði sem líknardeildin heyrir undir er rétt rúmar 52 þús. krónur á dag.
Skv. eftirfarandi heimild er meðal legutími á líknardeild 21 dagur [3]. Þá gæti kostnaður á hvern sjúkling sem reglan sendir á líknardeild verið lauslega áætlaður um 1 milljón króna. Í sumum tilfellum eru sjúklingar mun lengur á heimilunum. Í heimild nr. [5] er nefnt dæmi um krabbameinssjúkling sem búinn er að vera tvö ár á heimilinu þar sem hann er heimilislaus.

Reynum að giska á hversu marga sjúklinga reglan ætti að senda á líknardeild og þar með loka sínum heimilum. Tökum bara Kolkata. Þar eru starfandi 19 stofnanir á vegum reglunnar [4]. Þær eru skv. Wikipediu kvennaathvarf, munaðarleysingjahæli, heimili fyrir fólk með HIV á lokastigi (AIDS), skóli fyrir götubörn og holdsveikraathvarf auk heimils fyrir deyjandi. Öll þessi þjónusta er ókeypis. Skv. þessari heimild [5] eru um 50 manns í móðurheimilinu fyrir heimilislausa eða deyjandi í Kolkata. Ef við reiknum með að í staðinn fyrir að taka við fólkinu myndi reglan senda fólkið á líknardeild þá yrði kostnaðurinn lauslega ágiskaður nálægt 2,6 milljónum kr. á dag, bara frá þessu eina heimili.

Ég leyfi mér því að draga í efa fullyrðingar um að reglan hafi eða hafi haft bolmagn til að ráðast í svo umfangsmiklar breytingar og kalla eftir betri rökstuðningi ásamt ítarlegri upplýsingum um fjármál reglunnar, sem allar slíkar fullyrðingar hljóta að verða að byggja á.

Þrátt fyrir að þurfa að þola harða gagnrýni halda Kærleiksboðberarnir samt áfram að breyta þeim samfélögum þar sem þeir búa hins betra með því að hlúa að á ýmsum sviðum eins og hér hefur komið fram.

[1] "[o]nly when no city hospital will take the dying are they brought to the Missionaries of Charity." review by Krishna Dutta of Chatterjee (2003), Mother Teresa: The Final Verdictin the British review Times Higher Education, 16 May 2003, Saint of the gutters with friends in high places, accessed 29 January 2014

[2] http://www.althingi.is/altext/132/s/1299.html

[3] http://skemman.is/stream/get/1946/4465/13052/1/LokaverkefniM%C3%9DS-loka%C3%BAtg%C3%A1fa%C3%ADprentun2$0021.pdf

[4] http://en.wikipedia.org/wiki/MissionariesofCharity

[5] http://www.wanderingearl.com/volunteering-at-mother-teresas-home-for-the-dying/


Jón Valur Jensson - 19/02/15 03:28 #

Ég sá ekki ástæðu til að svara síðasta innleggi Matta, svo bersýnilega slappt var það. Votta honum vissa samúð mína.

En hér á undan birtist afar fróðlegt og vel unnið innlegg frá Ragnari Geir Brynjólfssyni, rökstuðningurinn ekki aðeins óvenjulega sterkur miðað við ýmsar athugasemdir í netumræðu, heldur hefur hann lagt á sig fyrirhöfn tímafrekrar heimildavinnu, sem miklu hefur skilað, og setur þessi mál að auki í nýtt ljós og víðtækara samhengi.

Heilar þakkir fyrir það, Ragnar! :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/15 09:19 #

Næst ætlið þið kannski að halda því fram að kaþólska kirkjan eigi ekki heldur pening.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 19/02/15 17:34 #

Allur samanburður á kostnaði við heilsugæslu á Indlandi og Íslandi er dálítið út úr kú. Augljóst er að ýmsir kostnaðarþættir eins og laun og byggingar er mun lægri á Indlandi.

Mér finnst það vera fölsk valþröng að stilla dæminu þannig upp að regla Móður Teresu gat einungis annaðhvort boðið upp á þessa biðsali dauðans eða hátæknisjúkrahús sem jafnast á við það besta í Evrópu.

Síðan held ég að það sé almennt vanmetið hversu mikið af peningum fór um reikninga Kærleiksboðberanna.

Perhaps the most lucrative branch of the organisation is the “Holy Ghost” House in New York’s Bronx. Susan Shields served the order there for a total of nine and a half years as Sister Virgin. “We spent a large part of each day writing thank you letters and processing cheques,” she says. “Every night around 25 sisters had to spend many hours preparing receipts for donations. It was a conveyor belt process: some sisters typed, others made lists of the amounts, stuffed letters into envelopes, or sorted the cheques. Values were between $5 and $100.000. Donors often dropped their envelopes filled with money at the door. Before Christmas the flow of donations was often totally out of control. The postman brought sackfuls of letters — cheques for $50000 were no rarity.” Sister Virgin remebers that one year there was about $50 million in a New York bank account. $50 million in one year! — in a predominantly non-Catholic country. How much then, were they collecting in Europe or the world? It is estimated that worldwide they collected at least $100 million per year — and that has been going on for many many years. #

Í þessari grein kemur einnig fram að kostnaður við starf reglunnar var alltaf haldið í algjöru lágmarki. Yfirleitt er þessum tölum haldið leyndum en á Englandi fengust ákveðnar upplýsingar sem benda til þess að útgjöldin námu um 7% af heildarinnkomu reglunnar.

England is one of the few countries where the sisters allow the authorities at least a quick glance at their accounts. Here the order took in DM5.3 million in 1991. And expenses (including charitable expenses)? — around DM360,000 or less than 7%. Whatever happened to the rest of the money? Sister Teresina, the head for England, defensively states, “Sorry we can’t tell you that.” Every year, according to the returns filed with the British authorities, a portion of the fortune is sent to accounts of the order in other countries. How much to which countries is not declared. One of the recipients is however, always Rome. The fortune of this famous charitable organistaion is controlled from Rome, — from an account at the Vatican bank. And what happens with monies at the Vatican Bank is so secret that even God is not allowed to know about it. One thing is sure however — Mother’s outlets in poor countries do not benefit from largesse of the rich countries. The official biographer of Mother Teresa, Kathryn Spink, writes, “As soon as the sisters became established in a certain country, Mother normally withdrew all financial support.” Branches in very needy countries therefore only receive start-up assistance. Most of the money remains in the Vatican Bank.

Þau sem verja Móðir Teresu ættu að velta því fyrir sér hvort að eitthvað af þessari gagnrýni standist skoðun í stað þess að telja þetta allt vera einhverja illkvittni eða öfund. Varla hefur einhver haft vilja eða getu til þess að hefja einhvers konar ófrægingjarherferð gegn nunnureglu nema hafa til þess ærna ástæðu og pottþétt rök.

