Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dapurleg og snauð páskaræða

Fólk

Það á að sjálfsögðu að ekki koma okkur í Vantrú á óvart þegar prestar útvarpa áróðri um heimska, illa og siðlausa trúleysingja í trúarathöfnum sínum, það gerist reglulega. Samt verður við alltaf dálítið hissa þegar virtir ríkiskirkjuprestar leggjast á þetta plan.

Sólveig Lára Guðmundsdóttir, ríkiskirkjuprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal, lagði sitt af mörkum í áróðursstríði kirkjunnar gegn trúleysi um páskana. Í páskaræðunni fjallaði Sólveg Lára um samband "vonar" og "trúar". Hún spyr hvort fólk getið átt von um að eignast eilíft líf og hvort hægt sé að trúa því að lífið haldi áfram eftir að hjartað hættir að slá. Svo segir Sólveig Lára:

Við getum ekki vitað að upprisa Jesú hafi átt sér stað, en við getum vonað það og við getum trúað því. Það gefur lífinu gildi. Ég hef kynnst trúlausu fólki á lífsleiðinni. Ég hef kynnst fólki sem á ekki von. Það er dapurlegt líf og snautt af þeim víddum sem trúin gefur okkur. En ég hef líka kynnst fólki sem á von og trú og það er dýrmætt sérstaklega við dánarbeð að upplifa hversu mikið það gefur hinum deyjandi að eiga von og trú á að Jesús taki í hönd þeirra á dauðstundinni og taki við þeim í faðm sinn.

Þetta eru ekki fallegar páskakveðjur sem stór hluti landsmanna fær frá talsmanni „kærleikans“. Það er erfitt að lesa annað úr þessu en það sé hreinlega óeðlilegt að vera án trúar. Að í gegnum trúna á Krist öðlist fólk „sannar“ tilfinningar.

Páskaræða Sólveigar Láru rímar við fordómafull orð fráfarandi biskups:

Það er til trúlaus maður og það er ekki gott. Það eru líka til siðlausir menn. En trú er manninum eðlislæg og trúlaus maður er sá sem hefur slitið á það sem er manninum helgast.

Gleymum ekki að Karl telur trúleysi ógna mannlegu samfélagi.

Trúleysingjar eru ekki vélmenni, þeir eru ekki tómar skeljar utan um gleði- og tilfinningasnautt hugarþel. Þeir, rétt eins og allir aðrir, upplifa gleði, sorg, ást, hatur, reiði og allar þær náttúrulegu tilfinningar sem nafni er hægt að nefna. Fólk getur meira að segja dáið með reisn án þess að aðhyllast trúarbrögð. Það er leiðinlegt að þurfa ítrekað að sitja undir því að kristnir eigi einkarétt á ákveðnum tilfinningum.

Kannski segir það margt um hversu öruggt þetta fólk er í trú sinni.

Ritstjórn 11.04.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Vísun )

Viðbrögð


Björn I - 11/04/12 16:50 #

Ég hef kynnst svörtu fólki á lífsleiðinni. Ég hef kynnst fólki sem á ekki von. Það er dapurlegt líf og snautt af þeim víddum sem hvítan gefur okkur.

Ég hef kynnst gyðingum á lífsleiðinni. Ég hef kynnst fólki sem á ekki von. Það er dapurlegt líf og snautt af þeim víddum sem kristnin gefur okkur.

Ég hef kynnst samkynhneigðum á lífsleiðinni. Ég hef kynnst fólki sem á ekki von. Það er dapurlegt líf og snautt af þeim víddum sem gagnkynhneigð gefur okkur.

Ég hef kynnst konum á lífsleiðinni. Ég hef kynnst fólki sem á ekki von. Það er dapurlegt líf og snautt af þeim víddum sem karlmennskan gefur okkur.

o.s.frv...

Ég hef kynnst fordómafullum presti og ég vil ekki borga honum launin sín.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/12 17:34 #

Ég hef talað við heimskt fólk. Ég hef talað við presta. Þannig er nú það.


Halldór L. - 11/04/12 19:36 #

einstaklega aumingjalega lágkúrulegt þegar prestar líta niður á trúlausa og fela sig síðan ofan í við-erum-að-tala-um-von-skurðinum


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 12/04/12 08:23 #

Prestar eru samir við sig ... en mikið hroðalega var þetta annars léleg predikun. Ef hún hefur verið flutt með sömu væmnislegu helgislepju og hún er skrifuð þá hefur prestlingan lagt verulega að mörkum til framgangs vantrúar á Íslandi.

Vonandi var henni útvarpað?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 11:19 #

Ætli þessi bloggfærsla Sólveigar Láru sé andsvar hennar?

En hugsum aðeins um raunveruleika efasemdarfólks. Efasemdarfólk hefur daginn á því að setjast við tölvur sínar og lesa bréf sem einhver annars staðar á landinu eða jafnvel í fjarlægum löndum hefur skrifað þá um morguninn. Bréfin skila sér eftir einhverjum ósýnilegum leiðum. Efasemdarfólkið kveikir ljós og ristar brauð með tækjum sem eru knúin af ósýnilegu rafmagni. Efasemdarfólk talar í gemsana sína og á skype-inu með ósýnilegum þræði yfir lönd og álfur. En efasemdarfólkið trúir ekki á Jesú nema það fái að snerta og koma við sárin.

Ég skal með ánægju útskýra fyrir Sólveigu Láru hvernig rafmagn, tölvur, internetið og Skype virka. Það er óskaplega fátt dularfullt við það.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 11:33 #

Svona til að sýna fram á hvers vegna þetta ætti ekki að koma okkur á óvart, þá eru þetta t.d. önnur ummæli ríkiskirkjuprests frá 2012:

Án Jesú er lífið innihaldslaust og flatt- nánast merkingarlaust þegar að er gáð; þegar Jesús kemur inn í lífið verður það líf í gnæð og gleði. #


ArnarG (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 11:48 #

Við sem sagt getum ekki snert netið eða rafmagnið og þess vegna hlýtur Jesú að vera til?! Ég er augljóslega hræsnari að sjá þetta ekki.


Jommi - 15/04/12 19:30 #

Ég póstaði athugasemd við færslu Sólveigar Láru. Hún hefur ekki enn samþykkt hana (reyndar ekki nema c.a. 4 klst síðan ég póstaði, en hún hefur þó, síðan þá, ritað nýja færslu.). Anyway.

Athugasemd mín voru þessar þrjár línur:

Tvær athugasemdir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Electricity

http://en.wikipedia.org/wiki/Internet :)

Sjáum hvað tíminn leiðir í ljós. Kannski samþykkir hún athugasemdina, kannski ekki...


Halldór L. - 15/04/12 19:49 #

ég er enn að bíða eftir að hún samþykki athugasemdir mínar síðan á föstudaginn

hlekkur á amazon.com: Electronics for dummies og önnur um afhverju maður þurfi ekki að efast um tilvist rafmagns en hollt sé að efast um arabískar afturgöngur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.