Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fyrirlitningin

Gay pride

Lítir þú á þig sem góða og heiðvirða manneskju mislíkar þér eðlilega ef einhver fyrirlítur þig. Ef þú leggur þig sérstaklega fram við að íhuga og rækta það góða sárnar þér áreiðanlega ef einmitt sú viðleitni þín mætir bersýnilegri fyrirlitningu.

Í "kennslu" í Háskóla Íslands mátti sjá þessi orð í svokölluðu "kennsluefni" um Vantrú:

Megin vandinn við herskáan málflutning Dawkins og fylgismanna hans gegn þeim trúarbrögðum sem þeir fyrirlíta er að hann er vatn á myllu haturshreyfinga sem grafa undan allsherjarreglu samfélagsins og almennu siðferði...

Ég hvet alla til að lesa Ranghugmyndina um guð eftir Richard Dawkins til að sjá hvort nokkur fótur er fyrir þessari furðulegu fullyrðingu. Ég fæ með engu móti séð nokkur rök sem hníga að því að málflutningur Dawkins (eða afleiður hans) geti á einhvern hátt grafið undan allsherjareglu, hvað þá almennu siðferði. En má segja að Dawkins eða við "fylgismenn hans" fyrirlítum einhver eða öll túarbrögð?

Stjórnmálamenn eru vanir karpi og geta verið hjartanlega ósammála andstæðingum sínum. Ég minnist þess þó ekki að þeir séu sakaðir um að fyrirlíta stefnu andstæðinga sinna. Ef þeir gera það má segja að skoðanir þeirra séu ekki sérstaklega fágaðar og líklega er skilningur þeirra á afstöðu andstæðingsins eitthvað takmarkaður. Því þrátt fyrir ólíkar skoðanir í stjórnmálum er víst að allar miða þær að því að skapa sem bestan heim (hversu afvegaleiddar sem þær kunna að vera).

Úr hvössu og oft óvægnu orðalagi vantrúaðra má lesa ákveðna ólund og vandlætingu, jafnvel fyrirlitningu á stundum. En hvað er það sem við fyrirlítum sannarlega og innilega? Eru það trúarbrögðin eða hegðun og fullyrðingar ákveðinna trúmanna? Á þessu tvennu er reginmunur.

Okkur þykir margt í trúabrögðunum vissulega kjánalegt, órökrétt og jafnvel varhugavert. Sumt er klárlega galið og viðbjóðslegt en svo er annað sem hægt er að lofa og fagna. Við erum ekki blind á það góða sem trúarbrögðin hafa fram að færa þótt við séum ekki að flagga því. Trú og trúarbrögð hafa oft verið til góðs og hafa haft göfgandi áhrif á margan manninn og jafnvel heilu þjóðfélögin.

Mig grunar að trúmönnum sárni þegar trú þeirra og trúarbrögð eru gagnrýnd án þess að nokkur gaumur sé gefinn að því góða við hvort tveggja. Mig grunar jafnframt að trúmenn taki gagnrýni á trú og trúarbrögð þeirra oft óþarflega nærri sér og líti á hvort tveggja sem skot á þá - því trúin stendur hjarta trúmanna nærri og hún stjórnast meira af tilfinningum en rökum, meira af óskhyggju en veruleika.

Þótt margir séu sannfærðir um að ég hafi allt á hornum mér þegar kemur að trú og trúarbrögðum get ég ekki fallist á að ég "fyrirlíti" þau. Ég hef margt við þau að athuga en það er allt annað mál. Ég verð þó að viðurkenna að vissulega fyrirlít ég heitt og innilega ákveðna hegðun manna - óheiðarleika, hræsni og skinhelgi. Þegar trúmenn gerast sekir um slíkt og það er gagnrýnt er ekki verið að ráðast á trú þeirra, trúarbrögð eða þá sjálfa heldur hegðun þeirra. Þetta er mörgum ofviða að skilja, mannlegt eðli er bara þannig.

Ég er alinn upp í kristinni trú mótaðri af sögu mótmælenda. Helstu hetjur þessara fyrirbæra eru Kristur og Lúther. Báðir voru þeir þekktir fyrir óvægna gagnrýni sína á skinhelgi og hræsni trúarleiðtoga síns tíma. Viðbrögð trúarleiðtoganna í báðum tilfellum voru heilög vandlæting og ótti við hreyfingu sem þeir sögðu "grafa undan allsherjarreglu samfélagsins og almennu siðferði", réttri trú. Stundum vildi ég óska að trúmenn væru betur að sér í eigin menningu og sögu.

Reynir Harðarson 12.06.2011
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.