Eins og alltaf þá er yfirleitt best að fylgja peningunum. Follow the money. Eins og með sölu aflátsbréfa áður fyrr hefur kaþólska kirkjan gífurlega efnahagslega hagsmuni af því að halda minningu móður Teresu á lofti, sést best á því hversu fljót kirkjan var að koma henni í tölu blessaðra. Þetta er skipulögð fjárplógsstarfsemi af síðustu sort og þau sem verja þetta kerfi hafa vondan málstað að verja.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 20/02/15 22:33 #

Í athugasemd Lárusar kemur fram í tilvitnun:

It is estimated that worldwide they collected at least $100 million per year — and that has been going on for many many years

100 milljón dollarar eru um 13,2 milljarðar ísl. króna. Ef reglan hefði notað alla þessa upphæð, þá hefði hún líklega getað byggt sjúkrahús í Kolkata á 5-6 árum. Slíkt sjúkrahús hefði ekki verið frábrugðið öðrum indverskum sjúkrahúsum, þ.e. þar sem ekki er ríkisstyrkt heilbrigðiskerfi þar þá hefði slíkt sjúkrahús þurft að þjóna þeim sem geta greitt fyrir þjónustuna, en hvert áttu þá hinir deyjandi að fara, heimilislaust og dauðvona fólk sem sumum var búið var að úthýsa af sjúkrahúsum vegna fátæktar?

Ef við horfum t.d. bara á Eþíópíu þá nemur kostnaður reglunnar milljörðum. Samkvæmt þessari heimild hér [1] rekur reglan 18 heimili fyrir heimilislausa og veika þar. Í heimildinni kemur fram að reksturinn er styrktur af kaþólskum hjálparstofnunum:

Much of the support for their work, including the food they serve, comes through Catholic Relief Services.

Þar kemur líka fram að fjöldi nunna á einu heimilinu er 40, annað starfsfólk 60 en heimilisfólk er um 1000. Ef hin heimilin í landinu eru af svipaðri stærð þá má giska á að mannfjöldi á framfæri reglunnar í Eþíópíu sé um 21 þúsund.

Ef við reiknum kostnað við mat og hreinlætisvörur afar lágan, um 15 þúsund kr. á mann á mánuði og húsnæðiskostnað einnig lágan eða um 5 þús. á mann þá eru það samtals 20 þús. kr. þá gerir það mánaðarlegan kostnað upp á 418 milljónir króna. Á einu ári eru það samtals um 5 milljarðar króna, og þetta er bara Eþíópía, eitt land, en reglan starfar skv. þessari heimild í 133 löndum [2].

Af þessu sést að þegar 100 millj. dollara er sett í samhengi við umfangið á starfsemi reglunnar þá er upphæðin ekki svo ýkja há. Gjafir eru líka alltaf gjafir og þær geta hætt að berast dag einn. Öðru máli gegnir um fjárlög sem reikna má með að tryggi stöðug framlög frá ári til árs.

[1] http://www.huffingtonpost.com/catholic-relief-services/ethiopia-relief-services-b976298.html

[2] http://en.wikipedia.org/wiki/MissionariesofCharity


Ragnar Geir Brynjólfsson - 20/02/15 23:06 #

Leiðrétting við síðustu færslu. Áætl. fjöldi á framfæri reglunnar í Eþíópíu tæpl. 20 þús. Samtals áætl. kostn. á mán. 396 milljónir kr. Á einu ári áætl. kostn. um 4,7 milljarðar króna, ekki 5 milljarðar. Þetta leiðréttist hér með.


Jón Valur Jensson - 23/02/15 05:38 #

Flott innlegg frá þér, Ragnar, vel studd heimildum og rökum. Allt þetta illa grundaða "reikningshald" eða ágizkunarefni þeirra Lárusar, Tómasar og Matta fellur eins og spilaborg. Þeir ætluðu að búa til glæpasögu úr málinu, mini-, nei, mega-crimi, en hann snerist í höndunum á þeim; þeir standa bersýnilega uppi með slæman málstað og tilefnislausa áreitni.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/02/15 17:17 #

Afsakið mig Jón Valur, Ragnar hefur hér búið til einhverjar skýjaborgir úr tölum sem hann fann á netinu. Við höfum vísað í heilu bækurnar sem skrifaðar hafa verið um dularfull fjármál reglu Móður Teresu.

Afhverju er bókhald þeirra lokað og læst? Afar sérstakt þegar um er að ræða góðgerðastarfsemi.


Jón Valur Jensson - 23/02/15 19:40 #

Þetta eru engar skýjaborgir hjá Ragnari, þvert á móti góður rökstuðningur fyrir því, að sannarlega verður svona umfangsmikið hjálparstarf ekki rekið án þess að séð verði fyrir afar miklum framlögum til þess starfs og allrar aðstöðunnar og uppihalds bæði sjúklinga og starfsmanna. Það blasir nú bara við og barnalegt af ykkur að tala um upphæðir eins og 1,6 milljón bandaríkjadala eins og eitthvað mikið eða jafnvel ofrausn í þessa gríðarmiklu þjónustu í hundruðum starfsstöðva.

Eruð þið hinir vantrúuðu kannski illa haldnir af öfund? Vantrúarmenn og "húmanistar" gera örugglega sízt það gagn í alþjóðlegu hjálparstarfi, sem jafnt sé (eða fari bara örlítið í áttina til að líkjast) framboðinni þjónustu Caritas (neyðarhjáparsamtakanna kaþólsku), Kærleikstrúboðanna og kaþólsku kirkjunnar sem slíkrar, sem rekur stórkostlegan fjölda fullgildra sjúkrahúsa í heiminum og annast m.a. um eða yfir fjórðung allra AIDS-sjúklinga.

"Heimildir" ykkar eru þar að auki aðallega rógburður í riti Christophers Hitchens og annarra ámóta trúverðugra. Og þið íslenzku Vantrúarmennirnir hafið jafnvel gengið lengra í ykkar fullyrðingum en þar var gert um ýmislegt, eins og ég hef bent á.

Lokaábending þessa innleggs getur orðið sú, að spurningar og efasemdir nokkurra aðila um fjárhag reglu Móður Teresu og í hvaða bönkum sjóðir hennar séu geymdir o.s.frv. hafið þið ekki látið ykkur nægja, heldur beinlínis búið til fullyrðingar til að smyrja því á Móður Teresu, að hún hafi stungið peningum undan og að páfadæmið steli þaðan stórfé handa sjálfu sér! Fyrir því hafið þið ENGAR heimildir.

