Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hjónaband, samkynhneigð og óbreytanleg lög Jahve

Mynd af boðorðunum tíu

Málflutningur Franklin Grahams í Kastljósi og á Hátíð Vonar um biblíuna, hjónabandið og samkynhneigð er afskaplega dæmigerð fyrir svokallað “bókstafstrúarfólk”. Ef biblían er lesin þá sést að málflutningur hans stenst enga skoðun.

Hvað segja Franklinar heimsins?

Í Kastljós-viðtalinu talaði Franklin á þá leið að hann væri bara sammála biblíunni, sem væri afskaplega skýr. Samkvæmt henni er hjónaband bara á milli karls og konu og samkynhneigð synd. Hann er bundinn við biblíuna. Á ræðu á Hátíð Vonar sagði hann svo að lög guðs breyttust ekki, þau væru eins núna og þau voru fyrir þúsund árum síðan, og þau verða eins eftir milljón ár. Þannig að reglur guðs varðandi hjónaband og samkynhneigð eru ekki fallin úr gildi.

Óbreytanleg lög Jahve

Í fyrsta lagi stenst fullyrðing Franklin Grahams um að lög guðs hans séu eilíf og óbreytanleg ekki skoðun þar sem að hann sjálfur heldur því fram að guðinn hans hafi breytt þeim.

Hann er örugglega sammála því að það eigi ekki að grýta miðla, drepa þá sem halda framhjá, brenna lausláta dóttur prests eða grýta ættingja fyrir að boða aðra trú. Svo grunar mig að Franklin telji það ekki vera synd að éta svínakjöt, þrátt fyrir að það sé stranglega bannað í biblíunni.

Franklin og skoðanabræður hans halda því fram að Jesús hafi breytt þessu (þrátt fyrir að Jesú segi í fjallræðunni sjálfri að þetta sé allt í gildi). Samkvæmt þeim þá megum við borða svínakjöt og við eigum ekki að grýta ættingja sem boða aðra trú. Samkvæmt þeirra eigin túlkun eru því lög guðs þeirra augljóslega ekki óbreytanleg og eilíf.

Óbreytanlega hjónabandið

Það er einnig ljóst að hugmyndir Franklins og félaga hans um hjónabandið eru ekki í samræmi við suma hluta biblíunnar.

Til að byrja með þá er fjölkvæni leyft í lögum Móse. Í lögunum eru leiðbeiningar um fjölkvæni (til dæmis 2Mós 21.10 og 5Mós 21:15-17). Auk þess er þar lagt sérstakt bann við því að maður giftist systrum (3Mós 18:18), sem þýðir að fjölkvæni er almennt í lagi. Nú er ég nokkuð viss um að jábræður Franklins séu á móti fjölkvæni, þrátt fyrir að óbreytanleg lög Jahve leyfðu það einu sinni.

Í nútímanum lítum við á hjónaband sem samning á milli tveggja jafningja. Í lögum Gamla testamentisins (og reyndar líka í Nýja testamentinu) eru konurnar hins vegar algerlega undir hæl karlsins. Í lögum Jahve er til dæmis talað um að faðir geti selt dóttur sína sem ambátt til annars manns sem giftist henni ef *hún geðjast honum” (2Mós 21:7-11). Sama mál er að segja um konur sem eru teknar sem stríðsfangar, karlmaðurinn hafði leyfi til að giftast henni, en varð að láta hana lausa ef hann “hafði eigi lengur þokka til hennar” eftir að hafa nauðgað henni (5Mós 21:10-14). Mér þykir afar ólíklegt að bókstafstrúarfólkið vilji kalla þetta óbreytanleg lög guðsins þeirra.

Hægt er að benda á fleiri atriði, til dæmis skyldu manns til þess að giftast ekkju bróður síns (5Mós 25:5-6) og þá hugmynd að nauðgari eigi að giftast fórnarlambi sínu og borga föðurnum sekt vegna eignaspjallanna (5Mós 22:28-29), en það er nokkuð augljóst að bókstafstrúarmenn taka ekki hugmyndir sínar um hjónaband beint upp úr biblíunni, heldur velja þeir og hafna eins og annað kristið fólk.

Óbreytanlega samkynhneigðin

Sömu sögu er að segja um samkynhneigð, þó svo að þar séu breytingarnar ekki jafn miklar. Þvert á málflutning ýmissa frjálslyndra trúmanna, þá tel ég að biblían fordæmi í raun og veru samkynhneigð, bæði í Gamla og Nýja testamentinu. En hér hafa lög Jahve líka breyst all-verulega. Hér er alræmdasta dæmið um “óbreytanleg” lög guðs kristinna manna um samkynhneigð:

Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim. (3Mós 20:13)

Ég þori að fullyrða að hvorki Franklin Graham né Snorra í Betel hafa haldið því fram að það ætti að taka óskírlífa homma af lífi. Samt boða óbreytanleg lög guðs það.

Nú er það heilmikil breyting að fella niður dauðarefsinguna algerlega, þannig að guðinn þeirra getur augljóslega skipt um skoðun á samkynhneigð. Hver veit nema honum finnist hún allt í lagi núna, svona eins og hann er sáttur við svínakjötsát?

