Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Alvöru bókstafstrú

Mynd af biblíu á altari

Guð er höfundur Heilagrar Ritningar. -- grein 150 í trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar

Ein undarlegasta fullyrðing sem ég rekst á í umræðum um trúmál er sú að trúleysingjar, og þar með talið ég, væru ‘bókstafstrúarmenn’. Oftar en ekki hef ég séð þessa fullyrðingu koma frá prestum ríkiskirkjunnar. Er eitthvað vit í þessari ásökun?

Fyndna trúmálaumræðan

Fyrir nokkrum mánuðum kom ágætt dæmi um svona fullyrðingu frá ríkiskirkjuprestum, Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir sögðu þetta í ræðu:

Og það alfyndnasta varðandi trúmálaumræðu okkar íslenska nútíma er sú staða að henni hefur um skeið verið uppi haldið af bókstafstrúarmönnum sem trúa því að því sé trúað að Biblían sé Guðs orð þótt þeir vilji einmitt alls ekki trúa því sjálfir. Og til verður alls konar grín og alls konar tröllasögur um bókasafnið Biblíuna og heil kynslóð er á góðri leið með að fara á mis við töfra hennar… eða hvað? #

Ofmetna bókin

Þetta tal um bóksafstrú trúleysingja er undarlegt af því að trúað kristið fólk, hvort sem það er í Þjóðkirkjunni, Krossinum eða kaþólsku kirkjunni, telur almennt að biblían sé einstakt ritsafn. Það trúir því ýmist að sjálfur skapari alheimsins hafi ákveðið hvern einasta staf í bókinni, að hann hafi á einhvern annan hátt komið að rituninni eða þá að þessi rit veiti okkur betri upplýsingar um hann heldur en öll önnur rit heimsins. Við þetta bætast svo aðrar álíka hæpnar fullyrðingar, eins og að biblían hljóti að vera óskeikul eða fullkomin.

Trúleysingjar trúa auðvitað engu af þessu.

En við reynum oft að benda trúmönnum á að þeir ofmeta biblíuna stórkostlega. Þess vegna tölum við um biblíuna. Þegar við bendum trúmönnum á staðreyndavillurnar, óhugnalega siðferðisboðskapinn, skálpskapinn og ruglið, þá erum við að bregðast við áróðri kristinna manna um biblíuna og benda á að hún er eins og hvert annað rit sem skrifað var af misvitrum fornaldarmönnum. Við nálgumst biblíuna eins og hvert annað rit, en kristið fólk gerir það ekki.

Guðs orð?

Þegar Bjarni og Jóna tala um “bókstafstrúarmenn” sem trúa ekki að biblían sé orð guðs, en trúa því að því sé trúað, þá eru þau örugglega meðal annars að tala um okkur í Vantrú. Ég viðurkenni fúslega að ég er einn af þeim sem trúi því að “því sé trúað að Biblían sé orð Guðs”, þrátt fyrir að trúa því ekki sjálfur að biblían sé "orð Guðs".

Fyrir utan alla litlu kristnu “sértrúarsöfnuðina”, eins og Krossinn, Kristskirkjuna og Hvítasunnukirkjuna, sem trúa því auðvitað að biblían sé “orð guðs”, þá nægir að líta á samþykktir æðstu stofnunar Þjóðkirkjunnar, kirkjuþings:

Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs. [feitletrun höfundar] #

Maður þarf síðan ekki að leita lengi á heimasíðu kirkjunnar til að sjá að ýmsir prestar Þjóðkirkjunnar trúa þessu:

Þessi rit geyma mikla fjársjóði. Þau komu ekki svífandi ofan af himnum, þau eru rituð af fólki, sem innblásið var af anda Guðs, gripið af áhrifamætti hans. Þess vegna kallast Biblían Guðs orð.# - Karl Sigurbjörnsson

Biblían er kölluð Guðs orð og heilög ritning vegna þess að hún sé á sérstakan hátt komin frá Guði.# - Guðni Þór Ólafsson

Biblían er innblásið orð Guðs, og sem slík er Biblían fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn.# - Gunnar Jóhannesson

Það er hægt að benda á fleiri dæmi[1], en hvað svo sem Þjóðkirkjan og prestar hennar eiga nákvæmlega við, þá er ljóst að á þeim bæ er því trúað að biblían sé guðs orð.

Tröllasögur um biblíuna

Eins og sést af tilvitnununum, þá telja þessir prestar að guðinn þeirra sé á einhvern hátt tengdur ritun biblíunnar (höfundarnir voru “innblásnir af anda Guðs”, biblían er “á sérstakan hátt komin frá guði” og “innblásið orð Guðs”). Út frá þessu draga þeir svo ýmsar ályktanir um eðli biblíunnar (samþykkt kirkjuþings talar um biblíuna sem “mælikvarða boðunar, trúar og lífs” og Gunnar Jóhannesson talar um að hún sé “fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn”).

Ætli Bjarni og Jóna Hrönn myndu flokka þessar ótrúlega fullyrðingar um uppruna og eðli biblíunnar sem “bókstafstrú”?

Ég tel biblíuna vera skrifaðar á sama hátt og aðrar bækur, og einungis af mönnum. Þjóðkirkjufólkið telur biblíuna vera að einhverju leyti skrifaða af guði. Hvort er réttara að kalla bókstafstrú?

Ég tel biblíuna ekki vera neins konar kennivald. Þjóðkirkjufólk telur biblíuna hafa úrslitavald þegar kemur að trú og lífi. Hvort er réttara að kalla bókstafstrú?

Ég tel biblíuna vera fulla af skáldskap, vitleysu og mótsögnum. Þjóðkirkjufólk telur biblíuna vera óskeikula og fullkomna. Hvort er réttara að kalla bókstafstrú?

Ég held að svarið við þessum spurningum sé augljóst.

Hvað er bókstafstrú?

Trúleysingjar telja biblíuna ekki vera eðlisólíka öðrum ritum, á meðan kirkjur eins og Þjóðkirkjan og kaþólsku kirkjan tala um hana sem “orð Guðs”, segja að guð sé höfundur hennar og að hún sé kennivald. Þess vegna finnst mér út í hött að kalla trúleysingja bókstafstrúarmenn, og ég efast um að þeir prestar sem koma með þessa ásökun geti komið með vitræna útskýringu á henni. Mig grunar að þegar prestar koma með bókstafstrúarásökunina þá sé orðið bara notað í neikvæðri merkingu, án nokkurs innihalds: það er uppnefni.

En ef einhver vitræn skilgreining á bókstafstrú er notuð, þá er nokkuð ljóst að Þjóðkirkjan og prestar hennar myndu frekar falla undir hana.


[1] “Biblían er orð Guðs því að Guð er uppspretta hennar og innihald." # Gunnar Jóhannesson, ríkiskirkjuprestur

“Biblían er orð Guðs en það hrekkur skammt fyrir okkur ef við trúum því ekki að Biblían sé orð Guðs til okkar, orð sem við tökum persónulega á móti." # - Bryndís Malla Elídóttir, ríkiskirkjuprestur

“Á þessum vetri hefur ýmislegt verið sagt og skrifað um orð Guðs, Biblíuna. Vantrúarmenn, sem oft virðast meiri bókstafstrúarmenn en við hin, hafa dregið fram eitt og annað sem þeirra rannsókn á ritningum kristinna manna virðist benda til að sé á skjön við almenna skynsemi.” # - María Ágústsdóttir, ríkiskirkjuprestur

“Með Jesú eigum við barnaréttinn, réttinn til að kalla Guð föður okkar (sbr. Róm 8.14-17), í elskunni til Jesú erum við af Guði og njótum þeirrar náðar að heyra það sem Guð vill við okkur tala í orði sínu, Biblíunni.” # - María Ágústsdóttir, ríkiskirkjuprestur

Mynd fengin hjá Magnus Franklin

Hjalti Rúnar Ómarsson 26.06.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


G. - 26/06/13 12:53 #

Mér finnst þetta vera vindhögg. Ég segi það ekki af því að ég tilheyri hinni skotgröfinni – ég tilheyri henni ekki. Ég er sjálfur trúlaus og kvitta ekki undir það sem stendur í Biblíunni með neinum hætti. En þú hittir einfaldlega ekki naglann á höfuðið.

Vandinn er að þú vinnur út frá undarlegum skilningi á bókstafstrú: hún er eitthvað í líkingu við það að byggja trú sína á bókstaflegum lestri texta; þ.e. að lesa texta, skilja setningarnar bókstaflega og trúa svo því sem stendur.

Þetta á ekki við um þorra trúaðs fólks. Þorri trúaðs fólks, held ég, er alveg tilbúinn að túlka textann. Það er hvorki ómögulegt, óréttlætanlegt né óskynsamlegt að gera það. Við gerum það öll á hverjum degi við alls konar texta. Samt gæti þetta sama trúaða fólk haldið að textinn sé raunverulega „orð guðs“ og í því felst engin mótsögn.

Til dæmis gæti ég haldið að textinn í Animal Farm sé raunverulega „orð Orwells“ – hann valdi orðin sjálfur og setti þau á blað – en samt haldið að það sé mögulegt, réttlætanlegt og skynsamlegt að skilja ekki textann bókstaflega til þess að ná meiningu Orwells; ég gæti haldið að það sé nauðsynlegt að túlka textann svolítið til þess að ná inntakinu. Nemurðu spekina?

Það sama gildir um trúaða og Biblíuna: Þeir geta haldið að textinn sé raunverulega „orð guðs“, hvað svo sem það merkir – að orðin séu valin af guði sjálfum og sett á blað eða að höfundar textans hafi verið „innblásnir“ af heilögum anda, að ritningin sé einstakt ritsafn sem varpi meira ljósi á guð en allt annað o.s.frv. – og samt haldið að það sé nauðsynlegt að túlka textann til að ná inntakinu og að bókstaflegur lestur textans gefi ekki rétta mynd af boðskapnum. (Og þegar þetta sama fólk talar um fullkomnun og óskeikulleika o.s.frv., þá er það væntanlega að meina eftir túlkun.) Ef þú lætur trúmanninum ekki þetta eftir muntu bæði ævinlega misskilja afstöðu hans og tapa líka rökræðunni – ónauðsynlega af því að þú ættir að geta unnið hana þrátt fyrir að leyfa túlkun textans.

