Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Reis Jesús virkilega frá dauðum?

Eftir Dan Barker

Þessi grein birtist fyrst í Abuse Your Illusions: The Disinformation Guide To Media Mirages and Establishment Lies, ritstýrt af Russ Kick, 2003.

Í þau 19 ár sem ég predikaði fagnaðarerindið, þá var upprisa Jesú lykilatriðið í boðun minni[1]. Á hverjum páskum staðfesti ég aðvörun Páls postula: „En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt,...“[2]. Í vinsælum páskasöngleik sem ég samdi, „Ullin hans var hvít sem snjór“, er gleðileg yfirlýsing í lokaþættinum: „Syngið hósanna! Kristur er upprisinn! Sonurinn [e. the son, hljómar eins og the sun] er risinn til að skína á mig!“[3].

En ég trúi því ekki lengur. Margir biblíufræðingar og prestar – þar á meðal þriðjungur presta ensku biskupakirkjunnar[5] – hafna því að Jesús hafi risið líkamlega frá dauðum, svo og 30% endurfæddra kristinna Bandaríkjamanna! [6]

Hvers vegna? Þegar Jóhannesarguðspjall dregur upp mynd af endurlífguðum Jesú í veiðiferð með félögum sínum og höfundur Matteusarguðspjalls sýnir hann upp á fjalli að hvetja liðsmenn sína tveimur dögum eftir að hann dó, hvernig getur verið nokkur vafi á því að upphaflegu trúmennirnir voru sannfærðir um að hann hafi risið líkamlega úr gröfinni?

Það hafa verið gefnar margar ástæður fyrir því að efast um þessa staðhæfingu, en samhljóma álit gagnrýninna fræðimanna nú til dags virðist vera að sagan sé „goðsögn“. Hin upprunalega saga sem byrjaði á því að Jesús, alveg eins og amma, „dó og fór til himna“ óx á þeim 60-70 árum sem liðu þar til guðspjöllin voru samin og endaði á ævintýralegri frásögn trúmanna síðari kynslóða sem innihélt jarðskjálfta, engla, sólmyrkva, lík sem lifnaði við og stórfenglega uppstigningu til himna.

Fyrstu kristnu trúmennirnir trúðu á „andlega“ upprisu Jesú. Sagan þróaðist með tímanum í „líkamlega“ upprisu.

Áður en við ræðum um smáatriði goðsagnarinnar, þá skulum við kíkja stuttlega á nokkrar ástæður fyrir því að efast um söguna.

Getur sagnfræðin sannað kraftaverk?

Í kappræðum árið 1985 um upprisuna[7] benti heimspekingurinn Antony Flew á að sagnfræðin sé rangt verkfæri til þess að sanna kraftaverkafrásögur. Flew sagði: „Kjarni málsins er sá að mælikvarðinn sem við notum til þess að meta sögulega vitnisburði, og hin almenna forsenda sem gerir okkur það kleift að túlka leifar fortíðarinnar sem sagnfræðileg gögn, eru þess eðlis að möguleikinn til þess að staðfesta, á einungis sagnfræðilegum grundvelli, að raunverulegt kraftaverk hafi átt sér stað er útilokaður.“

Þegar sagnfræðingar skoða hluti frá fortíðinni þá gera þeir ráð fyrir því að heimurinn hafi verið eins þá og nú, ef ekki, þá er allt leyfilegt. Bandaríski ættjarðarvinurinn Thomas Paine spurði í The Age of Reason: „Hvort er líklegra, að náttúran hætti að ganga sinn gang eða að maður ljúgi? Við höfum aldrei séð, ekki á okkar tímum, séð náttúruna hætta að ganga sinn gang, en við höfum góðar ástæður fyrir að trúa því að logið hafi verið milljón sinnum á sama tíma, þar af leiðandi er, að minnsta kosti milljón á móti einum, að sá sem segir frá kraftaverki sé að ljúga.“

Það er staðreynd í sagnfræði og í nútímanum að manneskjur ýkja, mistúlka atburði eða þær misminnir. Þær hafa líka skáldað upp sögur í þágu trúarinnar. Flestir trúmenn skilja þetta þegar þeir skoða staðhæfingar annarra trúarbragða.

Að messíönsk persóna lifni við, birtist úr engu og hverfi síðan aftur, er ótrúleg saga á hvaða mælikvarða sem við miðum við og það er einmitt það sem gerir hana að kraftaverkasögu. Ef látið fólk á okkar tímum væri reglulega að krafsa sig úr gröfum sínum og sneri aftur til starfa sinna, þá hefði upprisa lítið vægi til að sanna mátt guðs. Sú staðreynd að hún er óhugsandi eða afar ólíkleg er það sem gerir hana að kraftaverki.

Og það er það sem færir hana úr greipum sagnfræðinnar.

Sagnfræðin er takmörkuð: hún getur aðeins staðfest atburði sem samræmast reglufestu náttúrunnar. Þetta er ekki and-yfirnáttúruleg hlutdrægni gegn kraftaverkum, eins og trúmenn fullyrða stundum. Kraftaverkin gætu hafa átt sér stað, en til þess að vita að þau hafi átt sér stað, verðum við að nota annað þekkingarverkfæri. En fyrir utan trú (sem er ekki fræðigrein) þá er sagnfræði eina verkfærið sem kristnir menn hafa til þess að færa rök fyrir upprisu Jesú.

Að rannsaka kraftaverk með sagnfræðinni er eins og að leita að plánetu með smásjá.

David Hume skrifaði: „Enginn vitnisburður er nægilegur til þess að staðfesta kraftaverk nema vitnisburðurinn sé þeirrar gerðar að það væri meira kraftaverk að hann væri ósannur heldur en sú staðreynd sem hann leitast við að staðfesta.“[8] Carl Sagan átti það til að segja: “Stórfenglegar staðhæfingar þarfnast stórfenglegra sannanna.“ Við höfum einmitt ekki þannig sannanir þegar kemur að upprisu Jesú.

Þetta ætti í besta (eða versta) falli ekki að sannfæra okkur um að upprisan sé afsönnuð, heldur að vantrú á hana sé vitsmunalega réttlætt. Ósamræmi kraftaverka og hinnar sagnfræðilegu aðferðar er sannfærandi, sérstaklega fyrir þá sem eru ekki fyrirfram skuldbundnir af sannleiksgildi trúarrits, en við þurfum enn eitthvað meira en þetta ef við ætlum að segja með vissu að líkamlega upprisan hafi ekki átt sér stað.

Var Jesús til?

Nokkrir fræðimenn[9], kallaðir „goðsögusinnar“ (e. mythicists) halda því fram að það séu alls engin sannfærandi rök til fyrir tilvist hins sögulega Jesú. Ef öll sagan er ekkert nema goðsögn þá hefur hann varla risið upp frá dauðum.

Tilvist Jesú er ekki staðfest. Ekki eitt einasta orð um Jesú birtist utan Nýja testamentisins alla fyrstu öldina, þrátt fyrir að margir höfundar lýstu Rómaveldi frá fyrstu hendi með mikilli nákvæmni, meðal annars með vönduðum frásögnum frá sama svæði og á sama tíma þar sem Jesús átti að hafa kennt[10]. Bæði frjálslyndir og íhaldssamir fræðimenn telja litlu efnisgreinina um Jesú sem birtist í Antiquitates eftir Jósefus (ritað eftir 90 e.o.t.) annaðhvort vera hreina viðbót eða mikið breytta af seinni tíma kynslóðum trúmanna, líklega af hinum óheiðarlega kristna sagnfræðingi Evsebíosi á fjórðu öld[11]. (Hvort sem telst vera rétt í þessu, þá eru báðir hópar sammála um að fyrstu kristnu mennirnir breyttu handritum, staðreynd sem verður að hafa í huga varðandi áreiðanleika rita Nýja testamentisins.)

Þær örfáu heimildir frá annarri öld sem minnast á „Krist“ eru skrifaðar svo seint að þær eru lítils virði[12]. Þær eru stuttar frásagnir frá annarri eða þriðju hendi um það sem sumt fólk trúði á þeim tíma að hefði gerst í fjarlægri fortíð og enginn þeirra minnist á nafnið „Jesús“. Þær eru sögusagnir, ekki sagnfræði.

Þögn Páls er einnig vandamál. Páll skrifaði bréfin sín mörgum árum áður en guðspjöllin voru samin, og það virðist sem hann hafi ekki vitað af neinu af því sem þau segja um Jesús, fyrir utan eitthvað orðalag frá síðustu kvöldmáltíðinni. Páll hitti aldrei Jesú og vitnaði aldrei til Jesú eins og hann birtist í guðspjöllunum, jafnvel þegar að það hefði hentað honum vel. Stundum var hann ósammála Jesú[13]. Hann minntist aldrei á neitt sem Jesús gerði né nein kraftaverka hans. Ef Jesús hafði verið raunveruleg persóna þá hefði Páll, hans helsta málpípa, rætt um hann sem mann. „Kristur“ í bréfum Páls er að mestu yfirnáttúruleg vera, ekki söguleg persóna af holdi og blóði.[14]

Goðsögusinnar vekja athygli á því að það eru margar hliðstæður úr öðrum trúarbrögðum við upprisusöguna. Gríski guðinn Díónýsus var sagður vera „sonur Seifs“. Hann var drepinn, grafinn og reis upp frá dauðum og situr nú við hægri hönd föðursins. Tóm gröf hans í Delfí var lengi vel viðhaldið og höfð í hávegum hjá trúuðum. Það var sagt að hinn egypski Ósíris, tveim árþúsundum fyrr, hafi verið veginn af Tyfón, hafi risið aftur, og hafi orðið drottnari hinna dauðu. Adónis og Attis þjáðust einnig, dóu og risu upp aftur.

Persneski guðinn Míþras, dýrkaður af mörgum Rómverjum, var sagður hafa verið fæddur af hreinni mey í heilagri fæðingu – Steinhellinum þann 25. desember, með hirðingjum og vitringum sem færa gjafir. Hann reisti fólk frá dauðum, læknaði sjúka, gaf blindum sýn, læknaði þá lömuðu og rak út djöfla. Míþras hélt hátíðlega síðustu kvöldmáltíð með lærisveinunum sínum tólf áður en hann dó. Ímynd hans var grafin í steingröf, en hann sneri aftur og var sagður lifa aftur. Það var haldið upp á sigur hans og uppstigningu til himna á vorjafndægri (páskum).[15]

Allir merkilegir menn á þessum dögum voru fæddur af hreinni mey og stigu upp til himna. Rómverski sagnaritarinn Svetóníus sem uppi var á annarri öld, minntist stuttlega á „Krestus“ í Róm og það er stundum notað sem rök fyrir tilvist sögulegs Jesú (þrátt fyrir að fáir trúi því að Jesús hafi komið til Rómar og „Krestus“ er ekki „Jesús“), sagði einnig frá því að Ágústus keisari hafi risið í holdinu upp til himna eftir andlát sitt.[16]

Kristni virðist vera búin til úr sama efniviði og heiðnar goðsögur, og sumir frumkristinna viðurkenndu það. Jústínus píslarvottur segir í rökræðum sínum við heiðingja um 150 e.o.t. „Þegar við höldum því fram að Orðið, sem er frumburður Guðs, var getið án kynmaka, og að hann, Jesús Kristur, kennari okkar, hafi verið krossfestur og dáið, og risið upp aftur, og stigið upp til himna; þá leggjum við ekki fram neitt annað heldur en það sem þið trúið varðandi þá sem þið álítið syni Júpíters.“[17]

Ef frumkristnir, sem voru nær atburðunum heldur en við, sögðu að sagan af Jesú sé í engu frábrugðin heiðnum sögum, getur maður þá gagnrýnt efasemdarmann á okkar dögum fyrir að gruna hið sama?

Gagnrýnendur eru ekki sammála um hve mikla þýðingu heiðnar hliðstæður Jesú hafa, og fjöldi harðra goðsagnasinna er örsmár minnihlutahópur meðal fræðimanna, en það skiptir ekki miklu máli. Þó svo að Jesús hafi verið til, þá þýðir það ekki að hann hafi risið upp frá dauðum.

Jesús sögunnar er ekki Jesús Nýja testamentisins. Margir efasemdamenn trúa því að það gæti hafa verið til sjálfskipaður Messías sem hét Jeshúa (það voru margir aðrir [18]) sem þjóðsagnapersónan í Nýja testamentinu var seinna meir lauslega byggð á, en þeir álíta að hin ýkti kraftaverkamaður og upprisni Jesús sé skáldskapur síðari kynslóða trúmanna. Guðspjöllin, sem skrifuð eru mörgum áratugum eftir atburðina sem þau lýsa, eru blanda af staðreyndum og skáldskap – sögulegar skáldsögur – og þrátt fyrir að hlutföll blöndunnar sé mismunandi eftir því hvaða fræðimaður á í hlut, þá lítur enginn virtur sagnfræðingur á þau sem 100% rétt.

Náttúrulegar útskýringar

Sumir gagnrýnendur hafa boðið upp á náttúrulegar skýringar á sögum Nýja testamentisins af tómu gröfinni. Kannski dó Jesús ekki í rauninni á krossinum; það leið yfir hann, og hann vaknaði seinna – „yfirliðskenningin“[19]. Eða kannski sáu lærisveinarnir ofsjónir þegar þeir sáu upprisinn Jesú. (Þeir og „fimm hundruð aðrir“.) Eða kannski fór María til vitlausrar grafar, tómrar grafar, og tók „unga manninn“ í misgreipum fyrir engil. Eða ef til vill var líkama Jesú stolið – „samsæriskenningin“, hugdetta sem státað sér af því að vera studd af Biblíunni frá einu sjónarvottunum (rómversku hermönnunum) sem sögðu að nákvæmlega það hafi gerst[20]. Eða ef til vill var líkami Jesú einungis geymdur tímabundið í gröf Jósefusar frá Arímaþeu (hugsanlega ásamt þjófunum tveimur) og var seinna grafinn í almenningsgröf, dæmigerð örlög líflátinna glæpamanna.[21] Eða ef til vill var einhver annar, eins og Tómas, krossfestur í stað Jesú.[22]

Þessar tilgátur eru mislíklegar. Að mínu mati eru enginn af þeim sérstaklega líkleg, en þær eru að minnsta kosti jafn trúlegar og að lík lifni við, og þær passa við staðreyndirnar í Biblíunni.

