Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þó líði ár og öld

Hraunfossar

Miðvikudaginn 2. febrúar birti Vantrú tæplega aldar gamalt erindi Gísla Sveinssonar yfirdómslögmanns sem hann flutti fyrir Stúdentafélagið í mars árið 1914. Í erindinu vék Gísli að guðfræðinámi sem hann taldi tengjast ríkiskirkjunni full mikið. Gagnrýni Gísla á enn við rök að styðjast, jafnvel þó ýmislegt hafi batnað eru tengsl Guðfræði- og trúarbragðadeildar Háskóla Íslands við ríkiskirkjuna sterk.

Ég tek undir aldargömul orð Gísla:

Ég skal nú, áður en ég lýk máli mínu, að þessu sinni, geta þess, að framkvæmdir skilnaðar ríkis og kirkju þyrfti að minni hyggju ekki að vera bundnar sérlegum erfiðleikum hér á landi, allra sízt, ef samvinna gæti um það orðið, milli þeirra annarsvegar, er halda vilja uppi trú, og hinna, er vantrúarmenn kallast, hins vegar. En þeirri skoðun minni skal ég ekki leyna, að ég sé ekki, að landið (ríkið, þjóðfélagið) geti haldið uppi neinni ákveðinni guðfræðiskenslu, eftir að skilnaður er á kominn. Enda yrði það að teljast óþarft. Trúfélögin eiga sjálf að annast undirbúning kennimannaefna sinna, en þjóðfélagið getur þó, í þessu eins og hverju öðru borgaralegu málefni, sett skilyrði, til þess að það gefi kennimönnum þessum viðurkenningu, ef það þætti æskilegt (einskonar opinberan "stimpil"), t. d. það, að þeir nemi á háskóla Íslands þær tvær greinir, er telja verður að beri að kenna, þótt guðfræðiskensla sé þar af numin: Trúarbragðasögu og trúarheimspeki — er heyra mundi þá undir sögukennara og heimspekiskennara háskólans.

Vantrú og guðfræðin

Fyrir rúmu ári sendi Vantrú erindi til Siðanefndar Háskóla Íslands og gerði athugasemdir við kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar um félagið. Auk þess að senda erindið birtum við greinar hér á Vantrú þar sem við fórum ítarlega yfir málið og sýndum fram á að í kennslu við guðfræði- og trúarbragðadeild hafði málstaður Vantrúar verið skrumskældur. Kennslan var ekki sanngjörn heldur einhliða og hún gaf ekki rétta mynd af félaginu eða meðlimum þess.

Þegar við sendum erindið til Háskólans áttum við ekki von á að málið myndi dragast á langinn. Satt að segja gerðum við ráð fyrir að þetta tæki nokkrar vikur. Af ýmsum ástæðum tafðist málið en um miðjan mars tók siðanefnd það til meðferðar.

Í byrjun apríl gerði siðanefnd tilraun til að koma á sáttum í málinu. Sættirnar snerust í grófum dráttum um að viðurkennt yrði að umfjöllunin hefði ekki verið eðlileg og að bætt yrði úr því. Annað ekki.

Þó sumum meðlimum Vantrúar þætti þetta heldur þunn afgreiðsla og vildu fá úrskurð siðanefndar var það niðurstaða félagsmanna að samþykkja þessa málalyktun. Þar með hefði málinu átt að ljúka. Vantrú kvartaði, undir kvörtun okkar yrði tekið að hluta og Bjarni Randver Sigurvinsson gæti haldið áfram nokkurn vegin þar sem frá var horfið. "Refsing" hans hefði ekki verið nein fyrir utan skömmina sem fælist í að játa að eitthvað hafi verið að marka gagnrýni öfgamannanna í Vantrú. Þessi niðurstaða hefði ekki þurft að hafa neinar afleiðingar fyrir framtíð og fræðimannsferil Bjarna Randvers því brotið hefði varla talist mjög alvarlegt.

