Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um Alfa námskeiðið

Alfa-námskeið

Alfa námskeið hefur verið vinsælt hjá ýmsum kristnum trúfélögum á Íslandi, þar með talið hjá ríkiskirkjunni. Alfa er kynnt sem fræðslunámskeið um kristna trú, sem henti jafnvel efasemdarfólki. Raunin er sú að þetta er trúboð dulbúið sem námskeið. Sú trú sem er boðuð er tegund kristni sem flestir Íslendingar myndu kalla “bókstafstrú”.

Hvað er Alfa?

Námskeiðið er tíu vikur af fræðslukvöldum. Kvöldin eru þannig að fyrst borðar fólkið saman kvöldverð, svo er fluttur fyrirlestur og loks er hópnum skipt upp í smærri hópa fyrir umræður. Í miðju námskeiðinu er svo farið í helgarferð.

Kennslubók námsskeiðisins kallast Spurningar lífsins. Á fyrsta kvöldi er farið yfir fyrsta kafla, á öðru kvöldi annan kafla, þriðja kvöld þriðja kafla og svo framvegis. Stofnandi Alfa-námskeiðsins og höfundur kennslubókarinnar er Nicky Gumbel.

Trúboðsnámskeið

Fyrstu kaflar í Spurningar lífsins reyna að sannfæra fólk um að Nýja testamentið sé áreiðanleg heimild. Þar af leiðandi hafi Jesús risið upp frá dauðum og verið guð.

Afgangur bókarinnar gerir ráð fyrir því að maður hafi gleypt við þessu. Á þeim grunni er reynt að sannfæra mann um að trúa ýmsum "bókstafstrúaratriðum" sem höfundurinn aðhyllist.

Einu rökin fyrir meintum áreiðanleika Nýja testamentisins er sú staðreynd að það eru til mörg handrit af því og sum þeirra eru mjög nálægt ritunartímanum miðað við önnur fornaldarrit. Af þessu dregur Gumbel þá ályktun að Nýja testamentið sé “mjög traust heimild” (b.18).

Hvað er áreiðanleiki?

Þessi rök halda engu vatni þar sem áreiðanleiki í textafræðilegum skilningi - það að geta vitað hvað stóð upprunalega í einhverju riti - er allt annað en að vita að allt það sem textinn segir frá sé satt og rétt.

Sem dæmi þá eru slúðurblöð prentuð í þúsundum eintaka sem öll eru nákvæmlega eins. Við vitum nákvæmlega hver upprunalegi textinn er, en sú staðreynd segir okkur ekkert um það hvort innihald slúðurblaðanna sé sannleikanum samkæmt. Sama gildir um Nýja testamentið.

Þegar Gumbel fer svo að reyna að sannfæra fólk um að Jesús hafi verið guð og risið upp frá dauðum, þá byggir hann á því að allt það sem stendur í Nýja testamentinu hafi bókstaflega gerst.

Ótrúlegi Jesús

Sem dæmi: Gumbel gerir einfaldlega ráð fyrir því að sögur guðspjallanna af kraftaverkum Jesú séu heilagur sannleikur (b.24-25). Jesús labbaði á vatni og lífgaði fólk frá dauðum, þannig að hann bara hlýtur hann að hafa verið guð.

Annað dæmi, sem gæti alveg eins verið skopstæling á málflutningi Gumbels, er vísun hans í játningu Tómasar í lok Jóhannesarguðspjalls. Tómas ávarpar Jesú með orðunum “Guð minn og drottinn!” (Jóh 20.28). Jesús mótmælti þessu ekki þannig að Gumbel segir að Jesús hljóti því að hafa talið sig vera guð.

Gallinn við þessi rök eru auðvitað sú að þarna er Tómas að ávarpa hinn nýupprisna Jesú. Rökin gera ráð fyrir því að maður trúi því að Jesús hafi risið upp frá dauðum!

Meintar staðreyndir

Rökin hans fyrir upprisu Jesú hafa sama galla. Talað er um tómu gröfina og hinar ýmsu birtingar hins upprisna Jesú sem staðreyndir - sem þær eru auðvitað ekki - og að eina skýringin á þessum staðreyndum sem eitthvað vit er í sé sú að Jesús hafi risið upp frá dauðum.

