Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hrokafullir, ofbeldishneigðir og vitlausir bókstafstrúmenn?

Klerkar Þjóðkirkjunnar kvarta oft yfir því að landinn hafi lítinn áhuga á trúmálum og ræði lítið um þau. Í ljósi þessa er afskaplega skrýtið að þessir sömu klerkar hafa nánast ekki neitt um Vantrú að segja, nema þá að tala umhrokafulla trúleysingja í dylgjustíl. Í predikun þjóðkirkjuprestsins Sigurðar Árna þarsíðasta sunnudag, Eitrað fyrir trú og efa, voru einmitt þannig ummæli. Sigurður sagði:

Efahyggjan er skárri en trúarofstæki því hún hvetur ekki til herferða, manndrápa og kúgunar með sama hætti. En hrokafull efahyggja er systir hrokafullrar trúar, að því leyti að hún smættir tilveruna, er í grunninn bókstafshyggja, sem ekki umber aðrar skoðanir, getur ekki unnt öðrum, að skilgreina litríki veraldar með öðrum hætti en skv. sinni forskrift. Kynnið ykkur boðskap þeirra, sem eru herskáir guðleysingjar. Þar finnið þið ekki þroskaða vitmenn, heldur hrokagikki, sem hæða og níða. Herskáir guðleysingjar eru bókstafstrúarmenn. Hjá slíkum er jafnan stutt í ofbeldið.

Hverjir eru þessir hrokafullu efahyggjumenn og herskáu guðleysingjar eiginlega? Boðskap hverra er Sigurður að biðja söfnuðinn að kynna sér? Hann vísar ekki á neitt.

Ef litið er til erlendra manna veit ég ekki um efni frá vitlausum herskáum trúleysingjum, nema Sigurður telji menn eins og Bertrand Russell, Nietzsche, Freud, Karl Marx, George H. Smith og Carl Sagan vera vitleysinga. Ef litið er innanlands, þá eru engir herskáir trúleysingjar sýnilegir nema Vantrú og Sigurður veit vel af tilvist Vantrúar. Þannig að það er mjög líklegt að Sigurður hafi verið að tala um okkur.

Þar sem Sigurður hefur ekki fengist til að svara tölvupóstum frá mér og öðrum vantrúarmeðlimum þar sem við spyrjum hvort hann eigi við Vantrú, þá tel ég hann hafa staðfest að hann hafi verið að ræða um Vantrú með því að svara ekki.

Efahyggjan er skárri en trúarofstæki því hún hvetur ekki til herferða, manndrápa og kúgunar með sama hætti. En hrokafull efahyggja er systir hrokafullrar trúar, að því leyti að hún smættir tilveruna, er í grunninn bókstafshyggja,

Það rétt athugað hjá Sigurði að trúleysi (efahyggja) hvetur í sjálfu sér ekki til herferða, manndrápa eða kúgunar, ekki frekar en það að trúa ekki á álfa. En þar með sagt er ekki víst að einhverjir trúleysingjar hvetji ekki til þessara hluta, alveg eins og sá sem trúir ekki á álfa getur gert það.

Á predikuninni sést að þegar Sigurður talar um hroka, þá á hann við fullvissu (sem Sigurði finnst vera hrokafull). Þannig að samkvæmt Sigurði er trúleysi sem maður er fullviss um systir trúar sem maður er fullviss um af því að trúleysið “smættar tilveruna”. Hvernig hrokafull efahyggja “smættar tilveruna” er leyndardómur, því Sigurður útskýrir ekki hvað hann á við með því.

Hvað Sigurður Árni á við með það að kalla hrokafulla efahyggju bókstafstrú er enn meiri leyndardómur.

[Hrokafull efahyggja] ... [umber ekki] aðrar skoðanir, getur ekki unnt öðrum, að skilgreina litríki veraldar með öðrum hætti en skv. sinni forskrift.