Bæði verra

Það er ljóst að hinir svokölluðu bókstafstrúarmenn eru eins og frjálslyndu trúmennirnir,: þeir velja og hafna úr biblíunni. Staðreyndin er sú að biblían er stútfull af grimmilegu og ógeðslegu fornaldarsiðferði sem afskaplega fáu heilvita fólki dettur í hug að styðja.

Vandinn er sá að allir þessir trúmenn vilja nota biblíuna sem kennivald, þeir vilja réttlæta skoðanir sínar með því að vísa í hana. Þess vegna eru þeir, bæði bókstafstrúarmennirnir og hinir frjálslyndu, sífellt að reyna að afsaka og fegra biblíuna. Það er miklu heiðarlegra að viðurkenna einfaldlega að biblían er eins og hún er: ljót bók sem á heima á ruslahaugum sögunnar.


Mynd fengin hjá Scazon

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.10.2013
Flokkað undir: ( Biblían , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Gunnlaugur - 11/10/13 17:53 #

Það er auðvitað rosalega erfitt að rökræða við mann eins og þig um Biblíuna því skilningur þinn á milli mannasetninga Biblíunnar og orða Guðs er greinilega enginn. Lestu það Nýja töluvert vel og notaðu það sem "gleraugu" á það Gamla. Skilningur þinn er greinilega (ef þetta er hann) á algerum villigötum. Nýja Testamentið er rit kristinna manna en ekki það Gamla og allur ljótleikinn sem vissulega er þar er ekki það sem Kristindómurinn snýst um. Það á engann mann að drepa né formæla. Skilningur minn er að Guð elskar samkynhneigða jafn mikið og alla aðra. Sorry félagi. :-). 99% kristinna er sem betur fer ekki á þinni skoðun því þá værum við í djúpum skít.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/10/13 18:08 #

Skilningur minn er að...

Hvað er svona merkilegt við skilning þinn?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 11/10/13 23:03 #

Það er auðvitað rosalega erfitt að rökræða við mann eins og þig um Biblíuna því skilningur þinn á milli mannasetninga Biblíunnar og orða Guðs er greinilega enginn.

Gunnlaugur, og hvernig í ósköpunum greinirðu á milli þessara hluta? Er eitthvað annað letur notað á "orða Guðs" og mannasetninga í biblíunni?

Lestu það Nýja töluvert vel og notaðu það sem "gleraugu" á það Gamla.

Í Nýja testamentinu sé ég Jesú koma með svona ummæli:

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.

Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. (Mt 5:17-19)

Jesús virðist ekki líta á lögmálið sem "mannasetningar".

Nýja Testamentið er rit kristinna manna en ekki það Gamla.

Nú er það auðvitað mismunandi eftir kristnu fólki, en ef við miðum við allar helstu kirkjudeildir heimsins, þá kallast trúarrit kristinna manna biblían og biblían samanstendur af amk bæði Nýja og Gamla testamentinu.

Þetta segir t.d. í "stefnuskrá" Þjóðkirkjunnar:

Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 11/10/13 23:03 #

Skilningur minn er að Guð elskar samkynhneigða jafn mikið og alla aðra.

Hvernig í ósköpunum telur þú þig vita hvaða skoðanir þessi guð þinn hefur á hlutunum?


Gandalf - 20/10/13 20:00 #

Kristur ómerkti markt af lagasetningum Gamla testamentisins. Hann benti fólki á að í því boði að elska Guð af öllu hjarta, mætti og sálu og náungan eins og sjálfan sig felist leyndardómur lögmálsins. Fari maður eftir því boði fer maður jafnframt eftir lögmálinu. Fræðimenn hafa rannsakað þetta og talið líklegt að hin upphaflegu lagaboð sem kennd voru í munnlegri geymd hafi einmitt verið einföld upptalning á boðum og bönnum án allra nánari skýringa þar um. Við ritun og endurritun hafi jafnvel laumast inn lagasetningar frá Lagakóða Hammúrabís. Þannig hafi komið inn mannasetningar þær sem Kristur gagnrýnir sjálfur.

Að elska Guð af öllu hjarta, mætti og sálu og náungan eins og sjálfan sig er því kjarna boðskapur kristinnar trúar. Það er það lögmál sem Kristur sjálfur kenndi okkur til eftirbreytni.

Það að ætla sér að ganga í bókstafstrú þeirri sem þið viljið heimfæra á kristindóminn, bæði eftir boðum Gamla testamentisins og hins Nýja, býður upp á þá þversögn að bjóða hina kynnina (boð Krists) og á hinn veginn að heyja stríð og útrýma óvinaþjóðum (boð Gamla testamentisins). Það er þess vegna sem Gunnlaugur bendir ykkur á að skoða Gamla testamentið með gleraugum hins Nýja.

En ég hef fylgst með ykkur og þetta hefur ykkur áður verið sagt með ýmsum hætti á hinum fjölbreytilegu spjallþráðum í gegnum tíðina. En ef til vill þurfið þið reglulega uppfærslu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 20/10/13 21:14 #

Kristur ómerkti margt af lagasetningum Gamla testamentisins.

Þetta segir Gandalf. Berum þetta saman við tilvitnunina úr fjallræðunni sem ég kom með hérna rétt fyrir ofan:

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. (Mt 5:17-19)

Ef við gefum okkur það að fjallræðan sé áreiðanleg heimild, þá er Jesús ósammála þér um boðskap hans.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.