Trúarlífsfræðin eru merkilegt fag og ég hef áður fjallað um þá fræðigrein og gagnrýnt. Til upprifjunar má skipta skilgreiningum hennar í tvennt:
Innihaldsskilgreiningar taka fyrst og fremst mið af trúaratriðunum þegar sagt er til um hvað sé trú. Samkvæmt þeim getur trú verið hver sú hugmynd sem skírskotar til handanveruleika, yfirnáttúrulegra afla eða guða og segir til um tilvist þeirra. Margir félagsvísindamenn sem styðjast við innihaldsskilgreiningar einskorða trúna við skírskotunina til hins yfirnáttúrulega en ýmsir aðrir, t.d. guðfræðingar, hafa haldið því fram að allar fullyrðingar um yfirnáttúruleg efni séu í raun trúarlegar þar sem þær fari út fyrir takmörk vísindanna. Trúin veiti nefnilega svör við spurningum um lífið og tilveruna og takmarki sig ekki við þau svið sem vísindin hafi gert að vettvangi sínum. Dæmi um trú samkvæmt innihaldsskilgreiningu sé því sú fullyrðing að Guð sé ekki til því að vísindamenn geti hvorki sannað hana né afsannað sem tilgátu.#
Innihaldsskilgreiningarnar eru ögn gáfulegri en hlutverkaskilgreiningarnar, þótt hér megi að sönnu gagnrýna tiltekin atriði. Þetta með að allar fullyrðingar um yfirnáttúrleg efni séu trúarlegar stenst ekki. Slíkar fullyrðinga geta verið í hæsta máta vitrænar, sér í lagi þegar þær eru gagnrýni á trúarlegar kenningar. Að segja að gagnrýni á trúarlegar kenningar séu trúarlegar kenningar er eins og að segja að tónlistargagnrýni sé tónlist.
Hlutverkaskilgreiningar taka fyrst og fremst mið af því hlutverki sem trúin gegnir í lífi einstaklingsins og samfélaginu öllu. Samkvæmt þeim eru trúarhreyfingar táknkerfi um altæka skipan tilverunnar sem tiltekinn hópur sameinast um og veitir einstaklingnum heildstæða merkingu og tilgang með lífinu. Þar sem slíkt táknkerfi þarf ekki að skírskota til yfirnáttúrulegs veruleika, geta stjórnmálastefnur og listastefnur flokkast sem trúarbrögð út frá þessum forsendum.
Flestir trúarlífsfélagsfræðingar byggja á hlutverkaskilgreiningum í rannsóknum sínum, enda þótt þeir kjósi oftar en ekki að takmarka þær að einhverju leyti. Ljóst er hins vegar að trúarbragðafræðin skilgreinir trúarbrögð og trúarhreyfingar ekki út frá gildi þeirra og áreiðanleika heldur út frá inntaki þeirra og hlutverki fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Samkvæmt þröngum innihaldsskilgreiningum er guðleysi ekki trúarlegt og flokkast því ekki til trúarbragða. En séu innihaldsskilgreiningarnar látnar ná til allra fullyrðinga um trúarleg efni myndi guðleysið hæglega flokkast sem trúarlegt. Þá mætti tilgreina margvíslegar stefnur sem trúarlegar þótt þær einkennist af guðleysi, t.d. siðrænan húmanisma, pósitívisma sem fullyrðir um tilvistarleg efni og theravada búddhisma. (Reyndar eru engir guðir heldur til í mahayana búddhismanum en þar eru samt verur sem frestað hafa nirvana um stundarsakir til að verða öðrum fyrirmynd.)#
Þið sjáið hvað Bjarni og trúarlífsfræðin eru að reyna að gera hérna. Fundið er til allt það sem á einhvern hátt getur líkst starfsemi trúarhreyfinga og því svo einfaldlega ýtt undir sama hatt. Slík vinnubrögð lýsa skelfilegri grunnhyggni sem ekki sé meira sagt. Ég skal útskýra það nánar:
Skoðum nokkur atriði sem flokka má undir trúarbrögð samkvæmt ofangreindri skilgreiningu: Fótbolti, Fasismi, draugahræðsla og siðrænn húmanismi. Strax i upphafi er það klárt og kvitt að fótbolti getur á engan hátt verið hugmyndakerfi um "altæka skipan tilverunnar". Það eru aðrir þættir sem gera hann líkan trúarbrögðum, þótt aldrei geti hann orðið að slíkum. Þessir þættir eru t.d. dýrkun, stolt, fánar, einkennisbúningar og foringjar.