Hitt er aftur á móti lýðum ljóst, að frá upphafi hafið þið borið illan hug til kaþólsku kirkjunnar og jafnvel til Móður Teresu vegna starfs hennar og það áður en þið fóruð að reyna að tína ykkur til árásarefni á hana frá öðrum trúleysingjum eins og Hitchens.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 23/02/15 22:18 #

Eruð þið hinir vantrúuðu kannski illa haldnir af öfund? Vantrúarmenn og "húmanistar" gera örugglega sízt það gagn í alþjóðlegu hjálparstarfi,

Warren Buffet er trúlaus, hann hefur styrkt góðgerðarmálefni fyrir meira en 40 milljarða dala.

Bill og Melinda gates eru trúlaus. Þau hafa styrkt góðgerðarmálefni fyrir u.þ.b. 28 milljarða dala.

George Soros er trúlaus. Hann hefur styrkt góðgerðarmálefni fyrir u.þ.b. 8 milljarða dala.

Þetta eru gjafmildustu einstaklingar Bandaríkjanna. Þau styrkja góð málefni af mannúðarástæðum og krefjast ekki trúarlegra skuldbindinga.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 24/02/15 00:02 #

Jón Valur kýs alltaf að fara í manninn C. Hitchens í veikburða tilraunum til að gera lítið úr honum og bók hans. Sannleikurinn er sá að ekkert sem kemur fram í bók hans um Móðir Teresu hefur verið hrakið. Vatíkanið bauð honum að vera advocatus diaboli þegar verið var að taka Móðir Teresu í tölu blessaðra þannig að þeir tóku gagnrýni hans alvarlega.

Öllum tölum sem komu frá Móðir Teresu varðandi fjölda líknarstofnana, undir stjórn reglu hennar, verður að taka með miklum fyrirvara þar sem hún skáldaði oft tölur út í loftið, sbr þakkarræðu hennar þegar hún veitti Nóbelsverðlaununum viðtöku.


Jón Valur Jensson - 24/02/15 02:22 #

Það er engin lausn fyrir þig, Lárus, að ljúga hér upp á Móður Teresu.

Umfang reglu hennar og hjálparstarfsins er gríðarlegt og teygir sig til 133 landa, sjá t.d. hér á Wikipediu: http://en.wikipedia.org/wiki/MissionariesofCharity

Jafnvel á Íslandi starfa þær fyrir fátæka. Væri ekki ráð fyrir ykkur Vantrúarmenn að banka upp á hjá þeim og spyrja þær hvort þetta sé nú allt saman satt sem hann C. Hitchens hafi sagt ykkur og byggði t.d. bara á EINU meintu vitni um sumt það versta –– sem var þó ekki nógu vont fyrir greinarhöfundinn Tómas Daða, hann þurfti að skálda í það mál líka og segja, að ekki einungis hafi deyjandi fólk í Heimili hinna deyjandi í Kalkútta minnt þetta eina vitni á myndir af hungruðu fólki í Belsen-Belsen hjá nazistum, heldur líkti hann sjálfu Heimilinu hinna deyjandi við útrýmingarbúðir nazista!

Þið eruð það ungir menn, að þið eigið vonandi nógu mörg ár fyrir ykkur til að skammast ykkar fyrir þessi skrif, iðrast og komast til rétts ráðs á ný.


Jón Valur Jensson - 24/02/15 02:47 #

Ég á nú alveg eftir að skoða það, hvort þessir trúlausu auðkýfingar, Warren Buffet, Bill og Melinda Gates og George Soros, sem gera það í staðinn fyrir aðra trúleysingja að leggja fram fé til "góðgerðastarfs", geri það í raun eða í þeim mæli, sem Tómas Daði telur fram. Margt er líka reynt að fella undir þetta hugtak, "góðgerðastarf", til að fá skattaívilnanir.

En lítum á þessa heimild í tengslum við George Soros: http://www.aul.org/planned-parenthood-exhibits-exhibit-2/

Þar kemur þetta fram: "[iv] For example, outspoken abortion proponent George Soros has donated over $2.5 million to Planned Parenthood through his Open Society Institute. See Anna Maria Hoffman, Tides Foundation, Soros Send Millions to Planned Parenthood, Lifenews.com, Jun. 26, 2012, available at http://www.lifenews.com/2012/06/26/tides-foundation-soros-send-millions-to-planned-parenthood/ (last visited Sept. 17, 2012)."

(International) Planned Parenthood er sennilega mikilvirkasta hreyfingin sem vinnur að því að fjölga fósturdeyðingum sem mest má verða í heiminum. Stofnandi hreyfingarinnar, Margaret Sanger, var hrikalegur rasisti (gegn svörtum mönnum í Bandaríkjunum og víðar) og í bréfa- og vinasambandi við nazista (enda samtíðarmaður Hitlers). Svo á þessi stofnun jafnvel útibú hér á Íslandi!! (ég skammstafa þá stofnun hér FUKOB –––> http://www.kirkju.net/index.php/umneyeargetnaearvornrangfarslumoglog?blog=10 ).

Ekki lætur þessi stofnun, IPP, sér nægja að vera með fósturdeyðinga-stöðvar í Bandaríkjunum og 3. heiminum, heldur vinnur hún einnig að sterilíseringu (geldingu) fólks og konur jafnvel sagðar blekktar til að fara í slíka ófrjósemisaðgerð.

Já, þessi "outspoken abortion proponent George Soros", hann er eflaust maður að ykkar skapi, en dragið nú a.m.k. það fé frá "góðgerðastarfi" hans, sem fer í að deyða ófædd börn og gera konur ófrjóar!

(Ég á eftir að skoða fjárframlög hinna auðkýfinganna.)


Jón Valur Jensson - 24/02/15 03:13 #

Hér eru svo aðra uppl. handa ykkur um annar trúlausan:

Gates Foundation Gave $117 Million to the Two Biggest Abortion Businesses = http://www.lifenews.com/2014/06/16/gates-foundation-gave-117-million-to-the-two-biggest-abortion-businesses/

Þar kemur líka fram, að Bill Gates hafði verið í miklum tengslum við Planned Parenthood og meira að segja: "My dad was head of Planned Parenthood." ––Skoðið þetta!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/15 09:31 #

Hve mikið af "góðgerðarstarfi" kristinna er ekkert annað en lítt dulbúið trúboð? Á það t.d. ekki við um allt starf Agnesar? Gekk það út á eitthvað annað en að kristna sárþjáð deyjandi fólk?


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 24/02/15 16:19 #

Svo að ég vitni í Agnesi:

A lot of people confuse me as social worker, I am not a social worker. I am in the service of Jesus and my job is to spread the word of Christianity and bring people to its fold.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 24/02/15 20:30 #

Skoðum aðeins eitt atriði sem Tómas kemur inn á:

heldur var þetta meðvituð stefna Móður Teresu. Hún taldi sársauka færa fólk nær Kristi og leyndi í raun aldrei þeirri skoðun sinni.

