Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2011

Ágústínus

Óneitanlega hafa margir guðspekingar, -doktorar og -fræðingar beðið með greipar spenntar í von um að vera tilnefndur til hinna eftirsóttu Ágústínusarverðlauna Vantrúar vegna afreka og gjörða í guðfræðilegum vísindum árið 2011. Þessi afar eftirsóttu verðlaun hafa verið veitt ár hvert síðan 2006. Sérstök og leynileg dómnefnd hefur nú undanfarna tvo mánuði farið yfir hvern einasta stafkrók lærðra sem leikna guðvísindamenn sem tilnefndir voru árið 2011 og skilað af sér 10 tilnefningum sem lesendum býðst að kjósa um í leynilegri kosningu sem ætti að standast allar alþjóðlegar kröfur.

Kosningingu er lokið.

Tilnefningar Ágústínusarverðlauna 2011:

  1. Þórhallur Heimisson, ríkiskirkjuprestur:

    Árið 2011 var mikil opinber umfjöllun um aðkomu ríkiskirkjunnar að skólum. Sú umræða sýndi kosti þess að hafa hámenntaða sérfræðinga á hinu trúarlega sviði, prestana. Hluti af praktískum guðvísindum fjallar um framsetningu kristins boðskap, það er að segja að verja hagsmuni Þjóðkirkju allra landsmanna. Séra Þórhallur Heimisson kom með djúpa gagnrýni á andstæðinga kirkjunnar og fær tilnefningu fyrir hana:

    Þó fyrirgefingin sé bönnuð í skólum Reykjavíkur. Og börnum sé meinað að forðast hið illa og freistingar sem geta farið illa með þau í lífinu.#




  2. Karl Sigurbjörnsson, ríkiskirkjubiskup

    Næsta tilnefning tengist líka baráttunni um sálir grunnskólabarna Reykjavíkur, og í þetta skiptið sýnir kennimaðurinn sem um ræðir, herra Karl Sigubjörnsson, hversu gagnleg næmi á sögulegt samhengi getur verið í umræðunni um mikilvægi þess að börnin fái að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að kynnast Jesú. Karl fær tilnefningu fyrir þessi kennimannslegu ummæli:

    Tilburðir yfirvalda í Reykjavík minna óhugnanlega á Sovétið sáluga. #




  3. Baldur Kristjánsson

    Eitt af aðal-rannsóknaráherslum nútíma guðvísinda er tilvist guðs. Í fornöld var fólk það óupplýst að það trúði því virkilega að guð væri einhvers staðar út í geimnum. Guð virðist ekki leynast þar, þannig að miklar rannsóknir eru stundaðar til að finna út hvar guð gæti verið að fela sig. Einn íslenskur kennimaður, séra Baldur Kristjánsson, stundar áhugaverðar guðfræðitilraunir og hver veit nema á næstu árum munu guðvísindin uppgötva bústað guðs:

    Það er náttúrulega enginn Guð til í þeim skilningi sem við leggjum í til- veru eða tilvist- það að vera til. Eini Guðinn er Guð trúarinnar og hann er ekki til nema sem Guð trúarinnar, eða sá Guð sem trúað er á. Og hann lifir ekki í okkar veraldlega heimi heldur í heimi sem við getum þess vegna kallað hugarheim. #




  4. Jón Ragnar Ríkharðsson

    Í baráttunni um sálir barnanna í Reykjavík einkennist málflutningur hinna hatrömmu andstæðinga kirkjunnar af því hve stórhættulegir prestar séu. Því er bókstaflega haldið fram að prestar séu að brjótast í skóla og berja börn í hausinn með Biblíunni. Þess vegna er mikilvægt að kveða þennan atvinnuróg niður. Það gerði Jón Ragnar Ríkharðsson, leikmaður, eftirminnilega, og fær hann tilnefningu fyrir það:

    Ég á góðar bernskuminningar um prest sem ferðaðist á reiðhjóli og seildist í vasa sinn eftir sælgætismola handa okkur. Hann ræddi við okkur um Guð og var frekar óhress ef við mættum ekki í sunnudagaskóla kirkjunnar. Oftast mættum við á sunnudagsmorgnum, fengum Jesúmyndir og tókum þátt í helgihaldinu. - "Eru prestar hættulegir börnum?", Morgunblaðið 22.12.2011




  5. Þórhallur Heimisson, ríkiskirkjuprestur

    Mikið af tilnefningunum í ár snúast um hið eiginlega náttúruvísindalega svið guðfræðinnar, en þessi tilnefning er á hugvísindalega sviðinu, nánar til tekið í guðorðsifjafræði. Séra Þórhallur Heimisson hefur áður fengið tilnefningar fyrir byltingarkenndar rannsóknarniðurstöður sínar á þesu sviði, og tilnefningin í ár er að engu leyti síðri:

    Biblían er sérstök og einstök bók. Í raun er hún ekki ein bók heldur safn bóka, enda þýðir orðið Biblía margar bækur og frá henni er komið útlenda orðið Biblíótek eða bókasafn. #




  6. Gísli Jónasson, ríkiskirkjuprestur

    Í þjóðfélaginu grasserar sá herfilegi misskilningur að guðfræðivísindi séu að mestu leyti gjörsamlega gagnslaus fræði. Þess vegna telur dómnefndin að það sé mikilvægt að minnsta kosti ein tilnefning sýni hveru mikið hin praktíska guðfræði, oft kölluð kennimannleg guðfræði, talar inn í samtímann. Þessa tilnefningu fær séra Gísli Jónasson fyrir átakamikla lýsingu hans á átökum guðvísindamanna við illa anda:

    Séra Gísli Jónasson í Breiðholtskirkju hefur upplifað ýmislegt við húsblessun."Ég hef einu sinni lent í verulegum átökum þar sem ég snarsvitnaði við blessunina. Ég hefði ekki trúað þessu sjálfur, haldið að þetta væri della fyrr en ég reyndi." - Frétt um húsblessanir, Fréttablaðið 04.04.2011 bls 2




  7. Jakob Ágúst Hjálmarsson, ríkiskirkjuprestur

    Eitt af helstu vandamálum guðvísindanna er hinn svokallaði bölsvandi. Það er augljóst öllu fólki að algóður guð er til, en hvers vegna er þá allt þetta böl í heiminum? Eða eins og oft er spurt: "Hver skapaði sýkla?" Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson virðist hafa leyst þessa ráðgátu, að minnsta kosti þegar kemur að sjúkdómum, og það finnst dómnendinni verðskulda tilnefningu:

    Þetta er það sem Guð vill segja okkur með HIV smitun og alnæmi sem og hverjum öðrum sjúkdómi. Að við eigum að elska hvert annað og umvefja og þannig birtist dýrð Guðs, fegurð mannlífsins, ljómi elskunnar sem á sér upptök í honum eins og geislarnir sem verma sumardaginn koma frá sólunni. #




  8. Björn Erlingsson, safnaðarfulltrúi

    Kirkjusaga er mikilvægt fag innan guðvísinda, í rauninni svo mikilvægt að það gengur engan veginn að leyfa sagnfræðingum að sjá um það, eins og raunin virðist hafa verið. Ljóst er að vanþekking almennings á kirkjusögu landsins er mikil og einnig er mikil þörf á róttækri endurskoðun, og endurritun á þeirri sögu. Dómnefndin tilnefnir því endurritun Björns Erlingssonar, safnaðarfulltrúa, á kirkjusögu Íslands:

    Þær [reglur Reykjavíkurborgar] einkennir trúarleg rétthugsun sem er í algerri mótsögn við það umburðarlyndi og þann gagnkvæma skilning sem hefur einkennt viðhorf til trúmála í rúm 1.000 ár á Íslandi. #




  9. Örn Friðriksson, fyrrverandi prófastur

    Undanfarin ár hafa einkennst að ósanngjörnum og óbilgjörnum árásum á Þjóðkirkjuna, ekki síst eru blásið upp ryk í kringum herra Ólaf Skúlason. Það er því mikilvægt að eiga góða trúvarnarmenn á tímum sem þessum og Örn Friðriksson, fyrrverandi prófastur, fær tilnefningu fyrir að verja kirkju Krists gegn þessu ólukkufólki:

    Það er athyglisvert, hvað Ólafur, þessi stóri og glæsilegi maður virðist hafa verið klaufskur í þessum málum. Árangurslausar tilraunir við ótal konur – og meira að segja ekki alltaf svo sérstaklega eftirsóknarverðar,... - Úr "sannleiksskýrslunni" um biskupsmálið




  10. Bjarni Benediktsson, alþingismaður

    Nú á þeim tímum sem sótt er að Þjóðkirkjunni verður kirkjuréttur mikilvægari með hverjum degi, og því telur dómnefndin rétt að hafa eina tilnefningu á þessu sviði. Sú pólitíska rétthugsun að kristin trú eigi ekki að njóta forréttinda, sem jafnast auðvitað á að það megi ekki vera kristinn, virðist vaða uppi í samfélaginu. Þess vegna er gleðilegt að sjá jafn guðhræddan leikmann og Bjarna Benediktsson, alþingismann, verja kristna trú, og fyrir það fær hann tilnefningu:

    Trúfrelsið er misskilið. Sumir virðast halda að það snúist um að enginn megi hafa neina trú - og alveg sérstaklega ekki kristna.#




Kosningu er lokið og Ágústínusarverðlaunin 2005

  • Ágústínusarverðlaunin 2006
  • Ágústínusarverðlaunin 2007
  • Ágústínusarverðlaunin 2008
  • Ágústínusarverðlaunin 2009
  • Ágústínusarverðlaunin 2010

  • Slagorð

    Movable Type
    knýr þennan vef