Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þrautarmein Háskóla Íslands

Bjarni Randver

Æðsta menntastofnun landsins, Háskóli Íslands, verður hundrað ára 17. júní næstkomandi. Lengst af var hann eini háskóli landsins og stór hluti Vantrúarmanna hefur stundað nám við skólann, sumir þeirra gera það reyndar enn og enn aðrir starfa við skólann. Við viljum Háskóla Íslands því aðeins allt hið besta og óskum honum til hamingju með aldarafmælið.

Í byrjun síðasta árs, 4. feb. 2010, sendi Vantrú erindi til forseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og siðanefndar skólans sökum þess að við töldum okkur ekki njóta sannmælis í kennslu við einn áfanga, Nýtrúarhreyfingar, sem kenndur var (af Bjarna Randveri Sigurvinssyni) við deildina. Um kvartanir okkar geta menn lesið nánar hér.

Mánuði eftir að erindið barst svaraði þáverandi deildarforseti með orðunum:

Tekið verður mið af athugasemdum félagsins Vantrúar við einstaka glærur og kynningu á því ef námskeiðið verður kennt aftur. Um þetta erum við Bjarni Randver sammála.

Þótt við hefðum beðið um fund með deildarforseta eftir að hann hefði yfirfarið erindið varð hann ekki við því og okkur þótti þetta heldur þunnur þrettándi. Við neyddumst því til að binda allar vonir okkar við umfjöllun siðanefndar, en nokkur bið varð á að hún gæti tekið málið til athugunar þar sem formaður nefndarinnar var erlendis.

Þegar formaðurinn var kominn til landsins hóf hann sáttatilraunir þar sem nefndinni hefur langoftast tekist að ljúka málum með sátt, eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. starfsreglna siðanefndar. Í þeim tilgangi ræddi hann við formann Vantrúar og forseta Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, sem hafði tilkynnt formanni siðanefndar að hann yrði í forsvari málsins samkvæmt ákvörðun nokkurra aðila, þ.á.m. kennara námskeiðsins. Formaður Vantrúar og forseti GT-deildar féllust á sáttatillögu formanns siðanefndar sem fólst í að deildin gæfi frá sér stutta yfirlýsingu og Vantrú drægi erindi sitt til nefndarinnar til baka.

Illt er að egna óbilgjarnan

Að ofan er lýst tiltölulega eðlilegu ferli máls þegar einhverjum finnst á sér brotið í kennslu við skólann en á þessu stigi málsins fóru vægast sagt undarlegir hlutir að gerast innan skólans. Kennari námskeiðsins brást ókvæða við og tók sáttatillögu formanns siðanefndar ekki til mála. Kennarafundur Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar hafnaði þá sáttunum og fundur nokkurra kennara á Hugvísindasviði var boðaður af einum kennara til að lýsa frati á meðferð siðanefndar, sem fundur þeirra ályktaði að hefði komist að efnislegri niðurstöðu í málinu án þess að ræða við kennara námskeiðsins. Þótt ályktun fundarins væri á þá leið að óskað var eftir því að siðanefnd tæki málið til efnislegrar meðferðar var reyndin sú að forsprakki fundarmanna lagði allt kapp á tortryggja vinnubrögð formanns siðanefndar sem allra mest. Atgangurinn var slíkur að formaður siðanefndar sá sér þann kost vænstan að segja sig frá störfum nefndarinnar í von um að öldur lægði innan skólans.

Rektor háskólans skipaði þá nýjan formann siðanefndar sem tók þá ákvörðun að fá tvo menn utan háskólans til liðs við nefndina. Starfstími nefndarinnar rann hins vegar út um mitt sumar 2010 og ný nefnd var skipuð (formaður hennar er sá sem sagði sig frá máli Vantrúar) en ákveðið var að gamla nefndin með nýjum formanni lyki við afgreiðslu máls Vantrúar.

En þegar (gamla) nefndin (með nýjum formanni) ætlaði loksins að taka á málinu haustið 2010 brá svo við að kennari námskeiðsins réð sér lögmann og neitaði að ræða við nefndina á þeim forsendum að hún væri vanhæf. Þá fékk Vantrú líka í hendur tæplega 200 bls. „skýrslu“ kennarans um "kæru Vantrúar" en hafi kennsluefni hans gefið tilefni til efasemda um réttsýni hans þá tók "skýrslan" af allan vafa um vinnubrögðin. Af tillitssemi við Bjarna Randver og Háskóla Íslands hlífum við þeim við útlistingum á þeim hroða.

