Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarlífsfræðingar á villigötum

Fyrir fáeinum vikum birtist grein á trú.is eftur Bjarna Randver Sigurvinsson sem ber heitið Hvað eru trúarbrögð?. Hún hefst svona:

Skoðanir meðal trúarhreyfinga, trúarbragðafræðinga og almennings hvað kalla megi trúarlegt eru svo skiptar að vandkvæðum er háð að setja fram skilgreiningu sem allir geti verið sammála um. Dæmi eru um fjölmargar hreyfingar sem sverja af sér öll trúartengsl og kjósa frekar að kenna sig við heimspeki, vísindi, trúleysi eða heilsurækt þótt trúarbragðafræðingar skilgreini þær yfirleitt sem trúarlegar.

Maður spyr sig af hverju trúarbragðafræðingar kjósi að spyrða hreyfingar á borð við Vantrú við trúarbrögð. Er eitthvað vit í því?

Bjarni Randver talar um tvenns konar skilgreiningar í trúarlífsfélagsfræðinni, innihaldsskilgreiningar og hlutverkaskilgreiningar. Hið fyrrnefnda er í fullkomnum samhljómi við tilfinningu mína fyrir hugtökunum trú og trúarbrögð, skilgreinir þessi hugtök út frá yfirnáttúru. Aftur á móti eru hlutverkaskilgreiningarnar torkennilegar og í litlu samræmi við þá merkingu þessara hugtaka sem íslenskir málhafar leggja í þau. Því þegar rætt er um trú manna og trúarbrögð er auðvitað verið að tala um tiltrú á andaverur, en ekki það traust sem menn bera hver til annars. Öll önnur hugtök sem leidd eru af orðinu trú í þessari merkingu þess bera þessu vitni, s.s. átrúnaður, trúarlíf, trúarlegur, trúrækinn, trúarjátning, trúarkennd, trúarskáld, trúarleg tónlist, trúarvakning o.s.frv.

Ekkert þessara orða er hægt að nota yfir lífsskoðanir eða listir sem ekki innihalda guðdóm eða yfirnáttúru af einhverju tagi. Eða getum við Vantrúarpennar talist trúræknir og texti okkar trúarlegur? Ég held ekki að nokkur maður geti með heiðarlegum hætti komið sér upp þeirri afstöðu.

En hlutverkaskilgreiningar trúarlífsfélagsfræðinnar ganga þó einmitt út á að gera hvers kyns lífsskoðunum upp átrúnað. Þar með er merking þess hugtaks farin út í veður og vind, því bókstaflega allt er þar með orðið að átrúnaði:

Samkvæmt hlutverkaskilgreiningum eru trúarhreyfingar táknkerfi um altæka skipan tilverunnar sem tiltekinn hópur sameinast um og veitir einstaklingnum heildstæða merkingu og tilgang með lífinu. Slíkt táknkerfi þarf ekki að skírskota til yfirnáttúrulegs veruleika enda geta stjórnmálastefnur flokkast sem trúarbrögð út frá þessum forsendum.

Þarna eru menn að rugla því saman hvað er mengi í hverju. Trú manna og trúarbrögðin sem þeir ástunda eru klárlega hlutmengi í mengi lífsskoðana en ekki öfugt. Hlutverkaskilgreiningin á ágætlega við um lífsskoðanir, en með því að gera þær allar að trúarskoðunum er eins og guðfræðingar vilji þvo hindurvitnin af heimsmynd þeirri sem trúarbrögðin boða. Það er eins og þeir vilji segja: „Já, við erum trúaðir og aðhyllumst trúarbrögð, en það gerið þið líka. Það er enginn munur á okkur og ykkur.“

Munurinn er samt augljós. Annar hópurinn byggir heimsmynd sína á yfirnáttúru, hinn ekki.

Skynsamt fólk hlýtur að sjá að það gengur ekki upp að reyna með þessum hætti að þurrka út skilin á milli þess að aðhyllast hindurvitni eða gera það ekki. Ef allt er trú og vantrú líka, þá þarf að finna upp nýtt hugtak sem greinir þá sem halda á lofti yfirnáttúru frá hinum. Ég hef stundum notast við hugtökin vítalismi og mekanismi til að greina tiltrú á yfirnáttúru frá öðrum lífsskoðunum, eftir að hafa þurft að heyra það ótal sinnum að ég sé trúmaður og hugmyndir mínar af trúarlegum toga.

Ég skil ekki alveg tilganginn með þessum útúrsnúningum guðfræðinga þeirra sem ástunda trúarlífsfélagsfræði. Af hverju er svona nauðsynlegt fyrir þá að uppræta trúarhugtakið sem merkimiða á hugmyndakerfi yfirnáttúrunnar? Er það vegna þess að þeir eru löngu hættir að hafa tiltrú á yfirnáttúru en þurfa að dragnast með allt það gamla foreskjudrasl sem tilheyrir því að boða siðferði Jesú nokkurs Jósepssonar? Skammast þeir sín fyrir trúna? Er þetta fyrsta skref þeirra í þá átt að af-vítalísera trúarbrögð sín og reyna að fúnkera á forsendum siðferðis eingöngu?

