Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opið bréf til Brynjars Níelssonar

Mynd af peningum
Sæll Brynjar.

Í pistli þínum sem birtist á Pressunni þann 19. júlí veltir þú upp þeirri spurningu hvort að fámenn þjóð hafi efni á því að greiða fjóra milljarða á ári til reksturs ljósvakamiðils. Þú óskar eftir réttlætingu á þesskonar eyðslu á aðhaldstímum. Ég hef hana ekki haldbæra en ætla að taka þig á orðinu fyrst að þú minnist í lok pistils þín á að ræða verði um réttmæti fjárausturs í fleiri stofnanir ríkisins á meðan ríkissjóður er rekinn með tugmilljarða halla.

Eina stofnun þekki ég nefnilega sem kostar ríkið um það bil það sama og RÚV (jafnvel meira reyndar) sem erfitt er að sjá réttlætingu fyrir að ríkið kosti. Sú stofnun á eins og RÚV í samkeppni við félög sem ekki njóta neitt í líkingu við þá forgreiðslu sem ríkið innir af hendi til hennar, þrátt fyrir að ríkið reyndar taki að sér að innheimta hluta af rekstarkostnaði allra félaga á þeim vettvangi.

Ég er, eins og þú hafðir kannski getið þér til um, að tala um ríkiskirkjuna. Heildarútgjöld ríkisins til hennar eru um það bil 4.5 milljarðar á ári. Stærstu liðirnir eru annars vegar sóknargjöld og hinsvegar launagreiðslur. Fyrir okkur frjálshyggjumenn er erfitt að sjá hvernig þessir tveir liðir eigi rétt á sér.

Sóknargjöld eru ekki, öfugt við það sem sumir félagar þínir á þingi hafa haldið fram, félagsgjöld sem innheimt eru sérstaklega. Sóknargjöld eru samkvæmt hljóðan laga hlutdeilt sem trú- og lífsskoðunarfélög eiga í ríkissjóði, miðað við meðlimafjölda. Ég sem stend utan trúfélaga greiði nákvæmlega jafn háan skatt og einstaklingurinn við hlið mér sem hefur sömu tekjur en er skráður í trúfélag þannig að það er tómt mál að tala um að þau séu innheimt sérstaklega í gegnum skattkerfið. En það er ekki það sem truflar frjálshyggjufas mitt varðandi sóknargjöldin að þessu leyti, þó að þetta sé vissulega fáránlegt fyrirkomulag.

Það sem truflar mig varðandi sóknargjöldin er þetta: Af hverju er ríkið taka fé úr ríkissjóði til reksturs trú- og lífsskoðunarfélaga? Af hverju geta þessi félög ekki séð um sín eigin fjármál eins og önnur félög? Getur virkilega verið að frjálslynt fólk innan Sjálfstæðisflokksins telji það hlutverk ríkisins að reka trúfélög? Því einfaldlega neita ég að trúa.

Launagreiðslur úr ríkissjóði til presta og annara starfsmanna ríkiskirkjunnar eru svo sér kapituli útaf fyrir sig. Árið 1907 var orðið ljóst að kirkjan stóð ekki undir sér og prestar stóðu margir illa fjárhagslega. Því var afráðið að ríkið fengi kirkjujarðir til umsjónar gegn því að greiða laun presta. Og 90 árum seinna var gerður samningur þar sem ríkið fékk kirkjujarðirnar afhentar til eignar gegn því að laun presta og annara starfsmanna Biskupsstofu væru greidd. Þessi samningur er án tímaramma. Verðmæti jarðanna var ekki metið. Nú nýlega kom í ljós að ekki er einu sinni vitað um hversu margar jarðir var að ræða.

Nú spyr ég þig bæði sem lögspeking og sem frjálshyggjumann, finnst þér eðlilegt að ríkið geri slíka samninga? Að ríkið taki á sig, fyrir hönd allrar þjóðarinnar, að greiða milljarða á hverju ári um ótilgreindan tíma gegn því að taka við eignum sem engin tilraun var gerð til þess að verðmeta? Eignum sem ríkið hafði þegar haft umsjón með og haft kostnað af í nærri því heila öld? Það er nánast hægt að slá því föstu að ríkið hafi þegar, hvort sem miðað er við ártalið 1907 eða 1997, greitt upp virði jarðanna og vel það.