Ef trúmaður spyr, „Hvers vegna hefurðu útilokað yfirnáttúru?“ Þá segi ég að ég hafi ekki útilokað hana: Ég hafi einfaldlega úthlutað henni þeim litlu líkum sem hún á skilið, ásamt öðrum möguleikum. Ég gæti á sama hátt spurt hann, „Hvers vegna hefur þú útilokað hið náttúrulega?“

Það sem ég hef við sumar náttúrulegu skýringarnar að athuga er að þær hafa of mikla trú á textanum. Þær krefjast nánast eins mikillar trúar og rétttrúnaðartúlkunin. Sagnfræðilegu mótrökin, rök goðsagnasinna (að ofan) og tilvist nokkurra trúverðugra náttúrulegra valkosta geta sameiginlega eflt sjálftraust efasemdarmannsins, en þau geta ekki afsannað algjörlega líkamlega upprisu Jesú.

Innbyrðis mótsagnir

Upprisa Jesú er ein af þeim fáu sögum sem er sagt frá hvað eftir annað í biblíunni – meira en fimm sinnum – þannig að hún er frábær sem prófraun á hina hefðbundnu fullyrðingu um óskeikulleika og áreiðanleika ritninganna. Þegar við berum frásögurnar saman, þá sjáum við að þeim ber ekki saman.

Hvenær komu konurnar að gröfinni?

  • Matteus: „þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar“ (28:1)
  • Markús: „mjög árla... um sólarupprás“ (16:2)
  • Lúkas: „í afturelding“ (24:1)
  • Jóhannes: „enn var myrkur“ (20:1)

Hvaða konur voru þetta?

  • Matteus: María Magdalena og María hin. (28:1)
  • Markús: María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme. (16:1)
  • Lúkas: María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og fleiri konur. (24:10)
  • Jóhannes: María Magdalena. (20:1)

Hvers vegna fóru þær til grafarinnar?

  • Matteus: Til að líta á gröfina. (28:1)
  • Markús: Þær höfðu þegar séð gröfina (15:47), komu með ilmsmyrsl. (16:1)
  • Lúkas: Þær höfðu þegar séð gröfina (23:55), komu með ilmsmyrsl. (24:1)
  • Jóhannes: Það var þegar búið að smyrja líkamann með ilmsmyrslum. (19:39,40)

Var gröfin opin þegar þær komu?

  • Matteus: Nei. (28:2)
  • Markús: Já. (16:4)
  • Lúkas: Já. (24:2)
  • Jóhannes: Já. (20:1)

Hver var við gröfina þegar þær komu?

  • Matteus: Engill. (28:2-7)
  • Markús: Ungur maður. (16:5)
  • Lúkas: Tveir menn. (24:4)
  • Jóhannes: Tveir englar. (20:12)

Hvar voru þessir sendiboðar staðsettir?

  • Matteus: Engillinn sat á steininum. (28:2)
  • Markús: Ungi maðurinn sat inni, hægra megin. (16:5)
  • Lúkas: Mennirnir tveir stóðu inni. (24:4)
  • Jóhannes: Englarnir tveir stóðu við hvorn enda legstaðar Jesú. (20:12)

Hvað sagði sendiboðinn?/ Hvað sögðu sendiboðarnir?

  • Matteus: „Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: „Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.“ Þetta hef ég sagt yður.“ (28:5-7)
  • Markús: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: „Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður.“ (16:6-7)
  • Lúkas: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi.“ (24:5-7)
  • Jóhannes: „Kona, hví grætur þú?“ (20:13)

Sögðu konurnar frá því sem gerðist?

  • Matteus: Já (28:8)
  • Markús: Nei. ,„Þær sögðu engum frá neinu...“ (16:8)
  • Lúkas: Já. „Og þær sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.“ (24:9, 22-24)
  • Jóhannes: Já. (20:18)

Vissi María að Jesús hefði risið upp þegar hún kom frá gröfinni?

  • Matteus: Já. (28:7-8)
  • Markús: Já. (16:10,11[23])
  • Lúkas: Já. (24:6-9,23)
  • Jóhannes: Nei. (20:2)

Hvenær sá María Jesús fyrst?

  • Matteus: Áður en hún fór til lærisveinanna. (28:9)
  • Markús: Áður en hún fór til lærisveinanna. (16,9,10 [23])
  • Jóhannes: Eftir að hún fór til lærisveinanna. (20:2,14)

Var hægt að snerta Jesú eftir upprisuna?

  • Matteus: Já. (28:9)
  • Jóhannes: Nei. (20:17), Já. (20:27)

Eftir að hafa birst konunum, hverjum birtist Jesús næst?

  • Matteus: Ellefu lærisveinum. (28:16)
  • Markús: Tveimur lærisveinum í sveitinni, seinna ellefu lærisveinum. (16:12,14[23])
  • Lúkas: Tveimur lærisveinum í Emmaus, seinna ellefu lærisveinum. (24:13,36)
  • Jóhannes: Tíu lærisveinum (Júdas og Tómas voru fjarverandi). (20:19,24)
  • Páll: Fyrst Kefasi (Pétri), síðan til hinna tólf (Tólf? Júdas var dauður). (Fyrra bréf Páls til Korinthumanna 15:5)

Hvar birtist Jesús lærisveinunum fyrst?

  • Matteus: Á fjalli í Galíleu (í 100-160 km fjarlægð). (28:16-17)
  • Markús: Tveimur á göngu í sveitinni, síðar ellefu „þegar þeir sátu til borðs“. (16:12,14[23])
  • Lúkas: Í Emmaus (í um 10 km fjarlægð) að kvöldi til, til hinna í herbergi í Jerúsalem seinna það kvöld. (24:31,36)
  • Jóhannes: Í herbergi, að kvöldi til. (20:19)

Trúðu lærisveinarnir mönnunum tveimur?

  • Markús: Nei. (16:13 [23])
  • Lúkas: Já (24:34 – það er hópurinn sem talar hér, [ekki bara þeir tveir]).

Hvað gerðist þegar Jesús birtist þeim fyrst?

  • Matteus: Sumir lærisveinar veita lotningu, aðrir efast, „Farið og predikið“ (28:17-20)
  • Markús: Jesús ávítar þá, „Farið og predikið“ (16:14-19[23])
  • Lúkas: Kristur dylst þeim, hverfur, birtist aftur út úr engu, ávítar þá, kvöldverður snæddur (24:13-51)
  • Jóhannes: Gengur í gengum dyr, lærisveinarnir eru glaðir, Jesús blessar þá, engar ávítur. (20:19-23)

Var Jesús á jörðinni í meira en einn dag?

  • Markús: Nei. (16:19 [23]) Berið saman 16:14 við Jh. 20:19 til þess að sjá að þetta gerðist allt á sunnudegi)
  • Lúkas: Nei. (24:50-52), þetta gerðist allt á sunnudegi.
  • Jóhannes: Já, að minnsta kosti átta daga. (20:26, 21:1-22)
  • Postulasagan: Já, að minnsta kosti fjörutíu daga. (1:3)

Hvar steig Jesús upp til himna?

  • Matteus: Engin uppstigning. [Bókin endar uppá fjalli í Galíleu].
  • Markús: Í eða nálægt Jerúsalem, eftir kvöldmatinn. (16:19[23])
  • Lúkas: Í Betaníu, mjög nálægt Jerúsalem, eftir kvöldmatinn. (24:50-51)
  • Jóhannes: Engin uppstigning.
  • Páll: Engin uppstigning.
  • Postulasagan: Steig upp frá Ólífufjalli. (1:9-12)

Það eru ekki einungis trúlausir gagnrýnendur sem taka eftir þessum vandamálum. Kristnir fræðimenn eru sammála um að þessar frásagnir stangast á. Culver H. Nelson: „Í sérhverri lesningu af þessu tagi, þá ætti það að verða dagljóst að þessar frásagnir eru oft í herfilegri mótsögn. Engu skiptir hversu ákaft maður reynir, þá er einfaldlega ómögulegt að samrýma frásagnirnar um hvað Jesús gerði eftir dauða sinn.“[24] A. E. Harvey: „Öll guðspjöllin, eftir að hafa verið nokkuð samstíga í frásögninni um réttarhöldin og aftökuna, greinir mikið á þegar kemur að kringumstæðum varðandi upprisuna. Það er ekki mögulegt að setja saman frásagnir þeirra þannig að úr verði ein samrýmd mynd.“[25] Thomas Sheehan er á sama máli: „Þrátt fyrir okkar bestu viðleitni, þá eru frásagnir guðspjallanna af því hvað Jesú gerði eftir dauða sinn í raun og veru ekki samrýmanlegar í eina samræmda páskasögu.“[26] Fræðimenn við Westar Institute sem starfa óháð trúarbrögðum (eru þó fyrst og fremst kristnir) og þar á meðal eru 70 biblíufræðingar með doktorsgráðu eða sambærilega menntun hafa komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Þau fimm guðspjöll sem lýsa birtingu Jesú (Matteus, Lúkas, Jóhannes, Pétur, Guðspjall Hebreanna) fara í sitt hvora áttina þegar þau eru ekki að endurskrifa Markús; frásagnir þeirra eru ekki samrýmanlegar. Traustar sagnfræðilegar sannanir liggja ekki fyrir hendi.“[27]

Ég hef skorað á trúmenn að koma með einfalda frásögn í tímaröð af atburðunum á milli páskadags og uppstigningarinnar, án mótsagna og án þess að sleppa einu einasta atriði úr biblíunni.[28] Hingað til hefur enginn komið með samstíga frásögn án þess að mistúlka orð eða breyta uppröðun kafla að miklu leyti. Sumir hafa boðið upp á „samræmingar“ (og velta því greinilega ekki fyrir sér hvers vegna það ætti að þurfa að samræma verk fullkomins guðs), en engar þeirra hafa uppfyllt þá sanngjörnu beiðni um að segja einfaldlega söguna.

Goðsögn

Kristni trúvarnarmaðurinn Josh McDowell hvetur okkur til þess að velta því fyrir okkur hver Jesús var og býður upp á þrjá möguleika „Lygari, geðsjúklingur eða drottinn.“[29] En þetta lítur algjörlega framhjá fjórða valmöguleikanum: goðsögn. Ef persónan Jesús er að einhverju leyti, ef ekki algjörlega, skáldskapur, þá voru það aðrir sem lögðu honum orð í munn og það er afar einfeldningslegt að taka þeim trúanlega.

Goðsögn byrjar með einfaldri sögu (sönn eða ósönn) sem stækkar og verður skrautlegri og ýktari með árunum. Þegar við skoðum heimildirnar um upprisu Jesú, þá tökum við eftir því að fyrstu frásagnirnar eru mjög einfaldar, síðari endursagnir eru flóknari og þær síðustu ævintýralegar. Með öðrum orðum, þær eru alveg eins og goðsögn.

Heimildirnar sem innihalda upprisufrásögnina[30] eru vanalega tímasettar svona:

HöfundurÁrtalKaflinn um upprisuna
Páll:50-55(1Kor 15:3-8)
Markúsarguðspjall:70(Mk 16)
Matteusarguðspjall:80(Mt 28)
Lúkasarguðspjall: 85(Lk 24)
Pétursguðspjall:85-90(brot)
Jóhannesarguðspjall:85-90 (Jh 20-21)

Þetta er almenna tímasetningin sem flestir fræðimenn eru sammála um, þar á meðal Westar stofnunin. Sumir íhaldssamir fræðimenn kjósa fremur að tímasetja þær fyrr, og aðrir hafa fært sumar þeirra seinna, en þetta myndi ekki breyta röð ritanna[31], sem er mikilvægara en raunveruleg tímasetning við athugun á vöxt goðsagna. Að færa tímasetningar til breytir lögun vaxtarkúrfunnar en ekki þeirri staðreynd að það er vaxtarkúrfa.

Ég bjó til lista yfir það sem ég tel vera „óvenjulegt“ (náttúrulegt og yfirnáttúrulegt) í sögunum frá krossfestingunni til uppstigningu Jesú: jarðskjálftar, engill (englar), veltandi steinn, lík skríðandi úr gröfum í Jerúsalem („Hrekkjavaka“[32]), Jesús birtist úr lausu lofti og hverfur, „fiskisögu“ kraftaverkið[33], frásögn Péturs af stórfenglegri útgöngu úr gröfinni sem stangast á við hin guðspjöllin (sjá neðar), risavaxinn Jesú með höfuðið í skýjunum, talandi kross og líkamleg upprisa til himna. Kannski ættu aðrir eftir að velja aðeins öðruvísi lista en ég er viss um að hann ætti eftir að vera nokkurn veginn eins.

Síðan taldi ég fjölda óvenjulegra atburða í hverri frásögn:

HöfundurÓvenjulegir atburðir
Páll:0
Markús:1
Matteus:4
Lúkas:5
Pétur:6
Jóhannes:8+

Ef við setjum þetta á tímalínu þá fáum við mynd 1. [34]


barker.jpg


Takið eftir því að kúrfan hækkar eftir því sem að árin líða. Síðari upprisufrásagnir innihalda fleiri undraverða atburði en þær eldri, svo að það er ljóst að sagan, að minnsta kosti í frásögninni, hefur þróast og stækkað í tímans rás.

Við getum einnig á nákvæmari hátt, talið fjölda sendiboðanna við gröfina en þeim fjölgar einnig með tímanum. Einnig verður sú fullyrðing ákveðnari að þeir séu englar:

Páll:0 englar
Markús:1 ungur maður, sitjandi
Matteus:1 engill, sitjandi
Lúkas:2 menn, standandi
Pétur:2 menn/englar, labbandi
Jóhannes:2 englar, sitjandi

Önnur atriði koma heim og saman við þetta mynstur. Líkamleg birting kemur ekki fram í fyrstu tveimur frásögnunum en er í þeim fjórum síðustu, kemur fyrst fram árið 80. Líkamleg upprisa er ekki til staðar í fyrstu þremur sögunum en er þó í hinum þremur síðari, fyrst árið 85.

Þetta leiðir í ljós ummerki goðsagnar.

Margir kristnir menn á okkar dögum gera þau mistök að líta á árið 30 e.o.t. með augum áranna 80-100 e.o.t., meira en hálfri öld síðar. Þeir reyna að troða hinum ótrúlegu sögum síðari guðspjallanna ranglega inn á einfaldari sjónarmið fyrstu kristnu mannanna, og láta líta svo út fyrir á einfeldningslegan hátt að allir þeir sem voru kristnir hafi trúað á nákvæmlega sömu hlutina yfir alla fyrstu öldina.