Nú skal ég sýna fram á það í eitt skipti fyrir öll að hlutverkaskilgreiningarnar ganga ekki upp. Strax í næstu efnisgrein segir Bjarni Randver nefnilega:

Í trúarlífsfélagsfræðinni eru hugtökin kirkja (church), kirkjudeild (denomination), sértrúarsöfnuður (sect) og einstaklingsmiðlægur aðdáendahópur (cult) notuð til að lýsa félagslegri stöðu mismunandi trúfélaga og trúarhreyfinga. Kirkjan er trúarstofnun sem þorri landsmanna tilheyrir og er nátengd ríkisvaldinu en viðurkennir ekki aðrar trúarstofnanir. Kirkjudeildin er trúfélag sem getur viðurkennt það sem hún á sameiginlegt með öðrum trúfélögum. Sértrúarsöfnuðurinn leggur áherslu á það sem aðgreinir hann frá öðrum og einangrast mikið til fyrir vikið. Einstaklingsmiðlægir aðdáendahópar eru lítt skipulagðir og sækja hinir trúuðu aðeins til þeirra að því marki sem þeir kjósa sjálfir.

Geta þessi hugtök möguega verið rétt skilgreind þarna? Þá er Þjóðkirkjan ekki kirkja heldur kirkjudeild samkvæmt þessu, því hún gerir sér far um að viðurkenna aðrar trúarstofnanir. Einnig getur þá ekki nokkur trúarsöfnuður í Bandaríkjunum talist til kirkju, því þar eru trúarbrögð og ríkisvald fullkomlega aðskilið.

Gefum okkur samt að skilgreiningar á kirkjum og költum hér fyrir ofan séu réttar. Ef við notumst við hlutverkaskilgreiningarnar á trú og trúarbrögðum getur félagið Vantrú ómögulega flokkast sem költ samkvæmt ofangreindri skilgreiningu, því þessi hópur fólks varð ekki til sem aðdáendahópur nokkurs, né gefur sig út fyrir slíkt. Og sértrúarhópur getur þetta fyrirbæri ekki á nokkurn hátt talist, því engin er tilbeiðslan á nokkru goðmagni. Ef ofangreind skilgreining á sértrúarsöfnuði er það eina sem þarf til að teljast sem slíkur, þá hljóta t.d. allar skorir háskólanna að geta talist með. Sértrúarsöfnuður hefur nefnilega tilbeiðslu á guðaverum að leiðarljósi og það gleymist alveg að hafa það með í skilgreiningu Bjarna Randvers.

Og þetta er það sem allt gengur í raun út á. Þjóðkirkjan á klárlega rætur sínar í aðdáendakölti því sem myndaðist kringum Messías frá Nasaret. Það gleymist nefnilega alveg í þessari umræðu að eðli trúarhreyfinga á borð við kristindóminn er fullkomlega költískt, en tíminn hefur breytt þessu úr óskipulögðum tilbiðjendum í skipulagðar fjöldahreyfingar. Það gleymist að kristnir menn eru allir sem einn enn að tilbiðja þennan Krist sem goðmagn, hvort sem þeir tilheyra kirkju, kirkjudeild, sekti eða költi. Í því liggur eðlismunurinn á trúarbrögðum og öðrum lífsskoðunum. Trúaðir menn tilbiðja guði en aðrir ekki.

Dettur nokkrum manni í hug, þegar hann tekur upp bók sem heitir Trúarbrögð heimsins eða eitthvað álíka, að hann eigi eftir að rekast á kafla um knattspyrnu, mannfræði eða sósíalisma? Er það ekki augljóst að slík bók heldur sig við átrúnað manna á guði og andaverur? Af hverju þá að vera eitthvað að rugla með þetta? Fyrir hvað skammast þessir menn sín svona mikið?


Þessu tengt: Uppgjöf Þjóðkirkjumanna

Birgir Baldursson 12.02.2006
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/06 07:12 #

Ja líklega til þess að klæðast skynsemishulu. Þeir vita að gamla hugtakið verður að breita svo það fái ekki fáranlegan blæ sem festist. Þeir geta gert þrennt;

Eitt að víka þeirra eigin merkingarmið þeirra eigin orða til þess að ná yfir fleirri og/eða jákvæðari hluti í hugum fólks eins og vísindi, skynsemi og fótbolta.

Og í öðru lagi taka upp virðuleg heiti andstæðingsins og misnota þau eins og t.d þegar loddarar að kalla sig og aðferðir sínar vísindalega.

