Eins og hundur, sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi, sem endurtekur fíflsku sína. [Ok. 26:11]
Þessi tilvitnun í Orðskviðina virtist vera í sérstöku uppáhaldi hjá Sigurbirni Einarssyni biskupi, föður Karls Sigurbjörnssonar biskups sem tók við af Ólafi Skúlasyni biskupi, fyrsta æskulýðsfulltrúa Þjóðkirkjunnar, barnaníðingi og kynferðisbrotamanni.
Þjóðin efast ekki lengur um hvaða mann Ólafur biskup hafði að geyma og hversu skammarleg viðbrögð kirkjunnar manna voru þegar þolendur hans reyndu að vekja athygli á soranum. Í stað þess að taka þeim opnum örmum og losa sig við þetta "monster" fylktu þeir sér undir pilsfald hans og gerðu að biskupi.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Kirkjuþings kemur fram að kirkjan brást gjörsamlega þegar á reyndi. Kirkjuráð braut lög með því að lýsa yfir stuðningi við Ólaf, og þar sat Karl Sigurbjörnsson. Allir prófastar landsins, utan einn, sendu frá sér stuðningsyfirlýsingu með Ólafi og gegn þolendunum. Rannsóknarnefndin metur það sem tilraun til þöggunar. Prestafélag Íslands brást líka.
Karl tók því þátt í beinu lögbroti í þessu máli. Samt hitti hann ásamt séra Hjálmari Jónssyni Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur í Hallgrímskirkju til að reyna sættir. Rannsóknarnefndin telur framgöngu Karls þar ámælisverða en verra er þó að Sigrún Pálína segir biskup greina rangt frá þeim fundi, ljúga til um hegðun sína. Svo þegar Guðrún Ebba stígur sín aðdáunarverðu en grátlegu skref, að leita til kirkjunnar með sína sögu þá stingur herra Karl bréfinu ofan í skúffu og það er ekki dregið upp á ný fyrr en málið er komið í hámæli og skjalavörður biskupsstofu krefst þess að fá að skrá móttöku bréfsins, hálfu öðru ári síðar. Rannsóknarnefndin og þjóðin öll er auðvitað hneyksluð á þessum vinnubrögðum.
Loks þegar skýrslan birtist kemur í ljós að í svörum til nefndarinnar kannast enginn kirkjunnar maður við nokkur mistök, síst af öllum Karl Sigurbjörnsson. En nefndin er á öðru máli. Viðbrögð Karls biskup við þessum dómi um þöggun voru þögn, í nokkra daga. En í dag steig hann í pontu... Og hver er útkoman?
Biskup biðst afsökunar, hafi hann gert rangt. #
1996 Kirkjuráð styður herra Ólaf biskup. - Kalli klúðrar
1996 Sáttafundur með Sigrúnu Pálínu. - Kalli klúðrar
2009 Guðrún Ebba biður um fund. - Kalli klúðrar
2010 Þjóðin kallar á viðbrögð. - Kalli klúðrar
2011 Rannsóknarnefndin segir Karl sekan. - Kalli... situr áfram
Við munum svo klárlega eftir ámátlegum viðbrögðum herra Karls í Kastljósi í fyrra þar sem hann gat ekki einu sinni sagt að hann trúði konunum. Ef að líkum lætur mun hann endurtaka leikinn í kvöld.
Nú situr Kirkjuþing og fer yfir skýrsluna. Dómurinn í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er skýr - dómur þjóðarinnar þó öllu skýrari. Er ekki deginum ljósara að Karl Sigurbjörnsson ætti ekki að sitja þetta þing sökum vanhæfis? Þingið er að fjalla um hans brot. Karl sér ekkert athugavert við það að gerast dómari í sjálfs sök. Hann lýsti sig alsaklausan í bréfi til nefndarinnar og nú "biðst hann afsökunar, hafi hann gert eitthvað rangt". Þetta er siðblinda.
Þegar menn eru gripnir aftur og aftur með allt niður um sig er dónaskapur að ætla að þramma áfram með fullri reisn.
Forseti Kirkjuþings "segir það einlæga von sína að þær konur sem brotið var á finni frið á grundvelli kærleiksboðskapar frelsarans." Já, já, Guð reddar þessu bara, eins og hingað til.
Tengt efni:
Hreinsunin mikla: Opið bréf til presta íslensku ríkiskirkjunnar
Svo vitnað sé í Hitchens (að vitna í Ratzinger):
"‘It is a very serious crisis which demands us in the need for applying to the victims, the most loving pastoral care.’ Well, I’m sorry, they have already had that."