Sem dæmi þá segir Gumbel að það sé hægt að afskrifa þá tilgátu að birtingar Jesú hafi verið sýnir af því að “[það var] hægt að snerta Jesú, hann borðaði steiktan fisk frammi fyrir lærisveinunum (Lk 24.42-43) og hann útbjó eitt sinn morgunverð handa þeim (Jh 21.1-14)" (b.29). En af hverju í ósköpunum ætti maður að trúa því að þessar sögur séu sannar?

Svo sýnir sú “staðreynd” að gröf Jesú var vöktuð (sem er afskrifað af ýmsum fræðimönnum sem eintómur skáldskapur) að líkama Jesú var ekki stolið af lærisveinum Jesú, og sú “staðreynd” að líkklæði Jesú voru skilin eftir í gröfinni sýna fram á að þjófar höfðu ekki rænt gröfina!

Á þessum tímapunkti er vonast til þess að þátttakandinn sé orðinn kristinn og þá er kominn tími til þess að sannfæra hann um ýmsar trúarhugmyndir sem einkenna það sem Íslendingar tengja við “bókstafstrú”.

Biblíudýrkun

Í kaflanum “Hvers vegna á ég að lesa biblíuna og hvernig?” er reynt að sannfæra fólk um að biblían sé óskeikul þar sem hún sé „hundrað prósent innblásin af Guði(b.56).

Til að sýna fram á þetta þá er meðal annars bent á að biblían sjálf segi það (2.Tm 3.16-17)(b.56). En ef þú trúir ekki sjálfri óskeikulu biblíunni, þá trúirðu kannski Jesú: „[Jesú] augum voru orð [biblíunnar] Orð Guðs (Mk 7.5-13) og úr því Jesús er Drottinn okkar getum við tekið hann trúanlegan.“ (b.56)

Gumbel segir okkur að “í sama streng tóku siðbótamennirnir, til að mynda Marteinn Lúther, sem talaði um “hina óskeikulu ritningu”"(b.57). Hann vísar einnig til opinberrar kenningar kaþólsku kirkjunnar og loks að "[a]llt fram á síðustu öld var [óskeikulleiki biblíunnar] einnig kenning allra mótmælendakirkna um allan heim og þótt hún sé dregin í efa nú, og jafnvel höfð að háði í kennslustofum, þá halda margir virtir fræðimenn sömu kenningu á lofti enn þann dag í dag.“(b.57).

Gumbel segir að biblían ætti að hafa “úrslitaþýðingu fyrir okkur um allt sem varðar trú okkar og breytni“ og að það sé “mjög brýnt að við hvikum hvergi frá þeirri staðreynd að *öll Ritningin er innblásin af Guði*”(b.58). Trúin á bókstaf biblíunnar gerist ekki meiri.

Satan, trúleysingjar og kynlíf

Alfa námskeiðið tekur tilvist djöfulsins mjög alvarlega. Hann er “persónuleg andleg vera” sem “stýrir mörgum illum öndum(b.126). Hann stendur “beint eða óbeint” að baki “illum löngunum okkar og freistingum heimsins(b.125). Á meðal klækibragða djöfulsins eru bækur, myndbönd og tímarit sem tengjast kukli. Gumbel hvetur fólk til að eyðileggja það allt (b.127). Djöfullinn reynir líka að „aftra því að við tökum trú á Jesú Krist(b.128).

Að mati Gumbels er djöfullinn auðvitað mjög virkur hjá ókristnu fólki. Við erum víst á “valdi myrkursins” og “Satan [stjórnar]” þeim (b.131). Þegar fólk kemur með heimspekileg andmæli gegn kristinni trú, þá er það stundum eintómur fyrirsláttur, fólkið vill ekki gerast kristið af “ótta við þær breytingar á lífsstílnum sem hin kristna trú kann að hafa í för með sér"(b.143), með öðrum orðum, því finnst allt of gaman að syndga.

Eflaust er þetta ástæðan fyrir því “að kristið fólk á aðeins að eiga kristna manneskju (2 Kor 6.14)(b.82). Svo er “kynlíf utan hjónabands rangt(b.59) af því að biblían segir það, og hjónaband er auðvitað bara á milli karli og konu (b.178), og því er samkynhneigð auðvitað synd.