Eða í þriðja lagi nota nýtt feluorð í stað gamla orðsins. Eins og í bandaríkunum þar sem ekki er orðið kirkja (church) er sjaldnast notað, því það hefur fengið á sig neikvæðan blæ og kallast þá family worship center í staðin.


Gunnar - 13/02/06 23:17 #

Oft eiga orðahnippingar rót sína í því að menn leggja misjafna merkingu í sama orðið. Lítum á hvað orðabókin segir um orðið trú:

  1. traust, tiltrú
  2. skoðun, ætlan, hyggja, það að trúa einhverju
  3. tryggð, það að vera einhverjum trúr, trúnaður
  4. traust og tilbeiðsla á goðmögnum og vættum, trúarbrögð
  5. átrúnaður, helgi
  6. trúarjátning
  7. vernd
  8. grúfuspil

Ég gæti trúað (!) að þeir sem væna vantrúarmenn um trú hafi oftar en ekki merkingu 2 í huga, en það er merking 4 sem er eitur í beinum vantrúarmanna. Þeir gangast við trú í merkingu 2 þegar þeir nota orðið lífsskoðun. Eftir því sem ég best veit er merkingum orða í orðabók raðað eftir algengi. Röðunin gæti mögulega hafa breyst frá því orðabókin sem ég fletti upp í var búin til (1988) og svo gæti líka verið að vísindamennirnir sem bjuggu til orðabókina hafi ekki beitt nægilega nákvæmum aðferðum til að mæla algengi hverrar merkingar. Ef röðunin stenst, þá er ábending gagnrýnendanna réttmæt. En þetta er aukaatriði.

Aðalatriðið er þetta: þeir sem væna trúleysingja um trú eru oft einfaldlega að reyna að benda á að þótt maður telji sig trúlausan geti hann ekki frekar en aðrir verið fullviss um að allar skoðanir hans séu sannleikanum samkvæmar. Ég er þeirrar skoðunar að besta leiðin til að nálgast sannleikann sé að vera reiðubúinn að endurskoða allar skoðanir sínar.

En það gæti verið rangt hjá mér.

Kreddufesta er hinn raunverulegi óvinur og sá sem segist vera trúlaus kann að virðast fullviss um skoðanir sínar. Þess vegna hugnast mér orðið vantrú betur - en það er að trúa frumsendum sínum rétt mátulega. Og ég kann betur við skrif vantrúarmanna þegar þeir tala varlega en þegar þeir verða berir að hrokafullri yfirlýsingagleði - hún er ekki í anda sannrar vantrúar.

Að því sögðu vil ég þakka ykkur fyrir ágætan vef.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/06 00:45 #

Þetta er miklu alvarlegra mál en svo að snúast bara um orðið trú. Það kemur skýrt fram í grein Bjarna Randvers að trúarbragðafélagsfræðingar vilja troða öllum lífsskoðunum undir trúarbrögð og flokka skoðanir eins og þær sem við aðhyllumst sem trúarlegar.


Gunnar - 19/02/06 01:53 #

Bjarni segir að í trúarlífsfélagsfræðinni séu trúarbrögð skilgreind á tvo vegu. Birgir fellir sig einungis við að orðið "trúarbrögð" sé notað um fyrrnefnda skilninginn, þ.e. innihaldsskilgreiningar. Um síðarnefnda skilninginn vill Birgir nota orðið "lífsskoðun" og færir fyrir því þau rök að trú manna og trúarbrögð vísi til yfirnáttúru. Reyndar tekur Bjarni það fram að síðarnefndi skilningurinn þarf ekki að skírskota til yfirnáttúru, þannig að ágreiningurinn virðist snúast um hvort rétt sé af trúarlífsfélagsfræðingum að nota orðið "trúarbrögð" án tilvísunar til yfirnáttúru.

Ágreiningurinn snýst því ekki um að vantrúarmönnum séu gerðar upp skoðanir sem þeir hafa ekki. Enginn vænir þá um trú á yfirnáttúru.

Þessu má e.t.v. líkja við að skák sé kölluð íþrótt og skákmeistarar íþróttamenn. Það skiptir ekki höfuðmáli að venjulega sjáum við fyrir okkur vöðvastæltan kappa þegar talað er um íþróttamenn. Í ákveðnu samhengi hentar að fella skák undir orðið "íþróttir" og það er ágætt að vita af því t.d. þegar leita skal skákfrétta á mbl.is.

Áður en ég verð sakaður um strámannsrök skal ég yfirfæra þessa líkingu á trúarbrögðin. Í ákveðnu samhengi, t.d. í orðræðu trúarlífsfélagsfræðinga, kann að henta að fella trúleysi/vantrú undir orðið "trúarbrögð". Það breytir ekki því að í daglegu tali sjá menn fyrir sér kross/hálfmána/Davíðsstjörnu þegar þetta orð ber á góma. Orðið kann bara að vera notað í annarri merkingu við ákveðnar aðstæður. Raunar eru afskaplega mörg orð í orðabókinni sem hafa fleiri en eina merkingu (jafnvel andstæða merkingu).

