Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Nýr páfi, sama bullið

Mynd af fréttum um kjör páfans

Fréttamiðlar hafa undanfarna daga verið fullir af afskaplega jákvæðum fréttum um nýja páfann. Til dæmis er óskeikull talsmaður skapara alheimsins víst ákaflega auðmjúkur. Vissulega eru leiðtogaskipti stærsta trúfélags heimsins fréttnæmur atburður en í öllum fagnaðarlátunum virðist fólk gleyma því fyrir hvað kaþólska kirkjan stendur.

Sami boðskapur

Frans fær númerið I fyrir aftan nafnið sitt en það eru litlar líkur á því að hann verði fyrstur páfa til þess að taka mannúðlega afstöðu í þeim málefnum sem kaþólska kirkjan er helst gagnrýnd fyrir. Til að mynda er Frans ekki mjög hrifinn af samkynhneigðum. Þegar ríkisstjórn heimalands hans, Argentínu, lagði fram frumvarp (sem var á endanum samþykkt) sem leyfði samkynhneigðum að ganga í hjónaband vildi Frans meina að frumvarpið væri sett fram að undirlagi djöfulsins til þess að rugla og blekkja „börn Guðs“.

Það er líka borin von að andstaða Vatikansins í garð getnaðarvarna, glasafrjóvgana og annara uppgötvana sem geta og hafa bætt lífsgæði manna veikist við skipun Frans. Það bendir allt til þess að fordómar og trúarkreddur kaþólskra muni vega þyngra en heilbrigð skynsemi.

Sama ruglið

Heilbrigð skynsemi er jú auðvitað fjarri flestum helstu kenningum kaþólskunnar, og Frans er heldur ekki líklegur til að breyta því. Enn mun kirkjan kenna að þeir sem ekki hlýða mun kveljast að eilífu í helvíti, enn mun brauð breytast í Jesú í messum kirkjunnar, og enn mun María mey hafa flogið upp til himna.

Og kraftaverkin gerast enn. Frans mun án nokkurs vafa útnefna nokkra dýrlinga á starfstíma sínum og það er jafnvel ekki ólíklegt að fráfarandi páfi, Benedikt XIV verði í þeim hópi. Það gefur tilefni til þess að velta því fyrir sér hvaða kraftaverk hann hafi innt af hendi. Kannski verður það að teljast kraftaverk að hann hafi getað sætt eigin samvisku við yfirhylmingu kirkjunnar á nánast kerfisbundinni misnotkun lærðra manna kaþólsku kirkjunnar á börnum. Ef til vill er stærsta kraftaverk hans það að ná að verða fyrsti páfinn til þess að komast lifandi úr embættinu í vel rúmlega hálft árþúsund.

Ómerkilegur pappír

Af hverju er skipan nýs páfa jafn stór frétt og raun ber vitni? Jafnvel hér á Íslandi, þar sem kaþólska hefur ekki verið mikið áberandi síðan forverar núverandi kirkjuyfirvalda gerðu Jón Arason og syni hans höfðinu styttri, er það fyrsta frétt í flestum fjölmiðlum að kardinálar í reykfylltu bakherbergi hafi komist að niðurstöðu. Fréttaflutningurinn jafnast á við það þegar stórveldi eins og Bandaríkin kjósa sér forseta. Eru völd og áhrif páfa eitthvað í líkingu við völd bandaríkjaforseta? Sumir íslenskir trúmenn virðast líka vera afskaplega hrifnir af honum. Guðfræðiprófessorinn Pétur Pétursson sagði til dæmis að hann trúði því að “heilagur andi hafi haft áhrif á þetta val.” Okkur finnst merkilegt að íslenskur guðfræðiprófessor telji guðinn sinn vilja sjá hatursmann réttinda samkynhneigðra stjórna stærstu kirkju heimsins.

Ekki fallegt félag

Flest fólk virðist gleyma því að kaþólska kirkjan er ekki fallegur félagsskapur. Óháð öllum syndum fortíðarinnar, og þær eru margar, til dæmis er þetta félagsskapurinn sem stóð að trúarnauðung Evrópubúa í hátt í þúsund ár, stóð fyrir pyntingum og drápum á “villutrúarmönnum”, og var á móti trúfrelsi alveg fram á 19. öldina. Í dag eru þetta þau samtök sem berjast af mestum krafti gegn réttindum samkynnheigðra og útrbreiðslu getnaðarvarna. Þó svo að krúttlegt gamalmenni sé kosið í æðstu stöðu þessarar stofnunar, þá ber ekki að fjalla um þessa stofnun með bros á vör.


Mynd fengin hjá kaþólsku kirkjunni á Englandi

Ritstjórn 15.03.2013
Flokkað undir: ( Kaþólskan )

Viðbrögð


Bjarki (meðlimur í Vantrú) - 15/03/13 16:53 #

Mér er það minnisstætt hvernig íslenskir fjölmiðlar fóru offari í gagnrýnislausu sorgarkláminu þegar þarsíðasti páfi féll frá í embætti árið 2005. Það hefur lítið breyst.