Stuðningsmenn kennarans héldu áfram að fara mikinn og héldu því fram að með erindi sínu til siðanefndar væri „utanaðkomandi þrýstihópur“ að hafa óeðlileg áhrif á kennslu við Háskóla Íslands og skerða „akademískt frelsi“ kennara við skólann! Hópur þeirra lét sig hafa að senda greinargerðir til siðanefndar þar sem þeir sögðu henni fyrir verkum og komust að niðurstöðu um erindi Vantrúarmanna svo siðanefndin þyrfti ekki að hafa fyrir því (án þess að kynna sér afstöðu Vantrúar). En þetta var ekki nóg fyrir þá því þeir lögðust eindregið gegn því að siðanefndinni væri veittur aðgangur að prófum í faginu og báru fyrir sig að slíkt væri hnýsni í einkamál nemenda – þótt prófúrlausnir væru aðeins merktar með númerum og skýrt getið um það í starfsreglum siðanefndar að hún skuli „eiga óheftan aðgang að gögnum sem kæruna varða í skjalasafni Háskóla Íslands og skjalasöfnum deilda“.

Það var hins vegar ekki fyrr en rétt fyrir jól sem við misstum neðri kjálkann ofan í gólf vegna framgöngu kennarans og stuðningsmanna hans. Þá fullyrti hann að hann væri með gögn af „innra spjalli“ Vantrúar undir höndum og tíndi til valin orð og setningar úr þeim til að sýna fram á að hvað Vantrúarmenn væru vafasamur félagsskapur og hann túlkaði sem svo að félagsmenn ætluð að klekkja á honum. Jafnframt lagði hann fyrir siðanefnd skjámyndir af innra spjalli Vantrúar. Eingöngu félagsmenn Vantrúar komast inn á „innra spjallið“ með sérstöku notendanafni og leyniorði. Það sem þar fer fram má líta á sem kaffistofuspjall félagsmanna, einkasamræður. Við teljum að kennarinn eða samstarfsmaður hans hafi komist yfir þessi gögn með óeðlilegum hætti, jafnvel ólöglegum, en að ætla að nota þessar upplýsingar er auðvitað gjörsamlega siðlaust með öllu, hvað þá vægast sagt bjagaðar túlkanir á þeim. Enda fór það svo að siðanefnd neitaði að líta á þetta sem gögn í málinu. Eftir áramót hafnaði nefndin jafnframt þeirri kröfu lögmanns kennarans að hún lýsti sig vanhæfa.

Sá vægir sem vitið hefur meira

Í ljósi þess hvað kennarinn og stuðningsmenn hans virtust taka þetta mál nærri sér og voru tilbúnir til að grípa til slíkra örþrifaráða lögðu Vantrúarmenn til að fenginn yrði óháður aðili til að reyna enn á ný að miðla málum og leita sátta. Óháður varð hann að vera því ljóst var að allir tilburðir siðanefndar til slíks yrðu umsvifalaust túlkaðir sem afstaða nefndarinnar í málinu. Þegar sá maður var fundinn kom hins vegar í ljós að kennarinn hafði enn sem fyrr engan áhuga á sáttum.

Þrátt fyrir allt þetta vildum við sýna að fyrir okkur vakti aðeins að tryggja að við nytum sannmælis við Háskóla Íslands. Í ljósi þeirra ranghugmynda sem komu fram í umræddri kennslu og „skýrslu“ kennarans vorum við fús til að fella málið niður ef við teldum skilning á okkar málstað fyrir hendi innan yfirstjórnar Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og háskólinn stæði að útgáfu fræðilegs rits um trúleysi á Íslandi. Þá gætu nemendur skólans gengið að óbrjáluðum upplýsingum um efnið, sem er það eina sem við viljum. Formaður Vantrúar fór þá að þreifa fyrir sér hvort einhver flötur gæti náðst á slíkri lausn og viti menn, allt benti til þess að farsæl lausn fengist á málinu fyrir alla aðila. Skilningurinn virtist vissulega fyrir hendi og vilji til að lenda málinu með þessum hætti, bæði hjá yfirstjórn Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og háskólans. En furðulegt nokk þá komu stuðningsmenn kennarans í veg fyrir þessa fyrirmyndarlendingu.