Frásögn Páls (árið 55)

Hvernig er hægt að segja að Páll hafi ekki talað um stórfenglega atburði? Segir hann í frásögn sinni ekki frá tómri gröf og að látinn maður hafi birst þeim? Eftirfarandi er frásögn Páls í Fyrra Korintubréfi 15:3-8, skrifuð í kringum árið 55 og er því elsta ritaða heimildin um upprisuna.

„Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið,
að Kristur dó vegna vorra synda
samkvæmt ritningunum,
að hann var grafinn [etaphe],
að hann reis upp [egeiro] á þriðja degi
samkvæmt ritningunum
og að hann birtist [ophthe] Kefasi [Pétri],
síðan þeim tólf.
Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu,
sem flestir eru á lífi allt til þessa,
en nokkrir eru sofnaðir.
Síðan birtist hann Jakobi,
því næst postulunum öllum.
En síðast allra birtist hann einnig mér,
eins og ótímaburði.“

Þetta er ákveðið stef eða sálmur í ljóðrænum stíl sem Páll segist hafa „meðtekið“ frá trúbróður í gegnum eldri munnlega hefð. Augljóslega þá bætti hann við síðustu orðunum. Ef þessar línur eru lesnar með jákvæðu hugarfari þá er það mögulegt að þær hafi orðið til einungis nokkrum árum eftir andlát Jesú, en það er eftirtektarvert að Páll kallar hann ekki „Jesús“ hér. Það er einnig áhugavert að ein þeirra röksemda sem trúvarnarmenn nota fyrir sannleiksgildi Nýja testamentisins er sú að það er skrifað í einföldum frásagnarstíl, ólíkt þeim ljóðræna stíl sem aðrar goðsagnir og þjóðsögur eru skrifaðar í. Samt sem áður er fyrsta lýsingin af upprisunni skrifuð í ljóðrænum „þjóðsagna“ stíl.

Korintubréfið er skrifað að minnsta kosti aldarfjórðungi eftir að upprisan átti að hafa átt sér stað, til fólks í fjarlægu landi, en landleiðin til Korintu er um 2400 kílómetrar frá sögusviði Nýja testamentisins. Enginn af lesendunum, sem voru flestir ekki fæddir þegar Jesús átti að hafa látist, gátu haft nokkur tök á því að staðfesta frásögnina. Þeir urðu að taka orð Páls trúanleg fyrir því að „fimm hundruð bræður“ höfðu séð Jesús á lífi. Hverjir voru þessir fimm hundruð nafnlausu menn og afhverju skrifuðu þeir ekki niður sögu sína eða einhver af þeim þúsundum sem heyrðu frásagnir þeirra? Er talan fimm hundruð ekki líka grunsamlega þægileg tala? Hvers vegna birtist Jesús ekki neinum sem var ekki meðlimur í hópi þeirra trúuðu? Hvað sem þessu líður þá lýsir það sem Páll skrifaði hér ekki líkamlegri upprisu. Það lýsir goðsögn.

Til að byrja með þá skulum við taka eftir því hversu einföld fyrsta frásögnin af upprisunni er. Engir englar sem sendiboðar, engar syrgjandi konur, engir jarðskjálftar, engin kraftaverk og enginn er numinn upp til himins á stórfenglegan hátt.

Það er ekki heldur minnst á „tóma gröf“. Orðið fyrir „grafinn“ er hið margræða etaphe, sem þýðir einfaldlega „settur í gröf (taphos)“. Jafnvel þó að taphos gæti bæði verið venjuleg moldargröf (sem er líklegasti greftrunarstaður glæpamanna sem hafa verið teknir af lífi) eða steingröf höggin í klett (líkt og sú sem Jósef frá Arímaþeu átti), þá er mikilvægt að taka eftir því að í þessari frásögn er ekki notað orðið „steingröf“ (mnemeion) sem kemur fyrst fyrir í frásögn Markúsar.

Fyrst að Páll minnist ekki á gröf, þá er varla hægt að álykta með nokkurri vissu að hann hafi haft „opna gröf“ í huga. Þeir sem halda að hann hafi talað um gröf eru að þvinga Markúsarguðspjalli til að passa við þennan einfalda sálm.

Það er ekki heldur minnst á „upprisu“ í þessari frásögn. Talað er um að „rísa upp“, egeiro sem þýðir að „vakna“ eða „ranka við sérl“. Páll notar heldur ekki orðið upprisa (anastasis, anistemi), þó að hann hafi vafalaust þekkt það. Egeiro kemur oft fyrir í Nýja testamentinu þar sem það er notað á einfaldri máta. „Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa [egeiro] af svefni“[35] er hér ekki notað um liðin lík. „Því segir svo: Vakna [egeiro] þú, sem sefur, og rís upp [anistemi] frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.“[36] var einnig hér notað um fólk sem dregur andann, svo að Páll á augljóslega við eitthvað óeiginlegt, einnig þar sem hann notar „rísið upp“ í samhengi við egeiro (áður en hægt er að rísa upp þá þarf fyrst að vakna). Matteus notar egeiro á eftirfarandi hátt: „Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja [egeiro] hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst.“[37] Engum dettur í hug að Jesús hafi „risið upp“ úr báti.

Hverju sem Páll gæti hafa trúað um örlög Jesú þá segir hann aldrei að endurlífgaður líkami hans hafi gengið úr gröf sinni. Það er í fullkomnu samræmi við kristna guðfræði að halda að sál Jesú, ekki líkami hans, hafi risið úr gröfinni, líkt og kristnir menn í dag trúa því að sálin hans afa hafi farið upp til himna meðan að líkaminn rotnar í gröf sinni.

Reyndar staðfestir Páll þetta nokkrum versum síðar: „En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki“[38]. Holdlegi líkaminn er ekki mikilvægur í kristinni guðfræði.

En hvað um birtingarnar eftir dauða Jesú sem Páll vísar til? Benda þær ekki til upprisins líkama? Í rauninni þá er orðið „birtist“ í þessum ritningarversum einnig margrætt og þarf ekki að tákna eiginlega viðurvist. Orðið ophthe, sem er myndað af sögninni horao, er notað bæði um það sem hefur sést í raun og veru, sem og andlegar sýnir.

Tökum dæmi: „Um nóttina birtist Páli sýn [ophthe]: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum...En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn [horama], leituðum vér færis að komast til Makedóníu...“[39]. Enginn heldur því fram að Makedóníumaðurinn hafi í raun og veru staðið fyrir framan Pál þegar hann „birtist“ honum.

Páll nefnir Pétur í upptalningu sinni yfir þá sem Kristur birtist, samt sem áður í lýsingu Matteusar af ummynduninni þá er sama orðið notað yfir „birtingu“ og um upplifun Péturs sem var ekki líkamleg: „Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust [ophthe] þeim, og voru þeir á tali við hann.“[40] Birtust Móse og Elía Pétri í eiginlegri merkingu? Ættum við að leita að tómum gröfum þeirra? Hér er á ferðinni greinilega einhvers konar andleg birting.

Þess fyrir utan, ef við trúum því sem Markús og Matteus segja, þá var fyrsta vitni Páls að upprisunni þekktur lygari. Fyrir dómstólum hefði trúverðugleiki Péturs beðið mikinn hnekki þar sem að örfáum dögum áður laug hann ítrekað um hvort hann þekkti Jesú, eftir að hafa lofað Jesú því að hann myndi ekki afneita honum.[41] Sjálfur var Páll ekki hafinn yfir það að nota lygar ef það hjálpaði til við að koma málstað hans á framfæri: „Fjarri fer því. Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari...En verði sannleiki Guðs fyrir lygi mína skýrari honum til dýrðar, hvers vegna dæmist ég þá enn sem syndari?“[42]

Páll, sem þurfti að sannfæra lesendur sína um trúverðugleika sinn, bætir því á listann að Kristur „birtist... einnig mér„, svo ef við athugum lýsinguna af þeim atburði þá getum við séð hvað hann á við. Páll hélt því fram að hann hafði hitt Jesú á leiðinni til Damaskus, en það ber að hafa í huga að Jesús birtist Páli ekki líkamlega þar. Hann féll af hestbaki og blindaðist. (Ég veit að það er enginn hestur í sögunni, en einhverra hluta vegna þá sé ég hestinn fyrir mér, dæmi um hvernig goðsögn verður til!) Hvernig gat Jesú birst líkamlega blindum manni? Förunautar Páls sögðust ekki hafa séð neinn, þeir heyrðu einungis rödd (Post.9.7) eða þeir heyrðu ekki rödd (Post.22.9), þið getið valið. Þessi „birting“ Páls átti að hafa gerst einhverjum árum eftir að Jesús steig upp til himna, og þá vaknar eðlilega spurningin: hvar var Jesús öll þessi ár? Var líkami hans geymdur í skýjunum, svífandi yfir veginum til Damaskus? Hvernig borðaði hann eða baðaði sig eða klippti sig meðan á þessu stóð?

Augljóslega þá tókust Páll og Jesús aldrei í hendur, þó setur hann sína „birtingu“ á listann með hinum. Á öðrum ritningarstað útskýrir Páll nánar þessi kynni sín á þjóðveginum: „Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur...þegar Guði...þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann“[44]. Takið eftir því að hann segir ekki „Ég hitti Jesú“ eða „Ég sá Jesú“, hann segir að guð hafi „opinberað sér son sinn“. Þetta var andleg reynsla, hann hitti hann ekki augliti til auglitis. Margir kristnir menn í dag tala nákvæmlega á þennan sama hátt um „persónulegt samband“ sitt við Jesú.

Það verður að líta á allar „birtingarnar“ í 1. Korintubréfi 15.3-8 sem „andlegar upplifanir“ af sálrænum toga, ekki sem eiginleg samskipti við endurlífgað lík. Hjá Páli finnum við enga tóma gröf, enga upprisu holdsins og enga líkamlega birtingu.

Markús (árið 70)

Um það bil 15 árum seinna, birtist næsta frásögnin af upprisunni í Markúsarguðspjalli, fyrsta guðspjallinu, skrifað að minnsta kosti 40 árum eftir að atburðirnir áttu sér stað. Nánast allt fullorðið fólk sem var á lífi árið 30 var látið[45]. Enginn veit hver skrifaði Markúsarguðspjall – öll guðspjöllin eru nafnlaus og nöfnunum var formlega bætt við miklu seinna, kringum árið 180[46]. Hver sá sem skrifaði Markúsarguðspjall talar frá sagnfræðilegu sjónarmiði sem trúmaður af annarri kynslóð, ekki sem sjónarvottur.

Frásögn hans af upprisunni (16:1-8) er ekki nema átta vers. Næstu 16 vers sem birtast í sumum þýðingum (um meðhöndlun á snákum og eiturdrykkju) var bætt við seinna af einhverjum öðrum (vísbending um að kristnir byrjuðu snemma að breyta textanum).

Frásögn Markúsar er ítarlegri en frásögn Páls, en er þó mjög einföld, nánast daufleg. Ef við lítum á unga manninn við gröfina sem var “klæddur hvítri skikkju” sem engil þá er hér einn undraverður atburður. Aðeins einn.

Það eru engir jarðskjálftar, engar birtingar eftir andlátið og engin upprisa. Í rauninni er ekki að finna neina trú á upprisuna og enga predikun um upprisinn Krist. Guðspjallið endar á því að konurnar hlaupa burt, „Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.“ Frekar bragðdaufur endir miðað við hvað þessi atburður á að hafa verið mikilvægur.

Takið eftir því að ungi maðurinn segir „hann er upp risinn (egeiro).“ Eins og Páll þá forðast hann orðið “upprisa”.

Matteus (árið 80)

Í Matteusarguðspjalli, hálfri öld eftir atburðina, fáum við loksins eitthvað af þeim ævintýralegu sögum sem kristið fólk er svo hrifið af. Jarðskjálftinn, veltandi steinn, og „Hrekkjavökusaga“ [32] birtast í fyrsta (og eina) skiptið. Einnig höfum við alvöru engil og birtingu Jesú eftir dauðann.

Lúkas (árið 85)

Matteusar- og Lúkasarguðspjall voru að einhverju leyti byggð á Markúsarguðspjalli, en í báðum hefur verið bætt við efni. Í Lúkasarguðspjalli eru „Nú sérð’ann, nú sérð’ann ekki“ birtingar og hvörf Jesú og líkamleg uppstigning. Einnig höfum við tvö engla, ef við teljum mennina í „leiftrandi klæðum“ vera engla.

Pétursguðspjall (árið 85)

Þetta brot úr guðspjalli, sem var ekki í opinberu regluritasafni kirkjunnar og á víst að vera eftir Símon Pétur (sem þýðir að það var samið af sköpunarglöðum kristnum manni), byrjar í miðri, að því virðist, upprisufrásögn. Tímasetningin er umdeild, en það var örugglega ekki samið fyrir níunda áratuginn.

Hópur fólks frá Jesúsalem heimsækir innsiglaða gröfina á hvíldardeginum. Á páskadagsmorgni sáu hermennirnir sjálfa upprisuna eftir að steinninn valt sjálfur frá innganginum (enginn jarðskjálfti). Í mikilli ljósadýrð stíga tveir ungir menn niður frá himnum og fara inn í gröfina, þessir menn með höfuð sem náðu til skýjanna koma síðan út með þriðja manninn sem var enn hávaxnari og kross fylgir þeim út. Rödd frá himnum spyr þá „Hefur þú predikað til þeirra sem sofa?“ og krossinn svarar, „Já!“. Síðan fer einhver annar inn í gröfina. Síðar finna konurnar ungan mann þar inni sem segir eitthvað svipað og í Markúsarguðspjalli. „Síðan flýðu konurnar óttaslegnar“.

Þetta er furðusaga.

Jóhannesarguðspjall (árið 90-95)

Síðasta guðspjallið í regluritasafninu virðist að mestu leyti vera óháð hinum hvað varðar stíl og innihald, ástæðan fyrir því að Markúsar-, Matteusar- og Lúkasarguðpjall, en ekki Jóhannesarguðspjall, eru kölluð „samstofna guðspjöllin“. Upprisufrásögn Jóhannesarguðspjalls inniheldur raunverulega engla, líkamlegar birtingar (þar á meðal „nú sérð’ann“ í gegnum læstar dyr), „fiskisögu“-kraftaverkið og uppstigningu.

Nafnlausi höfundurinn endar guðspjallið sitt á með þeirri fullyrðingu að „margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar.“[47]. Jóhannes er augljóslega að ýkja, en þetta kemur ekki á óvart fyrst hann viðurkennir að það er ekki á stefnuskránni að segja einfaldlega frá staðreyndunum: „Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“[48] Þetta er ekki verk sagnaritara; þetta er áróður „til þess að þér trúð.“ Það ætti að lesa svona höfunda með fyrirvara.