Þarna notar Sigurður skrýtna skilgreiningu á sögninni “að umbera”. Það að umbera aðrar skoðanir þýðir ekki að það eigi ekki að gagnrýna þær eða segja skoðanir sínar á þeim. Myndi einhverjum detta í hug að halda því fram að frambjóðandi hægri flokks væri ekki umburðarlyndur af því að hann gagnrýndi hugmyndir frambjóðanda vinstri flokks? Ég myndi flokka það undir umburðarlyndi að umbera það að hugmyndir manns séu gagnrýndar.

En ef Sigurður heldur því fram að með því að hafa sannfæringu (hroka) sé maður óumburðarlyndur er það ekki satt. Það að hafa sannfæringu segir ekkert um það hvort maður umberi skoðanir annarra eða ekki.

Kynnið ykkur boðskap þeirra, sem eru herskáir guðleysingjar. Þar finnið þið ekki þroskaða vitmenn,....

En kynnið ykkur líka boðskap frjálslyndra guðfræðinga. Þar finnið þið þroskaða vitmenn sem hrekja málflutning herskárra trúleysingja málefnalega og án allra árása á vitsmuni eða þroska vitlausu guðleysingjanna.

Það er rétt að benda á að herskátt guð- eða trúleysi vísar ekki til ofbeldis, heldur er einungis um að ræða trúleysingja sem er ekki feiminn við að benda á að trú sé vitleysa. Ef sama orð væri notað um kristið fólk, þá væri Sigurður Árni, biskupinn og allir prestar Þjóðkirkjunnar “herskáir kristnir menn”, þar sem þeir eru ekki feimnir við að boða trúna sína.

[Í boðskap herskárra guðleysingja finnið þið] hrokagikki, sem hæða og níða.

Það er rétt að við notum háð, enda er háð skemmtilegt og áhrifarík aðferð til þess að gagnrýna málflutning annarra. Ég veit ekki hvað Sigurður á við þegar hann talar um níð, kannski flokkar hann gagnrýni á trúnna sína sem níð?

Herskáir guðleysingjar eru bókstafstrúarmenn. Hjá slíkum er jafnan stutt í ofbeldið.

Enn og aftur leyndardómsfullar og órökstuddar skilgreiningar. Hvernig geta herskáir guðleysingjar verið bókstafstrúarmenn? Rökin fyrir því að það sé “jafnan stutt í ofbeldið” hjá okkur herskáu trúleysingjunum byggjast á því að við séum bókstafstrúarmenn, þannig að ekki er ljóst hvernig sú skoðun Sigurðar geti staðist. Tökum sem dæmi frægasta herskáa trúleysingja 20. aldarinnar, friðarsinnan Bertrand Russell. Árið 1958 varð Russell fyrsti formaður félagsins “Campaign for Nuclear Disarmament”, allir þekkja merki félagsins, friðarmerkið.

Þegar ummæli Sigurðar Árna eru tekin saman, þá heldur hann því fram að við séum, óumburðarlyndir, vitlausir, ofbeldishneigðir, bókstafstrúar-hrokagikkir, sem hæða og níða. Allt án þess að koma með rök. Vonandi munu prestar Þjóðkirkjunnar hætta að hunsa Vantrú og fara að svara málflutningi okkar, en þá verður það vonandi ekki órökstuddar persónuárásir, heldur málefnaleg rök.

Hjalti Rúnar Ómarsson 05.05.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Khomeni - 05/05/06 08:53 #

Glæsileg grein. Góðar pælingar. Gott svar við ógeðfeldum ávirðingum klerksins.

Sérkennilegt að halda því fram að trúleysi "smætti" veruleikann. Mín skoðun og mín upplifun af trúleysi er einmitt þveröfug. Við það að varpa trúnni fyrir róðann þá opnasðist heimurinn fyrir mér. Heimurinn varð stærri, glæsilegri og undursamlegri. Guð ávirðingaprestsins og heimsmynd hans er einmitt smá og aum. Skoðum trúarjátninguna:

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottinn vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.

