Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af athugasemdum Brynjars Níelssonar

Mynd af peningi

Ég hef undanfarið skrifað tvær greinar til að bregðast við skrifum Brynjars Níelssonar um réttmæti þess að halda úti ríkisreknum fjölmiðli nú þegar kreppir að. Í þeirri fyrri sem ég birti sem opið bréf til Brynjars velti ég upp þeirri spurningu hvort að ekki mætti horfa til fjárframlaga ríkisins til trúfélaga, og þá sérstaklega Þjóðkirkjunnar, í þeim niðurskurði sem fyrir liggur að verða lagt í. Í þeirri seinni brást ég við svari Brynjars við opna bréfinu. Fljótlega eftir að þessi seinni grein mín birtist kom svar frá Brynjari við þessu „ati“ mínu, sem var reyndar ekki svar að hans sögn enda skildi hann ekki hverju ég hefði verið að svara sjálfur, heldur athugasemdir. En þó að mér finnist það stórmannlegt af Brynjari að leggjast svo lágt að svara svona ati þá sé ég mig knúinn til þess að gera nokkrar athugasemdir sjálfur.

i) Brynjar segir kirkjuna ekki ríkisrekna og vísar m.a. í lög um Þjóðkirkjuna þar sem segir að hún sé sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu. Staðreyndin er hins vegar sú að ríkið greiðir nær allan rekstrarkostnað kirkjunnar, prestar teljast opinberir embættismenn og laun þeirra eru ákvörðuð af kjararáði, kirkjan skilar reikningum til ríkisendurskoðunar og sjálfur Biskup vísar til Þjóðkirkjunnar sem opinberrar stofnunnar. Það gerðist seinast í apríl þegar Biskup benti á að erfitt yrði að áminna prest á Húsavík sem hafði latt stúlku til þess að kæra nauðgun fyrir nokkrum árum vegna þess hversu ferlið í kringum slíkt væri þungt hjá opinberum stofnunum. Hvað varðar það að kirkjan sé sjálfstæð þá vísar það væntanlega til þess að hið opinbera hlutast ekki til um innri málefni hennar nema að takmörkuðu leyti. Það er þó skilgreint í þessum sömu lögum t.d. hvenær aðalsafnaðarfundir skulu fara fram og hverjir hafi atkvæðisrétt á þeim. Ætli mörg sjálfstæð og aðskilin félög búi við slíka lagasetningu? Það eru reyndar til fleiri opinberar stofnanir sem sagðar eru sjálfstæðar í lögum, má þar til dæmis nefna RÚV.

Brynjar fullyrðir að framlög ríkisins til kirkjunnar byggi á viðskiptasamningum. Það er í besta falli ónákvæmt. Hægt er að nefna t.d. framlög til kirkjumálasjóðs og jöfnunarsjóðs sókna sem byggja ekki á neinum slíkum samningum.

Fyrirbæri sem er rekið fyrir opinbert fé, inniheldur opinbera embættismenn sem falla undir kjararáð og skilgreinir sig sjálft sem opinbera stofnun er opinber ríkisrekin stofnun. Svo einfalt er það.

ii) Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld. Hvorki fyrir ríkiskirkjuna né önnur trúfélög. Sóknargjöld eru framlög tekin úr ríkissjóði. Ef þau væru innheimt sérstaklega sæjust þess merki einhversstaðar, t.d. á launaseðlum þar sem rukkun fyrir aðild að stéttarfélögum kemur fram.

iii) Ef menn ætla að halda fast í þá skoðun að sóknargjöld séu innheimt sérstaklega þá er komin upp merkileg staða. Það fyrirkomulag eins og það er framkvæmt nú felur nefnilega í sér að hér á landi hafa líklega verið brotin lög á þeim sem standa utan trúfélaga. Það hefur engin áhrif á þá skatta sem ríkið innheimtir af einstaklingi hvort hann standi utan eða innan trúfélags. Ef raunveruleg innheimta á sér stað þá má í raun segja að lagður sé sérstakur skattur á þá sem standa utan trúfélaga sem jafngildir þeirri upphæð sem innheimt er í sóknargjöld. Engin heimild til slíkrar skattheimtu er til í lögum. Í hvaða stöðu er íslenska ríkið ef þetta er raunin?

iv) Ef RÚV og ríkiskirkjan eru of ólíkar stofnanir til að bera megi þær saman hvað má þá segja um það að velta því fyrir sér hvort að sá sem vill að einstaklingar borgi sjálfir fyrir þjónustu trúfélaga vilji að það sama gildi í mennta- og heilbrigðiskerfinu? Í mínum huga er allavega meira en bara stigsmunur á því að ferma barn og að gera á því hjartaskurðaðgerð.

v) Ég hef umburðarlyndi gagnvart trú og lífsýn annarra og sneiði t.a.m. hjá því að nota gamla og úr sér gengna merkimiða og barnalega uppnefningar á þá sem ég er ósammála. Hins vegar áskil ég mér rétt til þess að hafa skoðanir á því þegar trúarbrögð troða sér inn á fólk og staði þar sem þau eiga ekki heima og því þegar hindurvitnum og skottulækningum er haldið að fólki. Þess vegna m.a. er ég meðlimur í Vantrú. Ég tel það samrýmast frjálshyggju jafn vel og það að gagnrýna þá sem aðhyllast aðra hugmyndafræði í stjórnmálum en ég sjálfur geri.


Birtist upphaflega á Pressunni

Egill Óskarsson 02.09.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 02/09/13 16:51 #

Við þetta má svo bæta að auk biskupsins skilgreinir Brynjar Þjóðkirkjuna sjálfur sem opinbera stofnun þegar það hentar betur umræðunni. Seinast bara í gær.

Brennuvargarnir hafa ráðist með skipulögðum hætti að mikilvægum stofnunum ríkisins, svo sem eins og lögreglu, dómstólum, þjóðkirkjunni og Háskóla Íslands, jafnvel í búningi mannréttinda og lýðræðis, þótt hinn ofstækisfulli pólitíski raunveruleiki blasi við.#


sigmundur - 04/09/13 11:59 #

Skodun og sanleikur eru tveir olikir hlutir sanleikurin er ekki skodun dæmi 1+1 eru altaf 2 sama hvada skodun thù eda their hafa. og mér finst sanleikur skifta máli ad trúa er ekki leidin til sanleikans og ad vera á mòti ligini er meri digd en ad trüa á hindur vitni ,stadreindir og sanleikur eru mikil væg verkfæri til ad lifa á jörd sem snist á ofsa hrada um himin geimin,madurinn á fimtu hæd í blokk hlitur ad vera viss hvort hann eigi ad fara utt um dirnar eda glughan .Rikisrekin prestur sem ligur ad litlum börnum ad helviti se til ætti ad akammast sin.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.