Ég held að þegar trúaðir saka trúleysingja um að vera „bókstafstrúarmenn“, þá séu þeir að meina að trúleysingjarnir hafi tilhneigingu til að knýja fram svona bókstaflegan lestur textans til að geta svo þrætt um hann jafnvel þótt trúmaðurinn hafi ekki áhuga á að lesa textann sinn svona. Trúleysingjar mega auðvitað gera þetta en það er samt bara við hæfi að gera það þegar viðmælandinn er sjálfur bókstafstrúarmaður. Ef viðmælandinn, t.d. Bjarni Karlsson eða einhver, fellst ekki á bókstafslesturinn, þá hlýtur að vera undarlegt (strámaður nánast) að rífast við hann á þeim forsendum að textinn segi bókstaflega hitt eða þetta. Bjarni hefur eflaust brennt sig á þessu oftar en einu sinni og þess vegna segir hann að trúleysingjar trúi því að fólk trúi bókstaflega ritningunni. Sumir trúaðir gera það en alls ekki allir en oft er eins og trúleysingjar horfi framhjá því.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 26/06/13 13:15 #

Sæll G. og takk fyrir góða athugasemd.

Þú virðist telja að ég skilgreini "bókstafstrú" á einhverja þá leið að textinn sé ekki túlkaður. Það væri afskaplega undarleg skilningur, því að auðvitað túlka allir textann :S

Ég reyni eiginlega að forðast að nota orðið "bókstafstrú" af því að það er oftast eiginlega bara notað sem uppnefni, þannig að ég reyni eiginlega ekki að skilgreina það.

Punkturinn minn er sá að trúmenn, jafnvel þeir sem eru almennt ekki kallaðir bókstafstrúarmenn, hafa ótrúlega háleitar og órökréttar hugmyndir um biblíuna.

Ég held að þegar trúaðir saka trúleysingja um að vera „bókstafstrúarmenn“, þá séu þeir að meina að trúleysingjarnir hafi tilhneigingu til að knýja fram svona bókstaflegan lestur textans til að geta svo þrætt um hann jafnvel þótt trúmaðurinn hafi ekki áhuga á að lesa textann sinn svona.

Gæti verið. En áður en ég svara þessu, þá þarf ég eiginlega að vita hvað þú átt við með "bókstaflegum lestri". Mér finnst þú greina á milli þess að "túlka textann" og "lesa hann bókstaflega". Ég skil það engan veginn. Ertu ef til vill að tala um að túlka textann á þá leið að honum hafi verið ætlað að lýsa raunverulegum atburðum eða eitthvað álíka?

Það má kannski til gamans geta að ég man eftir því að Bjarni hafi kallað mig "bókstafstrúarmann" (talaði um bókstafstrúarlestur ef ég man rétt), þegar ég var að túlka dæmisögu. Er hægt að túlka dæmisögu "bókstaflega"?


G. - 26/06/13 14:10 #

Þú virðist ganga út frá því að það sé bókstafstrú ef einhver heldur ritninguna vera „orð guðs“, að guð sé höfundur hennar o.s.frv. Ég er ekki að segja að þú sért að skilgreina bókstafstrú sem það að „að textinn sé ekki túlkaður“; þvert á móti, þú gerir það ekki en ættir að gera það, bara svona sem vinnuskilgreiningu til að sjá að það er ekki mótsögn hjá trúmanninum að halda að ritningin sé raunverulega orð guðs en samt hafi t.d. Nóaflóðið eða upprisan eða eitthvað annað ekki átt sér stað.

Það er rétt, ég er að gera greinarmun á því að „túlka textann“ annars vegar og hins vegar „lesa hann bókstaflega“. Það hvarflar í sannleika sagt að mér að þú sért ekki allur þar sem þú ert séður þegar þú segist ekki skilja greinarmuninn. Auðvitað er alltaf fólgin í öllum lestri einhver túlkun (svona ef við ætlum í heimspekilegar pælingar um eðli lesturs). En það má samt alveg gera greinarmun á því annars vegar að að túlka textann í einhverjum ríkari skilningi (sem sagt einhverri bókmenntatúlkun) og hins vegar að skilja textann eftir orðanna hljóðan. (Ég geri ráð fyrir að þú þekkir og skiljir orðasambandið „eftir orðanna hljóðan“ og að ég þurfi ekki að útskýra það.)

Samanburðurinn við Orwell er gagnlegur. Hvað ef einhver segði að mikill sannleikur fælist í Animal Farm (og sá sannleikur væri undirstaða alls siðferðis og jafnvel óbrigðull og þar fram eftir götunum) en viðmælandinn – kannski réttilega hneykslaður á stóryrðunum um óbrigðulleika – benti á að svín og önnur húsdýr geti ekki í alvöru talað og bókin sé þess vegna ein stór vitleysa frá upphafi til enda? Hvað ef sá fyrrnefndi benti á að hann vildi túlka söguna sem allegóríu en sá síðarnefndi neitaði að leyfa það og héldi áfram að skilja textann þannig að því sé haldið fram að húsdýr kunni að tala?

Stundum er nefnilega engu líkara en að þræturnar milli trúmanna og trúleysingja sé fastar í þessum skorðum. Og trúmenn sem hafa brennt sig á því að fá ekki að túlka textann sinn – ekki endilega sem allegóríu en samt á einhvern áhugaverðari hátt en þarf til að skilja setningu eftir orðanna hljóðan, taka kannski sögulegt samhengi og væntingar lesenda með í reikninginn o.s.frv. – halda því eðlilega fram að trúleysingjar séu hálfgerðir bókstafstrúarmenn þegar þeir knýja fram svona lestur.

Við þurfum ekki að knýja fram svona lestur, ættum ekki að gera það af því að hann er ekki alltaf viðeigandi og við getum samt unnið rökræðuna án þess að gera þetta. Þess vegna ættum við að hætta bögga trúmenn sem vilja túlka textann sinn með því að þvinga fram eitthvað annað. Alveg eins og síðarnefndi lesandi Orwells hér að ofan ætti að geta unnið rökræðuna um að bókin sé óbrigðul undirstaða alls siðferðis o.s.frv. með því að tala um boðskapinn í sögunni án þess að þræta um talandi svín.

Þú segir: „Punkturinn minn er sá að trúmenn, jafnvel þeir sem eru almennt ekki kallaðir bókstafstrúarmenn, hafa ótrúlega háleitar og órökréttar hugmyndir um biblíuna.“ Ég get tekið undir það, alla vega að einhverju leyti, þótt ég hafi líka orðið var við að sumar hugmyndir sumra þeirra séu alls ekki órökréttar. En það er efni í annan pistil og þarf ekki að varða bókstafstrú.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 26/06/13 15:06 #

Þú virðist ganga út frá því að það sé bókstafstrú ef einhver heldur ritninguna vera „orð guðs“, að guð sé höfundur hennar o.s.frv.

Ég geri það eiginlega ekki, en ég held að flest fólk myndi frekar flokka það sem nær "bókstafstrú" heldur en það að telja hana ekki vera það!

..þú gerir það ekki en ættir að gera það, bara svona sem vinnuskilgreiningu til að sjá að það er ekki mótsögn hjá trúmanninum að halda að ritningin sé raunverulega orð guðs en samt hafi t.d. Nóaflóðið eða upprisan eða eitthvað annað ekki átt sér stað.

Ég veit það vel G.

En það má samt alveg gera greinarmun á því annars vegar að að túlka textann í einhverjum ríkari skilningi (sem sagt einhverri bókmenntatúlkun) og hins vegar að skilja textann eftir orðanna hljóðan. (Ég geri ráð fyrir að þú þekkir og skiljir orðasambandið „eftir orðanna hljóðan“ og að ég þurfi ekki að útskýra það.)

G., reyndar held ég að þetta með "eftir orðanna hljóðan" þýði oftar en ekki bara að um sé að ræða þá túlkun sem viðkomandi telju eðlilegasta.

En mér sýnist þú vera að fjalla um það sem ég hélt að þú værir að tala um, þeas að "bókstafleg túlkun" sé að einblína á að það sem textinn lýsir hafi gerst í raun og veru eða ekki.

Og ég er alveg "allur þar sem ég er séður", ég vil bara tryggja að við séum að tala um sama hlutinn. Gætirðu komið með dæmi (alvöru eða kannski ímyndað) þar sem trúleysinginn væri bókstafstrúarmaður en ríkiskirkjupresturinn ekki?

Samanburðurinn við Orwell er gagnlegur. Hvað ef einhver segði að mikill sannleikur fælist í Animal Farm (og sá sannleikur væri undirstaða alls siðferðis og jafnvel óbrigðull og þar fram eftir götunum) en viðmælandinn – kannski réttilega hneykslaður á stóryrðunum um óbrigðulleika – benti á að svín og önnur húsdýr geti ekki í alvöru talað og bókin sé þess vegna ein stór vitleysa frá upphafi til enda? Hvað ef sá fyrrnefndi benti á að hann vildi túlka söguna sem allegóríu en sá síðarnefndi neitaði að leyfa það og héldi áfram að skilja textann þannig að því sé haldið fram að húsdýr kunni að tala?

Þarna sýnist mér einmitt að sá sem ruglast sé ranglega að ætla að textanum sé ætlað að lýsa raunverulegum atburðum.

Ég held að flest fullorðið fólk átti sig á því að textar geti haft djúpan boðskap án þess að þeir séu sannir í þeim skilningi að um lýsingu á raunverulegum atburðum sé að ræða.

Ég á t.d. ekki erfitt með að lesa Animal Farm þannig eða dæmisögur Esóps á þann hátt. Er virkilega líklegt að eitthvað svipað sé í gangi þegar trúleysingjar lesa biblíuna? Mér finnst það afskaplega ólíklegt.