Þökkum guði (þ.e.a.s. hugtakinu sem gerir menn siðblinda) að hr. Karl er áfram biskup. Kirkjuskipið verður áfram strand, farþegar hlaupa frá borði og jafnvel komin hreyfing á áhöfnina. Það styttist í að hægt verði að taka leyfarnar af skipinu og selja í brotajárn. Dagurinn í dag er góður dagur.
Karl situr sem fastast, við sama heygarðshornið og segir:
Það er ekkert í þessari rannsóknarskýrslu sem segir að ég hafi brotið þannig af mér í starfi að það réttlæti afsögn mína. #
Þetta eru stofnanaviðbrögð kerfisþræls en ekki hugsjónamanns með samvisku.
Karl kýs að hengja sig í túlkanir á rannsóknarskýrslunni en forðast að nefna hvort staða hans hafi skaðast vegna annara hluta eins og t.d. þess að hann er rúinn trausti.
Hann er opinber embættismaður og hefur sín réttindi...
Sigurður Árni Þórðarson Neskirkjuprestur segir að "kattarþvottar dugi ekki kirkjunni í biskupsmálinu heldur iðrunarganga". Á að skilja þetta í óeiginlegri merkingu eða er hann að mælast fyrir skrúðgöngu eins og á Þingvöllum árið 2000?
Hjarðmennska, fordómar og dómgreindarskortur blinduðu kirkjunnar menn. #
Er nokkur ástæða til að hafa þetta í þátíð fyrst enginn prestur virðist ætla að segja sig úr þessari gjörspilltu ríkisstofnun?
Dómgreind Karls Sigurbjörnssonar. Hann svarar því játandi þegar spurt er hvort hann telji sig rétta manninn í embættið og bætir við: "...enn sem komið er. Með Guðs og góðra manna hjálp."
Áframhaldandi seta Karls í biskupsstóli er nefnilega háð "hjarðmennsku og dómgreindarskorti" kirkjunnar manna. Karl getur áreiðanlega treyst á hvort tveggja.
Sjá sjónvarpsviðtal á Mbl.is
Hvað segja konurnar, þolendur ofbeldis Ólafs, kúgunar og þöggunar kirkjunnar? Ólöf Pitt:
Ólöf Pitt Jónsdóttir, eitt fórnarlamba Ólafs Skúlasonar, segist sjá Ólaf í Karli Sigurbjörnssyni. Hún segir Karl ekki tala af einlægni í biskupsmálinu svokallaða. Ólöf vill að Karl láti nú þegar af embætti biskups. #
Stefanía Þorgrímsdóttir:
Hvað varðar stöðu núverandi biskups fæ ég ekki betur séð en að seta hans á biskupsstóli orki mjög tvímælis, bæði hvað varðar viðbrögð hans 1996 og aftur núna 2009. #
Sigrún Pálína
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir sem sakað hefur Ólaf Skúlason biskup um kynferðisbrot gegn sér vill að Karl Sigurbjörnsson, núverandi biskup, segi af sér. Hún segir hann ekki hafa komið heiðarlega fram. #
Er nokkur ástæða til að hlusta á þessar konur eða koma til móts við þær?
Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Stígamóta, vill að Karl Sigurbjörnsson biskup segi af sér vegna biskupsmálsins."Kirkjan hefur gert eins lítið og hún hefur komist upp með, vegna óánægju almennings." #
Nú getið þið samið lag;
Biskup er besti vinur Vantrúar, Biskup er besti vinur Vantrúar, Alltaf er hann hjá mér, Aldrei fer hann frá mér, Biskup er besti vinur Vantrúar.
Svo er spurning um brjóstmynd upp á vegg í félagsheimilinu?
Ein megin ástæðan fyrir stofnun Vantrúar var reiði nokkurra trúleysingja (ég þar á meðal) yfir særandi, og allt að viðbjóðslegum yfirlýsingum biskups gegn trúlausu fólki á Íslandi. Hefði hr. Karl haft vit af því að sýna auðmýkt og heiðarleika í starfi er öruggt að trúleysisbylgjan á Íslandi væri allt öðruvísi í dag. Ríkiskirkjukristið fólk á Íslandi getur þakkað Karli þann kaleik um aldir alda.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/06/11 12:19 #
Séra Sigríður Guðmarsdóttir er sammála og kallar á afsögn biskups:
Frétt og yfirlýsing Sigríðar á Visir.is