Létu lærisveinarnir lífið fyrir lygi?

Því er oft haldið fram að upprisan hljóti að hafa átt sér stað vegna þess að lærisveinarnir voru svo sannfærðir að þeir þoldu pyndingar og létu lífið fyrir trúnna sína (þrátt fyrir að það eru engar vísbendingar fyrir þessu frá fyrstu öldinni). En hugsaðu um þetta. Guðspjöllin voru skrifuð á árunum 70-100. Gerum ráð fyrir, af örlæti, að höfundarnir voru raunverulegir lærisveinar og að þeir hafi verið ungir menn þegar þeir þekktu Jesú, hugsanlega tuttugu ára gamlir. (Voru skattheimtumaðurinn Matteus og læknirinn Lúkas ef til vill eldri?) Ævilíkurnar á þeirri öld var 45 ár[49], þannig að sextugt fólk væri eldgamalt. (Jafnvel nýlega, eins og í manntalinu í Bandaríkjunum árið 1900, var fólk eldra en 55 ára talið sem eldri borgari). Þegar þeir hefðu hafist handa við að skrifa guðspjöllin hefði Markús verið 65 ára, Matteus að minnsta kosti 70 ára, Lúkas að minnsta kosti 75 ára og Jóhannes næstum því 90 ára.

Hvernig gátu lærisveinarnir lifað af ofsóknirnar og pyndingarnar og enst ævin til þess að semja þessar bækur? Að verða píslarvottur tvöfaldar ekki lífslíkur manns. Það er meira vit í því að halda að seinni kynslóðir af trúmönnum hafi samið þessar nafnlausu heimildir. Þeir voru ekki sjónarvottar.

Hvers vegna trúa svona margir á upprisuna?

Eins og með allar spurningar þar sem svarið liggur ekki á tæru er best að beita vitneskju okkar til að leita svara um það sem við vitum ekki. Við vitum að ástríðufullar þjóðsögur og þrákelknislegar goðsagnir verða auðveldlega til af sjálfu sér. Við vitum ekki að dáið fólk rís úr gröf sinni. Við vitum að minni manna er gloppótt. Við vitum ekki að englar eru til.

Sumir kristnir menn segja að tímabilið milli þess sem að atburðirnir gerðust og þegar þeir voru skrifaðir niður sé of stutt til þess að goðsögn hafi getað orðið til, en við vitum að það er ekki rétt. Goðsögnin um birtingu Maríu mey árið 1981 í Meðugorje breiddist út um alla Júgóslavíu á aðeins tveimur dögum, staðfest ítrekað með vitnisburðum frá núlifandi sjónarvottum. Staðurinn var sóttur heim nánast samstundis af pílagrímum hvaðanæva að úr heiminum, sumir þeirra halda því fram að þeir hafi læknast á staðnum. Þrátt fyrir það trúa fáir mótmælendur sögunni. Ættum við að hefja leit að tómri gröf Maríu?

Goðsögnin um Elian Gonzales, hinn unga kúbverska flóttamann sem var bjargað undan ströndum Flórída 1999, þróaðist á nokkrum vikum yfir í skipulagt költ sem hélt ýmsu fram, m.a. að hann væri „Messías Kúbu“ sem ætti eftir að frelsa sitt kúgaða fólk frá hinum djöfullega Kastró, María mey átti að hafa sést í miðbæ Miami og sögusagnir voru um að hann nyti verndar engla og höfrunga (eða gullmakríls réttara sagt (e. dolphin fish)). [50] Hinar óvenjulegu sögur Joseph Smiths frá 19. öld, stofnanda Mormóna, voru orðnar viðteknar sem bókstafleg sannindi á einungis örfáum árum.

Goðsögnin um upprisu Jesú hafði nægan tíma til að þróast.

Við vitum að fólk sér oft látna ættingja og vini í draumum og sýnum. Amma mín fullvissaði mig um það að hún sæi oft afa minn heitinn koma inn til hennar, brosandi og veifandi, og oft voru aðrir látnir ættingjar með í för, opnandi og lokandi skúffum. Hefði ég átt að opna gröf afa míns til að sanna að þetta væru aðeins draumórar eða hún sæi ofsjónir í sorg sinni? Hefði það breytt einhverju?

Þrátt fyrir það halda sumir kristnir menn því fram að það sé nákvæmlega það sem hefði gerst ef sagan um Jesú væri ekki sönn. Ef gröfin væri ekki tóm, hefðu úrtölumenn auðveldlega getað þaggað niður orðróminn með því að sýna líkið. En með þessu er gert ráð fyrir því að þeim hafi ekki staðið nægjanlega á sama til að framkvæma slíkt, þeir gerðu ekkert í þá veru þegar að Heródes heyrði orðróm um að Jóhannes skírari hafði verið reistur upp frá dauðum.[51] Að ræna grafir var glæpsamlegt og auk þess hvernig hefðu þeir átt að vita hvar gröfin var? (Tóm gröf Jesú var aldrei höfð sérstaklega í heiðri hjá fyrstu kristnu mönnunum, sem er ein vísbendingin um það að hún sé ekki til.) Að auki liðu að minnsta kosti sjö vikur frá greftruninni þar til að upprisan var fyrst boðuð á hvítasunnunni. Ef einhver hefði verið áhugasamur um að kæfa orðróminn á þeim tíma þá höfðu þegar liðið tveir til þrír mánuðir og hvað verður um lík í þessu loftslagi á þeim tíma? Af líki Lasarusar var „nálykt“ eftir aðeins fjóra daga.[52] Ef einhver hafði sýnt þá staðfestu að finna og grafa upp ólöglega rotnað líkið af Jesú og dröslast með það eftir strætunum, hefðu lærisveinarnir trúað því að hin óþekkjanlega rotandi beinagrind væri í raun drottinn þeirra og frelsari? Ég held ekki, ekki frekar en að amma mín hefði getað sannfærst um að hún sæi ofsjónir.

Í einni af rökræðum mínum kom Greg Boyd með þá einföldu skýringu að upprisan hlyti af hafa átt sér stað, því annars hefðum við enga skýringu á tilurð og gríðarmiklum vexti kristinnar kirkju. Þar sem sést reykur logar eldur, hélt hann fram. En hægt er að beita þessum rökum með sama hætti á „reyk“ frá öðrum trúarbrögðum líkt og íslam, þar sem mörg hundruð milljónir ágætra manna trúa því að hinn ólæsi Múhammeð hafi á undraverðan hátt skrifað Kóraninn.

Hægt er að beita þeim á „reykinn“ frá Mormónatrú, þar sem milljónir siðaðra og greindra einstaklinga trúa því að engillinn Moróní hafi gefið Joseph Smith gulltöflur með Mormónsbók áletraða. „Hvers vegna ættu þeir sem ekki eru Mormónar erfitt með að trúa þessari sögu?“ spyr Robert J. Miller. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá er hún er engu trúverðugri frekar en fjölmargar sögur Biblíunnar (Jónas í hvalnum sem eitt dæmi) sem margir kristnir menn trúa áreynslulaust á. Munurinn þarna á milli kemur sögunum sjálfum lítið við heldur það hvort að menn nálgast þær sem innanbúðarmenn eða sem utangarðsmenn. Ef þetta er sett fram á kannski eilítið grófan hátt, okkar kraftaverkasögur eru auðtrúanlegar vegna þess að þær eru sannar; þeirra kraftaverkasögum er auðveldlega hægt að vísa á bug vegna þess að þær eru langsóttar og uppskáldaðar.“[53]

Einnig væri hægt að beita þeim á Moon söfnuðinn, Votta Jehóva og margar aðrar vinsælar trúarhreyfingar. Ef reykur er sönnun fyrir eldi, hafa þær allar rétt fyrir sér?

Hvað gerðist þá eiginlega?

Ef sagan er ekki sönn, hvernig varð hún þá til? Við vitum það ekki, en við getum komið með ágætar ágiskanir, byggðar á því hvað á sér stað hjá öðrum þjóðsögum og trúarhreyfingum, og því sem við vitum um mannlegt eðli.

Robert Price gerir ráð fyrir því að Nýja testamentið sé að einhverju leyti áreiðanlegt og býður á skynsamlega atburðarrás: Hugarástand Péturs er lykilatriðið. Lærisveinarnir bjuggust við því að Jesús myndi setja á fót konungdæmi á jörðinni, og þetta gerðist ekki. Hann var drepinn. Því næst bjuggust þeir við því að Jesús kæmi aftur, og þetta gerðist ekki. Ekkert var að ganga eftir og þetta skapaði ákveðið hugarmisræmi. Pétur sem hafði heitið Jesú trúfesti og afneitaði honum síðar opinberlega örfáum stundum fyrir krossfestinguna, hlýtur að hafa liðið hræðilega. (Dagurinn eftir „föstudaginn langa“ er kallaður „laugardagurinn svarti“, dagurinn sem lærisveinarnir syrgðu og voru í áfalli).

Ímyndaðu þér að þú hafir átt í hræðilegu rifrildi við maka eða einhvern náinn þér þar sem þú sagðir sumt ógeðfellt sem þú sérð seinna eftir að hafa sagt, en áður en þú færð tækifæri til þess að biðjast afsökunar og sættast, þá deyr viðkomandi. Ímyndaðu þér hugarástand þitt: sorg, eftirsjá, áfall, skömm, depurð, örvæntingarfull óskhyggja um að fá viðkomandi aftur til þín og bæta fyrir allt. Þannig hlýtur Pétri að hafa liðið.

Þar sem Pétur trúir á Guð og framhaldslíf sálarinnar þá biður Pétur til Jesú: „Ég sé eftir þessu. Fyrirgefðu mér“ (Eða eitthvað þessu líkt.) Síðan fær Pétur svar: „Ég er hérna. Ég fyrirgef þér.“ (Eða eitthvað þessu líkt). Þá segir Pétur sigri hrósandi vinum sínum, „Ég talaði við Jesús! Hann er ekki dáinn! Mér er fyrirgefið,“ og vinir hans segja. Pétur talaði við Jesús? Pétur hefur hitt Jesús? Hann lifir! Það er andlegt konungsríki! (Eða eitthvað þessu líkt.) Páll setur síðan Pétur efstan á lista yfir þá sem Kristur „birtist“.

Við þurfum ekki að vita nákvæmlega hvað gerðist, aðeins að hlutir á borð við þessa hafa gerst. Athugið til dæmis 19. aldar fylgjendur Millers, sem breyttust síðan í Sjöunda dags aðventista þegar heimurinn endaði ekki eins og þau höfðu spáð. Eða Votta Jehóva sem náðu sér aftur á strik eftir mislukkaða spádóma Charles Russell og Joseph Rutherford sem sögðu að heimsendir ætti eftir að verða árið 1914, æ æ þeir meintu 1925. (Þeir tóku sér skáldaleyfi og sögðu að Jesús hefði í raun snúið aftur til jarðar „andlega“).

Robert Price útskýrir eftirfarandi: „Þegar hópur manna hefur lagt allt undir í trú sinni og „brennt allar brýr að baki sér“ einungis til að komast að því að trú þeirra er afsönnuð af því sem gerist, þá gæti blekkingin orðið of sársaukafull til að þeir gætu þolað hana. Fljótlega finna þeir einhverja útskýringu þessu til réttlætingar og trúverðugleiki hennar styrkist með sameiginlegri hvatningu trúbræðra þeirra innan hópsins. Til að auka frekar á trúverðugleika trúar þeirra sem hefur orðið fyrir þessum skakkaföllum, þá gætu þeir hafið nýja áróðursherferð. Því fleira fólk sem þeir geta sannfært, því trúlegri verður trú þeirra. Lokaniðurstaðan er því að róttæk afsönnun trúar gæti einmitt verið það sem trúarhreyfingar þurfa til að ná flugi.“[54]

Aðrar trúlegar skýringar hafa verið gefnar á uppruna goðsagnarinnar, en við þurfum ekki að segja frá þeim öllum. Sú staðreynd að þær eru til sýnir að ekki er hægt að taka því sem gefnu að upprisa Jesú hafi sagnfræðilegt gildi.

Ef litið er á upprisuna sem goðsögn er sýnd tilhlýðandi virðing

Borin er virðing fyrir mannleika fyrstu kristnu mannanna.

Við vitum að mannkynið býr yfir sterkri tilhneigingu til að búa til, trúa á og breiða út falskar sögusagnir. Svo hvers vegna ætti fyrstu kristnu mennirnir að vera eitthvað öðruvísi? Voru þeir ekki bara venjulegt fólk? Gerðu þeir aldrei mistök? Voru þeir svo mikil ofurmenni að þeir létu aldrei undan freistingunni til að ýkja eða beita áróðri? Höfðu þeir fullkomið minni? Þegar litið er til ósamræmis í frásögnum þeirra hvers vegna lítum við þá ekki sömu augum og okkur sjálf, ekki eins og teiknimyndapersónur, heldur sem alvöru manneskjur með svipaðan ótta, langanir og takmarkanir? Þó að amma mín hafi séð ofsjónir þá varð það ekki til að draga úr ást minni eða virðingu fyrir henni.

Ef litið er á upprisuna sem goðsögn er sýnd virðing fyrir aðferðafræði sagnfræðinnar. Við þurfum ekki að vísa á bug regluverki náttúrunnar sem knýr áfram söguna. Við getum litið á frásagnir Nýja Testamentisins sem sögur sem fólk trúði í einlægni að væru sannar, ekki að þær séu endilega sannar. Við getum virt spurninguna, „Trúir þú öllu sem þú lest?“

Ef litið er á upprisuna sem goðsögn er guðfræðinni sýnd virðing. Ef Jesús reis í holdinu upp til himna þá sitjum við uppi með guð sem takmarkast við flata jörð og situr á raunverulegu hásæti í mannsstærð, með hægri og vinstri hönd. Ef Jesús var líkamlega numinn upp til himna, hvar er þá líkami hans núna? Þarf hann stundum að fara í klippingu? Ef litið er á upprisu holdsins sem ýkjur goðsagnarinnar, þá hafa þeir trúuðu frelsi til að sjá guð sinn sem takmarkalausa andlega veru sem er ekki bundin mannlegum takmörkunum eins og heiðnu goðin voru.

