Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Akademískur heiður

Kettlingar

Undanfarin misseri hefur Háskóli Íslands verið að vandræðast með kæru Vantrúar vegna umfjöllunar um félagið í námsskeiði sem kennt hefur verið við Guðfræðideild skólans. Siðanefndir hafa komið og farið, rannsóknarnefndir hafa verið skipaðar en engin efnisleg niðurstaða hefur fengist í málið þrátt fyrir að málið sé í eðli sínu ákaflega einfalt.

Trúmenn = hálfvitar?

Telja má líklegt að stærsta ástæðan fyrir því að engin efnisleg niðurstaða hafi fengist í málinu sé upphlaup nokkurra starfsmanna HÍ. Starfsmenn þessir segjast vera að reyna að vernda og verja akademískt frelsi, bæði stundakennarans sem um ræðir og einnig almennt. Þeir fengu svo 40 fræðimenn úr íslenska fræðasamfélaginu til þess að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við stundakennarann sem kvartað var yfir. Þar lýstu þessir 40 fræðimenn því yfir að þeir teldu að vinnubrögðin sem viðhöfð voru í námskeiðinu hefðu verið í lagi.

Við skulum líta á eitt dæmi um vinnubrögðin sem 40-menningarnir telja uppfylla akademískar kröfur. Eftirfarandi tilvitnun er tekin úr glæru úr námskeiðinu:

Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem ... móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.

Nákvæmlega svona lítur tilvitnunin út á glæru stundakennarans. Við skulum líta á hvernig tilvitnunin er án úrfellingarinnar:

Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem halda að þeir geti vaðið uppi í þessu samfélagi, hrópandi yfirlýsingar í allar áttir. Hótandi mönnum heljarvist og eilífðar- kvölum... og móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.

Þessar tvær tilvitnanir hafa gjörólíkar merkingar. Merking þeirrar fyrri er algjör tilbúningur stundakennarans Bjarna Randvers. Hann gerir einstaklingi sem hann er að fjalla um í námi við Háskóla Íslands upp allt aðra skoðun en hann var raunverulega að setja fram. Hann lagfærir gögnin til þess að þau passi við þá ímynd sem hann dregur upp af viðfangsefninu í námskeiðinu.

Vafasöm vinnubrögð Bjarna Randvers

Bjarni Randver hefur haldið því fram að hann sé að benda á að sá sem vitnað er í sé orðin þreyttur á því að menn móðgist þegar þeir eru kallaðir hálfvitar, að þarna sé hann að draga fram ákveðna orðræðu. En þó það sé raunin þá var samt sem áður ófaglegt að draga þessa tilvitnun fram án samhengis og að breyta merkingu hennar á þann hátt sem gert var. Með því að breyta tilvitnuninni á þennan hátt var Bjarni Randver að ýta undir ákveðna ímynd af þeim sem vitnað var í og félagsskapnum sem hann tilheyrir. Ímynd sem Bjarna Randveri virðist vera mikið í mun að festa í sessi.

Það er hægt að taka fleiri dæmi um skrýtin vinnubrögð Bjarna þegar kemur að félaginu Vantrú. Af hverju vitnar hann ekki í skrif félagsmanna á vefrit félagsins sjálfs í stað þess að elta uppi bloggsíður og jafnvel athugasemdir á bloggsíðum? Af hverju vitnar hann jafnvel í athugasemdir af bloggsíðum meðlima sem eru ekki skrifaðar af meðlimum félagsins? Og er almennt í lagi í fræðasamfélagi við íslenska háskóla að brjótast inn, eða að fá einhvern til að gera það fyrir sig, á lokuð umræðusvæði á netinu, stela þaðan trúnaðargögnum og dreifa þeim hingað og þangað (eftir að hafa klippt þau til af sömu natni og umhyggju fyrir sannleikanum og sést á tilvitnuninni hér fyrir ofan) um samfélagið til þess að ráðast gegn þeim sem fara með kvörtun í lögformlegt ferli?

Er þetta það akademíska frelsi sem allt er lagt undir til þess að verja? Og er ekki til eitthvað sem heitir akademískur heiður?

Egill Óskarsson 01.02.2012
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/02/12 12:55 #

Svo ég útskýri þetta enn og aftur. Ég er ekki og hef aldrei verið leiður á fólki sem móðgast þegar það er kallað "hálfviti". Þvert á móti tel ég eðlilegt að fólk móðgist við slíkt tilefni.

Það sem ég var að reyna segja í þessari athugasemd á spjallborðum Vísis var: "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum". Í þessum umræðum voru trúmenn sem "drulluðu" hiklaust yfir aðra en urðu afar móðgaðir þegar "drullað" var yfir þá. Það þótti nefnilega frekar mikið tabú að skammast í trúmönnum á þessum árum, þó ekki séu nema tíu ár síðan hefur umræðan breyst nokkuð.

Þannig að fræðileg úttekt Bjarna Randvers, sem hann imprar á í greinargerð sinni, er gjörsamnlega út í hött. Skiljanlega, Bjarni Randver sá þessi ummæli aldrei í upphaflegu samhengi, hann sá einungis vitnað í þau á bloggsíðu og klippti þau til svo hann gæti látið mig líta illa út. Þetta er ekki eina skiptið þar sem hann hefur gert það. Staðreyndin er að í áratug hefur þessi einstaklingur safnað saman ummælum eftir mig og aðra trúleysingja til að geta notað gegn okkur. Samhengið skiptir aldrei máli. Ef einhver drullar yfir mig kemst það í möppuna ef ég svara með sama hætti, en samhengið fylgir ekki með.

Það að hópur fræðimanna telji þetta vönduð vinnubrögð þykir mér merkilegt. Ég gef lítið fyrir slíka "fræðimennsku".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.