Ég er eins og þú talsvert hallur undir frjálshyggju, þó að mig gruni að þú sért hreinni í hugmyndafræðinni en ég. Ég vil helst að ríkið skipti sér sem minnst af okkur borgurunum. Ég tel það ekki hlutverk ríkisins að skipta sér nokkurn skapaðan hlut af hlutum eins og trúarbrögðum, nema auðvitað að tryggja að það sem fer fram á vettvangi trúar og lífsskoðanna sé eftir lögum.

Þess vegna spyr ég þig, Brynjar, með tilliti til þess sem þú skrifaðir um daginn um RÚV og aðhald í ríkisrekstri hvort að ekki sé orðið tímabært að endurskoða fjármögnun ríkisins á rekstri trúfélaga á Íslandi, og þá sérstaklega þess trúfélags sem tekur til sín fleiri milljarða á ári? Hingað til höfum við ekki átt þeirri gæfu að fagna að eiga marga þingmenn sem hafa þorað að taka þann slag. Miðað við það sem ég hef séð til þín vantar ekki duginn. Hér má spara ríkinu talsverðar fjárhæðir. Liggur ekki beint við að endurskoða fyrirkomulag sem tryggir milljarða á ári til félaga um skoðanir fólks?


Birtist upphaflega á Pressunni

Egill Óskarsson 26.07.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Jón Þ. - 26/07/13 23:42 #

[Athugasemd færð á spjallið. Jón í kassanum hér fyrir neðan stendur "Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið." - Hjalti]


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/07/13 12:28 #

Brynjar Níelsson : Svar til formanns Vantrúar


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 28/07/13 14:15 #

Þetta er alveg hrikalega lélegt svar.


Elín Sigurðardóttir - 28/07/13 15:16 #

Hvað er lélegt við svarið? Hver er afstaða Vantrúar til RÚV?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/07/13 16:19 #

Elín, ég nenni ekki að fara yfir allt það sem mér fannst athugavert við svarið hans hérna, en mér fannst þetta ansi merkilegt:

En hver á þá [ef ríkið hættir að borga þetta - Hjalti] að veita þessa þjónustu og hvað mun það kosta í höndum annarra og hver á að greiða fyrir hana?

Er Brynjar ekki frjálshyggjumaður? Ef svo er þá ætti svarið að vera augljóst. :S


Gummi - 28/07/13 20:43 #

Hver á þessar jarðir núna? Ef ríkið hættir að borga þjóðkirkjunni laun, er þá samningum rift og þjóðkirkjan eignast jarðirnar? Og hver á þjóðkirkjuna, er hún í einkaeigu eða ríkiseigu (eða guðs kannski)?


Jóhann - 28/07/13 21:05 #

Hjalti spyr:

"Er Brynjar ekki frjálshyggjumaður? Ef svo er þá ætti svarið að vera augljóst. :S"

Nú hefur mér skilist að formaður Vantrúar sé líka frjalshyggjumaður.

En veit ekki hvort svarið sé "augljóst".

Eitt mögulegt svar trúleysingja sem aðhyllist efnis- og frjálshyggju ætti að felast í útboði.

Það er; hver sé tilbúinn að husla einstaka hræum með minnstum tilkostnaði.

Það gæti sparað talsvert fjármagn.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 28/07/13 21:50 #

Það gleymist líka að kirkjan rukkar sérstaklega fyrir alla þjónustu.


Jóhann - 28/07/13 22:34 #

"Það gleymist líka að kirkjan rukkar sérstaklega fyrir alla þjónustu."

Nákvæmlega Valgarður!

Líklega væri bara best að husla þessi hræ niður með útboði. Það gæti sparað rosa mikinn pening.

Ég sé t.d. fyrir mér svona frjálshyggju-efnisgrafreit, þar sem skilyrt er að hræin séu bara grafin niður á svona ca. eins metra dýpi.

Þá gæti sama fyrirtæki ræktað ýmis konar jurtir á sama svæði eftir nokkur ár. Lífrænt ræktuð!

Þessi hugmynd er sjálfbær, er það ekki?