Því miður endaði málið ekki með sáttum í apríl. Um málið er hægt að skrifa ansi mikið en því miður er ekki hægt að segja frá öllu sem stendur. Hér verður þó sitthvað dregið fram.

Þáttur Guðna Elíssonar

Doktor Guðni Elísson prófessor við HÍ deilir áhuga á hryllingsmyndum með Bjarna Randveri. Í apríl hófst aðkoma hans að málinu og frá upphafi hefur doktor Guðni sennilega staðið í þeirri trú að ekkert sé að marka gagnrýni Vanrúar og að málatilbúnaður félagsins byggi á óvild í garð guðfræðideildar og ríkiskirkjunnar. Dr. Guðni safnaði saman hópi kennara og framhaldsnema sem tókst með látum og þrýstingi að þvinga formann siðanefndar til að segja af sér vegna þess að hann hafði gert tilraun til að leita sátta í málinu!

Nei, ég er ekki að ýkja, þetta gerðist í raun.

Guðni Elísson virðist hafa leitt vörn Bjarna Randvers frá því þessi fundur var haldinn.

Greinargerð Bjarna Randvers

Í kjölfarið dreifði Bjarni Randver drögum að greinargerð um málið til allmargra einstaklinga. Vantrú sá greinargerðina ekki fyrr en tæpu hálfu ári síðar.

Ég verð að vera hreinskilinn - glærur Bjarna Randvers voru slæmar en greinargerðin er miklu verri, eiginlega alveg skelfileg.

Skrumskælingar halda áfram; Texti er tekinn úr samhengi og vitnað er í ótal bloggfærslur félagsmanna til að sýna hversu orðljótt þetta gvuðlausa fólk er, eins og það eitt dugi til að ógilda allt sem við segjum. Greinargerðin er tæpar tvöhundruð síður og inniheldur fjölmargar vísanir á bloggsíður.

Þeir sem skoða ekki frumheimildur gætu dregið þá ályktun að greinargerðin standist akademískar kröfur en ef fólk gefur sér tíma til að kynna sér málið sést fljótt að vinnubrögðin eru skammarleg - stundum er beinlínis verið að beita blekkingum - það sem vísað er á segir alls ekki það sem fram kemur í greinargerðinni. Þrátt fyrir þetta hafa nokkrir virtir fræðimenn lesið greinargerðina og kvittað upp á vinnubrögðin.

Skilaboðin í greinargerðinni eru einföld og kunnugleg; ekki taka mark á kvörtunum Vantrúar, þetta eru dónar. Ekki hlusta á rökin, ekki skoða málið, ekki mynda ykkur afstöðu á því sem þau segja, því þetta er vont fólk.

Ég myndi sýna ykkur dæmi ef ég mætti en greinargerðin er trúnaðarmál og við tökum tillit til þess enn um sinn. Samt hefur henni verið dreift til ótal aðila sem ekki tengjast málinu og því miður virðast margir þeirra hafa myndað sér skoðun án þess að kynna sér málið utan þess sem fram kemur í greinargerðinni. Enginn hefur haft samband við Vantrú til að heyra okkar hlið á málinu.

Samsæri Vantrúar

Staðreynd málsins er þessi: Vantrú kom ekki fyrir flugumanni í námskeiði hjá Bjarna Randveri. Upplýsingarnar fengum við hjá einstaklingi sem skráði sig í námskeiðið af fullum heilindum.

Vert er að taka fram að félagar í Vantrú hafa setið námskeið í guðfræði og einn meðlimur félagsins er með BA próf í guðfræði frá HÍ.

Þegar við fréttum af þessari kennslu um Vantrú var ég upp með mér. Mér þótti það upphefð að um mig væri fjallað í kennslustund við Háskóla Íslands. Ég var frekar stoltur af því að félag sem ég stofnaði ásamt öðrum fengi þennan sess, væri "viðurkennt" í guðfræðinni.