Tinna G. Gígja (meðlimur í Vantrú) - 16/03/13 12:11 #

Hann segist vilja sjá "fátæka kirkju fyrir hina fátæku" - hann hlýtur að ganga beint í það að selja eignir Vatíkansins... er það ekki?


Hafþór Örn (meðlimur í Vantrú) - 18/03/13 12:13 #

Hann er líklega að tala um andlega fátækt (kirkjan) annarsvegar og veraldlega fátækt (fólkið) hinsvegar.


Kristjan - 24/03/13 03:16 #

Það skondna við fráfall Jóhannes Páls Páfa II, að páinn þá og þá páfa sem ríkt hafa frá siðskiptum hafa enga lögsögu yfir Íslensku þjóðkyrkjunni. Þannig að Íslenskir fjölmiðlar hefðu átt að fara hægar í andlátið á páfanum af þessum sökum einum saman. Ekki nema allir krisnir men á Íslandi seú laumu kaþólikkar.


Jack Daniels - 29/03/13 10:20 #

Meira en 8 af hverjum 10 útlendingum búsettum á Íslandi eru kaþólikkar, svo það væri álitið eitthvað dularfullt ef fjölmiðlar fjölluðu ekki um málefni sem skipta þá máli. Ég á kaþólska ömmu og fer oft með henni í messu. Ekki vegna trúar, heldur til að gleðja hana. Þar eru næstum allir annað hvort pólskir eða brúnir. Þessir pólsku tala oft um að kaþólikkahatur Íslendinga sé dulbúinn rasismi, því það eru engir fulltrúar annarra trúarbragða en ríkistrúarinnar á landinu í neinu mæli, og meirihluti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi eru útlendingar. Venjulegur Íslendingur talar illa um páfann og kaþólikka, þó fjölmiðlar reyni að vera siðmenntaðir í tali, en samskomar ummæli gagnvart öðrum trúarbrögðum en kaþólsku eru ekki liðin. Pólverjar hér á landi verða fyrir miklu háði út af trú sinni. Veit ekki hvernig þetta er hjá Filipseyingunum þarna eða Suður Ameríska fólkinu því það talar lítið við mig.


Jack Daniels - 29/03/13 10:24 #

Voruð þið ekki að skrifa nýðgreinar um móður teresu á sínum tíma? Hver er tilgangurinn með því? Satt best að segja hef ég aldrei rekist á svona kaþólikkafóbíu eins og hjá ykkur, að nenna að standa í þessum hatursskrifum dag og nótt til að nýðast á minnihlutahópi sem er mest skipaður útlendingum í erfiðri félagslegri og fjárhagslegri stöðu hér á landi, sem er ómerkilegt og óupplýst af ykkur, nema hjá meðlimum ofsatrúarsafnaða í Suðurríkjum Bandaríkjanna, einn hverra tjáði mér að honum hugnaðist KKK sérlega vel líka, en KKK var einmitt stofnað til að berjast gegn kaþólsku fólki ekki síður en svörtu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/03/13 10:47 #

Voruð þið ekki að skrifa nýðgreinar um móður teresu á sínum tíma? Hver er tilgangurinn með því?

Þetta voru ekki níðgreinar. Tilgangurinn var að benda á sannleikann um Teresu.


Jack Daniels - 29/03/13 16:55 #

Ekki var hann tillitssamur tónninn í þessum greinum? Og hver er tilgangurinn að sparka í dána manneskju nema að særa þessa örfáu, og oftast útlendu, fylgismenn hennar, sem yfirhöfuð lesa íslensku og geta skilið hvað þið eruð að segja? Það geispa flestir yfir þessu slétt sama um "þessa kaþólikka" og þetta særir einungis þessa Pólverja sem ég þekki sem hafa skoðað vefinn ykkar.


Jack Daniels - 29/03/13 16:59 #

Það mætti halda að þið væruð uppskroppa með gagnrýni á eigin kirkju? Þjóðkirkjan er að vissu leyti kirkja líka þeirra sem eru skírðir en trúa ekki og nota sér ekki þjónustu hennar, eins og jarðarfarir, brúðkaup og svoleiðis og því ekki hægt að segja þeim að gagnrýna hana ekki. Það fer öllum betur að gagnrýna það sem þeir eiga tilkall til en sparka í random minnihlutahópa, en auðvitað misnota margir andúð á minnihlutahópum til að geta sagt eitthvað sem nógu margir eru "sammála" og mér finns þetta lélegt auglýsingatrikk hjá Vantrú. Þjóðkirkjan hefur skandaliserað nóg sjálf og kaþólikkar hér á landi hafa það almennt nógu slæmt. Atvinnuleysi meðal Pólverja er margfallt meira en innfæddra þó fáir séu duglegri í atvinnuleitinni og ástæðan er einföld, margir vilja ekki ráða þetta fólk og ástæðan er fordómar fyrir menningu þeirra sem tengist kaþólsku óvenju sterkum böndum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/03/13 17:06 #

Fyrir tveim vikum var ég staddur á fræðslufundi um netnotkun og tölvuleiki í grunnskóla dætra minna. Sá sem hélt fyrirlesturinn sýndi m.a. glæru með myndum af Ghandi og Teresu og tók þau sem dæmi um "gott fólk".