Og trúmenn sem hafa brennt sig á því að fá ekki að túlka textann sinn – ekki endilega sem allegóríu en samt á einhvern áhugaverðari hátt en þarf til að skilja setningu eftir orðanna hljóðan, taka kannski sögulegt samhengi og væntingar lesenda með í reikninginn o.s.frv. – halda því eðlilega fram að trúleysingjar séu hálfgerðir bókstafstrúarmenn þegar þeir knýja fram svona lestur.

G. hvar setja trúleysingjar sig (eða við á Vantrú) á móti því að textar biblíunnar séu túlkaðir í svona samhengi (svona eins og textar almennt)?

Við þurfum ekki að knýja fram svona lestur, ættum ekki að gera það af því að hann er ekki alltaf viðeigandi og við getum samt unnið rökræðuna án þess að gera þetta. Þess vegna ættum við að hætta bögga trúmenn sem vilja túlka textann sinn með því að þvinga fram eitthvað annað. Alveg eins og síðarnefndi lesandi Orwells hér að ofan ætti að geta unnið rökræðuna um að bókin sé óbrigðul undirstaða alls siðferðis o.s.frv. með því að tala um boðskapinn í sögunni án þess að þræta um talandi svín.

Ég er alveg sammála því að það ætti ekki að "bögga" fólk fyrir að vilja ekki taka hluti "bókstaflega" ef það er ekki viðeigandi (hér geturðu t.d. séð mig gagnrýna rit frá Þjóðkirkjunni fyrir að telja Jónasarbók vera að lýsa alvöru atburðum), en mér finnst alveg eðlilegt að gagnrýna trúmenn fyrir að halda því fram að "ó-bókstafleg" túlkun sé rétt, þegar svo virðist ekki vera. T.d. ef prestur færi að halda því fram að sögurnar um innrásina í Kanan sé í raun um að ráðast á lesti.

Ég get tekið undir það, alla vega að einhverju leyti, þótt ég hafi líka orðið var við að sumar hugmyndir sumra þeirra séu alls ekki órökréttar. En það er efni í annan pistil og þarf ekki að varða bókstafstrú.

Myndi það ekki flokkast undir "bókstafstrú" í þínum huga að segja að biblían sé "fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn"?


G. - 26/06/13 16:50 #

Ég bið þig að afsaka ef ég hef gert þér upp skoðun. Það var ekki ætlunin (þess vegna áherslan á „virðist“). Misskilningurinn er tilkominn af því að þú segir:

„(i) Ég tel biblíuna vera skrifaðar á sama hátt og aðrar bækur, og einungis af mönnum. Þjóðkirkjufólkið telur biblíuna vera að einhverju leyti skrifaða af guði. Hvort er réttara að kalla bókstafstrú? (ii) Ég tel biblíuna ekki vera neins konar kennivald. Þjóðkirkjufólk telur biblíuna hafa úrslitavald þegar kemur að trú og lífi. Hvort er réttara að kalla bókstafstrú? (iii) Ég tel biblíuna vera fulla af skáldskap, vitleysu og mótsögnum. Þjóðkirkjufólk telur biblíuna vera óskeikula og fullkomna. Hvort er réttara að kalla bókstafstrú?“
(tölusetning mín). Atriði (i) hefur ekkert með bókstafstrú að gera. Þú telur biblíuna skrifaða af mönnum, trúmennirnir af guði (hvað svo sem það þýðir), svo klykkir þú út með spurningu um hvort sé réttara að kalla bókstafstrú, eins og það að telja biblíuna skrifaða/innblásna af guði geri mann bókstafstrúaðan. Það gerir það ekki og við erum þá sammála um það. Í atriði (ii) er talað um kennivald, þú telur biblíuna ekki hafa neitt slíkt en trúmaðurinn gerir það. Hvorugt hefur neitt með bókstafstrú að gera. Í atriði (iii) stillirðu upp skáldskap, mótsögnum og vitleysu gagnvart óskeikulleika og fullkomleika. En meira að segja það varðar ekki endilega bókstafstrú af því að trúmaðurinn gæti fallist á skáldskapinn með þér (myndi væntanlega kalla hann heilagan skáldskap og myndi gera lítið úr „vitleysunni“) án þess að þurfa að hörfa frá óskeikulleika- og fullkomnunarhugmyndinni; hann gæti sagt að inntakið/boðskapurinn sé fullkominn og óskeikull þótt hver og ein setning eða efnisgrein skilin eftir orðanna hljóðan sé það ekki.

Í kaflanum „Hvað er bókstafstrú?“ lýsirðu síðan ekki (þvert gegn væntingum) hvað bókstafstrú er en segir:

„Trúleysingjar telja biblíuna ekki vera eðlisólíka öðrum ritum, á meðan kirkjur eins og Þjóðkirkjan og kaþólsku kirkjan tala um hana sem “orð Guðs”, segja að guð sé höfundur hennar og að hún sé kennivald.“
og dregur af því ályktanir. Það er þess vegna sem ég skildi þig svona. En gott og vel, við erum þá sammála um að trúmaðurinn þurfi ekki að vera bókstafstrúarmaður þótt hann haldi að ritningin sé „orð guðs“ eða „innblásin af guði“ eða „einstök bók sem varpar meira og betra ljósi á guðdóminn en allt annað“.

Þá að „orðanna hljóðan“: eftir orðanna hljóðan er Orwell að tala um talandi húsdýr en það er ekki eðlilegasta túlkunin. Eftir orðanna hljóðan tók sköpun heimsins í 1stu Mósebók sex daga en það er ekki brúkleg túlkun. Eftir orðanna hljóðan merkir kaldhæðin setning eitt þótt meiningin sé önnur; sá sem fattar það ekki er ófær um að skilja kaldhæðni. Ég er sem sagt ósammála þér um að þetta orðasamband „þýði oftar en ekki bara að um sé að ræða þá túlkun sem viðkomandi telji eðlilegasta“. Ég held að þannig sé þetta orðasamband ekki notað almennt og yfirleitt í íslensku. En látum þetta eiga sig. Þú átt ekki í neinum erfiðleikum með að lesa Orwell eða Esóp og það er gott og þú veist hvaða greinarmun ég er að gera.

Þú spyrð: „Er virkilega líklegt að eitthvað svipað sé í gangi þegar trúleysingjar lesa biblíuna?“ Tja, ég hef alla vega orðið var við að trúleysingjar reyni stundum, bæði í ræðu og riti, að þvinga trúmanninn til að lesa svona. Þú hlýtur að hafa orðið var við það sjálfur; auðvitað er það stundum freistandi. Ég held ég hafi samt ekki sagt að þið í Vantrú hafið stundað þetta þannig að ég tel mér ekki skylt að finna dæmi um það. Samt hafið þið stundum valdið mér vonbrigðum, þótt ég sé efnislega sammála ykkur um langflest sem máli skiptir.

Hér er dæmi um dólgslega túlkun, að vísu á orðum páfa frekar en ritningarinnar: http://www.vantru.is/2011/03/04/10.30/ Í athugasemdum segir einn úr ykkar röðum:

„Auðvitað dissar enginn kristinn trúmaður guðspjöllin (að eigin mati) jafnvel þótt einn lesi svart og annar hvítt úr sama textanum. En ef Gyðingarnir heimtuðu að Kristur væri krossfestur er hæpið að halda fram að gyðingar beri ekki ábyrgð á krossfestingunni.“
Þetta er dólgslegt að mínu mati. Seinni málsgreinin er (í samhengi umræðunnar) fyrir neðan allar hellur en sú fyrri virðist gera ráð fyrir að eitthvað athugavert sé við það að „einn lesi svart og annar hvítt úr sama textanum“. Það er fullkomlega eðlilegt að túlkanir séu ólíkar og stangist á.

Þú segir: „mér finnst alveg eðlilegt að gagnrýna trúmenn fyrir að halda því fram að "ó-bókstafleg" túlkun sé rétt“ og ég get tekið undir það, hef ekkert út á það að setja. Og ekki heldur neitt út á það að setja að bókstaflegur skilningur textans sé hrakinn sem vitleysa þegar einhver heldur honum fram (t.d. Snorri í Betel, hann virðist stundum halda slíku fram). En nú geturðu kannski lagt mat á það hvort það sé rétt hjá mér að „þegar trúaðir saka trúleysingja um að vera „bókstafstrúarmenn“, þá séu þeir að meina að trúleysingjarnir hafi tilhneigingu til að knýja fram svona bókstaflegan lestur textans til að geta svo þrætt um hann jafnvel þótt trúmaðurinn hafi ekki áhuga á að lesa textann sinn svona.“ Heldurðu ekki að trúmennirnir hafi sumir brennt sig á því oftar en einu sinni?

Að lokum, svo ég svari lokaspurningu þinni: Nei, það myndi að mínu mati ekki endilega flokkast sem bókstafstrú að segja að biblían sé „fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn“. Ég held að þetta sé kolröng lýsing á biblíunni, svo því sé nú haldið til haga, en ég held að maður sem segir þetta þurfi alls ekki að vera bókstafstrúarmaður. Allt þetta getur átt við inntakið sem trúmaðurinn getur vel verið að túlka einmitt ekki bókstaflega. Alveg eins og einhver gæti lýst Animal Farm með nákvæmlega sömu orðum; það væri eflaust ekki besta lýsingin á bókinni og margt óljóst (hvað er t.d. „fullkomnun“? Það er sannarlega hugtak sem þarfnast skýringar). En inntakinu og boðskapnum (þ.e. að valdið spillir o.s.frv.) væri samt hægt að lýsa sem sönnu, áreiðanlegu, kannski jafnvel óskeikulu. Við getum verið sammála eða ósammála um þessa lýsingu á Animal Farm en sá sem lýsir henni sem sannri, áreiðanlegri og óskeikulli þarf alls ekki að vera halda því fram að húsdýr í Englandi tali stundum mannamál eða að atburðirnir í sögunni hafi gerst.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 26/06/13 17:20 #

G, varðandi atriði i, ii og iii, þá finnst mér þau atriði ekki vera verri en það atriði sem þú telur vera úrslitaatriði, þeas hvort að túlka skuli ýmsa texta biblíunnar sem lýsingar á raunverulegum atriðum eða ekki. Ég ímynda mér að mikið af fólki myndi flokka i, ii og iii sem einhvers konar 'bókstafstrú', kannski myndir þú frekar vilja kalla það "biblíudýrkun" (sbr bibliolatry á ensku). Eins og ég hef sagt áður þá er mér persónulega illa við að nota þetta orð, af því að það er svo oft bara notað sem uppnefni.