Þetta er það sem hamrað er á. Þetta er málið. Hver trúir þessar vitlausu "trúarjátningu"? Bara setningin >...situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.

Hver trúir þessu. Trúir ávirðingapresturinn að þegar hann drepst, fari hann fram fyrir guð og Jesú (sem reyndar er sama veran skv þrenningarskilningnum) og fari ýmist til helvítis eða himnaríkis.

Þess fyrir utan að Jesú var aldrei til. hann er goðsögn. Dæmi um það þegar júdaismi og s.k paganismi blandasðist saman. Péturskirkjan er byggð ofan á fornu paganískum átrúnaðarstað.

Kristni sprettur ekku upp fullsköpuð einn daginn og verður að stærstu trúarbrögðum heims á 3 árhundruðum. Sifjar kristindómsins (og þ.m.t hugmyndarinnar um Jesú) eru eldgamlar.

Vissuð þið t.d að dyonýsos og hliðstæða hans Ósíris var:

Guð skapaði Osíris/Dyonisos í holdi og frelsara mannskyns. “Sonur guðs”

Faðir Osiris var Guð en móðir hans var hrein mey

Fæddur i helli eða í hlöðu þann 25 desember. Þrír fjárhirðar voru viðstaddir

Býður fylgjendum sínum endurfæðingu við skírn

Breytir vatni í vín í giftingarathöfn

Ríður á asna inn í borg, er fagnað með pálmalaufum

Deyr um páska sem fórn fyrir heiminn

Sendur til heljar en á 3ja degi rís til himna.

Fylgjendur hans bíða hans á efsta degi

Dauða hans er fagnað með brauði og víni sem eiga að tákna hold hans og blóð.


Kári Svan Rafnsson (meðlimur í Vantrú) - 05/05/06 10:58 #

Talandi um trúarjáninguna, hefur þú skoðað trúarneitun vantrúar.


Torfi Stefánsson - 05/05/06 12:40 #

Sæll Komeni Hvaðan hefur þú þessar hliðstæður milli grísk-egypskra trúarbragða og kristninnar? Geturðu vísað á nokkuð þokkalega hlutlausan vef sem dæmi?


Khomeni - 05/05/06 12:43 #

Trúarafneitunin er í raun eitthvað sem Satansistar mydnu skrifa undir. En Satanistar eru auðvirðulegasti hópur trúaðra sem fyrirfinnst.

Sá sem er Satanisti gerir nefnilga ráð fyrir að heimsmynd kristindómsins sé rétt. Vegna þess að Satanismi er eiginlega settur til höfðuðs kristindómmnum. Ekki öðrum trúarbrögðum.

Satanismi er eigninlega eins og snýkjudýr á kristum átrúnaði. Snýkjudýr á blindum, gömlum Hákarli sem syndir af gömlum vana.

Verður ekki hallærislegra.

Ég er því ekki sélega hlyntur trúarafneitun Vantrúar. Hún er sett til höfðs kristindómnum og byggð upp nánast sem ögrun. Það væri miklu frekar að búa til sérstaka trúarafneitun.

Best er samt að hafa ekki neitt..


Khomeni - 05/05/06 12:56 #

Sæll Komeni Hvaðan hefur þú þessar hliðstæður milli grísk-egypskra trúarbragða og kristninnar? Geturðu vísað á nokkuð þokkalega hlutlausan vef sem dæmi?

Ég veit ekki um neinn gasalega hlutlausan vef um trúmál á netinu yfir höfðu. ég er s.s BA í guðfræði og þekki því aðeins til kenningarinnar um jesúmýtuna, en þessi bók.. "The Jesus Mysteries: Was the "Original Jesus a Pagan God?" ..er alveg frábær.

Ég er að lesa hana. Afar góð og fróðleg bók. Það er gott að þekkja aðeins til Gnósta áður en farði er í lesninguna. Önnur bók sem ég mæli með er "The River of God"

kaupa þessar bækur. ég get líka lánað. Khomeni@gmail.com

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.