Ég sagði að sjálfsögðu ekki neitt en þetta er dæmi um það sem gerist þegar enginn kemur með mótvægi. Fjölmargir trúa því að Teresa hafi verið góð manneskja þegar raunin er sú að hún jók þjáningar fólks en dró ekki úr þeim.

Annars hefur umræða okkar um kaþólsku kirkjuna og Teresu verið frekar lítil, við höfum miklu meira fjallað um ríkiskirkjuna. Hér er fjallað um nýjan páfa vegna þess fjölmiðlar hér á landi voru stútfullir af einhliða (áróðri) fréttum af honum. Þessi grein er mótvægi.

Einu fordómarnir sem ég verð var við hér eru fordómar þínir í okkar garð. Kynntu þér málflutning okkar áður en þú ræðst á hann. Reyndu að vera málefnalegur.


Jack Daniels - 29/03/13 21:15 #

Þetta er ekki "áróður", heldur kurteisi í garð innflytjenda hér á landi sem kvarta yfir engin athygli beinist að þeirra sið heldur aðeins meirihlutans. Sættu þig við að lifa í fjölmenningarsamfélagi og að fjölmiðlar verði að taka tillit til þess. Ef það hjálpar einhverjum að halda að Móðir Teresa og Ghandi hafi verið góð, sem þau hvorugt voru algjörlega (kynntu þér ofsóknir gegnum áhangendum Sikhisma í kringum þann tíma er Pakistan var stofnað sem dæmi, og pældu í því hvort það sé tilviljun maður af þessum sið drap síðan Ghandi), og hvetur þau til góðra verka, þá skiptir það engu. Þetta er dáið fólk. Eina sem þú hefur upp úr krafsinu að krukka í þessu er að kasta skít í strögglandi minnihlutahópa hér á landi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/03/13 21:34 #

Ég tel sannleikann skipta máli, hvort sem einhverjir móðgast eða ekki.

Og láttu ekki eins og kaþólikkar séu ofsóttur minnihlutahópur á Íslandi. Þeir eru það ekki.


XYZ - 31/03/13 00:14 #

Hmm, hvernig getur einhver EKKI verið minnihlutahópur á Íslandi þegar yfir 90% safnaðarins eru útlendingar? Ofsóttur? Vonandi ekki, en ég á Íslandi, þó ég heyri menn aldrei segja neitt jákvætt um kaþólikka eða kaþólsku. Kannski afþví þetta eru næstum allt útlendingar sem eru í þessum söfnuði í dag?


xyz - 31/03/13 00:21 #

Ofsóttir? Vonandi ekki. Samt er í tísku á Íslandi að tala illa um kaþólikka og páfa en brot á pólítískum rétttrúnaði að tala illa um flest önnur trúarbrögð. Minnihlutahópur? Já, ekki bara trúarlegur heldur ethnískur, því næstum allir íslenskir kaþólikkar eru af erlendum bergi brotnir, eða vel yfir 90% safnaðarins og alla vega 8 af 10 innflytjendum eru kaþólikkar. Hér er einhverra furðulegra hluta vegna lítið um múslima, sem eru meirihluti innflytjenda í öllum öðrum löndum Norður Evrópu, og í staðinn höfum við kaþólikana okkar. Þeir eru ósköp passívir og lítið fyrir að svara fyrir sig, ólíkt múslimum. Það er varla til Pólverji sem er ekki kaþólskur. Íslenskir kaþólikkar eru líka mjög passívir, eini sem talar um trú sína yfirhöfuð er Þorgerður Katrín. Kaþólska kirkjan er hætt öll trúboði nema utan Vesturlanda og það er opinber stefna hjá henni. Hún ber ekki á dyr hjá mönnum og biður þá að vera með eins og Vottarnir og rekur enga sjónvarpsstöð eða útvarpsstöð, og þó hún gerði það væri það ekki til að veiða fleiri, það væri gegn stefnu hennar í Evrópu. Það getur hver sem er gengið í Krossinn á einum degi, en ef þú villt verða kaþólskur þarftu að læra til þess í eitt til tvö ár og frá staðfestingu frá prestinum um að þú viljir þetta greinilega sjálfur og sérst ekki bara undir áhrifum frá öðrum.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 31/03/13 11:03 #

xyz, við ættum sem sagt ekki að gagnrýna stærsta og áhrifamesta trúfélags heimsins af því að sumir innflytjendur (og fullyrðingin: "Það er varla til Pólverji sem er ekki kaþólskur." er kolröng) eru kaþólskir? Þú hlýtur að sjá að það er fáránleg krafa.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 31/03/13 11:03 #

Og ég hef ekki heyrt af þessari meintu stefnu hennar um að "veiða ekki fleiri" á Vesturlöndum. Geturðu komið með heimild fyrir þessu?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.