Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er jörðin stóll?

Ég fór á fyrirlestur hjá Bjarna Randver Sigurvinssyni þann 18. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift fyrirlestursins var Trú - vantrú. Félagsfræðilegar skilgreiningar. Því miður hafði ég ekki tíma til að taka þátt í umræðum eftir tölu Bjarna enda fór hann töluvert framyfir áætlaðan tíma. Hér eru nokkrar athugasemdir sem ég myndi vilja gera við efni fyrirlestursins.

Bjarni lagði áherslu á að fræðimenn þyrftu að hafa frelsi til þess að skilgreina hluti þó almenningur sé ósáttur. Það réttlætir hins vegar ekki slæmar skilgreiningar. Stærsti gallinn á fyrirlestri Bjarna er að hann notaði íslenska orðið trú sem þýðing á enska orðinu religion án nokkurra skýringa eða fyrirvara. Þessi orð eru í raun svo ólík að það er ekki með góðu móti hægt að setja samasemmerki á milli þeirra.

Þegar hann var spurður hvaða skilgreiningu á trú hann væri hrifnastur af sagðist Bjarni vera hrifnastur af því að skilgreina trú sem það sem felur í sér afstöðu til tilvistar guðs. Þannig getur hann sagt að það að trúa ekki á guð sé trú. Fyrir mér þá er þetta eins og að segja að það sé spil að spila ekki Matador. Þetta er einfaldlega órökrétt.

Aðaláhersla Bjarna var á að tvær tegundir væru til af skilgreiningum á trú. Önnur tegundin er innihaldsskilgreining og hinn hlutverkaskilgreining. Sú fyrri leggur áherslu á að lýsa fyrirbærinu en hin síðarnefnda fjallar um það hvaða hlutverki fyrirbærið gegnir. Bjarni tók dæmi af stól. Hann byrjaði að koma með innihaldsskilgreiningu þar sem hann lýsti stólnum sjálfum en kom síðan með hlutverkaskilgreiningu þar sem hann benti á hið augljósa að stóll er notaður sem sæti. Hann benti síðan á að borð væri líka hægt að nota sem stól.

Þetta var ágæt líking hjá honum því þarna er einmitt höfuðgalli hlutverkaskilgreiningarinnar á trú. Samkvæmt þeim rökum hefði Bjarni átt að segja að borðið væri stóll. Það myndi líka þýða að allt sem þú getur setið á sé í raun stóll. Ef þú sest á jörðina þá er hún orðin stóll. Um leið og allt sem hægt er að sitja á er orðið á stól hljótum við að átta okkur á því að skilgreiningin hjálpar okkur mjög lítið að skilja hvað stóll er í raun.

Það sama gildir um trú. Ef trú er skilgreind á þann hátt að guðleysi og stjórnmál passa þar undir þá er niðurstaðan ekki sú að þessi fyrirbæri séu trú heldur að skilgreiningin sé gölluð. Það vantar eitthvað inn í hana sem hjálpar okkur að skilja hvað er það sem gerir trú að sérstöku fyrirbæri.

Jörðin er ekki stóll og guðleysi er ekki trú.

Óli Gneisti Sóleyjarson 07.03.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Snæbjörn - 07/03/08 17:40 #

Þetta er mjög kjánaleg skilgreining hjá honum.

Sér í lagi þar sem religion er yfirleitt þýtt sem trúarbrögð en belief er til dæmis trú.

Ég get til dæmis trúað einhverju sem þú segir mér en verið án trúarbragða.

I could believe something you tell me but without religion.

Þetta er eiginlega svo einfalt að þetta er augljóslega útúrsnúningur


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/03/08 21:08 #

Ég er ekki fullkomlega sammála. Stundum er rétt að þýða religion sem trúarbrögð en stundum sem trú. Þetta orð hefur bara enga almennilega samsvörun á íslensku.


stebbz - 09/04/08 06:22 #

Ég veit ekki hvernig trú er skilgreind í orðabók, en mér kemur í hug að orðið trú sé til að lýsa ríkjandi hugmynd um hvað manni finnst réttast.

En allavega þá fynnst mér ef maður trúir ekki á guð og trúir bara á "the big bang" þá sértu ekki trúlaus heldur er þín hugmynd sem þú treistir á og fynnst réttast að heimurinn varð til fyrir tilviljun.

Hinsvegar ef þú tekur upp orð sókratesar "eina sem ég veit er að ég veit ekki neitt" geturu kallað þig trúlausan þar sem þú tekur ekki neina afstöðu.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/04/08 10:34 #

Ólíkt þér þá geri ég ekki ráð fyrir að trú sé skilgreind á ákveðinn hátt í orðabókum heldur fletti því upp. Hvorug orðabókin sem ég er með við höndina kemur með skilgreiningu sem er nálægt þinni.

Orðið trú þýðir margt og mikið en það kemur málinu bara ekkert við. Þegar við skilgreinum okkur sem trúleysingja þá gerum við það út frá ákveðinni skilgreiningu. Þetta er sama skilgreining og almennt byggt er á þegar talað er um trúfélög, trúarbrögð, hjátrú, þjóðtrú og þess háttar. Semsagt trú á yfirnáttúruleg fyrirbrigði. Við trúum ekki á yfirnáttúru og erum þar af leiðandi trúlaus.


stebbz - 12/04/08 03:59 #

Ok... flott mál!!, því miður hafði ég þá enga orðabók við hönd, ég skal viðurkenna það að trú er frekar líkt orðinu að treista og fannst mér það bara passa nokkuð vel.

En auðvitað verður maður að hafa réttar staðreindir við hendi og rétt skal vera rétt.

Ég fletti orðinu upp í ganni í alfræðiorðabók frá 1992 og þar stendur skírt að trúarbrögð séu trú mannsins á æðri máttarvöld.

Svo trúleysi: "sú afstaða að enginn guð sé til. gengur þannig lengra en óvissa og efahyggja í trúarefnm."

Ef þið eigið að kallast eitthvað þá er það einmitt jú trúleysingjar, ég myndi flokkast meira til efahyggju.

Hinsvegar finnst mér samt að skilgreining mín sé betri en í orðabókinni! Það að trúa, ætti ekki bara að vera tengt yfirnáttúrulegu, heldur skoðun þinni á þessum heimi.

Þið hafið tekið ykkur afstöðu í þessum heimi og lýsið yfir að heimurinn var til fyrir tilviljun og það er enginn guð né ekkert yfirnáttúrulegt!

Fyrir mér er það trú á tilviljun! Því miður er það vitlaust af mér að seigja það, og pirrar það mig.

Fyrir mér er orðið trúleysingi ekki eitthvað sem maður á að geta lýst yfir auðveldlega. Maður á að hafa pælt yfir hlutunum bak og fyrir þangað til að maður hreinlega gefst upp og viðurkennir fyrir sjálfan sig að maður veit ekkert! Eins og Sókrates.... og ég.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 12/04/08 12:21 #

Til þess að ræða um hluti þá þarf fyrst að hafa á hreinu um hvað verið er að tala. Þegar við tölum um okkur sem trúleysingja þá erum við að ganga út frá ákveðinni skilgreiningu. Þessi skilgreining er sem fyrr segir tengd ákveðinni notkun á orðinu trú. Orðið trú hefur margar skilgreiningar, það að þú viljir bæta einni enn við breytir engu um orðnotkun okkar.

En að sjálfssögðu ert þú eins og einn mesti hugsuður mannkynssögunnar þannig að ég veit ekkert í samburði við þig.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.