Þegar ég sá glærurnar krossbrá mér. Upphefðin varð að niðurlægingu. Í stað þess að um mig og félagið væri fjallað með sanngjörnum hætti, þar sem sagt væri frá starfsseminni (einnig því sem gagnrýna má) var einblínt á tiltekin atriði með það að markmiðið að gera lítið úr félaginu og félagsmönnum. Ég var tekinn fyrir persónulega og afgreiddur með útúrsnúningum.

Siður og heiður

Eftir að hafa skoðað kennsluefnið ítarlega komumst við að þeirri niðurstöðu að eitthvað þyrfti að gera. Þetta gengi einfaldlega ekki, heiður Háskóla Íslands væri í veði.

Við sendum því ítarlegt og vel rökstutt erindi til Siðanefndar Háskóla Íslands, rektors og guðfræðideildar. Í erindu bentum við á þau atriði sem okkur þótti gagnrýniverð og færðum rök fyrir því að brotið hefði verið á okkur.

Við fórum ekki fram á að Bjarndi Randver yrði rekinn, við kröfðumst þess ekki að guðfræðideild yrði lögð niður, við fórum ekki fram á nokkuð annað en að mál okkar yrði tekið til athugunar og að um okkur yrði fjallað á sanngjarnan máta í Háskóla Íslands.

Málfrelsi fræðimanna

Helsta vörn þeirra sem hafa fylgt sér kringum Bjarna Randver snýr að málfrelsi fræðimanna. Þeir eigi að hafa frelsi til að rannsaka það sem þeir vilja og fjalla um það eins og þeir kjósa. Það megi ekki gerast að "þrýstihópar" hafi áhrif á rannsóknir fræðimanna.

Undir þetta getum við tekið. Fræðimenn eiga að rannsaka það sem þeir vilja og umfjöllun þeirra á ekki að mótast af hagsmunum fyrirtækja og þrýstihópa. Þar með er ekki sagt að kennarar við Háskóla Íslands geti sagt hvað sem er um hvern sem er.

Það gilda siðareglur í Háskólanum og allir starfsmenn hans eru bundnir af þeim. Í siðareglum stendur skýrt og greinilega:

Vandvirkni og heilindi
2.1.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda dóma sína. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Þeir forðast hvers kyns mistök og villur í rannsóknarstarfinu. Verði þeim á mistök viðurkenna þeir þau og gera það sem þeir geta til að bæta fyrir þau.

Það má vel vera að Bjarni Randver, Guðni Elísson, Pétur Pétursson og fleiri aðilar telji að þessi klausa í siðareglum Háskólans sé óþörf og vegi að málfrelsi starfsmanna skólans en við teljum hana sjálfsagða.

Að njóta sannmælis

Það á ekki að skipta máli hvort það er Vantrú, Alcoa, Femínistafélagið eða Sjálfstæðisflokkurinn sem um er rætt - kennarar HÍ mega fjalla um öll þessi fyrirbæri og hver önnur sem þeir vilja fjalla um - svo lengi sem birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Þetta þýðir ekki að kennarar megi ekki gagnrýna Vantrú eða félagsmenn þess - að sjálfsögðu hafa þeir fullan rétt á því og Vantrú þarf ekki einu sinni að vera ánægt með þá umfjöllun. Svo lengi sem kennarinn velur ekki einhliða tilvitnanir sem henta þeirri mynd sem hann vill draga upp, svo lengi sem Vantrú og félagsmenn þess njóta sannmælis getum við ekki kvartað. Eins og við höfum bent á stóðst kennsla Bjarna Randvers ekki þessar kröfur. Umfjöllunin var einhliða, villandi og Vantrú nýtur ekki sannmælis.

Við í Vantrú teljum einfaldlega að kennsla Bjarna Randvers hafi veitt einhliða og villandi mynd af félaginu og við höfum fært rök fyrir því. Þessum rökum er hægt að svara málefnalega með því að sýna að glærur námskeiðsins gefi ekki rétta mynd af kennslunni. Slíkt væri hægt að sýna með ýmsum hætti en Bjarni Randver og stuðningsmenn hafa barist gegn því að siðanefnd kynni sér kennsluna, t.d. með því að skoða prófúrlausnir nemenda (sem ekki eru persónugreinanlegar).