Hér kemur í ljós djúpstæður misskilningur á viðhorfi Móður Teresu til þjáningar sem án efa var hið sama og kaþólsku kirkjunnar hvað þetta varðar. Sársauki einn og sér færir fólk ekki nær Kristi. Hið rétta er að ef kristinn kaþólskur maður samsamar þjáningu sína þjáningu Krists og píslarvottanna þá er það trú kaþólsku kirkjunnar að hann gerist þátttakandi í hinni endurleysandi þjáningu Krists sem frelsar og sigrar synd og dauða. Þetta viðhorf hefur létt mörgum kristnum kaþólskum manninum byrði sársaukans og gefið þjáningu hans tilgang og merkingu sbr. þetta:

1505. Hrærður af þessari miklu þjáningu leyfir Kristur hinum sjúku ekki einungis að snerta sig heldur gerir hann eymd þeirra að sinni: “Hann tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.” En hann læknaði ekki alla þá sem sjúkir voru. Lækningar hans voru tákn um komu konungsríkis Guðs. Þær boðuðu róttækari lækningu: sigur yfir dauða og synd með páskum hans. Á krossinum bar Kristur allar byrðar hins illa og tók burt “synd heimsins” en sjúkdómar eru einungis afleiðing hennar. Með píslum sínum og dauða á krossinum hefur Kristur gefið þjáningunni nýja merkingu: eftirleiðis getur hún samlagað okkur honum og gert okkur eitt með endurleysandi píslum hans. [1]

og

Reynsla okkar af illskunni og þjáningunni, óréttlæti og dauða virðist stangast á við fagnaðarerindið. Slík reynsla getur komið róti á trú okkar og orðið tilefni til freistingar gegn henni. Það er þá sem við verðum að snúa okkur til votta trúarinnar: til Abrahams sem “trúði með von gegn von”; til Maríu meyjar sem á “vegferð sinni í trúnni”, gekk inn í “nótt trúarinnar” þegar hún varð hluttakandi í því myrkviðri sem þjáningar og dauði sonar hennar voru; og til svo margra annarra: “Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.” [2]

Þjáning heimilisfólksins á heimili Móður Teresu gat því aldrei verið henni velþóknanleg því þessi túlkun þjáningarinnar er einstaklingsbundin og á sér stað innra með þeim einstaklingi sem þjáist. Ef Móðir Teresa hefði haft velþóknun á þjáningu vistmanna á heimili sínu þá hefði hún verið að samsama sig þeim sem kvöldu og þjáðu Jesú Krist á píslargöngu hans. Hver hugsandi maður sem skilur þetta sér hve fullkomin fjarstæða er að halda því fram að velþóknun á þjáningu annarra gæti nokkurn tíma hafi verið sjónarmið hennar.

Hitt er annað mál að Jesús Kristur segir að öll góðverk gerð á smælingjum séu góðverk gerð á honum sjálfum, sbr. Mt. 25:31-41:

Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.

Þetta var einmitt köllun Móður Teresu, að þjóna hinum fátækustu af hinum fátæku hvar svo sem þá var að finna, því hún trúði því að í því starfi væri Jesú Krist einnig að finna. Hún kann því að hafa leitað uppi þá sem enginn annar vildi sinna og þjónað þeim sérstaklega eins og væru þeir Kristur.

[1] http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/1420.html
[2] http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/142.html


Jón Valur Jensson - 24/02/15 22:06 #

Það er auðvitað ekki við miklum skilningi að búast af mönnum sem hópast saman í félagi undir nafninu Vantrú og hafa það að markmiði að útbreiða guðleysi. En þetta innlegg Matta hér kl.9:31 í morgun slær nú flest met:

"Hve mikið af "góðgerðarstarfi" kristinna er ekkert annað en lítt dulbúið trúboð? Á það t.d. ekki við um allt starf Agnesar? Gekk það út á eitthvað annað en að kristna sárþjáð deyjandi fólk?"

Matti gefur sér sem sé (af því að hann þarf að smætta Móður Teresu og helzt niðra henni og væna hana um að hafa EKKI verið það, sem flestir vita að hún var), já, gefur sér þá, að henni hafi aldrei verið nein alvara með að hjálpa líðandi fólki, hún hafi ekki unnið góðgerðarstörf í reynd (jafnvel ekki þótt þiggjendurnir hafi talið svo vera), heldur bara verið í því að boða trúna og fá menn í hjörð Krists!

Vill ekki Matti væna St Jósefssystur og St Franziskussystur á Íslandi um það sama? Þá þarf hann ekki að burðast með þá óþægilegu vitund, að þær hafi gert hér mun meira gagn og unnið að líknarmálum á óeigingjarnari hátt og í langtum meira mæli en trúlausir.

En í ljósi þessara opinberuðu fordóma Matta má vel skilja hans hörðu skrif hér á þessum vefþræði; hann getur bara ekki betur, fordómarnir eru þvílíkir, að hann bara verður að segja hvítt svart!

PS. Ég er alveg sammála Ragnari í nýjasta innleggi hans. Ég hafði einmitt ætlað að færa þau mál í tal hér, en hafði bara ekki komizt til þess vegna anna við aðrar leiðréttingar o.fl.! En vitskuld misskilja trúlausir margt í kristinni hugsun og hlaupa því oft að dómum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/15 22:24 #

Ég stend við orð mín. Markmið Agnesar var ekki það að líkna fólki, markmiðið var að kristna fólk á dánarbeði.

Hún hafði nóg fé til að hjálpa fólki almennilega en kaus að gera það ekki. Ég held satt að segja, miðað við þau gögn sem fram hafa komið, að Agnes hafi verið vond manneskja.

Þessi kaþólska uppgerðarviðkvæmni á ekkert skilt við rökræðu. Þið félagar ættuð frekar að leggja ykkur fram um að hrekja þau gögn sem fram hafa komið. Það er pínlegt að fylgjast með ykkur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/15 22:25 #

Vill ekki Matti væna St Jósefssystur og St Franziskussystur á Íslandi um það sama?

Ég tel þær fórnarlömb mansals. Kúgaða þræla kaþólskra karla.

Hvað segir þú um það?


Jón Valur Jensson - 25/02/15 13:35 #

Ég álít þetta ofstæki, Matti. Verð að segja það hreint út.

Ég var í fjölmennu samsæti í Súlnasal Hótels Sögu til heiðurs St. Jósefssystrum á 100 ára starfsafmæli reglunnar á Íslandi, þar sem fjölmargir þökkuðu þeim, m.a. fulltrúar stjórnvalda (sjálfur flutti ég þeim tvær verðskuldaðar þakkarvísur). Engum þar kom til hugar að kenna þær við "mansal"! Hefðir þú þekkt þær sjálfur, glaða framkomu þeirra og reisn í fasi, t.d. Hildegard príorinnu heitinnar, og fúsa þjónustu, sem þær gáfu bæði fólkinu og Kristi sjálfum til dýrðar, þá hefði þér ekki komið til hugar að fara með þessi þín ónytjuorð.

