Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að fegra Jesú

Í nýlegri predikun kemur ríkiskirkjupresturinn Ólafur Jóhannsson með undarlega túlkun á frekar vandræðalegum ummælum Jesú. Hérna er það sem Jesús segir:

Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki. (Mt 5.17-19)

Þessi ummæli túlkar Ólafur svona:

Boðskapur lögmálsins og spámannanna snýst einkum um þrennt: Réttlæti, miskunnsemi og heiðarleika. Það eru grunngildin sem Jesús sagðist ekki ætla að afnema heldur uppfylla.

Við skulum ekki pæla í því að boðskapur Gamla testamentisins snýst ekki um réttlæti, miskunnsemi og heiðarleika. Þessu túlkun er augljóslega röng. Jesús talar ekki um að hann sé ekki að afnema einhver almenn „grunngildi“, heldur tekur hann sérstaklega fram að hann er að tala um öll boðin í Mósebókunum. Það mun ekki „einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu“ og þú mátt ekki brjóta „eitt af þessum minnstu boðum“.

Ef ég segi „Það mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr gildi í þessum samningi.“, þá er fáránlegt að ætla að túlka það þannig að ég eigi bara við að aðalatriðin eða almennt innihald samningsins muni ekki falla úr gildi.

Auk þess er erfitt að hugsa sér að einhver héldi fram þeirri skoðun sem Ólafur heldur að Jesús sé að mótmæla: „Jesús kom til þess að afnema réttlæti, miskunnsemi og heiðarleika.“ Hverjum dytti það í hug?

Hins vegar var nóg af kristnu fólki á þeim tímum sem Matteusarguðspjall var skrifað sem var á þeirri skoðun sem Jesús mótmælir í versunum: „Jesús kom til þess að afnema lögmálið.“ Flestir kristnir menn í nútímanum trúa þessu og fara þess vegna ekki eftir lögmálinu, borða svínakjöt og fleira í þeium dúr.

Höfundur Matteusarguðspjalls (eða Jesús) var klárlega á móti þessari hugmynd. Annar texti í Matteusarguðspjalli sem sýnir fram á þetta er Mt 23.2-3:

Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þarna segir Jesús: „Farið eftir því sem farísearnir segja ykkur að gera.“ Ríkiskirkjuprestar geta ekki sætt sig við þennan boðskap, enda væri það ekki vinsælt ef ríkiskirkjan færi að boða bann við svínakjöti og humar. Þess vegna þurfa prestarnir að reyna að fegra orð Jesú með því að mistúlka þau.

Hjalti Rúnar Ómarsson 13.09.2009
Flokkað undir: ( Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/09/09 11:26 #

Vandræðalegt að kenna sig við Krist og þiggja (ofur)laun fyrir að boða trú á hann en geta svo engan veginn farið eftir því sem hann á að hafa sagt.

FAIL


Björn Ómarsson - 13/09/09 18:27 #

Nýja-testamentsfræðingurinn Bart Ehrmann hefur ítrekað bent á það í bókum sínum að höfundar Biblíunnar ætluðust ekki til þess að bækur þeirra væru lesnar með hliðsjón af öðrum bókum annara manna! "Matteus" ætlaðist ekki til þess að menn reyndu að sætta það sem hann skrifaði við það sem t.d. Páll skrifaði, enda er það ómögulegt.

Í nýjustu bók Ehrmans, Jesus: Interrupted, sem ég er að lesa núna, tileinkar höfundurinn heilann kafla þessu málefni. Kaflinn heitir "A Mass of Variant Views" (ég geri ráð fyrir að "pun"-ið sé "intended" og beint að prestinum okkar). Hann er meira að segja með undirkafla sem heitir "Paul's and Matthew's Views on the Law" þar sem hann bendir á að þessir tveir eru eins ósammála og hægt er að vera um lögmál gamla-testamentsins.

Þessi árátta predikara að sætta andstæðar skoðanir biblíuhöfundanna er frekar kjánaleg. Það er frekar augljóst að þegar Ólafur skrifaði þessa predikun gerði hann ekki ráð fyrir að hlustað yrði með gagnrýnum huga. Prestar vilja bara predika fyrir kórinn


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/09/09 19:42 #

Algjörlega sammála þér Björn. Ég er meira að segja á þeirri skoðun að höfundur Mt hefur fólk eins og Pál í huga þegar hann lét Jesús segja þessi orð í Mt 5.17-20. Því að ummælin "Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina." bendir til þess að einhver hafi verið að segja: "Jesús kom til þess að afnema lögmálið." (væri gaman að vita hvort Ehrman segi eitthvað um þetta).

Hérna er samt Ólafur ekki beint að samræma tvo mismunandi rit biblíunnar, heldur er hann að mistúlka eitt rit svo að það passi betur við trúarskoðanir hans.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/09/09 19:44 #

Kannski rétt að bæta því við að ég var að enda við að senda Ólafi tölvupóst og vakti athygli hans á þessari grein.

Vonandi vill hann verja þessa túlkun sína.


Björn Ómarsson - 13/09/09 20:10 #

Hérna er samt Ólafur ekki beint að samræma tvo mismunandi rit biblíunnar, heldur er hann að mistúlka eitt rit svo að það passi betur við trúarskoðanir hans.

það er svo sem rétt. Þessi skoðun prestsins er aftur á móti sú sama og Páll tjáir í sínum bréfum, þannig að kjánaskapurinn stendur ;)

Því að ummælin "Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina." bendir til þess að einhver hafi verið að segja: "Jesús kom til þess að afnema lögmálið." (væri gaman að vita hvort Ehrman segi eitthvað um þetta).

Ehrman talar um að það sé vel hugsanlegt að sum rit biblíunnar hafi verið skrifuð sem svar við "rangri" guðfræði, sérstaklega bréf Páls. Reyndar varpar Ólafur sjálfur fram þeirri kenningu í predikuninni, þannig að ég held að þetta sé góður möguleiki.

Það er líka gott að hafa í huga að "Matteus" skrifar sitt guðspjall 25-30 árum eftir Pál, þannig að hugmyndin um að Lög Gyðinganna séu fallin úr gildi er eldri en Matteusarguðspjall.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.