Eftir orðanna hljóðan tók sköpun heimsins í 1stu Mósebók sex daga en það er ekki brúkleg túlkun.

Ekki brúkleg túlkun?

Tja, ég hef alla vega orðið var við að trúleysingjar reyni stundum, bæði í ræðu og riti, að þvinga trúmanninn til að lesa svona. Þú hlýtur að hafa orðið var við það sjálfur; auðvitað er það stundum freistandi.

Það getur auðvitað gerst og það getur auðvitað líka farið í hina áttina.

Og síðan sé ég ekkert að því að gera eitthvað svona ef túlkun trúmannsins er út í hött. T.d. ef hann myndi segja eitthvað eins og að talið um þjóðarmorð í GT hafi verið myndlíking fyrir baráttu gegn löstum eða eitthvað álíka.

En nú geturðu kannski lagt mat á það hvort það sé rétt hjá mér að „þegar trúaðir saka trúleysingja um að vera „bókstafstrúarmenn“, þá séu þeir að meina að trúleysingjarnir hafi tilhneigingu til að knýja fram svona bókstaflegan lestur textans til að geta svo þrætt um hann jafnvel þótt trúmaðurinn hafi ekki áhuga á að lesa textann sinn svona.“ Heldurðu ekki að trúmennirnir hafi sumir brennt sig á því oftar en einu sinni?

Gæti verið, en ég efast satt best að segja um það. Ég efast um það af því að prestar/trúmenn trúa að ég held að svipað magn af textum biblíunnar hafi verið skrifað sem lýsing á raunverulegum atburði.

En mér finnst eitt vanta í skilningi þínum á 'bókstafstrú', það er að sá sem túlkar textann "bókstaflega" trúi því að það sem hann segi sé satt. Svo að ég komi með dæmi: Mormónsbók. Við getum ímyndað okkur þrjá einstaklinga:

  1. Mormóni sem trúir að Mormónsbók hafi verið ætlað að vera skilin sem lýsing á raunverulegum atburðum, sem gerðust í raun og veru.

  2. Trúleysingi sem trúir að Mormónsbók hafi verið ætlað að vera skilin sem lýsing á raunverulegum atburðum, en þetta var skáldað upp af Jósef Smith

  3. Mormóni sem trúir að Mormónsbók hafi ekki verið ætlað að vera skilin sem lýsing á raunverulegum atburðum.

Væri trúleysinginn "bókstafstrúarmaður"? Eða telur þú það vera nauðsynlegt fyrir "bókstafstrú" að túlka eitthvað ranglega "bókstaflega"?


G. - 26/06/13 17:48 #

Nei, ég held ekki að trúleysingi sé bókstafstrúarmaður, þótt hann geti hallast að því að skilja ákveðinn texta bókstaflega. Ef það gerist, þá uppnefnir trúmaðurinn hann kannski bókstafstrúarmann. Já, þetta er oft uppnefni. En auðvitað er trúleysingi ekki bókstafstrúarmaður jafnvel þótt hann hallist kannski einhvern tímann að því að túlka einhvern texta frekar bókstaflega. Ég myndi samt kannski kalla það bókstafstúlkun.

Ég tel ekki heldur að það sé skilgreiningaratriði á bókstafstrú að eitthvað sé ranglega túlkað bókstaflega. Ég skil bókstafstrú þeim skilningi að þar sé á ferðinni guðstrú sem byggir á bókstaflegum skilningi einhvers texta. T.d. er young Earth creationism bókstafstrú. Myndir þú ekki líka kalla þá afstöðu bókstafstrú? Það vill svo til að ég tel svona bókstafstrú ranga en það er samt ekki í mínum huga skilgreiingaratriði á hugtakinu. Hún er röng af því að staðreyndirnar koma ekki heim og saman við lesskilninginn og trúna.

Af því að þú dregur svo fram hugtakið sannleika: Ég aðhyllist eitthvert afbrigði kenningar um sannleikann sem kallast samsvörunarkenning (http://plato.stanford.edu/entries/truth-correspondence/) en skv. henni er yrðing (e. proposition; þú mátt tala um fullyrðingar/staðhæfingar líka ef þú vilt) sönn ef og aðeins ef hún samsvarar raunverulegri stöðu mála (e. state of affairs; ef þú vilt máttu líka tala um staðreyndir eða jafnvel raunveruleikann - ég er ekki hræddur við það hugtak). Þetta er mjög líklega hugtakið sem óinnvígðir í heimspeki gera ráð fyrir og nota án þess að átta sig á því. En þegar við spyrjum hvort frásögn eða inntak bókmenntaverks sé satt, þá kemur upp sami vandinn: Er Animal Farm sönn saga? Auðvitað er hún það ekki ef hún er skilin sem frásögn af svínunum Napoleon og Snowball og félögum þeirra en hún er það kannski í einhverjum skilningi ef hún er lesin sem allegóría um byltinguna í Rússlandi (þá samsvarar hún allt í einu raunverulegum atburðum); margur segði eflaust að það væri sannleikskorn í sögunni, svo ég dragi nú fram annað orðatiltæki. Og boðskapurinn er kannski sannur líka: valdið spillir, byltingin étur börnin sín o.s.frv.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 26/06/13 18:09 #

Ég skil bókstafstrú þeim skilningi að þar sé á ferðinni guðstrú sem byggir á bókstaflegum skilningi einhvers texta. T.d. er young Earth creationism bókstafstrú. Myndir þú ekki líka kalla þá afstöðu bókstafstrú? Það vill svo til að ég tel svona bókstafstrú ranga en það er samt ekki í mínum huga skilgreiingaratriði á hugtakinu. Hún er röng af því að staðreyndirnar koma ekki heim og saman við lesskilninginn og trúna.

Ég myndi nú ekki kalla YEC bókstafstrú af því að ég hef eiginlega gefist upp á hugtakinu ;) En er trú á það að Jesús hafi raunverulega framkvæmt kraftaverk eins og sagt er frá í NT líka bókstafstrú?

En varðandi YEC þá þarf maður einmitt þarna að greina á milli túlkun á textanum og því hvort maður samþykki hann. T.d. tel ég nokkuð öruggt að sagan af Nóaflóðinu hafi átt að skilja sem lýsingu á raunverulegum atburði, ungjarðarsinnar eru sammála því, þeir hins vegar telja fullyrðingar sögunnar sannar. Ég tel túlkun þeirra á þeirri sögu ekki vera ranga, en þeir gera þá villu að trúa biblíunni. Mig grunar að oft þegar frjálslyndir trúmenn forðast "bókstaflega" túlkun, t.d. þegar kemur að Nóaflóðinu, er ástæðan sú að þeir vilja ekki segja að biblían hafði rangt fyrir sér.

Varðandi sannleikann, þá hefði ég getað verið nákvæmari. Það er auðvitað hægt að tala um sannan boðskap og allt það. Í þessu samhengi var ég að tala um að telja að atburðirnir sem textinn fjallar um hafi í raun og veru gerst.


G. - 26/06/13 19:53 #

Tja, já, ég myndi kalla þá trú á það að Jesús hafi raunverulega framkvæmt kraftaverk eins og sagt er frá í NT einhvers konar bókstafstrú. Það er þá ekki verið að túlka frásögnina „fígúratíft“ með neinum hætti. Þetta er eflaust mun algengari bókstafstrú en YEC.

Þú segir: „Mig grunar að oft þegar frjálslyndir trúmenn forðast "bókstaflega" túlkun, t.d. þegar kemur að Nóaflóðinu, er ástæðan sú að þeir vilja ekki segja að biblían hafði rangt fyrir sér.“ Það má vel vera að það sé ástæðan en ef einhver vill fara þá leið að túlka textann einhvern veginn, þá ættum við samt ekki að reyna þvinga hann til þess að gera það ekki heldur takast á við þá afstöðu sem hann heldur fram (hver svo sem ástæðan er fyrir því að hann kaus hana frekar en einhverja aðra). Ekki satt?

Ég er algerlega sammála því að greina milli túlkunar á textanum og því hvort maður fallist á það sem hann segir skv. sömu túlkun.

Síðan má líka greina milli bókstafstúlkunar og einhvers konar sagnfestu (e. historicism). YEC eru klárlega bókstafstrúarmenn um t.d. Nóaflóðið en það væri hægt að vera einhvers konar sagnfestumaður og telja að sagan eigi rætur að rekja til einhverra náttúruhamfara þótt maður telji ekki að örkin hafi verið smíðuð. Hvað gerist þá þegar við hittum einhvern sem heldur því fram að sagan um flóðið hafi átt að vísa til raunverulegra atburða þótt sögufléttan í henni um hjálpræði Nóa og örkina og dýrin hafi verið samin til að koma á framfæri einhverjum almennum boðskap? Málin geta fljótt orðið flóknari...

Ég náði þessu um sannleikann. En ég forðaðist hugtakið í fyrstu af því að umræða um sannleikshugtakið getur átt það til að flækjast fljótt. Það eru margir snertifletir á því. Guðfræðingar eiga að vísu til að ruglast á sannleikanum og fara að tala um ólíkar tegundir sannleika. Það held ég að sé slæmur misskilningur. Ég veit ekki hvort ég er að benda þér á eitthvað sem þú þekkir en þú hefðir kannski gaman af því að lesa greinarnar „Ljósið sem hvarf“ og „Vatn í poka“ þar sem Þorsteinn Gylfason réðst harkalega á svona fjölhyggjukenningar frjálslyndra guðfræðinga um sannleikann. (Þær birtust upphaflega í Skírni en eru báðar endurprentaðar í bók hans Sál & mál).