Svo er annað að eftir því sem trúleysingjar tala af meiri sannfæringarkrafti eru þeir líklegri til að verða orðaðir við trúarbrögð (og þá vegna kreddufestu, ekki vegna trúar á yfirnáttúru). Það er nefnilega þannig að trú (í merkingunni skoðun) felur í sér efa, venjulega telst maður trúa einhverju ef það getur verið rangt en það sem getur ekki verið rangt veit maður. Þess vegna mætti segja að skoðanir vantrúarmanna séu réttnefndari trúarbrögð en hin hefðbundnu trúarbrögð. Hinn trúrækni heldur fast við sannfæringu sína sama á hverju dynur. Efi er hins vegar fyrsta og eina boðorð vantrúarmannsins.


Hjalti (meðlimur í Vantrú) - 19/02/06 02:26 #

Jamm, vissulega eru þetta bara spurning um hugtakanotkun. Ef trúarlífsfræðingar vilja nota þessa skilgreiningu sem innifelur í sér íþróttafélög, lífsskoðanafélög og frímerkjaklúbba, þá finnst mér að það mætti nota nýtt hugtak fyrir það. Til að byrja með er bara asnalegt að kalla eitthvað trúarbrögð ef það tengist ekki trú, en þar að auki munu trúmennirnir koma og segja: "Sko, víst trúið þið, enda er þetta flokkað sem trúarbrögð af trúarlífsfræðingum!". Svipuð vitleysa og hjá krakkanum sem vill fá frí í leikfimi af því að hann æfir skák 6 sinnum í viku.


Gunnar - 19/02/06 12:42 #

Ég er pínulítið hræddur um að umræðan sé að fara í hring. En lítum aftur á hvernig Bjarni lýsir hlutverkaskilgreiningu:

Samkvæmt hlutverkaskilgreiningum eru trúarhreyfingar táknkerfi um altæka skipan tilverunnar sem tiltekinn hópur sameinast um og veitir einstaklingnum heildstæða merkingu og tilgang með lífinu.

Hér sýnist mér lífsskoðanafélög eiga meira sammerkt með trúfélögum en frímerkjaklúbbum. Þó er rétt að taka fram að ég hef ekki verið í frímerkjaklúbb.

Það er asnalegt að tala um þráðlausan síma, þar sem sími þýðir þráður. Og það er asnalegt að telja efahyggju til trúarbragða ef trúarbrögð þýðir "trú á yfirnáttúru". En orð breyta um merkingu, ekki aðeins frá einum tíma til annars, heldur einnig frá einu samhengi til annars. Því er væntanlega ekki á móti mælt.

Títtnefndir trúarlífsfélagsfræðingar nota, samkvæmt Bjarna, orðið trúarbrögð stundum yfir það sem vantrúarmenn kalla lífsskoðun, enda kann það að þjóna tilgangi umræðunnar að fjalla í sömu andrá um öll kenningakerfi um "altæka skipan tilverunnar", þ.e. allar lífsskoðanir. Kannski á orðið lífsskoðun eftir að ná yfirhöndinni einhverntíma. Það skiptir ekki máli hvaða orð er notað ef merkingin kemst til skila. Og eins og fyrr sagði efast ég um að einhver væni vantrúarmenn um trú á yfirnáttúru, jafnvel þótt afstaða þeirra sé felld undir trúarbrögð.

Þegar trúmennirnir koma og segja "víst trúið þið", þá myndi ég sem efahyggjumaður svara "já, ég trúi ákveðnum hlutum, en leyfið mér að útskýra hvers vegna ég trúi þeim frekar en einhverjum öðrum". Mig langar til að snara nokkrum orðum Bertrands Russells og gera þau að mínum:

…Ef einhver segir til dæmis, að Jörðin sé flöt, þá má hann mín vegna básúna þá skoðun sína eins og hann lystir. Hann gæti auðvitað haft rétt fyrir sér, en ég tel svo ekki vera. Að mínu mati reynist þér betur að telja Jörðina vera hnöttótta, þótt þú gætir haft rangt fyrir þér. Þess vegna er ég ekki á því að við ættum að aðhyllast botnlausa efahyggju, heldur kenningakerfi sem byggir á líkindum.

Ég tel að þegar allt kemur til alls sé þetta það kenningakerfi sem heimurinn þarfnast.

Það að efahyggjumenn trúa ákveðnum hlutum er ekki snöggur blettur á þeim. Það er einmitt styrkur þeirra að vera reiðubúnir að skipta um trú.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.