Við skulum bara vona að fjölskyldufólk þitt sjái ekki skrif þín hér, þau yrðu naumast hreykin af honum Matta sínum.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 26/02/15 21:15 #

Tómas skrifar í pistlinum:

Hún laug og ýkti um hjálparstarf sitt í þakkaræðu sinni fyrir friðarverðlaunum Nóbels. Til að mynda minntist hún á stúlknaskóla sem hún hefði stofnað í Kalkútta þar sem 5000 stúlkur hefðu aðgang að menntun.

Ég hlustaði á þakkarræðuna og heyrði engar fullyrðingar í þessa veru. Þeir sem ekki trúa því geta hlustað á ræðuna sem hún flytur blaðalaust og frá hjartanu hér í heild sinni á netinu http://www.nobelprize.org/mediaplayer/index.php?id=1852. Víst er að þeim áheyrnartíma er vel varið. Ég heyrði hana ekki minnast á stúlknaskóla eða 5000 stúlkur. Slíkar fullyrðingar er ekki heldur hér að finna í fyrirlestri sem hún flutti daginn eftir: http://www.nobelprize.org/nobel_prizes/peace/laureates/1979/teresa-lecture.html


Jón Valur Jensson - 27/02/15 00:24 #

Einmitt, Ragnar! og hér er í ljós komið, að Vantrúarmenn skrökva þessu bara upp á Móður Teresu, þ.e. að hún hafi ákveðið að ljúga því í þakkarræðunni, að hún væri með skóla fyrir 5000 stúlkur í Kalkútta! Hafandi í huga, að svo fjölmennan skóla var hún engan með, þá ættu nú flestir að sjá, hve fáránlegt er að ætla henni svo fífldjarfa lygi, sem afsönnuð yrði á alþjóðavettvangi strax morguninn eftir!

Ekki skal ég fullyrða um, hver sé upphafsmaður skröksögunnar, en eitt er ljóst, að Móðir Teresa var það ekki! Hvort það er einhver hér á landi eða erlendis, sem kom þessu á framfæri við Vantrúarmenn, eða hvort þetta er spuni einhvers þeirra, veit ég ekki, en þeir geta hafa gleypt við þessu aðfengna agni, greyin, og eru þá enn í því harla seinheppnir í árásum sínum á þessa miklu mannúðarkonu, sem gerði vitaskuld betur en þeir sjálfir og starfaði af einlægni við erfiðar aðstæður meðal fátækra og smáðra.


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/15 13:33 #

Víst er að þeim áheyrnartíma er vel varið. Ég heyrði hana ekki minnast á stúlknaskóla eða 5000 stúlkur. Slíkar fullyrðingar er ekki heldur hér að finna í fyrirlestri sem hún flutti daginn eftir

Misskilningur hjá mér þar sem ég tengdi þessar tölur sem hún nefndi við þakkarræðuna. Gagnrýnin stendur enn þar sem hún laug ítrekað og tölurnar eru réttar. Það er þó rétt að hún minntist ekki á það í þakkarræðu sinni.

The figure '5,000' has a particular fascination for Mother, no doubt because of its Biblical connotation. She once said, 'Today there is a modern school in that place [in Motijheel slum] with over 5000 children in it.'10 This appears in a book published in 1986. Earlier, in 1969-70, she had told Malcolm Muggeridge, '...if we didn't have our schools in the slums - they are nothing, they are just little primary schools where we teach the children to love the school and be clean and so on -- if we didn't have these little schools, those children, those thousands of children, would be left in the streets.'11 In 1969-70, Mother Teresa's primary schools catered for not more that 200 (a generous overestimate) in Calcutta - the figure is not much more today. Nonetheless, I was prepared to overlook her 'thousands of children' as a figure of speech - saints are allowed to get carried away, like the rest of us. But '5000 children' was a calculated lie, especially as the school in Motijheel has less than 100 pupils. I do not think that there is any school in the world which caters to 5,000 children from a single site - Calcutta is of course, extra worldly.

Já hún talaði svo sannarlega með hjartanu í þakkarræðu sinni, þar sem hún talaði m.a. um málefni fóstureyðinga:

on the subject of Bosnian women who were raped by Serbs and now sought abortion, she said: ‘I feel the greatest destroyer of peace today is abortion, because it is a direct war, a direct killing—direct murder by the mother herself.’

Sjúkt. Móðir Teresa var ógeð.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 27/02/15 20:43 #

Orðin

"I feel the greatest destroyer of peace today is abortion, because it is a direct war, a direct killing — direct murder by the mother herself."
eru úr Nóbelsræðu Móður Teresu sem hún flutti daginn eftir verðlaunaafhendinguna í desember 1979.

Orðin eru nákvæmlega þessi, það skeikar hvorki orðum né kommum og bandstrikið er á sínum stað. Bosníustríðið byrjaði ekki fyrr en í apríl 1992. Hvernig má það vera að eftirfarandi orðum

on the subject of Bosnian women who were raped by Serbs and now sought abortion, she said:
orðum um stríð sem byrjaði tæpum 13 árum eftir að ræðan var flutt er skeytt framan við?

Varðandi skólann, þar virðist sem heimildarmaður þinn rugli saman skóla í Motijheel og heimili fyrir munaðarlaus börn sem heitir Shishu Bhavan, sjá kaflann "Building Nazareth" hér.

By 1997, there had been 14,000 children through the Shishu Bhavan in Calcutta, 5000 of whom had been adopted. Mother Theresa has established such houses in 61 cities across the world.

Myndskeið frá Shishu Bhavan má finna með því að slá þessi orð inn á YouTube, t.d. þetta hér


Tómas Daði Halldórsson (meðlimur í Vantrú) - 27/02/15 22:40 #

orðum um stríð sem byrjaði tæpum 13 árum eftir að ræðan var flutt er skeytt framan við?

Hver talaði um stríð? Þetta er ekki eina dæmið um afstöðu hennar til nauðgunarfórnarlamba:

In the aftermath of the Indo-Pakistani War of 1971, it was determined that more than 450,000 Hindu women in East Pakistan (now Bangladesh) had been systematically raped. Even in these circumstances she asserted her rejection of abortion by publicly denouncing abortion as an option and by calling upon the women left behind to keep their unborn children. She characterized her views later when asked in 1993 about a 14-year-old rape victim in Ireland, "Abortion can never be necessary... because it is pure killing."