Jóhann - 26/06/13 23:16 #

Nú skil ég alls ekki þá áráttu sumra trúleysingja, að tefla fram kjánalegum umsögnum klerka til að styrkja afstöðu sína.

Möguleg tilvera Guðs ræðst ekki af evangelískum þrætubókarbálki.

Hún ræðst heldur ekki af stórkostlegri framrás trúleysingja. Ekki fremur en tilvera Guðs þótti sjálfsögð á árum áður.

Af þessum ágætu samræðum má vera ljóst að Hjalti og G eru ófærir um að koma sér saman um hvað grundvallarhugtakið "bókstafstrúarmaður" stendur fyrir.

G vísar í samsvörunarkenningar um sannleika og Þorstein Gylfason.

Ég vil ráða ykkur öllum, sem gefið þessu yfirleitt gaum, að hlusta vel á eftirfarandi samræður:

http://www.youtube.com/watch?v=cG3sfrK5B4E


G. - 26/06/13 23:46 #

Jóhann, ég veit nú ekki að við séum ófærir um eitt eða neitt.

Takk fyrir tengilinn á Putnam. Ég hef séð þessi viðtöl Magees. Þau eru mörg ágæt og fróðleg. Hann gaf reyndar viðtölin út á prenti og þýðing á þeim er til á íslensku. En Putnam er nú ekki að tala beint um bókstafstrú í þessu viðtali og ekki heldur um notkun guðfræðinga á sannleikshugtakinu þannig að mér finnst tengingin fremur óljós.


Jóhann - 27/06/13 00:13 #

Kannski var það full mikið í lagt að segja ykkur ófæra um að koma ykkur saman um hvað "bókstafstrú" geti mögulega verið.

Svo mikið er þó víst að þið hafið ekki getað það til þessa.

En koma tímar, koma ráð.

Vísun mín í þessar samræður fólst ekki í því að reyna að leysa þann vanda ykkar.

Hún varðar það að menn geri sér yfirhöfuð grein fyrir þeim margvíslegu vandamálum sem eru fólgin í því að halda fram einhverjum sannleika.

Jafnframt vildi ég benda á að samsvörunarkenningin um veruleika er augljóslega stórkostlega gölluð.

Og þar sem ég er nú gamall nemandi Þorsteins Gylfasonar, þá fullur aðdáunar, hef ég komist að því að afstaða Þorsteins felur í sér á endanum ljóðræna og fallega mótsögn.


G. - 27/06/13 00:36 #

Já, í heimspeki koma fljótt fram óvænt og torleyst vandamál. Ég er samt ósmeykur við réttmætar ábendingar Putnams þarna um að veruleikinn sé að einhverju leyti huglægur og held ekki að það sé endilega tilefni til að taka upp pragmatisma hans. Reyndar væri pragmatismi annarra heppilegri því Putnam sjálfur hefur skipt um skoðun á svo mörgu og svo oft að það er erfitt að fylgjast með hverjar skoðanir hans eru.

Ég held alls ekki að samsvörunarkenningar séu augljóslega stórgallaðar. Og taktu eftir fleirtölunni; það eru til allnokkur afbrigði. Þær eiga að mínu mati ekki við meiri vanda að etja en aðrar kenningar (svo sem pragmatismi). En ég ætlaði mér nú ekki að taka tíma í að kafa ofan í það hér; svaraði bara fyrirspurn um sannleika, sem Hjalta fannst vanta hjá mér. Ég mun því ekki fjölyrða meira um sannleikskenningar að svo stöddu.

Ég var líka nemandi og um tíma aðstoðarmaður Þorsteins. Ég átta mig á að greinar hans um þetta eru ekki fullkomnar og var svo sem ekki að halda þeim fram sem neinum sannleika (pun intended). En þær eru samt áhugavert innlegg um pluralisma um sannleika og ekki síður um notkun hans í guðfræði. Og eru auk þess stórskemmtilega skrifaðar.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 10:50 #

Svo ég blandi mér nú aðeins (seint) í áhugaverðar vangaveltur...

Ég hef aðeins kynnst fólki sem telur sig bókstafsstrúar og ég velti fyrir mér hvort við getum verið sammála um að bókstafstrú sé að trúa því að (i) heimurinn hafi bókstaflega verið skapaður á sex dögum, (ii) Jesú hafi verið eingetinn og (iii) hann hafi raunverulega risið upp frá dauðum?

Ég þekki fólk, ma. presta innan þjóðkirkjunnar, sem tekur þetta bókstaflega. Má þá ekki gagnrýna kirkjuna (og aðra söfnuði sem það gera) á þessum nótum?

Hitt er forvitnilegt að skoða (án þess að ég hafi rannsakað) að afstaða margra kirkjunnar manna hefur breyst verulega í aldanna rás frá því að telja nánast alla biblíuna bókstaflega rétta í að velja og hafna þannig að jafnvel guð er ekki til. Jafnvel hörðustu bókstafstrúarmenn (skv. þeirra eigin skilgreiningu) hafna mestu vitleysunum. Þetta hefur eiginlega verið skipulagt undanhald kirkjunnar, þegar staðreyndir hafa afhjúpað að innihald biblíunnar stenst ekki skoðun þá hafa æ fleiri liðir færst yfir í að vera eitthvað sem þarf að túlka og á ekki að taka bókstaflega. Það er hins vegar kannski efni í aðra grein.

Hitt er, hvort biblían geti verið orð guðs þó hún sé líkingamál og eigi að túlka eftir hentugleikum samfélagsins hverju sinni. Má vera. En væri til of mikils ætlast af yfirnáttúrulegri guðlegri veru að tala umbúðalaust??


G. - 27/06/13 11:27 #

Valgarður, þú spyrð hvort við getum sammælst um að bókstafstrú „sé að trúa því að (i) heimurinn hafi bókstaflega verið skapaður á sex dögum, (ii) Jesú hafi verið eingetinn og (iii) hann hafi raunverulega risið upp frá dauðum“. Við getum vissulega sammælst um að þetta séu dæmi um bókstafstrú og það leiðir af því sem ég hef sagt hér að ofan, bæði hvernig ég hef lýst bókstafstrú almennt og því sem ég hef fallist á um hana.

Ég sagði í fyrsta svari mínu að ég teldi bókstafstrú vera „eitthvað í líkingu við það að byggja trú sína á bókstaflegum lestri texta; þ.e. að lesa texta, skilja setningarnar bókstaflega og trúa svo því sem stendur.“ Í fjórða svarinu mínu sagði ég svo eftirfarandi: „Ég skil bókstafstrú þeim skilningi að þar sé á ferðinni guðstrú sem byggir á bókstaflegum skilningi einhvers texta. T.d. er young Earth creationism bókstafstrú.“ Í næsta svari mínu sagði ég svo að ég myndi kalla þá trú „að Jesús hafi raunverulega framkvæmt kraftaverk eins og sagt er frá í NT einhvers konar bókstafstrú. Það er þá ekki verið að túlka frásögnina „fígúratíft“ með neinum hætti.“

En ég held að það sé betra að orða þetta með almennum hætti svo sá misskilningur vakni ekki að þessi þrjú atriði sem þú nefndir séu einu dæmin um eða skilgreiningaratriði á bókstafstrú. Það er t.d. ekkert sem kemur í veg fyrir að gyðingar eða hindúar séu bókstafstrúar en þeir myndu væntanlega hafna sumum eða öllum atriðunum sem þú telur upp. Þess vegna er betra að skilgreina fyrirbærið sem „guðstrú sem byggir á bókstaflegum skilningi einhvers texta“ vel sim. Getur þú fallist á það?

Auðvitað má leggja til atlögu við bókstafstrúna sem slíka þegar einhver heldur henni fram, eins og ég hef líka sagt hér að ofan.

En ertu ekki sammála mér um að þvinga hana ekki upp á þá trúmenn sem vilja heldur halda öðru fram? Það væri að mínu viti næstum eins og að ráðast á strámann og algerlega óþarft því við getum unnið rökræðuna hvort heldur sem er. Leyfum trúmanninum að halda fram því sem hann heldur sjálfur að sé sterkasta útgáfan af sinni afstöðu og tökumst svo á við hana frekar en að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Ef trúmaðurinn vill svo söðla um í miðjum klíðum, leyfum honum það þá. Hann á samt eftir að tapa rökræðunni.

Ég er sammála þér um að það sé athyglisvert hvernig undanhaldið hefur verið. En að gefnum öllum gögnum sem fram hafa komið undanfarna hálfa aðra öldina er samt einmitt ekki skrítið að menn hörfi frá verstu vitleysunni. Ef ný gögn koma fram sem sýna að ég hafi haft rangt fyrir mér um eitthvað ætla ég rétt að vona að leyfi mér líka að breyta afstöðu minni. Ef eitthvað stenst ekki skoðun verður maður að hætta að halda því fram og reyna með öðrum hætti. Örvæntingin í undanhaldi trúarinnar er samt auðvitað brosleg. En með því að leyfa trúmanninum að halda fram því sem hann heldur sjálfur að sé sterkasta útgáfan af eigin afstöðu (og jafnvel hjálpa honum að styrkja stöðu sína enn frekar áður en við gagnrýnum hana) ráðumst við alla vega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.

Ef guð væri til gæti biblían auðvitað verið orð guð þótt hún sé líkingamál; orð Orwells eru líkingamál og eru þó sannarlega hans orð og sá sem les þau nær líka kannski að skilja boðskap hans þótt það sé ekki gefið. Mér finnst það alveg liggja í augum uppi.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 12:42 #

Takk.. jú, jú, ég las athugasemdirnar þínar, og gaman að sjá umræðu hér á þessum nótum (datt seint inn eftir sumarfrí)... En ég ætlaði ekki að líta á þetta sem einu dæmin um bókstafstrú.. og auðvitað rétt hjá þér að bókstafstrú getur átt við allt aðra og ólíka hluti.

