Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Brynjari svarað

Mynd af Alþingi
Brynjar Níelsson alþingismaður svaraði opnu bréfi ég sem skrifaði honum og birtist á Pressunni nú nýlega. Í kjölfarið bjó DV til frétt þar sem fullyrt var að við tveir ættum í deilum, sem kom mér reyndar á óvart þar sem ég leit á þetta sem kurteisislegar rökræður. En þar sem ég hef það mottó að láta aldrei tækifæri til illdeilna framhjá mér fara hef ég ákveðið að svara svari Brynjars.

Hvað varðar samninginn sem launagreiðslur presta byggja á þá vil ég benda Brynjari á að hann má meðal annars finna á vef Alþingis. Það er svo vel skiljanlegt að hann þekki ekki verðmæti jarðanna enda er hvorki það né fjöldi þeirra þekktur, eins og ég benti á. Hvað varðar leiki með tölur þá finnst mér þeir ekki endilega skipta miklu máli í sjálfu sér, en ég tel þó að Brynjar sé ansi bjartsýnn á verðmæti þess lands sem ríkið tók yfir. Þær upphæðir sem giskað var á í ræðum á þingi þegar samningurinn kom til tals náðu því t.a.m. ekki að vera 1/10 af því sem Brynjar vill gefa sér. Ennfremur vill ég benda á að tekjur ríkisins af þessum jörðum eru mældar í einhverjum tugum milljóna á ári, sem gefur ekki tilefni til þess að ætla að þar sé um miklar hlunnindajarðir að ræða.

En það sem vakti mesta athygli mína í svari Brynjars voru þau rök sem hann virðist setja fram gegn því að ríkið hætti að reka trúfélög, og þá sérstaklega ríkiskirkjuna. Meðlimafjöldi ríkiskirkjunnar sem Brynjar segir réttilega að sé meirihluti þjóðarinnar, þó að einn af hverjum fjórum standi utan hennar, eru nefnilega alveg eins rök fyrir því að hún geti nokkuð auðveldlega rekið sig sjálf. Með allan þennan fjölda af meðlimum ætti trúfélag auðveldlega að geta haldið úti nokkuð góðri þjónustu með því að rukka fyrir hana sjálf. Ríkiskirkjan rukkar nú þegar fyrir flestar athafnir sem fólk sækist eftir að halda þar, öfugt við flest önnur trúfélög í landinu.

Sama gildir um þá spurningu sem Brynjar setur fram um hver eigi að greiða fyrir þjónustuna. Við sem aðhyllumst frjálshyggju eigum ekki í miklum vanda með því að svara þeirri spurningu. Sá sem nýtir sér þjónustu greiðir fyrir hana sjálfur. Sérstaklega á þetta við um það sem stendur utan grunnþjónustu, sem trúfélög gera að mínu mati. Það getur ekki verið rétt að sá sem stendur utan trúfélaga og sækir ekki þjónustu til þeirra taki þátt í að greiða rekstur þeirra.

Um það snerist bréf mitt til Brynjars. Hann velti fyrir sér réttmæti þess að ríkið héldi úti fjölmiðli útfrá ákveðnu sjónarhorni. Ég get ekki betur séð en að frá því sama sjónarhorni sé jafn erfitt, ef ekki erfiðara, að réttlæta þær háu fjárhæðir sem á ári hverju eru teknar úr ríkissjóði í rekstur trúfélaga. Ef menn ætla hinsvegar að beita fyrir sig meirihlutarökum þá hljóta þau að gilda í fleiri málaflokkum en bara þeim sem menn kæra sig um.

En þó að ég færi fram þessar athugasemdir við það sem fram kom í grein Brynjars fagna ég þeim vilja sem hann sýnir til þess að endurskoða þessa fjármögnun ríkisins á rekstri trúfélaga og ekki síst því að hann segi að vel megi skoða að rifta samningnum umtalaða. Þingmenn hafa á seinustu árum verið alltof ragir við að þora að hafa skoðanir á þessum málum sem gætu styggt ríkiskirkjuna. Ég er ánægður að sjá að það gæti verið að breytast.


Birtist upphaflega á Pressunni

Egill Óskarsson 08.08.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Ritstjórn (meðlimur í Vantrú) - 15/08/13 15:28 #

Formaður Vantrúar og frjálshyggjan :: Brynjar Níelsson @ Pressan.is


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 15/08/13 20:21 #

Þjóðkirkjan er sjálfstæð og aðskilin frá ríkinu, sbr. lög nr. 78/1997 um Þjóðkirkjuna.

Nei, Brynjar. Ef þú skoðar lögin þá sérðu að þarna er Alþingi að setja ítarlegar reglur um starfsemi Þjóðkirkjunnar, t.d. er sagt til um hvenær aðalsafnaðarfundir skuli fara fram og hverjir skuli hafa atkvæðisrétt. Þetta er ekki sjálfstætt trúfélag sem er aðskilið ríkinu, þetta er ríkiskirkja með þónokkra sjálfstjórn.

Framlög ríkis til kirkju byggjast á viðskiptasamningum...

Nei Brynjar. T.d. byggja framlögin til kirkjumálasjóðs og jöfnunarsjóðs sókna ekki á "viðskiptasamningum".

Til að koma í veg fyrir allan misskilning innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir þjóðkirkjuna eins og önnur trúfélög.

Þetta er misskilningur

Mér finnst hins vegar skrýtið að stofna félag með það að markmiði að berjast gegn trúfélögum „eða vinna gegn boðun hindurvitna“ eins og Vantrú orðar það.

Brynjari finnst líklega líka undarlegt að fólk skuli stofna félag gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið, gegn hvalveiðum, gegn kynþáttafordómum, gegn áfengis- eða tóbaksneyslu.... og svo framvegis.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.