"Varðandi skólann, þar virðist sem heimildarmaður þinn rugli saman skóla í Motijheel og heimili fyrir munaðarlaus börn sem heitir Shishu Bhavan, sjá kaflann "Building Nazareth" hér."

Shishu Bavan var stofnað árið 1955. Því er haldið fram að þar hafi 14.000 börn dvalist frá 1955-1997. Segjum sem svo að heimildarmaður minn hafi ruglast á skólum, þá eru skekkjumörkin á um 100 börn. Ekki það að ég vilji almennt tala um börn í samhengi skekkjumarka. Talan er ennþá gífurlega ýkt.


Jón Valur Jensson - 28/02/15 01:12 #

Þú spriklar í netinu, Tómas Daði ! Nákvæmni þinni um "5000 stúlkna skólann" er sannarlega ekki við brugðið! Þó hafðirðu margtuggið á því, að þetta skrök hefði Móðir Teresa farið með í Nóbelsræðunni ! Og ekkert ertu að eyða miklum tíma í afsökun, kemur bara með loðinn talnarugling í staðinn og heldur áfram í þínum óiðrandi spuna. Ég læt Ragnar um að hrekja þetta frá þér, en vek athygli á bosnísku lygasögunni þinni líka, sem og á ljótu orðbragði þínu um þennan heimsfræga mannvin síðast í innleggi þínu kl.13:33 þennan nýliðna dag. Það leynir sér ekki, hver býr yfir hatri hér í þessari nýjustu umræðu.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/02/15 01:39 #

Það leynir sér ekki, hver býr yfir hatri hér í þessari nýjustu umræðu.

Jebb, þú, Jón.


Jón Valur Jensson - 01/03/15 14:07 #

Þórður Ingvarsson, það er ekki af hatri, sem ég og fleiri höfum eytt hér tíma til að verja heiður mannvinarins Móður Teresu eftir ósæmilegar árásir ykkar Vantrúarmanna, sem iðrizt ekki einu sinni orða ykkar, þegar ykkur er margsýnt fram á falsið og lygina.

Orð mín: „Það leynir sér ekki, hver býr yfir hatri hér í þessari nýjustu umræðu,“ voru í beinu framhaldi af vísan minni til orða Tómasar Daða: „Móðir Teresa var ógeð.“ –– Ekki tala ég svona um ykkur og heldur ekki um C. Hitchens!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/03/15 16:06 #

JVJ: Ekki tala ég svona um ykkur

Hmm.

JVJ: Þessi ófyrirleitna, grófa árásargrein veraldarhyggjumanns er með því ósvífnasta sem sézt hefur á vef þessa illa þokkaða félags, Vantrúar. #


Jón Valur Jensson - 02/03/15 05:12 #

Matti kann ekki að greina á milli þess að gagnrýna efnislega SKRIF manna, annars vegar, og hins vegar að fara niðrandi orðum um MANNESKJUR. Það síðarnefnda á maður ekki að gera né að tala af hatri gagnvart þeim. (Suma, sem hafa sannað sig að vera illir, eins og Hitler, er þó eðlilegt að kalla kvikindi o.s.frv.)

Þegar ég tala um "ófyrirleitna, grófa árásargrein veraldarhyggjumanns [sem] er með því ósvífnasta sem sézt hefur á vef þess[um]," þá eru það einfaldlega upplýsingaratriði um greinina sjálfa –– ekki níð um persónur (og hér geri ég líka ráð fyrir, að Tómas Daði telji orðið 'veraldarhyggjumaður' ekki níð).

Matta er eflaust sárt um, að ég ritaði:"... á vef þessa illa þokkaða félags, Vantrúar," og enn er það samt ekki beinlínis persónuárás.

Matti getur líka frætt okkur um það, hvor þessara setninga honum þætti harðari (og ég staðhæfi alls ekki þá síðari):

  1. "Félagið Vantrú er illa þokkað."

  2. "Félagið Vantrú er ógeð." [Þannig ritaði Tómas Daði um Móður Teresu.]

Blasir ekki við, að setning nr.2 er miklu harðari? ––Þar að auki varð ég þess var í umræðunni sem spannst um Vantrúarmál nýlega á Vísisvefnum, að setning nr.1 eigi að minnsta kosti við um viðhorf þónokkurra sem tjáðu sig, jafnvel manna sem eru ekkert endilega trúaðir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 10:33 #

Nei Jón Valur, það blasir ekki við. Og n.b. þetta var bara það fyrsta sem þú skrifaðir í þessari tilteknu umræðu. Ég nenni ekki að fara að grafa upp önnur ummæli þín um Vantrú, en þú veist sjálfur að þau eru fleiri.

Hér er þú að nota vinsæla aðferð trúmanna, sem er sú að drulla kurteisislega yfir okkur í Vantrú en móðgast skelfilega þegar við tölum hreint út.

Hættu því vinsamlegast.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 11:06 #

Nýlegt dæmi um hina ógeðslegu arfleið Móður Teresu:

Þann 21. október [2012] leitaði ófrísk kona, Savita Halappanavar, á spítala í Írlandi með mikla bakverki. Læknar fundu út að hún var að missa fóstrið, hún var komin 17 vikur á leið. Daginn eftir óskaði hún eftir fóstueyðingu. [#]


Jón Valur Jensson - 02/03/15 16:06 #

Þórður, hefurðu séð myndir af 17 vikna fóstri? Á það engan lífsrétt í þínum huga? Ef mögulegt er, getur kona í þessari aðstöðu, þótt hún sé með mikla bakverki, væntanlega beðið þar til barnið er um 13 vikum eldra, þá er unnt að taka það með keisraskurði, með mjög góðum lífslíkum.

En fordómar ykkar gegn ófæddum börnum lita mjög "ógeð" ykkar á Móður Teresu, sem var eindreginn og trúr málsvari ófæddu barnanna, sbr. hér: Móðir Teresa talar um fósturdeyðingu sem höfnun á Jesú (makalaust sterkur vitnisburður, að hlusta á hana þarna).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 16:15 #

Lifði fóstrið í þessu tilviki sem Þórður vísaði á?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/03/15 17:06 #

Fordómar gegn ófæddum börnum? Ha? Ég er ekki jafn ógeðslega gáfaður og þú Jón. Hvað er að hafa fordóma gegn ófæddum börnum? Er það svona einsog finna fyrir djúpum söknuðu gagnvart fólki sem ég þekki ekki á neinn hátt, hef aldrei heyrt um og hef engin tengsl við og veit ekkert um?

Maður spyr sig, hvaða hagsmuna ert þú að gæta með þessu furðutali þínu um fóstureyðingar? Er í alvörunni hægt að treysta kaþólikka fyrir því hvað er best fyrir foreldra og börnin þeirra? Það er ekki beinlínis glimrandi afrekaskrá þegar kemur að þessum tiltekna málaflokki hjá þessari vafasömu stofnun þinni, eða mannréttindum yfirhöfuð.