Og ég er líka sammála því að það er óþarfi að gera mönnum bókstafstrú sem ekki hafa hana.

En punkturinn hjá mér var kannski að ef þjóðkirkjan, eða fulltrúar hennar, taka þessi atriði bókstaflega, hvort það sé ósanngjarnt að gagnrýna hana fyrir?

Ég svo ekki sammála þér með orð guðs og Orwell... vissulega skilja (vonandi) allir líkingamálið í sögu hans, en fyrir mér er það að halda því fram að biblían sé orð guðs eins sambærilegt við að halda því fram að saga Orwells sé sagnfræðilega rétt.

Munurinn liggur kannski í því að það hefur enginn haldið því fram að saga Orwells sé sagnfræðilega rétt og smám saman breytt þeirri skoðun sinni yfir í að hún sé nú bara líkingamál.


G. - 27/06/13 13:13 #

Valgarður, þú segir:

„Munurinn liggur kannski í því að það hefur enginn haldið því fram að saga Orwells sé sagnfræðilega rétt og smám saman breytt þeirri skoðun sinni yfir í að hún sé nú bara líkingamál.“
Þetta auðvitað rétt en af hverju ætti ungur guðfræðingur í upphafi 21. aldar að þurfa að burðast með „syndir“ forvera sinna? Af hverju má hann ekki halda því fram að það sem hann telur vera orð guðs hafi verið samið sem líkingamál? Hvað með það þótt kynslóðir misviturra manna hafi áður lesið sama texta bókstaflega en smám saman dregið úr því? Ég segi: leyfum honum að halda fram því sem hann heldur að sé sterkasta útgáfan af sinni afstöðu; ástæðulaust að óttast það. En túlkunarsaga textans gerir út af fyrir sig ekki túlkun unga guðfræðingsins ólíklegri. Alveg eins og aldur textans veitir honum ekki kennivald eða gerir hann neitt trúverðugri getur aldur tiltekinnar túlkunar textans ekki einn og sér útilokað að önnur túlkun sé rétt.

Almennt gildir auðvitað að texti sem einhver – hver sem er – semur getur mögulega verið saminn sem líkingamál. Hvernig færum við að því að neita þessu? Tek fram að ég er ekki að eigna þér neitt af eftirfarandi. En með almennu orðalagi kæmi út vitleysa á borð við (i) „Ef texti er eignaður einhverjum höfundi (er talinn vera „hans orð“), þá getur hann ekki verið líkingamál.“ Þetta er óverjandi. Prófum aftur: (ii) „Texti getur verið líkingamál nema ef hann er trúarlegur.“ Er þetta betra? Nei, auðvitað ekki. Hvað með: (iii) „Texti getur verið líkingamál nema ef hann er mjög gamall og menn hafa öldum saman tekið hann bókstaflega; þá er hann ekki líkingamál.“ Er þetta betra? Nei, auðvitað ekki. Túlkunar- eða viðtökusagan getur ekki ein og sér útilokað að textinn sé kannski bara eftir allt saman líkingamál. Hér er hliðstæða: menn hafa öldum saman álitið Ríkið innihalda stjórnspeki Platons en satt að segja er jafn sennileg sú túlkun að ritið sé líkingamál (ég meina Platon beinlínis segir það). Meira að segja (iv) „Texti getur ekki verið líkingamál ef honum var að hluta til ætlað að vera raunrétt lýsing“ er mjög vafasamt túlkunarprinsipp. Ekki síst þegar haft er í huga að „textinn“ í eintölu er í raun textasafn, safn ólíkra texta frá ólíkum tímum og í ólíku bókmenntaformi.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 16:31 #

Það er rétt að guðfræðingur nútímans "má" auðvitað halda hverju sem er fram og auðvitað er hann ekki bundinn af skilningi fyrri kynslóða. En þú gleymir kannski (hugsanlega) að margir talsmenn kirkjunnar telja textann bókstaflega réttan.

Gleymum heldur ekki að biblían er jú samsetningur margra ólíkra rita þar sem nefndir mannlegra (ekki guðlegra) vera völdu og höfnuðu úr ótölulegum fjölda rita.

Texti getur auðvitað verið líkingamál hvort sem hann er eignaður einhverjum höfundi eða ekki, er trúarlegur eða ekki, er gamall eða nýr.

En... mér finnst hins vegar afar ólíklegt að texti sé líkingamál sem öldum saman hefur verið tekinn bókstaflega en er smám saman farið að skýra sem líkingamál.

Þegar við bætist að ef við skoðum samhengið þá finnst mér líklegra að þarna sé um að ræða flótta frá raunveruleikanum.. Frekar en að viðurkenna hvers kyns samtíningur biblían er, hvernig hún rekst á við þekktar staðreyndir, þá er farið að byggja loftkastala um að þetta sé nú bara líkingamál.

Og eftir stendur að prestar íslensku þjóðkirkjunnar telja textann bókstaflega réttan þegar kemur að þeim hlutum sem ég nefndi fyrr. Og það er ekkert að því að vekja athygli á þessu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 17:13 #

Það má vel vera að það sé ástæðan en ef einhver vill fara þá leið að túlka textann einhvern veginn, þá ættum við samt ekki að reyna þvinga hann til þess að gera það ekki heldur takast á við þá afstöðu sem hann heldur fram (hver svo sem ástæðan er fyrir því að hann kaus hana frekar en einhverja aðra). Ekki satt?

G., maður gæti alveg fallist á hans túlkun svona "for the sake of argument", en ég sé heldur ekkert að því að benda á að hans túlkun sé líklega röng (ég vil ekki nota orðið "að þvinga" um það :S ).

Raunhæft dæmi væri ef trúleysingi væri að benda á hve hræðilegur Jahve var í Gamla testamentinu og benti á öll dæmin þar sem Jahve fyrirskipar fjöldamorð. "Ungur guðfræðingur í upphafi 21. aldar" myndi þá koma og segja að þetta væri stækasta bósktafstrú, textinn væri líkingarmál!

Væri það ósanngjörn þvingun og að ráðast á strámann að segja að túlkun hans væri röng?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 17:17 #

Jóhann:

Nú skil ég alls ekki þá áráttu sumra trúleysingja, að tefla fram kjánalegum umsögnum klerka til að styrkja afstöðu sína.

Möguleg tilvera Guðs ræðst ekki af evangelískum þrætubókarbálki.

Hún ræðst heldur ekki af stórkostlegri framrás trúleysingja. Ekki fremur en tilvera Guðs þótti sjálfsögð á árum áður.

Það var enginn hérna að ræða um tilvist guða, geimvera eða annarra furðuvera, ef þú vilt gera það þá bendi ég þér á spjallborðið eða greinar sem fjalla um tilvist guðs.

Af þessum ágætu samræðum má vera ljóst að Hjalti og G eru ófærir um að koma sér saman um hvað grundvallarhugtakið "bókstafstrúarmaður" stendur fyrir.

Sem skiptir nákvæmlega engu máli. Hvort að við notum sömu skilgreiningar fyrir orð skiptiðr nákvæmlega engu máli ef við skiljum hvorn annan. Ég og G. virðumst vera sammála um lang-mest.


G. - 27/06/13 17:18 #

Valgarður: Nei, nei, ég gleymi því ekki að það eru til bókstafstrúaðir guðfræðingar samtímans. Það sem ég er að tala um núna er möguleikinn á að vera það ekki. Ég held því fram að guðfræðingur nútímans eigi kost á því að túlka textann sinn sem líkingamál og að hann lendi ekki í mótsögn við sjálfan sig þótt hann telji ritninguna um leið vera „orð guðs“. Það er einfaldlega ekki röklega ómögulegt að halda því fram að hvaða texti sem er (t.d. Animal Farm/Ríkið/Biblían) sé höfundarverk einhvers tiltekins höfundar (t.d. Orwells/Platons/Guðs) en sé samt líkingamál.

Hvort túlkunin er sannfærandi er annað mál. Það hvílir þá á þeim sem heldur þessu fram, ef hann nennir að ræða málið við okkur, að gefa okkur hinum einhverja ástæðu til að fallast á þetta með honum. Hann gæti bent á einhver að einhver atriði í textanum séu mjög skáldleg, útskýrt hver hann heldur að líkingin sé o.s.frv. og reynt að draga upp einhverja trúverðuga heildarmynd. Það gengur eflaust stundum vel og stundum illa og verður bara að meta í hverju tilviki býst ég við. Það er ekkert fyrirfram gefið í þessu.

En fyrri viðtökusaga getur vart verið honum fjötur um fót.

Einmitt, Biblían er ritsafn ólíkra texta, frá ólíkum tímum og í ólíku bókmenntaformi sem var steypt saman á einhverjum tíma. Kannski heldur guðfræðingurinn okkar að samkoman sem lagði meginlínurnar hafi verið innblásin af heilögum anda; svo sem ekki furðulegri hugmynd en að höfundar textans hafi verið þannig innblásnir – jafn furðuleg bara. En af þessu leiðir – og þetta er, held ég, mikilvægt fyrir rökræðuna – að guðfræðingurinn þarf ekki að túlka sérhvert rit í safninu með sama hætti. Hann gæti t.d. haldið að guðspjöllin og/eða Opinberunarbókin séu líkingamál en rit Gamla testamentisins hafi átt að vera raunrétt lýsing atburða, þótt þau séu ekki nákvæm sem slík en hafi þó þá sérstöku stöðu að varpa ljósi á þá atburðarás og menningarsögu sem leiddi til fæðingar frelsarans; eða eitthvað þess háttar. Mér er sjálfum fjarri lagi að fallast á þetta en þetta er möguleg afstaða hins trúaða, þetta er kostur sem hann á í stöðunni. Út af fyrir sig er önnur spurning hvort þér finnst þetta sannfærandi.