Fasisminn snýst líka um dýrkun, stolt, fána, einkennisbúninga og foringja, en þó með innifalinni hugmynd um altæka skikkan tilverunnar. Einungis skortir yfirnáttúruþáttinn.
Draugatrú/draugahræðsla er að sönnu tiltrú á yfirnáttúru, en hana skortir alveg hugmyndir um altæka skipan tilverunnar og foringjadýrkun og fánaburður er víðsfjarri.
Siðrænan húmanisma skortir dýrkunina, fánana og foringjana og stoltið er allsendis óviðkomandi þáttur, þótt einhverjir húmanistar geti verið rígstoltir af lífsskoðun sinni. En þar hafa menn þó sameinast um altæka skipan tilverunnar, guðlausrar tilveru sem lýtur mekanískum lögmálum. Engin yfirnáttúra þar.
Ef við setjum þetta upp sem reiknisdæmi:
A = Mengi veiklunar: Stolt, fánar og tákn, hópsálarmennska, dýrkun, einkennisbúningar og foringjar B = Mengi sameiginlegrar hugmyndar um altæka skipan tilverunnar C = Mengi sannfæringar um yfirnáttúrleg öfl
Þá:
Siðrænir húmanistar: -A, +B, -C Fótbolti: +A, -B, -C Fasismi: +A, +B, -C Draugahræðsla: -A, -B, +C Trúarbrögð: +A, +B, +C
Trúarbrögðin hafa þarna einn þátt sem sker þau frá hinu (nema draugatrúnni) - hin yfirnáttúrlegu öfl. Þess vegna heita þau trúarbrögð. Hinar hreyfingarnar skortir þetta, en fasismi er þó líkastur trúarbrögðunum að því leyti að hann er skoðun um skipan tilverunnar og teflir fram foringjum og dýrkun og öllu því glundri.
En gerir það fasisma að trúarbrögðum? Gerir sama fánasýki og dýrkun fótboltaaðdáenda þá að trúarhreyfingu?
Nei, áfram verðum við að halda okkur innan stærðfræði og athuga hvað er mengi í hverju.
Bjarni Randver dregur upp trúarmengi og skipar svo öllu því sem einhver sameiginleg einkenni trúarbragða inn í það mengi, gerir það að hlutmengi. Eðlilegra væri að setja upp í þrjú mengi sem sníða hvert annað.
Trúarhugmyndir og trúarhegðun eiga að sönnu sameiginlega þætti með þjóðernis- og foringjadýrkun, fótboltadýrkun og öllu öðru sem trúarlífsfræðin setja undir trúarhugmyndir. En eins og áður segir ætti trúarmengið þó að vera mengi sem myndar sniðmengi með öðru mengi þar sem þessar kenndir margra menningarkima koma saman. Það mengi vil ég kalla merki veiklunar.
Þessir mannlegu þættir, dýrkun, hollusta, skortur á sjálfstæðri og hlutlægri hugsun, sárindi ef það sem manni er heilagt er gagnrýnt - eru merki sammannlegrar veiklunnar. Þetta eru andstæðurnar við gagnrýna hugsun, andlegt sjálfstæði, efahyggju og andstöðu við undirlægjuhátt. Þeir veikluðu velja sér svo einn eða fleiri þætti úr stóra menginu til að hengja veiklun sína á, fótbolta, nasisma, költleiðtoga eða guði.
Mér sýnist þessi uppstilling ganga fullkomlega upp. Ef við tökum t.d. stjörnuspeki og miðla sem dæmi sem við mátum við módelið, þá er hvort tveggja B og C, hugmynd um altæka skipan ásamt yfirnáttúrutrú. En þetta flokkast ekki undir trúarbrögð, því til þess þarf fána, skurðgoð, foringja og dýrkun.
Ef draugahræðslan er aðeins grunur um tilvist drauga er ekki hægt að láta það viðhorf eitt og sér koma í staðinn fyrir hugmyndir um altæka skipan veraldar. Aftur á móti er lítill vandi að taka slíkan ótta/tiltrú á yfirnáttúru og gera að slíkri hugmynd, jafnvel stofna költ kringum hana. Þá fyrst er hægt að fella þessa tiltrú undir B og C saman.