Guðni Elísson og aðrir stuðningsmenn Bjarna Randvers hafa lítið gert til að andmæla rökum Vantrúar. Í staðin eru okkur gerðar upp annarlegar hvatir og alið á fordómum gagnvart félaginu og félagsmönnum.

Þetta fólk virðist hafa talið sér trú um að Vantrú hafi skipulagt samsæri í þeim tilgangi að knésetja Bjarna Randver og guðfræðideildina þegar staðreyndin er sú að Bjarni Randver skiptir okkur nákvæmlega engu máli - við vissum varla af tilvist hans áður en þetta mál kom upp.

Hver þrýstir á guðfræðideild Háskóla Íslands?

Ef menn vilja fjalla um hugsanleg áhrif "þrýstihópa" á kennslu í Háskóla Íslands ættu þeir frekar að horfa í áttina til Biskupsstofu og áhrifa ríkiskirkjunnar á kennslu og störf Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands.

Matthías Ásgeirsson 21.02.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 21/02/11 12:16 #

Síðasta efnisgreinin er mjög athyglisverð. Ég held einmitt að þrýstingur úr þessari átt geti útskýrt kennsluhætti Bjarna Randvers þegar kemur að Vantrú.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/02/11 15:12 #

Ég hefði áhuga á að sjá einhvern andmæla (með rökum) þeirri fullyrðingu að ríkiskirkjan hafi áhrif á starfssemi Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.


Valtýr Kári - 21/02/11 20:17 #

Sko, þið (félagsmenn vantrúar)eruð bara greinilega ekki að skilja þetta.

Tilgangur vantúar er "að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu." Eða einsog sókrates (að mig minnir)orðaði það; að segja að það sem er, er, og það sem er ekki, sé ekki.

Það er beinlínis tilgangur félags ykkar að RÚSTA heimsmynd þess fólks sem lifir í draumaheimi. Hvernig getið þið neitað því að frá þeirra sjónarhóli séð þá eruð þið "vont fólk". Bara hreinustu illmenni! Hvernig getur það komið ykkur á óvart að svoleiðis fólk sé tilbúið að grípa til hvaða vopna sem er til að verja sína heimsmynd? Því einsog Niccolò Machiavelli sagði ekki, þá helgar tilgangurinn meðalið.

;)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/02/11 20:55 #

Ef þetta væru allt trúmenn gæti ég skilið þau - en meðal stuðningsmanna Bjarna Randvers eru trúleysingjar sem telja að ekkert eigi að hlusta á gagnrýni Vantrúar. A.m.k. hafa þau ekki kynnt sér okkar hlið málsins.


Sveinn Þórhallsson - 21/02/11 21:37 #

Fyrir utan að hér er ekki heimsmynd einhverra trúmanna að veði heldur fræðileg heilindi Háskóla Íslands.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 21/02/11 21:42 #

Að þetta séu allt trúmenn væri engin afsökun, Háskóli Íslands þarf að standast ákveðnar akademískar kröfur, en ekki „veita einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu.“


danskurinn - 22/02/11 00:15 #

Það hefur aldrei gefist vel að sækja fram af meira kappi en forsjá. Og oft er alveg sama hvaða rök eru notuð og hversu góð sem þau kunna að vera - ef umræðan er skreytt með fúkyrðum og háðsglósum þá gengisfellur hún og andmælandinn fær sóknarfæri sem hann hefði annars aldrei fengið. Í orðræðunni getur maður aldrei uppnefnt fólk fífl eða idjóta með þeim rökum að fólkið sé vissulega fífl eða idjótar og á sama tíma krafist virðingar sjálfur. Það gætu Vantrúarmenn lært af erindisleysu sinni í málinu gegn Bjarna Randver.


