Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Júníformismi

Í Speglinum á Rás 1 í gærkvöldi kom fram að í seinni tíð flykkist fólk í faðm trúarinnar, það hefur átt sér stað trúarleg vending. Þetta hefur einmitt verið mér nokkurt áhyggjuefni á síðustu árum.

Samkvæmt Hjálmari Sveinssyni tala póstmódern heimspekingar um að með því að Nietzsche sló Guð af fyrir rúmum hundrað árum hafi hann í raun einnig numið úr gildi hugmyndina um einn óhagganlegan sannleik. Og á þeim forsendum sé allt opið og fólk geti hvert og eitt smíðað sér sinn eigin guð og gert þar með veröldina litríkari og innihaldsríkari.

Uppbrot á buxum

Ekki veit ég hve mikið vit er í þessum hjá þessum ágætu heimspekingum. Ég hallast í raun fremur að því að hér sé á ferðinni er eitthvað sem kalla má júníformisma.

Hugtakið konformismi á einnig við um þessa hegðun. Það vill svo til að við lítum ætíð til þeirra sem við berum virðingu fyrir og leitumst við að fara í fötin þeirra eins og kostur er.

Ég á ágætt dæmi um þetta úr eigin fórum. Þegar ég var trommari í hljómsveitinni Unun var ég allt í einu byrjaður að brjóta upp á skálmarnar á buxunum mínum. Þetta gerði ég algerlega án þess að taka eftir því, hugsaði ekkert út í hvað olli þessu hátterni, í það minnsta voru buxurnar mínar ekkert of síðar.

Svo var ég einhverntíma á heimleið af barnum þegar ég mætti stelpu sem stöðvaði mig og spurði mig að því af hverju ég væri með uppbrot. Mér varð fátt um svör en fór í framhaldinu að stúdera neðsta hlutann á buxum annarra.

Og ég þurfti ekki að leita lengi, því nú tók ég eftir því að Þór Eldon gítarleikari var með brotið upp á buxur sínar. Hann er fremur lágvaxinn og gæti hafa brugðið á þetta ráð til láta fatnað sinn passa betur. Eða kannski var hann að setja trend. Í það minnsta var það sú eina skýring sem ég fann á framferði mínu að þarna væri ég að einkennisklæða mig í stíl við foringja sveitarinnar, sýna honum ákveðna tegund undirgefni og efla með því samræmi og einingu.

Þetta gera allir. Vinkonur í hóp klæða sig allar svipað, þingmenn gera slíkt hið sama og nánast hvaða hópur sem er (utan Village People auðvitað). Þetta er einfaldlega partur af þörf okkar fyrir að merkja okkur þeim "ættbálki" sem við tilheyrum, við íklæðumst táknum hans.

Í hernaði er þetta auðvitað tekið alla leið, þar eru raunveruleg júníform brúkuð.

Hugsanatíska

Ég hallast að því að það sé ekki aðeins hið ytra útlit sem er ofurselt júníformismanum, heldur eru skoðanir okkar undir sömu sök seldar. Hinn ágæti penni Paul Graham hefur reyndar bent á þetta í þessari grein sinni. Hugsanir okkar og skoðanir fylgja augljóslega tískustraumum.

Og nú ber svo við, í seinni tíð, að ýmsir virðingarverðir einstaklingar hafa verið opinskáir um trú sína. Það hefur jafnvel verið tíska í ýmsum viðtalsþáttum, s.s. hjá Jónasi Jónassyni og Jóni Ársæli, að draga fram trúarviðhorf viðmælandans með beinskeyttum spurningum.

Og það er í tísku að trúa. Nýlegt dæmi um mann sem einkennisklæðir heilabú okkar er Jón Gnarr, sem fjálglega talar um kristna trú sína og setur upp sýningar. Fleiri frægir sem mætti nefna eru Pétur Gunnarsson, Ómar Ragnarsson, Gunnar Eyjólfsson, Björn Bjarnason, Björgvin Halldórsson, Rúnar Júlíusson, Bubbi Morthens, Einar Ágúst, Þorgerður Katrín, Páll Rósinkrans, Davíð Þór Jónsson, Geir Jón Þórisson, Arnar Jensson, KK, Jónína Benediktsdóttir, Jónína Bjartmaz og Kolbrún Halldórsdóttir, svo einhverjir séu nefndir.

Við hin sem leitumst, meðvitað eða ekki, eftir því að líkjast þessum einstaklingum tökum ósjálfrátt upp viðhorf þeirra og hugsunarhátt. Og áður en varir erum við öll orðin svakalega trúuð.

En góðu fréttirnar eru kannski þær að allt svona gengur í bylgjum. Líklegt er að innan fárra ára verði átrúnaður aftur önnkúl og þá er færi á að festa trúleysið endanlega í sessi sem viðurkennt lífsviðhorf í samfélagi okkar.

Þangað til er bara að harka af sér hindurvitnaflippið og undirbúa jarðveginn.

Birgir Baldursson 08.04.2004
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


joi stori - 13/04/04 16:37 #

þá má alveg eins segja að maður elti trúleysið eins og maður elti það a ðvera trúaður...kemur útá það sama kallinn...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/04/04 00:17 #

En nú er trúleysi ekki mjög vinsæl afstaða að taka. Þessi vefur er t.d. talandi dæmi um hvernig því er tekið þegar einhver opnar munninn um þá afstöðu sína - honum er oftar en ekki drekkt í ásökunum og ofurtrúboð og ofstæki.

Trúleysi er gjarna afrakstur gagnrýninnar hugsunar. Þeir sem ástunda hana ganga einmitt oftar en ekki gegn tískustraumum hugsunar og siðferðis, láta sig það allt engu varða.

Þessi fullyrðing þín er því út í bláinn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.