Biblíufræðingar hafa ályktað: „Á grundvelli nákvæmrar greiningar á öllum frásögnunum um upprisuna, þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að upprisa Jesú var ekki upphaflega ætluð til að útskýra afdrif líkama hans. Líkami Jesú rotnaði líklega eins og öll önnur lík. Upprisa Jesú var ekki atburður sem átti sér stað á fyrsta Páskasunnudeginum, né heldur var það atburður sem hefði verið hægt að taka upp á vídeótökuvél... [Við] ályktum að það virðist sem að það sé ekki nauðsynlegt fyrir kristna menn að trúa bókstaflega á sannleiksgildi seinni frásagnanna um birtingarnar.“[55]

Síðast en ekki síst þá er trúfrelsið virt með því að líta á upprisuna sem goðsögn. Ef upprisa Jesú væri sönnuð eins og hver önnur sagnfræðileg staðreynd, þá hefðum við ekkert val, ekkert rými fyrir trúnna. Þú getur ekki haft frelsi til að trúa ef þú hefur ekki frelsi til að trúa ekki.


Tilvísanir

  1. Losing Faith In Faith: From Preacher to Atheist, Dan Barker, FFRF, Inc., 1992
  2. Fyrra Korintubréf 15:17
  3. „His Fleece Was White As Snow,“ Dan Barker, Manna Music, Inc., 1978
  4. Þar á meðal The Westar Institute, Santa Rosa, Kaliforníu, með meira en 70 biblíufræðinga innanborðs og hefur gefið út margar bækur og annað efni
  5. The Daily Telegraph, London, 31. júlí, 2002
  6. Americans' Bible Knowledge Is In the Ballpark, But Often Off Base,“ 12. júlí, 2000, Barna Research
  7. Did Jesus Rise From The Dead? The Resurrection Debate, Gary Habermas og Antony Flew, ed. Terry L. Miethe, Harper & Row, 1987. Orð Flews voru innblásin af verki Davids Hume, First Enquiry
  8. 'Of Miracles,' bls.115-116
  9. Þar á meðal John Allegro, G. A. Wells, Michael Martin (sem var hallur undir sjónarmið Wells), Timothy Freke & Peter Gandy (The Jesus Mysteries), Robert Price (Deconstructing Jesus), Frank Zindler (The Jesus The Jews Never Knew), Earl Doherty (The Jesus Puzzle), o.fl.
  10. Fíló frá Alexandríu (20 f.o.t-50 e.o.t.) lýsti í miklum smáatriðum þessu svæði á þessum tímum. Þetta á einnig við um Jústus frá Tíberíus og 40 aðra sagnfræðinga.
  11. Sjá "The Formation of the New Testament Canon" eftir Richard Carrier, www.infidels.org/library/modern/richard_carrier/NTcanon.html, vek sérstaka athygli á 6.
  12. Þar á meðal Suetonius, Tólf Keisarar, 112 e.o.t.; Plinius yngri, 112 e.o.t.; Annálar Tacticusar 117 e.o.t. ásamt nokkrum öðrum heimildum sem tala um "vitran konung" eða "sálm um Krist".
  13. Sem dæmi þá leyfði Jesú skilnaði (Matteus 5:31-32) meðan að Páll gerði það ekki (Fyrra Korintubréf 7:10-11)
  14. Albert Schweitzer ritaði: „Það er ekkert jafn neikvætt og niðurstöður gagnrýninnar rannsóknar á lífi Jesú...Hinn sögulegi Jesú mun vera ókunnugur á okkar tímum og ráðgáta.“ The Quest of the Historical Jesus, MacMillan 1954.
  15. Sjá Barbara Walker, The Woman's Encyclopedia of Myths and Secrets, bls. 663-665, Harper San Francisco 1983.
  16. Tólf Keisarar, 112 e.o.t. Hér er allt sem hann sagði. Keisarinn Kládíus „gerði gyðinga útlæga úr Róm, þar sem þeir ollu óeirðum vegna Chrestus“ og á tímum Nerós "kristnum mönnum var einnig refsað, trúflokki sem iðkaði ný og varasöm trúarbrögð."
  17. First Apology, ch. xxiv
  18. Það voru m.a. Júdas Kristur, Theudas Kristur og Egypskur gyðingur var Messías, ásamt fleirum
  19. Sjá t.d. The Passover Plot: A New Interpretation of the Life and Death of Jesus, Hugh Schonfield
  20. Matteus 28:11-15
  21. See „Historical Evidence and the Empty Tomb Story: A Reply to William Lane Craig,“ Jeffery Jay Lowder, 2001
  22. Nöfnin „Tómas“ and „Didymus“ þýða bæði "tvíburi." Margir af fyrstu kristnu mönnunum trúðu því að Jesús hafi átt tvíburabróður. Sjá The Jesus Mysteries: Was the "Original Jesus" a Pagan God? eftir Timothy Freke og Peter Gandy, bls. 117-118. Þó að sumir af fyrstu kristnu mönnunum og fræðimenn á okkar dögum hafi komist að þeirri niðurstöðu að Tómas hlyti af hafa verið krossfestur í stað Jesú, þá hafna höfundarnir þessu. Gnostarnir fundu upp þá hefð að hafa tvíburabróðir Jesú sem myndlíkingu fyrir hina fornu daemon/eidolon kennisetningu.
  23. Versin úr Markúsarguðspjalli 16:9-20 eru höfð með hér fyrir þá sem halda því fram að lokaorð Markúsar séu ósvikin. Jafnvel þótt að þau séu fölsuð, þá lýsa þau sögu sem er í mótsögn við hinar, burtséð frá því hver bætti þeim við, líklegast kristinn einstaklingur.
  24. Culver H. Nelson stofnaði The Church of the Beatitudes, Phoenix, Arizona.
  25. New English Bible Companion to the New Testament, Oxford University Press, 1988
  26. The First Coming: How the Kingdom of God Became Christianity, Thomas Sheehan, Random House, 1986, bls. 97
  27. The Acts of Jesus: What Did Jesus Really Do?, ritstýrt af Robert W. Funk og The Jesus Seminar, Polebridge Press, 1998
  28. "Leave No Stone Unturned," úr Losing Faith In Faith (sjá tilvísun 1). Einnig á Netinu hér
  29. More Than A Carpenter, Josh McDowell, Tyndale House, 1987
  30. Það var einnig saga um birtingu í týndri bók sem gengur undir nafninu Guðspjall Hebrea, líklega skrifað um miðja aðra öldina. Hægt er að finna nokkrar tilvitnanir frá þessari bók í verkum annarra. Jerome vitnaði til sögunnar um birtinguna. Þar sem að þetta er ekki heildstæð upprisusaga er ekki hægt að bera hana saman við hinar frásagnirnar.
  31. E.t.v. fyrir utan Pétur, sem gæti hafa verið síðar en Jóhannes.
  32. Matteus 27:52-53 „grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.“
  33. Jóhannes 21:1-14
  34. Krossfestingin er yfirleitt tímasett árið 30, þó að hún hafi líklega átt sér stað seint á þriðja áratugnum.
  35. Rómverjabréfið 13:11
  36. Efesusbréfið 5:14
  37. Matteus 8:24-25
  38. Fyrra Korintubréf 15:50
  39. Postulasagan 16:9-10. Horama er úr sama versi og ophthe.
  40. Matteus 17:1-3
  41. Matteus 26:69-75, Markús 14:66-72
  42. Rómverjabréfið 3:4,7
  43. Sjá „Did Paul's Men Hear a Voice?“ Dan Barker
  44. Galatabréfið 1:12-16
  45. Regional Model Life Tables and Stable Populations, A. Coale and P. Demeny, 2nd ed., 1983. Sýnir á tölfræðilegan nákvæman hátt niðurstöður fyrir þriðja heims ríki á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar þar sem að lífsskilyrði voru nánast þau sömu og í Róm til forna. Þakkir til Richard Carriers fyrir þessi gögn.
  46. Þó að nöfn guðspjallanna hafi verið lauslega kennd við hina og þessa samkvæmt hefðinni á fyrri hluta annarrar aldar, þá voru þau fyrst formlega nefnd af Irenaeusi árið 180.
  47. Jóhannes 21:25
  48. Jóhannes 20:30-31
  49. Sjá tilvísun 43
  50. Sjá "The 'Elian Gonzalez' Religious Movement"
  51. Matteus14:1-2
  52. Jóhannes 11:17,39
  53. The Jesus Seminar and its Critics, Robert J. Miller, Polebridge Press, 1999, bls. 134
  54. Beyond Born Again, Robert M. Price. Hluti II--The Evangelical Apologists: Are They Reliable? Kafli 6: "Guarding An Empty Tomb." (Á Netinu hér) Sjá einnig When Prophecy Fails: A Social and Psychological Study, Leon Festinger, Harpercollins College Div, júní 1964
  55. The Acts of Jesus: What Did Jesus Really Do?, ritstýrt af Robert W. Funk og The Jesus Seminar, Polebridge Press, 1998, bls. 533

Lárus Viðar Lárusson og Hjalti Rúnar Ómarsson þýddu. Upphaflegu greinina má lesa hérna á heimasíðu The Freedom From Religion Foundation

Ritstjórn 08.04.2007
Flokkað undir: ( Erlendar greinar , Klassík , Upprisan )

Viðbrögð


palli - 08/04/07 12:03 #

[Athugasemd færð á spjallborðið - Hjalti]


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 08/04/07 12:33 #

Frábær grein Lárus, skýr og skilmerkileg. -Stórmerkileg reyndar!


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 08/04/07 14:29 #

Frábært! Glæsilegt að þessi grein Dan Barkers hafði verið þýdd á íslensku.


Steindór J. Erlingsson - 08/04/07 16:44 #

Vantrúarmenn þið eigið þakkir skyldar fyrir að birta þessa merkilegu grein. Allir sagnfræðingar vita að endurminningar manna eru mjög óáreiðanlegar. Til marks um þetta hrakti ég í doktorsritgerð minni margt af því sem einstaklingarnir, sem ég fjallaði um, skrifuðu í sjálfsævisögum sínum.


Guðmundur Pálsson - 09/04/07 11:20 #

Kristur er upprisinn! Hann er sannarlega upprisinn!


mofi - 09/04/07 18:18 #

Hérna er grein sem svarar þessari grein, sjá:http://www.tektonics.org/qt/rezrvw.html


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 18:32 #

mofi, lastu þessa grein? Eða leitaðirðu bara að "Dan Barker" á síðunni tektoniscs.org? Því greinin sem þú vísar á reynir bara að svara kaflanum "Innbyrðis mótsagnir" (sem Barker hefur áður gefið út sem grein 'Páskagetraun').

En fyrst þessar frásagnir eru í fullkomnu samræmi, svaraðu þá þessu: Hvers vegna sagði María Magdlena "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann." við lærisveinana (Jh 20:2) fyrst engill hafði rétt áður sagt henni þetta: "Hann [Jesús] er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann. Þetta hef ég sagt yður." (Mt 28:6-7)


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 20:37 #

Kannski var það Satan sem setti þessar mótsagnir í Biblíuna til að rugla sanntrúaða og sá fræjum efasemda. Þetta sögðu a.m.k. mormónar þegar fundust mótsagnir í Mormónsbók og kristnir trúarnöttarar hljóta að geta notað sama trikk.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 22:54 #

Hafa þeir ekki notað þetta sama trikk í þúsund ár eða svo?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 09/04/07 23:27 #

Tilvist Jesú er ekki staðfest. Ekki eitt einasta orð um Jesú birtist utan Nýja testamentisins alla fyrstu öldina, þrátt fyrir að margir höfundar lýstu Rómaveldi frá fyrstu hendi með mikilli nákvæmni, meðal annars með vönduðum frásögnum frá sama svæði og á sama tíma þar sem Jesús átti að hafa kennt[10]... [10] Fíló frá Alexandríu (20 f.o.t-50 e.o.t.) lýsti í miklum smáatriðum þessu svæði á þessum tímum. Þetta á einnig við um Jústus frá Tíberíus og 40 aðra sagnfræðinga.

Hugsanlega hefur borið það lítið á hinum kristna flokki fyrstu árin að þessum sagnfræðingum hafi varla þótt taka því að minnast á hann hafi þeir þá heyrt af þeim á annað borð.

Skv. heimild sem ég hef undir höndum hafa fyrstu og annarrar aldar menn aðrir en kristnir og aðrir en Jósefus 1 minnst á Krist. Þar má nefna Lucian af Samosata, sjá t.d. hér: 2. Lucian talar í háði um Krist og hina kristnu. Einnig má nefna Cornelius Tacitus 3 þó deildar meiningar séu um áreiðanleika texta hans. Enn má nefna Suetonius: 4. Einnig má nefna Pliníus yngri: 5 og enn má nefna Thallus: 6 og enn má nefna Phlegon: 7. Þó verk hans þar sem minnst er á Krist og kristna séu glötuð þá er minnst á þau í verkum kristna rithöfundarins Júlíusar Africanusar 8 og annarra. Enn má nefna Mara Bar-Serapion: 9.

Ósamræmi í heimildum Nýja Testamentisins má hugsanlega rekja til sérstaks uppruna og mannavals lærisveinaflokksins sjá t.d. hugleiðingu um það hér: 10


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 09/04/07 23:41 #

Hey!...

Ljós krist góða fólk! -Þetta verður að skoðast í ljósi krists.... :)

Ég er einn þeirra sem trúi ekki á að Sússi hafi einu sinni verið til. ég mæli með bókinni "Jesus Mysteries -was jesus a pagan god?" -Frábær bók og mikill bestseller.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/07 09:26 #

Hugsanlega hefur borið það lítið á hinum kristna flokki fyrstu árin að þessum sagnfræðingum hafi varla þótt taka því að minnast á hann hafi þeir þá heyrt af þeim á annað borð.

Sammála.

Skv. heimild sem ég hef undir höndum hafa fyrstu og annarrar aldar menn aðrir en kristnir og aðrir en Jósefus 1 minnst á Krist.

Það er deilt um það hvort Jósefus hafi minnst á Jesús.

Lucian af Samosata, sjá t.d. hér: 2. Lucian talar í háði um Krist og hina kristnu. Einnig má nefna Cornelius Tacitus 3 þó deildar meiningar séu um áreiðanleika texta hans.

Og þá erum við komnir í aðra öldina.

Enn má nefna Suetonius: 4.

.2. öldin. Minnist ekki á Jesús.

Einnig má nefna Pliníus yngri: 5

.2. öldin. Segir ekkert um Jesús, nema kristnir menn hafi dýrkað þennan guð.