Lækningar og tungutal

Í Spurningum lífsins, er mikil áhersla lögð á að “heilagur andi” sé enn að störfum í dag. Einn kafli bókarinnar kallast “Læknar Guð nú á dögum?”, og þeirri spurningu er auðvitað svarað játandi.

Annar kafli kallast “Hvernig fyllist ég andanum?” og þar er sagt frá því að þegar “heilagur andi” fer inn í kristið fólk, þá fer það að tala tungum. Gumbel segir til dæmis frá því að eitt sinn hafi ensk stúlka í söfnuðinum hans verið að biðja fyrir rússneskumælandi stúlku þegar sú enska “fór að tala tungum”. Rússneskumælandi stúlkan upplýsti að tungutalið hafi í raun og veru verið rússneska og þýddi: “Kæra barnið mitt.(b.17). Svo koma ítarlegar leiðbeiningar um hvernig á að tala tungum [1]

Sölutrikk kristinna bókstafstrúarmanna

"Spurningar lífsins" reynir að sannfæra fólk meðal annars um óskeikulleika biblíunnar, tilvist djöfulsins, kraftaverkalækningar og tungutal. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé í daglegu tali kallað "bókstafstrú". Þetta námskeið, sem er auglýst sem fræðslunámskeið fyrir alla, er því í raun og veru bókstafstrúboð. En það er ekki auglýst sem slíkt því auðvitað myndu færri mæta á það.

Það kom mér ekki á óvart að Alfa-námskeiðið skuli hafa verið notað í trúfélögum á borð við Krossinn og Hvítasunnukirkjuna. Ég bjóst samt ekki við því að ríkiskirkjan myndi nota þetta. Talsmenn hennar segja nefnilega ótt og títt að trú hennar sé svo gasalega nútímaleg og upplýst og því er einnig haldið fram að ríkiskirkjan sé einhverskonar mótvægi við bókstafstrú. Ekkert af þessu getur staðist svo lengi sem hún notast við Alfa námskeiðið.


[1] Ef lesendur langar til þess að tala erlent tungumál án þess að þurfa að læra það þá eru þetta leiðbeiningarnar :

  1. Biddu Guð að fyrirgefa þér allt sem hindrað gæti bænasvar.
  2. Segðu skilið við það sem þú veist að er rangt.
  3. Biddu Guð að fylla þig anda sínum. Leitaðu til hans þangað til þú finnur hann. Haltu áfram að knýja á þar til dyrnar opnast. Leitaðu Guðs af öllu hjarta.
  4. Ef þig langar til þess að öðlast gjöf tungutalsins biddu þá um hana. Opnaðu síðan munninn og byrjaðu að lofa Guð á einhverju öðru máli en því sem þú kannt.
  5. Trúðu því að það sem þér hefur hlotnast sé frá Guði komið. Láttu engan telja þér trú um að það sé hugarburður þinn (enda er það afar ósennilegt).
  6. Láttu ekki deigan síga. Það tekur alltaf tíma að læra nýtt tungumál. Orðaforðinn er yfirleitt takmarkaður til að byrja með en eykst smátt og smátt. Eins er því farið með tungutalið, það tekur tíma að þroska það. Ekki gefast upp.
  7. Hafir þú beðið um aðra gjöf skaltu leita færis á að nýta hana.“ (bls 123).

CC mynd fengin frá absentbabinski@flickr.com

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.09.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 19/09/12 15:28 #

Ekki má gleyma svarinu sem sópar burtu öllum mótrökum: "Trúðu ekki á speki manna."


Kári Emil - 02/10/12 19:23 #

Dásamleg úttekt.


Jón Ferdínand Estherarson - 04/10/12 11:59 #

Ertu ekki að grínast? Þetta er nú meira helvítis ruglið. Það vill svo skemmtilega til að systir mín er mjög virk í ungmennastarfi ríkiskirkjunnar, KFUMK, og fór hún einmitt á svona Alfa-námskeið á dögunum. Ekki vissi ég nú hvað fór fram á þessu námskeiði þar til ég las þessa grein, enda harla ólíklegt að systir mín myndi deila því með mér, andsetta trúleysingjanum. Hún var eflaust bara hrædd um að ég myndi koma með einhvers konar djöfulleg ''heimspekileg andmæli'' Þetta er eitt mesta facepalm moment sem ég hef fengið í nokkrar vikur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.