Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ríkiskirkjan er töff, ekki þú.

töff krakkar

Nýlega var vakin athygli á bæklingi sem dreift var til fermingarbarna í Grensássókn. Útfrá texta bæklingsins[1] er erfitt að draga aðra ályktun en að skilaboðin sem kirkjan dreifir til barna séu að án trúar sé ómögulegt að elska, gráta og hlæja. Trú sé auk þess forsenda þess að fyrirgefa og án trúar sé öfundin sterk en samgleðin með náunganum ekki til staðar.

Mörgum brá við þessi skilaboð. Þau eru jú vissulega ekki falleg, en mögulega eru þau töff, sem er eitthvað sem kirkjan leggur mikið upp úr miðað við þennan bækling. Þarna er ennfremur ekki mikið fyrir hinu víðsfræga umburðarlyndi ríkiskirkjunnar að fara. Kannski kemur það einhverjum á óvart, en ekki þeim sem hafa fylgst af einhverju viti með málflutningi kirkjunnar seinustu ár. Þar hefur mikill töffaraskapur ríkt:

Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika.

Svo mælti María Ágústsdóttir, prestur, fyrir nokkrum árum og gerðist þannig einhverskonar erkitöffari innan kirkjunnar. Karl Sigurbjörnsson biskup er líka töff:

Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. #

Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar. #

Nú höfum við orðið vitni að átökum um lífsskoðanir verið áberandi hér á landi nú um vetur. Þar sem hin harða og kalda andstaða gegn kristinni sem einkenndi upphaf fyrri aldar sé gengin aftur í hatrömmum andtrúaráróðri. Hinn andlegi hafís guðleysisins lónar fyrir landi og ískalda og vonarsnauða þoku stafar af honum. Gegn því stendur hinn hlýi vorþeyr upprisutrúar og vonar. Hvorum megin viltu vera? Hvora lífssýn viltu að barnið þitt aðhyllist? Hvort viltu vita það í hafís tómhyggju og vantrúar, eða í vorþey trúarinnar? #

Þessi töff kirkja sem nú birtist okkur í auglýsingabæklingum til barna er ekki nýtt fyrirbæri. Það eina sem vekur athygli mína varðandi þessi töff viðhorf er að líklega er þetta í fyrsta skipti sem töffaraskapurinn er útbreiddur með markpósti til barna.

Einhverjir hafa fett fingur út í það, bent á að þetta séu ekki góð skilaboð að senda til barna sem eru að velta því fyrir sér hvort þau ætli að fermast og þá jafnvel hvort að þau ætli að nýta sér borgaralegar fermingar Siðmenntar. En það fólk er ekki töff. Kirkjan er töff. Ekki trúleysingjar.


[1] "Það stendur ekki utan á þér hvort þú trúir. En þú finnur, að lífið þitt verður dýrmætara. Þá ertu fær um að geta elskað, grátið og hlegið. Fær um að geta fyrirgefið. Kannt að samgleðjast í stað þess að öfunda."

Sjá einnig: Það er töff að vera trúleysingi á Skoðun.is

Mynd fengin hjá kamshots

Egill Óskarsson 05.06.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.