Sighvatur (meðlimur í Vantrú) - 28/07/13 22:58 #

Ég held að ríkiskirkjan rukki eitt trúfélaga sérstaklega fyrir öll viðvik, auk þess að fá óhóflega meðgjöf frá ríkinu. Mér fannst þetta svar Brynjars lélegt og ég held að það byggist á því að hann virðist ekki vita neitt um þessi mál. Hann gerir sér t.d. ekki grein fyrir því afhverju svona mikill hluti þjóðarinnar er þarna, og þessi orð hans

"Svo má ekki gleyma því að kirkjunni ber, af því að hún er þjóðkirkja, að veita öllum þjónustu og skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi tilheyrir henni eður ei."

eru auðvitað kolröng. Einnig held ég að ríkiskirkjan hafi bara þurft að þola um 9% niðurskurð á sama tíma og aðrar stofnanir þurftu að þola 20% niðurskurð. Varðandi jarðirnar, að þá er fyrir það fyrsta búið að marg greiða fyrir þær. Í öðru lagi er þetta þjóðararfur og ætti að tilheyra almenningi (ríkinu), og í þriðja lagi voru margar þessara jarða fengnar með vafasömum hætti og því ætti þetta að renna sjálfkrafa til ríkissins og í fjórða lagi má sjá í fjárlögum 2013 að leigu- og hlunnindatekjur af ÖLLUM jörðum ríkissins nema rétt rúmum 73 milljónum á ári sem er ekki alveg í takt við það sem oft er haldið fram um þær gríðarlegu rentur sem kirkjan telur sig eiga inni hjá ríkinu útaf þessum jörðum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/07/13 15:19 #

Málið með Brynjar Níelsson og svar hans við bréfi Egils er að Brynjar féll á prófinu. Hann andmælti RÚV með tilteknum frjálshyggjurökum. Það er hægt að vera sammála þeim rökum eða ekki. En vandinn er að um leið og umræðan var færð yfir á ríkiskirkjuna var Brynjar ekki lengur samkvæmur sjálfum sér. Svar hans er hægt að heimfæra að nær öllu leyti yfir á umræðuna um RÚV og þannig er Brynjar farinn að deila við sjálfan sig. Hann er bara frjálshyggjumaður þegar það hentar.

Eins og ótrúlega margir sjálfstæðismenn.


Arnar Sigurður (meðlimur í Vantrú) - 02/08/13 04:51 #

Þar eru SUS-arar einmitt samkvæmir sjálfum sér, pjúra frjálshyggja. Ekki tækifæris hentisemi frjálshyggja eins og birtist í orðum Brynjars.


Bisat - 08/08/13 09:20 #

Er eðlilegt að hlunnindi eða arður af eigum Ríkisins/Kirkjunnar renni beint í vasa starfsmanns?

Ég hélt að það kerfi hefði verið afnumið fyrir einhverjum árum síðan, en skilst að það sé enn við lýði. Ég er hér að vísa til hlunnindagreiðslna af jörðum eins og t.d. Valþjófsstað í Fljótsdal (hreindýraarður) og Hofi í Vopnafirði (veiðiá). Hef það eftir kunnugum að prestsetrasjóður fái 50% og viðkomandi prestur 50%. Á Vopnafirði býr presturinn ekki einu sinni sjálfur að Hofi og frægt er þegar presturinn á Valþjófsstað varð vitlaus yfir vhs sendi sem björgunarsveitirnar settu upp í heiðinni sem þá tilheyrði jörðinni. Það mál var afgreitt þegar menn buðust til að borga leigu af þessum fermeter sem samræmdist þeirri leigu sem presturinn greiddi fyrir jörðina.

Hvernig getur svona lagað, ef rétt er, verið eðlilegt? Myndi þetta líðast annarsstaðar í stjórnkerfinu?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 08/08/13 11:57 #

Hef það eftir kunnugum að prestsetrasjóður fái 50% og viðkomandi prestur 50%.

Svona er það:

Frá 2008 hefur gilt meginregla um helmingaskipti um hlunnindi þannig að prestur fær í vasann 50% af hlunnindatekjum jarðar en kirkjumálasjóður sem eigandi 50%.

Þetta er úr greinargerð úr tillögu á kirkjuþingi 2012. Tillagan fjallaði um að hlunnindin færu ekki til prestanna (nema ef um vinnuframlag af þeirra hálfu væri að ræða). Tillögunni var vísað frá.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 08/08/13 15:11 #

Umræddar jarðir fylgdu ekki með þeim jörðum sem ríkið fékk til eignar, kirkjan hélt eftir prestsetursjörðum eins og Valþjófsstað og Hofi sem gríðarlega hlunnindi eru af.

Annað sem er merkilegt við þetta er að þegar Fréttablaðið ætlaði að kanna hversu miklar tekjur hlytust af þessu í fyrra gat Biskupsstofa ekki svarað því þar sem það lá ekki fyrir. Fréttir um þetta komu bæði í prentútgáfu blaðsins og á Vísi en þær hurfu svo af Vísi fljótlega þar á eftir, ég veit ekki hvort að þær séu komnar aftur inn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.