...og enn má nefna Thallus: 6 og enn má nefna Phlegon: 7. Þó verk hans þar sem minnst er á Krist og kristna séu glötuð þá er minnst á þau í verkum kristna rithöfundarins Júlíusar Africanusar 8 og annarra. Enn má nefna Mara Bar-Serapion: 9.

Þarna er hvergi minnst á Jesús. Eina hugsanlega dæmið er Mara Bar-Serapion.

Ósamræmi í heimildum Nýja Testamentisins má hugsanlega rekja til sérstaks uppruna og mannavals lærisveinaflokksins sjá t.d. hugleiðingu um það hér: 10

Ekki heldurðu að Markús, Matteus, Lúkas og Jóhannes hafi skrifað guðspjöllin?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 10/04/07 18:41 #

Kannski var það Satan sem setti þessar mótsagnir í Biblíuna til að rugla sanntrúaða og sá fræjum efasemda.

Ég hef líka séð þau "rök" gegn öllum hinum guðunum sem voru synir annarra guða, fæddir af jómfrú o.s.frv. að Satan hafi farið aftur í tímann og plantað þessum guðum þar, fyrir tíma Jesú. Þetta gerði hann til að rugla kristna menn í ríminu síðar meir. Útsmoginn óþokki hann Satan.

Þetta dæmi finnst mér líka sýna fram á hvers vegna það er erfitt að rökræða við menn sem beita sífellt yfirnáttúru til að réttlæta hitt og þetta. Þannig verður allt mögulegt í þeirra augum, skiptir engu hversu fráleitt það er fyrir þeim sem aðhyllast ekki þeirra trúarbrögð.


khomeni (meðlimur í Vantrú) - 10/04/07 20:43 #

Í Palestínu á fyrstu öld var mikill hrærigrautur trúarbragða. Trúarbragða frá Persíu, Egyptalandi og trú Rómverja sem voru innrásarlið. Fyrir í landinu voru nokkur trúarbrögð gyðingdómur og paganismi.

Í allmörgum þessara trúarbragða bregður fyrir hálfguð sem deyr fyrir syndir mannana og rís aftur upp eftir 3 daga til að dæma lifendur. Athyglisvert er að Hórus hinn egypski er fæddur -þann 25. desember af hreinni mey.

Það eru til svo margar sláandi líkingar með þeim guðum/hálfguðum sem voru ríkjandi fyrir komu "krists" að manni fallast hendur. Ofan á þetta bætist svo mikil pressa eftir messíasi/kristi frá hinum undirokaða og niðurtroðna hópi gyðinga sem í örvæntingu sinni nánast öskruðu á guðlegt inngrip inn í ömurlega stöðu sína.

Það má eiginlega að það hafi verið söguleg nauðsyn að einhverskonar kristur hafi komið fram. Hann var samt sannarlega ekki sá sem guðspjöllin greina frá! Hugsanlega var einhver gyðingakennari tekin af lífi árið 30. Hugsanlega átti hann fylgismenn. Hugsanlega hét hann Ésú.

En sonur guðs? Sá sem drepst og flýgur til himins til að "dæma" mig og þig?

Varla

Miklu sennilegra að þarna hafi runnið saman nokkur trúarbrögð með áherslur héðan og hvaðan. Allt blandast svo við gríska heimsspeki og úr verður kristni. Þegar trúarbrög blandast saman er það kallað synkrónismi og er töluvert algengur í trúarbragðasögunni. Katólksa blandast t.d vel saman við indíjánatrúarbrögð og önnur þau sem katólskan hittir fyrir.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 11/04/07 00:17 #

Þú segir að Suetonius minnist ekki á Krist. Hvað þá með orð hans í Ævi Kládíusar 25.4? Sjá hér: [1]

Þú segir ennfremur að Pliníus yngri minnist ekki á Krist. Hvað þá með þennan texta hér? [2]


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 08:25 #

Þú segir að Suetonius minnist ekki á Krist. Hvað þá með orð hans í Ævi Kládíusar 25.4? Sjá hér: [1]

"Þar sem gyðingarnir voru sífellt með læti vegna hvatninga frá Krestusi rak hann [Kládíus] þá frá Róm".

Krestus var nafn og miðað við textann virðist Svetóníus segja að þessi Krestus hafi verið í Róm að æsa upp gyðingana.

Þú segir ennfremur að Pliníus yngri minnist ekki á Krist. Hvað þá með þennan texta hér? [2]

Nei, ég sagði það ekki. Ég sagði að hann segði ekkert um Krist nema að kristnir menn hefðu dýrkað þennan guð. Sérðu eitthvað meira um Jesú hjá Plíníusi yngri?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 11:43 #

Guðfræðineminn Grétar gerir lítið úr þessari grein Dan Barker í athugasemd hér.

Það væri fróðlegt að fá málefnalega gagnrýni á þessa grein frá guðfræðinemum og guðfræðingum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 12:26 #

Það er örugglega ýmislegt sem mætti gagnrýna í þessari grein. Ég er til dæmis ekki ánægður með kaflann Var Jesús til?, held að hann sé óþarfur og svo efast ég um mikið af því sem Barker telur vera líkt með sögunni af Jesús og öðrum guðum.

En vonandi reyna Jón Ómar og Grétar að rökstyðja upprisuna.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 16:43 #

Það sem Svetóníus segir um "Krestus" er í tilvísun 16.

Tólf Keisarar, 112 e.o.t. Hér er allt sem hann sagði. Keisarinn Kládíus „gerði gyðinga útlæga úr Róm, þar sem þeir ollu óeirðum vegna Chrestus“ og á tímum Nerós "kristnum mönnum var einnig refsað, trúflokki sem iðkaði ný og varasöm trúarbrögð."


Ragnar Geir Brynjólfsson - 11/04/07 21:29 #

Lucian af Samosata (120-180) skrifar í háði:

The Christians, you know, worship a man to this day,--the distinguished personage who introduced their novel rites, and was crucified on that account [1]

Pliníus yngri (63-113) skrifar líklega árið 111-112 til keisarans um kristna menn og minnist þrisvar á Krist hérna: [2]. Þessi heimild er merkileg fyrir þær sakir að hann lýsir háttum kristinna manna:

..when they sang in alternate verses a hymn to Christ, as to a god, and bound themselves by a solemn oath, not to any wicked deeds..
Einnig er lýst hvernig hann þvingar þá til að falla frá trúnni og pyntingum tveggja kvendjákna. Hann talar um hvernig kristni hafi ekki bara náð til borganna heldur líka sveitahéraða, en telur samt að hægt sé að hefta útbreiðslu hennar.

Í þessum tveim tilfellum eru það ekki menn vilhallir kristninni sem tjá sig.

Það að fyrstu kristnu mennirnir skrifuðu ekkert niður kann að vera vegna þess að þeir væntu endurkomu Krists þá og þegar og töldu jafnvel að það yrði á meðan Jóhannes guðspjallamaður væri enn á lífi. Nýja Testamentið greinir frá því að Kristur hafi haldið ræður og sagt dæmisögur en ekki skrifað ritgerðir né bréf og gera má ráð fyrir að þessi boðunaraðferð hafi verkað fordæmisgefandi á fylgismenn hans. Líkast til hefur heldur ekki verið mikið af lærðum mönnum í flokknum til að byrja með. Þrátt fyrir þetta eða kannski einmitt vegna þessa breiðist trúin út með ótrúlegum hraða fyrstu aldirnar, sjá t.d. þessa heimild:

Þegar í byrjun annarrar aldar eru til þróttmiklir kristnir söfnuðir í Antíokkíu, Alexandríu, Róm og Lyon og boða þeir trú hver á sínum stað. Einnig þeir verða fyrir ofsóknum. Til eru meira og minna ítarlegar heimildir, bréf og réttarskjöl, sem fræða okkur um dauða píslarvottanna. Ignatíus biskup í Antíokkíu er tekinn af lífi í Róm skömmu fyrir 107 og Pólýkarpus biskup í Smyrnu fimmtíu árum síðar. Kringum 177 fer fram hópaftaka kristinna manna í Lyon.
Úr bókinni: „Kaþólskur siður“ eftir Catharina Broomé. Frá tímanum 100-200 er einnig Canon Muratori, fyrsta kunna skráin yfir heilagar ritningar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 22:04 #

Ragnar..."geisp" segi ég bara, ekkert nýtt í þessu innleggi um heimildirnar. Já, Lúkíanos skrifaði um kristna menn og hverju þeir trúðu í kringum 170. Og já, Plíníus yngri skrifar "líklega árið 111-112 til keisarans" og segir að kristnir menn dýrki guðinn Jesús og talar síðan ekkert meir um hann en ræðir síðan eitthvað um kristið fólk. Og hvað með það?


Ragnar Geir Brynjólfsson - 11/04/07 22:20 #

Rétt er að Lúsían og Pliníus tala aðallega um kristna en þeir minnast líka á manninn Krist, hinn fyrri einu sinni og hinn síðari þrisvar sinnum og hvorugur virðist hafa neinar efasemdir um tilvist hans þó báðir séu þeir á móti kristni og hinn síðari hatrammur andstæðingur hennar. Sú tilgáta að Jesús hafi ekki verið til verður ekki sennilegri ef horft er á þessar heimildir. Þær benda til að munnleg geymd um manninn Jesús Krist hafi verið sterk og útbreidd. Við verðum að hafa í huga að tíminn sem til skoðunar er, er fornöldin og hugsast getur að skriflegu heimildirnar hafi verið fleiri þó þær séu nú glataðar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/07 22:40 #

Ragnar, það er rétt að Lúkíanos minnist á það árið 170 að kristnir menn trúi á krossfesta manninn Jesús og allt það. Þetta sýnir að árið 170 hafði Lúkíanos lært það einhvers staðar að kristið fólk trúði þá á krossfestan mann. Og hvað með það?

...Pliníus tala[r] aðallega um kristna en ... minn[i]st líka á manninn Krist...

Hvar gerir hann það? Hann segir að kristnir menn dýrki Krist. Hvað í ósköpunum segir Plíníus um manninn Krist?

...hvorugur virðist hafa neinar efasemdir um tilvist hans þó báðir séu þeir á móti kristni ...

Hvers vegna ætti Lúkíanos (þetta gildir ekki um Plíníus því hann ræðir ekkert um Jesú) að efast um tilvist manns sem hét Jesú?

Þær benda til að munnleg geymd um manninn Jesús Krist hafi verið sterk og útbreidd.

Nei, Plíníus segir okkur ekkert um manninn Jesús. Lúkíanos bendir til að þegar hann skrifaði þessa bók (sem mér sýnist vera eftir 169) hafi verið til kristið fólk einhvers staðar sem trúði því að Jesús hafi verið til! Ótrúlegt!


Ragnar Geir Brynjólfsson - 12/04/07 20:55 #

Hvað í ósköpunum segir Plíníus um manninn Krist?

Hann talar um Krist sem einhvern sem formælt var en ekki goðsögn, sjá t.d. hér:

They all worshipped your statue and the images of the gods, and cursed Christ. They affirmed, however, the whole of their guilt, or their error, was, that they were in the habit of meeting on a certain fixed day before it was light, when they sang in alternate verses a hymn to Christ, as to a god..
Pliníus ætti að vera öllum hnútum kunnugur, búinn að þvinga fjölda fólks til að falla frá kristninni á þessu ári (111-112?) eða árunum þarna á undan og láta þá færa keisaranum fórnir, hóta þeim dauðarefsingu og beita tvær djáknakonur sem jafnframt eru þrælar pyntingum til að þvinga fram upplýsingar og játningar. Það er líkast til einmitt glæpur hinna kristnu að gera Krist að guði og neita að dýrka keisarann. Kristur er því persóna í augum Pliníusar. Persóna sem að hans mati er ekki guð eða guðlegur og hann er tilbúinn til að ganga mjög langt til að hindra þennan átrúnað. Þó texti Pliníusar sé dapurlegur í einlægni sinni ættu samt lokaorð hans að geta verkað uppörvandi fyrir einhverja:
For this contagious superstition is not confined to the cities only, but has spread through the villages and rural districts; it seems possible, however, to check and cure it.[Leturbr. RGB]

Ragnar Geir Brynjólfsson - 13/04/07 21:07 #

Ég hef eina spurningu eða athugasemd við eftirfarandi setningu:

Bæði frjálslyndir og íhaldssamir fræðimenn telja litlu efnisgreinina um Jesú sem birtist í Antiquitates eftir Jósefus (ritað eftir 90 e.o.t.) annaðhvort vera hreina viðbót eða mikið breytta af seinni tíma kynslóðum trúmanna, líklega af hinum óheiðarlega kristna sagnfræðingi Evsebíosi á fjórðu öld[11]

Þegar heimildin er skoðuð [11] finnst ekkert til að styðja þessa ályktun. Ef heimild 11 er skoðuð sést að vísað er í neðanmálsgrein 6 en þar er vitnað í Testimonium Flavianum sem að sumra mati er fölsun í heild en að annarra mati viðaukin (interpoleruð) efnisgrein. Það er því sérstakt að sjá þá ályktun dregna af þessari heimild að textinn í Antiquitates sé að flestra mati fölsun. Heimildin fjallar um Testimonium Flavianum en ekki Antiquitates. Líklega er hér um villu að ræða hjá Dan Barker, nema þá að mér sé að yfirsjást eitthvað hér. Í bókinni The Case for Christ (1998) eftir Lee Strobel er greint frá viðtali við fræðimanninn Edwin Yamauchi við Miami University. Hann segir:

[Fyrst er textinn í Antiquities]„He convened a meeting of the Sanhedrin and brought before them a man named James, the brother of Jesus, who was called the Christ, and certain others. He accused them of having transgressed the law and delivered them up to be stoned.“ „I know of no scholar,“ Yamauchi asserted confidently, „who has successfully disputed this passage.“[Leturbr. RGB]


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/07 21:41 #

Hann talar um Krist sem einhvern sem formælt var en ekki goðsögn, sjá t.d. hér:

Ég skil ekki alveg þessa setningu. Gætirðu útskýrt betur hvernig þetta virkar?

Það er líkast til einmitt glæpur hinna kristnu að gera Krist að guði og neita að dýrka keisarann.

Glæpurinn er sá að neita að dýrka keisarann en dýrka bara Krist og guð. Og?

Kristur er því persóna í augum Pliníusar.

Áttu við "maður" með orðinu persóna? Hvað eiginlega fær þig til þess að segja það að Jesús hafi verið maður í augum Pliníusar?