En staðan í Háskóla Íslands var enn hörmulegri en hér hefur komið fram. Á sama tíma og Vantrú reyndi allt til að allir aðilar gætu gengið sáttir frá borði, ekki síst Háskóli Íslands, var kennarinn og stuðningsmenn hans enn með hugann við það eitt að rægja Vantrú og grafa undan eigin siðanefnd, og þar með heiðri Háskóla Íslands. Þeir klöguðu siðanefnd fyrir háskólaráði og ástandið var orðið óþolandi fyrir nýjan formann siðanefndar sem hugðist segja sig frá málinu vegna óróa og síendurtekinna afskipta stuðningsmanna kennarans.

Háskólaráð hefði væntanlega lýst yfir fullu trausti á siðanefndina, en samt hefði þurft að skipa þriðja formanninn. Ef svo ólíklega hefði farið að háskólaráð hefði talið siðanefnd vanhæfa hefði þurft að skipa nýja siðanefnd frá grunni. Það er sama hvor leiðin hefði orðið ofaná, upphaflegu erindi okkar hefur verið gjörspillt, það er ónýtt. Við í Vantrú höfum hreinlega ekki geð í okkur lengur til að vera skotspónn óvandaðra manna sem víla ekki fyrir sér að beita siðlausum bolabrögðum. Þess vegna höfum við dregið erindi okkar til siðanefndar til baka.

Álit okkar á „kennslu“ þeirri sem við óskuðum að yrði tekin til athugunar er óbreytt. Kennarinn hefur staðfest rækilega hvers eðlis vinnubrögð hans eru og stuðningsmenn hans hafa afhjúpað sig algjörlega. Við höfum hins vegar sannreynt að innan Háskóla Íslands er sannarlega margt heiðvirt sómafólk að finna og við treystum á að það fari rækilega ofan í saumana á þessari sorgarsögu. Heiður Háskóla Íslands er í húfi.

Góð er bætandi hönd, ill er spillandi tunga

Í kennslu þeirri, sem var upphaflegt tilefni erindis okkar til siðanefndar, var nokkrum forkólfum Vantrúar stillt upp eins og sakamönnum, þá leidd fram gögn sem áttu að sýna fram á hvað þeir eru ógurlegir menn og loks komist að þeirri niðurstöðu að við værum beinlínis hættuleg þjóðfélaginu. Lái okkur hver sem vill að krefjast athugunar á þessum ósköpum.

Við höfum alla tíð fagnað því að hljóta kynningu og umfjöllun en gera má þær kröfur til Háskóla Íslands að hún sé sanngjörn og heiðarleg. Slíkar kröfur geta aldrei talist skerðing á akademísku frelsi kennara eða óeðlileg afskipti þrýstihóps af kennslu við skólann. Hins vegar hlýtur það að teljast í hæsta máta óeðlilegt að siðanefnd skólans sé rökkuð niður af nokkrum starfsmönnum hans og allt gert til að torvelda störf hennar. Og sú furða að leggja í ófrægingarherferð gegn þeim sem ber upp erindi við siðanefndina er í sjálfu sér brot á siðareglum skólans en í þeim stendur: "Rökstudd ásökun um brot á siðareglum má aldrei bitna á þeim sem færir hana fram." Þegar ófrægingarherferðin byggist m.a. á rangfærslum, stolnum gögnum og illmælgi horfir málið enn alvarlegar við.

Eins og áður sagði hlýtur þetta mál allt að verða skoðað ofan í kjölinn, ekki veitir af. Ef ekkert hefði verið við kennsluna að athuga hefðu menn væntanlega ekki þurft að hafa neinar áhyggjur af meðferð siðanefndar. Óbilgirnin og ofsafengin viðbrögð við erindi okkar segja hins vegar meira en mörg orð. Vilji Háskóli Íslands komast í hóp bestu háskóla heims er bráðnauðsynlegt að hann læri sína lexíu af þessu máli. Við treystum á að sú verði raunin, hans vegna.

Ritstjórn 05.05.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/11 16:34 #

Það er margt skrítið í þessu máli.

T.d. kenndi Bjarndi Randver um félagið Vantrú án þess að ræða nokkurn tíman við félagsmenn. Ef hann var að rannsaka Vantrú, af hverju tók hann ekki viðtöl við okkur?

Ljóst er að félagið naut ekki sannmælis í þessari kennslu en það er brot á siðareglum HÍ.

Auk þess þykir mér afskaplega furðulegt að fjölmargir fræðimenn hafa haft afskipti af málinu án þess að kynna sér málflutning Vantrúar í málinu. Enginn þeirra hefur haft samband við okkur í Vantrú til að ræða efnisatriði málsins


Einar - 05/05/11 17:07 #

Greinilegt að mikils ofstækis gætir í málflutningi þessa manns og stuðningsmanna hans og finnst mér ótrúlegt að Háskóli Íslands hafi látið þetta viðgangast svona lengi.

