Í kjölfarið á skýrslu(.pdf) svokallaðrar Sannleiksnefndar sem skipuð var til að rannsaka „viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni biskupi um kynferðisbrot“ hafa þeir prestar og starfsmenn þjóðkirkjunnar sem fá þar ákúrur ákveðið að taka sér tíma til þess að stilla saman strengi sína um hver viðbrögð þeirra eigi að vera. Allar ákvarðanir verða væntanlega kynntar á kirkjuþingi nú eftir helgi, þar sem hægt verður að samstilla og hópefla liðið.
Einn prestur hefur þó riðið á vaðið, viðurkennt sök sína og axlað ábyrgð. Baldur Kristjánsson setti fram yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem hann tekur undir athugasemdir nefndarinnar í sinn garð og tilkynnir ennfremur að hann hafi sagt sig frá setu á Kirkjuþingi. Um ástæðu þess segir Baldur í yfirlýsingunni:
Ég tel að viðbrögð þess verði trúverðugri því færri sem þar eru sem komu við sögu.
Um leið og Baldri er hrósað fyrir viðbrögð sín er bent á að flest allir þeirra sem komu við sögu í málum Ólafs fyrir hönd hans og kirkjunnar eru enn starfandi – og eiga sæti á Kirkjuþingi. Þar sem þeir munu fjalla um hver viðbrögð kirkjunnar eigi að vera. Þeir munu með öðrum orðum setjast í dómarasæti yfir sjálfum sér.
Þætti þetta í lagi ef um einhverja aðra ríkisrekna stofnun eða annan hóp opinberra embættismanna væri að ræða? Er þetta í takt við væntingar manna til nýrrar hugsunar og vinnubragða á Íslandi?
Að ákveðnu leiti er þetta svipað en að ákveðnu leiti er þetta í rauninni grófara. Því að prestarnir ákveða sjálfir um sekt, sakleysi og það sem meira skiptir viðbrögð.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Rökkvi - 14/06/11 09:08 #
Þetta er bara álíka ömurlegt eins og þegar Alþingi fékk sjálft að ákveða hvaða núverandi/fyrrverandi Alþingismenn ættu að fara fyrir landsdóm.