Og þar með sýnist mér ég vera endanlega búinn að jarða fullyrðinguna "þið eruð bara trúarbrögð líka" eða "vantrú er alveg jafnmikil trú og trú". Ef hugmynd um altæka skipan veraldar innifelur ekki yfirnáttúru er hún ekki vítalísk trú á sama hátt og guðstrú, auk þess sem rök og sönnunargögn liggja til grundvallar altæku hugmyndinni. Og geimveran Eric getur tæpast talist til skurðgoðs eða dýrkunar, hún var einungis gárungalegur útúrsnúningur á slíku. Vantrúaðir notast ekki við mengi veiklunar þegar kemur að heimsmyndinni.
Og þó. Til er á alþjóðlegum vettvangi merkimiði á trúleysingja, ef þeir kæra sig um að nota slíkt. Þetta er rautt A á svörtum grunni. Ef til vill þykir einhverjum trúleysingjum taka því að einkennismerkja sig á þennan "veiklulega" hátt og það hef ég sjálfur gert. En almennt séð eru atheistar of miklir kettir til að hægt sé að smala þeim með auðveldum hætti.
Samvitund og liðsheild er fáránlegt að kalla "merki veiklunar". Þetta er of gildishlaðið. Ertu að reyna að ögra með þessari orðanoktun?
"S", ertu ekki að mistúlka Birgi, ég sé ekki að hann kalli samvitund og liðsheild merki veiklunar. Hann segir að þetta leiði til þess.
Já, þetta er dálítið frjálsleg túlkun á orðum mínum, S. En ég tek það á mig, ég veit að merking þess texta sem ég skrifa getur stundum orðið frekar óskýr. Það er vandamál sem ég held áfram að kljást við.
Sælir - Um margt athyglisvert og greinandi. Tekur hið minnsta furðulegar skilgreiningar guðfræðingsins í sundur. Því er ég sammála. Hins vegar held ég að "Mengi sameiginlegrar hugmyndar um altæka skipan tilverunnar" sé nokkrum vandamálum háð í þessu. það er ekki alltaf þáttur í "veiklun" mannsins því að það er ekki alltaf verið að tala um sama hlutinn hér. Siðrænn húmanismi er tekinn sem dæmi um þetta mengi og ég get ekki fallist á að hann sé veiklun. Í honum felast ýmsir þættir sem eru sameiginlegir öllum sem telja sig siðræna húmanista, en jafnframt í þeim kjarna er mikilvægi þess að gagnrýna og halda uppi opinni umræðu um þá þætti (og gildi). Engra játninga er krafist líkt og í trúarlegum hópum. Það er talsverður munur á eðli hópa og því finnst mér afar hæpið að setja þá alla á einn bás hvað þetta varðar þó að ákveðin hugmyndafræði lífsskoðana sé í grunninum. Bk - Svanur
Þá vil ég einnig bæta því við að helsti styrkleiki trúarbragða hefur einmitt verið hópurinn, félagið, samfélagið, samheldnin. Hún hefur áorkað ýmsu góðu eins og mannúðarstarfi. "Sameiginleg hugmynd um altæka skipun tilverunnar" hvort sem að það er raunsönn hugmynd eða ekki getur verið sameiningarafl sem getur leitt bil góðs eða ills. Mér finnst því að mengi B sé í raun of flókið mengi til að teljast bara til afls til "veiklunar", jafnvel þegar bara trúarbrögð eru tekin sem dæmi. Bk.
Hins vegar held ég að "Mengi sameiginlegrar hugmyndar um altæka skipan tilverunnar" sé nokkrum vandamálum háð í þessu. það er ekki alltaf þáttur í "veiklun" mannsins því að það er ekki alltaf verið að tala um sama hlutinn hér.
Svanur, ertu ekki að misskilja þetta eitthvað? Mengi hugmynda um altæka skipan er ekki hið sama og mengi veiklunar, annað er blátt, hitt gult.
Aðrir hafa tekið sig til að teiknað það hvernig ýmis mengi mismunandi kjaftæðis sníða hvert annað. Birti þetta hér til gamans:
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 10/11/14 10:06 #
Ég sé núna að undir merki veiklunar má líka setja baráttusöngva og helgisiði. Dæmi um slíkt er "Áfram kristsmenn krossmenn" úr kristninni, en líka söngvar knattspyrnuliða og "Ísland úr Nató" hernámsandstæðinga (sem menn geta skemmt sér við að finna stað á mengjamyndinni).
Helgisiðir eru síðan út um allt, ekki bara innan trúarbragðanna. Þeir falla því augljóslega í mengi veiklunar - skrúðgöngur, honnör, "heil Hitler!" og allt þetta veiklunarlega sem ásamt búningum ætlað er að þjappa mönnum saman í liðsheild og efla samvitund.