Háheilagur - 22/02/11 01:55 #

Eftirfarandi málsgrein er ekki sannfærandi :

,,Þetta fólk virðist hafa talið sér trú um að Vantrú hafi skipulagt samsæri í þeim tilgangi að knésetja Bjarna Randver og guðfræðideildina þegar staðreyndin er sú að Bjarni Randver skiptir okkur nákvæmlega engu máli - við vissum varla af tilvist hans áður en þetta mál kom upp."

Man ekki betur en að Bjarni Randver hafi margoft verið gagnrýndur á þessari vefsíðu áður en glærumálið kom upp. Auk þess að hljóta háðungarverðlaun. Hugsanlega gætu einhverjir upplifað það sem einhverskonar ,,einelti".

Viðhorf ,,þessa fólks" eru því e.t.v. ekki úr lausu lofti gripin?

Annars er þetta rökstudd grein þó einkennilegt sé að tengja Bjarna og Guðna með kvikmyndasmekk þeirra. Líklegra að afstaða Guðna sé reist á trú á óheft akademískt skoðanafrelsi.

Þess má geta að viðstöddum nemendum var að sjálfsögðu frjálst að andmæla sem sumir svo sannarlega gerðu.

Hinsvegar eru viðbrögð HÍ fólks við sáttinni vægast sagt undarleg samkvæmt frásögninni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/02/11 07:35 #

Það hefur aldrei gefist vel að sækja fram af meira kappi en fors

Ég tel ekki að Vantrú hafi sótt af kappi í þessu tiltekna máli.

Man ekki betur en að Bjarni Randver hafi margoft verið gagnrýndur á þessari vefsíðu áður en glærumálið kom upp. Auk þess að hljóta háðungarverðlaun. Hugsanlega gætu einhverjir upplifað það sem einhverskonar ,,einelti".

Svona getur minnið svikið. Ég held að minnst hafi verið tvisvar eða þrisvar á Bjarna Randver hér á Vantrú áður en þetta mál kom upp. Ekkert af því getur talist einelti. Hér var einfaldlega brugðist málefnalega við skrifum hans og öllum (þ.m.t. BRS) stóð til boða að gera athugasemdir við þær greinar.


danskurinn - 22/02/11 08:33 #

Matti: "Ég tel ekki að Vantrú hafi sótt af kappi í þessu tiltekna máli."

Það tel ég ekki heldur. En vörnin er í molum vegna skorts á sjálfsvirðingu.


Kristján (meðlimur vantrú) - 04/03/11 02:36 #

Ég verð að segja að ég held að danskurinn hafi rétt fyrir sér í þessu máli. Ef við ætlum að tækla þetta mál almennilega þarf réttur okkar að vera skýr í þessu máli (sem hefur verið kannaður er það ekki?). Það má auðvitað búast við sterkum árásum frá ýmsum áttum þar sem við erum jaðarhópur, hvort sem okkur líkar það eða ekki. Það þýðir ekki að það sé ekki meirihluti á okkar máli, það þýðir einfaldlega að meirihluti fólks er ekki tilbúið að ganga út frá norminu. Maðurinn er yfir höfuð mjög sterklega hlynntur því að viðhalda viðgangandi ástandi, hvað sem það kann að vera. Þannig að ég segi, höldum kúlinu og förum flott að þessu, netleiðindi hefur meira í för með sér en maður grunar.


Kristján (meðlimur vantrú) - 04/03/11 02:39 #

Já sorry, gleymdi að bæta við.

Valtýr var með flotta athugsemd þarna líka ásamt dansknum. Og ég ætla að leyfa mér að draga ekki of miklar ályktanir af mögulegum hagsmunum eða tengslanetum í kringum aðrar stofnanir. Jú auðvitað eru hagsmunir og möguleg fjármálatengsl þarna á milli, en við skulum ekki vanmeta hvað fólk er tilbúið að mæta hópi líkt og okkar án beinna hlunninda (líkt og ég nefndi áður).

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?