Ef heimild 11 er skoðuð sést að vísað er í neðanmálsgrein 6 en þar er vitnað í Testimonium Flavianum sem að sumra mati er fölsun í heild en að annarra mati viðaukin (interpoleruð) efnisgrein.

Einmitt. Nákvæmlega það sem stendur í grein Barkers.

Það er því sérstakt að sjá þá ályktun dregna af þessari heimild að textinn í Antiquitates sé að flestra mati fölsun. Heimildin fjallar um Testimonium Flavianum en ekki Antiquitates. Líklega er hér um villu að ræða hjá Dan Barker, nema þá að mér sé að yfirsjást eitthvað hér.

Þér er hugsanlega að yfirsjást það að Testimonium Flavianum er nafn á efnisgrein í bókinni Antiquitates Judaicae

Hvað varðar orðin tvö: "kallaður Kristur" þá hljóta þau orð að falla líka ef TF er fölsun. Síðan er mjög hugsanlegt að þetta hafi verið athugasemd í spássíuna sem komst inn í textann.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 13/04/07 22:58 #

Fyrst Pliníus: Efnisgreinin lýsir persónu sem að mati Pliníusar getur ekki verið guð og hann álítur hjátrú að dýrka þessa persónu. Er líklegt að liðlega 80 ára goðsögn geti haft slík áhrif á fólk eins og lýst er í textanum? Það er nú frekar ólíklegt. Engar hugleiðingar eða vangaveltur koma fram hjá Pliníusi um hvað þessi Kristur sé þrátt fyrir það að bréfið sé skrifað til að leita ráða. Þó hann sé í vafa um sumt þá er ekki neinn efi merkjanlegur hjá honum um það. Líklegasta skýringin er því að hér sé verið að lýsa manni.

Þér er hugsanlega að yfirsjást það að Testimonium Flavianum er nafn á efnisgrein í bókinni Antiquitates Judaicae.

Ég get ekki betur séð en að Testimonium Flavianum sé bara þessi þekkta tiltekna efnisgrein. Orðin „a man named James, the brother of Jesus, who was called the Christ“ falla því utan við vangaveltur um fölsun á TF. Ef það er samt svo að Barker álítur allt ritið vera falsað vegna þess að fræðimenn álíti eina efnisgrein vera falsaða, hvað er það þá annað en dæmi um oftúlkun?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 19/04/07 19:20 #

Ef það er samt svo að Barker álítur allt ritið vera falsað vegna þess að fræðimenn álíti eina efnisgrein vera falsaða, hvað er það þá annað en dæmi um oftúlkun?

Ég veit ekki til þess að Barker hafi haldið því fram að Antiquitates Judaicae sé í heild sinni fölsun, einungis að TF sé annaðhvort seinni tíma viðbót eða mikið breytt frá upprunalega textanum.

Síðari tíma heimildir, ef þær eru marktækar, segja einungis frá því að kristnir menn hafi verið uppi á annarri öld. Það er ekki heimild fyrir tilvist Jesú, það er heimild fyrir tilvist kristinna manna. Ég held að enginn efist um að kristni hafi verið til sem trúarbragð á þessum tímum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/04/07 21:26 #

Fyrst Pliníus: Efnisgreinin lýsir persónu sem að mati Pliníusar getur ekki verið guð og hann álítur hjátrú að dýrka þessa persónu.

Ragnar, hvað áttu við með orðinu "persónu"? Ef þú átt við "manneskja", þá kemur það hvergi fram í textanum.

Er líklegt að liðlega 80 ára goðsögn geti haft slík áhrif á fólk eins og lýst er í textanum? Það er nú frekar ólíklegt.

Virkilega? Hefurðu kynnt þér sögu mormóna? Af hverju segirðu að nýlegar goðsagnir geti ekki haft áhrif á fólk?

Engar hugleiðingar eða vangaveltur koma fram hjá Pliníusi um hvað þessi Kristur sé þrátt fyrir það að bréfið sé skrifað til að leita ráða. Þó hann sé í vafa um sumt þá er ekki neinn efi merkjanlegur hjá honum um það. Líklegasta skýringin er því að hér sé verið að lýsa manni.

Ég skil þetta ekki. Pliníus skrifar ekkert um það hver þessi Kristur er og þar af leiðandi er hann líklega að lýsa manni?

Ég get ekki betur séð en að Testimonium Flavianum sé bara þessi þekkta tiltekna efnisgrein.

Já. Eins og ég var að benda á.

Orðin „a man named James, the brother of Jesus, who was called the Christ“ falla því utan við vangaveltur um fölsun á TF.

Nei. Þrátt fyrir að vera ekki hluti af TF þá verður þessi setning "grunsamlegri" án TF.

Ef það er samt svo að Barker álítur allt ritið vera falsað vegna þess að fræðimenn álíti eina efnisgrein vera falsaða, hvað er það þá annað en dæmi um oftúlkun?

Til að byrja með held ég að Barker hafi ekki rætt um þessi tvö orð. Það er enginn að halda því fram að allt ritið hans Jósefusar sé falsað. Ef heil efnisgrein um Jesús er fölsuð, þá er ekki undarlegt að efast um tvö orð sem koma rétt á eftir efnisgreininni. Þau gætu vel verið marginalia (athugasemdir sem voru til hliðar) sem var síðan bætt í textann.

Eitt sem bendir til þess er til dæmis hvernig röðunin á orðunum er, ólíkt ensku tilvitnuninni sem þú komst með (" „a man named James, the brother of Jesus, who was called the Christ“) er fyrst talað um Jesú: "bróðir Jesú, kallaður kristur, sem hét Jakob".

En hérna er hægt að lesa helling um TF og þessi tvö litlu orð.


Ragnar Geir Brynjólfsson - 20/04/07 22:08 #

Ef heil efnisgrein um Jesús er fölsuð, þá er ekki undarlegt að efast um tvö orð sem koma rétt á eftir efnisgreininni.
Koma þessi orð rétt á eftir efnisgreininni TF? Ég ætla mér ekki að álykta neitt eða andmæla ykkur í neinu öðru um þetta annað en það sem ég hef heimildir fyrir frá fræðimönnum. Ég er sjálfur aðeins áhugamaður sem tíni til heimildir sem ég tel trúverðugar þangað til annað kemur í ljós. Tilvitnunin í Yamauchi er ekki fölsun. Þetta er hans álit, ég er með bókina í höndunum og get vísað á hana á Amazon: [1]


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 23/04/07 14:27 #

Koma þessi orð rétt á eftir efnisgreininni TF?

Það fer eftir því hvernig þú skilgreinir "rétt á eftir". Þú getur lesið allt um þetta á vísuninni í siðustu athugasemd minni.

Tilvitnunin í Yamauchi er ekki fölsun. Þetta er hans álit, ég er með bókina í höndunum og get vísað á hana á Amazon: [1]

Ragnar, ég er viss um að þessi Yamauchi veit ekki af neinum fræðimanni hefur tekist að sýna fram á það á þann hátt sem Yamauchi finnst sannfærandi að þessi orð hafi ekki verið upprunaleg. Mér finnst satt best að segja ansi óáhugavert hvað honum finnst um það. Ég hef miklu meiri áhuga á rökunum fyrir og gegn því að þessi orð hafi ekki verið upprunaleg.


Sindri Guðjónsson - 23/04/07 17:50 #

Ég vil þakka Lárusi Viðari fyrir það framtak að þýða þessa grein. Ég vissi nú ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég las hana, ég bjóst við meiru af Dan... hinum “vígða” hvítasunnupresti og tónlistarmanni. Eitthvað hefur námið farið fyrir ofan garð og neðan, þó að inn á milli hafi hann rétt fyrir sér.

Páll og Jesús

Dan segir Pál postula líta á Krist sem yfirnáttúrulega veru, ekki sögulega persónu af holdi og blóði. Engu að síður segir Páll Krist hafa lægt sig og gerst mann í stuttan tíma, hafa borðað kvöldmáltíðina með lærisveinum sínum, hafa verið krossfestan, hafa risið upp frá dauðum, ,,því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina MANNI, Jesú Kristi” (Róm 5:15) o.s.frv. Ég nenni ekki að ræða túlkanir “Jesus myth” kenningarmanna á Páli postula mjög ítarlega hér – þær eru í langsóttara lagi.
Líkt og sköpunarvísindamenn eru gervivísindamenn raunvísindanna, þá eru “Jesú goðsagnarsinnar” gervivísindamenn Nýja Testamentisfræða. Dan segir: “fjöldi harðra goðsagnasinna er örsmár minnihlutahópur meðal fræðimanna.” Þetta er rétt og ekki af ástæðulausu. Takið eftir því að fjöldi ung jarðar sinna er líka örsmár minnihlutahópur meðal jarðfræðinga. Þetta eru ekki gæfulegir minnihlutahópar. Dan segir þá Jesú og Pál hafa greint á og nefnir sem dæmi að Jesús hafi leyft skilnaði, en Páll ekki. Staðreyndin er sú að báðir banna skilnaði nema í undantekningar tilvikum. Þetta er nokkuð ljóst.

Goðsagnir

Já, það eru til goðsagnir um guði sem hafa dáið og risið upp. Engin þeirra sem ég hef enn skoðað gerist á neinum ákveðnum tímapunkti í sögunni, bara “einhvern tímann” í fyrndinni. Frásögn guðspjallanna um Jesús gerist ákveðnum tímapunkti í sögunni, og persónur sögunnar eru alvöru sögulegar persónur (ólíkt því sem á sér stað í goðsögnunum). Jesús fæðist þegar Águstus var keisari, og Heródes mikli réð ríkjum í Júdeu og Galíleu, hann var krossfestur af Pontíusi Pílatusi, hann starfaði á meðan Tíberías var keisari o.s.frv. Regin munur að þessu leyti á frásögnum um Jesú og goðsögnum.

Pétursguðspjall. SHIT!

Til að byrja með finnst mér fráleitt að telja upprisu frásögn Jóhannesarguðspjalls vera ýktari en frásögn Pétursguðspjalls. Í Pétursguðspjalli eru ALLIR Farísearnir og fræðimennirnir og æðstu prestarnir að vakta gröfina (þó að gyðingar hafi verið meinilla við grafreiti og talið þá vanheilaga og þeir hafi þurft að dvelja þarna á hvíldardegi), á henni eru sjö innsigli, englarnir eru með svo stór höfuð að þau ná til himins. Jesús er með svo stóran haus þegar hann rís upp frá dauðum að hann nær upp fyrir himinn. Á eftir Jesús kemur stór talandi kross skoppandi út úr gröfinni... þessi frásögn slátrar upprisu frásögn Jóhannesarguðspjalls í ævintýraheitum. Annað: Hvernig dettur Dan í hug að segja að Pétursguðspjall sé frá árunum 85-90?? Pétursguðspjall er yfirleitt talið vera skrifað í kringum árið 170. Crossan, guðfræðiprófessor við Harvard, og einn aðalkarlinn í the “Jesus Seminar”, sem hefur áætlað apókrífu guðspjöllin ævintýralega gömul, t.d. að Tómasarguðspjall sé frá 60-70, (meðan að aðrir tala um árin í kringum 180) treystir sér ekki til að dagsetja Pétursguðspjall fyrr en árið 150. Ég veit ekki um neinn sem reynir að færa guðspjallið lengra aftur en svo. Dan hefði gert betur með að dagsetja Pétur árið 170, og þá hefði hann réttilega getað borið guðspjöllin saman, og sagt með réttu að ótrúlegir hlutir bætist á söguna eftir því sem árin líða.

Mótsagnir

Það er ekki hægt að samræma allar mótsagnirnar. Sumar er hægt að samræma. Menn geta skoðað síður trúvarnarmanna sem reyna að samræma allar mótsagnirnar, og dæma svo hver fyrir sig hverjar eru samræmanlegar og hverjar ekki.

Ég hef því miður ekki getað gefið mér tíma til að lesa umræðuna sem hefur fylgt greininni, en ég er mjög upptekinn núna í ritgerðasmíðum, biðst afsökunar, vona að ég sé ekki að segja eitthvað sem búið er að segja áður.

Appendix – Hér kemur meira um Pál og Jesú, en er í sjálfu sér aðeins út fyrir efnið – og ekki nauðsynlegt að lesa svo sem:

Það er rétt að Páll hitti Jesú aðeins í sýn. Hann þekkti líklega ekki mikið til ævi hans.En mér finnst Páll og Jesús segja meira og minna sömu hlutina. Ég renndi á hundavaði yfir Rómverjabréfið 12-16, sem ég valdi af handahófi til samanburðar á Jesú og Páli: “Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki” (12:14), “Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka.” (Rom 12:20). “Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber” (Róm 13:6). “Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: ,,þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þá skalt ekki girnast,” og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: ,,þú skalt elska náung þinn eins og sjálfan þig.” (13:8-9) – Ég fæ ekki betur séð að Páll og Jesús segi meira og minna báðir það sama, en með öðrum orðum... kannski inspíreraðir af einum og sama Anda? Rómverjabréfið 15:3 segir ,,Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig” einnig segir Páll þar um Jesú ,,Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér” og vitnar í Sálm 69, líkt og víða er gert t.d. bæði í Markúsarguðspjalli í tengslum við krossfestinguna, og í Jóhannesi 2:17. Hverjir áttu að hafa lastmælt andaverunni Jesúsi?
Páll segir Krist vera orðinn þjónn hinna umskornu (15:8), líkt og Jesús segir sjálfur í Guðspjöllunum, að hann sé sendur til gyðinganna, til að þjóna fyrst og fremst gyðingunum (sést t.d í Matteusi 15:21-28 þegar hann vildi ekki hjálpa kanverskri konu þar sem hún væri ekki gyðingur. Kallar gyðinga börn en útlendinga hunda).
Páll talar um ,,fagnaðarerindið” um Krist, líkt og Guðspjöllin, sjá t.d Mark 16:15.
Jóhannes 3:36 segir að sá sem trúir muni frelsast, en þeir sem óhlýðnist muni fyrirdæmast – og Páll talar um að vekja hlýðni við trúanna víða í Róm 15 og 16 (s.s. trú er hlýni vs vantrú er óhlýðni)
Í stuttu máli finnst mér Róm 12-16 (valið af handahófi, það er ekki pláss til að fara hér yfir heilu og hálfu bréfin hans Páls) og Guðspjöllin samhljóma. Að lokum: Páll kallar Guð “Abba” líkt og Jesús gerir í Getsemane, sem er óformlegt aramískt orð sem þýðir ,,pabbi” – ég þekki enga aðra en þá “félaga” Jesú og Pál sem það gera. Aramískar bænir frá þessum tíma, sem líkjast mjög faðirvorinu, tala allar um Guð í 3. persónu. Ég hef séð bjartsýna menn halda því fram að Páll hafi þar af leiðandi þekkt písla bænastund Jesú í Getsemane garðinum ;-)


Sindri Guðjónsson - 25/04/07 15:23 #

Ég var að lesa greinina sem Mofi vísaði í varðandi mótsagnirnar, og hún er að mörgu leyti skrambi góð: http://www.tektonics.org/qt/rezrvw.html


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/04/07 18:03 #

Vil vekja athygli á því að þessi þýðing var samvinnuverkefni okkar Hjalta.