Jón Valur Jensson - 03/03/15 13:49 #

„Hvað er að hafa fordóma gegn ófæddum börnum?“ spyr Þórður eins og álfur út úr hól.

Það til dæmis að telja þau ekki eiga neinn lífsrétt –– lífsrétturinn sé allur konunnar, eins og Jón Gnarr álítur, [1] því að: „Ófæddum gefur hann ENGAN rétt, [2] / en ALLAN mæðrum sem svíkja / börn sín í tryggðum ...“

Að telja fóstur ekki eiga neinn raunverulegan lífsrétt er hliðstæða við lífshættulega fordóma þeirra nazista, sem töldu Gyðinga ekki eiga neinn lífsrétt. Þeir hefðu getað sagt um fólkið í útrýmingarbúðunum: „Mér er svo sem ekkert illa við það persónulega, ég þekki það ekki á neinn hátt, hef engin tengsl við það og veit ekkert um hagi þess, bara það eitt, að ekki eiga þau neinn lífsrétt í mínum augum!“ – Komast menn lenga í fordómum en þetta?

Aftur spyr Þórður mig eins og álfur út úr hól: „Maður spyr sig, hvaða hagsmuna ert þú að gæta með þessu furðutali þínu um fóstureyðingar?“

Ég er að reyna af veikum mætti (m.a. með þessu lífsverndar-vefsetri mínu og fjölmörgum öðrum skrifum) að mæla með lífi hinna ófæddu og standa vörð um lífsrétt þeirra –– óneitanlega eru það „hagsmunir“ þeirra, eins og jafnvel Þórður ætti að geta séð.

Þá spyr hann enn (reynandi smjörklípu-aðferð): „Er í alvörunni hægt að treysta kaþólikka fyrir því hvað er best fyrir foreldra og börnin þeirra?“ ––Já, greinilega er fremur hægt að treysta trúuðum kaþólikka heldur en guðleysingja fyrir lífi hinna ófæddu. Þar fyrir utan eiga kaþólskir fleiri börn að jafnaði en mótmælendur og trúleysingjar, eiga hundruð milljóna barna, sem eru flest alin upp í kaþólsku, og það ægir ykkur trúleysingjunum!

[1] Sbr.: Guðsafneitarinn Gnarr

[2] Sjá HÉR!


Ragnar Geir Brynjólfsson - 06/03/15 17:10 #

Tómas skrifar:

Hver talaði um stríð? Þetta er ekki eina dæmið um afstöðu hennar til nauðgunarfórnarlamba

Eru þessi ívitnuðu ummæli úr sömu heimild og Bosníuummælin Tómas? Ef svo er þá myndi ég taka þeim með fyrirvara. Heimildarmaður sem klippir texta úr Nóbelsræðu Móður Teresu frá 1979 og setur í beint samhengi við atvik úr Bosníustríðinu 1992-1995 er einkar ótrúverðug heimild um manneskjuna Móður Teresu.

Greinilegt er að þessi meintu Bosníummæli "Móður Teresu" eru fölsun og við hverju má þá búast úr sama riti? Ráðlegt er að taka öðru sem þaðan kemur í þessu ljósi.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 17/03/15 20:11 #

Enn er ósvarað nokkrum efnisatriðum og spurningum sem hafa komið fram í pistlinum og athugasemdum.

Tómas skrifar í pistlinum:

Fjármál samtaka hennar var haldið leyndu[m]

Já, þetta er svona að líkindum vegna þess að reglan rekur sig ekki sem venjuleg góðgerðasamtök heldur trúarreglu fyrst og fremst. Það þýðir að hluta af fjármunum reglunnar þarf að verja til að tryggja framfærslu meðlima reglunnar, fæði þeirra, húsnæði og aðrar þarfir. Ef ekki væri séð fyrir þessum þörfum myndu líklega fáir ef nokkrir ganga í regluna.

Reglan starfar á mörgum stöðum og ein leið til að stuðla að öryggi reglumeðlima er að halda fjármálum leyndum. Ef óprúttnir aðilar teldu sig hafa fullvissu fyrir auðæfum reglunnar væri þeir vísir til að reyna að kúga út úr henni fé t.d. með mannránum eða ræna þeim. Það nægir að slá inn "kidnapped nuns -syria" í google leitarvélina til að fá dæmi um þetta (-syria er til að sleppa ráninu á nunnunum í Sýrlandi). Þrátt fyrir að stefna reglanna sé ávallt sú að greiða ekki lausnargjald þá er þetta því miður raunin, sjá líka t.d. hér.

Tómas skrifar einnig:

Báðir aðilar högnuðust á þessum viðskiptum, Duvalier fjölskyldan fegraði ímynd sína útá við og Vatíkanið græddi gífurlegt fjármagn sem meira og minna skiptist niður á leynilega bankareikninga þeirra

Hvorugt af þessu stenst skoðun. Ekki er í heimildum pistilisins sýnt fram á að Móðir Teresa hafi tekið við við fjármagni frá Duvalier fjölskyldunni. Vatíkanið getur heldur ekki tekið eða haldlagt fjármagn beint frá trúarreglunum. Þær eru reknar sem sjálfstæð félagasamtök og hafa aðskilinn fjárhag bæði frá öðrum reglum sem og stofnunum kirkjunnar. Það þarf ekki að fara lengra en í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra til að sjá þetta.

Ekki hefur heldur verið sýnt fram á í heimildum pistilisins að regla Kærleiksboðberanna hafi ráðstafað fjármunum sínum í þágu stofnana Vatíkansins. Það getur aftur á móti vel hugsast og er ekki ótrúlegt að reglan hafi geymt fé sitt á reikningum í banka Vatíkansins, en það eitt að reglan geymi fé sitt í Vatíkanbankanum sannar ekki fjármálaspillingu, hvorki hennar né Vatíkansins.

Matti skrifar í athugasemd #

Næst ætlið þið kannski að halda því fram að kaþólska kirkjan eigi ekki heldur pening.

Sum biskupsdæmi eru stöndug fjárhagslega, önnur síður og sum ekki. Ég geri ráð fyrir að í flestum löndum séu sóknirnar einnig með sjálfstæðan fjárhag og staða þeirra getur verið afar mismunandi. Sama má segja um trúarreglurnar, staða þeirra getur verið misjöfn. Ég verð stundum var við þann misskilning að Vatíkanið standi á bakvið eða fjármagni verkefni hingað og þangað og kaupi jafnvel eignir, eða að Kaþólska kirkjan sé eins og eitt stórt fyrirtæki sem sé stýrt og fjármagnað frá Vatíkaninu. Svo er ekki. Biskupsdæmin á hverjum stað eru sjálfstæðar fjárhagslegar einingar. Ef þau fá utanaðkomandi styrki þá eru þeir styrkir yfirleitt frá sjálfstætt starfandi hjálparstofnunum sem eru reknar í ákveðnum tilgangi, t.d. "Aid of the Church in need" (http://www.acnuk.org/) eða "Bonifatius Werk" (http://www.bonifatiuswerk.de/), en ekki frá Vatíkaninu.