Það er eitt að þessi svokallaða "kennsla" mannsins um Vantrú var í raun dapurleg, en viðbrögð hans eftir á eru til skammar og þessi skýrsla hans í besta falli viðvaningsleg og stenst enga skoðun.

Verð að segja eftir að hafa kynnt mér þetta mál að mér finnst trúverðugleiki skólans hafa beðið hnekki og viðbrögð þeirra kennara við skólann sem ákváðu að koma Bjarna "til varnar" í þessu máli eru ámælisverð og hvorki þeim né Háskóla Íslands til sóma. Hvað varðar trúverðugleika Bjarna að þá getur fólk dæmt um það sjálft eftir lestur þessa pistils og skoðað forsögu málsins í linkunum sem fylgja.

Það er með ólíkindum þetta mál allt saman og Háskólinn hlýtur að bregðast við og koma að lausn þessa máls.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/11 17:13 #

Minni á hvernig Vantrú brást við þegar við fengum aðgang að trúnaðargögnum ríkiskirkjufólks.


Einar - 05/05/11 18:15 #

...og háskólinn hlýtur að bregðast við og klára þetta mál.

Átti þarna að standa.


starfsmanni HÍ - 05/05/11 19:08 #

Einn helsti vandi HÍ er að stjórnendur hans hafa verið ófærir um að taka á svona rugli. Við skólann starfar mikið af afar hæfu og duglegu fólki, en einnig hópur kjána og jólasveina sem vaða uppi. Það er mjög dapurlegt að Vantrú hafi dregið erindi sitt til baka og af fenginni reynslu tel ég það mikla óskhyggju að "háskólinn [hljóti] að bregðast við og klára þetta mál." Það hefur sýnt sig að stjórnendur skólans veigra sér að taka á svona vanda.


Viðar - 05/05/11 19:41 #

Hafið þið upplýsingar um hvaða kennarar þetta voru sem voru að hafa sig frammí til varnar Bjarna Randver?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/05/11 20:04 #

Við vitum um nokkra en ekki alla. Dr. Guðni Elísson hefur haft sig mest frammi.


Steindór J. Erlingsson - 05/05/11 20:29 #

Þetta er sorgarsaga! Þið hafið sýnt af ykkur mikið langlundargeð. Ómerkilegt af Bjarna að nota efni af innra spjalli ykkur.


Jóhann - 06/05/11 21:30 #

Þetta er nú meira ruglið í guðfræðingunum.

"Þá fékk Vantrú líka í hendur tæplega 200 bls. „skýrslu“ kennarans um "kæru Vantrúar" en hafi kennsluefni hans gefið tilefni til efasemda um réttsýni hans þá tók "skýrslan" af allan vafa um vinnubrögðin. Af tillitssemi við Bjarna Randver og Háskóla Íslands hlífum við þeim við útlistingum á þeim hroða."

200 blaðsíður!? Í alvöru?

Birtið þær plís...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/05/11 15:10 #

Vek athygli á umfjöllun Pressunnar þar sem vitnað er í Bjarna Randver og Guðna Elísson. Málflutningur þeirra er sem fyrr afskaplega vafasamur.


Gestur Gunnarsson - 11/05/11 09:10 #

Í gegnum tíðina hef ég oft litið inn á vefinn ykkar og talið ykkur tala mínu máli og reyndar máli flestra Íslendinga með viti. En nú held ég að þið hafið ,,skitið þokkalega í degið" eins og segir í brandaranum og ættuð kannski bara að skammast ykkar. Hingað til hef ég litið á vantru.is sem bráð nauðsynlegan vef heilbrigðar skynsemi þar sem staðreyndir, rök og gangrýnin hugsun er það sem skiptir öllu máli þegar leiða á til lykta hina ýmsu vitleysu sem veður uppi. Því er ég illa svikin yfir því að þið þurfið jafn óvönduð meðul í þessari báráttu ykkar/okkar og sagt er frá í fréttum. Vona bara að það komi í ljós að fréttirnar eru rangar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/05/11 09:12 #

Fréttirnar eru rangar.


Magnús - 06/12/11 09:39 #

Auðvitað ber að tortryggja meðferð siðanefndar á málinu, það var aldrei rætt við Bjarna Randver í ferlinu!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 10:08 #

Málið er ekki svo einfalt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.