Hjalti segir hérna að ofan:

„prestar/trúmenn trúa að ég held að svipað magn af textum biblíunnar hafi verið skrifað sem lýsing á raunverulegum atburði.“
Þess vegna heldur hann að það sé vafasamt hjá mér að segja að þegar trúaðir saka trúleysingja um að vera „bókstafstrúarmenn“, þá séu þeir að meina að trúleysingjarnir hafi tilhneigingu til að knýja fram svona bókstaflegan lestur textans til að geta svo þrætt um hann jafnvel þótt trúmaðurinn hafi ekki áhuga á að lesa textann sinn svona. Það er hins vegar ekki sanngjarnt að fara fram á að allir textar ritsafnsins séu túlkaðir með sama hætti. Og ég held að það sé sennilegra að ég hafi lýst sjónarmiði guðfræðingsins rétt (ath. frá hans sjónarhóli) heldur en að uppnefnið „bókstafstrúarmaður“ sé frá honum komandi bara skammaryrði.

Þú segir:

„En... mér finnst hins vegar afar ólíklegt að texti sé líkingamál sem öldum saman hefur verið tekinn bókstaflega en er smám saman farið að skýra sem líkingamál.“
Gott og vel. Sjálfum finnst mér það misólíklegt eftir hvaða texta er um að ræða. Ég skil hvað þú ert að segja, fellst á það með þér að einhverju marki en mér finnst þetta ekki nóg, mér finnst finnst vanta betri ástæðu. Af þeirri staðreynd að texti hafi öldum saman verið tekinn bókstaflega en smám saman sé farið að skýra hann sem líkingamál leiðir ekki röklega að þess vegna sé hann ekki líkingamál. Þessi rök beinast nefnilega að kringumstæðum frekar en efnislega að textanum sem um ræðir. Og enn síður er ástæðan sem þú gefur fullnægjandi ef bent er á tiltekinn texta eða kafla: Heldurðu t.d. að talið í Opinberunarbókinni um „dýrið“ sé ekki meint – hafi ekki frá upphafi verið meint – sem líkingamál?


G. - 27/06/13 17:30 #

Hjalti: Þú stoppar bara rökræðuna með þessu móti. Ef einhver vill ekki túlka þennan texta (í sínu eigin trúarriti) bókstaflega en þú heimtar að gera það, þá endar bara rökræðan þar. Það má vel vera að þú hefðir rétt fyrir þér í þessum rökræðum en það skiptir í raun engu máli. Í raun verða þetta tvennar rökræður: (i) um túlkun textans (bókstafleg merking vs. túlkunarmál); og (ii) rökræða um innihald textans að öðru leyti (um eðli guðdómsins, samband hans við manninn o.s.frv.). Þú getur reynt að ræða við guðfræðinginn um (i) en líklega hefur hann ekki áhuga á því og þá enda þær rökræður áður en þær hefjast almennilega. Ef þú leyfir honum að velja sér túlkun (þetta er jú hans trúarrit en ekki þitt og hann sem er að leggja trúnað á þetta) geturðu kannski átt við hann rökræður um (ii). Hann finnur kannski svolítið fyrir því ef þú hefur betur í rökræðum um (ii) en hann verður bara pirraður á þér ef þú hjakkar í sama farinu í (i).

Auðvitað er ekkert ósanngjarnt að nefna það við hann að þú sért síður en svo sannfærður um hans túlkun en taktískt miklu betra, held ég, að láta þetta eftir honum.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 17:47 #

Nei, ég tel auðvitað ekki ómögulegt fyrir guðfræðinga að túlka textann svona, en ansi langsótt eins og ég hef skýrt. Auðvitað hafa þeir fullan rétt á sinni skoðun. Á sama hátt og mér finnst í góðu lagi að benda á hversu veik þessi túlkun er að mínu mati (og væntanlega fleiri).

Við verðum svo að vera ósammála um hversu líklegt þetta er eða ekki. Það þyrftu ekki endilega að vera rök ein og sér að texti hafi áður verið tekinn bókstaflega, en í ljósi þess hvernig þessi breyting á sér stað, úr bókstaf yfir í líkingamál, er þetta hafið yfir allan vafa í mínum huga.

PS. ég veit ekki með "dýrið", er engan veginn viss um að þetta hafi ekki verið meint bókstaflega..


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 18:36 #

Hjalti: Þú stoppar bara rökræðuna með þessu móti. Ef einhver vill ekki túlka þennan texta (í sínu eigin trúarriti) bókstaflega en þú heimtar að gera það, þá endar bara rökræðan þar.

Ég heimta að hann geri það? Hann má alveg túlka hlutina eins og hann vill, ég bendi honum bara á að túlkun hans er mjög líklega röng.

Og já, maður gæti alveg eins rökræðunnar vegna samþykkt að frásagnir af þjóðarmorðum í GT hafi verið líkingarmál (svo ég komi aftur með það dæmi), en ég sé ekkert að því að benda á að það sé rugl-túlkun. Og ég efast um að það sé eitthvað slæm taktík.

En það sem gerist oft er að trúleysingi bendir á eitthvað rugl eða ógeð (t.d. þjóðarmorðin). Síðan kemur "ungur guðfræðingur í upphafi 21. aldar" og "heimtar" og "vill þvinga" okkur í að nota hans túlkun.

En já, þetta sem þú talar um getur oft verið raunin, þó svo að ég telji líka að oft sé þetta bara notað sem uppnefni. Hérna er fínt dæmi.


G. - 27/06/13 19:38 #

Valgarður: Mér finnst magnað að þér finnist ekki a.m.k. jafn sennilegt að Opinberunin hafi verið ætluð sem líkingamál. Það eru líka til aðrar bókmenntir (grísk-rómverskar) frá sama tíma og eldri sem eru klárlega slíkar líkingar og fornmenn sjálfir setja fram svona túlkanir. Til dæmis á miðjubókunum í Gullna asnanum eftir Apuleius, svo ég nefni bara eitt dæmi.


G. - 27/06/13 19:39 #

Hjalti: Ég ætlaði ekki saka þig um að hafa verið að heimta neitt. Ég sagði ef þú festir þig í þessu, þá nærðu varla lengra. Ég held að það sé slæm taktík af því að viðmælandinn verður líklega bara pirraður en finnst þú samt ekki hafa hreyft við raunverulegri afstöðu hans sem hann reynir að tjá þér. Svo fer hann burt og segir „Hjalti vill bara ekki að ég túlki þetta öðruvísi en bókstaflega/sögulega... engu líkara en að hann sé bókstafstrúarmaður.“

Ég held að það svíði miklu meira og sé líklegra líka til að sannfæra viðmælanda þinn um að hann hafi rangt fyrir sér ef þú hefur betur í rökræðum við hann um boðskap ritsins ef þú leyfir honum bara að halda því fram að þetta sé líkingamál ef hann vill það.

Ég skal samt alveg játa að þetta fer stundum á hinn veginn líka: guðfræðingurinn reynir að þvinga upp á viðmælandann sinni túlkun (en þetta er nú hans trú sem er til umræðu); hættan er sú að hann vilji þá fá að ráða ekki bara hvernig hann túlkar verkið heldur hvaða niðurstöðu eigi að komast að líka. En þetta endar þá líka í umræðu um túlkun verksins en ekki boðskap þess. En ég held að það sé þar sem umræðan þarf að eiga sér stað ef þú vilt sannfæra hann.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/06/13 20:32 #

Ég held að það sé slæm taktík af því að viðmælandinn verður líklega bara pirraður en finnst þú samt ekki hafa hreyft við raunverulegri afstöðu hans sem hann reynir að tjá þér.

Ég skil það. Hann skilur þá væntanlega ekki að ég er að ráðast á annan þátt í afstöðu hans.

En þetta endar þá líka í umræðu um túlkun verksins en ekki boðskap þess. En ég held að það sé þar sem umræðan þarf að eiga sér stað ef þú vilt sannfæra hann.

En G., þetta bókstafstrúar-tal tengist líka boðskapi textans. T.d. ef þú heldur því fram að Páll hafi fordæmt samkynhneigð, þá máttu vænta þess að vera ásakaður um bókstafstrú. Myndirðu þar deila við viðkomandi eða bara fallast á að Páll fordæmi ekki samkynhneigð?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 28/06/13 11:00 #

Ég sagði nú bara að ég væri engan veginn viss.. ekki gleyma að við erum að tala um fólk sem trúði á sex daga sköpun, guð sem talaði við einstaklinga uppi á fjalli, djöfullinn og ég veit ekki hvað...

En ég átta mig ekki á hvert þessi umræða er að fara. Fyrir mér er klárt að enn eru talsmenn kirkjunnar að taka texta biblíunnar bókstaflega.. og þetta er notað til að níðast á saklausu fólki. Við þurfum svo öll að borga fyrir herleigheitin. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að vekja athygli á og gagnrýna þennan málflutning kirkjunnar.

Mér finnst hafið yfir allan skynsamlegan vafa að þetta túlkunar- og líkingatal er flótti til að viðhalda stöðu kirkjunnar, en ekki einhver fræðilega nálgun á orði guðlegrar veru.

Án þess að ég vilji líkja kirkjunni við sakamann, þannig séð, þá minnir þetta óneitanlega á einstakling sem er sakaður um glæp en breytir sögu sinni stöðugt þegar staðreyndir afsanna ítrekað fyrri vitnisburð.


Jón Th. - 28/06/13 12:05 #

Er þetta ekki svolítið málið?

Trúleysingi gagnrýnir dæmi um það sem virðist bókstafstrú hjá fornfálegum klerki. Sá sem var að breiða út bókstafstrúna, svarar gagnrýninni engu.

Nútímalegi guðfræðingurinn geysist hins vegar fram á ritvöllinn og sakar trúleysingjann um bókstafstrú. Augljóslega myndi 21. aldar guðfræðingurinn túlka þennan kafla sem líkingamál, og því ósanngjarnt og persónuleg árás á alla nútímalega guðfræðinga að voga sér að gagnrýna bókstafstúlkunina bókstaflega.


G. - 28/06/13 12:35 #

Hjalti, ég verð að játa að ég þekki ekki textann sem þú vísar til nógu vel og þaðan af síður deilurnar um túlkun á honum og rökin fyrir þeim til að tjá mig af neinu viti um hann. Enda er ég ekki guðfræðimenntaður, ég bara fornfræðingur og heimspekingur að mennt.