Það eru nokkur atriði sem ég vil árétta í sambandi við athugasemd Sindra G. Þessi grein Barkers er fyrir mér góð og gild. Hún dregur saman nokkur mikilvæg atriði, svosem hversvegna kraftaverk geta ekki verið á hendi sagnfræðinnar, allavega hjá þeim sagnfræðingum sem vilja láta taka sig alvarlega. Einnig færir hann fyrir því góð rök hvers vegna upprisan er líklegast goðsögn sem komst á kreik eftir daga Jesú.

Ég er sammála því sem Hjalti hefur þegar minnst á hér að ofan að kaflinn "Var Jesús til" er í rauninni óþarfur í þessari grein. Það er í raun önnur umræða hvort að maðurinn Jesús hafi verið til. Hér er verið að ræða upprisuna og hvers vegna það er líklegast að hún sé goðsögn, þó að e.t.v. hafi einhver Jesús verið krossfestur fyrir villutrú á fyrstu öld á þessum slóðum.

SG segir að það sem greinir að sögurnar um Jesús og aðrar samsvarandi um aðra syni guðanna er föst tímasetning atburðanna í guðspjöllunum. Það má vera rétt en það dregur ekki úr mikilvægi þess að mörg atriði í lífi Jesú eru líklegast komin frá öðrum goðsögum. Síðan blandast þetta saman í einn graut líkt og algengt er um trúarbrögð, margir þættir koma saman í einn átrúnað. Mörg dæmi eru um þetta í mannkynssögunni, t.d. frá þeim tímum þegar verið var að kristna Ameríku.

Pétursguðspjall er kannski fyrir okkur mjög undarlegt í frásögn sinni en samt sem áður eru atburðirnir sem sagt er frá þar ekkert ólíklegri en margt annað í Biblíunni. Nægir þar að nefna Jónas í hvalnum og klofnun Rauðahafsins. Ef Pétursguðspjall hafði frá upphafi verið hluti af regluritasafninu væri ekkert skrítið við atburðarásina fyrir margan trúmanninn, sérstaklega ef hann væri vopnaður vasaljósi Krists og færni í að skilja myndlíkingar.

Barker fór þá leið að telja undarlega atburði í guðspjöllunum. Það er ekkert stórkostlega skrítið við það að farísearnir, fræðimennirnir og prestarnir séu við gröfina né að hún sé lokuð með sjö innsiglum. Það er eitthvað sem gæti mögulega hafa gerst, engin yfirnáttúra þar á ferð. Því hefur hann ekki talið það með.

Aldur Pétursguðspjalls er óljós. Sumar vefir eins og earlychristianwritings.com vilja hafa það frá árunum 70-160, aðrar setja það síðar eins og þessi fræðimaður sem SG vitnar til. Barker setur það á árin 85-90, það er eflaust hægt að rökræða þá tímasetningu endalaust en hann er allavega ekki einn um að tímasetja það þannig.

Það að Jesús og Páll virðast fylgja sömu hugmyndafræðinni er ekkert skrítið fyrir mér þar sem þeir eiga jú að hafa verið sömu trúar. Eftir stendur að Páll minnist aldrei á nein verka Jesú að kraftaverk í bréfunum, jafnvel þegar það hefði verið hentugt fyrir málflutning hans. Það er eitthvað sem mér finnst umhugsunarvert.


Sindri Guðjónsson - 25/04/07 20:28 #

Ég vil fyrst biðja Hjalta Rúnar auðmjúklegrar afsökunar. :-) Ég sá ekki nafnið þitt þarna!

Það er stórkostlega skrítið ef að allir farísearenir, fræðimennirnir og prestarnir séu farnir að varðveita grafir í andstöðu við trúarlögmál sín. Er ekki betra að hafa tvo rómverska hermenn á vakt? Þetta er klárt merki um viðbætur í þágu trúvarnar (þeir sáu allir að hann reis upp svo hann hlýtur að hafa gert það!).

Auk þess höfum við bara lítið bort af Pétursguðspjalli, og hver veit hvað það finnast margar fleiri sögur af stórundarlegum atburðum í tengslum við upprisuna í upprunalegri frásögn?

Hvort að höfuð sem ná til himins og talandi krossar séu líklegri eða ólíklegri en sagan af Jónasi í stórfisknum eða klofnun rauðahafsins kemur málinu ekkert við. Er sagan líklegri eða ólíklegri en sagan sem gerist í Jóhannesarguðspjalli? Það er spurningin.

Sumir fræðimenn hafa tilhneigingu til að reyna að færa guðspjöllin sem ekki eru í N.T. aftur til fyrstu aldar, þó að þau séu öll skrifuð á annarri öld eða síðar. Þetta er til að sanna að í upphafi hafi verið margir "kristindómar". Ég tek kannski einhvertíma syrpu á spjallborðinu um það hvers vegna Tómasar, Júdasar, Pétursguðspjall, Maríuguðspjall o.s.frv. eru öll skrifuð löngu seinna en Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes.

Hins vegar verða efahyggju menn að ákveða hvort þeir ætli að borða kökuna eða geyma hana í þessum efnum. Ef að þeir dagsetja öll "auka" guðspjöllin eins snemma og raun ber vitni fer að verða erfiðara og erfiðara að halda goðsagnarkenningunni á lofti. Crossan telur t.d. að 6 guðspjöll utan nýja testamenntisins séu til frá c.a. 50, og önnur 6 frá c.a. 60-80, og þá sjáum við hvers vegna hann getur ekki aðhyllst goðsagnarkenninguna. Hann er kominn með svo marga votta fyrir tilvist Jesú.


Sindri Guðjónsson - 25/04/07 20:51 #

Já, af því að ég var að tala um hvað Crossan er graður í 1.aldar guðspjöll, þá er athyglisvert að hann sér sér ekki fært að hafa Pétursguðspjall í þeirra hópi. Annað þegar að hann telur 6 guðspjöll vera frá c.a. 50-80, þá er hann ekki að meina t.d. "Q" fyrir þá sem vita hvað ég er að tala um.


Sindri Guðjónsson - 25/04/07 20:53 #

hann telur 12 guðspjöll sem ekki eru í N.T. vera frá c.a. 50-80.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/04/07 21:04 #

Páll og Jesús

Þegar þú segir að Páll hafi sagt að Jesús hafi "lægt sig og gerst mann í stuttan tíma", ertu þá að vísa í Fl 2.6-11? Varðandi það að Jesús hafi verið maður þá var á þessum tíma til hugmynd um himneskan mann, t.d. í ritum Fílóns.

Páll segir ekki að hann hafi borðað kvöldmáltíðina með lærisveinunum (það orð kemur að ég held aldrei nokkurn tímann hjá Páli). Síðan er spurning hvort sá hluti (ef hann var þarna upphaflega) geti ekki einfaldlega verið goðsaga til þess að útskýra tilkomu kvöldmáltíðarinnar. Varðandi krossfestinguna þá ganga þær goðsögukenningar sem ég hef skoðað örlítið út á það að Jesús hafi verið krossfestur á himnum.

Goðsagnir

Og tengir Páll Jesú við ákveðinn tímapunkt í sögunni og persónur sögunnar hjá honum alvöru sögulegar persónur?

Pétursguðspjall

Það má auðvitað deila um það hvenær þetta guðspjall var skrifað og hversu mikið af ótrúverðugu efni er í því. En ef við samþykktum það sem þú talar um, að það væri yngra og ýktara, þá myndum við halda þessari fallegu kúrfu.

Appendix

Það er rétt að í guðspjöllunum er Jesús látinn segja ýmislegt sem svipar til margs af því sem Páll skrifar í bréfunum sínum. Það má útskýra það á ýmsan hátt. Minna fer af vísunum til æfi Jesú, t.d. segir Páll aldrei frá neinni dæmisögu eða kraftaverki.

Þetta er klárt merki um viðbætur í þágu trúvarnar (þeir sáu allir að hann reis upp svo hann hlýtur að hafa gert það!).

Áhugavert. Myndir þú líka telja að frásögnin í Mt af vörðunum (sem er ekki í hinum guðspjöllunum) sé "viðbót í þágu trúvarnar"?

Ég tek kannski einhvertíma syrpu á spjallborðinu um það hvers vegna Tómasar, Júdasar, Pétursguðspjall, Maríuguðspjall o.s.frv. eru öll skrifuð löngu seinna en Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes.

Ég hefði nú mestan áhuga á að sjá þig "afgreiða" Tómasarguðspjall.

Ég skil ekki alveg hvað þú átt við með Rm 15.3, er ekki hægt að "lastmæla" andaverum?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 25/04/07 21:10 #

Barker taldi einungis atburði sem teljast yfirnáttúrulegir í samanburði sínum s.s. talandi krossar, upprisa dauðra manna, Jesús hverfur og birtist sitt á hvað o.s.frv. Þó að hópur manna hafi safnast saman við gröfina er það ekki yfirnáttúrulegur atburður, þó að hann sé vissulega skrítinn.

Það má vissulega deila um hvort að það hafi verið réttmætt að hafa Pétursguðspjall með í þessum samanburði þar sem það er illa varðveitt.

Hins vegar verða efahyggju menn að ákveða hvort þeir ætli að borða kökuna eða geyma hana í þessum efnum. Ef að þeir dagsetja öll "auka" guðspjöllin eins snemma og raun ber vitni fer að verða erfiðara og erfiðara að halda goðsagnarkenningunni á lofti.

Ég er ekki sammála því. Það er vel rökstutt með dæmum í greininni hvernig goðsagnir ná sér ótrúlega fljótt á flug.

Crossan telur t.d. að 6 guðspjöll utan nýja testamenntisins séu til frá c.a. 50, og önnur 6 frá c.a. 60-80, og þá sjáum við hvers vegna hann getur ekki aðhyllst goðsagnarkenninguna. Hann er kominn með svo marga votta fyrir tilvist Jesú.

Athugaðir þú að meðalævilengd manna var mun styttri á þessum tímum?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/04/07 21:17 #

Ég var að lesa greinina sem Mofi vísaði í varðandi mótsagnirnar, og hún er að mörgu leyti skrambi góð: http://www.tektonics.org/qt/rezrvw.html

Ég er ósammála. Það sem ég hef skoðað af greininni er ansi slappt, t.d. að þögn kvennanna í Mk 16:8 sé "augljóslega ekki varanleg". Greinarhöfundurinn trúir því einfaldlega að það sé ekki ein einasta mótsögn eða villa í biblíunni og reynir hvað sem hann getur til þess að bjarga þeirri skoðun.


Sindri Guðjónsson - 25/04/07 22:46 #

Hjalti skrifar

ef við samþykktum það sem þú talar um, að það (Pétursguðspjall, innskot Sindra) væri yngra og ýktara, þá myndum við halda þessari fallegu kúrfu.

Nákvæmlega! Og þess vegna skil ég alls ekki þennan sauðshátt hjá Dan. Punkturinn hans er góður og gildur, ef að hann heldur sig við það sem flestir guðfræðingar segðu um Pétursguðspjall. Hann finnur sig samt knúinn til að styðjast við bullguðfræði og staðsetur Pétur á milli 85-90.

Páll tengir Jesús ekki við ákveðin tímapunkt í sögunni, en þó ef til vill óbeint í tengslum við nokkrar sögulegar persónur (t.d. Pétur). Það eru guðspjöllin sem ég er að tala um að tengi söguna um Jesú við sögulegan ákveðin tíma, með ákveðnu sögulegu fólki.

Varðandi Pál og Jesú, þá þarf að átta sig á því að Páll var ekki tvíhyggju Gnosti. (Ég mæli með “Paul the Jewish Theologian” og “Paul: In Fresh Perspective”)

Gnostar töldu Jahve vera vondan, illan guð, og allt honum tengt illt, meðal annars hebresku ritningarnar, og allt hebreskt. Gnostar koma ekki fram í dagsljósið fyrir alvöru fyrr en eftir daga Páls. Hér verð ég að fjalla t.d. um Tómasarguðspjall til að styðja mál mitt. Ég tel að það sé hægt að sína fram á það með óhyggjandi hætti að það sé skrifað í síðasta fjórðungi annarra aldar eða síðar. Flestir líta þannig á málið. Dæmi um menn sem eru sammála mér eru t.d. James H. Charlesworh prófessor í Nýja Testamenntisfræðum og bókmenntum í Princeton, John P. Meier, prófessor hjá Notre Dame, og besti “vinur” minn Craig A Evans o.s.frv. o.s.frv. Það skiptir hins vegar litlu máli hversu margir eru sammála mér, því að menn kjósa ekki um sannleikann. Rökin eru skýr, en verða ekki útlistuð í stuttu máli. Ég verð því miður að upplýsa þig um þau síðar. Ég er að skrifa um mál Atlantsskipa gegn Íslenska ríkinu núna 

Varðandi verðina í Matteusi, þá gætu það alveg eins verið trúvarnar viðbætur.

Það koma víst fram góðir punktar hjá J.P. Holding. Reyndar mjög góðir, varðandi pláss leysi, og dýr skrif. Það skiptir líka miklu máli að við erum ekki að tala um sagnfræðibækur eins og þær hafa verið á vesturlöndum síðan eftir Upplýsingu. Þetta eru gerólíkar bókmenntir. (Hann er meira segja einn “block logic punkt” kalppi klapp!). Hann er hins vegar fjandans “fundy”, og fer stundum í vesens bull útaf því.


Sindri Guðjónsson - 25/04/07 23:17 #

þögn kvennanna í Mk 16:8 sé "augljóslega ekki varanleg".

hum? Ég er reyndar hjartanlega sammála Holding þarnar, og ósammála þér Hjalti. Þögn þeirra er augljóslega ekki varanleg. Hvernig vissu menn annars hvað þær sáu, ef þær sögðu engum frá því?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.