Ennfremur er þeirri ásökun enn ekki nægilega svarað að Móðir Teresa hefði getað sent sjúklinga sem hægt var að lækna á sjúkrahús og borið kostnað af. Því miður hefur þetta líkast til verið illmögulegt því þar með hefði nægt að leggjast inn á heimili hennar fyrir langveika og eiga jafnframt þá von að fá sjúkrahúsvist og læknishjálp í tilfelli mögulegs bata en næg eftirspurn er væntanlega eftir slíkri þjónustu í Kolkata og víðar. Þó regla Kærleiksboðberanna hafi verið öflug var hún ekki það öflug að geta upp á sitt einsdæmi greitt sjúkrahúsreikninga þeirra sem aðrir vilja ekki greiða fyrir í 11 milljón manna borg. Því miður. Vonandi er hún orðin það öflug núna eða verður það síðar svo að hún geti gert eitthvað meira í þá veru.

Að lokum: Tengill á heimild hefur brenglast í heimildaskránni við athugasemdina frá 20/02/15 22:33 og því hafa menn líkast til ekki lesið hana. Það er vegna þess að táknið b_ (bókstafurinn b og niðurstrik) breyttust þannig að niðurstrikið hvarf. Hægt er að fara inn á www.huffingtonpost.com og slá inn leitarorðin "Missionaries of Mother Teresa Ethiopia". Efsti pistillinn sem kemur upp er sá sem vitnað var til.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 23/03/15 21:55 #

Þórður skrifar í athugasemd #

Nýlegt dæmi um hina ógeðslegu arfleið Móður Teresu: Þann 21. október [2012] leitaði ófrísk kona, Savita Halappanavar, á spítala í Írlandi með mikla bakverki. Læknar fundu út að hún var að missa fóstrið, hún var komin 17 vikur á leið. Daginn eftir óskaði hún eftir fóstueyðingu. [#]

Ef Jón Magnús pistlahöfundur Vantrúar hefði beðið niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar sem rannsakaði mál Savita Halappanavar hefði hann hugsanlega ekki birt pistilinn "Siðmenntuð villimennska" í nóvember 2012 hér á vantru.is eða kannski ákveðið að orða hann öðruvísi. Í ljós kom nokkru síðar eða í apríl 2013 að læknirinn sem annaðist Savita játaði að henni hefðu orðið á mistök. Um þetta mál má lesa í Irish Independent: hérna

Savita dó því ekki vegna "ógeðslegrar arfleifðar Móður Teresu" eins og Þórður kemst að orði og þaðan af síður vegna skaðsemi trúarbragða á Írlandi eins og greinarhöfundurinn í tilvitnun Þórðar ályktar ranglega heldur vegna læknamistaka eins og rannsókn leiddi síðar í ljós.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/03/15 22:30 #

Ertu að segja hér og nú að þú teljir að læknirinn hefði átt að framkvæma fóstureyðingu í þessu tilviki?

Lestu annars efnið sem þú vísar á?

Earlier, Dr Astbury agreed that she felt inhibited and constrained by the laws in Ireland when it came to Ms Halappanavar's case.

When asked by Coroner Ciaran McLoughlin: "Did you think it might be a question of law?", Dr Astbury replied: "Yes."

Dr Astbury defended her decision to hold off on any possible termination, saying: "I am waiting because the law states in the absence of risk to the life of the mother there is no reason to intervene."


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/03/15 09:00 #

Takk fyrir staðfestinguna á hinni ógeðslegu arfleið Móður Teresu, Ragnar.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 30/03/15 22:40 #

Matti spyr:

Ertu að segja hér og nú að þú teljir að læknirinn hefði átt að framkvæma fóstureyðingu í þessu tilviki?

Ég er að segja að orsakir hörmulegs dauða sængurkonunnar voru röð mistaka sem áttu sér stað við umönnun hennar. Mér sýnist að þau hafi aðallega falist í því að greina ekki nægilega snemma sýkingu sem ágerðist og var lífshættuleg. Þeir lesendur Vantrúar sem vilja kynna sér málið geta t.d. lesið um það hér. Hér eru svo tenglar á tvær rannsóknarskýrslur sem skrifaðar hafa verið um málið. Það eru Arulkumaran skýrslan og HIQA skýrslan.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/03/15 23:16 #

Earlier, Dr Astbury agreed that she felt inhibited and constrained by the laws in Ireland when it came to Ms Halappanavar's case.

Hættu þessu. Konan dó vegna þess að klikkaðir kaþólikkar hafa komið í veg fyrir að fóstureyðingar séu lögleiddar á Írlandi. Þökk sé meðal annars Agnesi grimmu.


Sveinn Þórhallsson - 31/03/15 16:15 #

Þvílíkt bull sem þessir útreikningar Ragnars eru. Þeir standa og falla með forsendum sem eru alveg kolrangar.

Hann gefur sér það að Ísland 2013 sé einhvern vegin sambærilegt við Indland níunda- og áttunda áratugarins. Það er svo sannarlega ekki málið.

50 þúsund dalir á Íslandi fyrir tveimur árum er ekki það sama og 50 þúsund dalir í Indlandi árið 1986!

Samanburðurinn er einfaldlega fáránlegur.


Jón Valur Jensson - 03/04/15 05:43 #

Ég sé, að þið eruð enn við sama heygarðshornið hér Vantrúarmenn – talið um "Agnesi grimmu" og annað eftir því ! Kunnið greinilega ekki að skammast ykkar.

Það þarf að fjalla opinberlega um þessa lygamaskínu-aðför ykkar að mannorði Móður Teresu, einhvers víðkunnasta mannvinar heimsins á ofanverðri 20. öld. Þetta er til hneisu fyrir Vantrú, og ég trúi því ekki, að allir félagar ykkar séu sammála þessu mannorðsníði.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 03/04/15 11:26 #

Kunnið greinilega ekki að skammast ykkar.

Segir einn ötulasti talsmaður kaþólskunnar á Íslandi. Ef einhverjir ættu að skammast sín er það fólkið sem kennir sig við það helsjúka fyrirbæri.

Móður Teresu, einhvers víðkunnasta mannvinar heimsins á ofanverðri 20. öld.

Já, hún er kunn sem mannvinur - en eins og sýn hefur verið fram á - þá var hún það ekki. Þetta var allt saman auglýsingamennska.

Þú ættir að skammast þín Jón Valur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.