Ég myndi giska á að fólk saki þig þar um að taka ekki eitthvert sögulegt samhengi með í reikninginn frekar en að gera úr þessu líkingamál en ég veit það svo sem ekki. Sjálfum finnst mér eðlilegast að lesa Pál eftir orðanna hljóðan en ég yrði að heyra fyrst af hverju ég ætti ekki að gera það.

En ég held að hver og einn texti Biblíunnar gefi ólíkt tilefni til deilna um túlkun. Bréf eins og þau sem Páll skrifar annars vegar, guðspjöll og heilagra manna sögur hins vegar og svo heimsslitabókmenntir, svo þrjú dæmi séu nefnd, eru afar ólíkar bókmenntagreinar og lesendur hafa líklega haft ólíkar væntingar til þeirra (eins og áhorfendur hafa ólíkar væntingar til hryllingsmynda og rómantískra gamanmynda og samþykkja eitt í sögufléttu einnar myndar en ekki annarrar; og framleiðendur eru meðvitaðir um þetta, spila inn á þetta, ögra þessu kannski o.s.frv.) Það má taka það með í reikninginn.

Ég hef mjög gaman út af fyrir sig af því að deila um texta (enda fornfræðingur með einhverja þjálfun í textafræði). En ég hefði samt meiri áhuga á að deila við guðfræðinginn um flest annað en textann: um boðskapinn og afleiðingarnar af honum – og vinna hann vonandi yfir á mitt band.

Hvert er annars markmiðið með rökræðum við guðfræðingana? Að leita sannleikans saman? Stundum er það kannski markmið rökræðna en að fenginni reynslu held ég að ég uppgötvi engan sannleika í rökræðum við guðfræðinga. Aldrei að segja aldrei, alltaf til í að endurskoða þetta í ljósi nýrrar reynslu en þetta er samt ekki það sem oftast vakir fyrir mér. En þá að sannfæra viðmælandann? Já, það getur út af fyrir sig verið markmið. Eitthvað annað, t.d. að skemmta sjálfum sér eða sýna sig fyrir öðrum? Tja, kannski, en mér finnst það ekki jafn áhugavert markmið að sýnast fyrir öðrum og það er lítil skemmtun í því að rökræða árangurslaust við einhvern sem fær gyllinæð af pirringi. Að mínu viti er þá alveg tilgangslaust að standa í þessu ef það er ekki von um að sannfæra viðmælandann. Mér finnst bara mjög ólíklegt að það takist ef maður festir sig í að tala um það sem viðmælandinn vill ekki ræða frekar en að ræða hitt sem skiptir hann meira máli.

Þú segir:

„Hann skilur þá væntanlega ekki að ég er að ráðast á annan þátt í afstöðu hans“
En ég held að hann gæti alveg skilið það; hann gæti eftir sem áður verið fullkomlega ósannfærður af þér en fullkomlega áhugalaus um að ræða þessi atriði við þig.


G. - 28/06/13 12:35 #

Valgarður, samlíkingin við sakamann er skemmtileg en ekkert svakalega beitt ef rýnt er í hana. Sakamaðurinn er einn margsaga einstaklingur, guðfræðingarnir ekki – þeir eru margir (allt of margir!) En ég er alveg sammála þér um hvernig þetta horfir við manni.

Það breytir samt auðvitað ekki stöðunni í rökræðunni við trúmenn; við getum ekki leyft okkur að segja við þá „Já, en þú ert bara að segja þetta núna af því að ...“ Ég vil ekki saka þig um þetta, svo það sé á hreinu, en það er í lagi að segja það skýrt að hvatirnar skipta ekki máli, einungis hvort það sem er sagt er rétt eða rangt, skynsamlegt eða óskynsamlegt. Við verðum að glíma við það sem þeir segja en ekki af hverju þeir eru raunverulega að segja það. Þetta er engan veginn frábrugðið við „Já, en þú ert bara að segja þetta af því að ...mamma þín vinnur hjá lyfjafyrirtæki/bróðir þinn er umhverfisráðherra/frændi þinn rekur útgerð/o.s.frv.“ Að benda á (mögulegar) hvatir er ekki sérlega málefnalegt.

Ég er sammála þér um að margir kirkjunnar menn eru bókstafstrúarmenn um a.m.k. sum atriði trúarinnar. (En ekki um öll atriði; ég hef a.m.k. aldrei hitt YECista úr þeirra röðum). Og það má alveg vekja athygli á því og deila á það. En þú spyrð hvert umræðan er að fara. Hún snerist, alla vega hjá mér í upphafi, um hver ástæðan væri fyrir því að trúmenn saki trúleysingjana um að vera einhvers konar bókstafstrúarmenn – ég held að það séu fleiri skýringar á því en Hjalti nefnir í greininni; og um hvað bókstafstrú eiginlega er – mér sýnist við tveir alla vega vera sammála um skilgreininguna (kannski Hjalti líka en hann má sjálfur fá að lýsa eigin skoðunum) en þeirri skilgreiningu sér ekki stað í greininni og mér fannst þess virði að benda á að það sé hægt að vera ekki bókstafstrúarmaður og samt halda að ritningin sé orð guðs. Það er nú allt og sumt. Út af fyrir sig held ég að ég hafi ekki fullyrt mjög stórt eða mikið með þessum ábendingum.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 28/06/13 12:50 #

Þetta er ekki sambærilegt við að gagnrýna einhver fyrir að segja eitthvað "mamma þín vinnur hjá lyfjafyrirtæki".. Ég væri ekki að gagnrýna kirkjunnar menn ef þeir hefðu alla sína tíð haldið því fram að biblían væri líkingamál. En mér finnst að hvatirnar fyrir breyttri sögu eða skýringu skipta verulegu máli þegar ég er að meta hvað er sennilegt og hvað ekki. Amk. ef við höldum okkur við samlíkingu við réttarkerfið þá skiptir mögulegt "mótíf" máli.

Annars er ég að velta fyrir mér að henda inn grein á þessum nótum, ef ekki verður einhver fyrri til - og láta þetta gott heita hér. Það eru fleiri skemmtilegir fletir á þessu...


G. - 28/06/13 12:57 #

Já, mögulegt mótíf getur skipt máli fyrir rétti. En það breytir engu um hvort það sem er sagt er eða er ekki satt/rétt. Við getum verið sammála um að vera ósammála um það.

Takk fyrir mig, Valgarður.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/06/13 20:02 #

G., ég nenni ekki að vísa þér á versin varðandi Pál, en ég vildi benda á það sem dæmi um að fólk er ásakað um bókstafstrú ekki vegna þess að það túlkar texta "bókstaflega". S.s. um dæmi þar sem frjálslynt trúfólk virðist nota það sem uppnefni.

Ég myndi giska á að fólk saki þig þar um að taka ekki eitthvert sögulegt samhengi með í reikninginn frekar en að gera úr þessu líkingamál en ég veit það svo sem ekki.

Ég er viss um að tal um "sögulegt samhengi" er hluti af því hvernig þetta fólk réttlætir það hvernig það túlkar texta Páls.

En ég hefði samt meiri áhuga á að deila við guðfræðinginn um flest annað en textann: um boðskapinn og afleiðingarnar af honum – og vinna hann vonandi yfir á mitt band.

Boðskap textans þá?

Hvert er annars markmiðið með rökræðum við guðfræðingana? Að leita sannleikans saman?

G., þegar það kemur að greinum sem að gagnrýna presta, þá væri það auðvitað gaman "leita sannleikans saman" eða að sannfæra þá. En staðreyndin er sú að þetta er fólk sem að hefur gríðarlega hagsmuni af því að skipta ekki um skoðun (það starfar við þetta!). Markmiðið er að höfða til lesanda, ekki prestanna.

og um hvað bókstafstrú eiginlega er – mér sýnist við tveir alla vega vera sammála um skilgreininguna

Ég er ekki sammála því að við ættum að nota þína skilgreiningu, hvað þá að það sé sú skilgreining sem fólk noti almennt, en ég skil hvað þú átt við.

...og mér fannst þess virði að benda á að það sé hægt að vera ekki bókstafstrúarmaður og samt halda að ritningin sé orð guðs.

Einn punktur varðandi þetta: Að eitthvað sé "orð guðs" er algerlega óskilgreint (ég bendi á hvað þetta er loðið í greininni), og á meðan það er svona loðið þá geturðu verið hvað sem er "og samt haldið að ritningin sé orð guðs".


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/06/13 20:06 #

G., eitt enn, mér finnst við aðallega greina á um hvort það sé taktískt rétt að gagnrýna presta fyrir að mistúlka texta (þeas láta eins og eittvað sem var ætlað að vera lýsing á alvöru atburðum sé það ekki).

Mér finnst það nauðsynlegt, því eins og ég bendi á í greininni, þá eru skrif okkar trúleysingja gegn biblíunni viðbrögð við oflofi frá prestunum (og öðrum).

Þeir t.d. tala um hvað biblían innihaldi fagran siðferðisboðskap, hvað guðinn þar sé góður, en þegar við bregðumst við því og bendum á hluti eins og grimmileg lög og þjóðarmorð, þá er ásökunin sú að við séum bókstafstrúarmenn. Á maður í þannig tilfellum ekki að deila um túlkunina og bara sættast á að textinn sé myndlíking eða eitthvað? Lesa það allt "í ljósi Krists"?


G. - 29/06/13 00:27 #

Við verðum líklega seint sammála um allt, Hjalti, þótt við séum sennilega sammála um flest. Ég ætla að kalla þetta gott í bili. Takk fyrir mig.


Benni - 08/08/13 00:14 #

Hjalti. Getur þú sett eitthvað út á það sem er haft eftir Jesú Kristi?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 08/08/13 11:52 #

Benni, ég get t.d. bent á allt heimsendatalið þar sem Jesú eru eignuð ummæli eins og að hann muni taka þátt í því að henda fólki í eldsofna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.